Föstudagur 25.02.2011 - 07:20 - 22 ummæli

Menningarverðlaun DV 2011-Byggingalist

Tilnefndar hafa verið fimm byggingar til Menningarverðlauna DV  árið 2011 og óska ég öllum þeim sem tilnefningu hlutu til hamingju. Þetta eru allt góðir arkitektar sem margsannað hafa ágæti sín. Gláma/Kím hlýtur tvær tilnefningar sem ég hygg að sé einsdæmi hvað Menningarverðlaun DV varðar.

Þó ég fylgist ágætlega með því sem er að gerast í byggingarlistinni hér á landi þá hafði ég ekki heyrt sérstaklega af þessum verkum að einu undanskildu. Ég  geri  ráð fyrir að þau séu öll afbragðsgóð eins og tilnefning  til verðlauna ætti að gefa til kynna. Hér að neðan koma umsagnir dómnefndar um verkin fimm orðrétt. Þegar niðurstaða liggur fyrir verður vonandi tækifæri til þess að setja hér á vefinn afstöðumynd, grunnmyndir og fl sem lýsir verkinu nánar.

Sundlaug á Hofsósi
Arkitektar: Basalt / VA arkitektar

Bygging við sundlaug hýsir búnings- og baðaðstöðu fyrir útilaug og potta. Staðsetning sundlaugarinnar er valin til að ná tengslunum við hafið, laugarkerið stefnir á Drangey. Kantur þess hluta kersins er lægri þannig að vatnið fellur fram af honum og sjónrænt rennur sundlaugarvatnið og sjórinn saman í eitt. Sundlaugin á Hofsósi er gjöf Lilju Pálmadóttur og Steinunnar Jónsdóttur til sveitarfélagsins.
Lögð er áhersla á mikilvægi náttúrulegrar dagsbirtu í byggingunni. Aðdragandi og ferðalag um húsið er skýrt, frá götu um innri rými sem leiðir til hámörkunar upplifunar í sundlauginni sjálfri með útsýni yfir hafflöt og Drangey. Auðmýkt gagnvart umhverfinu og landslagi fjarðar, fjalla og Drangeyjar einkenna verkið. Landslag og þak hússins skapar skemmtilegt útisvæði í bænum. Öll staðarmyndun er til fyrirmyndar og upphefur fallegt útsýni. Verkið er gott fordæmi fyrir íslenska baðmenningu.

Háskólinn á Akureyri
Arkitektar: Gláma Kím Arkitektar:
Háskólinn á Akureyri er byggður við og utan um eldri byggingar að Sólborg. Eldri byggingar og staðhættir að Sólborg gefa tóninn fyrir varfærnislega nálgun. Með nýbyggingunum er byggingareiningum raðað saman og þær tengdar í eina heild með glerjuðum tengigangi. Byggingar háskólans eru afrakstur opinnar arkitektasamkeppni sem haldin var 1995. Háskólinn hefur verið byggður í áföngum frá 1996. Nýjasti áfangi skólans, aðalinngangur og forsalur auk hátíðar- og fyrirlestrasala, var tekinn í notkun síðsumars 2010.
Hér er gott dæmi um verk þar sem breyta þarf notkun eldri bygginga og tvinna við nýja starfsemi. Einstaklega vel hefur tekist til við flæði milli eldri og nýrri byggingahluta og að skapa heildrænt yfirbragð með vandaða útfærslu á rýmum og efnisvali. Sérstaða verksins er hversu vel samþætt og útfært það er og það hvernig vönduðum vinnubrögðum er viðhaldið á löngum framkvæmdartíma.

Ásgarður fimleikahús í Garðabæ
Arkitektar: Arkitektur.is

Í Ásgarði er fjölbreytt aðstaða til íþróttaiðkana. Nýbygging samanstendur annars vegar af fimleikahúsi og hins vegar af inngangi sem tengir saman alla starfsemi íþróttamiðstöðvarinnar, svo sem sundlaug, handboltasal, þreksal o.fl. Húsið nýtist til fjölbreytts íþróttastarfs með aðgengi fyrir nemendur grunnskóla, leikskóla og eldri bæjarbúa.
Hér er vel leyst að tengja saman mismunandi stærðir eldri og nýrri byggingahluta. Vandmeðfarið er að laga íþróttamannvirki vel að umhverfinu vegna stærðar. Þessu er náð með því að grafa fimleikasal niður og liggur hann því lágreistur í umhverfinu. Minni aðkomubygging tekur á móti gestum og tengir saman fjölþætta starfsemi íþróttamiðstöðvar. Frá aðkomurými er góð yfirsýn yfir fimleikasal og hæðarmunur er nýttur fyrir áhorfendapalla.

