Laugardagur 03.09.2011 - 00:10 - 18 ummæli

Landspítalinn – umferðamál


Fyrir hálfu öðru ári fóru fram  nokkrar umræður um staðsetningu Landspítala Háskólasjúkrahúss við Hringbraut.

Þáttakendur veltu mikið fyrir sér áhrifum bygginganna á umferðarmál í borginni og sérstaklega í grennd við spítalann.

Hópur málsmetandi manna hafði áhyggjur af þessu og taldi að gatnakerfið þyldi ekki  það álag sem nýbyggingarnar kölluðu á.

Forsvarsmenn uppbyggingar Landsspítalans töldu mér og fleirum trú um að þessar áhyggjur væru ástæðulausar og studdu þeir álit sitt  með nokkrum rökum.

Andstæðingar staðsetningarinnar bentu  á að 70% atvinnutækifæra borgarinnar væru vestan Kringlumýrarbrautar og að stefna þyrfti að því að ná jafnvægi í þessum málum. Þeir töldu líka að flutningsgeta gatnakerfisins væri þegar nánast að fullu nýtt.

Þeir töldu að skynsamlegra væri að byggja sjúkrahúsið austar í borginni til þess að minnka þennan mun og draga úr bifreiðaumferð og nýta núverandi gatnakerfi betur. Fjölga ætti atvinnutækifærum í austur hluta borgarinnar.

Nefndir voru ýmsir staðir fyrir spítalann, svo sem við Borgarspítala og bent var á landssvæði í góðum tengslum við stofnbrautarkerfi höfuðborgarsvæðisins við Elliðaárósa og Vífilsstaði.

Umræðan hjaðnaði enda var ekki ástæða til þess að draga álit sérfræðinga spítalans í efa.  Spítalinn taldi ástæðulaust að hafa áhyggjur af þessu og honum var treyst.

Álit spítalans og þeirra sérfræðinga sem hann réði til verksins til vó þyngra en álit  áhugamannahópa og sérfræðinga þeirra sem voru að skoða þetta í frítíma sínum að eigin frumkvæði.

Nú um þessar mundir er verið að kynna drög að deiliskipulagi vegna framkvæmdarinnar.

Stax á fyrsta degi kynningarinnar komu fram atriði sem ég minnist ekki að hafa heyrt áður.

Í fyrsta lagi að ein af forsendum lausnar umferðamála sé sú að Reykvíkingar fari frekar gangandi, á hjóli eða í strætó til vinnu sinnar en áður.

Þarna er ekki um minna að ræða en menningarbyltingu í samgöngumálum borgarinnar og hún á að vera afstaðin eftir 6 ár.  Nær væri að halda að slík bylting tæki mannsaldur  að því tilskyldu að þjónusta almenningflutningakerfis væri með öðrum hætti en nú er.

Í öðru lagi kemur fram að nauðsynlegt sé að ráðast í umfangsmiklar samgöngubætur á Miklubraut frá Grensásvegi og koma götunni í “frítt flæði” alveg niður í miðbæ með mislægum gatnamótum.

Þarna hallar nokkuð á hlut þeirra sem eru í forsvari spítalabyggingarinnar. Auðvitað áttu þau á sínum tíma að vekja sérstaka athygli á þessum vangaveltum til þess að gera umræðuna sanngjarnari og dýpri eða kannski frekar breiðari.

Þegar umræðan fer svona fram er hún ekki sannfærandi.  Svona lagað vekur upp tortryggni og vantraust. Upplýsigar eins og þessar hljóta að hafa legið fyrir þegar endanleg ákvörðun um staðsetningu spítalans var tekin.

Það er grundvallaratriði í allri umræðu að engu, sem máli skiptir, sé haldið til hliðar eins og hér virðist hafa verið gert.

