Föstudagur 11.12.2009 - 10:36 - 14 ummæli

Landspítalinn-Arkitektar-Verktakar

Nú stendur fyrir dyrum að auglýsa arkitektasamkeppni um nýtt háskólasjúkrahús við Hringbraut. Arkitektafélag Íslands hefur skoðanir á framkvæmdinni og hefur lagt þær fyrir verkefnisstjórn um nýjan Landspítala og eru þær til skoðunar þar.

 

Arkitektafélagið telur að bjóða eigi sjúkrahúsið út í nokkrum áföngum, bæði hönnun og framkvæmd.

 

Hver hluti yrði milli 5.000 og 15.000 fermetrar að stærð. Þátttakendur munu svo hanna einn eða tvo hluta eða jafnvel allt sjúkrahúsið allt eftir því hvað þeir telja sig ráða við.  Samkeppnirnar yrðu  5-8 og færu allar fram á sama tíma.

 

Með því að setja fram þessa hugmynd telur Arkitektafélagið að hagsmunum þeirra sem að málinu koma sé best borgið, þ.e.a.s. Landspítalans, skipulagsins, grenndarsamfélagsins, framkvæmdaraðila, ráðgjafa og flestra annarra.

 

Skoðum þetta aðeins nánar. Hugmyndin gefur öflugum arkitektastofum tækifæri til þess að taka þátt í öllum hlutum spítalans en öðrum og minni stofum í einum eða fleirum eftir áhuga og getu. Niðurstaðan gæti orðið sú að einhver stofan bæri sigur úr býtum í þremur hlutum, aðrar í einum hluta o.s.frv.

 

Landspítalinn hámarkar með þessu starfræn gæði einstakra hluta spítalans. Hann fær hagstæðust boð í framkvæmd hvers hluta, aðkoma aðal- og undirverktaka verður breiðari, heilbrigt samkeppnisumhverfi myndast hjá birgjum o.fl.

 

Þegar tillögurnar koma til dóms verður sú besta af hverjum hluta valin til útfærslu. Ef öll framkvæmdin er boðin út í heild verður jafnbesta tillagan að líkindum fyrir valinu og lélegir hlutar fljóta með.

 

Dómarar yrðu þeir sömu í öllum samkeppnunum að undanskildum einum sérfræðingi í hverjum hluta sem mundi gæta hagsmuna sérfræðinnar og starfrænna sjónarmiða í viðkomandi hluta.

 

Allir hlutarnir yrðu að hönnun lokinni boðnir út til verktaka.  Útboðin yrðu 5-8 eins og í arkitektasamkeppninni.  Niðurstaðan gæti orðið með svipuðum hætti og hjá arkitektunum. Einhver aðalverktaki, með sínum birgjum og undirverktökum, nær hagstæðasta tilboði í  einn hluta og aðrir í tvo eða fleiri.

 

Þessi uppstokkun gefur auk þess aukið svigrúm og sveigjanleika í öllum þáttum verksins hvort sem litið er til reksturs, rekstrarforms, stækkunarmöguleika eða annars.

 

Til þess að þessi leið sé fær er mikilvægt að gert verði deiliskipulag sem er í samræmi við hugmyndina og byggðarmynstrið.  Til þess að friður náist um málið þarf að vinna deiliskipulagið á forsendum umhverfisins og byggðarmynstursins með hagsmuni sjúkrahússins í huga. Við deiliskipulagsvinnuna kemur í ljós hvort lóðin getur borið þá starfsemi sem spítalinn óskar. Geri hún það ekki þarf að taka á því með einhverjum farsælum hætti.

 

Verði farin sú leið farin sem verkefnisstjórnin stefnir að er hætta á að færri aðal- og undirverktakar komist að, færri ráðgjafafyrirtæki og að arkitektúrinn verði stórkallalegri og leiðinlegri.

 

Mikil vinna hefur nú þegar verið lögð í undirbúning sjúkrahússins og yfirgripsmikillar þekkingar á málefnum sjúkrahússins og staðháttum við Hringbraut hefur verið aflað. Allt þetta nýtist að fullu og auðveldar alla þá vinnu sem fyrir liggur vegna þessara hugmynda.

 

 

Rétt er að minna á, að á morgun, laugardaginn 12 desember, verður haldið málþing um spítalann í fyrirlestrasal Íslenskrar erfðagreiningar. Málþingið hefst kl 10.00.

Flokkar: Óflokkað

«
»

Ummæli (14)

 • Hilmar Þór

  Tfrdes nm

 • Ég er tæknimaður hjá litlu verktakafyritæki. Við höfum yfir að ráða þekkingu og tækjum sem er fullkomlega nægjanleg til þess að ráða við 10-15 þúsund fermetra byggingu svo sómi væri að.

