Þriðjudagur 04.10.2011 - 09:15 - 20 ummæli

Upphafið af endalokum einkabílismans í Reykjavík

Það er ekkert svo vont að það boði ekki eitthvað gott.

Hrun efnahagslífsins hér á landi markaði stefnubreytingu hvað varðar ferðavenjur fólks innan höfurðborgarsvæðisins. Kannski var hrunið upphafið að endalokum einkabílismans á höfuðborgarsvæðinu?

Meðan á góðærinu stóð var mikið framboð af ódýru fé til fjárfestinga.

Þetta kom ekki síður fram í hugmyndum manna um fjárfestingu í framkvæmdum til þess að greiða einkabílnum leið innan borgarinnar en annarsstaðar.

Allir sem eitthvað hugsa um samgöngur í þéttbýli vita að einkabíllinn leysir ekki samgönguvandamál í borgum, heldur auka þau.

En í góðærinu svokallaða fékk bíllinn (blikkbeljan sem tekur um þriðjung af heimilistekjunum til sín og sama hlutfall landrýmisins) algeran forgang.

Þetta gekk svo langt að manni finnst þegar áætlanirnar eru skoðaðar að þarna hafi verið um vísindaskáldsögur að ræða.

Verkfræðingar réðu ferðinni í áætlunargerðinni og gengu þeir út frá þeirri forsendu að atburðarrásin hefði völdin og réði ferð. Allar tölur voru framreiknaðar á úreltum forsendum. Verkfræðinga setti  niður við þetta. Þeir hafa nú  áttað sig á því að hugmyndafræði og hugsjón er megin aflið.

Ekki exelskjöl og reiknilíkön.

Verkfræðiningar eru búnir að átta sig á þessu enda eru  minnisstæðar  videomyndir af hinum ýmsu mislægu gatnamótum horfnar af  vefsíðum verkfræðistofanna. Skrýtið!

Nú hafa hjólareiðamenn, gangandi fólk og aðgerðarsinnar með stuðningi hugmyndavinnu arkitekta sett aðra mælistiku á gæði lífsins og leitað annarra úrræða.

Liður í þessari þróun eru áætlanir Landspítalans um að leggja áherslu á annan ferðamáta en nú tíðkast og hefur verið skipulagður. Vonandi gengur Landspítalanum vel í sínum áætlunum þó svo að frumkvæðið hefði átt að koma frá borginni og sveitarfélögunum á höfuðborgarsvæðinu.

Það er viss niðurlæging fyrir sveitarfélögin og fulltrúa borgaranna  að frumkvæðið komi frá opinberu hlutafélagi úti í bæ. Því er samt ekki að neita að Landspítalinn sýnir þarna frumkvæði sem ber að fagna þó augljós sé að spítalann á alls ekki að endurbyggja við Hringbraut.


Hér er slaufa sem veitir einkabílnum greiðan áðgang í smáúthverfi í jaðri Reykjavíkur

Þessar hugmyndir og helgunarsvæði hraðbrautanna eru ógnvekjandi.

Hvað með sundin blá?  Er þeim fórnandi fyrir einkabílsmann?

Það hefur komið fram að ekki séu til neinar framsæknar og samþykktar áætlanir í skipulagsáætlunum höfuðborgarsvæðisins um almenningssamgöngur á svæðinu.   Teikningin að ofan sýnir hugmyndir hugsjónamanns sem gengur út á lestarkerfi. Maður veltir fyrir sér hvort kerfi sem þetta sem byggðist  á léttlestarkerfi þar sem tíðnin væri svona 3-5 mínutur milli vagna  mundi ekki létta á gatnakerfinu? Kannski gerði þetta það að verkum að áhyggjur af  umferðamálum Landspítalanum væru óþarfar. Teikningin er fengin af vef Kjartans Péturs Sigurðarsonar sem hefur þessa slóð:

http://photo.blog.is/blog/photo/entry/474061/

Flokkar: Óflokkað

«
»

Ummæli (20)

  • Hilmar Þór

    Þakka þér kommentið Kristín Soffía.