Þeir sem á valdinu halda, í okkar umboði, mega ekki forðast eða hafna efasemdarröddum heldur taka þeim fagnandi vegna þess að þannig gefst tækifæri til þess að rökstyðja niðurstöðuna faglega í málefnalegri umræðu og ná  sáttum. Hitt er ekki heillavænlegt og grefur gröf milli spítalans og fólksins.

Greinargerð með skipulaginu má finna á þessari skóð:

http://www.nyrlandspitali.is/nyrlandspitali/upload/files/drog_deiliskipulag_august2011/nlsh03_deiliskipulag.pdf

Sjá einnig:

http://www.ruv.is/frett/bjartsynn-a-betri-samgongur

http://www.ruv.is/frett/mislaeg-gatnamot-naudsynleg


Flokkar: Óflokkað

«
»

Ummæli (18)

  • Flugvöllurinn fer ekki neitt Gísli, annað eru draumórar og ekki í takt við skoðun meirihluta þjóðarinnar. (var sjálfur á því að hann ætti að fara á sínum tíma og kaus hann burt, en nú hef ég skipt um skoðun)
    Þétting byggðar leysir ekki endilega umferðarvandamálið, því að sá sem á heima í Árbæ er ekkert endilega að hlaupa til og kaupa sér fasteign við miðbæinn þar sem hann starfar ef byggðin verður þétt. Hann er samur við sig og keyrir til sinnar vinnu eins og áður. Sá sem kaupir íbúð í nýbyggingu í miðbænum í framtíðinni er svo heldur ekkert endilega að fara að vinna þar, það er allt til í þessu , fólk býr mjög random oft og vinnur random, húsnæðisstaðsetning er meira „static“ en vinna. Staðsetning vinnustaðar getur breyst hjá mörgu fólki, en húsnæði skiptir margt fólk ekkert svo oft um á lífsleiðinni (þ.e. ef það kaupir)
    p.s. Hvernig á annars Mýrargatan að bera alla þessa umferð ef íbúum verður fjölgað svo um munar í framtíðinni? Það er nógu mikil umferð þarna eins og er.

  • Bottom line sérfræðingum er ekki treystandi því þeir fá greitt fyrir að koma með álit sem styður óskur þess sem greiðir. Þetta er sorglegt en svona er þetta og því miður er þetta frekar regla en undantekning á Íslandi (og mörgum öðrum löndum).

    Ástæður er margar en ein er sú að ef ekki er gert rétt nú eru ekki fleiri verkefni í boði. Þetta gerir álit sérfræðinga í flestum tilfellum marklaus.

    Hér þíðir lítið að tala um starfsheiður og siðfræði eða annað í þeim dúr – þetta er bara raunveruleikin og allir sem vinna sem sérfræðingar þekkja þetta á eigin skynni og annara.

    Ég hef margoft bent á þetta í mínu starfi (sem er að vera sérfræðingur og stjórnadi) og alltaf er það sama orðræðan að svona gera menn ekki og allt sem sérfræðingar gera og sega er satt og rétt en svo dúkkar svona mál upp sem styður hið gagnstæða og þá er traustið farið.

  • Tek svo bara heilshugar undir þessi orð þín Gísli, í aths. 11:

    „Þessi tillaga að deiliskipulagi er ekki góð að mínu mati.“

  • Steinarr Kr.

    Er að strætó gangi Gömlu-Hringbraut góðar almenningssamgöngur við LSH?

  • Gísli, við deilum alls ekki um góðar áætlanir um þéttingu byggðar og „að stoppa í götin“.

    En ég er sannfærður um að uppbygging Landspítala á þessum stað er kol-röng og beinlínis ávísun á skipulagsslys. Nú gildir að flýta sér hægt … og opna á umræðuna svo við lendum ekki enn eina ferðina út í mýri … og þá ekki með einn, heldur með aragrúa af hálf-köruðum tanngörðum.

