Þriðjudagur 08.04.2014 - 01:39 - 3 ummæli

Kvosin – staðarandi -Austurhöfn

Aðalstræti -1021

Fyrir tæpum 99 árum brann mikill hluti Kvosarinnar í Reykjavík. Þetta var 25. apríl 1915.  Síðan þá hefur verið nánast stöðug umræða um framtíð svæðisins og margvísleg sjónarmið verið uppi á borðum.

Mér fannst og finnst enn að menn hafi ekki gert betri greiningu á staðaranda Kvosarinnar í skipulagsvinnu en í deiliskipulagstillögu Dagnýjar Helgadóttur og Guðna Pálssonar arkitekta árið 1986. Það var fyrir 28 árum. Mér virtist vera viss sátt um greininguna og deiliskipulagið á þeim tíma  enda var það samþykkt og hefur að mestu staðið af sér ólgur tíðarandans allar götur síðan.

Einhvern vegin fannst mér að þessa greiningu arkitektanna mætti nota á hafnarsvæðunum, einkum við Austurhöfn.

Mikilvægur þáttur í samráðsferli borgaranna og borgarskipulagsins þegar skipulagsmál eru annarsvegar er kynning skipulagsáætlana þar sem borgurum gefst tækifæri, með formlegum hætti, að gera athugasemdir við auglýst skipulag. Með kynningarferlinu gefst borgurunum kostur á að hafa áhrif. Þeir fá tækifæri til þess að leggja eitthvað til málanna og leggja skipulagsyfirvöldum lið við vinnuna.

Hinn þekkti danski arkitekt og skipulagsmaður Jan Gehl, telur að samráðsferli þar sem stjónvöld og borgararnir tala saman sé mikilvægasta aðferðin til þess að vekja áhuga borgaranna á arkitektúr og skipulagi og bæta þar með niðurstöðuna. Hann segir að þetta samráð og athugasemdir borgaranna sé aldrei ofmetiðá ferlinum að góðri niðurstöðu.

Því betur sjá augu en auga.

Fyrir rúmum mánuði rann út athugasemdafrestur vegna deiliskipulags við Austurhöfn í Reykjavík. Eftir að hafa kynnt mér deiliskipulagið nokkuð vel ákvað ég að gera tvær hófsamar athugasemdir við skipulagið. Athugasemdirnar voru vel meintar og skipulaginu til bóta að ég taldi.

Önnur athugasemdin varðaði aðalskipulagið AR-2010-2030 og fyrirhugaðan samgönguás. Hin varðaði ásýnd og ríkjandi staðaranda í miðborginni.

Ég ætla ekki að fjalla að þessu sinni um athugasemd mína um samgönguásinn í tengslum við deiliskipulag Austurhafnar, heldur um staðaranda í miðborgarinnar.

Í AR 2010-3030 er lögð nokkur áhersla á að vernda sérkenni eldri byggðar og aðlaga nýja að hinu gamla.  Undanfarin 35 ár hefur verið mikil umræða um stöðu mála í miðborginni. Menn hafa leitað sérkenna hennar í 99 ár og fundið ef marka má deiliskipulag Dagnýjar og Guðna.

Í afar vönduðum undirbúningi að samkeppni um svæðið umhverfis Ingólfstorg, fyrir 2-3 árum, var unnið af alúð að markvissum markmiðum og af mikilli samviskusemi þar sem staðarandi og sérkenni miðborgarinnar voru meginatriði.

Dómnefndarstörf voru í samræmi við þessi markmið og keppendur sýndu þeim mikinn skilning. Þar var áherslan í samræmi við skipulag Kvosarinnar frá 1986 eftir Dagnýju Helgadóttir og Guðna Pálsson.

Þau gerðu á sínum tíma fallegar skýringamyndir (sem sjá má hér í færslunni) og líkan af öllu svæðinu í mælikvarðanum 1:200. Þar var staðfest sú stefna að hús skyldu reituð niður þannig að sama áferð og útlit yrðu hvergi lengri en 10-15 metrar i götumyndinni. Hæðir yrðu stallaðar frá 2-3 hæðum upp í 6-7 hæðir og hallandi þök.

Þetta var talið eftirsóknarvert umhverfi sem fólk hefur sameinast um að standa vörð um og styrkja.

Í fyrirliggjandi deiliskipulagi vegna Austurhafnar er ekki að sjá að öll sú vinna og öll sú umræða varðandi Kvosina hafi skilað sér í skipulagsgerðinni. Hlutföll eru öll á skjön við þau markmið sem menn hafa sæst á í Kvosinni. Sennilega er það vegna þess að höfundarnir hafa ekki álitið það skynsamlegt að færa staðaranda Kvosarskipulagsins út á hafnarbakkann. Þeir hafa ekki séð þau tækifæri felsat í staðaranda  Kvosarinnar þar sem hlutföll eru samræmd og tekið er tillit til hinnar sögulegu víddar Kvosarinnar. Þeir hafa valið aðra nálgun. Nálgun sem gæti verið hvar sem er og kallast ekki á við þann miðbæ Reykjavíkur sem okkur líkar og þykir vænt um.

Maður bar auðvitað þá von í brjósti að þegar metnaðarfullir arkitektar tækju sig til við að draga upp deiliskipulag þarna og hanna húsin inn í þetta skipulag að þeir tækju mið af þeirri umræðu og samþykktum sem átt hafa sér stað í næsta nágrenni undanfarna áratugi og reyndu að mæta þeim.