    Ég er þakklátur fyrir athugasemd þína. Sérstaklega vegna þess að þú ert að verja störf ykkar stjórnmálamanna sem ég var að álasta fyrir að standa ekki vaktina.

    Þið verðirð að kynna betur störf ykkar í skipulags-, umhverfis- og samgönguráði fyrir okkur hinum milli kosninga.

    Það er stór hópur fólks sem hugsar um skipilagsmál milli kosninga. það dugir ekki að segja okkur frá störfum ykkar rétt fyrir kosningar. Langtímaminnið er að aukast.

    Samskipti við kjósendur þurfa að vera opnari og meira uppi á borðinu. Kjörnir fulltrúar eiga ekki að þurfa að hugsa um annan trúnað en trúnaðinn við kjósendur sína.

    Ef þú eða kollegar þínar telja þennan vetvang heppilegann til að koma skilaboðum til þeirra sem láta sig arkitektúr, skipulag og staðarprýði varðar þá er vetvangurinn ykkur opinn.

  • Kristín Soffía Jónsdóttir

    Sæll Hilmar

    Stórskemmtilegt blogg hjá þér. Ég sit í bæði í skipulagsráði sem og umhverfis- og samgönguráði og finnst nauðsynlegt að koma því að að það er ekki síst fyrir þrýsting frá borgaryfirvöldum að samgöngumál NLSH hafa þróast í þessa átt.

    Ég tel mig ekki vera að brjóta neinn trúnað þar sem að þetta hefur komið fram í opinberum minnisbréfum sem og bókunum.

    Bæði ráðin sem að þessu koma hafa lagt gríðarlega áherslu á að auka hlut annara ferðamáta, draga úr bílastæðaþörf og tryggja gott aðgengi hjólandi, gangandi og strætó að og um svæðið.

    Kveðja
    Kristín

  • Hilmar Þór

    Hrafn Arnórsson verkfræðingur var í morgunútvarpinu áðan að kynna “sporbílakerfi” Þetta virðist áhugavert og sameinar almenningssamgöngukerfi og einkabílakerfi. Það verður gaman að fylgjast með þessi.

    Og það skemmtilega við þetta að það er verkfræðingur sem setur þetta fram hér á landi.

    Hægt er að hlusta á viðtalið á netinu í lblálok þáttar.

    Slóðin er þessi:

    http://dagskra.ruv.is/ras2/4596923/2011/10/05/

  • „Hilmar Magnússon– fólk mætti ekki gleyma sér í einhverjum spandexfíling og líta á þetta eingöngu sem eitthvað tómstundagaman.“……. nákvæmlega.Man þegar ég var í Danmörk hvað reiðhjólið var tvinnað inn í daglegt líf margra.ekki alltaf þessi spandexfílingur. Miðaldra fólk að kaupa í matinn á hjóli með vörukörfu ekki ólíkt gomlu sendlahjólunum sem voru hér í bæ fyri hálfri öld.

  • Takk fyrir áhugaverðu umræðu Hilmar og að vekja athygli á bloggi mínu um bættar samgögur í Reykjavík. Fyrst að verið er að ræða gatnakerfið að þá tók ég mikið af loftmyndum af hringtorgum og ýmsum gatnaframkvæmdum í Reykjavík og nágrenni 2008:
    http://www.photo.is/08/07/7/index_7.html

    Fyrir stuttu var ég að útbúa heimasíðu í kringum nýja hugmynd að höfn á Austfjörðum og í tengslum við það verkefni tók ég saman ýmsar hugmyndir um lestarsamgöngur fyrir Ísland sem að ég hafði unnið áður að og má sjá nánar hér:
    http://lodmundur.com/main.php?g2_itemId=85

  • Hilmar Magnússon

    P.s. lýsing Saarinen var mjög góð og mig minnir að fleiri hafi sett hana fram, en í öðru samhengi. Hún á líka víða við og gerir ekki lítið úr neinum, heldur undirstrikar ólíkt eðli faganna. Sumum lætur best að einbeita sér að afmörkuðum sviðum og kafa djúpt í viðfangsefnin. Öðrum lætur betur að halda fleiri boltum á lofti í einu og vilja hafa betri yfirsýn yfir hlutina.

