Mánudagur 09.02.2015 - 11:43 - 18 ummæli

Matarmarkaður við Hlemm

Visualisering1

Síðunni hefur borist masterverkefni sem unnið var á arkitektaskólanum í Árósum.  Höfundurinn er Snædís Bjarnadóttir arkitekt  sem flutti til Danmerkur árið 2008 og lauk meisratanámi í arkitektúr frá Árósum á síðasta ári. Hér er kynnt lokaverkefni hennar með texta frá höfundi sjálfum.  Hér er mjög áhugavert innlegg í umræðuna um alvöru matarmarkað í Reykjavík.

++++++

Torgið

Torgið Hlemmur einkennist í dag af mikilli umferð, stór strætóstoppistöð og breiðar götur er það sem maður upplifir þegar maður kemur þar að. En torgið er á mjög mikilvægum punkti í bænum, við endann á okkar aðal verslunargötu. Í dag minnkar lífið á Laugarveginum eftir því sem ofar dregur, og búðir þrífast ekki eins vel á efsta hluta götunnar.

Mín hugmynd er að gefa rýminu nýtt hlutverk. Með því að gera það meira aðlaðandi, styrkir það efri hluta Laugarvegsins, dregur fólk ofar og “lokar” veslunargötunni. Og með því að endurhugsa og takmarka bílaumferð gerir það torgið og veslunargötuna meira aðlaðandi. Þetta er þróun sem flest okkar nágrannalönd hafa farið í gegnum fyrir mörgum árum síðan, Strikið í Kaupmannahöfn sem dæmi var bílagata til ársins 1964.

Markaðurinn

Verkefnið snýst um að gefa Hlemmi nýtt hlutverk og tengja torgið við miðbæinn. Matarmarkaður er eitthvað sem ég tel að væri spennandi að skoða á þessu torgi, góð tenging við miðbæinn. Fjölbreytt atvinnustarfsemi og íbúðarbyggð er þar í kring, sem gefur möguleika á fjölbreyttu lífi innan markaðarins.

Matarvenjur Íslendinga eru að breytast mikið, við erum að koma frá tíma sem einkenndist af skyndibita og mikið unnum matvælum. Fólk er farið að hugsa meira um hvaðan matvælin koma og velja frekar gæða vörur og helst íslenskar. Með því að skapa stað þar sem td. fisksalinn, kjötsalinn, bakaríið, og íslenska gænmetið sameinast, auðveldar það aðgengi að þessum vörum.

Byggingin

Hugmyndin er að byggingin og bæjarrýmið fljóti saman, þakið svífi yfir torginu og skilin milli markaðar og torgs eru óskýr. Framhliðarnar eru inndregnar og þakið skapar rými utandyra í skjóli frá veðrum og vindum. Á sumrin þegar veður er gott er hægt að opna framhliðarnar við enda ganganna og markaðurinn flæðir út í bæjarrýmið. Þannig gefst tækifæri á að stækka markaðinn þegar vöruúrval er meira, td. þegar árstíðabundnu vörurnar bætast við.

Innra skipulagið er unnið út frá fyrirmyndum frá nágrannaþjóðum okkar, básar sem raðast upp í (grid). Tvær aðal gönguleiðir eru skornar í gegnum markaðinn, þvert á skipulag básanna. Með því að skera tvo axa í gegnum ganglínur básanna myndast innri torg, rýmið opnast inni í miðjum markaðinum.

+++++++

Nokkuð hefur verið fjallað um matarmarkaði í Reykjavík hér á vefnum undanfarin ár. Hér er slóð að nokkrum þeirra:

http://blog.dv.is/arkitektur/2015/01/26/matarmarkadur-vid-midbakka/

http://blog.dv.is/arkitektur/2011/10/06/matarmarkadur-vid-reykjavikurhofn/

http://blog.dv.is/arkitektur/2013/12/15/harpa-matarmarkadur-hus-folksins/

http://blog.dv.is/arkitektur/2011/10/14/fiskimarkads-tilraun-i-reykjavik-2010/

 

