Mánudagur 26.01.2015 - 19:31 - 20 ummæli

Matarmarkaður við Miðbakka?

Fyrir rúmum fjórum árum skrifaði ég nokkra pistla um matarmarkaði víða um heim og vöntun á slíkri starfssemi í Reykjavík.

Ég skrifaði um matarmarkaði sem stæðu sælkerabúðum og lágvöruverslunum framar á allan hátt.  Markaði þar sem verslun er hin besta skemmtun og upplifun. Matarmarkaði sem hefði aðdráttarafl fyrir jafnt borgarbúa og ferðamenn alla daga vikunnar.

Lagt var til að slíkum markaði  yrði fundinn staður á Miðbakkanum við Reykjavíkurhöfn sem nú er í deiliskipulagsferli.

Ég rifja þetta upp núna vegna þess að það er tilefni til.

Síðan þetta gerðist hefur borgin lagt fram og fengið staðfest Aðalskipulag sem styður enn frekar hugmyndina og þessa staðsetningu auk þess sem deiliskipulag Miðbakka er nú í vinnslu ef ég skil rétt. Aðalskipulagið stefnir að auknu mannlífi á götum borgarinnar og aukinni umferð og þjónustu almenningsflutninga.

Reykjavíkurborg er loks að breytast úr þorpi í borg og til þess að fullkomna sviðsmyndina þarf virkan og góðan matarmarkað á góðum stað þar sem framleiðendur geta selt framleiðslu sína milliliðalaust til neytenda. Þar fyrir utan hefur áhugi framleiðenda og kaupenda matvöru fyrir að eiga milliliðalaus viðskipti við framleiðendur vaxið ört og ekkert bendir til annars en að það muni aukast enn frekar. Fólk vill vita hvaðan varan kemur og afnvel hitta fulltrúa framleiðanda þegar viðskiptin fara fram.

Mikilvægt er að muna að meðfram Miðbakka mun fyrirhugaður samgönguás aðalskipulagsins liggja og binda borgina saman frá Vesturbugt alla leið austur að Keldum. Þessi samgönguás er hryggjarstykki AR 2010-2030.

+++++++

Nú eru liðin meir en fjögur ár síðan Torvehallerne á Israels Plads í miðborg Kaupmannahafnar opnaði. Þetta er matarmarkaður þar sem seld er gæðamatvara sem ekki tengist stóru búðarkeðjunum.

Aðdragandinn var ein 13 ár. Frumkvöðullinn var Hans Peter Hagen arkitekt sem stofnaði Köbenhavns Torvelaug árið 1998. Margir studdu hann í hugmyndavinnunni sem starfaði undir nafninu „Torvelauget“. Einn þeirra var Tryggvi Ólafsson, hinn kunni íslenski myndlistarmaður.

Torvehallerne hafa orðið fyrirmynd slíkra markaða á norðlægum slóðum. Svipaðir markaðir hafa verið opnaðir víða í Finnlandi og Svíþjóð. Hans Peter Hagen hefur komið að mörgum þeirra og er nú að vinna að einum í Melborne í Eyjaálfu.

Borgaryfirvöld brugðust afar vel við skrifunum fyrir fjórum árum og vildu greiða götu matarmarkaðar í Reykjavík af svipuðu tagi og sjá má í Kaupmannahöfn og gengu mjög langt í þeim efnum. Nú þarf borgin að huga að þessu að nýju í tengslum við deiliskipulag það sem er í vinnslu á Miðbakka.

Færslunni fylgja ljósmyndir af Torvehallerne í Kaupmannahöfn sem gefa tilfrinningu fyrir andrýminu þar. Neðst er 120 ára gömul ljósmynd af markaðstorginu Israels Plads

Sjá einnig:

 http://blog.dv.is/arkitektur/2011/10/06/matarmarkadur-vid-reykjavikurhofn/

 

 

 

01

Flokkar: Óflokkað

«
»

Ummæli (20)

 • Borgar Bui

  Þetta er eitthvað mesta rokrassgat á öllu höfuðborgarsvæðinu. ALLTAF rok og kuldi. Þetta yrði að vera innandyra og kynnt hressilega

 • Hilmar Þór

  Tek undir með Stefáni Benediktssyni. Hnattstaðan er lítið vandamál. Hér er verið að velta fyrir sér yfirbyggðum markaði eins og fram hefur komið. Sú lausn hefur gengið ágætlega á norðlægum slóðum fyrir utan að þetta er meira spurning um klæðaburð og hugarfar en hnattstöðu. Það vium við sem höfum fylgst með þessum málum undanfarna áratugi.

 • stefán benediktsson

  Við og þar með ég erum að tala um yfirbyggða markaði Orri Ólafur Magnússon ekki úimarkaði.

 • Orri Ólafur Magnússon

  Pardon : „því verr og miður“

 • Orri Ólafur Magnússon

  Fyrst og fremst þyrfti að breyta hnattstöðu Reykjavíkur ; flytja borgina um set á um það bil sömu breiddargráðu og Barclona eða Flórens, þaðan sem Stefán Benediktsson tekur dæmin um veðursæla og vel sótta matarmarkaði. Þá væri von til að dæmið um matarmarkað gengi ef til vill upp. Auðvitað getur enginn bannað mönnum að láta sig dreyma um að spóka sig í sólskini og hægri golu innan um sölubása með ferskt grænmeti og angandi osta. Því ver og miður rífur hrjúfur raunveruleiki íslenskrar veðráttu okkur flest upp úr slíkri draumaveröld – það þarf ekki nema rétt að skyggnast út um gluggann núna þessa stundina til þess að vakna óþyrmilega.