Sumarhús í Borgarfirði
Arkitektar: Gláma Kím Arkitektar:

Sumarhúsið er staðsett á kjarri vöxnum útsýnisstað í Borgarfirði. Til austurs eru Eiríkisjökull og Strútur, og til suðurs Ok. Byggingar fanga útsýni og skapa skjólgóð útirými. Áhersla er lögð á tengsl við nánasta umhverfi með stórum gluggum og gegnsæi. Sumarhúsið er tvær byggingar sem tengdar eru saman með yfirbyggðri verönd.
Mótun útisvæða og tenging við umhverfi er forsenda fyrir vel heppnuðu sumarhúsi. Hér er það gert með þremur húshlutum sem skilgreina og aðgreina skýr útisvæði sem svara vel sólargangi og veita mismunandi skjól fyrir veðri og vindum. Áferð og efniskennd húsa er einföld og hæglát sem fer vel í nærliggjandi birkivöxnu landslagi. Hús liggja vel í landi og skapa skemmtilegt samspil við landslag nær og fjær.

Hjúkrunarheimili Suðurlandsbraut
Arkitektar: Yrki Arkitektar

Hjúkrunarheimilið í Mörkinni er afrakstur boðskeppni fyrir arkitekta um byggingu þjónustuíbúða og þjónustumiðstöðvar aldraðra og hjúkrunarheimilis. Hjúkrunarheimilið er á fjórum hæðum auk jarðhæðar sem er að hluta til niðurgrafin. Á efri hæðunum eru íbúðir, setustofur og fylgirými. Á neðstu hæðinni er aðalinngangurinn með móttöku, samkomusalur og salir og stofur undir kapellu, ásamt þjónusturými og skrifstofum.
Hjúkrunarheimilið er vandað og metnaðarfullt verkefni. Byggingin er staðsett innan stærra þjónustusvæðis sem, þegar lokið er, mun skapa samhangandi heild í umhverfinu. Mýkt í formi jarðhæðar tengist vel umhverfinu. Innanhúss er bjart og rúmgott og allur frágangur er til fyrirmyndar.

Flokkar: Óflokkað

«
»

Ummæli (22)

  • Orð í belg

    Engin mannanna verk eru hafin yfir gagnrýni og nauðsynlegt að læra af reynslunni.

    Björn Jóhannesson bendir á heimasíðu Mies van de Rohe verðlauna og að þar komi fram að velnefndaraðili megi ekki „propose “ his ovne works. Þetta er vissulega hægt að túlka á nokkar vegu. Mín túlkun var: ég mætti ekki sjálfur mæla með minni tillögu.

    Spurningin er hins vegar hvort að það gerði Arkís vanhæft. Ef það er tilfellið tel ég að erfitt verði að manna valnefndir, héðan í frá.

    Ég kaus að skilja klásúluna þannig að ég sjálfur mætti ekki „propose“ mitt eigið verk og yrði því að víkja úr nefndinni á meðan að hún fjallaði um málið, sem ég og gerði.

    Viðtekin venja er hér á landi, að fólk taki þátt í hvers kyns „nefndum“ sem fjalla um ýmis mál. Einnig er viðtekin venja að þeir aðilar sem tengjast beint viðkomandi málum sem nefndin fjallar um víki á meðan, en segi sig ekki endilega úr nefndinni. Þetta hafði ég að leiðarljósi. Ef það var rangt mat verð ég að lifa við það.

    Nú vill svo til að ég var kosinn formaður samkeppnisnefndar með nýrri stjórn. Í ljósi þessarar umræðu um bæði Mies van de Rohe verðlaun og DV verðlaun í byggingarlist mun ég beita mér fyrir því að AÍ geri sér eigin reglur, byggðar á þeim útlendu, um matið á tilnefningum til Mies van de Rohe verðlauna Þannig verði búið um hnútana að hafið verði yfir allan vafa um hæfi þeirra sem meta tillögurnar. Einnig að samkeppnisnefndin sjál annist ekki þetta verk. Mun hún þá leita til félaga innan AÍ um að mann nefndina. Einnig ætti AÍ að mínu mati að hafa samband við forráðamenn DV og fara yfir málin – til framtíðar.

    Hilmar gerir það að umræðu hvers vegna einungis eitt verk er valið af „báðum nefndum“ þ.e. sundlaugin á Hofsósi. Því er kannski til að svara að sömu verkin voru ekki öll tilnefnd í báðum tilvikum. Ef ég man rétt á var ekkert annað þeirra 5 verka en sundlaugin hjá DV einnig tilnefnd til Mies van de Rohe verðlaunanna.

