Þriðjudagur 17.01.2012 - 10:22 - 10 ummæli

Málþing um flug og flugvallamál

.

Mér hefur oft fundist að umræðan um Reykjavíkurflugvöll hafi einkennst af NIMBY sjónarmiðinu (“Not in my backyard”)  Það er að segja allir vilja hafa flugvöll en bara ekki á baklóðinni hjá sér.

Reykjavíkurborg, höfuðborg landsins, vill ekki hafa flugvöllinn í sínum bakgarði og er búin að úthýsa honum úr Vatnsmýrinni samkvæmt aðalskipulagi til ársins 2024.

Þetta hefur hún gert án þess að fyrir liggi hvernig höfuðborgin á að tengjast umheiminum í lofti.

Á fimmtudaginn 19. janúar n.k. verður haldið málþing um flugvelli og flugsamgöngur ásamt því að fjalla um tækifæri í skipulags- og atvinnumálum sem tengjast efninu. 

Ráðstefnan er haldin á vegum Háskólans í Reykjavík.

Mér sýnist þetta stefna í afar áhugavert málþing þar sem erlendir fyrirlesarar munu  fjalla um endurkomu miðborgarflugvalla (The Return of City Center Airports)  og framtíð flugvallanna í Stokkhólmi, Bromma og Arlanda og fl.  

Pétur K. Maack flugmálastjóri mun fjalla um flugsamgöngur á Íslandi og Þorgeir Pálsson prófessor um niðurstöður úttektar á Reykjavíkurflugvelli frá árinu 2007. Þórólfur Árnason stjórnarformaður ISAVIA og fyrrverandi borgarstjóri hefur þarna framsögu og Ásdís Hlökk Theodórsdóttir aðjúnkt ræðir Reykjavíkurflugvöll og skipulag höfuðborgarsvæðisins. Haraldur Sigþórsson lektor spyr í sínu erindi um hver sé framtíð innanlandsflugsins?

Í lokin verða svo pallborðsumræður  með þátttöku Jóns Gunnarssonar alþingismanns. Birnu Lárusdóttur frá Ísafirði,  Dags B. Eggertssonar borgarfulltrúa, Páls Hjaltasonar formanns skipulagsráðs Reykjavíkur, Ernu Hauksdóttur frá ferðaþjónustunni, Kjartans Þórs Eiríkssonar framkvæmdastjóra og Júlíusar Vífils Ingvarssonar borgarfulltrúa.

Þetta eru allt mjög góðir fyrirlesarar og áhöfn pallborðsins eru sterkir einstaklingar sem hafa þroskaða skoðun og stefnu varðandi málið.

Hinsvegar sér maður að þarna örlar á NIMBY einkennunum. Það eru á pallborðinu þrír borgarfulltrúar úr Reykjavík en enginn frá Hafnarfirði, Álftarnesi, Garðabæ, Kópavogi eða Mosfellsbæ.

Maður veltir því fyrir sé hver yrði niðurstaðan í flugvallarumræðunni ef öll sveitarfélögin á höfuðborgarsvæðinu kæmu að jöfnu að umræðunni og hagsmunir heildarinnar væri markmiðið?

Þessi spennandi ráðstefna verður haldin á Icelandair Hótel Reykjavík Natura og hefst fimmtudaginn 19. janúar kl 13.00

Efst í færslunni er ljósmynd af flugvél sem er að lenda á „London City Airport“ og að neðan ljósmynd af „Reykjavik City Airport“

Flokkar: Óflokkað

«
»

Ummæli (10)

  • Skemmtileg saga af árangri jákvæðra aðgerðarsinna fyrir 40 árum. Hvar eru aðgerðarsinnar dags dato? Liggja þeir í andlegri leti, eins og Egill Helga kallar það.

  • Hilmar Þór

    Sæll Orri.

    Ég vil ekki segja að ég snúi hugtakinu NIMBY á hvolf. En kannski nota ég það frjálslega.

    Fyrir allmörgum árum vildi Álftanes ekki hafa flugvöllinn í sínu sveitarfélagi….ekki í sínum bakgarði. Og nú vill Reykjavík ekki lengur hafa flugvöllinn í sínu sveitarfélagi…ekki í sínum bakgarði.

