Mánudagur 18.06.2012 - 07:14 - 19 ummæli

Ólöglegir heitir pottar – Byggingareglugerð

 

Viða í erlendum arkitektatímaritum er fjallað um heita potta sem eru hluti af landslaginu. Þeir eru oft vel staðsettir og fallegir.

Færslunni fylgja myndir af þrem slíkum pottum.

Vinkona mín spurði af hverju við íslenskir arkitektar getum ekki teiknað slíka ægifagra potta sem nýtast bæði til baða og til augnayndis?  Af hverju arkitektar geti ekki hannað fallega potta sem eru hluti af landslaginu í stað þess að lyfta vatsfletinum sífellt upp um eina 40 cm?

Ástæðuna er að finna í bygginareglugerðinni, sem er að mestu samin af embættismönnum og án teljandi aðkomu arkitekta.

Reglugerðin bannar  frágang eins og sjá má á meðfylgjandi myndum.

Í grein byggingareglugerðar nr.: 12.10.4 stendur.:  Setlaugar á lóðum íbúðar- og frístundahúsa skulu búnar læsanlegu loki til að hylja þær með þegar þær eru ekki í notkun. Barmur setlaugar skal vera a.m.k. 0,40 m yfir göngusvæði umhverfis hana.

Brunnlok skulu vera fest og þannig frágengin að börn geti ekki opnað þau.

Þótt mönnum gangi gott eitt til þá er þetta ágætt dæmi um þá forsjárhyggju sem víða er að finna í byggingarreglugerðinni. Þar eru mörg ákvæði sem ættu að vera á valdi þeirra sem hanna og fjárfesta. Ríkið virðist telja sig vita betur um hvernig folk vill búa og ekki bara það heldur tekur af því völdin.

Nokkur dæmi úr gildandi reglum:

Eldhús má ekki vera minna en 7 m2 þó nægir eldhúskrókur sé íbúðin minni en 50 m2. Sér geymslur skulu vera stærrin en 6m2 ef íbúð er yfir 80 m2.  Í hverri íbúð skal vera baðherbergi sem ekki er minna en 5 m2 og ef íbúðin er stærri en 110 m2 skal auk þess vera auka snyrting með handlaug og salerni. Í öllum íbúðum skal minnst eitt herbergi vera stærra en 18m2. Í hverri íbúð skal vera læsanlegur skápur til geymslu á lyfjum. Hverri íbúð skal fylgja skápur fyrir ræstingatæki. Í hverri íbúð skal vera bakaraofn og pláss fyrir uppþvottavél. Hverju íbúðarhúsi skal fylgja leiksvæði barna á lóð.

Einhvernveginn finnst manni að fólk megi sjálft meta hvort það telji sig þurfa tvær snyrtingar í íbúð sinni eða hvort það vilji fjárfesta í bakarofni eða læstum lyfjaskáp. Má íbúinn ekki ráða því sjálfur hvernig hann geymir lyfin sín. Af hverju er ekki ákvæði um það hvernig hann geymir áfengið sitt eða búrhnífana og skærin? Og er eitthvað á móti því að sleppa eldhúsi og útbúa eitt alrými þar sem er að finna glæsilega eldunaraðstöðu, borðstofuborð og aðstöðu til að horfa á t.a.m. sjónvarp ef fólk hefur áhuga á því?  Er ástæða til þess að krefjast þess að fjárfest sé i tveim snyrtingum ef fólk telur sig ekki þurfa á því að halda?  Af hverju á sá sem aldrei bakar að fjárfesta í bakarofni? Á þetta ekki að vera val?

Flokkar: Óflokkað

«
»

Ummæli (19)

 • Mynd nr. 2 er frá Conrad hótelinu í Koh Samui í Tælandi. Gisti þarna í viku í Janúar.

  Flott að stíga út úr hótelvillunni, niður í laugina og fara að barmi laugarinnar og horfa á sólarupprásina/sólarlagið og horfa á ströndina 40-50 metrum fyrir neðan laugarbarminn.

 • Hilmar Gunnarz

  Svo má velta þessu fyrir sér:

  margir skapandi einstaklingar búa sér til hindranir til að ná fram frumlegum lausnum. Það má vel líta á byggingarreglugerðir sem ákveðna hindrun sem þarf að yfirstíga með snjöllum lausnum án þess að brjóta beinlínis á þeim.

