Fyrir réttum mánuði opnaði nýr matarmarkaður á Israels Plads í miðborg Kaupmannahafnar. Þetta er matarmarkaður þar sem seld er gæðamatvara sem ekki tengist stóru búðarkeðjunum.
Aðdragandinn var ein 13 ár. Frumkvöðullinn var Hans Peter Hagen arkitekt sem stofnaði Köbenhavns Torvelaug árið 1998.
Israels Plads á sér 122 ára sögu sem markaðstorg. En þar var opnaður matarmarkaður árið 1889 þar sem framleiðendur komu með vöru sína og buðu borgarbúum til kaups.
Nú er víða verið að endurskapa þetta viðskiptaform með matvörur. Í tengslum við vakninguna hefur verið búin til aðstaða sem hentar nútímanum.
Torvehallen á Israels Plads hefur fengið góðar móttökur og gengur vel. Því hefur þó verið haldið fram að byggingin sé aðeins yfirhönnuð og gefi viðskiptavininum tilfinningu um að þarna sé dýrt að versla, en það er misskilningur.
Fyrir nokkrum mánuðum benti ég núverandi stjórnarformanni Faxaflóahafna á að þetta væri kannski hugmynd sem Reykjavíkurhöfn ætti að skoða. Það þurfi að rækta hafnsækna starfsemi við Reykjavíkurhöfn. Hugasnlega væri þarna tækifæri fyrir fiskimarkað fyrir neytendur. Þ.e.a.s. að neytendur gætu keypt fisk nánast beint uppúr bátunum við höfnina. Það mætti líka tengja þetta matvælum til neytenda beint frá bónda og fiskverkanda.
Bygging Brims við hafnarbakkann í Reykjavík hentar vel fyrir svona starfssemi. Ég færði stjórnarformanninum sem einnig situr í skipulagsráði borgarinnar gögn um málið. Gögnin fjölluðu um hugmyndafræði markaðarins í Kaupmannahöfn ásamt frumdrögum.
Stjórnarformaðurinn sem er afar meðvitaður um staðaranda og gæði borgarsamfélags virtist áhugasamur um málið.
Hús Brims er vel staðsett hvað varðar aðföng bæði frá landi og sjó. Hún er í góðum tengslum við miðborgina og það má gera ráð fyrir að þarna verði góð léttlestartenging (eða „Bus Rapit Transit“) þegar þar að kemur. Staðsetningin mun styrkja Kolaportið og starfsemina í verbúðunum grænu. Hún er líka gott mótvægi við Hörpu og fyrirhugað lúxushótel í grenndinni.
Á Israels Plads selja framleiðendur smáskammta og vín til smökkunar sem eru í raun litar máltíðir. Þetta er í anda þess sem víða má finna sunnar í Evrópu, t.d. í Parísarborg.
Tæknilega er Brimhúsið ákjósanlegur kostur. Einungis þyrfti að fjarlægja steypueiningarnar utaná húsinu sem eru nánast ónýtar og setja glerveggi í staðinn og koma upp sæmilegu stoðkerfi með rafmagni, hita, frárennsli o.þ.h.
Er nokkuð yndislegra en að labba þarna við eftir vinnu og kaupa kjöt og grænmeti beint frá bónda eða sjómanni sem leggur upp þarna við hafnarbakkann við hliðina á húsinu. Þarna yrðu auk kúa-, sauðfjár-, kjúklinga-, svína-, og matjurtabænda nokkrar sælkerabúðir á borð við Ostabúðina, Pipar & Salt, Kjöthöllina, Boutiqe fisk og nokkur handverksbakarí auk að sjálfsögðu vínbúðar og kaffihúsa.
Maður verslar og tekur svo léttlestina heim og eldar matinn úr fyrsta flokks hráefni og dreitir á víninu. Veltir fyrir sér hvort sé betra lambakjötið frá Bjarteyjarsandi eða frá KS eða SS!
Oft þarf ekki annað en eina góða hugmynd og tvo til þrjá eldhuga og málið er orðið að veruleika öllum til gagns og yndisauka.
Líkan af frumhugmyndum Hans Peter Hagen arkitekts
Grænmeti beint frá bónda o.s.frv.
