Laugardagur 03.03.2012 - 15:20 - 7 ummæli

Leiklist, bílar og byggingarlist

 

Í  bók sinni “Om at opleve arkitektur” skrifar professor Steen Ejler Rasmussen að byggingalist, ásamt málaralist og höggmyndalist hafi verið kölluð frá gamalli tíð “hinar fögru listir”.  Með þessu er átt að þær séu fagrar á að líta, að þær tali til augans eins og tónlist til eyrans.

Enn þann dag í dag dæmir fólk byggingarlistina eftir þvi hvernig hún lítur út utanfrá.  Bækur og greinar eru að mestu skreyttar með myndum af húsum séð utanfrá. Það eru oft engar afstöðumyndir eða grunnmyndir sem fylgja.

Þegar fagmaður dæmir byggingu nægir honum ekki eigöngu að fjalla um útlitið. Hann þarf að þekkja afstöðumynd, sneiðingu og grunnmyndir. Og til þess að vera góð bygging þarf þetta allt að falla saman með umhverfinu í eina starfræna heild.

Arkitektin vinnur með form, ljós og efni eins og myndhöggvarinn og með liti líkt og málarinn. En það sem er frábrugðið er að list arkitektsins er nytjalist.

Arkitektinn starfar einnig að hluta  eins og leikstjórinn og leikmyndahöfundur þar sem leikendur eru venjulegt fólk sem leikur óskrifaðann spuna.  Það er að segja leikrit þar sem ekkert er handritið.

Arkitektinn þarf að hafa tilfinningu fyrir því hvernig fólk notar bygginguna,  þannig að allt gangi eðlilega fyrir sig,  annars er byggingalistin misheppnuð.  Þetta er ótrúlega flókið því það sem er eðlilegt fyrir einn getur verið þvingandi fyrir annan.  Það sem er eðlilegt í dag getur verið óþægilegt eftir nokkra áratugi þegar lífsmunstur fólks er orðið annað.

Arkitektinn líkist leikstjóranum og leiktjaldamálaranum einnig á þann hátt að hann dregur sig til hlés þegar sýningin hefst.  Teikningar arkitektsins eru ekki markmið í sjálfu sér,  heldur leiðarvísir,  hjálpartæki fyrir þá sem byggja húsið.  Þessu má einnig líkja við tónskáld; Arkitektinn skrifar nóturnar sem hljóðfæraleikarar spila eftir á sín hljóðfæri.

Mikilvægt er að fólk sem skoðar byggingalist horfi ekki bara á  húsin sjálf  heldur einnig á lífið í húsunum og lífið í götum og görðum umhverfis þau.

Byggingalistin hefur verið kölluð móðir listanna. Kannski vegna þess að hún verður ekki umflúin. Arkitektúrinn er allstaðar, allt í kringum okkur, þar sem við búum,  störfum, verslum, ökum og sofum.

Ef við verðum þreytt á byggingarlistinni er ekki hægt að stinga henni upp í bókahillu eins og ritlistinni eða skrúfa fyrir hana eins og tónlistinni. Nei við verðum að umbera hana hvort sem okkur líkar betur eða verr.

Með tilkomu kennslu í byggingarlist hér á landi fyrir meira en 10 árum átti ég von á vakningu í umræðunni um arkitektúr og skipulag. Ég átti von á að  menntastofnunin  einbeitti sér að því að færa umræðuna nær neytandanum.  Byggja upp tungumál sem allir skilja,  finna íslensk nothæf hugtök í stað erlendra slettna  eða slangurs sem oft skapa misskilning sem ruglar umræðuna.

Umræðan er eitthvað meiri og markvissari nú en áður en menntunin var flutt til landsins.  Það ber að þakka. En skólinn virðist vera  innhverfur og ekki nægilega virkur í umræðunni þegar horft er til hans utanfrá.  Skólinn þarf að taka sig á í þessum efnum og brúa bilið milli byggingalistarinnar og notendanna.

Markmiðið hlýtur að vera að fólk hugsi meira um bygingalist en það hefur gert fram að þessu. Jafnvel eins mikið og  bíla svo dæmi sé tekið.

Kröfur fólks til bíla eru skilgreindar í huga hvers manns.  Menn vita hvernig bíl þeir vilja og hversu miklu þeir vilja kosta til. Þegar um er að ræða hús og umhverfi veit fólk ekki hvað því finnst.  Því finnst jafnvel að því eigi ekkert að finnast um það.  Þetta sé bara svona.  Allt ákveðið ofanfrá eins og það komi frá Guði.

Bílar eru það fyrirferðamiklir í umræðunni að þeir hafa haft meiri áhrif á umhverfið en fólkið, sem þeir, húsin og skipulagið, á að þjóna. Ekki veit ég hvað er orsök og hvað  afleiðing í þessum efnum. En hitt veit ég að bílar eru of fyrirferðarmiklir í umræðunni og hafa of mikil áhrif á umhverfið meðan byggingalist og skipulag er næstum ekki rætt.

