Miðvikudagur 23.02.2011 - 08:16 - 11 ummæli

Weissenhof Siedlung 1927

Í athugasemdarkerfinu í tengslum við síðustu færslu var minnt á Weissenhof  Siedlung í Þyskalandi sem var húsnæðissýning, haldin  árið 1927 í Stuttgart  að frumkvæði Deutscher Werkbund. Þarna var um að ræða alþjóðlega sýningu á íbúðahúsnæði þar sem sextán evrópskum arkitektum var boðin þáttaka.

Þýski arkitektinn Ludwig Mies van der Rohe bar ábyrgð á verkefninu fyrir hönd  borgarinnar og valdi hann sjálfur arkitektana sem tóku þátt. Mies bar einnig ábyrgð á fjármálunum, samræmdi tillögur arkitektanna ásamt því að undirbúa lóðirnar og sjá um framkvæmdir.

Alls var byggt tuttugu og eitt hús sem voru svipuð að formi til. Það sem sameinaði byggingarnar voru flöt þök eða þök með þakgörðum, gluggabönd og opnar grunnmyndir.  Það sem var þó mest áberandi var að öll húsin voru hvít að tveim undanskildum. Hús Bruno Taut  voru í björtum rauðum lit.  Þau voru líka minnst.

Þarna voru mikið notaðir forunnir byggingahlutar (einingar) enda tókst að fullklára framkvæmdirnar á aðeins fimm mánuðum.

Húsin voru hugsuð sem verkamannabústaðir framtíðarinnar, þó svo að kostnaður við byggingarnar og húsbúnað hafi farið langt umfram það sem nokkur verkamaður hafði efni á á þeim tíma. Sýningin var vel sótt þó hún hafi opnað einu ári á eftir áætlun. Af  21 byggingu standa aðeins 11 enn.

Þegar listi arkitektanna er skoðaður sést að þeir voru allir barnungir ef svo má segja.  Victor Bourgeois var 30 ára, Le Courbusier var 40 ára, Walter Gropius 44 ára, Mies van der Rohe var 43 ára, Josef Frank 42 ára, Hans Scharoun 34 ára o.s.frv. Hinir voru Ludwig Hilbersheimer, Hans Poelzig, Adolf Rading, Adolf Gustav Schenk og Martin Stam, allt ungir menn. Einn arkitektanna var hinn 37 ára gamli hollendingur Pieter Oud sem hafði nokkur áhrif hér á landi.

Le Courbusiere fékk tvær bestu lóðirnar. Þær  snéru að borginni og hann fékk líka mestu fjármunina.

Peter Behrens var lang elstur, 59 ára gamall. Behrens var nestor þarna enda höfðu þeir, Adolf  Meyer, Jean Kramer, Walter Gropius, Mies van der Rohe og Le Courbisier allir unnið hjá honumum tíma og þeir þrír síðastnefndu að mér skilst samtímis.  Meyer og Kramer voru ekki með í Weissenhof en gátu sér gott orð í sínu fagi á öldinni sem leið.

Tveim árum eftir sýninguna byggði Mies van der Rohe eitt áhrifamesta hús allra tíma, ”Barcelona pavillion” 1929.

Þegar ég sótti nám í arkitektúr á Akademíunni í Kaupmannahöfn voru öll  húsin í Weissenhof Siedlung rækilega skoðuð og Mogens Krustrup docent tengdi flest þessara húsa Danmörku og skýrði út áhrif þeirra á byggingalist samtímans. Það  er gaman að ryfja þetta aftur upp núna á tímum stefnuleysis og óreiðu í byggingarlistinni.

Hús eftir Hollenska arkitektinn Jacobus Johannes Pieter Oud.

Þetta hús er það sama og er fremst í færslunni er eftir Le Courbusiere. Nokkur húsanna voru með þakgarði meðal annarra þetta hús Le Courbusiere.

Þetta hús eftir Hans Scharoun minnir um margt á fyrstu verk Frank Gehrys 50 árum seinna. Scharoun varð mjög þekktur arkitekt í Þýskalandi síðar og teiknaði m.a.  Philharmoníuna í Berlin sem tónlistarunnendur þekkja.

