Föstudagur 08.03.2013 - 00:07 - 29 ummæli

Mæla með brú yfir Fossvog.

 

 

Í gær var kynnt greinargerð varðandi brú yfir Fossvog fyrir gangandi, hjólandi og jafnvel almenningssamgöngur milli Kársness og Nauthólsvíkur. Greinargerðin var til umfjöllunar í bæjarráði og borgarráði fyrir hádegi í gær.

Þarna er fetuð slóð sem er afar áhugavert og metnaðarfull og ber með sér mikla möguleika i skipulagmálum höfuðborgarsvæðisins.

Greinargerðin var unnin af verkfræðistofunni Eflu fyrir starfshóp sem samanstendur af fulltrúum frá Reykjavíkurborg, Kópavogi og Vegagerðinni.

Í greinargerðinni er mælt með því að brúin verði byggð frá flugbrautarenda Reykjavíkurflugvallar til móts við Kársnes. Þar eru um 340 metrar á milli bakka. Sú leið er líklegust þeirra kosta sem skoðaðir voru og hafa minnst áhrif á lífríki í Fossvogi. Þá tengist hún betur stofnstígakerfi sveitarfélaganna.

Áætlaður kostnaður við gerð göngu- og hjólabrúar er 950 milljónir króna. Ef strætisvagnar eiga að geta ekið yfir er kostnaður áætlaður1,250 milljónir króna.

Skýrsluna má í heild sinni nálgast hér.:

http://www.kopavogur.is/media/pdf/bruyfirfossvoskyrsla.pdf

Ef hugmyndin er tekin lengra og brúarhugmyndin framlengd yfir á Bessastaðanes og tengingu komið á fyrir almenningssamgöngur til Hafnarfjarðar eða lengra breytist öll skipulagsmynd Höfuðborgarsvæðisins. Ef þessi samgöngubót væri einnig ætluð einkabifreiðum þyrfti að endurskoða allar aðalskipulagsáætlair á höfuðborgarsvæðinu í ljósi miklu betri samgöngutækifæra. Umræðan um landnotkun Vatnsmýrar fengi allt aðrar áherslur og tækifæri.

Hér er stigið heillaskref í nýja átt

Ég má samt til með að vekja athygli á því að verkfræðistofu var falin skýrslugerðin og spyr hvernig á því stendur að verkfræðingar eru sífellt að færa sig inn á verksvið arkitekta og skipulagsfræðinga?  Verkfræðileg nálgun er önnur en arkitektonisk og hætta er á að niðurstaðan verði önnur, oftast þrengri vegna þess að arkitektar og skipulagsfræðingar eru menntaðir í að sjá heildarmyndina meðan verkfræðingar eru flestir menntaðir sem sérfræðingar á tiltölulega þröngum sviðum í þessu samhengi.

Það er mín skoðun að verkefnastjórn í verkum sem þessum  sé heppilegri í höndum arkitekta en verkfræðinga.

En það er önnur saga.

Fjallað hefur verið um þessa hugmynd nokkru sinnum á þessum vef samanber eftirfarandi tengla: 

http://blog.dv.is/arkitektur/2011/07/26/tharf-flugvoll-a-reykjavikursvaedid/

http://blog.dv.is/arkitektur/2010/03/16/vatnsmyrin-%e2%80%9cnull-lausn%e2%80%9d/

http://blog.dv.is/arkitektur/2009/11/04/karsnes-vatnsmyrin-midborgin/

Myndin efst í færlunni sýnir hvar brúin er staðsett samkvæmt niðurstöðu verkfræðistofunnar eflu. Að neðan er svo skissa sem sýnir hvernig halda mætti áfram með öfluga samgönguæð yfir Fossvog til suðurs alla leið til Hafnarfjarðar eða lengra.

 

 

Flokkar: Óflokkað

«
»

Ummæli (29)

