Mánudagur 04.02.2019 - 19:57 - 9 ummæli

Laugavegur göngugata

Götur eru flokkaðar á margvíslegan hátt eftir hlutverki þeirra í borgarskipulaginu. Allt frá hraðbrautum um safngötur til húsagatna.

Svo eru til allskonar undirflokkar þar á milli.

Það er talað um götur á borð við Laugaveg eins og hann er nú sem götu með „seitlandi“ umferð bíla þar sem bílarnir eiga réttinn á akbrautinni.

Svo eru það vistgötur (Shared Streets) þar sem gangandi og akandi hafa jafnan rétt. Og að lokum eru það hreinar göngugötur eins og Strikið í Kaupmannahöfn og austari hluti Austurstrætis í Reykjavík.

Fyrir einum 10 árum skaut hinn mikli hugmyndafræðingur, Jan Gehl,  inn einum götuflokki til viðbótar. Það er gata sem hann kallar “Pedestrian Priority Street”. Þar á hann við götu þar sem bílaumferð er leyfð en gangandi hafa forgang. Það er að segja öfugt við Laugaveginn í dag. Á Laugaveginum á hin seitlandi umferð akandi réttinn og hinum gangandi ber að víkja af akbrautinni.

Umferðamál Laugavegarins hafa verið mikið rædd undanfarin ár og í síðustu viku var sérstök kynning í Ráðhúsinu á áformum um að gera Laugaveginn að göngugötu allt árið.

Til stendur að opna hana sem slíka 1. mai næstkomandi.

Í kynningunni í Ráðhúsinu í síðustu viku var einkum talað um tvo möguleika. Annarvegar núverandi ástand og hinsvegar að gera götuna að göngugötu allt árið. Ekkert þar á milli í tíma eða hugmyndafræði.

Eins og fyrr er getið vísar Gehl á þriðja kostinn sem er “PPS” leiðin sem er auðvitað ágæt málamiðlun. Við þá leið geta þeir sem eiga erfitt um gang eða þurfa að komast akandi að dyrum verslana og þjónustu gert það, en það mun verða timafrekt vegna þess að gangandi vegfarendur munu tefja fyrir umferð bíla.

Spurt er hvort ekki sé tilefni til þess að gera Laugaveginn að “Pedestrian Priority Street” sem skref í átt að hreinni göngugötu framtíðarinnar? Líklegt er að kaupmenn við götuna, sem eru göngugötuhugmyndinni mjög andsnúnir, muni sætta sig við þessa málamiðlun.

Borgaryfirvöld verða að gæta sín á því að valta ekki yfir þá sem reka verslun við götuna, jafnvel þó borginni þyki öll rök hníga í þá átt sem stefnt er að. En meðan hagsmunaaðilar eru á móti þessu, kannski af þeirri ástæðu að þeir skilji ekki hugmyndina, þá er það að viss valdhroki að fara í þessa framkvæmd gegn vilja og samþykkis þeirra sem þarna hafa starfað í áratugi og jafnvel í hartnær heila öld.

Ég fyrir minn hlut er sannfærður um að stór hluti svæðisins innan gömlu Hringbrautar muni verða göngusvæði þegar fram líða stundir, eða öllu heldur „PPS“ svæði. En það mun vonandi ekki verða fyrr en umhverfið og stoðkerfið býður uppá það. Þá er ég með hugann við almenningssamgöngur og upphitaðar gangstéttar hvarvetna og fleira slíkt.

Ég er til að mynda þeirrar skoðunar að það eigi ekki að gera Laugaveginn að göngugötu fyrr en Borgarlínan er komin í fullan rekstur eftir Hverfisgötunni og geti þannig þjónað Laugaveginium og fætt hann með fólki. Það þarf að hafa stoðkerfin í lagi áður en ráðist er í svo mikilvægt og gott verkefni eins og að gera Laugaveginn að göngugötu allt árið.