  • Pétur: Samkvæmt gildandi deiliskipulagi Reykjavíkur frá 2002 er gert ráð fyrir því að fluvöllurinn fari í áföngum. Önnur flugbrautin fer 2016 og hin 2024. Þar munu þúsundir Reykvíkinga búa og starfa, enda þrír af stærstu vinnustöðum landsins í kringum svæðið: Spítalinn, Háskólinn í Reykjavík og Háskóli Íslands. Þar að auki eru jaðarsvæði flugvallarins sum hver komin í þróun, svo sem íbúablokkirnar á valssvæðinu og einnig er gert ráð fyrir talsverðri uppbyggingu meðfram Öskjuhlíðinni, milli Vals og HR.

    Þá er gert ráð fyrir umtalsverðri uppbyggingu á hafnarsvæðinu, meðfram Mýrargötunni og út í Örfirisey. Það er gríðarstórt svæði.

    Þá má nefna fjölda minni svæða svo sem gamla kassagerðarreitinn, gömlu strætólóðina, áframhaldandi uppbyggingu í túnunum: Borgartúni, Sigtúni, Höfðatorgi. Í Skeifunni getur mikill fjöldi fólks búið í hjarta borgarinnar þegar húsnæði þar gengur í endurnýjun lífdaga.

    Hér er ég bara að nefna það sem er vestast, en einnig má nefna mjög spennandi uppbyggingu við Elliðaárvoga. Fyrir utan auðvitað allt það sem þegar er í byggingu.

    Ég tek fram að þetta er ekki tæmandi upptalning og ekki heldur opinber gögn. Mig langaði bara að benda á að möguleikar til þéttingar eru fjölmargir, einsog Hilmar hefur raunar bent á hér á bloggi sínu. Víða eru ‘göt’ í borgarlandinu sem ætti að stoppa í til að gefa fleirum tækifæri til að búa nálægt helstu atvinnukjörnum okkar.

  • Hvar á þessi þétting byggðar, sem Gísli Marteinn minnist á, að verða? Ferlíkið tekur jú gríðarlegt pláss og flugvöllurinn virðist ekki á förum á næstunni né Askja og aðrar stofnanabyggingar háskólanna, né hús Íslenskrar erfðagreiningar. Hvar á þéttingin þá að verða og þó hún yrði þar einhver og jafnvel talsverð
    spyr ég álíka grænn og Gísli Marteinn, þó ekki sé ég með sama augnalit:

    Á þetta kannski að verða 170.000 fermetra hverfis-spítali?
    Úpps … hef ég kannski misskilið þetta allt saman ????????

    Nei, staðsetningin er kolröng fyrir monsterið. Úr skala og úr takti við fyrir-liggjandi umhverfi og þjóð. Ekki heil brú í þessu.
    Alveg sama hvaða helgimyndum er klastrað upp.

  • Góður pistill hjá þér eins og venjulega Hilmar. Þessi tillaga að deiliskipulagi er ekki góð að mínu mati og mér finnst skipulagsráð (þar sem ég sit) eiga langt í land með að gera frambærilegt deiliskipulag af svæðinu. En við höfum tímann fyrir okkur og vonandi koma fram góðar athugasemdir í þessu kynningarferli, sem skipulagsráð getur nýtt sér í áframhaldandi vinnu.

    Hinsvegar hef ég minni áhyggjur af samgöngumálunum þarna en þú, ef rétt verður staðið að málum.

    Eins og þú nefnir réttilega eru yfir 70% starfa í borginni í vesturhluta hennar. Þar búa hinsvegar um það bil 55% borgarbúa. Þú nefnir hvort ekki þurfi að „ná jafnvægi“ í þessu, sem er skynsamleg hugsun, en spurningin er hvort þetta jafnvægi náist ekki með áformum um þéttingu byggðar, fremur en með tilflutningi sjúkrahússins eða háskólanna. Reykvíkingum mun fjölga um ca 25 þúsund manns til ársins 2030 og ef byggðin verður þétt vesturfrá (eins og markmiðið er), verður bilið á milli fjölda íbúa og fjölda starfa orðið mjög lítið.

