Sunnudagur 24.06.2012 - 21:35 - 12 ummæli

LSH – Athugasemdum ekki svarað

 

 

Þegar drög að deiliskipulagi Landspítalans voru kynnt fyrir tæpu ári var borgarbúum gefin kostur á að gera athugasemdir við hugmyndirnar. Athugasemdunum átti að skila inn fyrir mánaðarmótin sept/okt 2011 eða fyrir um 9 mánuðum.

Ég sendi athugasemd sem laut að því hvort deiliskipulagið standist meningarstefnu íslenskra stjórnvalda í byggingarlist frá árinu 2007. 

Þar  er mótuð skýr stefna vegna  framkvæmda í nábýli við eldri byggð. Orðrétt i menningarstefnunni  á blaðsíðu 23 stendur m.a. :

”Áhersla skal lögð á heildarmynd og mælikvarða þegar byggt er i eða við eldri byggð. Til að tryggja heildrænt og sögulegt yfirbragð húsa, götumynda og byggðamynsturs er nauðsynlegt að stjórnvöld framfylgi skýrri stefnu þar.”

Ég gerði athugasemdina annarsvegar vegna þess að ég hef efasemdir um deiliskipulagið og hinsvegar vegna þess að ég taldi ástæðu til þess að athuga hvort menningarstefnan hafi yfirleitt einhver áhrif. Og hvort einhver í kerfinu eða þeir sem að stefnunni stóðu héldu vöku sinni yfir „skýrri“ stefnu stjórnvalda í þessum efnum.?

Í einfeldni minni eða trú á að þetta tækifæri borgaranna til að gera athugasemdir yrði tekið alvarlega gerði ég ráð fyrir að hlé á yrði deiliskipulags- og hönnunarvinnunni þar til eftir að athugasemdunum væri svarað.

En svo var ekki og nú  9 mánuðum síðar hefur svar ekki borist. 

Mér skilst reyndar að engri athugasemd hafi verið svarað. Í raun finnst mér eins og þetta athugasemdarferli vera grín þar sem sá sem af borgaralegri þjónustulund og umhyggju fyrir borgarlandslaginu  gerir athugasemdina sé hafður að spotti. En það hlýtur auðvitað að vera einhver önnur ástæða fyrir því að athugasemdum hefur ekki verið svarað.

***

Það sem vekur líka athygli mína í umræðunni um spítalann er að menn eru sífellt að blanda hlutum saman og flækja hana.

Ég nefni dæmi.

Flestir eru sammála um að nauðsynlegt sé að endurnýja húsakost Landsspítalans. Það er almenn sátt um þetta og ástæðulaust að fjölyrða mikið um það. 

Hitt er staðsetningin. 

Mjög margir, mikill meirihluti samkvæmt skoðanakönnun, efast um að lóðin við Hringbraut henti svona stórum byggingum. 

Margir sem taka þátt í umræðunni eru sífellt að blanda þessu tvennu saman og fólki er jafnvel álasað fyrir að vera á móti framförum í heilbrygðisþjónustu vegna þess að það óttast að húsin verði byggt á röngum stað. 

Þetta er ósanngjarn málflutningur þeirra sem eru fylgjandi uppbyggingunni við Hringbraut. Að blanda nauðsyn þess að endurnýja húsakost spítalans við áhyggjur fólks vegna staðsetningarinnar þvælir umræðuna og getur skemmt fyrir framkvæmdinni.

Stjórnvöld verða að hlusta á þá sem sýna málinu áhuga og finna lausn sem sátt verður um.

***

Hér er slóð að umfjöllun um spítalann og menningarstefnuna.:

http://blog.dv.is/arkitektur/2011/09/29/menningarstefnan-og-landspitalinn/

Hér er slóð að menningarstefnu stjórnvalda. Ég ráðlegg fólki að kynna sér þessa merkilegu og vönduðu stefnu sem nú reyni á.:

http://www.fsr.is/lisalib/getfile.aspx?itemid=6051

Flokkar: Óflokkað

«
»

Ummæli (12)

  • Páll Torfi Önundarson

    Af hverju stendur ekki arkitektafélagið fyrir fundi um valkosti við byggingu spítala? Af hverju vekur það ekki máls á þessu þannig að menn verði ekki bara dæmdir af verkum sínum í næstu kosningum eftir að nýbygging (sem minnihlutinn vill) verður risin? Það er afar erfitt fyrir einstaklinga að standa upp – og jafnvæl hættulegt (í Ameríku segja menn: „Stand up – but don´t stand up alone; it is dangerous“).

