Mánudagur 15.02.2010 - 17:45 - 8 ummæli

LSH og nýliðun í arkitektastétt

Jóhannes Þórðarson deildarforseti hönnunar- og arkitektúrdeildar Listaháskóla Íslands skrifar athugasemd við færslu mína s.l. föstudag.

Ég leyfi mér að birta skrif hans í heild sinni þar sem hann lýsir áhyggjum sínum af meðferð höfundarréttar og hvaða áhrif hún kunni að hafa á byggingalistina í landinu. Hann veltir líka fyrir sér  nýliðun í greininni, möguleika ungs hæfileikafólks til þess að hasla sér völl og skapa sér framtíð í faginu. Að lokum spyr hann ögrandi spurninga um sinnuleysi arkitektastofanna í þessi stóra máli. Þetta eru orð í tíma töluð. Gefum Jóhannesi orðið:

“Það er nauðsynlegt með hliðsjón af því sem fram kemur í þessu ótrúlega máli að benda á að góður arkitektúr snýst um form, hlutföll og rými þar sem öllu er ætlað að framkalla minnisstæðar upplifanir og tengsl. M.ö.o. arkitektúr er ætlað að tengja saman verðmætamati í formi, efni, rými og hughrifum. Þetta eru allt saman grunnatriði sem reyna á sköpun, frumleika og skýra hugsun þeirra sem leggja fram hugmyndir sínar. Það er einmitt á þessum forsendum sem arkitektar hafa öldum saman staðið vörð um höfundarrétt og því óskiljanlegt með öllu að þeir séu reiðubúnir til þess að henda honum fyrir borð á þeim tímum sem við erum að upplifa einmitt núna.

Í þessu samhengi er rétt að minna á menningarstefnu íslenskra stjórnvalda í mannvirkjagerð sem enn er í fullu gildi. Þar segir m.a. „Hönnunarsamkeppni hvetur til fjölbreytni, nýsköpunar og frumlegra lausna. Hönnunarsamkeppni hvetur til fjölbreytni, nýsköpunar og frumlegra lausna. Þær umræður sem eiga sér stað við dómnefndarstörf draga fram aðalatriði og skerpa áherslur verkefnis. Verkkaupi fær þannig betri innsýn í ólíka þætti verkefnis og þær lausnir sem mögulegar eru. Mikilvægt er að fyrirkomulag og forsagnir bindi ekki hendur þátttakenda í samkeppni meira en nauðsyn krefur og gott þykir enda eiga þær að hvetja til svigrúms gagnvart skapandi hönnunarlausnum.

Forskriftir hönnunarsamkeppna þurfa að vera sveigjanlegar til að gefa þátttakendum tækifæri til að beita hugvitssemi og koma með nýjar lausnir. ……. Kappkosta skal að bjóða upp á samkeppnir sem hvetja til aðkomu yngri hönnuða og leiða þar með til nýliðunar í greininni.“

Nú getum við spurt okkur hvort fyrirkomulag þess forvals sem hér er rætt um skerpi vitund um góða byggingarlist? Og hvar er svigrúmið? Og hvar er metnaður stjórnvalda til sköpunar og frumleika við umrætt verkefni? Snýst þetta kannski allt saman um verkfræði? Og hvenær hefur höfundarréttur arkitekta þvælst fyrir verkkaupum?

Arkitektastofur virðast engan áhuga hafa á þeim grunngildum sem höfundarréttur fjallar um.

Jóhannes Þórðarson”

Flokkar: Óflokkað

«
»

Ummæli (8)

  • Hrollur Hollustuson

    Nú er skorað á alla arkitekta og samtök þeirra að skifta ekki við þær fimm verkfræðistofur sem taka þarna freklega vinnu frá arkitektastéttinni og niðurlægja hana.

    Þær eru:

    Verfræðistofan Efla
    Verkfræðistofan Verkís
    Verkfræðistofan Mannvit
    Verkfræðistofan VSÓ
    Almennu verkfræðistofuna

    Verkfræðingar eiga að sinna sínu og ekki vera að fara inná svið arkitekta. Þarna ganga stofurnar freklega inná verksvið samstarfsfélaga sinna til áratuga.

    Það eru einhverjar aumar arkitektastofur í teymunum undir regnhlýf verkfræðinganna enda var það krafa forvalsins að arkitektar væru í teymunum.

    En fyrr má nu fyrrvera dónaskapurinn og samstöðuleysið

  • Hilmar Þór

    Ég sé að það er einhver misskilningur á ferðinni varðandi höfundarrétt og samkeppnisstöðuna hjá þeim Eiríki J, Önnu K. og Magnúsi sem tjá sig hér að ofan.

    Svo ég byrji á höfundarréttinum þá er verið að biðja teymin um að nánast klára hugmyndavinnunnar. Ekki einungis skipulag eins og Eiríkur J. nefnir.
    Um er að ræða 30% hönnunarinnar sem er hartnær aðalteikningum. Það er að segja um það bil hönnun að því stigi þar sem sjálfri hönnuninn er lokið og tæknivinna tekur við. Guðjón Samúelsson, svo dæmi sé tekið, taldi sig hafa lokið hönnun sinni á þessu stigi. Þannig að ákvæði um höfundarrétt eiga fullkomlega við.