Í athugasemd minni við deiliskipulagið taldi ég að nauðsynlegt væri að vinna skipulagið áfram og gera strangari kröfur um aðlögun að því sem fyrir er og sérkennum miðborgarinnar og eldri byggð í Kvosinni. Vakin er athygli á að Harpan er sértök og á ekki að vera viðmiðið í tillögugerðinni. Auk þessa þarf líka að gera kröfur í deiliskipulaginu um  starfssemi og almenningsrými á jarðhæðum húsanna samanber umræðu í tengslum við Ingólfstorgssamkeppnina.

Kannski er þetta tóm vitleysa en allavega er fullkomlega eðlilegt að taka upp gamlar deiliskipulagstillögur og kynna þær og ræða í tenglum við deiliskipulag Austurhafnar. Nú er rétti tíminn til þess að ræða hugmyndirnar. Það er of seint eftir 10 ár eða svo eins og dæmið um sjónlínur niður Frakkastíg sanna.

Efst er og strax hér að neðan eru skýringarmyndir úr deiliskipulagi Kvosarinnar frá 1986 og þar fyrir neðan mynd af deiliskipulagi við Ingólfstorg.

Þá kemur deiliskipulagsuppdráttur frá því fyrir Hrun sem lýsir að mínu mati einhverri veruleikafyrringu áranna fyrir hrun sem skipulagið frá í vor er enn að burðast með. Vissulega er það þungur kross að bera skipulagsskuldbindingar góðærisins. En maður veltir fyrir sér hvort ekki hafi verið leið að afskrifa þær á einhvern svipaðan hátt og ýmsar aðrar fjármálaskuldbindingar eftir Hrun!

Neðst eru svo fyrirliggjandi frumdrög að hótelbyggingu og íbúðahúsum við Austurhöfn.

Hér er tengill að pistli um Jan Gehl:

Nýtt hverfaskipulag í Reykjavík

Og hér er slóð að umfjöllun um hótelbyggingu við Austurhöfn:

Hótel við Hörpu

Og að lokum slóð að færslu um skipulagsáætlanir í aðrdraganda hrunsins:

Skipulagsáætlanir frá fyrir 2007

 

 

 

Aðalstræti 020

 

 

673038crop

Flokkar: Óflokkað

«
»

Ummæli (3)

  • Það er eins hugmyndaleg stærðartengls við Kvosina rofni við Tryggvagötu. Í raun af mjög svo skiljanlegum ástæðim.
    Norðan Tryggvagötu eru þrjú mjög stór hús, Tollhúsið, Hafnarhúsið og Hafnarhvoll.
    Þessi hús loka alfarið fyrir sjónræn tengsl milli Kvosarinnar og Hafnarinnar.
    Þetta kemur svo augljóslega fram í því að í nær öllum tillögum sem unnar hafa veri að byggð norðan Tryggvagötu. virðist vera tekið mið af þessum þremur húsm frekar en þeirri byggð sem er sunnann Tryggvagötu.
    Þegar við Dagný unnum deiliskipulag Kvosarinnar þá var það meðal annars það sem vakti fyrir okkur að Kvosin er lítil og götur stuttar.
    Þess vegna við lögðum til að húsform yrðu frekar stutt/mjó, fjölbreytt bæði hvað varðar lit form og efni. Þannig yrði það fjölbreytileg sjónræn upplifun að ganga stutta götu.
    Víti til varnaðar var nýjasta viðbygging Landsímahússins við Kirkjustræti.
    Þessar teikningar sem Hilmar birtir í grein sinni eru barn síns tíma, enda hugsaðar sen skýringarteikningar en ekki bindandi.
    Þo var lögð áhersla kvisti og margbrotið þak- og húsform.
    Það sem kanski fáir vita er að þegar við byrjuðum þessa vinnu voru allar götur Kvosarinnar akstursgötur nema stuttur hluti Austurstrætis milli Lækjagötu og Pósthússtrætis sem var göngugata.
    Ingólfstorg var bílastðistorg „Hallæarisplanið“. Eini staðurinn þar sem hægt var að sitja úti að sumarlagi var Hressógarðurin.
    Í kvosarskipulaginu eru nær allar götur gongugötur.
    Þetta er svona til upplýsinga og fyrir sjálfan mig til að reyna að skilja hversvegna byggð norðan Tryggvagötu er svo óskiljanleg. Enda aldrei sýnd á módelmyndu nema til norðurs.í átt að Hörpu.
    Það virðist vera einhver hugmyndaleg lokun fyrir því sem er sunnan við Tryggvagötu.

  • „Líkan af allri Kvosinni í mkv. 1:200“ .þetta hafa aldeilis verið vönduð vinnubrögð í den!

  • Þórður J.

    Það er lífseigt, stórkallalegt 2007 skipulagið!

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af átta og fimm? Svar:

Höfundur

Hilmar Þór Björnsson arkitekt
Tilgangur síðunnar er að kynna arkitektúr, skipulag og staðarprýði ásamt því að stuðla að umræðu um efnið. Það sem fram kemur ber ekki að skilja sem skoðun höfundar heldur hugleiðingu sem sett er fram í þeim tilgangi að vekja lesendur til umhugsunar og skoðanaskipta. Tekið er á móti aðsendum greinum þegar það á við, sem þá eru á ábyrgð höfundar aðsends efnis.
Athugasemdir við færslur eru velkomnar. Þeir sem vilja koma skilaboðum til ábyrgðarmanns beint er bent á netfangið hilmarstofunni@gmail.com
RSS straumur: RSS straumur

Færslusafn