  • Guðl. Gauti Jónsson

    Skrif Stefáns Benediktssonar hér að ofan gera mig bæði hissa og dapran. Í örfáum setningum tekst honum að nefna margt af því sem farið hefur úrskeiðis við undirbúning þessarar fyrirhuguðu framkvæmdar og nota sem rökstuðning fyrir henni. Óvæntast og dapurlegast finnst mér að hann skuli réttlæta málstað sinn með því að lýðræðislega kjörnir fulltrúar verði dæmdir af verkum sínum eftirá. Það er lítil huggun þeim sem munu búa við afleiðingarnar um ár og aldir.

    Menn (og borgin sem Stefán nefnir nokkrum sinnum) þurfa að átta sig á að það þarf að undirbúa af kostgæfni framkvæmd eins og þá sem hér er til umfjöllunar og sem verður líklega næst stærsta framkvæmd Íslandssögunnar. Það var ekki gert þegar staðsetning var ákveðin árið 2002 og byggingarmagn var áætlað innan við helmingur af því sem nú er. Að mínu mati kemur núverandi staðsetning ekki einu sinni til greina sem samanburðarkostur ef byggingarmagnið á að vera sem nemur byggingarmagni í öllu Fellahverfi og Mjódd eins og stefnt er að.

  • Páll Torfi Önundarson

    Hér fer fram málefnaleg umræða en vandamálið er samt það, að þeir sem hafa völdin vilja ekki slíka umræðu. Þeir ætla að byggja skv. núverandi hugmyndum SPITAL hópsins, samtals allt að 300.000 fermetra byggingamagn (með núvarandi byggingum). Og þeir notfæra sér ekki utanaðkomandi ráð.

    Það er hins vegar ofmælt hér að ofan að borgarbúar séu á móti því að byggja Landspítala á þessari lóð; hið rétta er að þeir eru mótfallnir því að byggja skv. þeirri hugmynd sem kynnt hefur verið og kostað til milljörðunum. Það er nefnilega ekki sama hvernig mál eru kynnt þegar spurt er.

    Ég held enn að það verði ekki fallið frá því að byggja á þessari lóð eins og Stefán Ben. bendir á hér að ofan. Til þess er málið komið of langt. Því finnst mér enn, að menn eigi í alvöru að reyna að vinna saman að því að gera betri tillögu um minni viðbyggingu á lóðinni. Ég minni enn og aftur á hugmynd mína og Magnúsar Skúlasonar um stækkun upp í 120.000 fermetra c.a. á efri lóðinni. Sjá á gúgglinu. Sú tillaga er alls ekki lítill spítali. Þeirri hugmynd hefur aðeins verið svarað (eins og öðrum) með órökstuddum staðhæfingum af þeim sem hafa hag af sinni eigin tillögu. T.d. fullyrðingu um að ekki sé hægt að byggja og að halda spítalanum gangandi samtímis. Af hverju er það ekki hægt ef það var hægt á ´3 stórum spítulum sem ég vann á í USA?

    Vandamál tillögu okkar Magnúsar er eins og vandamál allrar þjóðarinnar, að menn stökkva strax í varnargírinn og álíta alla vera óvini sína sem hreyfa við andmælum. Og þá er vaðið í persónuna og reynt að tortryggja hana, sem seint verður talið stórmannlegt. Ég held að arkitektar þekki þetta ekki síður en við læknarnir…

  • Pétur Örn Björnsson

    Er ekki nóg komið af Hröpu fasteignum?

    Hvernig væri að huga að hinu marga og smáa?

  • Jón Helgason

    Ég hef ekki mikið vit á skipulagsmálum. Hér er samt bókun sem sýnir að umferðamálin eru ekki nægjanlega vel unnin. Ég fullyrði að þau séu ekki rædd til botns. Minnihlutin telur þau í ólagi og meirihlutinn segir að þetta verði í lagi.

    Hvað er rétt? Hverjum á að trúa?

    „Umsókn nr. 80245
    6. Holtsgöng, nýr Landspítali, breyting á aðalskipulagi
    Lögð fram tillaga að breytingu á Aðalskipulagi Reykjavíkur 2001-2024 vegna Holtsganga nýr Landspítala dags. 7. nóvember 2011 breytt í maí 2012 ásamt greinargerð og umhverfisskýrslu dags. í maí 2012. Einnig er lögð fram umsögn Hafnarfjarðar dags. 9. maí 2012, umsögn Umhverfisstofnunar dags. 9. maí 2012, umsögn skipulagsnefndar Mosfellsbæjar dags. 10. maí 2012 og umsögn Vegagerðarinnar dags. 21. maí 2012 og umsögn skipulagsnefndar og bæjarstjórnar kópavogs dags. 24. maí 2012.