    Þetta vekur upp þá hugmynd hjá mér að nauðsynlegt er að skapa vettvang innan félagsins til þess að arkitektar kynni verk sín. Þetta má eflaust útfæra á margan hátt og mun örugglega efla félagsandann og koma á skemmtilegum og málefnalegum umræðum. Á þann hátt koma kannski gleymdir gullmolar fram í dagsljósið- sumir eflaust kandidatar við verðlana.

  • There is something rotten in the state of Iceland

  • Hilmar Þór

    Tvær dómnefndir voru fengnar til þess að draga fram í kastljósið fimm framúrskarandi verk í byggingarlistinn hér á landi. Verk sem kláruðust á árinu 2010. Nefndirnar tvær höfðu tekið að sér nánast sama verkefnið.

    Í valnefdunum voru hinir færustu arkitektar sem allir eru flinkir á sínu sviði. Þó nefndirnar ynnu sjálfstætt og óháðar hver annarri átti ég von á að þeir kæmust að sömu eða svipaðri niðurstöðu. Ísland er lítið land og það er ekki byggt mikið nú um stundir þannig að það var ekki um stóran garð að gresja og faglegt mat færra dómara áttu að finna geta komist að einni skýrri niðurstöðu.

    En niðurstaða nefndanna kom mér á óvart. Þau tilnefndu fimm verk hvor, alls 10. Ég hefði átt von á að þetta yrðu að mestu sömu verkin og frávikið væri kannski eitt til tvö verk.

    Þar sem faglega er unnið ætti það að vera þannig að nefndirnar kæmust að mestu að sömu niðurstöðu. En svo var ekki.

    Tilnefnd voru 9 verk. Aðeins eitt var á báðum listunum. Önnur valnefndin fann tvö glæsileg verk eftir sömu stofuna. Hin ekkert af þeim bænum. Það er mikið áhyggjuefni að niðurstaðan skuli ekki vera skýrari og traustari en þetta. Er þetta kannski eitthvað sem líka á sér stað varðandi arkitektasamkeppnir?. Eru niðurstöður þar ekki faglegar heldur að mestu eftir því hvernig dómnefnd er skipuð?

    Þetta er döpur ályktun. Manni nánast fallast hendur.

    Ég hef áhyggjur af þessu. Það virðist skipta meira máli hvaða einstaklingar eru í valnefndum en hvaða verk þeir hafa um að velja.Verkin sjálf skipta minna máli. Niðurstaða valsins virðist fara eftir því hvaða einstaklingar eru í nefndunum og tengslaneti þeirra. Verk hljóta brautargengi og fá á sig gæðastimpil í krafti skoðana eða tengsla einstaklinga í stað óumdeilanlegrafaglegra gæða eða að þau vísi til betri vegar á einhvern hátt.

    Það var vikið að valnefnd vegna Mies hér að ofan. Egill Guðmundsson svaraði og skýrði út hvernig vinnulag nefndarinnar var og lyfti þar með þokunni afvinnubrögðum og vali nefndarinnar sem hann var í. Egill benti líka á nokkur verk sem honum fannst koma til greina í DV tilnefningunni. Þetta er Agli líkt enda drengur góður.

    Hin dómnefndin hefur ekki séð ástæðu til þess að skýra sín sjónarmið út hér á þessum vettvangi. Það er auðvitað ekki skilda heldur þeirra val. En ég upplifi alltaf hlutina þannig að maðkur sé í mysunni þegar menn bera ekki hönd yfir höfuð sér eða álíta sig vera yfir umræðuna hafin á einhvern hátt. Einkum þegar menn svara með klisjunni „ekki svara vert“ eða „visa þessu á bug“ án rökstuðnings.

    Gestur Ólafsson talar um „fílabeinsturn“ hér að ofan og tengir þetta LHÍ. Það gerir Gunnlaugur Stefán Baldursson, þekktur arkitekt í þyskalandi, líka og fl. Ég ætla ekki að fara að verja LHÍ en það ber að halda því til haga að LHÍ er ekki aðili að málinu nema ef lektorinn sé tilnefndur af skólanum. En mér finnst LHÍ ætti að skíra aðkomu sína að málinu, enda ástæða til. Annars fellur kusk á hvítflibbann.

    Aðalmálið er að dómnefnd DV lyfti hulunni af sínum störfum eins og Egill gerði og upplýsti hvaða verk komu til álita og var hafnað og hvaða verklag var viðhaft o.s.frv. Það ætti að vera vandalaust ef vel var að verki staðið.