  • Sverrir Bollason

    Já hér eru margir góðir umræðupunktar.
    Ég er sannfærður um að s.k. Skerjabraut, akbraut suður úr Vatnsmýri inn í Hafnarfjörð væri fín viðbót við samgöngukerfi borgarinnar. Kannski verður þessi brú til að vísa veginn með það.
    Auknir samgöngumöguleikar auka þó umferð, það fylla bílarnir sem fyrir þá er lagt. Ekki er það bara til hagsbóta, t.d. fyrir þá sem búa nálægt stórum umferðaræðum.
    Umræðan um það hvort hækkað landverð geti ekki greitt fyrir framkvæmdina er alltaf erfið. Peningarnir flæða ekki endilega þangað sem maður vildi eða á sama tíma. Fyrst þarf brúin að koma, áður en verðmætið nær hæð sinni og þá á eftir að innleysa hagnaðinn til að greiða framkvæmdina. Íbúar Kársness munu væntanlega fagna og sjálfur verð ég að segja að ég hef í fyrsta sinn séð það fyrir mér sem hugsanlegan stað að búa á. Einnig ættu bæjaryfirvöld að geta með auðveldari hætti selt lóðir á svæðinu. Því er þetta tvímælalaust góð fjárfesting fyrir Kópavogsbæ.

  • Ólafur Jónsson

    Í ljósi umræðna um Lagarfljót og umhverfisslyssins þar fer maður að efast um svona skýrslur. Úlfi er betur trúandi en skýrsluhöfundum sem eiga hagsmuna að gæta í framhaldi skýrslugerðarinnar.

    Verkfræðingaálit eru ekkert merkilegri en lögfræðiálit. Mikilvægt er að þeir sem semja svona frumskýrslur afsali sér vinnu við verkið í framhaldinu.

    Annnars eru þær ekki trúverðugar.

  • Kristján

    Nú veit ég ekki hvort ég má blanda mér í þessa umræðu, verandi hvorki skipulagsfræðingur, verkfræðingu eða arkitekt og sosum enginn hagsmunaaðili heldur, og aukinheldur á engan hátt invinkleraður í hópinn sem hér ræðir saman, en:

    Þessi brúarhugmynd er afskaplega mikið 2007, og að einhverjum detti í hug að þetta skipti meira máli en samgöngubætur útá landi (þar sem um er að tefla aðgengi að heilbrigðisþjónustu) er firring.

  • Jón Ólafsson
    Rétt er það að ekki eiga siglingaklúbbarnir að vera fyrir hagsmunum heildarinnar. Þessir frístundaklúbbar eins og þú kýst að kalla þá sinna barna og unglingastarfi fyrir hátt á 2000 börn og unglinga og sjá meðal annars til þess að fólk geti sótt vinnu sína á sumrin án þess að hafa áhyggjur af vandalausum börnum í sumarfríi. Gallinn er sá að skýrslan minnist ekkert á afleiðingar brúarinnar né þann kostnað sem felst í að færa siglingaklúbbana styrkja aðkeyrslu að ylströndinni svo hægt sé að bæta sandi á hana af vörubílum. Þetta er miklu meiri kostnaður heldur en brúarsmíðin ein og sér. Það er ekkert sársaukamál að færa þessa klúbba en það verður þá að gera ráð fyrir því í kostnaði við gerð brúarinnar. Það vill svo til að ég lagðist í að skoða þessa skýrslu því málið kemur mér við. Það sem mér blöskraði var ekki innhald skýrslunar heldur það sem vantaði í skýrsluna og vísvitandi tilraunir til að blekkja fólk með því að halda því fram að þessi brú stytti leiðina úr Garðabæ og Hafnarfirði þegar raunin er að þetta er lengri leið. Hér er verið að reyna að selja okkur hugmynd með röngum forsendum og blekkingum. Ég óska þess að fleiri en ég lesi með gagnrýnum augum skýrslur um framkvæmdir frá opiberum aðilum og bendi á ágalla þeirra. Það er þá möguleiki að opiberar framkvæmdir geti einhvertíma staðist kostnaðaráætlun og þjónað þeim hagsmunum sem þeim er ætlað.

  • Gott að sjá þá sem málið er skylt kommentera hér. Eins og Úlf, sem er er formaður Siglingasambands Íslands og sem þekkir og notar fjörðinn.

    Við Úlfur spjöllluðum um málið á Facebook áðan. Við vorum þeirrar gæfu aðnjótandi að kynnast í Eðlisfræðideild I í Menntaskóla, og kynnast einstrengingslegum nördunum þar áður en við yfirgáfum verkfræðiáformin og hurfum til meira skapandi yðju.

    Það vita kannski ekki allir að það eru þrír siglingaklúbbar þarna fyrir innan og ein tveggja ára smábátahöfn sem er hluti af bryggjuhverfis-skipulagi í Kópavogi. Spurning hvað gerist líka með sjósundið ef siglingfélöginn fara úr Fossvoginum. Á hverju sumri bjarga þjálfarabátar á svæðinu tugum sundmanna sem eru við það að örmagnast. Fólk sem leggur út á voginn og á í vandræðum með að komast til baka vegna þreytu og krampa.

