Mánudagur 23.01.2012 - 09:09 - 13 ummæli

Verndunarsinnar v.s. Uppbyggingarsinnar?

Allar götur síðan nokkrir aðgerðarsinnar tóku sig til, fyrir um 40 árum, og máluðu niðurnýdd hús í Bakarabrekkunni að utan, hefur verið stöðug og lífleg umræða um húsavernd og staðaranda Reykjavíkur. Í framhaldinu voru Torfusamtökin stofnuð.

Helstu gallarnir á umræðunni hafa verið hve þröngur hópur hefur tekið þátt í henni, dauf eyru þeirra sem á skipulagsvaldinu halda og sú tilhneiging  að skipa þáttakendum í tvær andstæðar fylkingar; Þeim sem eru fylgjandi húsverndum og þeim sem eru á móti henni. 

Nýlega sá ég að fylkingunum hafði verið gefið nöfn. Önnur var var kölluð fylking  “verndunarsinna” hin og fylking  “uppbyggingarsinna”.  Svo mátti skilja að þetta væru andstæðar fylkingar sem tækjust á.

En sem betur fer er þetta ekki svona.

Verndun og uppbygging eru ekki andstæður. Þvert á móti

Verndunarsinnar eru miklir uppyggingarsinnar eins og dæmin sanna og flestir uppbyggingarsinnar eru einnig verndunarsinnar í hjarta sínu.

Í umræðunni er  spurt hvort við viljum að miðborgin sé „safn eða lifandi miðbær“, eða hvort við viljum frekar „leiktjöld en raunveruleg hús“?  

Við þurfum að forðast svona  “annaðhvort eða” umræðu í þessu samhengi.

Þetta er ekki spurning um annaðhvort “verndun” eða “uppbyggingu”, heldur “bæði og” þar sem sagan og andi bæjarins gera hann lifandi með raunverulegu borgarlífi  í gömlum og nýjum byggingum sem allar sverja sig að staðarandanum.

Jafnvel hörðustu verndunarsinnar vilja ekki sjá nein leiktjöld og því síður að miðborgin sé einhverskonar safn.

Helsta ógnum við Reykjavík innan Hringbrautar eru þau deiliskipulög sem unnin voru og staðfest í hinu svokallaða góðæri. Þessi deiliskipulög eru að margra mati ein helsta ástæða grenjavæðingar borgarhlutans.

Efst í færslunni er mynd af nýju húsi sem fellt hefur verið inn í gamla götumynd með sögu og staðaranda.

Neðst er svo mynd af einni af breiðgötum Parísarborgar. Í París eru lang flest húsanna innan Periferíunnar meira en 100 ára gömul.  Mörg eru fleiri hugdruð ára.  Nánast öll hafa verið uppgerð með nútíma þægindum en hafa verið látin halda útliti sínu og einkennum að mestu. Þrátt fyrir það er ómögulegt að upplifa borgina sem lífvana safn eða leiktjaldaborg. París er einhhver líflegasta borg á jarðarkringlunni.

 

 

Flokkar: Óflokkað

«
»

Ummæli (13)

 • Katrín Karlsd.

  Það virðist vanta einhverja greiningu á menningararfleið svæða sem á að breyta og/eða bæta. Eftir slíka greiningu væri fyrst hægt að ræða um af nokkru viti hvernig verndun og uppbygging eigi að fara saman á svæðinu. Er verið að nota einhverjar slíkar greiningaraðferðir á Íslandi áður en tillögur eru gerðar að breytingum? (dæmi um aðferðir eru ‘DIVE’ frá Noregi, ‘SAVE’ frá Danmörku, gerðar að frumkvæði sveitarfélaga). Það væri fróðlegt að sjá niðurstöður slíkra greininga um miðbæ Reykjavíkur.

 • Guðmundur

  @Guðjón Erlendsson: Hárrétt, enda átti Parísarkommúnan (síðasta meiriháttar uppreisnin í París á 19. öld) uppruna sinn í Belleville-hverfinu, gamalgrónu hverfi sem slapp við niðurrif Haussmans (hefur kannski verið búið að innlima það í París á tíma Haussmans. En svo má líka halda til haga, Napóleon og Haussman til hróss, að tilgangur þeirra var ekki bara fasískur valdaleikur, heldur líka að ná tökum á heilsufarsvanda sem fylgdi gömlu hverfunum, en eftir niðurrif og uppbyggingu Haussmans hurfu nánast farsóttir sem höfðu geysað í París á árunum þar á undan (m.a. skæður kólerufaraldur 1832).