    Ég sakna þátttöku valnefndar DV í umræðunni hér og endurtek að það er alltaf best að svara ómálefnalegum ásökunum með málefnalegu svari.

    Allavega trúi ég ekki að verklag DV nefndarinnar hafi verið eins og að er látið liggja. Einu sem geta tekið af allan vafa er dómnefndin sjálf. Það gerir hún með því að upplýsa um þær ábendingar sem hún fékk og fyrst þá er hægt að leggja mat á niðurstöðuna. Það er nóg rými til andsvara hér. Gjörið svo vel.

    Svona í lokin er hér smá hugmynd. Eini sanngjarni dómari á byggingarlist er tíminn. Að verðlauna nýbyggt hús er svo háð tískusveiflum og hagsmunum líðandi stundar að það getur aldrei orðið sanngjarn og réttur dómur. Og svo þessi breyskleiki dómnefndanna í ofanálag. Væri ekki nær að leita bestu byggingarinnar sem byggð var fyrir segjum 20 árum. Þá værum við að skoða hús sem byggð voru árið 1990 þessa dagana. Það er eitthvað kjöt á því beininu og mig grunar að tilnefningarnar fimm væru eitthvað aðrar en voru þegar húsin voru nýbyggð.

    Sama á við tilnefningarnar í dag. Ég óttast að þetta þyki ekki merkileg hús eftir 20 ár. Auðvitað samt með undantekningu eða -um

  • Akademia a ad vera ohad og opin fyrirmynd ,lika sidfraedilega.
    Athugasemdir Velvakanda eru pess edlis , ad A. I. parf naudsynlega ad fjalla pessi og natengd malefni, sem undanfarid blomstra.

  • Björn H. Jóhannesson

    Leiðrétting.vefsíða Fundacio Mies van der Rohe er:www.miesarch.com

  • Björn H. Jóhannesson

    Spurning er hvort Egill Guðmundsson , hafi átt að gefa kost á sér í valnefnd Arkitektafélag Íslands um hin virtu verðlaun Fundació Mies van der Rohe 2011, sem eru á vegum Evrópusambandsins. Hefði hann ekki gert það væri friður um tilnefningu verks eftir teiknistofu hans Arkís, sem var eitt hinna fimm tilnefndu verka.

    Ég fór inn á vefsíðu Fundació Mies van der Rohe, Barcelona.
    Vefsíðan heitir http://www.miesarh.com
    Á einum stað var hnappur, About the Prize, þ.e. Mies van der Rohe verðlaunin 2011. Ég smellti á hnappinn og upp kom skjal, þar sem neðst var pdf. skjal, Rules ,þ.e. reglur. Þar gat að lesa: “ The nominators may not propose their own works or works by the jury” þ.e. að tilnefningarmenn (valnefndarmenn) mega ekki leggja fram eigin verk eða verk dómnefndarinnar, þ.e. hinnar endanlegu alþjóðlegu dómnefndar, sem að lokum velur sjálft verðlaunaverkið.

    Valnefndin ætti að skrifa Lluis Hortet, Secretary, Fundacíó Mies van der Rohe, Barcelona ,benda á að íslenska valnefndin hafi ekki tekið eftir þessu, ef svo er, til öryggis. Fá úr því skorið hvort þetta sé rétt skilið á þann veg að ekki megi leggja fram verk valnefndarmanna þeirra landa, sem hafa rétt á að senda inn verk. Kannske er þegar búið að kanna þetta og finna lausn á því.

    Samkeppnisnefnd Arkitektafélags Íslands, sem einnig var valnefnd tilnefningar til Mies van der Rohe verðlaunanna 2011 voru: Jóhann Einarsson, formaður, Egill Guðmundsson og Dagný Helgadóttir.
    Í núverandi samkeppnisnefnd Arkitektafélags Íslands eru: Egill Guðmundsson, formaður,Dagný Helgadóttir og Sigríður Magnúsdóttir, fyrrverandi formaður Arkitektafélags Íslands.
    Núverandi formaður Arkitektafélags Íslands er Logi Már Einarsson.

  • Gestur Ólafsson

    Þetta er yndisleg umræða enda ekki svo langt síðan ráðamenn í AÍ vildu bara fá að vera í friði með að tilnefna sig og vini sína í lokaðar samkeppnir – og helst að dæma þær líka.

    Hvernig væri nú að arkitektar tækju sig til og blésu til ráðstefnu um það hvað sé góður arkitektúr? – bæði fyrir sjálfa sig svona til glöggvunar – og líka til upplýsingar fyrir almenning sem oft þarf að borga fyrir þetta allt saman. Það er sennilega ekki einu sinni borin von að fólkið í fílabeinsturninum í Listaskólanum standi fyrir svona umræðu enda telja þau sig að öllum líkindum vita þetta með vissu.