    Samþykkt að auglýsa framlagða tillögu að breytingu á aðalskipulagi skv. 31. gr. skipulagslaga, nr. 123/2010, sbr.1.mgr.36.gr.s.l, að undangenginni athugun Skipulagsstofnunar sbr. 3. mgr. 30. gr.
    Vísað til borgarráðs

    Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins Júlíus Vífill Ingvarsson og Jórunn Frímannsdóttir sátu hjá við afgreiðslu málsins og óskuðu bókað:
    “ Í bókun fulltrúa Sjálfstæðisflokks í skipulagsráði 9. nóvember síðast liðinn er varað við þeirri augljósu hættu sem stafa mun af bílaumferð á leið niður í miðborg Reykjavíkur verði ekki hugað að greiðari leiðum eins og Holtsgöngum. Umferðin mun kvíslast um þéttbyggð íbúa- og skólahverfi í Þingholtunum og meirihluti skipulagsráðs virðist telja það ákjósanlegt. Í bókuninni er lýst áhyggjum af áhrifum umferðar sem fer um íbúagötur og neikvæðum áhrifum hennar á umhverfisgæði fyrir íbúa og þau sem eru gangandi eða hjólandi í hverfinu. Nú hefur Umverfisstofnun tekið undir þessi sjónarmið og er bent á ágæta umsögn stofnunarinnar sem dagsett er 9. maí sl. í því sambandi. Í umsögninni stendur m.a. að Umhverfisstofnun telur að gera hefði átt grein fyrir áhrifum á þær götur sem bera munu aukna umferð m.t.t. hljóðvistar og loftgæða í ljósi þess að fallið verður frá lagningu Holtsganga. Umhverfisstofnun telur einnig að meta hefði mátt flutningsgetu aðkomuleiða að LSH í ljósi þeirrar aukningar á umferð um þessar götur sem umferðaspár gera ráð fyrir. Undir þessi sjónarmið Umhverfisstofnunar er tekið.“

    Fulltrúar Besta flokksins Páll Hjaltason, Elsa Hrafnhildur Yeoman og Einar Örn Benediktsson og fulltrúi Samfylkingarinnar Stefán Benediktsson óskuðu bókað:
    „Brugðist hefur verið við athugasemd Umhverfisstofnunar (sbr. umsögn dagsett 9. maí 2012) um ítarlegri umfjöllun um áhrif uppbyggingar á umferð á nálægum svæðum. Gerð er grein fyrir þeim áhrifum í meginatriðum í umhverfisskýrslu aðalskipulagsbreytingar, auk þess sem sérfræðiskýrslur um aukningu umferðar eru nú settar fram í viðauka greinargerðar aðalskipulagsins. Eftir sem áður er áfram vísað til ítarlegri umfjöllunar um umhverfisáhrif í gögnum deiliskipulagsins, enda munu aðal- og deiliskipulagstillögur verða kynntar samhliða og öll gögn aðgengileg á sama staða á auglýsingatíma skipulagstillagnanna.
    Ljóst er einnig af niðurstöðum umferðarreikninga að möguleg aukning umferðar á einstökum götum, vegna niðurfellingar Holtsganga, er óveruleg. Aðalatriðið úr niðurstöðum umferðarreikninga er að umferð dreifist mjög jafnt á götur miðborgarsvæðisins. Þar sem aukning er svo óveruleg í hverju tilviki, er ekki raunhæft á grundvelli gagnanna að fjölyrða um áhrif á hljóðvist eða loftgæði við einstakar götur, ekki síst í ljósi þess að hér er um fjarlæga framtíð að ræða.“

  • Hilmar Þór

    Mikið þakka ég Stefáni Benediktssyni kollega mínum fyrir að taka þátt í umræðunni hér á þessum vef. Og sérstaklega þessa færslu sem varðar mál sem hann hefur komið að á ýmsum stigum. Hann er einnig aðili að bókun meirihlutans eins og kemur fram í athugasemd Guðlaugs Gauta.

    Tilvitnun Stefáns í athugasemd mína kemur ekki á óvart enda ekki tilefnislaust.

    Ég vil reyna að skýra þetta sjónarmið nánar.