  Ég er ekki í nokkrum vafa um að pottagátuna sé auðveldlega hægt að leysa þannig að vatnsflötur verði í göngufleti og allir verði ánægðir… 🙂

 • Guðmundur Guðmundsson

  Á hápunkti þenslunnar fór ég og skoðaði fjölda nýrra íbúða sem voru til sölu í fjölbýli.

  Ég var að leita að 4 til 5 herb íbúð ca 100 til 120 fm. Í þessari íbúðarstærð geta búið að staðaldri allt að 5 til 6 manns, eftir fjölskyldustærð. Við gestakomur geta síðan 10 manns verið samankomnir í íbúðinni.

  Það segir sig því sjálft að tvö WC er praktískt í svona íbúðum.

  Sem gestkomandi hugsar maður annars hönnuði þegjandi þörfina. Heimasætan bregður sér í hálftíma sturtu og teppir um leið eina salernið í íbúðinni.

  Næstum allar íbúðir sem ég skoðaði voru einungis með einu WC, og voru sumar þó upp að 130 fm að flatarmáli. Er þetta ekki hönnunargalli ? Þessar íbúðir voru byggðar ca á tímabilinu 2003 til 2008.

 • Guðl. Gauti Jónsson

  Vilja menn kalla það forsjárhyggju að bensíngjöfin sé hægra megin í gólfinu á öllum bílum sem ekki eru útbúnir vegna sérþarfa og að það skuli vera baksýnisspegill í þeim. Er það líka forsjárhyggja að neyða menn til að aka hægra megin á vegum.

  Fólk getur komið sér fyrir og búið eins og það vill í íbúðum svo lengi sem það veldur öðrum ekki ama. En íbúinn sem notar ekki síma, útvarp eða bakaraofn og hækkar aldrei róminn en hefur dregið fyrir og opnar aldrei glugga, hann verður að sætta sig við að lágmarksskilyrði um hljóðeinangrun, gluggastærð og loftræsingu séu uppfyllt fyrir íbúðina. Að vísu er líklegt að þessi tiltekni einstaklingur eigi erfitt með að klára sig upp á eigin spýtur í samfélaginu almennt.

  Opinberir aðilar nota almannafé til að skapa aðstæður sem gera okkur mögulegt að búa í þéttbýli. Húsbyggingar, veitukerfi og önnur almannaþjónusta eiga sér oftast talsvert lengri líftíma en einstakir notendur. Það er varla forsjárhyggja þó þjóðfélagið reyni að vernda langtíma fjárfestingar sínar með almennum reglum frekar en að þeim sé fórnað fyrir skammsýni og duttlunga.

  Hitt er svo annað mál að mörkin milli almannahagsmuna og forsjárhyggju geta verið umdeild. Lyfja- og kústaskápar skipta engu máli en nú eiga að vera tvö salerni í stærri íbúðum. Þeir sem hafa hannað íbúðir vita hve erfitt er að koma öllum þessum smáherbergjum fyrir án þess að rýra um leið önnur gæði. Það vill stundum gleymast.

 • Þorgeir J

  Við eigum að bera virðingu fyrir þeim byggingarreglum sem byggja á sárri reynslu. Eldsvoðar og slys í íbúðarhúsum hafa skapað þessar reglur. Sárreynslureglugerðir mætti kalla þær. Tökum mark á fólkinu sem vinnur við þetta daglega. Arkitektar hafa ekki lagt sig fram á þessu sviði. (Forvarnardeildin hjá eldvarnareftirlitinu ekki meðtalin)
  Af hverju hundsaði heil kynslóð arkitekta aðgengismálin?
  Svo má deila um ofverndina og fyrirhyggjuna útaf fyrir sig.
  Danir eru frjálsari en Svíar t.d. Þeir leggja meiri ábyrgð á foreldra og forsvarsmenn barna varðandi öryggi á heimilum.

 • Guðmundur G.

  Það er allt meira og minna rétt sem hér kemur fram en því verður ekki mótmælt að fólkið veit best sjálft hvernig það ver peningum sínum og hvernig það vill búa.