  Hinsvegar mundum við ekki ráða við 70 þúsund fermetra byggingu án gagngerrar endurskipulagningar.

  Þess vegna lýsi ég yfir ánægju með hugmyndir Arkitektafélagsins og vil bæta því við að ég tel að ef verkefnastjórnin býður allt verkið út í einu lagi þá ber að túlka það sem tæknilega viðskiftahindrun gegn smærri verktökum og í þágu stóru verktakanna.

  Þessi hugmynd arkitektafélagsins ættu allir aðilar byggingaiðnaðarins að sameinast um og gera að ófrávíkjanlegri kröfu.

  Hugmyndin hefur nánast ekkert annað en kosti til að bera. Að vísu er þarna örlítið meira flækjustig í stjórnun en alls ekki af óþekktri stærðargráðu.

  Ég bíð spenntur eftir viðbrögðum verkefnastjórnar LSH sem hlýtur að taka hugmyndinni fagnandi.

 • Timarítið Arkitektur N nr 05/2007 fjallar um St. Olavs Hospital. – Til í Bókasafn Norrænahússins

 • Þessi hugmynd hefur verið útfærð í Þrándheimi, sem er borg sambærileg Reykjavík hvað varðar íbúafjölda og hnattstöðu.

  Samkvæmt statistisk sentralbyrå eru tölurnar svona: Trondheim – Innbyggere 1.1.2009: 168 257
  Sør-Trøndelag 286 860

  „St Olavs Hospital skal utvikles til å bli et pasientfokusert prosessanlegg for helsetjenester, som tilpasses en velfungerende sykehusplan og formgis med en struktur og en design som underbygger disse kvalitetene. Sykehuset består av totalt av 10 hus (sentre) hvorav 2 er eksisterende. Byggefase 1 utgjør 4 sentre som alle er ferdigstilt og tatt i bruk i løpet av våren 2006. Dette prosjektarket tar for seg byggefase 2 som består av de resterende sentrene.
  Den bærende byformingsidé består i at sykehuset skaper en ny urban byplansituasjon på Øya. Det store bygningsprogrammet er delt opp i mindre enheter omkring sentral plass i en åpen kvartalsstruktur. Den sentrale del av tomteområdet bebygges i fase 1 og 2, og senere ekspansjon foregår i ytterområdene.
  Det nye sykehuset organiseres som en egen bydel med kvartaler og gater som integreres i Trondheims eksisterende bystruktur. Kvartalsstrukturen gjenspeiler til en viss grad organisasjonsmodellen med sine kliniske og tverrgående sentra. Dette er organisert slik at ett organisatorisk senter kan vokse over i nabokvartalet der dette er hensiktsmessig. Oppdelingen i kvartaler gjenspeiler dermed til en viss grad organisasjonsmodellen, men låser den ikke. Denne utbyggingsstrategien muliggjør en etappevis utbygging som medfører minimum belastninger for pasienter og ansatte i utbyggingsperioden.
  Kvartalsstrukturen muliggjør på samme måte senere ombygging og utvidelse av et kvartal uten å forstyrre drift i tilstøtende kvartaler. St. Olav Hospital skal fremstå som et helhetlig anlegg med en urban karakter, og med volumer og utforming som respekterer omgivelsene.“
  Meira hér:
  http://www.arkitektur.no/?nid=98966

 • Kári Harðarson

  Geimskip, skemmtileg samlíking.

  Hugmyndin að baki nýbyggingu Háskólans í Reykjavík er ítölsk miðaldaborg með torgi í miðjunni. Ég er samt ekki viss hvort mér dettur í hug miðaldaborg eða geimskip þegar ég sé húsið.

  Einsleitnin er kannski óumflýjanleg þegar einn aðili hannar allt.

 • Þetta er mun betri hugmynd en sú sem er á borðinu núna. En ég hef hins vegar enga trú á að þetta sé rétta stasetningin.

 • Björn H. Jóhannesson

  Haldin var opin samkeppni um Barnaspítala Hringsins við Hringbraut fyrir ekki svo ýkja löngu og með aðkomu Arkitektafélags Íslands. Þátttaka arkitekta var mikil og 1. verðlaunatillaga arkitektanna Sigríðar Magnúsdóttur og Hans Olavs Andersens mjög vel heppnuð. Einnig hvað varðar kostnað að því best er vitað. Þarna er enn eitt dæmið um að ekki er fylgni í verðlaunasæti eftir stærð stofa eða að arkitektar þurfi að hafa gert samsvarandi
  mannvirki áður til að ná árangri.
  Fyrirkomulag opinnar samkeppni eins og reifað er í inngangsbloggi um nýjan Landspítala er snjöll og illmögulegt annað að sjá en að sé sú besta fyrir land og lýð og ekki veitir af.