En að gera Laugaveginn að „PPS“ götu væri hægt að gera strax í vor. Það eina sem þyrfti að gera er að setja upp skilti sem segir að hér eiga gangandi réttinn og svo mála á yfirborðið eitthvað létt munstur sem gengur frá húsvegg að húsvegg til þess að afmarka að þetta sé svæði sem gangandi eiga réttinn. Líklegt er að hagsmunaaðilar við götuna muni sætta sig við Laugaveginn sem „PPS“ götu. Aðgangur yrði fyrir einkabílinn eftir allri götunni sem er víkjandi og engin stæði lögð niður. Þetta ætti einnig að gera við Skólavörðustíg.

++++

Efst er ljósmynd frá kynningunni á Laugavegi sem göngugötu sem haldin var í Ráðhúsi Reykjavíkur í síðustu viku

Þetta er mynd af „Strædet“ sem liggur samsíða Strikinu í Kaupmannahöfn. Þarna eru stæði og bifreiðar sem eru víkjandi fyrir gangandi. Jan Gehl nefnir þessa götu sem gott dæmi um „PPS“ götu í Kaupmannahöfn.

Í kynningu borgarinnar á verkefninu er þessi ljósmynd notuð. Það verður að segjast eins og er að myndin er nokkuð gildishlaðin. Hún er tekin á einstökum góðviðrisdeigi að sumri til. Ég minnist ekki að við höfum fengið slíkan dag allt árið 2018. Strax að neðan kemur svo mynd sem ég fann á netinu og tekin var í fyrradag á Laugaveginum. Þessa mynd sem er verulega sannari en myndin sem borgin notar fann ég á Facebook  áðan. Maður gæti jafnvel fært rök fyrir því að fjölga bifreiðastæðum við götuna ef hún yrði gerð að „PPS“ götu. Allavega sýnist manni svo þegar horft er á myndina.

Strax hér að neðan er svo mynd af þeim feðgum Ofeigi Björnssyni og Bolla Ófeigssyni sem eru að loka verslun sinni vegna þess að þeir telja að akstur einkabíla sé forsenda rekstrarins. Ófeigur er einhver mesti „urbanisti“ sem ég þekki. Þrátt fyrir það hefur hann komist að þessari niðurstöðu. Myndin birtist í fjölmiðlum í dag.

++++

Hér að neðan er svo fróðlegt myndband frá Jan Gehl sem ég held að allir áhugasamir ættu að skoða. Þar útskýrir hann „Pedestrian Priority Streets“ og sýnir dæmi.

 

Flokkar: Óflokkað

«
»

Ummæli (9)

  • Magnús Skúlason

    Fyrir nokkrum árum setti ég fram tillögu í Hverfisráði Miðborgar um að gera Laugaveginn að PP götu. Á móti mér við borðið sat Kristín Soffía sem var þá og er borgarfulltúi, umferðarverkfræðingur að mennt. Man sérstaklega eftir því að hún tók þessarri tillögu illa og fann henni ýmislegt til foráttu, mig minnir m.a. fólksfæð.
    Ég held enn að skoða eigi þennan möguleika vandlega. Þessi lausn er alsiða í gömlum borgum víða um heim t.d. í Róm, Napólí og Kaupmannahöfn eins og Jan Gehl bendir á. Bílar læðast um ef þeir eiga erindi og gangandi fólk hefur forgang. Þessu fylgir að sjálfsögðu breytt yfirborð götunnar. Með vistvænum bílum þarf ekki að hafa áhyggjur af mengun.
    Það er afleit þróun að venjuleg verslun sé að hverfa úr miðborginni. Ef þetta gæti aðeins komið til móts við kaupmenn því þá ekki að prófa þetta fyrst?

  • Stefán Ólafsson

    Ég treysti því að USK taki þessa hugmynd til alvarlegrar og faglegrar athugunnar. Það er beinlínis skylda borgarinnar í ljósi þess að nú hefir komið í ljós að mikill meirihluti kaupmanna sem starfrækt hafa verslun þarna í mera en 25 ár vilja ekki göngugötu á Laugavegi.