    Þetta túlka ég frjálslega sem NIMBY syndrom sveitarfélaganna tveggja sem sjá ekki heildarhagsmunina fyrir sínum egin.

    Það er rétt hjá þér að NIMBY-istinn tekur ekki inn í myndina hagsmuni samfélagsins. Og varðandi flugvöllinn í Vatnsmýrinni er samfélagið ekki bara Reykjavík heldur öll sveitarfélögin á höfuðborgarsvæðinu ásamt nánast öllum þeim sem búa á landsbyggðinni.

    Mér sýnist okkur tveim greina á um aðeins eitt og það er hvaða skipulagsyfirvöld eiga að taka ákvörðun um Vatnsmýrina. Ég tel að það eigi að vera öll sveitarfélögin á höfuðborgarsvæðinu ásamt völdum sveitarfélögum úti á landi meðan þú telur að þetta eigi eingöngu að vera á forræði skipulagsyfirvalda í Reykjavík. Þitt sjónarmið er auðvitað í samræmi við lög og reglur en ég tel að þetta mál sé þess eðlis að venjuleg skilgreining á verksviði einstaks sveitarfélags eigi ekki við.

  • Orri Gunnarsson

    Hilmar, þú snýrð NIMBY hugtakinu á hvolf.

    „Not In My Back Yard“ hefur verið notað um nágranna og hagsmunaaðila sem standa gegn breytingum á sínu næsta nágrenni, oftar en ekki til að koma í veg fyrir uppbyggingu eða nýja starfsemi sem þeir telja hafi truflandi áhrif á þá eða rýri verðgildi eigna þeirra.

    NIMBY-isti gæti t.d. sagt um nálægan Reykjavíkurflugvöll: „ekki leggja hann af, byggðin sem kemur í staðin skemmir útsýni og skapar umferð og hávaða“. —Hann tekur ekki inn í myndina hagsmuni samfélagsins alls sem hefur mikinn hag af því að starfsemin færist annað og byggt verði á svæðinu. Það hentar ekki hans persónulegu hagsmunum.

    Vandamálið er að hagsmunir allra hinna (t.d. þeirra sem munu koma til með að búa og starfa á svæðinu og annarra sem njóta ýmissa óbeinna áhrifa) eru svo dreifðir að fáir eru tilbúnir að berjast fyrir þeim af eins mikilli hörku og NIMBY-istinn sem vill óbreytt ástand. Þess vegna þurfum við að skipuleggja. Hér er það eru frekar málflutningur flugmálayfirvalda og þeirra fáu sem hafa efni á að nýta sér stórkostlega niðurgreitt innanlandsflug sem einkennast af NIMBY sjónarmiðum. Væri hægt að staðfæra sem EÁMF „ekki á mínum flugvelli!“.

    Skipulagsyfirvöldum ber að meta hagsmuni almennings ofar sérhagsmunum. Þess vegna er Reykjavíkurflugvöllur ekki lengur inni á aðalaskipulagi. Á fundinum um daginn var ekki annað að heyra en Keflvíkingar vildu gjarnan fá starfsemina á baklóðina til sín. NIMBY er þekkt og gagnlegt hugtak en það á ekki við hér.

  • þorgeir jónsson

    Samkvæmt „menningarlandafræðinni“ er alltaf tregða í samfélögum að byggja á stöðum sem hafa verið og eða eru hernaðalega mikilvægir. Mörg af fallegustu torgum Evrópu eru upphaflega söfnunarstaðir herja. Ítölsk torg eru tilkomin vegna þess að herir rómverjar þurftu svæði innan borgarmúranna til að safnast saman fyrir og eftir herfarir. Ég hygg að flugvöllurinn í Reykjavík falli í þessa skilgreiningu, enda hafa borgarhverfin umhverfis flugvöllinn aldrei tengst fullkomlega. Flugvöllurinn er lélegt byggingarland, settur þarna upphaflega vegna þess að litlar líkur voru á því að byggðin truflaði hernaðarbröltið. Bretar voru líka vanir flugvöllum í mýri. Fáum við ekki bara menningarsálarlegt mein ef við byggjum nýjan borgarhluta í Vatnsmýrinni? Einhverjum gæti þá í framhaldi dottið í hug að byggja 20 hæða hótel á Austuvelli miðjum.