    Þá er ég alveg ósammála þér um að það væri menningarbylting ef fleiri starfsmenn spítalans færu öðruvísi en einn í bíl til vinnu sinnar. Ég get tekið dæmi af tveimur skólum í Reykjavík. Annar er nýbyggður og er með bílaplan sem ásamt Kínamúrnum sést frá tunglinu, en hinn (sem er framhaldsskóli) er ekki með nein bílastæði. Í öðrum skólanum er mikið talað um ‘bílastæðavanda’ og að það sé ‘erfitt að fá stæði’. Í hvorum skólanum skyldi það nú vera? Varð einhver menningarbylting í skólanum sem er ekki með nein bílastæði?

    Vitanlega þarf aðgengi fyrir sjúklinga, aðstandendur, bráðtilvik og allt slíkt að vera eins og best er á kosið við þetta nýja sjúkrahús. Góð skammtímastæði við aðalinnganga og slíkir hlutir þurfa að vera í lagi. En að öðru leyti gildir alveg sama um þessa byggingu og aðrar í borginni: Því fleiri ókeypis bílastæði – því fleiri sem koma einir á bíl – því meiri umferð við bygginguna. Alveg rétt sem Hákon nefnir hér að ofan, að gjaldskylda er lykilatriði. Enda af hverju skyldi þetta land í miðju borgarinnar vera til leigu ókeypis fyrir þá sem vilja láta bílinn sinn standa á því heilu dagana? Þá má nefna að almenningssamgöngur að Landspítalanum eru mjög góðar, enda var kerfið meira og minna sniðið að þörfum hans á sínum tíma.

    Svo má ég til með að ítreka það sem ég hef áður sagt hér á þínu frábæra bloggi: Þétt, blönduð byggð skapar ekki umferðavandamál, heldur leysir þau. Dreifð byggð skapar umferðarvandamál.

  • Vantar raunsæi í þetta. Margur Íslendingurinn (sennilega 80% ) sem býr 10km eða meira í fjarlægð frá spítalanum er ekki að fara oft á hjóli ca. á tímabilinu okt-apríl þegar allra veðra er von. Það er því mikil bjartsýni að halda að þetta eflist bara af sjálfu sér. Fólk er ekki alveg tilbúið til þess. Það á heldur ekki eftir að nenna að bíða eftir strætó eða koma sér í strætóskýli í alls kyns veðri, það kýs flest þægindin, hoppa upp í sinn bíl við sitt hús og leggja honum við sinn vinnustað. En ef einhverjir nennir og langar til að stunda hinar samgöngurnar þá er það fínt mál og það ætti endilega að niðurgreiða þennan fararmáta á einhvern hátt ef hægt er fyrir þá sem velja hann.

  • Guðrún Bryndís

    Í Fréttablaðinu í dag auglýsir LSH eftir sérfræðingi í samgöngumálum – sem er áhugavert.

    Ákvörðun um að byggja á ‘nýrri lóð’ LSH fyrir sunnan Gömlu Hringbrautina er 10 ára gömul og hefur ekki verið metin m.t.t. vegakerfisins – sem er áhugavert.

    Það er þekkt að byggja nýja spítala til að ná fram hagræði í rekstri. Hagræðið næst með því að fækka fermetrum (ekki með því að fjölga þeim) og að sameina starfsemi undir eitt þak (ekki mörg þök sem eru tengd með göngum og brúm).

    Oft eru spítalar staðsettir í ‘fyrrverandi’ jaðri byggðar – eins og Hringbrautarlóðin var 1930 þegar Landspítalanum var valinn staður. Þessi fyrrverandi jaðar byggðar er oftast nálægt gömlu miðbæjunum og vegatengingarnar eru hannaðar fyrir þann umferðarþunga sem var í gildi þegar hverfin nærri spítala voru byggð. Vandamálið er því leyst með því að þessi umferðarfreku mannvirki (spítalar) eru flutt þangað sem gatnakerfið þolir álagið og þá nær miðju þjónustusvæðisins (íbúa).

