Mánudagur 11.09.2017 - 18:33 - 5 ummæli

Laugavegur 120 – vel gerð viðbygging

Nú þegar mikil áform eru uppi um þéttingu Reykjavíkurborgar velta menn mikið fyrir sér hvað skuli verndað, hvar er þétt, hvers vegna og hvernig?

Sitt sýnist hverjum um öll þessi atriði.

Í umræðunni um verndun húsa og viðhald þeirra skiptast sjónarmiðin í tvö horn. Annarsvegar er hópur sem vill meðhöndla eldri byggingar af mikilli varfærni og telur jafnvel að vernda þurfi nánast öll hús á tilteknum svæðum og hinsvegar  hópur sem telur að verndunarsjónarmiðin tefji fyrir framþróuninni og skemmi fyrir. Talað er annars vegar um verndunarsinna og hinsvegar uppbyggingarsinna, sem eru hvort tveggja gildishlaðin orð í þessu samhengi.

Með þessum málflutningi eru búnar til tvær andstæðar fylkingar, sem er ósanngjarnt, vegna þess að svoleiðis er þetta ekki.

Það hefur marg sýnt sig að vel er hægt að bygga nútímaleg hús við eldri byggingar þannig að báðar fá notið sín þannig að staðarandinn sé í fyrsta sæti. Það hefur líka sýnt sig að lítið hugsuð hús sem sverja sig að sveiflum tískunnar geta skemmt heilu hverfin. Sumir kalla það „hér kem ég“ arkitektúr.  Það er að gerast víða þessi misserin.

Dæmi um það fyrrnefnda er frábær viðbót við hálfrar aldar gamalt hús Gunnars Hanssonar  að Laugarvegi 120, þar sem nú er hafin hótelstarfssemi.

Hér hefur hönnuðum hjá Gláma-Kím arkitektum tekist að byggja við gömlu bankabyggingu Gunnars þannig að vel fer hvernig sem á er litið.

Ef horft er á hana þá er hún afskaplega róleg og yfirveguð. Þessi ögun og einfaldleiki sést með skýrum hætti í skipulagsmynd og grunnmyndum. Byggingin er til hlés þó hún sé í raun mjög stór.  Laus við allt prjál, séreinkenni  og duttlunga líðandi stundar. Hún er hógvær og tímalaus. Hún gæti hafa verið byggð fyrir 10 árum og líka fyrir 50 árum. Hún er klassik.

Aðalatriðið er að gamla byggingin nýtur sín betur með tilkomu viðbyggingarinnar og þannig á það að vera eins og ákvæði AR2010-2030 segir til um en þar stendur að nýjar byggingar í eldri hverfum verði lagaðar að einkennum eldri byggðar og að heldarmynd haldist með almannahagsmuni að leiðarljósi.

Göturýmin eru líka mun betri eftir tilkomu hússins. Það er í samræmi við sýn skipulagshöfunda.

Húsið er byggt samkvæmt deiliskipulagi Valdísar Bjarnadóttur arkitekts með síðari breytingum. En skipulag Valdísar gekk út á að styrkja götumyndir ásamt því að hámarka byggingamagn lóðanna.

Það er fullt tilefni fyrir þá arkitekta sem skilgreina sig sem uppbyggingasinna að horfa til þessa verks Glámu og Kíms sem ber öll einkenni þeirra sem vilja standa vörð um staðarandann hvar sem hann er þess virði að hlúa að honum.

 

Garður við hótelbygginguna er látlaus og starfrænn  en með áberandi séreinkennum.

Hér sést hliðin að Stórholti.

 

Spil með sól og skugga.

Látlaus og lifandi suðurhliðin án nokkurs þess prjáls og efnassýnishorna og klæðninga sem sjá má í húsinu ofar í brekkunni og er einkennandi fyrir úthverfi nútímans. Götumyndin er samt skemmtilega þétt og minnir á borgarumhvefi sem margir sækjast eftir.

Að ofan er deiliskipulag Valdísar Bjarnadóttur arkitekts frá árinu 2006 sem sýnir hvernig höfundurinn leggur línurnar varðandi styrkingu götumyndar við Rauðarárstíg, Stórholt og Þverholt. Gert er ráð fyrir í skipulagi Valdísar að Norðurpóllinn sem stendur á Hverfisgötu 125 verði fluttur og settur á bifreiðastæðin norðan við gömlu bankabygginguna og tengist þannig Hlemmtorgi með áberandi hætti. Norðurpóllinn var byggður 1904 og hefur staðið að mestu óbreyttur frá 1920. Norðurpóllinn er talinn hafa menningarsögulegt gildi sem gamall veitingastaður við aðalaðkomuna í bæinn. Ætlunin er að að húsið fái sitt fyrra hlutverk sem veitingastaður við törgið

 

Flokkar: Óflokkað

«
»

Ummæli (5)

  • Guðbrandur

    Það kann að vera að það hefði mátt vanda útlit blokkarinnar betur en ég veit sð þetta eru góðar íbúðir.

  • þó lítillætið sé mikið er eftir þessu fallega húsi tekið!

  • Gunnar Jón

    Það er nokkur sannleikur í því að þessi blokk þarna í bakgrunni er ekki beint miðborgarleg. Hún ber frekar einkenni úthverfanna.

  • Ásbjörn

    Falleg umfjöllun um fallega byggingu sem gaman er að lesa.

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af fjórum og sex? Svar:

Höfundur

Hilmar Þór Björnsson arkitekt
Tilgangur síðunnar er að kynna arkitektúr, skipulag og staðarprýði ásamt því að stuðla að umræðu um efnið. Það sem fram kemur ber ekki að skilja sem skoðun höfundar heldur hugleiðingu sem sett er fram í þeim tilgangi að vekja lesendur til umhugsunar og skoðanaskipta. Tekið er á móti aðsendum greinum þegar það á við, sem þá eru á ábyrgð höfundar aðsends efnis.
Athugasemdir við færslur eru velkomnar. Þeir sem vilja koma skilaboðum til ábyrgðarmanns beint er bent á netfangið hilmarstofunni@gmail.com
RSS straumur: RSS straumur

Færslusafn