 

 

 

 

 

 

U¦ütlit-austur

Útlit til austurs

Afsto¦ê+¦umynd

 

Afstöðumynd

Diagramm-b+ªrinnSamhengi hlutanna – stóra myndin og tengsl við Laugarveg og Kvosina

 

Diagramm-torgi+¦

 

 

 

 

 

Visualisering2

Grunnmynd

Flokkar: Óflokkað

«
»

Ummæli (18)

  • Hermann Ólafsson

    Sælir,
    Skemmtilegar pælingar með Hlemmtorg, sem á eftir að verða mikilvægara á komandi árum, með þéttari íbúðabyggð í kring.

    Ég hef verið með í kollinum hugmynd um að fjarlægja veggina úr húsinu og skilja eftir þakið! Þannig gæti verið alvöru ÚTI markaður, bara með þaki, og þannig væri húsið og saga þess að einhverju leyti varðveitt.

    • Bráðsnjöll og eingöld hugmynd.

      Taka þarf alla innveggina niður í núverandi Hlemmbyggingu og setja vandaðann matarmarkað inn í húsið sem gæti svo teigt sig út á torgið á góðviðrisdögum.

      Og límmðana á gluggunum þarf að taka niður strax á mánudaginn. Þetta er hörmung að sjá og skemmir húsið.

      Það er mun betri auglýsing fyrir Strætó að sjá inn í skýlið en þessir hörmulegu límfletir á glerinu!!!!!!!!!!

  • Sniðigt væri að byggja 4-5 hús á stærð bið Gasstöðvarhúsið framan við Lögreglustöðina og skapa heildstætt torg umhverfis gamla Hlemm og koma fyrir mataarkað, úti og inni!
    Flott hjá Snædísi.

  • Kristinn Hermannsson

    Gott inlegg. En er verið að sækja vatnið yfir lækinn með því að byggja nýtt hús? Strætóhúsið gæti vel verið matarmarkaður í Evrópu. Dæmigert fyrir léttar og hráar byggingar (stílfærða skúra) af því tagi. Held að andúðin á strætóhúsinu snúist ekki um galla hússins heldur vondar minningar frá norpi í strætóbið á vetrarkvöldum.

    • Hilmar Þór

      Þakka þér þetta Kristinn
      .
      Ég er sammála þér um að byggingin sem nú stendur á Hlemmi er aldeilis ágæt. Aiðvitað barn síns tíma og hefur átt slæma daga. STRÆTÓ BS hefur sjálf farið illa með bygginguna.

      Þar ber fyrst að nefna auglýsingarnar sem límdar eru á rúðurnar.

      Þetta er hugsuð sem létt og gagnsæ stálbygging þar sem birtan inn er alltaf jafnmikil eða meiri en utandyra. Þá yrði skil milli úti og inni minni eins og Snædis vill hafa í sínu húsi. Húsið fengi þann léttleika sem arkitektiunn stefndi að á sínum tíma.

      Burt með auglýsingarnar á rúðunum og ný og betri bygging kemur í ljós!

      Byggingin fékk Menningarverðlaun DV á sínum tíma svo hún getur ekki verið alslæm.

      Rónar og vímuefnasalar hafa einnig dregið orðstí Hlemms niður.

  • Hilmar Gunnarsson

    Mér finnst þetta fallegt verkefni hjá henni og sammála því að það mætti vera örlítið rislægra. Mér finnst flott hvernig torgið og byggingin flæða saman. Hefði kannski mátt vera aðeins meira af grænum flötum?

    Ég er skotinn í biðstöðvarhúsinu í núverandi mynd. Það væri gaman að sjá tillögu af því hvernig það gæti verið gert upp með samskonar hugmynd til hliðsjónar og kannski örlítið meira pönk, meiri saga…?

  • Stefán Benediktsson

    Lögreglan mun flytja og annað koma ín staðinn en Gasstöðin blívur (litla hvíta húsið. Þetta er flott bygging sem tekur hugmynd Mirralles og Pinós í Katrínarmarkaðnum í Barselóna og heimfærir í norðlægt umhverfi og nei byggingin er ekki of stór. Aðalvandinn er að þarna er hús fyrir eftir góðan arkitekt.