Fjölbýlisús Mies van der Rohe með þakgörðum. Líklegt er að hann hafi verið að vinna að stórvirki síni í Barcelona um þær mundir sem þessari byggingu lauk.

Afstöðumynd


Hluti af sýningarskrá þar sem arkitektunum er hampað. Á okkar dögum eru (voru) það fjárfestarnir sem fá athyglina.

Flokkar: Óflokkað

«
»

Ummæli (11)

 • Hafliði Jónsson

  V.F. Árni og Hilmar eiga að taka höndum saman og setja sýningarproject í gang

 • Hilmar Þór

  Af tilefni orða Árna Ólafssonar hér að ofan þá rifjaðist upp híbýlasýning við Blangstedgård sunnan Odense í Danmörku. Þar var byggt hverfi með arkitektóniskum, skipulagslegum og félagslegum áherslum. Þar var hugað að stórum og litlum fjölskyldum með mismunandi efnahag og starfsvettvang. Þarna var ekkert “norm” að finna, kjarnafjölskyldur, staðalfjölskyldur eða slíkt. Sýningin var haldin um 1990 og var afar vönduð og gaf á margann hátt fyrirheit um betri framtíð. Ég og meðeigandi minn á teiknistofunni fórum á sýninguna og drógum af henni mikinn lærdóm sem styrkti okkur verulega sem sérfræðinga í skipulagsmálum. Við söfnuðum miklu efni og vildum kynna málið hjá borgarskipulagi Reykjavíkur. Þar var mikill áhugi meðal óbreyttra starfsmanna sem sugu í sig efnið og spurðu spurninga en forstöðumaðurinn sýndi þessu lítinn áhuga. Þar var enginn vilji til þess að rugga bátnum eða taka við málefnalegri gagnrýni á ríkjandi stefnu. Eftir höfðinu dansa limirnir. Nú veit ég að það eru aðrir og betri tímar á skipulags- og byggingasviði borgarinnar hvað almenna umræðu varðar og málefnaleg gagnrýni er vel þegin, en það eru engir peningar til. Í raun eru peningar ekki fyrirstaða hvað þetta varðar. Það hlýtur að vera hægt að virkja hugsjónafólk í samstarfi við sveitarfélög, athafnamenn og fjármálastofnanir til þess að koma einhverri hreyfingu á þróun skipulags og hæusnæðismál. Í athugasemd sem V.F. skrifar að ofan segir: “…..Hefja umræðu, halda samkeppni, byggja, sýna afraksturinn og selja svo húsin” Ég tek undir þetta og segi bara ; Er ekki best að fara bara af stað og byrja á verkefninu?

  En varðandi Listaháskólann sem Árni nefnir þá held ég að það sé ekki mikils að vænta þaðan. Arkitektúrdeildin er búin að starfa í meira en 10 ár og þátttaka hennar í almennri umræðu um bygginga- og skipulagsmál hefur verið undir væntingum.

 • Björn H. Jóhannesson

  Bjarke Ingells teiknaði nýlega afbragðs byggingu í New York sem hentaði í því samhengi.
  Massinn var svipaður og í aðliggjandi bygginum, en byggingin gjörólík. Skipulagi staðarins og byggingu bar saman.

  Í mörgum tilfellum er aðeins annar þátturinn í lagi, þótt hver um sig geti “reddað málum “.
  Weissenhof Siedlung er ágætt dæmi um , þar sem bæði er í lagi, arkitektinn losaður úr spennitreyjunni og skipulagið gengur upp. Hvoru tveggja , bygging og skipulag,er gert á ábyrgan hátt af arkitektum, eins og vera ber.

  Þetta vantar oft, þótt vissulega séu fjölmörg góð dæmi um hvoru tveggja og alls ekki verra hérlendis en víða utan landsteinanna. En betur má, ef duga skal.

  Weissenhof Siedlung stendur enn fyrir sínu, bæði notendum og öðrum til ánægjuauka.