 • Jón Þ. Jónsson

  Þetta er óvenju góð umræða hér á netinu. Hér takast á tvær stefnur; Frjálshyggjan og forsjárhyggjan. Báðar stefnurnar hafa mikið til síns máls og báðar fara þær offari í sínum málflutningi, flestum til tjóns.

 • Guðjón Erlendsson

  Það er margt í þessari byggingareglugerð sem lítur mjög einsstrengingslega á lausnir við sértækum aðstæðum, en þetta er reglugerð en ekki lög. Sem slík ætti verið hægt að hanna „útfyrir“ reglugerðina, svo lengi sem ástæðu tiltekinna reglu er leyst á rökrænan hátt. Því miður er vandinn oftast falinn í embættismönnum sem eru bókstafstrúarmenn á reglugerðir og skortir allt hugmyndaflug.

  En eitt er mjög gott við Íslensku reglugerðina, en það er krafan um grunn staðla varðandi herbergisstærðir, dagsljós, geymslu ofl. Bretar t.d. tóku allar slíkar reglur af á tímum Thatchers og húsnæðisgæði þar eru vægast sagt hræðileg. Þegar engir lágmarks staðlar eru til, þá er byggt eins lítið og hægt er að selja, og þar fá arkitektar ekkert að segja um málið.
  Félagslegar íbúðir eru þær einu sem eru með staðla í Bretlandi (ekki frá ríkinu) og þær eru t.d. mun stærri en íbúðir á frjálsa markaðnum, þrátt fyrir að vera samkvæmt minnstu stöðlum.

 • Þorsteinn

  40 cm upphækkun kemur nú ekki í veg fyrir að barnið detti ofan í, nema kannski mjög ungur dvergur 😉 Meginhættan felst auðvitað í því að smábörn séu valsandi í kringum heita potta eftirlitslaus enda lætur enginn maður með viti þau gera það – hvort sem þeir eru 40 cm frá jörðu eða ekki. Ég bendi á að sundlaugar landsins eru væntanlega flestar ólöglegar miðað við þessar kröfur.
  Að halda því fram að ákvæði ekki megi selja íbúð nema í henni sé læstur lyfjaskápur eigi „fullann (svo) rétt á sér“ er auðvitað bara kjánalegt. Eða leiksvæði barna á lóð? Af hverju er ekki hreinlega tiltekið sérstaklega að slík leiksvæði skuli fylgja íbúðum fyrir aldraða svo það fari nú ekki á milli mála?
  Staðreynd málsins er auðvitað sú að um leið og hrúgað hefur verið upp einhverju embættismannastóði í stofnun hjá ríkinu tekur það til við að réttlæta tilveru sína. Það er meginmarkmið reglugerðafargansins, því fleiri reglugerðir, því fleiri starfsmenn þarf að ráða í stofnunina og því mikilvægari verður hún í augum þeirra sem starfa í henni og stjórna henni.

 • Rúnar Ingi Guðjónsson Byggingafræðingur BFÍ

  -frá mínum bæjarhóli séð, þá eru þessi ákvæði sett í reglugerð til að tryggja að lágmarkskröfur séu uppfylltar. Að mestu leyti snýst þetta um öryggi og heilsu íbúa viðkomandi bygginga. – Byggingareglugerðin er fyrst og fremst neytendalöggjöf.

  -En ég er sammála því að á einstaka sviðum gengur hún fram úr þessum grundvallarskyldum sínum. Hvað kemur það neytendavernd við;krafan um tvö baðhergbergi og krafan um bakaraofn?

  -Á hinn bóginn eru þarna ákvæði sem eiga fullann rétt á sér,eins og kröfur um loftræstingu,aðgengismál,læsta lyfjaskápa,slökkvitæki,reykskynjara osfr.


  En varðandi réttindamál, þá mætti horfa meira til samstarfs allra þeirra sem hafa menntað sig til byggingastarfa víðs vegar um heiminn. hér er ég að meina Tæknifræðinga,Verkfræðinga,Byggingafræðing og Arkitekta.
  Arkitektar eru ekki þeir einu sem hafa menntað sig til starfa við byggingahönnun. Menn verða að meta þær sérþekkingu sem hver og einn hefur aflað sér, og virða skoðanir annara þótt menn séu ekki með „réttu skólagönguna“

 • Þessi krafa um 40 cm barm er til að minnka hættuna á því að óvitar (smábörn) detti ofan í og drukkni.
  Hér hefur náðst sá árangur að Ísland er nú kominn í hóp þeirra landa þar sem fæst slys eru á börnum innan OECD en fyrir um 20 árum síðan vorum við neðarlega á þeim lista.