    „Sér“fræðingurinn vs. generalistinn. 🙂

  • Hilmar Magnússon

    Góður pistill nafni. Sat hjólaráðstefnu í upphafi samgönguviku á dögunum þar sem m.a. fluttu erindi „sendiherrar“ frá dönsku og hollensku hjólasendiráðunum. Þar flutti líka erindi yfirmaður þessa málaflokks í Oldenburg í Þýskalandi.

    Það var mál þessa góða fólks, eftir að hafa farið í vettvangsferðir um Reykjavík á hjólum, að borgin væri ótrúlega auðveld viðureignar því hún væri tiltölulega sléttlend og yfirleitt um stuttar vegalengdir að ræða. Hér væri hægt að sækja hratt og örugglega fram fyrir tiltölulega lítinn pening, enda kostuðu innviðirnir til að bæta hjólreiðar iðulega einungis brotabrot af því sem þarf að leggja í til að þenja út fyrir einkabílinn.

    Það var líka hressandi erindið hans Dags B. Eggertssonar þar sem hann viðraði áætlanir borgaryfirvalda og sagði að það yrði að líta á hjólreiðar sem alvöru samgöngukost – fólk mætti ekki gleyma sér í einhverjum spandexfíling og líta á þetta eingöngu sem eitthvað tómstundagaman. Þá var erindi Þorsteins R. Hermannssonar verkfræðings hjá Mannviti stórfróðlegt, en hann fjallaði um aukinn hlut hjólreiða í áætlunum stjórnvalda.

    Gunnar Svavarsson hjá „Nýjum spítala“ stóð líka upp og fjallaði um áætlanir þær sem verkefnisstjórnin hefði um hlut almannasamgangna og ekki síst hjólreiða til að leysa samgönguhluta verkefnisins. Ég segi bara: loksins er farið að líta á hjólreiðar og almenningssamgöngur sem alvöru valkosti.

    Milljarðurinn sem boðað er að ríkið setji í að efla almenningssamgöngur segir mér líka að hér eigi að gera alvöru úr áætlununum. Það er sannarlega kominn tími til að ríkið komi að þessum málum með sveitarfélögunum svo að hægt verði að ná fram einhverri samhæfingu og heildrænni skipulagningu í kringum þessi mál.

    Það verður spennandi að sjá hvernig útfærslan verður.

  • Karl Kristjánsson

    Af því að Landspítalinn á í hlut fer vel á því að skoða líka heilsufarslegan ávinning af því að ganga og hjóla.
    Á heimasíðu WHO er onlline reiknivél „HEAT“ l til að meta hagfræðilegan ávinning vegna betra heilsufars, af því að byggja göngu og hjólastíga.

    „HEAT calculates the answer to the following question: if x people cycle or walk y distance on most days, what is the economic value of mortality rate improvements?“

    http://www.euro.who.int/en/what-we-do/health-topics/environment-and-health/Transport-and-health/activities/promotion-of-safe-walking-and-cycling-in-urban-areas/quantifying-the-positive-health-effects-of-cycling-and-walking/health-economic-assessment-tool-heat-for-cycling-and-walking

  • Höfuðborgarsvæðið er ekkert L.A. ,meðalfjarlægð frá vinnustað oft 3-7 km .
    Vel hægt að hjóla (nú eru rafhjól og vespur að koma inn)Ég er hjóla stundum 8 km í vinnu og er þó vel yfir 100 kg og kominn á miðjan aldur . Vorkenni því fjölbrauta og menntaskóla krökkum því lítið þó þau þurfi að ganga eða hjóla .
    Þyrfti að bjóða upp á stofnbrautar vagna hjá strætó með góðu hjólaplássi afturí ,þá geta menn samnýtt hjól og strætisvagna miklu meira en nú er.