 • „Verndunarsinnar“ og „uppbyggingarsinnar“ eru vissulega gildishlaðin orð og hallar þar verulega á „verndunarsinna“.

  Væri ekki eðlilegt að skipta út „uppbyggingarsinnar“ fyrir „verktakasinnar“, svona til að gefa rétt mynd að hugmyndafræðinni?

 • Guðjón Erlendsson

  Hilmar, Það sem ég á við er að þegar miðaldra borg Parísar var rifin og Haussmann skipulagið byggt, þá var það nútíma byggingarstíll á þeim tíma. Það setur umræðuna í smá samhengi. Spáið í því að Barselóna Pavilion eftir Mies er orðin 83 ára gömul! Það eru einungis 60 ár á milli hönnunar Haussmann og Mies.

  Hönnun Haussmanns var að mjög miklu mæli byggð á hernaðarskipulagi. París hafði frá byltingunni 1789 verið sæði uppreysnar-hugsunar og aðgerða. Parísarbúar nýttu sér borgina vel, gerðu árásir á herflokka stjórnarinnar og létu sig síðan hverfa inn í þröngt og flókið gatnakerfi miðaldarborgarinnar þar sem auðvelt var að sitja fyrir herflokkum. Borgin var því endurskipulögð út frá orrustu við íbúana.
  Breiðgöturnar tengdu helstu herstöðvar umhverfis París, og gáfu hersveitum skjótan aðgang að öllum hverfum borgarinnar (á þeim tíma). Breiðgöturnar voru net sem lá yfir allri borginni, og lengdin á milli þeirra (dýpt hverfana) var ekki gerð meiri en sú lengd sem fallbyssur hersins náðu. Breidd breiðstrætana og hæð bygginga var þannig gerð að fallbyssurnar gætu skotið yfir byggingarnar inn í hverfið.
  Áætlunin var sú að ef hverfi gerði uppreyst gegn krúnunni, þá myndu hersveitir umsvifalaust umkringja hverfið, og jafna það við jörðu með fallbyssuskothríð.

  Ég er hjartanlega sammála Hilmari varðandi það að með tímanum þá er meiri líkur á að byggingar með lítið listagildi hverfi, en betri byggingar lifi. Með tímanum verða borgir því fallegri (eða það er vonin). Vandamálið er t.d. þegar ofverndun eða „tabula rasa“ hugmundir taka völdin. Bretar eru t.d. núna fullkomlega á bandi ofverndunar á meðan Tyrkir vilja rífa allt sem gamalt er. Vonandi getum við fundið hinn gullna meðalveg.

 • þorgeir jónsson

  Ég held að þetta snúist mikið um viðhorf til lifshlaups bygginga. Sumir vilja fjarlægja gamlar byggingar og byggja nýtt frá grunni, aðrir vilja breyta og endurbyggja það sem fyrir er. Byggingarsagan er full af báðum viðhorfum, en það virðist ganga í bylgjum hversu mikið er rifið. Napóleon breytti París til að geta skotið á Vesalingana sína og lagði grunn að breiðgötunni sem svo margar borgir líkja eftir. Mússólíní breytti aðkomu að Péturskirkjunni í breiðgötu líkt og Napóleon gerði í París og var ansi djarfur í niðurrifinu.

  Svo má ekki gleyma stjórnmálum og viðhorfum fólks til húsa í byggingastíl einræðisherra s.s Hitlers og Stalíns. Eftir seinni heimsstyrjöld voru byggingar í Klassískum stíl tabú. Gott dæmi er Nasa við Austurvöll þar sem Sjálfstæðisflokkurinn vildi forðast allar tengingar við Nasismann og forsköluðu því húsið og afmáðu allt „skraut“.

 • Steinarr Kr.

  Ef þið skoðið kort af Washington DC og gleymið því sem samsæriskenningasmiðir segja sjáið þið að göturnar eru lagðar þannig að hægt sé að verja þær, m.a. með fallbyssum, en þetta er grunnurinn þarna á bak við, ekki að hægt sé að sjá pentagram eða hexagram úr öðru hverju horni.

  Annars átti Stebbi góða punkta, sem gaman gæti verið að ræða nánar og sjá á korti.