  • Eysteinn Gunnarsson

    Gríðarlega snjöll hugmynd. En húsið sem Snædís hannar er of fyrirferðamikið. Það þarf ekki að vera svona svipmikið og hátt.
    Mætti vera hógværara.
    En hún reddar því.

    • Sammála. Mætti vera aðeins rislægra. Mænirinn sem snýr í norður ætti að flútta við mæninn á litla gasstöðvarhúsinu. Lækka allt þakið sem því nemur.

  • Steinarr Kr.

    Hverfisgata 113-115 er ljótt, ópraktískt og illa farið hús, sem með góðu mætti hverfa. Þá opnast svæðið að Bríetartúni, sem gefur mikla möguleika.

    • Fletti þessu heimilisfangi upp og sýnist það vera Lögreglustöðin og Litla hvíta húsið á horni Hverfisgötu og neðri hluta Rauðarárstígs.

      Held það sé full djúpt í árinni tekið að hallmæla svona lögreglustöðinni. Það er fyrst og fremst planið á bak við hana (á milli Hverfisgötu og Bríetartúns) sem segja má að sé verulega illa nýtt miðað við staðsetningu í borginni.

      Sjálfur fer ég um Hlemm marga daga í viku á veturna. Þegar ég nota strætó.

      Ég hef sjálfur velt því fyrir mér hvort það væri ekki góð hugmynd að hafa stórmarkað við Hlemm. Þá gætu þeir sem nota almenningssamgöngur og vinna og búa sitthvoru megin Snorrabrautar hoppað út á Hlemmi á leiðinni heim úr vinnu, nýtt 15 til 30 mínútur á milli vagna til að versla inn, og haldið svo áfram ferðinni heim á leið.

      Markaður með gæðavöru væri góð viðbót við það. Maður gæti byrjað á að versla gæðavörur þar og svo restina í hefðbundnum stórmarkaði.

      Það er fátt leiðinlegra en að taka strætó út á Granda eða upp á Höfða til að versla. Aðkoman að verslununum þar er svo leiðinleg fyrir þá sem ekki koma á bílum.

      Þar til viðbótar myndi þetta lágmarka tímann sem fer í að versla.

      Ef til vill getur lögreglan flutt. Eða rýmt neðstu hæð hússins og fundið annað stað fyrir svona plan. Þá mætti koma fyrir miðbæjarstarfsemi á jarðhæðinni. Hún yrði um leið löguð að Hverfisgötunni. Auk þess sem ganga mætti í gegnum húsið inn í stórmarkað sem væri í viðbyggingu á baklóðinni.

      Hafa mætti stórmarkaðinn á einni hæð á miðri lóðinni, og umkringja hann með 2-4 hæða byggingum meðfram Snorrabraut, Bríetartúni og Rauðarárstíg. Ofan á stórmarkaðinum mætti koma fyrir garði eða bílastæðum.

      Það hlýtur að vera hægt að útfæra þetta svæði þannig að þessar hugmyndir (bæði þær sem koma fram í greininni og þær sem ég lýsi hér) fari saman við hugmyndir um samgönguás. Í versta falli gæti ásinn legið um Bríetartún á milli Snorrabrautar og Katrínartúns, í stað Hverfisgötu.

    • Þessi sviðsmynd Hlöðvers og tillaga Snædísar er draumi likust!

  • Sigrún Gunnarsdóttir

    Flott

  • Eysteinn Jóhannsson

    Þetta er mjög lofandi hugmynd sem ætti að útfæra sem fyrst. Gaman að sjá hvað unga fólkið er að gera í skólunum.