  • Íslendingar eru ekkert öðruvísi en aðrar þjóðir. Ef einkabílnum er gert aðeins erfiðara fyrir og liðkað smá fyrir almenningsflutningum þá mun tíðarandinn breytast og fólk skilja bilinn eftir heima. Frunkvæði Landspítalans er rétt skref í rétta átt á réttum tíma

  • Stefán Guðmundsson

    Bæði arkitektar og verkfræðingar eiga sinn þátt í þessu. Þeir þurfa bara að sýna meiri staðfestu gagnvart stjórnmálamönnum sem láta stjórnast af tíðarandanum. Verkfræðingar gera oftast bara það sem þeim er sagt og þeir gera það faglega og vel. Arkitektar gera ekki altaf það sem þeim er sagt og þessvegna eru þeir stundum óvinsælir. Aðalatriðið og það sorglega er að sérfæðingarnir vita oft að þeir eru að gera vitleysu. Samanber Háskólinn í Reykjavík. Skipulagshöfundar, húsahönnuðir, stjórnsýslan og flestir sem að komu vissu að staðsetningin var slæm en samt létu þeir sig hafa það að byggja hann þarna.

  • Þorgeir Jónsson

    Í Reykjavík er u.þ.b. 20.000 ljósastaurar.
    Í Reykjavík búa 118.900 íbúar
    það eru því 6 íbúar um að halda úti hverjum staur….
    helmingur af þessum 6 eru börn.
    Það eru því u.þ.b. 4 vinnandi borgarar að borga hvern staur.
    Þéttleika borga er því vel hægt að mæla þannig.
    Ekki nema vona að borgin sé staurblönk….

    En það eru 95.000 fólksbílar í borginni….er þetta í lagi.
    Ekki hafa verkfræðingar eða arkitektar stjórnað þessu?

  • Hilmar Þór

    Ég heyrði einu sinni haft eftir Eero Saarinen (finnskum arkitekt) að munurinn á verkfræðingum og arkitektum væri sá að verkfræðingar vissu mikið um lítið meðan arkitektar vissu lítið um mikið. Svo bætti hann við að verfræðingar ættu erfiðara en arkitektar með að sjá heildina. Hafa ber í huga að þarna var arkitekt að tala.

    Verkfræðingar eru oft miklir sérfræðingar á þröngu sviði.

    Varðandi gatnahönnun og umferðaspár þá eru verkfræðingar leiðandi í þeirri vinnu. Þeir gera umferðaspánna, verkfræðingar sækja slaufurnar í gagnabanka sína og raða þessu saman. Það eru verkfræðingar sem taka ákvörðun um helgunarsvæði í framhaldi af einhverjum verklagsreglum o.s.frv.

    Auðvitað á maður ekki að alhæfa. Það getur verið sárt og jafnvel dónalegt. Verkfræðingar eru ágætir en þá skortir stundum hæfileika til þess að sjá útfyrir rammann og sjá heildarmyndina. Þeir eru oft uppteknir af að sinna sínu sérsviði.

    Það er auðvitað líka klárt mál að arkitektar eiga líka sinn þátt í þessum slaufum öllum.

    Það er einmitt kostnaður, bílafjöldi og tímalengd ferða sem ráða þróuninni og ráðgjafarnir láta undan og teikna og byggja þessi stóru gatnamót í stað þess að láta reyna á annan ferðamáta, breyta landnotkun og ná meiru jafnvægi eða sætta sig við umferðatafir.

    Ég bið verkfræðinga velvirðingar á þessu atriði en ég er nokkuð sammála kollega mínum Eero Saarinen heitnum.

    Annars er umhugsunarvert það sem Jens H. segir að ofan. Ég ætla að skoða hvort ég finni borg í Evróðu þar sem býr 150 þúsund manns sem hefur fjárfest í 15 mislægum gatnamótum innan borgarinnar!

  • EiríkurJ

    „Þeir hafa nú áttað sig á því að hugmyndafræði og hugsjón er megin aflið“ – varla rétt, held að kostnaður og tímalengd ferða ráði þróuninni miklu frekar.
    Skil nú ekki alveg hvers vegna verkfræðingum er sérstaklega eignaðar þær skipulagshugmyndir sem ráðið hafa ferðinni að undanförnu, er svipað og að kenna ætti lögfræðingum um öll lögbrot. Verkfræðingar hafa sannarlega tekið þátt í umræðu um aðra hugmyndafræði og lausnir. En einföld lausn á samgönguvanda Reykvíkinga er ekki til, þegar hvorki er fyrir hendi samþjöppun vinnustaða eða íbúðabyggðar.