 • Hilmar Þór

  Þetta er bæði rétt og rangt hjá Guðjóni Erlendsyni þegar hann segir að París sé gott dæmi gegn verndun miðborgarbygginga. Það er rétt vegna þess að borginni var breytt á róttækan hátt fyrir um 150 árum þegar Haussmann breytti gatnakerfinu og fl. að beiðni Napóleons III (var það ekki?)

  En hinsvegar valdi ég París sem gott dæmi um borg sem hefur lítið breysst í nokkuð á annað undrað ár. Hvorki húsagerð né gatnakerfi. Á þessum 150 árum gerðust meiri breytingar á lifnaðarháttum fólks en sennilega í gjörvallri mannkynsögunni áður. Þær byggingar sem byggðar voru á árunum 1870-1930 hafa þolað allan þann ólgusjó tímans og tískunnar ágætlega þó lesa megi ýmislegt út úr hönnun og gerð þeirra sem endurspeglar tímann sem þau voru byggð á.

  Ég er líka nokkkuð viss um að góður nútímaarkitektúr mun lifa um aldir. En það þarf ekki að láta gömul og góð hús víkja fyrir honum. Í París þar sem nú heitir La Defence eru byggingar sem endurspegla tíðarandann á okkar dögum og gera það ágætlega og munu verða vitnisburður um það um aldir, vonandi. Meðan verið er að byggja La Defence fær gamli hluti Parísar sæmilegan frið.

  Og ég er innilega sammála Guðjóni um að það þarf að ræða málin af rökvísi og jafnaðargeði. Á þessum vef sem ætlaður er atvinnu- og áhugafólki um byggingarlist og skipulag fer ég ekki fram á að málin séu nauðsynlega rædd af þekkingu en ef athugasemdir andurspegla áhuga og forvitni er ég ánægður.

  (það má koma því að hér að ég var að lesa bókina Napóleon eftir Herman Lindqvist þar sem er sagt frá hvernig Napóleon Bonaparte notaði fallbyssur innan borgarinnar þar sem hann skaut eftir beinum götunum. Ég spyr hvort þaðan komi hugtakið “kanoniskt skipulag”? Þ.e.a.s. skipulag sem hentar vel fyrir fallbyssuhernað. Sama formhugmyndin hentar líka bílaumferð)

 • Guðjón Erlendsson

  París er eiginlega dæmi gegn verndun miðborgarbygginga. Borgin var endurskipulögð og að miklum hluta endurbyggða á árunum 1853 til 1870. Gamla miðaldarborgin var nánast til hreynsuð burt. París sem við þekkjum nú, þar með talið byggingarnar á myndinni sem fylgir fylgir greininni er því frá þessu uppbyggingarskeiði. Það er eins og það er að nýbygingar dagsins í dag eru menningararfur morgundagsins. Það þarf því að ræða og taka á þessum málum með rökvísi og jafnaðargeði.

 • Þetta er skemmtileg saga af jákvæðum árangri aðgerðarsinna fyrir 40 árum. Hvar eru aðgerðarsinna dags dato ? Liggja þeir kannski í andlegri leti eins og Egill Helga kallar það?

 • Maður verður hryggur þegar skoðuð eru öll húsin sem eru tóm víðsvegar í gamla bænum. Flest húsanna grotna niður vegna fyrirheita um meiri uppbyggingu á lóðunum. Þetta voru allt arfavitlaus deiliskipulög sem höfðu það eitt markmið að græða. Ekki á byggingum heldur á pappírspeningum og allskonar veðsetningum.

  Ísland er allt í tómri steik. Hrunráðherrar sitja enn í ríkisstjórn. Helstu stjórnendur föllnu bankanna eru enn þar við völd og sömu nöfnin, sömu hagfræðingarnir eru að segja okkur hvað við eigum að gera og hvernig við eigum að haga okkur. Útrásarvíkingarnir eru enn að grilla á kvöldin.

  Svo eru það skipulagshöfundarnir og þeir sem unnu deiliskipulagsvinnu samkvæmt hugmynum græðgisvæðingar og/eða þeir sem hafa/höfðu skipulagsvaldið. Eru þeir líka ennþá að skipuleggja og gefa ráð af sinni alkunnu visku og reynslu? Spyr sá sem ekki veit.