    Ég kom þessum sjónarmiðum mínum á framfæri í viðtali í Návígi. Hér er slóðin:

    http://www.facebook.com/l.php?u=http%3A%2F%2Fwww.youtube.com%2Fwatch%3Fv%3DZIOzlt_gcdg&h=2AQCWm205

  • Það sem Hákon Hrafn dregur fram úr skýrslunni eru atriði eða markmið sem ætti að koma frá Reykjavíkurborg sem hefur forræði fyrir skipulaginu en ekki frá opinberu hlutafélagi út í bæ einsog spítalinn er orðinn. Þetta eru óskir sem ekki er hægt að festa hönd á og ekki á valdi spítalans að ramkvæma.

    Þetta eru markmið sem hefðu þurft að koma í aðalskipulagi Reykjavíkur 1962.

    Og varðandi markmiðið að “Einkabílanotkun miðist fyrst og fremst við þarfir sjúklinga og viðskiptavina, aðgengi að bílastæðum verði takmarkað, t.d. með greiðslu raunkostnaður fyrir afnot af bílastæðum!”

    Þetta verður auðvitað leyst með kjarasamningum við lækna og starfsfólk sjúkrahússins þannig að við skattgreiðendur borgum brúsann. Læknarnir koma ekki til að borga dýr bílastæði af launum sínum. Það segir mér enginn að læknar á Íslandi fari að taka strætó í vinnuna á öllum tímum sólahringsins, jafnvel á nóttinni þegar strætó gengur ekki.

    Styð Oddnýarhugmynd um málefnalegan borgarafund.

  • Hákon Hrafn

    Fyrir þá sem ekki nenna að skoða skýrsluna þá eru hérna áhersluatriðin úr samgöngustefnunni (3.5.1 bls 20). Fyrir utan gjaldskylduna þá er þetta algjör wish-list, framkvæma fyrst og vona það besta. Hvað þyðir t.d. næst siðasti punkturinn ?

    • Dregið verði úr neikvæðum áhrifum samgangna á umhverfið.

    • Efldur verði sjálfbær samgöngumáti og almenningssamgöngur, sem stuðlar að vistvænna umhverfi með minni mengun og orkusóun.

    • Hvatt verði til hjólreiða og göngu og þannig stuðlað að bættri heilsu og vellíðan.

    • Góður aðbúnaður verði fyrir hjólreiðar.

    • Efld verði notkun almenningssamgangna starfsmanna.

    • Einkabílanotkun miðist fyrst og fremst við þarfir sjúklinga og viðskiptavina, aðgengi að bílastæðum verði takmarkað, t.d. með greiðslu raunkostnaður fyrir afnot af bílastæðum.

    • Markmið verði sett um fjölda bíla- og hjólastæða.

    • Góð tengsl verði við almenningsvagnakerfi höfuðborgarsvæðisins.

    • Samtengd starfsemi Landspítala og Háskóla Íslands dragi úr umferð.

    • Dregið verði úr bílaumferð til framtíðar með uppbyggingu íbúða og fjölbreyttrar starfsemi í Vatnsmýrinni og nálægum svæðum.

  • Hákon Hrafn

    Sammála þessum pistli.

    Við skulum líka muna að hópurinn sem vinnur að þessum undirbúniningi vill auðvitað ekki missa vinnuna og því verður að taka þeirra orðum með fyrirvara, alveg eins og kom í ljós varðandi samgöngur og þú bendir á. Við skulum líka muna að fólk vill almennt ekki láta færa vinnustaðinn sinn og þess vegna koma alskonar furðuleg rök frá sumum starfsmanna LSH núna fyrir því að hann eigi að vera þarna.