 • Jóhannes Bjarnason

  Verði þessi hugmynd að veruleika – eru ekki einungis meiri líkur á því að spítalinn sjálfur yrði áhugaverðari og vistlegri – hann gæti einnig fallið betur inn í borgarmyndina – ekki nokkur þörf á einu risavöxnu brotlentu geimskipi, ef svo má segja á þessum stað – gæti orðið útkoman ef byggingin verður of einsleit. Má ekki setja niður einhverjar viðmiðunarreglur um efnisval til dæmis, t.a. tryggja að útkoman verði ekki of glundroðakennd? Verði af byggingu spítala á þessum stað – þá er þetta góð leið.

 • Er þetta ekki gert til þess að komast hjá því að fara að lögum og bjóða verkið út á evrópska efnahagssvæðinu?
  Ég held það væri gaman að ganga á milli gömlu spítalabygginganna ef þeim væri breytt í íbúabyggð. Það geta verið verslanir og veitingastaðir á neðstu hæð bygginga í svona þéttri byggð.
  Það vantar íbúa í miðbæinn ekki risavinnustað sem þúsundir keyra til og frá daglega, Þingholtin þola ekki meiri umferð.

 • stefán benediktsson

  Ég held ég geti sagt að hugmyndir AÍ fari vel við þær hugmyndir um framtíð þessa verks sem fram komu í síðustu umræðu um verkið á fundi skipulagsráðs. Þar eru menn sammála um að mælikvarði umhverfisins ráði við mat á lausninni.

 • Frábær hugmnd. Eina sem þyrfti að passa vel úppá að ekki yrði úr þessu einhver hrærigrautur gerólíkra bygginga. En ólikar að vissu leiti mættu þær vera.

  Maður neitar því ekki að þetta hljómar vel og maður getur vel ýmindað sér að þetta yrði allt miklu mannúðlegra, huggulegra og meira spennandi ef þetta yrði nú gert með þessum hætti.

  Gæti verið virkilega gaman að ganga þarna um og skoða misjafna lausnir svo lengi sem einhver heildarmynd fengi að njóta sín. Eins myndi þetta falla mun betur að þingholtunum.

 • Mér líst afar vel á þessa hugmynd og á Arkitektafélag Íslands hrós skilið fyrir að ýta henni úr vör. Ég er sannfærður um að þetta sé sú leið sem sé vænlegust til árangurs fyrir alla hagsmunaðila ekki síst borgarbúa sem geta átt von á því að eignast gott borgarumhverfi með bættum lífsgæðum, ef vel tekst til.

 • Þetta er skynsamleg afstaða hjá arkitektum. Íslenskt samfélag er of lítið til þess að bjóða út í einum áfanga byggingu uppá tæp 70 þúsund fermetra. Það samsvarar að t.d. danir mundu bjóða út hús uppá 1.2 milljón fermetra (m.v. höfðatöluna frægu) og fela það einu arkitektafyritæki og einum verktaka.
  2007 er liðið og við eigum að sníða okkur stakk eftir vexti og búta þetta niður öllum til hagsbóta.

  Ástandið er líka þannig hér á landi í byggingariðnaðinum að það er óábyrgt að setja þetta stóra verkefni á fáar hendur.

  Þarna tala arkitektar skynsamlega fyrir hönd byggingariðnaðarins í landinu.

 • Til hvers er verið að halda samkeppni?
  Hefur einhver tillaga sem unnið hefur hönnunarsamkeppni á vegum ríkisins verið byggð?

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af einum og tveimur? Svar:

Höfundur

Hilmar Þór Björnsson arkitekt
Tilgangur síðunnar er að kynna arkitektúr, skipulag og staðarprýði ásamt því að stuðla að umræðu um efnið. Það sem fram kemur ber ekki að skilja sem skoðun höfundar heldur hugleiðingu sem sett er fram í þeim tilgangi að vekja lesendur til umhugsunar og skoðanaskipta. Tekið er á móti aðsendum greinum þegar það á við, sem þá eru á ábyrgð höfundar aðsends efnis.
Athugasemdir við færslur eru velkomnar. Þeir sem vilja koma skilaboðum til ábyrgðarmanns beint er bent á netfangið hilmarstofunni@gmail.com
RSS straumur: RSS straumur

Færslusafn