  En ég veit að það er ekkert til sem heitir nýtt Ísland.

  Fyrirgefið orðbragðið.

  Annars er þetta góður og umhugsunarverður pistill um samvinnu í stað átaka.

 • Þetta er fersk hugmynd sem Stebbi leggur til. Svona framkvæmd mundi leysa mörg mál. Góð tenging um Suðurlandsbraut upp í Úlfarsárdal með tíðni ferða sem er innan við 5 mínútur mun skjóta einkabílnum afturfyrir í forgangsröðinni og tengja saman íbúða og atvinnusvæði á effektívan hátt. Fasteignir yrði eftirsóttar við þessa línu og álag á Miklubraut minnka. Landspítalinn við Hringbraut yrði hugsanlegur möguleiki (er della að óbreyttu) Hefur “skipulagsvaldið” skoðað þetta?

 • Þú segir að deiliskipulögin séu helsta ógnin. Ég vil meina að það séu áherslur í Aðalskipulagi. Ofuráherslan á Miðborgina sem miðjuna þar sem allt á að vera en verður ekki af því það gengur ekki upp. Verslun sem ekki bíður upp á aðstöðu fyrir fólk til að komast á staðinn verður aldrei að raunveruleika. Það er ekki pláss fyrir bílastæði og ekki vilji til að skapa það pláss að því er virðist af því afleiðingarnar yrðu slæmar fyrir umhverfið. Niðurstöðuna sjáum við í raun í Kringlunni og Smáralind þar sem pláss var til að gera bílastæði og ekki þurfti að rífa gömul hús.

  Menn vilja flugvöllinn burt af því að þá leysist mál með þéttari byggð nærri miðborginni. Þá komi hin langþráða efling hennar. Ég efast, það verður amk ekki fyrr en eftir marga áratugi og vandamálið verður alltaf hvernig kemst fólk á milli staða.

  Hvað má þá gera? Eina leiðin, sem blasir við okkur þegar við komum til útlanda, er afkastamiklar almenningssamgöngur. Með öflugum samgönguás sem lægi frá Miðborginni meðfram Suðurlandsbraut og endaði t.d. í Úlfarsárdal mætti gera stóra hluti í þéttingu byggðar meðfram þeirri línu. Áhrifasvæði slíkrar línu, sem er um 12 km löng, er um 2000 ha. sem er heldur meira en flugvallarsvæðið. Þetta held ég að sé raunhæft. Líklega raunhæfara en að leggja niður flugvöllinn.

  Á þessari leið er Miðborgin, vannýtt húsnæði við Suðurlandsbraut, Skeifan sem býður upp á mikla möguleika í endurbyggingu svæðisins, Ártúnsholtið sömuleiðis, Keldnaland óbyggt, umhverfi Korputorgs og að lokum uppbygging í Úlfarsárdal á allt öðrum forsendum en verið hefur. Og Breiðhyltingar gætu lagt bílnum í Ártúnsholti þegar þeir væru að fara á leik á Laugardalsvelli.

 • Jón Sigurðsson

  Þetta eru gildishlaðin nöfn, “verndunarsinni” og “uppbyggingarsinni”. Það hallar að ósekju á verndunarsinna. Sennilega er hægt að skilgreina tvö viðhorf í þessum málum en að halda því fram að þetta séu andstæðingar er vafasamt. En ef svo er þarf að taka niður girðingar milli hópanna og alls ekki nota þessi nöfn. Hvernig segir í hinni helgu bók “í upphafi var orðið”. Eru ekki allir sammála því markmiði að byggja líflega borg með sterk tengsl við söguna?

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af tveimur og sex? Svar:

Höfundur

Hilmar Þór Björnsson arkitekt
Tilgangur síðunnar er að kynna arkitektúr, skipulag og staðarprýði ásamt því að stuðla að umræðu um efnið. Það sem fram kemur ber ekki að skilja sem skoðun höfundar heldur hugleiðingu sem sett er fram í þeim tilgangi að vekja lesendur til umhugsunar og skoðanaskipta. Tekið er á móti aðsendum greinum þegar það á við, sem þá eru á ábyrgð höfundar aðsends efnis.
Athugasemdir við færslur eru velkomnar. Þeir sem vilja koma skilaboðum til ábyrgðarmanns beint er bent á netfangið hilmarstofunni@gmail.com
RSS straumur: RSS straumur

Færslusafn