Sunnudagur 02.10.2011 - 19:59 - 17 ummæli

Léttlestarkerfi – Er það lausn?

Í Seattle í Washington í Bandaríkjunum er unnið að því að leggja niður hraðbraut eina í miðbænum. Hugmyndin er að í stað hraðbrautarinnar verði komið upp léttlestarkerfi.

Efst í færslunni er mynd sem sýnir samanburð sem gerður var  í Seattle sem á að sýna okkur hver flutningsgeta léttlestar er miðað við einkabíl og það rými sem ferðamátinn krefst.  Ein léttlest flytur jafn mikið og 177 einkabílar.

Til viðbótar minni ég á mengun, bæði loft og hávaðamengun.  Svo er það betra fyrir heilsuna að ferðast með almenningssamgöngum, minni samfélagskostnaður til langs tíma og minni slysahætta.

Ég tel mig fylgjast ágætlega með skipulagsmálum hér á landi en ég veit samt ekki hvaða áætlanir eru uppi á borðinu í almenningsflutningamálum hér á höfuðborgarsvæðinu. Hinsvegar er ég sæmilega upplýstur um hvað er að gerast í þeim málum í Kaupmannahöfn og Seattle!!!!

Hvernig ætli standi á því?

Ég tek eftir að það er óvissa í umræðunni þegar verið er að ræða lestar annarsvegar og léttlestar hinsvegar.  Svo blanda menn sporvögnum í umræðuna.  Hér að neðan koma  nokkrar myndir af léttlestum víðsvegar að úr heiminum.  Neðsta myndin er svo sporvagn með loftlínu.

Léttlestar í Reykjavík þyrftu kannski ekki að vera á járnteinum. Bara að þær hefðu skilyrðislausan forgang á sinn sérmerktu akrein og á vegi þeirra væri ávalt grænt ljós. Ætli borgin sé eitthvað að velta þessu fyrir sér?

Flokkar: Óflokkað

«
»

Ummæli (17)

  • Sporvagnakerfi á höfuðborgarsvæðinu yrði frábært. Það er þó einn galli á sporvögnum, snjór. Þegar snjóar hættir kerfið að virka því sporin fyllast og vagnarnari geta farið af sporinu.

    Þetta gerist í Gautaborg og þar eru sér vagnar sem keyru um og hreinsa sporin í og eftir snjókomu.

    En Gautaborg, þessi Detroit skandinavíu er mjög vel skipulögð og Reykjavík mætti horfa til hennar með sitt skipulag.

  • Hilmar Gunnars

    Í listaháskólanum árið 2005, var stórt urban studio undir yfirskriftinni EU-City. Það voru gestakennarar sem kalla sig Powerhouse Company Architects, sem stýrðu verkefninu (http://powerhouse-company.com/projects/research/eu-city-research/).

    Þarna fór fram greining á Íslandi hvað varðar stjórnarfar, efnahag, landbúnað, ferðamennsku og infrastrúktúr o.fl. Því miður náði vinnan ekki út fyrir veggja skólans. Amk ekki á Íslandi.

    Hópurinn sem vann með infrastrúktúrinn lagði til að lagt yrði háhraðalestakerfi frá Keflavík – Reykjavík – Akureyri og Egilsstaða. Þannig myndi byggðir þéttast á þessum stöðum og aðrir staðir á landinu verða jafnvel enn dreifbýlli. Samkvæmt útreikningum átti að vera mögulegt fyrir meðaljón að búa á Akureyri en sækja vinnu í Reykjavík. Gott dæmi um hvað HRAÐI skiptir miklu máli í nútímasamgöngum.

    Þetta kerfi átti einnig að útrýma deilum um flugvöllinn í Vatnsmýrinni þar sem lestin gekk með miklum hraða alla leið til Keflavíkur.

    Samkvæmt öðrum útreikningum var hægt að byggja þetta háhraðalestakerfi með því að leggja niður öll áform um þau jarðgöng sem þá voru áætluð og leggja þess í stað alla þá fjármuni í lestarkerfið.