 • Hilmar Gunnarz

  Ábendingin er góð. Ég tel að hluti ástæðunnar sé að finna í þjóðarsálinni og hinn hlutann hjá arkitektunum sjálfum. Það má vel vera að reglugerðin sé hörmung á köflum og klárlega stuðlar hún að hækkun byggingarkostnaðar. Þessi þróun hefur átt sér stað beint fyrir framan nefið á okkur án þess að nokkrum andmælum sé beitt.

  Íslendingar setja trefjapott og Byko-girðingar í garðinn hjá sér og virðist engu máli skipta í hvernig samhengi það dvelur. Niður skal potturinn og upp skal Byko-girðingin úr rakavörðu afgangs/drasl timbri einhversstaðar frá evrópu (það er svo önnur Ella).

  En hvar er svo viljinn til að breyta þessu ? Þarna er enn eitt dæmið af mörgum þar sem arkitektar hafa gloprað sínum málum.

  Ég sat fund á vegum Arkitektafélags Íslands um daginn varðandi samkeppnismál. Á fundinn mættu örfáar hræður og flestar hræðurnar voru miðaldra karlar, svo ég vitni í sjálfan formanninn. Það er athyglisvert hversu fáir mæta til að fjalla um eins mikilvægt málefni og ekki var sýnilegur neinn einasti ungur arkitekt (sennilega flestir í Noregi að vinna).

  Verkfræðingar eru svo löngu búnir að mala okkur á flestum sviðum sem varða húsbyggingar. Þeir geta einir lagt fyrir öll erindi til byggingarfulltrúa en arkitekt getur eingöngu lagt fyrir aðalteikningar og séruppdrætti sem eru örugglega í mörgum tilfellum teiknaðir af byggingarfræðingi. Eins getur vanur arkitekt ekki tekið að sér byggingarstjórnun í verki sem hann hefur hannað sjálfur. Er ekki eitthvað bogið við þetta ?

  Tölum um sumarhús og smærri einbýli: ætti arkitekt ekki að geta tekið örnámskeið um burðarvirki í smærri mannvirkjum og geta skrifað upp á og ábyrgst burðarvirki þess ? Mér þætti það fullkomlega eðlilegt.

  Þessar staðreyndir skekkja samkeppnisaðstöðu arkitekta og takmarkar möguleika þeirra til að afla verkefna og tekna. Verkfræðingar geta undirboðið/eyðilagt markaðinn í skjóli réttinda sinna til margbreytilegra uppáskrifta og ábyrgða.

  Mér finnst að arkitektar geti vel storkað örlögum þessarar byggingarreglugerðar ef þeir hætta þessum rolugangi. Þetta er bara lögfræði og við þurfum að beita aðferðum hennar í þessum málum og búa til fordæmi og sýna sterka samstöðu. Við sköpum okkar vinnuumhverfi og enginn annar.

  Viðurkennd leið til að storka örlögum byggingarreglugerðar og stuðla að framþróun byggingarlistar er að skapa umhverfi og samþykktir til tilraunaverkefna. Þetta er gert víða um heim og er styrkt af ríki, bæjarfélögum, nýsköpunarsjóðum, einkafyrirtækjum og allra þeirra sem sjá hag sinn í gjörningnum. Nærtækasta dæmið er Noregur. Þessi ákvæði eru sett inn í menningarstefnu þeirra í byggingarlist.

  Arkitektar þurfa að skapa verkefni sem reyna af einhverri alvöru á þolrifin á reglugerðinni.

  Allt hálfkák reynist gagnslaust.

 • Guðl. Gauti Jónsson

  Sæll Hilmar.

  Við lestur þessa pistils þíns kemur embættismaðurinn upp í mér. Mörg atriði í byggingarreglugerð eru öryggisatriði. Það er t.d. minni hætta á að börn detti ofan í upphækkaða setlaug og ekki er öruggt að eftirlit með setlaug sé alltaf svo gott að ungbarn geti ekki skriðið út í hana og e.t.v. drukknað. Það er til nokkurs að vinna að hafa öryggið eins mikið og gott og við höfum vit á. Reyndar eigum við um allt land bæði sundlaugar og setlaugar sem eru ekki síðri en dæmin sem þú sýnir.