    Spurning hvort önnur mál í borginni séu ekki meira aðkallandi í borgarskipulaginu eftir hrunið, og hvort væri ekki bara sniðugra hafa bara ferju þarna yfir? Þá myndi sanna sig eða afsanna fljótt hvað væri mikil samgöngubót í að komast þarna yfir?

    • Jón Ólafsson

      Þrír siglingaklúbbar,

      Þrír frístundaklúbbar eiga ekki að standa í vegi fyrir hagsmunum heildarinnar.

      Þessi brúarhugmynd REK/KOP er ekki forgangsatriði og þjónar fáum.

      En stofnbraut frá Lansanum suður í Hafnarfjörð um Kársnes og Bessastaðanes er allt annað dæmi og skiptir miklu máli fyrir heildina. Í þvi dæmi má fórna þrem siglingaklúbbum eða finna þeim annan stað.

  • Burt séð frá því hvort skýrslan sé unnin af arkitekt eða verkfræðingi þá er hún afar illa unnin og í henni eru líka blekkingar. Ekki er gerð grein fyrir þeim afleiðingum sem brúin mun hafa á þá starfsemi sem er við Fossvog. Þar er m.a. ekki gert ráð fyrir komu sanddæluskips að ylströndinni í Nauthólsvík annað hvert ár. Ekki er heldur gerð grein fyrir því að algengasta vindáttin í Reykjavík er austanátt sem stendur þvert á brúarstæðið með tilheyrandi saltfoki og gleði fyrir eigendur reiðhjóla. Siglingafélögin við Fossvog bentu öll á að þessi brú myndi eyðileggja starfsemi þeirra og eru því alfarið á móti henni úr þeirri afstöðu er dregið auk þess sem gefið er í skyn að færri bátar fari þarna um en raunin er á. En steinin tekur úr þegar skoðaðar eru forsemdur fyrir þeirri samgöngubót sem brúin á að vera. Samanburðarleiðin er frá botni Kópavogs og að flugbrautarendanum. Ef borin væri saman leiðin frá botni Kópavogs og að Öskjuhlíð þar sem hjólastígurinn liggur í átt að miðbæ Reykjavíkur þá snýst dæmið við og það er um 1 km styttra að fara núverandi hjólastíg heldur en að fara þessa brú.

    • Jahérna.

      Þú segir nokkuð Úlfur.

      En hvað segja Eflumenn sem auðvitað lesa þetta?

      Og hvað með Sverri Bollason?

      Er hann orðlaus?

      Við bíðum mörg spennt!!

  • Þessi umræða um það hver eigi að standa fyrir skipulagi er yndisleg. Fyrir löngu komust forfeður okkar að því að það gæti verið heppilegra að láta skipstjóra, sem hefði eitthvað til þess lært, stjórna skipi frekar en t.d. kokkinn eða vélstjórann. Þótt margvísleg teymi sérfræðinga geti verið góð til að ráða fram úr ýmsum málum þá hafa margar aðrar þjóðir komist að því að það geti verið sniðugt að láta skipulagsfræðinga með víðtæka fjölfræðimenntun stýra skipulagsvinnu. Það gæti t.d. komið í veg fyrir að kokkurinn eða vélstjórinn næðu yfirhöndinni í teyminu.
    Fyrir mörgum árum komust áhrifamenn á Íslandi að þeirri niðurtöðu að hver sem er gæti svo sem skipulagt og að til þess þyrfti enga sérstaka menntun. Af hverju ekki að hleypa hásetunum að þessu líka? Í mörgum skipulagsákvörðunum undanfarinna ára má sjá afleiðingarnar af þessu.
    Nú er það bara svo að það getur verið bæði mjög flókið og afdrifaríkt að skipuleggja samfélög og almenningu sýpur seyðið af því oft um áratuga skeið ef illa tekst til. Þetta höfum við að undanförnu reynt með skipulag Íslensks efnahagslífs þótt þar væru við stjórnvölinn vel menntaðir hagfræðingar og ennþá sitjum við uppi með verðlitlar mattadorkrónur í höftum.
    Brú yfir Fossvog milli Kársness og Nauthólsvíkur er auðvitað yndisleg ef við höfum efni á henni og ef hún lendir efst í forgangsröð mikilvægra framkvæmda fyrir fé almennings. Þegar við vorum hins vegar fyrir mörgum árum að skoða þessi tengingamál yfir Skerjafjörð á Skipulagsstofu höfuðborgarsvæðisins þá komumst við að þeirri niðustöðu að tenging gömlu miðbæjanna í Hafnarfirði og Reykjavík um Suðurgötu og yfir á Álftanes væri miklu arðbærari framkvæmd og myndi stuðla að þéttingu bygðar og styrkja þetta svæði í heild (Svæðisskipulag höfuðborgarsvæðisins 1985-2005, mynd 10.1.4)
    Nema við förum að gera okkur fulla grein fyrir mikilvægi faglegs skipulags og heildrænnar nálgunar í þessum málum er hætta á að hlaupið sé samhengislaust af Hörpu yfir á Hátæknisjúkrahús yfir á …….? … og sérstaklega ef þeir sem eru í vinnu hjá okkur við að skipuleggja telja sér ekki skylt að hafa neina faglega skoðun á skipulagsmálum.