    Vandamál vegna meðferðar höfundarréttar koma afar sjaldan upp svo þar er verið að gera úlvalda úr mýflugu.

    Til að upplýsingar þá eru arkitektar ekki að velta fyrir sér að sniðganga EES samkomulagið þarna, enda væri það lögbrot sem arkitektar stunda ekki.

    Arkitektar óttast ekki erlenda samkeppni.

    Þeir vilja bara fá tækifæri til þess að taka þátt í henni. Það geta þeir ekki eins og þessum málum er háttað.

  • TBL arkitektar eru eftir því sem ég best veit samstarf Tark, Batteríisins og Landmótunar. En ég er ekki 100% viss.

    Þetta lítur alla vega ekki út eins og venjuleg hönnunarsamkeppni arkitekta.

  • Ef það þarf svo að fara í endurbætur á húsnæði spítalans eftir 50 ár, nýjar þarfir og annað sem upp getur komið. Þá þurfa menn að krossleggja fingur að ættingjarnir séu jarðtengdir, en ekki með uppblásið álit á verkum forföðurssinns.

    Sporinn hrella í þessu tilfelli svo að þessi klausa um höfundarréttin í þessu verki á fyllilega rétt á sér. Í raun finnst er það mikið þroska merki að hún skuli vera kominn fram.

  • Ég verð að segja eins og er að ég skil ekki eitt einasta orð í þessari athugasemd Jóhannesar Þórðarsonar. Mér finnst sárlega skorta einhverja jarðtengingu í hans málflutingi.

    Snýst dæmið ekki um það að við erum í EES? Er ekki nánast sjálfgefið að öll stór verkefni fari til útlendinga vegna þess að það ber að auglýsa þau og kynna á Evrópusvæðinu öllu?

    Eru íslenskir stjórnmálamenn þess umkomnir að haga hlutunum þannig að íslenskir arkitektar hafi séns í stór verkefni?

  • EiríkurJ

    Er ekki verið að velja þáttakendur í hönnunarsamkeppni, það ætti varla að þurfa að benda deildarforsetanum á að á skipulagshluta verksins getur a.m.k. ekki fengist höfundarréttur. Er víst að eiginleg hönnun bygginganna verði unnin í þessum áfanga?

  • Verkfæðistofurnar taka kannski líka að sér reksturinn á skurðstofunum. Þeim virðast flestir vegir færir og því þá ekki lausn einfaldari mála en fagurfræði og góðrar byggingarlistar?

  • Arkitekt skrifar

    Þetta eru þarfar hugleiðingar hjá Jóhannesi.

    Sérstaklega nú þegar það sem menn óttuðust mest og vöruðu við er komið á daginn.

    Umsóknum til þess að fá að gera tillögu í arkitektasamkeppnina var skilað í dag og óskuðu aðeins sjö eftir þáttöku sem er auðvitað mjög lítil þáttaka þegar því er haldið fram að minnst 20 arkitektastofur séu hæfar til verksins bara hér á landi.

    Af þeim sjö sem sóttu eru 5 (skrifað fimm) verkfræðistofur. Ekki er við því að búast að verkfræðistofurnar hafi miklar áhyggjur af höfundarrétti arkitekta sem Jóhannes talar um. Eða nýliðun í arkitektastétt sem Jóhannes gerir einnig að umræðuefni.

    Það má gera ráð fyrir að allir umsækjendurnir 7 styðji sig svo við erlenda stóra ráðgjafa.

    Mann brestur nánast í grát við að horfa uppá þessa forheimsku stjórnvalda og þetta illvirki í garð ungra arkitekta og stéttarinnar í heild.

    Þessir aðilar sendu inn umsókn í arkitektasamkeppnina:
    1. Verfræðistofan Efla
    2. Verkfræðistofan Verkís
    3. Verkfræðistofan Mannvit
    4. Verkfræðistofan VSÓ
    5. Verkfræðistofan Almenna
    6. Arkitektinn Guðjón Bjarnason (hefur verið einyrki)
    7. TBL arkitektar (!)

    Nú er bara spennandi að heyra hvaða verkfræðistofa vinnur arkitektasamkeppnina.

    Manni er ofboðið.

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af einum og tveimur? Svar:

Höfundur

Hilmar Þór Björnsson arkitekt
Tilgangur síðunnar er að kynna arkitektúr, skipulag og staðarprýði ásamt því að stuðla að umræðu um efnið. Það sem fram kemur ber ekki að skilja sem skoðun höfundar heldur hugleiðingu sem sett er fram í þeim tilgangi að vekja lesendur til umhugsunar og skoðanaskipta. Tekið er á móti aðsendum greinum þegar það á við, sem þá eru á ábyrgð höfundar aðsends efnis.
Athugasemdir við færslur eru velkomnar. Þeir sem vilja koma skilaboðum til ábyrgðarmanns beint er bent á netfangið hilmarstofunni@gmail.com
RSS straumur: RSS straumur

Færslusafn