    Skv skýrslunni koma 79% starfsmanna á bíl til LSH. Með sameiningunni fjölgar starfsmönnum um 1500 en bílastæðum um 400. Miðað við það munu 785 bílar troða sér einhversstaðar í nágrenninu.
    Það er held ég bara eitt sem gæti flýtt fyrir þessari menningarbyltingu í samgöngumálum og það fyrirhuguð gjaldskylda fyrir bílastæðin.
    Það væri gaman að sjá hvernig umferðin breyttist ef LSH og háskólarnir tækju upp gjaldskyldu í dag á öllum bílastæðum sínum. Þá þyrfti kannski ekki fleiri hraðbrautir í miðbæ Reykjavíkur.

  • Oddný Halldórsdóttir

    „Í fyrsta lagi að ein af forsendum lausnar umferðamála sé sú að Reykvíkingar fari frekar gangandi, á hjóli eða í strætó til vinnu sinnar en áður. “
    Og þetta var sko innskotssetning inni í sviga! Svona rétt eins og þegar Gunnar Svavarsson sagði í „léttum tóni“: …hvernig við ætluðum eiginlega að fara að því að fjármagna þetta? Lífeyrissjóðirnir sjá um það.“ Punktur.
    Hvernig er það… ætlum við bara að láta þetta gerast? Skipuleggjum við ekki borgarafund? Sko málefnalegan. Ég skal hringja símtöl, raða stólum…

  • Spítalinn skal vera í Reykjavík 101.
    Sama hvað tautar og raular.

  • Stefán Guðmundsson

    Þetta er dæmigerð hegðun embættismanna sem skilja ekki að þeir eru i þjónustu almennings. Takið eftir að þeir telja sig ekki þurfa að gera grein fyrir þessum atriðum i fjölmiðlum og beita ráðgjöfum fyrir sig (Helga Má) sem ekki voru þátttakendur í ákvörðuninni um þessa umdeildu staðsetningu.

  • Segi svo bara sem oft áður:
    Takk fyrir enn einn góðan og þarfan pistil Hilmar.

  • Það er stundum sagt að menn hugsi með nýrunum, þegar hvatalífið yfirtekur skynsemina. Mér sýnist að sú hafi verið raunin varðandi alla forvinnu, veruleikasýn og framtíðarhugsun sem viðkemur öllum þessum absúrd 95.000 fermetra farsa á þessum stað.

    Það vantar svo sem hjólastíga víða, en þarf að byggja 95.000 fermetra galtóma steypu (eins og Hvati kuti spyr um) til að búa til „spennandi“ hjólastíga-umhverfi ?

    Umferðarmálin á að leysa með „hókus pókus“ lausnum.
    Á mannamáli … þau hafa ekki verið leyst á raunhæfan hátt, vþa. að þá sæjust allar risa-slaufurnar, vafningarnir og krossarnir, sem má ekki sýna núna vþa. svoleiðis hefur ekki nægjanlegan kjör-.okka í „kynningar-sölu-ferlinu“.

    Það sem undrar mig mest er að það hafi ekki verið gengið alla leið og sagt að allir landsmenn skyldu vera orðnir ljóðskáld (gjarnan mælt á kínverska tungu) á hjóli innan 6 ára … já allir landsmenn því þetta er jú Landsspítali.

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af sjö og sex? Svar:

Höfundur

Hilmar Þór Björnsson arkitekt
Tilgangur síðunnar er að kynna arkitektúr, skipulag og staðarprýði ásamt því að stuðla að umræðu um efnið. Það sem fram kemur ber ekki að skilja sem skoðun höfundar heldur hugleiðingu sem sett er fram í þeim tilgangi að vekja lesendur til umhugsunar og skoðanaskipta. Tekið er á móti aðsendum greinum þegar það á við, sem þá eru á ábyrgð höfundar aðsends efnis.
Athugasemdir við færslur eru velkomnar. Þeir sem vilja koma skilaboðum til ábyrgðarmanns beint er bent á netfangið hilmarstofunni@gmail.com
RSS straumur: RSS straumur

Færslusafn