Mánudagur 05.12.2011 - 11:49 - 5 ummæli

Manfreð Vilhjálmsson heiðursfélagi AÍ.

.

Á aðalfundi Arkitektafélags Íslands sem haldinn var þriðjudaginn 29. nóvember s.l. var Manfreð Vilhjálmsson arkitekt kjörinn heiðursfélagi AÍ.

Manfreð er sjöundi heiðursfélagi Arkitektafélagsins á 75 ára sögu þess. Þeir hinir eru Sigurður Guðmundsson, Gunnlaugur Halldórsson,  Hörður Ágústsson, Guðmundur Kr. Kristinsson, Gísli Halldórsson og Högna Sigurðardóttir.

Af því tilefni hef ég fengið heimild til þess að birta hér samantekt Péturs H. Ármannssonar um störf Mannfreðs.

Gefum Pétri orðið:

.
Manfreð Vilhjálmsson arkitekt er fæddur í Reykjavík árið 1928. Að loknu stúdentsprófi frá M.R. árið 1949 hélt hann til náms við Chalmers tækniháskólann í Gautaborg í Svíþjóð og útskrifaðist þaðan sem arkitekt árið 1954. Að námi loknu vann hann hjá arkitektunum Sven Brolid og Jan Wallinder í Gautaborg. Árið 1956 fluttist Manfreð heim til Íslands og starfaði á teiknistofu Skarphéðins Jóhannssonar arkitekts í þrjú ár, uns hann hóf rekstur eigin teiknistofu. Árið 1967 gerðist Þorvaldur S. Þorvaldsson arkitekt félagi hans um rekstur stofunnar og stóð samstarf þeirra til ársins 1984. Eftir það starfrækti Manfreð teiknistofu í eigin til ársins 1996, er hann stofnaði fyrirtækið Manfreð Vilhjálmsson – Arkitektar ehf. ásamt  Árna Þórólfssyni og Steinari Sigurðssyni arkitektum.

Í þau ríflega 45 ár sem Manfreð Vilhjálmsson hefur starfað sem arkitekt hér á landi hefur hann alla tíð sett markið hátt í listrænu og faglegu tilliti. Ásamt Guðmundi Kr. Kristinssyni arkitekt var hann brautryðjandi nýrra hugmynda í íslenskum arkitektúr á árunum um og eftir 1960, þar sem áhersla var lögð á léttleika í uppbyggingu húsa og opna rýmisskipan. Meðal fyrstu verkefna Manfreðs voru afgreiðslustöðvar Nestis h.f. við Elliðaár (1957, nú rifin) og í Fossvogi (1956, breytt) og Veganestis á Akureyri (1961, breytt). Val og meðhöndlun efnis var eitt helsta nýmælið í hönnun þessara bygginga: léttbyggð, svífandi skyggni með sýnilegri burðargrind úr stáli, plastplötur í þaki yfir afgreiðslusvæði og undir því gegnsæ skýli þar sem efniviðurinn var fengin úr bílasmíði: gler, stál og gluggalistar úr gúmmíi.

Á árunum 1959-61 vann Manfreð, ásamt Guðmundi Kr. Kristinssyni, uppdrætti af eigin íbúðarhúsum þeirra tveggja á Álftanesi, þar sem þeir innleiddu byltingarkenndar nýjungar á þeirra tíma mælikvarða í rýmisskipan, fagurfræði og tæknilegri uppbyggingu húsa. Í síðari verkum sínum hefur Manfreð unnið áfram með sömu hugmyndir og aðlagað þær íslenskum aðstæðum og byggingarhefð. Í einbýlishúsi við Mávanes 4 á Arnarnesi frá árinu 1964 er léttbyggðu, flötu þaki tyllt ofan á fínlega burðargrind úr tré innan við steyptan útvegg með rákuðu yfirborði. Hönnun hússins er að öllu leyti mjög nútímaleg en hugmyndin um uppbyggingu þess minnir um margt á byggingarlag gamalla torfhúsa þar sem þekjan hvílir á viðarstoðum innan við hlaðna veggi.

Í verkum sínum hefur Manfreð oft notað efni og liti til að laga byggingar sínar að umhverfinu. Má þar nefna heimavistarskóla að Stóru-Tjörnum í S. Þingeyjarsýslu (1969) Þjóðarbókhlöðu (1972-96) og kirkjugarðshús í Hafnarfirði (1976), allt verk unnin í samstarfi við Þorvald S. Þorvaldsson arkitekt. Annað sameiginlegt verkefni þeirra var Skálholtsskóli (1971). Formstef skólahússins er sótt í dómkirkjuna og saman mynda byggingarnar sterka heild í landslaginu. Hliðstæða nálgun má sjá í tengibyggingu við hús Ásmundar Sveinssonar við Sigtún (1990-91), þar sem markmiðið var að raska ekki þeirri sérstæðu ásýnd sem einkennir hús myndhöggvarans.