  • Guðmundur Guðmundsson

    Þegar horft er á myndina og rætt um landfyllingu þá er freistandi að færa N /S brautina til vesturs út á grynningarnar.´ Göng fyrir bílaumferð yrðu síðan undir núverandi vesturenda A/V brautarinnar.
    Þá myndast ódýr tenging við Suðurgötuna, yfir á Kársnes, etc.

    Ég set hins vegar spurningamerki við að brúin nái bara yfir á Kársnes.
    Kársnes, Borgarholts og Kópavogsbrautin eru varla í stakk búnar fyrir þá gegnumtrafík sem af aðgerðinni hlytist.

  • Steinarr Kr.

    Það er mjög grunnt á þessu svæði. Gætu landfyllingar komið vel út og aukið byggingaland?

    • það er augljóst að landfylling er málið. Það sést best á efstu myndinni. Kíkið bara á landfyllinguna við Kópavogshöfn. þessir 340 metrar eru smámunir í því sambandi.

      Ég vil nota tækifærið og taka undir með arkitektunum að verkfræðingarnir skorta hugmyndaflug og sjá ekki heildina í þessu máli. Mikill hluti skýrslunar fjallar um tæknilegar lausnir og útfærslur. Lítill hluti um hugmyndafræði og framtíðarsýn. Það er eins og þeir líti á þetta sem tekjulind en ekki skapandi verkefni. Það er einmitt gallinn við nálgun verkfræðinga hvað varðar þeirra vinnu.

      Tek fram að ég er ekki arkitekt. ‘Eg er trésmiður.

    • Árni Ólafsson

      Í íslenskri vegagerð verða brúarhugmyndir gjarnan að landfyllingum sbr. Gilsfjörð, Grafarvog (Gullin“brú“) og Kolgrafarfjörð. Vegfyllingar yfir firði og voga hafa gríðarleg áhrif á umhverfið. Hef alltaf dáðst að Ölandsbrúnni http://sv.wikipedia.org/wiki/%C3%96landsbron
      Sennilega hefur engin íslenskur verkfræðingur eða arkitekt komið að gerð hennar.

  • Sveinbjörn

    Gott umræðuefni og rétti timinn til að ræða það. Nauðsynlegt er að „ná utan um málið“ áður en hagsmunir sérfræðinganna taka völdin eins og gerðist í Landspítalamálinu. Það er beðið eftir viðbrögðum sérfræðinga við spurningum Jens. Sverrir hvað með þig?

  • Stefán Benediktsson

    Teikning Hilmars sýnir að það er nánast líffræðileg rök fyrir því að tengja Sóleyjargötu í Kársnes eftir N-S braut flugvallarins.

    • Hilmar Þór

      Það má nú segja Stefán. En við sem erum í vafa um hvort flugvöllurinn eigi að víkja setjum ekki fram svoleiðis lausn þó vissulega blasi hún við.

  • Björn Gunnlaugsson

    Væri ekki framlenging Suðurgötu yfir á Álftanes viturlegri? Þá mætti brúa frá Álftanesi á Kársnes sunnan Kópavogshafnar.