 • Einar Sigurðsson

  Gunnar Gunnarsson segir í athugasemd við færslu um hús Pálmars Kristmundssonar að myndlistarmenn séu búnir að taka mörg skref frá strangflatarmálverki Bauhaustímans meðan arkitektar spóla í sama farinu og mótað var i Bauhaus. Þessi yfirferð um Weissenhof styður þessa skoðun Gunnars. Fagurfræðilaga hefur ekkert gerst í nánast 90 ár annað en það að ég hef ekki trú á að fólki hafi þótt þessi hús falleg fyrir hartnær 100 árum,frekar að þau hafi þótt ljót. En þau þykja falleg nú og í því fellst framförin.

 • Árni Ólafsson

  Híbýlaháttarannsóknir íslendinga ná ekki lengra en sjónvarpsþættirnir “Innlit-útlit”. Í nágrannalöndum okkar, t.d. Svíþjóð, voru híbýlahættir rannsakaðir, skráðir og greindir, frá því á þriðja eða fjórða áratug síðustu aldar og fram til 1990 þegar einkavæðingaráttan í opinbera geiranum gerði þessar rannsóknir “óþarfar”. Nýlega var þráðurinn tekinn upp að nýju í Gautaborg og híbýlahættir margra ólíkra fjölskyldna rannaskaðir og greindir. Greiningarþátturinn er þar ólíkur gömlu rannsóknunum (sem snerust um mælanlega þætti) og talsvert spáð í eiginleika íbúðarhúsnæðisins (ómælanlega). Ein af niðurstöðunum miðað við hvað ég les úr þeim er að kjarnafjölskylduíbúðin, sem bæði við og Svíar hafa byggt nánast einvörðungu í áratugi og er “norm”, hentar fæstum. Fjölskyldumynstrið er það fjölbreytt að hin dæmigerða kjarnafjölskylda er e.t.v. langt frá því að vera hið dæmigerða heimili.

  Kjarnafjölskylduíbúð er afsprengi fúnksjónalismans þar sem form fylgir hlutverki. Hlutverk hvers rýmis er fyrirfram ákveðið og neglt með stærð þess, lögun, hlutföllum og staðsetningu. Stór stofa, eitt stórt hjónaherbergi, lítil barnaherbergi – deildaskipting í dag- og næturdeild (eða göngu- og legudeild) – öll rými þannig gerð að hlutverkaskipti eru ómöguleg og sveigjanleikinn í nýtingu íbúðanna nær enginn.

  Híbýlaháttarannsóknir eru að mínu mati góður grunndvöllur fyrir tilraunir og frekari þróun húsamenningar okkar. Eigum við ekki að hætta ómarkvissri tilraunastarfsemi sem engu skilar og snýst aðallega um ytra form og tísku?

  Gæti byggingarlistardeild Listaháskólans lagt eitthvað af mörkum með langtíma rannsóknaráætlun nemenda, sem smám saman byggði upp þekkingu og gögn til nánari úrvinnslu og greiningar?

 • Í stað þess að ganga fræðilega til verks og þróa híbýlahætti þjóðarinnar hefur markaðurinn verið látinn ráða. Og hver ræður ferðinni þar. Það eru einhverjar staðalímyndir sem enga vitsmunalega eða skipulega stefnu hafa. Aulýsingaherkænska markaðarins stjórnarferðinni og hagnaðarvon byggingariðnaðarins

  Ég styð þá sem vilja leggja á ráðin með tilraunabyggð. Endilega bara að skella sér í málið. Hefja umræðu, halda samkeppni, byggja, sýna afraksturinn og selja húsin. Skapa skynsamlegt trend…. Arktektar…koma svo.