    Hugmyndir um lestakerfi er spennandi en það verður að hugsa út fyrir Reykjavík í þessu samhengi. Eins spyr ég mig um hraða þessara samgangna þar sem það er eitt af lykilatriðunum.

    Varðandi samgöngur almennt er líka vert að skoða umhverfisvæna kosti í strandsiglingum. Strandsiglingar voru í miklu meiri mæli hérna áður fyrr. Þær voru ekki eingöngu lagðar niður vegna þess að þær væru óhagstæðar heldur voru viðskiptahagsmunir sem áttu drjúgan þátt í að þær voru lagðar niður í þeim mæli sem var.

    Norðmenn notast mikið við strandsiglingar og ég sé ekki annað en við ættum að geta nýtt okkur það líka. Þess vegna innan höfuðborgarsvæðisins ?

  • stefán benediktsson

    Þó nokkuð hefur verið rannsakað í þessum efnum á vegum Reykjavíkurborgar en ekkert hefur passað inn í þann ramma sem Reykjavík eða Höfuðborgarsvæðinu var/er sniðinn en nú gæti orðið breyting á.
    Samþykkt hefur verið að stinga stórkarlalegum gatnagerðar og gangnagerðarhugmyndum oní skúffu og Vegagerðinni er nú ætlað að skipuleggja, stofna og reka almenningssamgöngur á stofnbrautum. Þó enn sé ekki hægt að lýsa nýrri heildarmynd er ljóst að þetta mun gerbreyta öllum almenningssamgöngum á Höfuðborgarsvæðinu.

  • Magnús R. Einarsson

    Ég man eftir að margir strætisvagnar í Milano gengu fyrir rafmagni sem var fengið eftir loftlínum eins og sporvagnar. Án þess að þekkja mikið til þessara mála, væri ekki slík tilhögun athugandi fyrir Reykvíkinga? Ætti að var mun ódýrari en að byggja lestarkerfi, létt eða þungt.

  • Jón Jón Jónsson

    Eru menn að segja hér, að skorti á gegnsæi/gagnsæi hjá þessum vænu ráðamönnum borgarinnar?

    Það er ekki gaman ef rétt er, því okkur var lofað að allt yrði svo gaman þegar okkar besti kæmist til valda.

    Er ekki bara hægt að panta viðtalstíma hjá Jóni Gnarr, eins og venja hefur verið hjá borgarstjórum til að bera upp erindi?

    Einhverjir hafa sagt mér að það sé ekki hægt. Er það rétt?
    Tekur borgarstjóri okkar ekki á móti þeim, sem óska viðtals?

    Veit það einhver?

  • Stefán Guðmundsson

    “Ég tel mig fylgjast ágætlega með skipulagsmálum hér á landi en ég veit samt ekki hvaða áætlanir eru uppi á borðinu í almenningsflutningamálum hér á höfuðborgarsvæðinu”.

    Þetta er afar athyglisvert sem pistlahöfundur segir þarna. Ég gerði það að gamni mínu og fór bæði inn á Straeto.is og samgöngu og umhverfissvið á reykjavik.is og á hvorugum staðnum er nokkuð að finna um langtímaáætlanir í almenningsamgöngum.

    Og svo spyr hann:

    Hvernig ætli standi á því?

    Nú get ég upplýst að Hilmar veit ekki hvaða áætlanir eru uppi á borðum á höfuðborgarsvæðinu vegna þess að það eru engar áætlanir að finna um málið.

  • Jón Jón Jónsson

    Mér finnst þetta góð hugmynd, sem bert er að skoða.

    Svo geta þeir hjólreiðarkappar og skipulagsráðsmenn, Gísli Marteinn og Hjálmar Sveinsson td. setið á Þrekhjólum sínum á toppi þessara lesta og tekið undir basl-vísu Jónasar Hallgrímssonar og þulið hana á ferðum sínum út um alla borg og það af þakinu:

    Ég er kominn upp á það
    allra þakkar verðast
    að sitja kjurr á sama stað
    en samt að vera´ð ferðast.