Áhersla á byggingarefnið og eiginleika þess til að leysa ólíkar notkunarþarfir á einfaldan og hagkvæman þátt er einkennandi fyrir byggingarlist Manfreðs Vilhjálmssonar. Hús Honda-umboðsins við Vatnagarða 24 (1980) og verslunarinnar Epal í Faxafeni 7 (1986) eru að stofni til einfaldar skemmur sem hafnar eru í æðra veldi með óvenjulegri gluggaskipan og listilegum útfærslum í frágangi utanhússklæðningar. Í þjónustuhúsi tjaldstæðisins í Laugardal (1987) sameinast í einu verki ýmsar hugmyndir sem Manfreð hafði þróað í fyrri verkum. Steyptur stoðveggur með torfhleðslu utanvert myndar eins konar tóft sem opnast til suðurs í átt að tjaldstæðinu. Innan í henni er burðargrind úr tré sem ber uppi þekju úr gegnsæju plasti. Á sumrin opnar húsið sig á móti sól og birtu og innra rými þess og dvalarsvæðið utan við renna saman í eitt. Gömlum byggingarefnum og nýjum er telft saman á óvenjulegan hátt: klömbruhleðslu og torfi andspænis harðviði, áli og plasti.

Manfreð Vilhjálmsson arkitekt hefur hlotið ýmsar viðurkenningar fyrir verk sín, svo sem Menningarverðlaun DV árin 1980 og 1988 og Riddarakross hinnar íslensku fálkaorðu árið 1996. Umfjöllun um verk hans hefur birst í fjölmörgum innlendum og erlendum fagritum. Árið 2009 Manfreð heiðursviðurkenningu menningarverðlauna DV fyrir framlag sitt til íslenskrar byggingarlistar. Sama ár kom út á vegum Hins íslenska bókamenntafélags bók tileinkuð verkum hans og starfsferli, Manfreð Vilhjálmsson arkitekt, sem Halldóra Arnardóttir listfræðingur og Pétur H. Ármannsson arkitekt ritstýrðu.

Hér að neðan eru ljósmyndir af nokkrum verka Manfreðs sem hann hefur unnið ýmist einn eða í félagi við aðra. Efst er ljósmynd af þjónustuhúsi við tjaldstæði í Laugardal, Reykjavík.

Þjóðarbókhlaðan

Listasafn Ásmundar Sveinssonar

Skálholt

Ljósmynd af Manfreð Vilhjálmssyni  arkitekt þegar hann tók við viðurkenningunni.

Flokkar: Óflokkað

«
»

Ummæli (5)

  • Jón Gunnar

    Einstaklingar á borð við Manfreð eru á undanhaldi og fyritæki og teymi arkitekta hefur tekið við. Er þetta gott eða slæmt fyrir arkitektúrinn, þ. e. Byggingalistina? Nú eru það fyritæki án einkenna listamannsins, einstaklingsins sem ráða ferð. Kannski er það gott fyrir byggingariðnaðinn en hvað með listina. Til hamingju Manfreð

  • Flott framtak

  • Það er eins og Manfreð byrji alltaf á auðu blaði og láti þarfagreininguna, staðarandann og verkefnið sjálft taka völdin. Svipað og Utzon. Og úr verður einstakur arkitektúr sem er eldrei eins en þó alltaf í takt við stund og stað.

  • Guðni Pálsson

    Mannfreð ar svo sannarlega vel að þessu kominn. Hafði þann heiður að vinna hjá honum og Þorvaldi í rúmt ár eftir að ég flutti til íslands 1981-83

  • Jón Sveinsson

    Þjónustuhúsið í Laugardal er eitthvað besta dæmi um íslenskan arkitektúr síðustu áratugina. Þarna er byggt á arfleifð aldanna í íslenskri húsagerðarlist. Ferðamenn koma þarna strax í snertingu við íslenska byggingalist byggða á sögu landsins í greininni. Arkitektar mættu líta betur til sögunnar í verkum sínum. “Að fortíð skal hyggja ef vel á að byggja”

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af átta og einum? Svar:

Höfundur

Hilmar Þór Björnsson arkitekt
Tilgangur síðunnar er að kynna arkitektúr, skipulag og staðarprýði ásamt því að stuðla að umræðu um efnið. Það sem fram kemur ber ekki að skilja sem skoðun höfundar heldur hugleiðingu sem sett er fram í þeim tilgangi að vekja lesendur til umhugsunar og skoðanaskipta. Tekið er á móti aðsendum greinum þegar það á við, sem þá eru á ábyrgð höfundar aðsends efnis.
Athugasemdir við færslur eru velkomnar. Þeir sem vilja koma skilaboðum til ábyrgðarmanns beint er bent á netfangið hilmarstofunni@gmail.com
RSS straumur: RSS straumur

Færslusafn