Bílar eru í raun orðnir að þægilegu umhverfisböli sem kostar meira en flesta grunar.

Þegar umfjöllun og skrif um byggingalist eru orðnar jafn almennar og faglegar og  um bíla, undanfarna áratugi, er markmiðinu náð.

Arkitektar, iðnaðarmenn og tæknimenn fá meðvitaðri viðskiptavini, notendurnir betri byggingar og þjóðin betra umhverfi.

Það þarf að auka og breikka alla umræðu um arkitektúr og skipulag umtalsvert,  kenna efnið í grunn- og framhaldsskólum og gera það að föstum þætti í þjóðmálaumræðunni. Arkitektar þurfa að hætta að tala að mestu við sjálfa sig um sitt fag og snú sér að notendum byggingalistarinnar og ræða við þá á máli sem þeir skilja

 

 

Flokkar: Óflokkað

«
»

Ummæli (7)

 • Jón Sveinsson

  Ég vil bæta því við að það gerist oft að þar sem hópur sérfræðinga kemur saman upphefst e. k. sérfæðingahroki sem veldur fjarlægð milli sérfræðinga og þeirra sem ekki eru sérfræðingar. Sú staða getur valdið þöggun í umræðunni.
  Samkvæmt þessu er vafasamt hvort dómnefndir sem dæma eiga arkitektúr eigi að vera skipaðr arkitektum. Kannski baralistamönnum almennt. Sama má segja um dómskerfið almennt. Af hverju eru siðfræðingar og hemspekingar ekki i fjölskipuðum hæstarétti svo eitthvað sé nefnt?

 • Jón Sveinsson

  Það eru orð að sönnu að arkitektar tala of mikið við sjalfa sig. Þeir þurfa að stíga niður til okkar hinna. Þessi ágæta grein ber hófleg merki þess að arkitektinn sé að tala til annarra arkitekta, enda skrifuð af arkitekt. En það hefur verið einkenni þessa bloggs að það er skrifað svo það sé velskiljanlegt þeim sem ekki tengjast byggingar og umhverfismálum í starfi sínu.
  Takk fyrir það

 • Sjónlistir tala eins og aðrar listir fyrst og síðast til heilans. Annars falleg, beitt og góð færsla.

 • þorgeir jónsson

  Samlíkingarnar eru góðra gjalda verðar, en fyrir langa löngu var sagt „arkitektúr er frosin tónlist“ Goethe (1749-1832)
  …sem sagt ekki spuni.

 • Þetta eru snilldarskrif hjá þér Hilmar. 🙂

 • stefán benediktsson

  Tek undir með Sigurði að þessi bloggsíða á betra skilið en skammlífi en auðvitað er hægt að fara hér inn og sækja eldri færslur og hafðu þökk fyrir þetta framtak Hilmar enn einu sinni. Upp úr 1900 fóru að birtast faratæki sem rímuðu ekki við klassík eða nýklassík vélin rímaði ekki við arkitektúrinn eða öfugt. Á nokkrum árum fór arkitektúr innihalds- og formlega fram úr bílahönnun. Samtímabíll framan við hús eftir Corb eða aðra módernista virkar gamaldags. Upp úr seinna stríði fer bílaiðnaðurinn svo aftur framúr arkitektúrnum útlitslega og í dag virðist hann á leið fram úr arkitektúr innihaldslega. Þegar eru komnir bílar á götuna sem aka sér að nokkru sjálfir og stutt í að slysatíðni minnki stórlega. Koltvísýringsfótspor bíla minnkar hratt og endurvinnslumöguleikar vaxa. Við arkitektar virðumst vera dálítið tvístígandi gagnvart nýrri tækni af hræðslu við takmarkanir hennar, að því er virðist, en hún hlýtur að bjóða upp á tækifæri, muniði Archigram og alla þá gaura,

 • Sigurður Einarsson

  Hér er húsagerðalist sett i skemmtilegt samhengi við aðrar listgreinar. Mér finnst reyndar þetta ætti frekar að vera tímaritsgrein vegna þess að bloggfærsla lifir yfirleitt stutt og fjallar oftast um dægurþras. Þessi færsla fjallar ekki um augnablik dægurmálanna.

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af sjö og þremur? Svar:

Höfundur

Hilmar Þór Björnsson arkitekt
Tilgangur síðunnar er að kynna arkitektúr, skipulag og staðarprýði ásamt því að stuðla að umræðu um efnið. Það sem fram kemur ber ekki að skilja sem skoðun höfundar heldur hugleiðingu sem sett er fram í þeim tilgangi að vekja lesendur til umhugsunar og skoðanaskipta. Tekið er á móti aðsendum greinum þegar það á við, sem þá eru á ábyrgð höfundar aðsends efnis.
Athugasemdir við færslur eru velkomnar. Þeir sem vilja koma skilaboðum til ábyrgðarmanns beint er bent á netfangið hilmarstofunni@gmail.com
RSS straumur: RSS straumur

Færslusafn