Finna þarf Brimhúsinu nýtt og líflegra hlutverk
Markaður hefur verið á Israels Plads frá árinu 1889
Hér er áhugaverður tengill um efnið eftir Sigurveigu Káradóttur;
http://sigurveigkaradottir.wordpress.com/2011/10/04/alvoru-kaupholl-med-fe-a-faeti/
Þetta er snilldarhugmynd. Matur Englanna myndi gjarnan vilja vera með bás í þessu húsi. Vonandi verður þetta að veruleika.
Aðalatriðið er að þarna komi aldrei lúxushótel eða lúxusíbúðir og aðalstöðvar stórfyrirtækja eins og menn voru að velta fyrir sér fyrir Hrun.
Harpan og listasafn Reykjavíkur fyllar þann kúltúr- og ferðamannaageira í lúxusklassa sem þarna rýmist. Það er ekki pláss fyrir meira svoleiðislagað þarna.
Svona markaður ásamt einhverrri starfssemi sem tengjast höfninni beint á að vera það sem stefna á að.
Bara ekki að falla í sömu gröf og Kaupmannahöfn. Flottara hefði verið að hafa söluskálann á Israelsplads við gammel Doc eða Höjbro plads. Nú eða þar sem steindauð seðlabankabygging dana stendur nú.
Læum adf mistökum dana.
Prýðileg hugmynd!
Stórkostleg hugmynd! staðsetningin og húsið.
Markaðurinn á Israels Plads er ekki gourmet bændamarkaður. Var allavega ekta grænmetismarkaður þar sem hægt var að kaupa það ódýrasta í bænum. Framboðið er jú árstíðabundið sem þekkist varla hér. Í júní fór ég þarna á hverjum degi og fékk kíló af jarðaberjum á 10 dkr, namm!
Danir selja oft í stykkjatali, þannig fékk ég 10 appelsínur á 10 kall o.sv.fr. Varan kemur alls staðar að, líka þrælabúðunum í Almeríu. Jú inn á milli var t.d. býflugnabóndi með sína vöru sem eykur fjölbreytnina.
Í hverju þorpi á Spáni er svona markaður í miðbænum og þar versla nánast allir sína fersku matvöru, kjöt, fisk, blóm, grænmeti og ávexti, því þar er hún ferskust og ódýrust. Þar eru líka bændur með sína rekjanlegu sérvöru sem er spennandi kostur. Einnig er hægt að setjast niður og fá sér expressó.
Fór líka á bændamarkað í Glasgow, úrvalið girnilegt en dýrt, þannig að þetta var hástéttar og túristamarkaður.
Betra er að hafa líflegan blandaðan markað fyrir alla bæjarbúa, ferðamönnum lfinnst íka meira spennandi að sjá alvöru menningu en ekki enn eina túristagildruna.
Borg án markaðar af þessu tagi er engin borg. Koma svo Jón Gnarr og verið Bestir í verki
Við þráum greinilega öll líf og eitthvað jákvætt. Það fyllir mann bjartsýni:-)
Einu sinni fyrir löngu síðan, sótti KEA eða hvað það ágæta norðlenska fyrirbæri hét þá eða heitir nú, um leyfi til að opna lágvöruverslun í þessu húsnæði en var hafnað af borgaryfirvöldum. M.a. vegna hættu af nálægð við hafið bláa.
Kannski hefur dregið úr hættunni af nálægð við hafið, kannski ekki!
„Oft þarf ekki annað en eina góða hugmynd og tvo til þrjá eldhuga og málið er orðið að veruleika öllum til gagns og yndisauka“.
Menn eru alltaf að deila um keisarans skegg.
Allir eru oftast á sama máli.
Flottur texti og flott færsla
Ekki meira um það….
Frábær hugmynd Hilmar(og Sigurveig). Söluhallir (Saluhall) eru víða í Svíþjóð. Frábær blanda matvöruverslana og veitinga. Ef slíkt er hægt í reglugerðalandinu Svíþjóð þá er það hægt allsstaðar. Þessir skálar; sænskir, danskir, bostonskir og budapestskir eiga allir sameiginlegt að umgjörðin er öll mjög aðlaðandi.
