Fimmtudagur 29.09.2011 - 13:52 - 11 ummæli

Menningarstefnan og Landspítalinn

 

.

Flestir þeirra sem hafa kynnt sér menningarstefnu menntamálaráðuneytisins í mannvirkjagerð telja að nýtt deiliskipulag Landspítalans við Hringbraut sé ekki í samræmi við stefnuna.  Um þetta eru þeir sem vinna að tillögugerðinni ekki sammála af eðlilegum ástæðum.

Ef stefnan er skoðuð og fyrirliggjandi drög að deiliskipulagi Landspítalans á sunnanverðu Skólavörðuholti  borin saman við hana sýnist margt umhugsunarvert.

Dæmi er tekið af tilmælum á síðu 23 í menningarstefnunni þar sem stendur orðrétt:  

”Áhersla skal lögð á heildarmynd og mælikvarða þegar byggt er i eða við eldri byggð. Til að tryggja heildrænt og sögulegt yfirbragð húsa, götumynda og byggðamynsturs er nauðsynlegt að stjórnvöld framfylgi skýrri stefnu þar.”

Ef tillagan er skoðuð verður ekki séð að þarna sé þess gætt að heildarmynd og mælikvarði sé í samræmi við það sem fyrir er eða að heildrænt yfirbragð sé yfir nýbyggingum og núverandi götumynda og byggðamynsturs Skólavörðuholtsins.

Þarna ber stjórnvöldum, eins og fram kemur í tilvitnuninni, ”að framfylgja skýrri stefnu” sinni.

Þetta er bara eitt dæmi af mörgum í manvirkjastefnunni sem þarf að skoða og tengist umræddum deiliskipulagsdrögum beint.

Menningarstefnan er vandað og mikilvægt skjal þar sem lagður er grunnur að stefnu íslenskra stjórnvalda varðandi skipulag og byggingarlist.

Stefnan var unnin af nefnd sem skipuð var af fulltrúa ráðuneytisins Halldóru Vífilsdóttur arkitekt sem var formaður, Steve Christer, arkitekt sem skipaður var af Arkitektafélagi Íslands, Hrafni Hallgrímssyni arkitekt, sem skipaður var af umhverfisráðuneytinu, Óskari Valdimarssyni frá Framkvæmdasýslu Ríkisins og Jóhannesi Þórðarsyni deildarforseta hönnunardeildar Listaháskóla Íslands.

Ég geri ráð fyrir að aðstandendur menningarstefnunar séu nú þessa stundina að skrifa umsögn um skipulagsdrögin sem send verða til hlutaðeigandi aðila. Því ef þeir gera það ekki og láta þetta tækifæri ónotað til þess að styrkja og festa menningarsefnuna í sessi má telja hana andvana fædda. Það er mikil synd vegna þess að hún er vönduð og vel  samin.

Síðasti dagur til þess að gera athugasemdir við drögin er á morgun.

Ég geri ráð fyrir að fyrirpurnir og umsagnir frá aðilum eins og Menntamálaráðuneytinu, Umhverfisráðuneytinu, Framkvæmdasýslu Ríkisins, Arkitektafélagi Íslands og Listaháskólanum vegi þungt þegar slipulagsráð fjallar um umsagnirnar.

Nú er tilefni og tækifæri til þess að meta deiliskipulagið frá sjónarhóli menningarstefnunnar  og ”framfylgja” henni hver sem niðurstaðan kann að vera.

Hér er slóð að menningarstefnunni. Ég ráðlegg fólki að kynna sér þetta merkilega og vandaða þarfaþing.

http://www.fsr.is/lisalib/getfile.aspx?itemid=6051

Flokkar: Óflokkað

«
»

Ummæli (11)

  • Páll Torfi Önundarson

    Þessi undirbúningur hefur verið í gangi í 10 ár. Afar ólíklegt er að núverandi plönum verði breytt og sérstaklega að farið verði í að byggja nýjan spítala frá grunni annars staðar.