    Ekki veit ég hvort Páll Hjaltason, sjálfur formaður skipulagsráðs, sé hjólreiðarkappi, en sé svo þá má hann, amk. mín vegna, sitja á fremsta þaki og hafa hundinn sinn þar spangólandi, sem varúðarflauta væri, fyrir hornið.

    Ég væri sáttur að sitja í þannig lest og ég mundi gjöra salut
    og taka ofan hattinn, ef ég ætti einhvern, fyrir skipulagsráði ef hún einhenti sér í að skoða þetta af fullri alvöru.

  • Steinarr Kr.

    Áhugaverð umræða. Væri einhver möguleiki að endurvekja Hrinbrautina og skoða hvort svona sprovagn gæti gengið hringinn, þó svo landfræðilega sé þetta nes sem Reykjavík stendur á ekki hentugt fyrir svoleiðis.

    Og orðið lestar er eignafall, eintala, en ekki fleirtölumynd af orðinu.

  • Björn Erlingsson

    Það hlýtur að vera hægt að ná samfélagslegum og samgöngulegum ávinning með að nýta sér svona kerfi. Td. mætti hugsa sér að hafa léttlestar þar sem straætisvagnalínurnar liggja 3 og 4 á stofnbrautum og nota strætó til að fæða úr úthverfum eða af stæðagörðum.

    Ef bætt er við þægindum, tíðni ferða og hraða þá fær slíkt kerfi fljótt yfirburði yfir einkabíl í verði, þægindum og gæðum og þá er björninn unnin.

  • Árni Ólafsson

    Sporvagnar eru þægileg farartæki. Og svo sér maður teinana – sem er áþreifanleg sönnun þess að vagninn fer þessa leið ! Mér finnst mun skárra að bíða eftir sporvagni en strætó – einmitt þess vegna.

    Gautaborg er dæmi um borg sem (í spéspegli) var svo aftarlega á merinni á sjötta og sjöunda áratug síðustu aldar að borgarbúar höfðu ekki rænu á að nútímavæða samgöngurnar og losa sig við gamaldags sporvagnakerfi eins og gert var víða á þeim tíma – bæði vestan hafs og í gamla heiminum. En í olíukreppunni á áttunda áratugnum stóðu Gautaborgarar allt í einu með pálmann í höndunum með hagkvæmt samgöngukerfi sem gekk fyrir rafmagni – og íbúar og stjórnendur margra annarra borga horfðu til þeirra öfundaraugum.
    Gautaborg hefur verið skipulögð út frá stofnleiðum sporvagnanna þannig að þeir ganga í gegn um miðjur borgarhlutanna – næst þéttbýlustu svæðunum – og tengja þau stystu leið við miðborgina.

    Í Reykjavík eru helstu samgönguleiðir hins vegar á einskismannslandi á milli byggða og því mjög óheppilegar sem sporvagnaleiðir – fáir sem búa nálægt þeim. Borgin er eins og sokkur á röngunni – eiginlega þyrfti að snúa henni við – eða jafnvel rekja upp.

    Sporvagnakerfi er samt væntanlega mun raunhæfari hugmynd en mörg önnur lestakerfi þar sem þeir geta farið eftir venjulegum akbrautum og verið innan um aðra umferð (= minna rask, umfangsminni mannvirki). Fróðlegt væri að heyra hvort reynsla sé af rekstri sporvagna á snjóþungum svæðum eða þar sem hætta er á ísingu (loftlínur).

  • Ég sé að ummæli mín í færslunni um menningarstefnuna og Landspítalann hefur skapað umræðu …það er gott.

    ég færi hana hingað upp, því hér á hún heima 🙂

    Ef það þarf endilega að fara í einhverjar framkvæmdir þá er ég með hugmynd að verkefni í stað þessa spítala.