 • Steinarr Kr.

  Kolaportið er fullt af verslunum með fasta bása. Út á markaðs útlitið og þannað þess háttar virðast ekki gerðar háar kröfur um útlit, hreinlæti, öryggi og annað þess háttar. Þetta væri öðru vísi ef þarna væru leigðir út básar fyrir hverja helgi og fyrstur kemur fyrstur fær.

 • stefán benediktsson

  Kolaportið er nauðsyn. Allir góðir bæir þurfa „flóamarkað“ en markaðir eins og Torvehallerne eru öðruvísi fyrirbæri þjóðlegir en samt keimlíkir hvort sem er í Barcelona, Budapest, Lundi, Osló eða Florens. Á sjöunda áratugnum fannst manni fáránlegt þegar spáð var að verslun yrði afþreying en í dag er það viðurkennt og fagurt umhverfi og ríkulegt „heimatengt“ vöruúrval skemmtileg og eftirsótt upplifun. Sjálfur kýs ég reyndar járnvöruverslanir eins og t.d. Brynju.

 • Bergsveinn

  Kolaportið er vissulega slæmt en það mætti endurskipuleggja og gera það agaðra með áherslu á mat eins og líst er í færslunni og er algengt erlendis(Torvehallerne)

 • Steinarr Kr.

  Kolaportið er víti til varnaðar þegar svona er planlagt.

 • Væri ekki einfaldast að breyta Hlemmi í matarmarkað?
  Arkitektúr hússins hæfir starfseminni afar vel að mínu mati.

  • Jón Þórðarson

   Hlemmur hentar vel… en er han nógu stór?

   Kannski má byggja við?

  • Kannski þarf ekki öll starfsemin að vera innandyra. Ef skiptistöðin fer annað væri hægt að búa til torg milli hlemms og Löggustöðvarinnar. Kjarnastarfsemi matarmarkaðarins væri svo inní Hlemmsbyggingunni en þegar veður leyfir væri hægt að setja sölubása út á torgið til viðbótar.

  • Svo er áhugavert að sjá nærmyndir af loftinu í Torvehallerne. Ekki ósvipuð konstrúksjón og Hlemmur, sjáanlegt stálvirki.

 • Jón Þórðarson

  „Reykjavíkurborg er loks að breytast úr þorpi í borg……“
  Vissulega 🙂

 • Bjarni Gísla

  Ég held að ástæðan fyrir því að markaðurinn sé ekki kominn í Reykjavík sé vegna þess að Kolaportið er á svæðinu. En Torvehallerne er af allt annarri gerð og með aðra hugmyndafræði en kolaportið. Borgin þarf að koma þessu í farveg sem fyrst.

 • Það er fyrir löngu kominn tími á matarmarkað í Reykjavík.

  Hef sjálfur bara komið á þrjá svona markaði, Torvehallene í Kbh, Mathallen í Osló og Mercato Centrale í Flórens.

  Mikið og skemmtilegt líf sem myndast í kringum þessa markaði.

 • Örnólfur Hall

  Af matvælamarkaði á Hörpureit v/Austurbakka o.fl. :

  — Í sept. 2014 var tilkynnt um að reisa ætti 8000 fm verslanamiðstöð (moll) í reitnum við Hörpu (v/Austurbakka), ef áætlanir stæðust.
  — Þar áður í jan. 2014 var tilkynnt um að byrjað yrði á 250 herb. Hröpuhóteli á árinu (um vorið?) sem ekkert heyrist meira um.- Nefndar voru líka
  íbúðablokkir til sögunnar.
  — Nú síðast kom svo ljós að Höfnin (Faxaflóahafnir), sem á forgang að hafnarbakkanum, gerir tilkall til stórs athafnarýmis á reitnum (farþegaskip o.fl.). Það er greinilegt að allt þetta kemst ekki fyrir á reitnum og skera þarf heilmikið niður þarna.
  — Væri þá ekki upplagt að líflegur matmælamakaður og e.t.v. handverks-markaður líka kæmu í staðinn og gerðu svæðið huggulegt og aðlaðandi?

 • Bergsveinn

  Ég hef heimsótt Torvehallerne og vitna um að þetta er frábærlega líflegt og skemmtilegt. Mæli með hugmyndinni.

 • Kristján Gunnarsson

  Það er ekki bara þörf á svona markaði í miðborgina, heldur nauðsyn!

  • Guðrún Þorsteinsdóttir

   Það er kannski ekki nauðsyn, en mikið væri þetta skemmtilegt.

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af þremur og þremur? Svar:

Höfundur

Hilmar Þór Björnsson arkitekt
Tilgangur síðunnar er að kynna arkitektúr, skipulag og staðarprýði ásamt því að stuðla að umræðu um efnið. Það sem fram kemur ber ekki að skilja sem skoðun höfundar heldur hugleiðingu sem sett er fram í þeim tilgangi að vekja lesendur til umhugsunar og skoðanaskipta. Tekið er á móti aðsendum greinum þegar það á við, sem þá eru á ábyrgð höfundar aðsends efnis.
Athugasemdir við færslur eru velkomnar. Þeir sem vilja koma skilaboðum til ábyrgðarmanns beint er bent á netfangið hilmarstofunni@gmail.com
RSS straumur: RSS straumur

Færslusafn