  Önnur atriði í byggingarreglugerð varða fremur almenn gæði íbúða og neytendavernd. Fyrir flesta er íbúðin stærsta fjárfestingin sem þeir ráðast í og því fer fjarri að allir geri sér grein fyrir eða geti sannreynt í hverju gæði íbúðar felast. Reglugerðir setja lágmarkskröfur sem framleiðendum íbúðarhúsnæðis ber að fara eftir og kaupendur eiga að geta reitt sig á. Þetta er eins með t.d. bila og rafmagnsvörur.

  Ég fæ ekki séð að byggingarreglugerðin komi í veg fyrir opið eldhús eins og þú lýsir en viðbótar salerni í stærri íbúðum er nýtt ákvæði. Hvaðan það kemur veit ég ekki og man ekki til þess að nauðsyn á því hafi verið til umræðu meðan ég vann hjá byggingarfulltrúa.

 • Borghildur Sturludóttir

  Þessi umræða átti sér m.a stað á vefsíðu minni…og fyrirsögnin var þessi „…en hér geymum við alla okkar potta vel girta_ bak við húsasmiðjubykomúra..“ og meðfylgjandi mynd sem príðir nú síðuna þína.
  Hér var ekki verið að tala um hvort að arkitektar gætu eða gætu ekki teiknað slíka ægifagra potta, hér á landi er nefnilega svo mikið „gert“ án þess að nokkuð sé almennilega teiknað hvað þá hugsað. Án þess að ég hætti mér útí umræður um það hverjir mega skila inn teikningum (en þeir eru miklu fleiri en „bara arkitektar“) þá er það alveg rétt sem þú ferð inná varðandi laga og reglugerðaumhverfi okkar. Það fjallar lítið sem ekkert um upplifanir , gæði eða fagurfræði.
  Það er náttúrlega stórhættulegt að lifa hérna, hvað þá að upplifa náttúruna svo að ég bíð spennt eftir rammgirtum hverum og fossum. Hér er á ferðinni þörf umræða sem við þurfum að vera öflug í. Rísandi ferðamanna“iðnaður“ verður að vera hugsaður til framtíðar en ekki til næsta hausts. Hvað við ætlum að bjóða uppá og hvernig skiptir hér miklu máli.

 • Steingrímur

  Hvað með strandlengjuna, vötnin og árnar. Nær engin reglugerð yfir frágang þeirra? Hafa reglugerðaprófastarnir ekkert eftirlit með himnasmiðnum?

 • Ég er ekki að tala um almenningssundlaugar, þar sem sérstakar reglur gilda um aðganginn, heldur einkasundlaugar um landsins breiðu byggð.

 • Ef barmur setlaugar á að vera a.m.k. 0.4 m yfir göngusvæði umhverfis hana gegnir þá ekki sama máli um sundlaugar?

  Ef ekki, hvers vegna ekki?

 • Guðmundur G.

  Tvennt vil ég benda á. Það er skemmtileg hugsun að líta á pottinn sem hluta af lanslaginu eins og er á efstu og neðstu myndinni og sjá himininn speglast í vatninu. Og að þessi reglugerð og eftirlitsiðnaðurinn er húsbyggjendum og skattgreiðendum dýr.

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af sex og sex? Svar:

Höfundur

Hilmar Þór Björnsson arkitekt
Tilgangur síðunnar er að kynna arkitektúr, skipulag og staðarprýði ásamt því að stuðla að umræðu um efnið. Það sem fram kemur ber ekki að skilja sem skoðun höfundar heldur hugleiðingu sem sett er fram í þeim tilgangi að vekja lesendur til umhugsunar og skoðanaskipta. Tekið er á móti aðsendum greinum þegar það á við, sem þá eru á ábyrgð höfundar aðsends efnis.
Athugasemdir við færslur eru velkomnar. Þeir sem vilja koma skilaboðum til ábyrgðarmanns beint er bent á netfangið hilmarstofunni@gmail.com
RSS straumur: RSS straumur

Færslusafn