  • Guðrún Ólafsdóttir

    Auðvitað og sjálfsagt að gera þetta. Það þarf að sýna þeim kaupmönnum og þeim borgarbúum sem ekki vilja að Laugavegur verði göngugata einhverja tillitssemi. Þetta er liður í því. Þetta er sáttatillaga sem allir ættu að fallast á.

  • Dennis Davíð Jóhannesson

    Áhugaverð pæling hjá þér Hilmar. Hugtakið „Pedestrian Priority Street“ er þekkt víða. Ég var t.d. nýlega staddur á evrópskri ráðstefnu í Skotlandi um sjálfbærni borga. Þar var töluvert rætt um þessa leið víða í borgum Evrópu. Skoska ríkistjórnin hefur gefið út ritið „Designing Streets“ sem fjallar ítarlega um hönnun gatna og þar er áherslan á þessa hugmyndafræði. Þar segir m.a. í inngangi:

    „Streets have two key functions: place and movement.
    In the more recent past, vehicle movement has often
    dominated the design of streets, resulting in many
    streets being out of context with their location and overly influenced by prescriptive standards. The prime concern of Designing Streets, in contrast, is to reverse this trend and shift the focus firmly back to the creation of successful places through good street design.“

  • Hilmar Þór

    Nei, Lísa Pálsdóttir, Mér sýnist að borgaryfirvöld hafi ekki skoðað þennann möguleika. Ég nefndi þetta við verkefnisstjórann sem ekki hafð heyrt hugtakið “Pedestrian Priority Street” og spurði strax hvort ég væri að meina “Shared Streets” sem er allt annar hlutur. Ég var hissa á þessu vegna þess að ég hélt að allir fagmenn vissu um allt sem Jan Gehl hefur lagt til málanna. Þetta samtal varð til þess að ég skrifaði þetta blogg. Gehl er einhver mesti og besti göngugötusérfræðingur í heimin og lítur á PPS götuna sem milli leik í því að gera göngugötur að göngugötum. Ekki mótleik. Við vitum að Strædet i KBH er að
    breytast úr PPS götu i hreina göngugötu um þessar mundir. Þegar vel viðrar er svo mikið af gangandi á götunni að hún er nánast ófær fyrir bíla en á móti hentar hún bílum þegar illa viðrar og fáir eru á gangi. Þetta mundi henta Laugaveginum vel.

  • Lísa Pálsdóttir

    Góð hugmynd Hilmar Þór, hafa borgayfirvöld skoðað þennan möguleika? Var þetta rætt á kynningunni um daginn*

  • Hilmar Þór

    Takk fyrir þessa sendingu Steinarr Kr.

  • Steinarr Kr.

    Enn og aftur fróðleg og áhugaverð grein. PPS gæti verið lausn sem hentar vel hér á landi. Sakna að hafa ekki séð þetta fyrr í umræðunni.

    Hér er síðan annar fræðimaður í borgarfræðum, sem oft er með áhugaverðan fróðleik (að vísu Ameríkumiðaðan): https://www.youtube.com/channel/UCGc8ZVCsrR3dAuhvUbkbToQ

  • Guðrún Ólafsdóttir

    Þetta liggur í augum uppi að gera Laugaveg og Skólavörðustíg að PPS götu.

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af sjö og fjórum? Svar:

Höfundur

Hilmar Þór Björnsson arkitekt
Tilgangur síðunnar er að kynna arkitektúr, skipulag og staðarprýði ásamt því að stuðla að umræðu um efnið. Það sem fram kemur ber ekki að skilja sem skoðun höfundar heldur hugleiðingu sem sett er fram í þeim tilgangi að vekja lesendur til umhugsunar og skoðanaskipta. Tekið er á móti aðsendum greinum þegar það á við, sem þá eru á ábyrgð höfundar aðsends efnis.
Athugasemdir við færslur eru velkomnar. Þeir sem vilja koma skilaboðum til ábyrgðarmanns beint er bent á netfangið hilmarstofunni@gmail.com
RSS straumur: RSS straumur

Færslusafn