  • Gott framtak hjá HR

  • Marteinn S.

    Það má bæta því við orð Sigursveins að á flestum þeim stöðum sem hann nefnir eru öflugar almenningssamgöngur og hraðbrautir milli flugvallar og mibæjar.

    Keflavík er langt í burtu og getur aldrei þjónað innanlandsflugi og umsvifin svo lítil að hraðlest eða slíkt getur aldrei orðið að veruleika

    Það er hin bitra staðreynd.

    Kannski kemur annað í ljós á ráðstefnunni. Vonandi fáum við á landsbyggðinni einhverjar fréttir af erindunum.

    Ég spyr: Þurfa stjórnmálamenn og sérfræðingar ekki að fara að klára þessa umræðu og ákveða eitthvað…..bara eitthvað.

    Þessi limbóstaða er óþolandi.

  • Sigursveinn

    Vegalengdir frá nokkrum miðborgum að næsta flugvelli, international
    Stysta leið (ekki yfir sjó), frá miðborg, ráðhúsi eða þinghúsi:

    Reykjavík: (ef Vatnsmýrarvöllurinn væri farinn) 45km (Keflavík)
    Stockholm: 7km (Bromma), 36 km ( Arlanda)
    Osló: 36km (Gardemoen)
    Amsterdam: 11km (Schiphol)
    Washington: 7km (Ronald Reagan National)
    London: 9km (City), 25km (Heathrow) 50km (Stanstead), 45km (Luton)
    Copenhagen: 9km (Kastrup)
    Chicago: 25km (O‘Hara)
    New York: 12km (LaGardia), 21km (JFK), 15km (Newark)
    Paris: 12km (Le Bourget), 23km (Charles deGaule)
    Milano: 7km (Linate), 41km (Malpensa)
    Helsinki: 17km (Vantaa)

  • Hilmar Þór

    Ok séra Jón kannski er þetta „teygt“.

    Reykjavík er tengd umheiminum um Keflavík þegar um áætlunarflug er að ræða.

    Kannski hefði ég átt að orða þetta öðruvísi, en ég geri ráð fyrir að þetta skiljist.

  • „Þetta hefur hún gert án þess að fyrir liggi hvernig höfuðborgin á að tengjast umheiminum í lofti.“

    Er þetta ekki svolítið teygt? Umheimurinn lendir í Keflavík og það hefur sáralítið með Reykjavík að gera eða er ég að misskilja málið eitthvað 🙂

  • Erla Björnsdóttir

    Þetta er ekki mál Reykjavíkurborgar einnar og sveitarfélaganna á höfuðborgarsvæðinu. Þetta er líka málefni allrar landsbyggðarinnar. Sjúkrahúsið og staðsetning þess í höfuðborginni gerir það að verkum að þetta er mál allra landsmanna. Vatnsmýrin er freistandi byggingarland fyrir 100 þúsund reykvíkinga en flugvöllurinn í Vatnsmýrinni er líka freistandi fyrir hina 230 sem búa annarsstaðar á landinu.

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af fimm og tveimur? Svar:

Höfundur

Hilmar Þór Björnsson arkitekt
Tilgangur síðunnar er að kynna arkitektúr, skipulag og staðarprýði ásamt því að stuðla að umræðu um efnið. Það sem fram kemur ber ekki að skilja sem skoðun höfundar heldur hugleiðingu sem sett er fram í þeim tilgangi að vekja lesendur til umhugsunar og skoðanaskipta. Tekið er á móti aðsendum greinum þegar það á við, sem þá eru á ábyrgð höfundar aðsends efnis.
Athugasemdir við færslur eru velkomnar. Þeir sem vilja koma skilaboðum til ábyrgðarmanns beint er bent á netfangið hilmarstofunni@gmail.com
RSS straumur: RSS straumur

Færslusafn