  • Páll Gunnlaugsson

    Kommon!

  • Sigurgeir M

    Flottar og gagnlegar athugasemdir sem visa til
    betri vegar

  • Menningarverðlaun DV hafa ekki verið svipur hjá sjón síðan Aðalsteinn Ingólfsson menningarritstjóri blaðsins og listfræðingur hætti störfum hjá blaðinu. Í raun hafa verðlaunin verið í líknarmeðferð á annan áratug og gáfu þau endanlega upp öndina miðvikudaginn 23 febrúar s.l. Mér sýnist útförin og erfidrykkjan muni fara saman næstkomandi miðvikudag. Þeim nánustu verður boðið til athafnarinnar þar sem súrt vín verður á boðstólnum. Best er að gleyma hinum látna sem fyrst

  • Orð í belg-fagleg umræða og gegnsæi

    Umræða sem þessi er góð og gagnleg, þökk sé þér Hilmar og þarf að vera málefnaleg.

    Ég tek alveg undir þau sjónarmið að það á að skrifa undir nafni. Hitt er ófaglegt og ómaklegt ( ómerkilegt ) gagnvart öðrum

    Pandóra gerir tengsl mín við val AÍ á geststofu á Skriðuklaustri að umtalsefni.

    Rétt er að undirritaður var tilnefndur af AÍ, sem einn af aðilum samkeppnisnefndar, í valnefndina. Undirritaður vék af fundi þegar að velnefndin fjallaði um tillöguna og einnig þegar fjallað var um hanan sem mögulegan kandidat, og tók þannig engan þátt í vali hennar.

    Velvakandi gerir aðkomu Sigrúnar formanns nefndar DV tortyggilega vegna tengsla hennar við yfirmann sinn hjá LHI, sem er enn eigenda Glámu Kím. Vissulega er þessi tenging augljós og tvær af fimm tillögum sem áfram komust eftir Glámu Kím.

    Gera þarf kröfu um fagleg vinnubrögð og gegnsæi við val á tillögum til menningarverðauna DV. Annars missa þau gildi sitt.

    Ef Sigrún hefur gætt þess að víkja af fundi á meðan að aðrir í nefndinni fjölluðu um tillögurnar og þegar að valið var, og það fært til bókar, geri ég ekki athugasemdi við ferlið. Ef það er hins vegar ekki þannig þá er tengingin óheppileg og spurning um hæfni Sigrúnar, að mínu mati.

    Ekki ætla ég heldur að leggja mat á valið á þeim fimm tillögum sem áfram komust. Skal þó fúslega viðurkenna að ég hefð gjarnan viljað að a.m.k. ein þeirra tillagan sem Arkís tilnefndi hefði komist áfram. Til upplýsinga voru þær:

    1. Háskólinn í Reykjavík í samvinnu við HLT í Danmörku. Verk sem vann til 1. verðlauna í samkeppni AÍ.

    2. Gestastofa á Skriðuklaustri. Verk sem vann til 1. verðlauna í samkeppni AÍ, hannað og vottað samkvæmt vistvænum viðmiðum BREEAM. Notast er m.a við íslenskt lerki sem klæðingu utanhúss og í innréttingar. Verkið hefur vakið allmikla athygli í erlendum hönnunarmiðlum. Það komst einnig áfram f.h. Íslands, ásamt sundlauginni á Hofsósi, í aðalkeppnina um Mies van de Rohe verðlaunin!.

    3. Hús Náttúrfræðistofnunar í Urriðaholti, vistvænt hannað hús í skipulagi sem er vistvænt skipulag og hefur unnið til alþjóðlgegra verðlauna. Byggingin verður vottuð samkvæmt BREEAM viðmiði. Í þessu húsi er í fyrsta skipti á Íslandi notast við glerhjúp utan við hefbundinn útvegg. Glerhjúpurinn er stór hluti af “ byggingarlist hússins“ m.a með innbrenndum frostrósum / kristöllum í glerið. Hjúpurinn þjónar einnig veigamiklu hlutverki við að gera náttúrulega loftræsingu hússins virka. Byggingin hefur vakið allmikla athygli í erlendum hönnunarmiðlum.

    sjá nánar um þessi verk á http://www.ark.is

  • Guðmundur Skúli Halldórsson

    Ætla að byrja á því að fá að svara Halldóri lítilega þar sem hann segir umræðuna ekki hafa batnað né aukist með tilkomu LHI, með þessum orðum kemur hann annaðhvort upp um eigin fáfræði eða áhugaleysi á því sem er að gerast innan LHI, undir stjórn Sigrúnar hafa t.d. verið unnar ágætis borgargreiningar á höfuðborg okkar, eitthvað sem er væntanlega ekki gert í erlendu háskólanámi, og nemendur hafa haldið opnar sýningar og fyrirlestra á verkum sýnum, ég tók sjálfur þátt í sýningu sem var sett upp í norrænahúsinu vorið 2008 þar sem Frakkastígurinn var tekin fyrir og var nokkuð vel mætt á þá sýningu. Hún gaf líka skemmtilegan vinkil í umræðuna um skólabyggingu LHI sem er að hluta við Frakkastíg.