 • Jón Guðmundsson

  Undanfarin 15-20 ár höfum við byggt mikið af húsum sem sækja fyrirmyndir í þessar glæsilegu áttræðu byggingar. Það sem hefur farið úrskeiðis hjá okkur er að við höfum elt stílinn en látið hugsunina sem lá baki að baki, lönd og leið. Þannig varð til dæmis flata þakið að tískufyrirbæri en upphaflegi tilgangurinn með þakgarðinum gleymdist. Húsið eftir Pálmar í færslunni hér á undan er hreint listaverk, gegnheilt og á fátt sameiginlegt með megninu af modernisma lookalike byggingunum sem við höfum framleitt ansi mikið af. Þrátt fyrir það er byggingarmassinn sem við höfum rifið upp á s.l. öld ríkur af velheppnuðum tilraunum. Reykjavík er í raun eins og sælgætisbúð fyrir þá sem vilja skoða nútíma arkitektúr. Gallinn við borgina í heild er sá að borgarlandið er skipulagt fyrir bíla og flugvélar en ekki fólk.

 • Þetta minnir mig á íbúðarhverfið Hansaviertel í Berlín Mitte, milli Tiergarten og árinnar Spree. Það var gjöreyðilagt í seinni heimstyrjöldinni en endurbyggt á árunum 1957-61 sem fjölbýlishúsahverfið Interbau og voru alþjóðlegir arkitektar svo sem Alvar Aalto, Egon Eiermann, Walter Grophius, Oscar Niemeyer o.fl fengnir til verksins. Ég skoðaði þetta svæði fyrir nokkrum árum síðan og fannst það afar áhugaverð tilraun til að skapa umhverfi fyrir „venjulegt fólk“. Það nýtur nú verndunar.

 • Jon B G Jonsson

  Það sem vantar á Íslandi að til sé staður t.d á vefnum, þar sem hægt er að skoða verk ísl. arkitekta. Mér finnst að félag Ísl arkitekta og innanhúarkitekta eigi að beita sér fyrir þessu. Þetta auðveldar líka fólki að skoða verk þeirra og velja síðan þá þann arkitekt sem best fellur að smekk þess sé það í byggingarhugleiðingum. Arkitektar þurfa svona vettvang til að kynna verk sín fyrir okkur og auðvitað útlendingum einnig.

 • stefán benediktsson

  Þökk sé Gaddafi verðum við nú að þjappa okkur örlítið meira saman. Reykjavíkurborg á að standa fyrir uppákomum sem þessum. leggja til landið. Standa fyrir umræðum um tilgang og markmið. hafa samkeppni um skipulag og hús. Hafa samvinnu um byggingu húsa osfrv. osfrv. Nú þurfum við að vanda okkur enn meira við að fylla inn í núverandi byggð og verðum að gera það með spennandi og sannfærandi hætti.

 • Þorbergur

  Væri ekki tilefni til þess að gera einhverskonar tilraunasýningarreit hér á landi þar sem áherslan verði á að byggt verði eftir efnum og þörfum í stað sýndarmennsku. Híbýlasýningu þar sem fólki er kennt að sníða sér stakk eftir vexti og innleiða nýja hugsun og leiðir í félagslegu mikilvægi íbúahverfa. Svo vaknar spurningin hvort ámóta sýningar og þessi hafi lagst af. Maður heyrir um bílasýningar og flugvélasýningar, húsgagnasýningar og fegurðardrottningasýningar en aldrei húsasýningar þó svo að hús séu snarari þáttur í lífi fólks en nokuð annað.

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af núlli og átta? Svar:

Höfundur

Hilmar Þór Björnsson arkitekt
Tilgangur síðunnar er að kynna arkitektúr, skipulag og staðarprýði ásamt því að stuðla að umræðu um efnið. Það sem fram kemur ber ekki að skilja sem skoðun höfundar heldur hugleiðingu sem sett er fram í þeim tilgangi að vekja lesendur til umhugsunar og skoðanaskipta. Tekið er á móti aðsendum greinum þegar það á við, sem þá eru á ábyrgð höfundar aðsends efnis.
Athugasemdir við færslur eru velkomnar. Þeir sem vilja koma skilaboðum til ábyrgðarmanns beint er bent á netfangið hilmarstofunni@gmail.com
RSS straumur: RSS straumur

Færslusafn