  • Þessi loftmynd af gatnamótunum við Mjóddina er svakaleg. Hún ein segir manni þá sögu að Reykjavík (höfuðborgarsvæðið) er illa skipulögð. Ég efast um að það sé til 150 þúsund manna borg í Evrópu sem er með ein svona gatnamót. Hvað þá 15-20 slík eins og á höfuðborgarsvæðinu. Ég held að Landspítalinn sé á réttri leið. Það á ekki að láta undan kröfum einkabílsins þá stækkar bara vandinn. Um leið og það verður fljótara og kostnaðarminna að ferðast með strætó mun fólk skilja bílinn eftir heima.

  • Góðar pælingar – en hugsjónamaðurinn sem þú vitnar í heitir Kjartan Pétur, ekki Kristján.

    Kjartan hefur komið með hugmyndir um alls konar samgöngubætur og verið mjög hugmyndaríkur. Það væri örugglega hægt að nota a.m.k. einhverjar af hugmyndum hans ef vilji væri fyrir hendi.

  • Eiríkur Brynjólffsson

    Hér vegur þú að verkfræðingum ómaklega. það eru ekki verkfræðingar sem ákveða að byggja slaufur. Það eru stjórnmálmenn sem uppáleggja verkfræðingum að hanna götur eða gatnamót sem anna x mörgum bílum á klukkustund. Niðurstaðan verður þá oft svaufufargan eða hryllingur á við nýju Hringbrautina.
    Hitt er svo annað mál að áherslur Landsspítals um ferðamát starfsmanna koma málinu ósköp lítið við. Aðalatriðið er að áætluð eru ný bílastæði í hundrað- ef ekki þúsundavís, undir og við nýja spítalann. Annað hvort verða þessi bílastæði meira og minna tóm eða umferðaöngþveiti skapast. Því ríður á því að koma í veg fyrir að öll þessi bílastæði verði gerð. Sem betur fer skilst mér á bloggi Hjálmars Sveinssonar að borgin sé loksins að fella úr gildi reglugerð sem skyldaði alla sem byggja vildu að hafa „næg“ bílastæði. Vonandi verður framhald á og yfirvöld t.d. sjái til þessað HÍ hætti að eyða fé í að malbika allt sem auga á festir, en snúa sér í staðinn að því að mennta þá sem þess æskja.

  • Þorfinnur Ómarsson

    Þetta eru fínar pælingar og algert lykilatriði að fá svör við þessu öllu saman áður en lengra er haldið í þessu sjúkrahússkrímsli.

    Hinsvegar mætti, að mínu mati, ganga mun lengra í skipulagningu höfuðborgarsvæðisins en þarna er sýnt. Þar skiptir öllu að vippa flugvellinum útá Löngusker og láta umferðaræðar (hvort sem það er stofnbraut fyrir bíla eða léttlest) liggja þar í gegn, áfram yfir á Álftanes, og mynda þannig hringinn sem sárlega vantar.

  • Egill Helgason

    Takk Hilmar, þú lætur ekki deigan síga í þessu frábærlega skemmtilega og upplýsandi bloggi.

  • Voru það verkfræðingar og arkitektar sem í sameiningu tróðu N1 niður á Hringbraut?

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af sex og átta? Svar:

Höfundur

Hilmar Þór Björnsson arkitekt
Tilgangur síðunnar er að kynna arkitektúr, skipulag og staðarprýði ásamt því að stuðla að umræðu um efnið. Það sem fram kemur ber ekki að skilja sem skoðun höfundar heldur hugleiðingu sem sett er fram í þeim tilgangi að vekja lesendur til umhugsunar og skoðanaskipta. Tekið er á móti aðsendum greinum þegar það á við, sem þá eru á ábyrgð höfundar aðsends efnis.
Athugasemdir við færslur eru velkomnar. Þeir sem vilja koma skilaboðum til ábyrgðarmanns beint er bent á netfangið hilmarstofunni@gmail.com
RSS straumur: RSS straumur

Færslusafn