    Hvað velvakandi varðar þá hef ég aldrei kynnst öðru en fagmennsku af hálfu Sigrúnar Birgisdóttur og spurning hvort hennar samstarfsfólki eigi að lýðast að vinna með henni og hvort það eigi að hegna færustu arkitektum landsins fyrir að fórna hluta sýns tíma í það að kenna þeim sem vilja læra? Þeir kennarar sem hafa kennt upprennandi arkitektum sem nema við LHI eru upp til hópa mjög færir, kannski þeir bestu. Fynst fólki það virkilega skrítið að þeir bestu, þeir sem hljóta viðurkenningarnar komi nálægt kennslu í faginu? Er sú fáfræði að þeir sem ekki geti kenni að þvælast fyrir þessum bytru einstaklingum?

    Skoðið aðeins verkin sem eru tilnefnd og tjáið ykkur svo um vinabisis

    Sigrún er fagmenneskja sem hefur kappkostað að fá þá bestu til þess að fræða og kenna

  • Þekki ekki til þessarra tengsla sem Velvakandi bendir á og ef rétt er, á svona að koma fram. Það eru þröngir hópar innan arkitektasamfélagsins sem passa uppá það hverjir fá hrós og hverjir eru úti í kuldanum. Sé t.d. ekki að umræðan um arkitektúr haf aukist eða batnað með tilkomu íslensks arkitektaskóla. Hún er fyrst komin í gang með þessu framlagi Hilmars.

  • Hörður Pétursson

    Ég tek undir með þeim „ónafngreindu“ hér að ofan að vanhæfi, tengslahagsmunir og klíkuskapur eigi ekki að líðast. Sá Velvakandi benti á mikilvægt málefni sem er nauðsynlegt að ræða um.

    Þetta er óheppilegt að það skuli vera svo greinileg tengsl á milli dómnefndarinnar og þeirra sem hlutu tilnefningu til þessara ágætu verðlauna. Og það að Listaháskólinn sé hlekkurinn þar á milli gerir það auðvelt, fyrir þá sem vilja, að varpa neikvæðu ljósi á hann. Sem ég tel vera mjög neikvætt ef horft er á það góða starf sem fer þar fram.

    En þrátt fyrir þessi tengls þá skulum svo ekki gleyma því að, án þess að fullyrða neitt um það, þá hefur dómnefndin mjög líklega horft framhjá öðrum kollegum (samstarfs- eða flokksfélögum) alveg eins og þau hafa kosið að tilnefna aðra kollega sína. Hlekkurinn á milli dómnefndarinnar og þeirra sem fengu tilnefningu hefði því eins getað verið arkitektastofa eða, sem betur fer ekki, stjórnmálaflokkur

    Klisjan um lítið samfélag á vel við hérna – hversu margar tillögur hefðu t.d. orðið eftir ef dómnefndin hefði ekki fengið að kjósa samstarfsaðila, vini, vini vina, frændur, frænkur eða gamla skólafélaga?

    Þar sem valið var ekki nafnlaust, eins og reglur um samkeppnir gera ráð fyrir, verður dómnefndin að setja persónuleg tengsl til hliðar og fylgja sinni eigin sannfæringu um ágæti verkanna sem valið er á milli.

    Það væri fróðlegt að vita hversu margar tillögur bárust til DV vegna verðlaunanna, hverjar þær voru og hversu margar af þeim tillögum höfðu engin tengsl við dómnefndina. Áður en það er komið í ljós finnst mér erfitt að gagnrýna dómnefndina og ásaka hana um vanhæfni eða hagsmunatengsl. Sérstaklega í ljósi þess að þessi fimm verkefni eru bara nokkuð ágæt.

    Og þegar öllu er á botninn hvolft snýst þetta að sjálfsögðu um gæði bygginganna sjálfra en ekki nöfnin á bakvið þær. Á meðan verkefnin eru góð og valið á þeim faglega rökstutt er þá ekki takmarkinu náð??