    Ég er þeirrar skoðunar að þegar stór umdeild mál liggja á borði sveitarstjórna þurfi að leita breiðari samstöðu en þegar um er að ræða smærri mál. Ná þarf upp breiðri umræðu sem er lausnamiðuð. Borgararnir þurfa að verða þess áskynja að á þá sé hlustað. Lýðræðislega kjörnir fulltrúar þurfa að hlusta á vilja kjósenda og taka að einhverjum hluta mið af honum. Sannfæra borgarana um að tekið sé tillit til sjónarmiða þeirra svo ekki sé meira sagt.

    Þegar ég tala um að fulltrúarnir þurfi að sannfæra umbjóðendur sína á ég við að þeir skýri niðustöðuna út fyrir þeim þannig að kjósandinn átti sig á hvernig fulltrúinn komst að niðurstöðunni. Það hafa þeir ekki gert . Við vitum niðurstöðu meirihlutans en vitum ekki hvernig þeir komust að henni. Það er eins og málið sé flokkað eftir stjórnmálaflokkum. Ég sem fagmaður get ekki séð að þetta sé flokkspólitískt mál og hefði viljað að fyrir niðurstöðunni væri traustur meirihluti þvert á flokka sem væri í takti við vilja borgarbúa. En svo er ekki.

    Varðandi Lanspítalann við Hringbraut sýnir skoðanakönnun að mikill meirihluti er andsnúinn byggingu stofnunarinnar við Hringbraut. Við vinnslu deiliskipulagsins var ekki tekið tillit til sjónarmiða þeirra sem þátt tóku í umræðunni. Meðferðakjarninn hefur stækkað þvert á athugasemdir borgarbúa. Óskir borgarbúa um að aðlaga byggingarnar betur að umhverfinu hefur verið hafnað. Athugasemdum vegna formlegrar kynningar er ekki svarað.

    Smá andsvör í lokin.

    Þegar staðurinn var valinn (fyrir 80 árum) óraði engan fyrir tæplega 300 þúsund fermetrum á þessum stað fyrir utan að borgin er önnur nú en fyrir 80 árum eins og allir sjá.

    Menningarstefnuna er ekki hægt að afgreiða í stuttu máli. Hún tekur á málinu í víðu samhengi.

  • stefán benediktsson

    „Svo finnst manni ekki nægja að kjörnir fulltrúar okkar séu “sannfærðir”. Þeir þurfa að sannfæra umbjóðendur sína um niðurstöðuna“. B
    orgarstjórn er ekki baráttuhópur fyrir LSH, hún er ekki einsmálshreyfing. Ákvarðanir og sannfæring tekur til heildarsjónarmiða og lýðræðislegir fulltrúar eru dæmdir af „sannfæringu“ sinn eða verkum eftirá.
    „Að sannfæra umbjóðendur sína“ verður aldrei mælt nema í kosningu. Kjörnir fulltrúar verða sannarlega að gæta sín á að taka réttar ákvarðanir.

    Kosning í dag um staðsetningu væri mjög undarlegur hnykkur á yfir 20 ára samfelldu ferli gagnvart viðsemjendum borgarinnar. Menn verða að fara að horfast í augu við þá staðreynd að það er langt síðan staðsetningin var ákveðin og sú ákvörðun byggir á hagkvæmni fyrir spítalann og hagkvæmni fyrir borgina. Það hefur í langan tíma verið úr hendi borgarinnar að neita uppbyggingu á „sjúkrahússlóð“ sem ríkið hefur haft til umráða í um 80 ár og þessvegna lengi verið unnið að því að haga skipulagi þannig að sem best niðurstaða fáist fyrir borgina.

    Hvað menningarstefnunni viðkemur, ógna áætlaðar nýbyggingar ekki samræmi við jaðarbyggð meira en nú er gert með barnaspítala, kvennadeild, legudeild gamla spítala og geðdeild. Nýbyggingarnar eru allar austan og sunnan við þessar byggingar.

  • Hilmar Þór

    @ Guðl. Gauti

    Þetta er athyglisverð bókun og margt sérkennilegt við hana.

    Ég nefni eitt.

    Staðsetningin var aldrei hluti af neinni samkeppni og því ekki hægt að nota niðurstöður frá þeirri vinnu sem rökstuðning fyrir staðarvalinu. Þetta er vægt sagt rangfærsla.

    Þar fyrir utan var gert ráð fyrir minna byggingarmagni þegar staðarvalið fór fram. Í skýrslu frá árinu 2004 var gert ráð fyrir að heildarbyggingamagn yrði ekki meira en 196.300 fermetrar og þá var svokallað U svæði með í dæminu.