    Ég hef haldið á lofti tillögu um að byggja á efri hluta lóðarinnar, ca 50-60.000 fm byggingu. Sú tillaga hefur ekki hlotið mikinn hljómgrunn þeirra sem vilja 120.000 fermetra nýbyggingu á neðri lóðinni (núverandi deiliskipulagshugmyndir).

    Um báðar tillögurnar verður m.a. fjallað á fundi Læknafélags Reykjavíkur og Verslunarráðs á Grand Hotel kl 1630 fimmtudaginn 6. október. En áttið ykkur á því, að nýr spítali verður byggður og nánast örugglega á núverandi Hringbrautarlóð. Annars eru húsnæðismál spítalans í voða.

    Nú er að finna bestu lausnirnar frá sjónarmiði notenda og í leiðinni frá ásýndarsjónarmiðum.

  • Ef það þarf endilega að fara í einhverjar framkvæmdir þá er ég með hugmynd að verkefni í stað þessa spítala.

    Við skulum setja upp sporvagnaleið, bara eina fyrst, t.d. frá Lækjartorgi upp í Mjódd meðfram Miklubraut, nóg er plássið!
    Sporvagnar ganga fyrir rafmagni, það hressir upp á ímynd stætó og strætisvagnarnir geta safnað fólki í sporvagninn en sleppt akstrinum niður í bæ. Helstu þrengslin eru á Fríkirkjuveg en þar gæti sporið verið út í tjörn, það skyggir ekki á útsýnið.

    Íslendingar eru nýjungagjarnir og sporvagnar eru fljótir og smart. Þannig myndi farþegum fjölga mjög mikið og aðrar framkvæmdir við Miklubraut væru óþarfar.

    http://en.wikipedia.org/wiki/Light_rail

  • Pétur Örn Björnsson

    Tilvitnunin í Hjálmar í athugasemd minni hér að ofan, er sótt í athugasemd hans 29.09.2011, kl.13:53 undir pistli hans, Viðbrögð við eyðileggingu:

    http://blog.eyjan.is/hjalmarsveinsson/

  • Pétur Örn Björnsson

    Hjálmar Sveinsson, skipulagsráðsmaður segir:
    “Ef ríkisvaldið og pólitískur meirihluti og allir helstu ráðgjafar verkefnisins telja að ekkert annað komi til greina en að reisa spítalann þarna, þá er ég sammála þeim sem segja að þetta sé besti staðurinn.”

    Nú langar mig til að setja fram nokkrar spurningar til Hjálmars og annarra í skipulagsráði:

    Semsagt, ef AGS og sérhagsmunaklíkurnar segja þér/ykkur að segja já, þá segir þú/þið möglunarlaust … já? Er það staðarhaldara andinn í dag?

    Það er öllum augljóst að eitthvað stórt átti að setja af stað á ákveðnum tímapunkti, en að ríkisstjórn og borgaryfirvöld skyldu allan tímann hafa eingöngu einblínt á þessa AL-EINU lausn, Hátæknispítala við Hringbrautina, er gjörsamlega með ólíkindum.

    Ætlar þú og Páll Hjaltason virkilega að sitja eins og eðjótar og segja bara já,
    af því þorið ekki öðru en að hlýða Steingrími, seppa AGS hér á landi, og sérhagsmunaklíkum örfárra læknadeildar-prófessora? Og það á meðan er verið að skera allt heilbrigðiskerfið í tætlur … ó sorrí, það er ekki þín deild; kannski afneitun í stíl Werner von Braun?
    Eða bíðið þið kannski eftir Godot? “Kemur Godot í dag?” Þögn.
    Eða: Kemur sú gamla í heimsókn og lúskrar á ykkur ef þið segið múkk?

    Og ætla Gísli Marteinn og Hjálmar að hjóla hringina í kringum hringavitleysuna?

    Ég ætla að treysta því að þið standið í lappirnar, allir í skipulagsráði,
    og andið með góðri samvisku staðarandanum að ykkur
    um ókomna framtíð og með hreina samvisku. Verið menn, ekki mýs.