  • Tek undir sjónamið Hilmars Þórs að betra sé að fá málefnalega umræðu undir nafnleynd en enga umræðu í þjóðfélagi þar sem fólk er látið líða fyrir skoðanir sínar. Vanhæfi, tengslahagmunir og annar klíkuskapur á ekki að líðast og á Velvakandi þakkir fyrir að upplýsa um þetta mál.
    Dómar í samkeppnum og val til verðlauna þurfa að vera hafin yfir allan vafa um að heiðarlega og rétt sé að málum staðið. Í arkitektasamkeppnum er viðhöfð nafnleynd þátttakenda til að tryggja fagmennsku en dugir ekki alltaf til eins og dæmið um hjúkrunarheimilið á Eskifirði sannar. Krafan í dag er um siðbót á öllum sviðum þjóðfélagsins. Þar eru arkitektar ekki undanskildir.

  • Við skulum endilega vera opinská hér. Velvakandi fékk mig til að hugsa um kreppuna og aðdraganda hennar. Ein aðalorsökin þar voru þau að fólk var illa upplýst og þeir sem eitthvað vissu þorðu ekki að tjá sig. Þessvegna er nafnleynd oftast af hinu góða. Menn þora að upplýsa um mál undir nafnleynd. Ekki öðruvísi (af hverju ætli það sé?) Þeir dreifa leyndarmáli undir nafnleynd (Wikileaks) ( let the bloody bastards deni it :)…opinberu leyndarmáli eins og þessu með lektorinn og deildarforsetann.

    Það er að myndast slæmt trend hjá arkitektum. Ég minni á samkeppni um menntaskóla í Mosfellsbæ þar sem voru nokkur grá dæmi sem ekki urðu að máli vegna niðurstöðunnar. Þar voru keppendur sem ekki áttu með réttu að skila inn vegna vanhæfis. Þá kom hjúkrunarheimilið á Eskifirði sem fór í dóm og sannað var vanhæfi og fyrstu verðlaun dæmd af þeim sem ekki kunnu góða siði.

    Á þessu ári var svo valin verk tilnefnd til Mies van der Rohe verðlauna. Í valnefndinni var höfundur eins verksins sem varð fyrir valinu.

    Og svo núna þessi menningarverðlaun. Menn verða að átta sig á stöðu sinni og vafi um vanhæfi eða tengslahagsmuni á ekki að líðast. Það á að opinbera þau ef þannig stendur á. Takk Velvakandi.

    Ég ætla að vera undir leyninafni en ég mun svara fyrir þessa ádrepu á þessum vettvangi komi málefnaleg athugasemmd eða leiðréttinar. Ég er líka reyðubúinn til að draga til baka eitthvað sem ég hugsanlega fer rangt með.

  • Athugasemdir Velvakanda minna okkur a ,ad LHI ser um sina likt og flestar stofnanir og fyrirtaeki a landinu,hvorki meira ne minna.

  • Hilmar Þór

    Síðastliðið ár hafa birst tæplega 2000 athugasemdir við um 180 færslur mínar hér á vefnum. Frá því að ég byrjaði með þessa síðu eru athugasemdirnar sennilega komnar nokkuð á fjórða þúsund. Lesturinn er tæplega 20 þúsund flettingar á mánuði. Af þessum þúsundum athugasemda hef ég einungis eytt þrem. Þetta voru færslur með órökstuddum sleggjudómum eða ósæmilegu orðbragði. Flestar athugasemdirnar sem skrifaðar eru undir nafnleynd eru ágætar. Ekki veit ég af hverju menn skrifa undir nafnleynd. Það er oftast fullkomlega ástæðulaust. Samt varð ég þess áskynja í eitt sinn að sá sem skrifaði undir nafnleynd var arkitekt sem starfaði á stofu sem varð undir í samkeppni um Landspítalann. Efni athugasemdarinnar var mikið hrós á vinningstillöguna. Ég skildi að viðkomandi fannst óþægilegt gagnvart vinnuveitenda sínum að hæla keppinautnum eins og hann gerði. Hann faldi sig bak við nafnleynd en lét ekki skoðanir sinar líða fyrir það.

    Svo frumstætt er okkar þjóðfélag að fólk er látið líða fyrir skoðanir sínar. Þetta óttast að minnsta kosti margir. Þess vegna m.a. skrifa þeir undir nafnleynd. Það er betra að fá málefnalega umræðu undir nafnleynd en enga umræðu. Það versta er umræðu sem einkennist af hollustu við þá sem á valdinu halda af einskærum ótta eða þrælslund.