    Nú er verið að vinna deiliskipulag sem gerir ráð fyrir um 100.000 fermetraum til viðbótar á minni lóð eða alls tæplega 300.000 fermetrar.

    Svo finnst manni ekki nægja að kjörnir fulltrúar okkar séu “sannfærðir”. Þeir þurfa að sannfæra umbjóðendur sína um niðurstöðuna. Það hefur þeim ekki tekist og ekki bætir þessi bókun stöðuna og/eða trúverðugleikann.

    Kjörnir fulltrúar þurfa að gæta sín.

  • Þorbjörn

    Þetta getur ekki talist góð embættisfærsla. Það er bara eitt hægt að segja við þessu: „Helvítis fokking fokk“

  • Guðl. Gauti Jónsson

    Átjánda apríl s.l. fékk ég þau svör hjá Skipulagssviði Reykjavíkur að innsenndum athugasemdum hefði ekki verið svarað. Það er líka athyglisvert að skoða bókun meirihlutans við afgreiðslu málsins 13. júní s.l. Það má spyrja sig hvort ætla megi að þeir sem stóðu að þessari bókun séu færir um að gefa hlutlæg svör við innsendum athugasemdum.

    Bókunin:
    Fulltrúar Besta flokksins Páll Hjaltason, Elsa Hrafnhildur Yeoman og Einar Örn Benediktsson og fulltrúi Samfylkingarinnar Stefán Benediktsson óskuðu bókað:

    “ Fulltrúar Besta flokksins og Samfylkingar fagna því að að tillaga að deiliskipulagi fyrir Nýjan Landspítala-Háskólasjúkrahús við Hringbraut skuli nú tilbúin til auglýsingar, eins og skipulagslög gera ráð fyrir. Staðsetningin hefur legið fyrir um árabil. Fulltrúar Besta flokksins og Samfylkingar eru sannfærðir um að þetta sé besta mögulega staðsetningin. Tillagan hefur verið í vinnslu í tvö ár og hefur verið rædd ítarlega. Hún er niðurstaða mikils undirbúnings og tveggja samkeppna. Hún hefur tekið mörgum jákvæðum breytingum í meðferð skipulagsráðs. Mikil áhersla er lögð á að spítalinn fylgi eftir metnaðarfullri, vistvænni samgöngustefnu. Mikilvægur árangur hefur náðst í samningum við ríkisvaldið sem fela í sér að spítalinn byggist upp á minna svæði en upphaflega var áformað. Það kemur meðal annars í veg fyrir að stór landsvæði á mikilvægum stað við miðborgina séu ónýtt til langs tíma. Fulltrúar Besta flokksins og Samfylkingar eru meðvitaðir um viðkvæmt nábýli við íbúðarbyggðina í sunnanverðu Skólavörðuholti en telja að fyrirhugaðar byggingar muni fara ágætlega í borgarlandslaginu. Vakin er athygli á því að þéttleikinn á fyrirhugðum byggingarreitum er sambærilegur við þéttleikann í miðborg Reykjavíkur og í fyrirhugaðri byggð í Vatnsmýri. „

  • Jón Þ. Jónsson

    Þetta deiliskipulagsferli fer fram á einkennilegan hátt án þess að vandamálið sé einangrað og tekið til rækilegrar umfjöllunar og fundin laus. Í stað þess læðist það áfram í embættismannakerfinu.

  • Guðmundur G.

    Góð færsla og ekki tilefnislaus.

    Sennilega dregst að svara athugasemdinni vegna þess að enginn þorir að leggja mat á hvort deiliskipulagið standist menningarstefnuna, sem það gerir augljóslega ekki.

    Embættismenn hjá borg og ríki þora því sennilega ekki…… Svona er Ísland í dag

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af sjö og þremur? Svar:

Höfundur

Hilmar Þór Björnsson arkitekt
Tilgangur síðunnar er að kynna arkitektúr, skipulag og staðarprýði ásamt því að stuðla að umræðu um efnið. Það sem fram kemur ber ekki að skilja sem skoðun höfundar heldur hugleiðingu sem sett er fram í þeim tilgangi að vekja lesendur til umhugsunar og skoðanaskipta. Tekið er á móti aðsendum greinum þegar það á við, sem þá eru á ábyrgð höfundar aðsends efnis.
Athugasemdir við færslur eru velkomnar. Þeir sem vilja koma skilaboðum til ábyrgðarmanns beint er bent á netfangið hilmarstofunni@gmail.com
RSS straumur: RSS straumur

Færslusafn