Mánudagur 07.03.2011 - 23:45 - 4 ummæli

Louisiana í Danmörku

Einhver sagði einhverntíma: “Til hvers að fara til Danmerkur ef ekki væri það til þess að heimsækja Louisiana listasafnið?” *)

Umrætt nútímalistasafn er í Humlebæk á norður Sjálandi og er það vissulega virði einnar ferðar til Danmerkur a.m.k.

Það sem gerir safnið einstakt, byggingarlistarlega, er að það er í nokkrum byggingum sem tengdar eru saman með glergöngum sem slengja sig milli trjáa í landslaginu. Ef nefna ætti eitt dæmi um byggingu sem kallast á við umhverfið og nýtir kosti þess þá kemur mér Louisiana fyrst í hug. Ekki bara að byggingin taki sjálf tillit til landsins nær og fjær heldur upplifir gesturinn landið, náttúruna og umhverfið á eðlilegan og afslappaðann hátt þegar hann færir sig milli rýma safnsins. Og þá gyldir einu hvort hann er innan- eða utandyra. Safnið er ekki síður einstakt hvað varðar myndlistina.

Byggingarnar er konfekt fyrir unnendur byggingalistar, konfekt fyrir unnendur garðlistar og konfekt fyrir unnendur ósnortinnar náttúru. Þessu til viðbótar er þarna að finna úrvalsverk eftir bestu myndlistarmenn síðari tíma í vestrænum heimi.

Alexander Brun byggði þarna hús fyrir sennilega meira en 100 árum sem hann nefndi Louisiana eftir eiginkonum sínum þrem sem allar hétu Loise. Gamla húsið stendur enn og þjónar sem aðalinngangur í safnið.

Safnið er stofnað árið 1958, af Knud W. Jensen sem átti húsið á þeim tíma. Jensen réði tvo  arkitekta, þá Wilhelm Wohlert og Jörgen Bo til verksins. Þeir urðu síðar báðir prófessorar við Listaakademíuna í Kaupmannahöfn.

Meðal listaverka í eigu safnsins má nefna verk eftir marga fremstu listamenn nútímans. Menn á borð við Roy Lichtenstein, Henry Moore Andy Warhole, Anselm Kiefer, Alberto Giacometti, Pablo Picasso, Yves Klein, Robert Rauschenberg, Asger Jörn, okkar mann Svavar Guðnason og marga fleiri

Eins og áður er getið skipar landslagið lykilhlutverk þarna. Landslagið samanstendur af  grasflötum  og hallandi grænum brekkum í átt að Eyrarsundi með áberandi stórum eðaltrjám og runnum sem mynda með útilistaverkum forgrunn útsýnis til sjávar. Á lóðinni eru þrívíð verk heimsfrægra manna eins og Jean Arp, Max Ernst, Alexander Calder (sonur Calders sem gerði Leifsstyttuna við Hallgrímskirkju) Henri Laurens, Louise Bougeois, Jean Miro og að sjálfsögðu Henry Moore.

Mér er hlýtt til Louisisana m.a. vegna þess að annar höfundanna Jörgen Bo var kennari minn og professor á Listaakademíunnin í Kaupmannahöfn. Það voru líka fleiri íslenskir arkitektar sem nutu kennslu hans. Ég nefni Sverri Norðfjörð heitinn, Albínu Thordarson, Dagnýju Helgadóttur,  og fl.  Stefán Thors skipulagsstjóri var einnig nemandi hans um tíma. Það má því ætla að þessir tveir heiðursmenn hafi skilað einhverju af kunnáttu sinni hingað til lands.

*) Mig minnir að það hafi verið Hörður Ágústsson myndlistarmaður og heiðursfélagi arkitektafékagsins sem sagði þetta þegar hann var í DK að skoða sýningu Man Ray í Louisiana fyrir einum 35 árum





Afstöðumynd og grunnmynd. Ljósgrái hlutinn er neðanjarðartenging milli álmana tveggja.


Flokkar: Óflokkað

«
»

Ummæli (4)

  • Hilmar Þór

    Þetta eru gagnlegar upplýsingar sem Birna Björnsdóttir lætur okkur í té. Upplýsingar sem ég hafði ekki hugmynd um og þakka ég Guðmundi G. fyrir að spyrja.

    Seinna hét þessi tekinistofa Nörgaard & Ginman sem breyttist enn frekar og er nú “GHB landskab”.

    Það má nefna það að Birna Björnsdóttir var um langt skeið einn þriggja meðeigenda þeirrar stofu en er nýlega hætt.

    Þetta er ein þekktasta landslagsstofan í DK. Netfangið er:

    http://www.ghb-landskab.dk/

    Þetta er spennandi stofa.

  • Birna Björnsdóttir

    Thad voru thau hjónin Edith (1919-89) og Ole Nørgaard (1925-78) sem hönnudu Louisiana í náinni smavinnu vid arkítektana Jörgen Bo og Wilhelm Wohlert. Thau stofnudu teiknistofuna 1954 og á seinni árum tók dóttir theirra, Lea Nørgaard vid ásamt Vibecke Holcher.

  • Guðmundur G.

    Hef komið þarna tvisvar. Garðurinn er mikilvægur þáttur þarna í velheppnuðu safni. Gaman væri að fá upplýsingar um hver hafi hannað hann. Getur verið að þeir Wilhelm og Jörgen hafi gert það sjálfir í samstarfi við garðyrkjumann! Var það ekki aðferðin fyrir 50-60 árum?

  • Matthildur

    Þetta er fallegasta listasafn sem ég hef séð

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af núlli og fjórum? Svar:

Höfundur

Hilmar Þór Björnsson arkitekt
Tilgangur síðunnar er að kynna arkitektúr, skipulag og staðarprýði ásamt því að stuðla að umræðu um efnið. Það sem fram kemur ber ekki að skilja sem skoðun höfundar heldur hugleiðingu sem sett er fram í þeim tilgangi að vekja lesendur til umhugsunar og skoðanaskipta. Tekið er á móti aðsendum greinum þegar það á við, sem þá eru á ábyrgð höfundar aðsends efnis.
Athugasemdir við færslur eru velkomnar. Þeir sem vilja koma skilaboðum til ábyrgðarmanns beint er bent á netfangið hilmarstofunni@gmail.com
RSS straumur: RSS straumur

Færslusafn