  • Sverrir Bollason

    Sem starfsmaður á „Verkfræðistofu“ sem sinnir skipulagsmálum mjög mikið þá þykir mér þessi arkitekta/verkfræðinga deila óttalega kredduleg.
    Hér á minni stofu störfum við nokkur saman: ég sem hef aðallega fengist við skipulagsmál og er verkfræðingur, umhverfisfræðingar, landslagsarkitekt, umferðarverkfræðingar, hagfræðingur, mannfræðingur, landfræðingur og lengi vel var hér skipulagsfræðingur líka. Oft myndi mig langa að hafa arkitekt innanborðs en ég er ekki viss um að það myndi ganga vel að ráða slíkan á „verkfræðistofu“ en í staðinn eigum við í góðri samvinnu við marga arkitekta.
    Þegar allt kemur til alls erum við sennilega ekki verkfræðistofa frekar en alhliða ráðgjafar í mótun umhverfis og mannvirkja. Ætti spurningin því í alvörunni að snúast um það hvort einhver séu að seilast inn á verksvið arkitekta? Mun fleiri fagstéttir eiga tilkall til að móta mannvirki en arkitektar og verkfræðingar.

    • Hilmar Þór

      Sverrir Bollason.

      Þú mátt ekki vera svona andstuttur yfir þessu. Þetta er engin kredda og hér er engin deila á ferðinni.

      Hinsvegar gæti þetta orðið umræðuefni og það er sjálfsagt að gera þetta að umræðuefni.

      Ég spyr bara einnar spurningar og hún er þessi:

      “Ég má samt til með að vekja athygli á því að verkfræðistofu var falin skýrslugerðin og spyr hvernig á því stendur að verkfræðingar eru sífellt að færa sig inn á verksvið arkitekta og skipulagsfræðinga?”

      Fróðlegt væri að fá svar við spurningunni. Ég held að ástæðan sé m.a. sú að stofurnar hafa þróast í að verða fyritæki. Meginmarkmið stofanna (arkitekta- og verkfræðistofa) var að gefa ráð (selja ráð) meðan megin tilgangur fyritækja (verkfræðifyritækja og arkitektafyritækja) er að reka þau með hagnaði, þ.e.a.s. græða.

      Hinsvegar gefur þú svar við spurningunni að vissu marki.

      Þú telur upp mikinn fjölda sérfræðinga sem vinna á þinni verkfræðistofu. Upptalningin bendir einmitt til þess að verkfræðingar eru að draga að sér sérfræðingateymi sem ekki voru starfandi á verkfræðistofum á árum áður.

      Þetta styður einmitt getgátuna um að verkfræðingar séu að færa sig inná sérsvið annarra sérfræðinga.

      Ég þekki vel til á þínum vinnustað sem skilgreinir sig einmitt frekar sem ráðgjafafyritæki en verkfræðistofu. Það er auðvitað í himna lagi en það hljóta að vera einhver takmörk. T.a.m. eins og bent er á hér að ofan (Guðmundur) þegar verkfræðingar taka að sér gerð húsrýmisáætlana og samkeppnislýsingar án aðkomu arkitekta!

      Ég er í miklum vafa umn hvort það sé heppilag þróun að heidarráðgjöf frá frumathugun til endanlegrar framleiðslu sé nánast á einni hendi. Það fellst nokkur áhætta í því.

      Svo að lokum þetta.: Það á enginn tilkall til neins að mínu mati.

      En ræðum frekar meginefnið. Brúarsmíðina yfir Fossvog og Skerjafjörð og samgöngutækifærin sem í því felast í stóru samhengi.

      Reynum að ná utanum það.

    • Af gefnu tilefni spyr ég skipulagsverkfræðinginn Sverri Bollason um huglægt mat hans á hugmyndinni um að leggja stofnbraut frá HR/Hringbraut suður í Hafnarfjörð um Kársnes og Bessastaðanes.

      Hvaða áhrif það hefði á verðmæti byggingalands?

      Hvort hækkað landverð á Kársnesi og Bessastaðanesi gæti kannski greitt fyrir framkvæmdina?

      Hvort slík framkvæmd styrki ekki staðarval Landspítala við Hringbraut?

      Hvort þetta sé í raun ekki nauðsynleg framkvæmd?

      Hvort honum finnist ekki áætlun Eflu gangi of stutt.?

    • Hilmar Þór

      Góðar spurningar hjá Jens. Fróðlegt væri að fá einhver komment á einhverja þeirra, allar og fleiri.

    • Sverrir Bollason

      Jú þakka svörin. Enginn æsingur hérna megin á línunni, samvinna er mál málanna að öllu leyti! Einhver sagði að þótt 20. öldin hafi verið öld einstaklingsframtaksins þá verði sú 21. öld samvinnu enda tækifærin til samvinnu aldrei verið betri.
      Sett inn svör við hugleiðingum neðst í þessum þræði en árétta að ég tel þetta stórgott framtak.