  • Hallgrímur

    Það þarf ekki sérfræðing til þess að sjá að deiliskipulagið stenst ekki skoðun menningarstefnunnar. Gallinn er bara sá að RVÍK er ekki aðili að stefnunni en það er spitalinn, hið opinbera og Framkvæmdarsýslan.

  • Pétur Örn Björnsson

    Þú meinar dauðadæmt Andri?

  • Skemmtilegar tilvísanir í þessari byggingu, hönnun sem minnir á æxli staðsett rétt fyrir ofan kransæðastíflu.

  • Það sjá allir að þessi stærð af spítala mun hafa veruleg áhrif á umferð Hringbrautar á álagstímum enda viðurkent af byggingarnefnd spítalans, er þetta þá ekki að falla undir svæðisskipulag þar sem lífsgæði Seltjarnarnes rýrna. Framkvæmd sem hefur áhrif á önnur sveitafélög fellur ekki undir deiliskipulag heldur svæðisskipulag.

    http://midborg.blog.is/blog/midborg/entry/1194326/

  • Hlédrægur

    Mannvirkjastefnan er vel unnin, fallega skrifuð og “leiátuð“ svo sómi af fyrir þá sem að verki stóðu. Þarna er greinilega einlægur áhugi og metnaður að baki. En það er oft vandi að fylgja svona vinnu eftir. Ef það er ekki gert er erfiða höfundarnir til einskis. Það er alveg rétt hjá pistlahöfundi að eins og sagt er í stefnunni þarf að fylgja henni eftir ef hún á að hafa einhverja þýðingu.

    Varðandi Landspítalann þarf að vinna mat á því hvort deiliskipulagsdrögin falli að byggðinni. Þeir sem gera það eru að sjálfsögðu einhverjir sem ekki hafa komið að málinu á fyrri stigum. Sennilega gerir sú krafa fólk á skipulagssviði borgarinnar vanhæft.

    Það breytir því ekki að þetta þarf að skoða sérstaklega með menningarstefnugleraugun á nefinu.

    Eðlilegast væri að fela þeim nefndarmönnum sem sömdu menningarstefnuna verkið. Þeim er fullkomlega treystandi. Enda úrvals fólk allt saman sem skilur anda og tilgang stefnunnar.

    Ef niðurstaðan yrði sú að þeim finnist ekki nægjanlega vel að verki staðið þá styrkja þau menningarstefnuna. En það hefur alls ekki í för með sér að einhverju þurfi að breyta í deiliskipulaginu. Það er sennilega of seint. Ef álitið yrði að þeim fyndist skipulagið falla vel að byggðamynstrinu þá væri það bara niðurstaða sem ekki endilega rýrði menningarstefnuna.

    Svo er möguleiki, sem er líklegasta niðurstaðan að nefndin verði klofin í málinu og skrifaði álit sem væri hvorki með eða á móti

    En ef drögin eru ekki skoðuð sérstaklega með menningarstefnuna í huga þá er stefnan ekki virðii pappírsins sem hún er skrifuð á og eins og var sagt: “andvana fædd”

  • Pétur Örn Björnsson

    Barnaspítalinn er bara arða þarna á myndinni af ferlíkjunum.
    Gamli kennaraskólinn … eg verð bara að finna stækkunargler.

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af einum og einum? Svar:

Höfundur

Hilmar Þór Björnsson arkitekt
Tilgangur síðunnar er að kynna arkitektúr, skipulag og staðarprýði ásamt því að stuðla að umræðu um efnið. Það sem fram kemur ber ekki að skilja sem skoðun höfundar heldur hugleiðingu sem sett er fram í þeim tilgangi að vekja lesendur til umhugsunar og skoðanaskipta. Tekið er á móti aðsendum greinum þegar það á við, sem þá eru á ábyrgð höfundar aðsends efnis.
Athugasemdir við færslur eru velkomnar. Þeir sem vilja koma skilaboðum til ábyrgðarmanns beint er bent á netfangið hilmarstofunni@gmail.com
RSS straumur: RSS straumur

Færslusafn