Það þarf samt virkilega að fara að koma göngubrú frá Kolaportinu yfir Geirsgötuna þarna, tala nú ekki um ef það kemur matarmarkaður þarna, stórhættulegt hve fólk skýst þarna yfir, í og úr Kolaportinu t.d.
Daginn gott fólk!
Þetta er einmitt það sem við þurfum til að bæta í flóruna í miðborginni. Rjómabúið Erpsstaðir myndi án efa taka þátt í markaði sem þessum. vorum í mars á hönnunnardögum að kynna nýju vöruna okka Skyrkonfekt í Turninum á lækjatorgi og telst mér til að það hafi verið í fyrsta skipti á þessari öld að Bóndi kom til borgarinnar, á Lækjartorg og bauð vörur sínar falar!
Virkilega spennandi hugmynd og vonandi verður hún að veruleika og staðsetningin er mjög góð
Frábær hugmynd. Flestar borgir hafa svona „gúrmet“ markaði og hér í Vancouver er hann staðsettur í miðbænum. Ef hægt væri t.d. að hefja ávaxta og grænmetisúrval á Íslandi upp á aðeins hærra plan væri margt unnið. Matvælin (fiskurinn) heima er svo góður að hann getur varla bestnað. 🙂 Auk þess er þetta vettvangur fyrir alls kyns tilraunaeldhús og sælkeramat handverk ofl. Mikið aðdráttarafl fyrir túrista einnig.
Áfram frú Sigurveig og Hilmar
http://www.granvilleisland.com/public-market
Eins og þessu er lýst þá er um að ræða hugmynd að lúxusmatarverslanamiðstöð fremur en eiginlegan markað eins og þeir voru fyrrum á Vesturlöndum og finnast víða enn í Asíu og Afríku og eru ýmist undir beru lofti eða þá einungis þaki sem skýlir fyrir sól og regni. Þar ægir öllu saman, en einkum þó framleiðsluvörum viðkomandi landa og svæða. Verðið sveiflast mjög eftir framboði, árstíðum og jafnvel eftir tíma dags. Lækkar oft þegar líða tekur að kvöldi. Og auðvitað er þjarkað og þrúkkað um prísana, aftur og fram. Þarna gerir fólk innkaup sín sökum þess að verðið er lægra en í loftkældum verslunum með hillum, kæliborðum vörumerkingum, vörulýsingum og ýmsu sem kröfuhörðum neytendum Vesturlanda þykir til heyra. Markaðstorgin eru fyrst og fremst verslunarstaðir hinna efnaminni eins og lágvöruverðsverslanir eru hér um slóðir.
Torgverslun lagðist af að miklu leyti í Vestur-Evrópu á síðustu öld. Fyrir því munu hafa verið margar ástæður og þróunin flóknari en svo að hægt sé að gera grein fyrir henni í stuttu máli. Það eru vart líkur á að torgverslun í þeirri mynd sem hún var í á fyrri árum verði tekin upp að nýju að óbreyttu. En ef fólk horfir meira í stemninguna og valmöguleikana en pyngju sína og ef hinir miklu múrar heilbrigðisreglugerða reynast kleifir, þá ætti lúxusmatarkringla að geta átt erindi við vel efnaða og matglaða Norðurlandabúa. Vonandi gengur þetta allt vel á Israels Plads og því ekki að prófa hér líka. Kannski mun hækkandi matvælaverð á endanum verða til þess að gera matvöruverslun íburðarmeiri. Hver veit.
Þetta er bráðsnjöll hugmynd hjá þeim Sigurveigu og Hilmari en húsið er í eigu Guðmundar í Brim. Þarna hafa þau hækkað verðmæti eignarinnar úr engu í margar milljonir. Bara við að stinga uppá þessari snjöllu hugmynd.
… og líka … næmni fyrir „staðarandanum“.
Svona getur stundum komið jákvæður og ferskur andablástur;
tveir góðir pistlar, bæði Hilmars og Sigurveigar, sem fjalla af skilningi um „staðarandann“ og næmni fyrir „staðarandann“.
Takk fyrir, þið bæði.