    Velvakandi hér að ofan er sennilega einn þeirra sem óttast valdið. Það getur líka verið að hann sé óframfærinn og feiminn. Það getur hugsast að hann sé nemandi í LHÍ, eða starfsmaður einhvers dómarans eða tilnefndrar teiknistofu. Ástæðurnar geta verið margar. Hann óttast allavega það umhverfi sem hann lifir í.

    Ég velti fyrir mér hvort ég ætti að láta hann vera fjórðu athugasemdina sem ég eyði. Ég velti fyrir mér hvort það sé ritskoðun að eyða þessu? Er ég þá að þjóna einum umfram aðra, fáum fyrir fjöldann? Ef einhverjum sárnar ummælin eða þekkir til málanna þá er hér opinn vettvangur til varnar eða til að vísa þessu til föðurhúsanna með málefnalegum hætti.

    Ef höfundur athugasemdar fer rangt með þá er sjálfsagt að reka það ofaní hann.

    Ég veit ekki hvað ég á að gera og ég veit ekki af hverju Velvakandi eða einsakir lesendur skrifa undir nafnleynd eða dulnefni.

    Ég vil opna opinskáa umræðu, þoli ekki þöggun og finnst málefnaleg átök bæði gagnleg og skemmtileg. Ómálefnalegum athugasemdum er best svarað á málefnalegan hátt

    Ég tek ekki afstöðu til sjónarmiða Velvakanda. Ég þekki ekki vel til og tel mig varla hafa vald til þess að stinga upp í viðkomandi einungis vegna þessa að ég veit ekki hver hann er eða vegna þess að hann er með einhver leiðindi. Hinsvegar fari hann með rangt mál þá er sjálfsagt að gera lesendum rækilega grein fyrir því.

  • Flott verk flest, en ég skil þetta með hjúkrunuarheimilið ekki alveg.

  • Sæll Hilmar og, sem fyrr, takk fyrir dugnaðinn!

    Hér að ofan brigslar „velvakandi“ einum dómnefndarmanna um annarleg sjónarmið við vinnu sína við DV verðlaunin.

    Það er lágkúrulegt að fela sig bak nafnleyndar þegar svo alvarlegar ávirðingar eru bornar fram.

    Innslag „velvakanda“ ætti að vera fjarlægt hið snarasta. Þetta er ekki faglegri umræðu til framdráttar, heldur þvert á móti.

  • Velvakandi

    Hér er smá umhugsunarefni. Sigrún Birgisdóttir dómnefndarmaður, sem virðist fara fyrir dómnefndinni, er lektor í Listaháskólanum. Hún veitir yfirmanni sínum Jóhannesi Þórðarsyni (Glám/Kím) tvær tilnefningar, vinkonum sínum og samkennurum á LHÍ (Yrki) eina tilnefningu og svo fær einn dómnefndarmaður(sagði sig reyndar frá dómnefndarstörfum á síðustu metrunum) tækifæri til þess að veita sinni eigin stofu eina tilnefningu. Þá er ein eftir (arkitektúr.is) og sennilega (?) er hún tilnefnd að egin verðleikum. Þetta er leiðinlegt fyrir þá tilnefndu, slæmt fyrir DV frumkvæðið, ekki gott fyrir LHÍ og þokkalega halllærislegt fyrir dómnefndina sem sver sig til þess siðleysis sem virðist landlægt hér á Íslandi.

    Svipuð saga er víst sögð um Menningarverðlaun DV í kvikmyndum að þessu sinni. Ég spyr hvort ekki sé hægt að gera neitt skammlaust hér á landi?

  • Magnús Jónsson

    Flottur arkitektúr hér á ferð. Þrátt fyrir ógurlega kreppu í byggingariðnaði eru arkitektar að skapa fína hluti. Verkefnaskorturinn gefur þeim kannski betri tíma til þess að vanda sig? Hver veit neme þetta sé gott afsprengi kreppunnar!.

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af tveimur og átta? Svar:

Höfundur

Hilmar Þór Björnsson arkitekt
Tilgangur síðunnar er að kynna arkitektúr, skipulag og staðarprýði ásamt því að stuðla að umræðu um efnið. Það sem fram kemur ber ekki að skilja sem skoðun höfundar heldur hugleiðingu sem sett er fram í þeim tilgangi að vekja lesendur til umhugsunar og skoðanaskipta. Tekið er á móti aðsendum greinum þegar það á við, sem þá eru á ábyrgð höfundar aðsends efnis.
Athugasemdir við færslur eru velkomnar. Þeir sem vilja koma skilaboðum til ábyrgðarmanns beint er bent á netfangið hilmarstofunni@gmail.com
RSS straumur: RSS straumur

Færslusafn