    Við skulum setja upp sporvagnaleið, bara eina fyrst, t.d. frá Lækjartorgi upp í Mjódd meðfram Miklubraut, nóg er plássið!
    Sporvagnar ganga fyrir rafmagni, það hressir upp á ímynd stætó og strætisvagnarnir geta safnað fólki í sporvagninn en sleppt akstrinum niður í bæ. Helstu þrengslin eru á Fríkirkjuveg en þar gæti sporið verið út í tjörn, það skyggir ekki á útsýnið. Já eða bara á malbikinu .

    Íslendingar eru nýjungagjarnir og sporvagnar eru fljótir og smart. Þannig myndi farþegum fjölga mjög mikið og aðrar framkvæmdir við Miklubraut væru óþarfar.

    http://en.wikipedia.org/wiki/Light_rail

  • 1. Reykjavík er ekki milljónaborg
    2. Það eru ekki til peningar fyrir þessu

  • Guðrún Guðmundsdóttir

    “Í Seattle í Washington í Bandaríkjunum er unnið að því að leggja niður hraðbraut eina í miðbænum. Hugmyndin er að í stað hraðbrautarinnar verði komið upp léttlestarkerfi”.

    Í Reykjavík á Íslandi er fyrirhugað að byggja megavinnustað í gatnakerfi þar sem kerfið er við ystu þanmörk.

    Þar er framtíðin í höndum guðs og gæfunnar. Engar sannfærandi áætlanir.

    Eða eins og sagt er: “Æji, þetta reddast einhvernveginn”

    En spurningin er : Hvað kemur í staðinn? Hvernig á að leysa vandann?

  • jenshelga

    Linkur til seattle.gov sem tekur á þeirra pælingum:

    http://www.seattle.gov/transportation/lightrail.htm

  • Í flestum þýskum borgum er hafður sá háttur á að blanda saman umferð sporvagna/léttlesta og bifreiða, ef aðrir kostir bjóðast ekki (á oft við þar sem götur eru þröngar). Sporvagnarnir eru þá í forgangi, en teinarnir eru grafnir niður í malbikið og ekkert vandamál fyrir bílana að aka yfir þá eða „eftir“ þeim. Reykvíkingar hefðu átt að eignast sporvagnakerfi þegar borgin var að byggjast upp – en það má enn breyta til betri vegar!

  • Tímabær umræða. Litlar borgir í Evrópu hafa byggt léttlestarkerfi eins og t.d. Friburg í Þýskalandi. Er á stærð við Höfuðborgarsvæðið. Nú nýlega komst ég að því að verið er að undirbúa léttlestarkerfi fyrir þrjár borgir á Skáni í Svíþjóð. Þ.e. Malmö, Helsingborg og Lund. Í Lundar sveitarfélagi búa ríflega hundrað þúsund manns.

    http://ida.dk/netvaerk/idaforum/U0611A/Documents/Letbanekonference/Tramways%20i%20Sk%C3%A5ne,%20SPIS,%20Stephan%20B%C3%B6sch.pdf

  • Þessi samanburður í Seattle er sláandi. Ég held að ástæðan fyrir því að þú veist ekki hvað er að gerast í skipulagsmálu hér sé sú að forræðið er á borðum bjúrókratanna. Þeir vilja ekki umræðu. Umræðan er truflandi fyrir þá i þeirra störfum og upplýsingar kalla á umræður.

    Flott færsla og flottar spurningar og vangaveltur.

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af einum og tveimur? Svar:

Höfundur

Hilmar Þór Björnsson arkitekt
Tilgangur síðunnar er að kynna arkitektúr, skipulag og staðarprýði ásamt því að stuðla að umræðu um efnið. Það sem fram kemur ber ekki að skilja sem skoðun höfundar heldur hugleiðingu sem sett er fram í þeim tilgangi að vekja lesendur til umhugsunar og skoðanaskipta. Tekið er á móti aðsendum greinum þegar það á við, sem þá eru á ábyrgð höfundar aðsends efnis.
Athugasemdir við færslur eru velkomnar. Þeir sem vilja koma skilaboðum til ábyrgðarmanns beint er bent á netfangið hilmarstofunni@gmail.com
RSS straumur: RSS straumur

Færslusafn