  • Hilmar Þór

    Ég fékk ábendingu um að ekki væri gert ráð fyrir samgönguás AR2010-2030 í tillögu Snædísar. Skýringin er sú að verkefnið er unnið áður en aðalskipulagið var lagt fram. Að sjálfsögðu munu allar skipulagsákvarðanir framtíðarinnar taka mið af nýju aðalskipulagi og þá sérstaklega hryggjarstykkinu sem er samgönguásinn frá Vesturbugt austur að Keldum. (margir sem ég tala við og sinna skipulagi fyrir borgina hafa reyndar ekki allir áttað sig á þesu)

    • Þessi setning pistlahaldara um samgönguás, reyndar innan sviga, vekur athygli:

      „(margir sem ég tala við og sinna skipulagi fyrir borgina hafa reyndar ekki allir áttað sig á þesu)“

      Er til birtingarhæf skýring á staðhæfingunni?

    • Hilmar Þór

      Þessi athugasemd var kannski óviðeigandi hjá mér en ástæðan er sú að ég hef nokkrar áhyggjur af fyrirhuguðum samgönguás aðalskipulagsins.

      Ástæðurnar eru helst þær að ég sé að ráðgjafar borgarinnar eru ekki sérlega uppteknir af áætluninni. Það er hætta á að ekkert verði úr hugmyndinni vegna skorts á eftirfylgni, skilningsleysi ráðgjafa og yfirgangi hagsmunaaðila einstakra lóða (svæða). Hugmyndin um samgönguás sem einhver bragur er að hentar kannski ekki alltaf því „verktakaskipulagi“ sem stundum örlar á.

      Ég nefni:.

      Hvergi er minnst á samgönguásinn í nýlegu deiliskipulagi við Austurhöfn, en eðli másins samkvæmt mun ein helsta áningarstöð samgönguássins einmitt vera á þeim slóðum.

      Í tillögum í samkeppni um deiliskipulag við Súðarvog þar sem samgönguásinn fer um var hann ekki sjáanlegur í flestum tillögunum. En það var lagað á síðari stigum við frekari vinnslu vinningstillögunnar.

      Í vinnu BBB (Betri borgarbrag) var ekki tekið tillit til samgönguássins eftir Suðurlandsbraut heldur var einhver áhersla lögð á Miklubrautina (Kannski var samgönguáshugmynd aðalskpulagsins ekki fullmótuð á þeim tíma en menn sem fylgdust með vissu vel af henni)

      Svo var það teymisvinnan „hæg breytileg átt“ sem var umsvifamikil skipulagsvinna. Þar var samgönguásinn vart merkjanlegur þó fjallað hafi verið um svæðið.

      Og að lokum vil ég nefna að ég hélt erindi á Rótarý fundi fyrir hálfum mánuði. Þar varð ég var við að fundarmenn, eins upplýstir og þeir nú eru, höfðu aðspurðir, aldrei heyrt talað um þenna samgönguás. Þeir létu sam í ljós ánægju með hugmyndina. Þetta segir mér að hugmyndin er ila kynnt.

      Já, ég verð að endurtaka að ég hef áhyggjur af þessum samgönguás og lýsi eftir framkvæmdaáætlun vegna hans frá borgarinnar hálfu.

      Að lokum: Allt á að þola dagsljós í skipulagsumræðunni að mínu mati.

    • Gott svar. Takk fyrir það. En mér skilst á arkitektum að þeir séu sérhæfðir í því að sjá heildarmyndina. Það er þá ekki rétt af þessu að dæma!

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af núlli og sex? Svar:

Höfundur

Hilmar Þór Björnsson arkitekt
Tilgangur síðunnar er að kynna arkitektúr, skipulag og staðarprýði ásamt því að stuðla að umræðu um efnið. Það sem fram kemur ber ekki að skilja sem skoðun höfundar heldur hugleiðingu sem sett er fram í þeim tilgangi að vekja lesendur til umhugsunar og skoðanaskipta. Tekið er á móti aðsendum greinum þegar það á við, sem þá eru á ábyrgð höfundar aðsends efnis.
Athugasemdir við færslur eru velkomnar. Þeir sem vilja koma skilaboðum til ábyrgðarmanns beint er bent á netfangið hilmarstofunni@gmail.com
RSS straumur: RSS straumur

Færslusafn