  • Þorvaldur Ágústsson

    Auðvitað er þetta plástur á skipulagssvaðasárið sem kom þega HR var valinn staður í Nauthólsvík. Þarne er verið að koma menntastofnuninni í örlítið betri tengsl við umheiminn. Þetta er meira hagsmunamál fyrir Kópavog en Reykjavík.

    Ég segi hættið við Vaðlaheiðargöng og Sundabraut og skoðið hugmynd Hilmars. Leiðin til Keflavíkur mun styttast úr 60 mínútna akstri niður í svona 40 mínútur ef af þessu yrði.

    • Árni Ólafsson

      Vissulega getur komið fyrir að fleiri verði veðurtepptir á Hafnarfjarðarveginum en í Víkurskarði. En það er þó styttra til byggða 🙂

  • Helga Jónsdóttir

    Þegar ég settist að í Reykjavík fyrir rúmum 25 árum (hafði alltaf átt heima í dreifbýli) var þetta það sem ég undraðist mest, af hverju í ósköpunum mætti ekki brúa Skerjafjörð, að minnsta kosti, svo maður þyrfti ekki að aka hálfan bæinn eða rúmlega það í austur til að komast spöl í suður.

  • Guðmundur

    „Verkfræðingar vita mikið um lítið og arkitektar lítið um mikið“

    Þessi ábending um að verkfræðingar séu að vasast á sérsviði arkitekta er sannarlega rétt. Þeir eru að gera húsrýmisáætlanir og jafnvel eru þeir svo kotrosknir og sjálfumglaður að þeir taka glaðir að sér að skrifa keppnislýsingar vegna arkitektasamkeppna!!!. Og þetta láta arkitektarnir yfir sig ganga orðalaust. (Þetta er í fyrsta sinn sem ég sé arkitekt benda á þennan ósóma á opinberum vettvangi)

  • Er þetta metnaðarfull og ný nálgun, Hilmar? Í tengslum við flutning á flugvellinum úr Vatnsmýrinni og þá benti ég á svona vegtengingu yfir í Bessastaðanes og líka að langbesti kosturinn fyrir staðsetningu flugvallar er á Bessastaðanesi en hvorki í Vatnsmýri eða uppi á Hólmsheiði eða úti á Lönguskerjum. Fuglalíf á nesinu þarf ekkert að skaðast. Fuglinn lærir að lifa með nálægðinni við flugvallarmannvirkin líkt og alls staðar úti á landi. T.d á Ísafirði. Bessastaði á að gera að safni og flytja heimili forsetans út í Viðey til dæmis. En auðvitað eiga arkitektar að velta upp svona hugmyndum. Þeir eiga ekki að bíða eftir að stjórnmálamenn segi þeim hvað þeir eru að hugsa. Framtíðarlausn á umferðarvandanum er hringtenging um þéttbýlissvæðið á stór-Reykjavíkursvæðinu. Það myndi létta álaginu af Kringlumýrarbraut ef umferðinni að sunnan yrði beint í gegnum Álftanes-Kópavog-Vatnsmýri, en ekki um Reykjanesbraut-Miklubraut. En þessi framtíðarsýn tengdist náttúrulega innlimun Bessastaðahrepps í Reykjvík en nú er það tækifæri farið forgörðum eins og svo mörg önnur tækifæri til heilfarendurskipulagningar í kjölfar hrunsins.

    • Stefán Benediktsson

      Flugvöllur á Bessastöðum er á valdsviði Garðabæjar í dag ekki Reykjavíkur.

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af sjö og sex? Svar:

Höfundur

Hilmar Þór Björnsson arkitekt
Tilgangur síðunnar er að kynna arkitektúr, skipulag og staðarprýði ásamt því að stuðla að umræðu um efnið. Það sem fram kemur ber ekki að skilja sem skoðun höfundar heldur hugleiðingu sem sett er fram í þeim tilgangi að vekja lesendur til umhugsunar og skoðanaskipta. Tekið er á móti aðsendum greinum þegar það á við, sem þá eru á ábyrgð höfundar aðsends efnis.
Athugasemdir við færslur eru velkomnar. Þeir sem vilja koma skilaboðum til ábyrgðarmanns beint er bent á netfangið hilmarstofunni@gmail.com
RSS straumur: RSS straumur

Færslusafn