Laugardagur 02.02.2013 - 15:37 - 21 ummæli

Mistök í byggingaiðnaði og kerfin

 

Nú hefur þeim sem þróað hafa og selja ýmis teikniforrit, þjónustu- og gæðakerfi tekist að sannfæra markaðinn um að mistök í hönnun og framkvæmd megi minnka verulega með notkun vörunnar.

 Eitt forritanna er BIM  (Building Information Modeling).  BIM er þrívíddar likan sem kalla má byggingarlíkan eða sýndarveruleiki óbyggðra bygginga. Svo má bæta við lofuðum gæðakerfum á borð við ISO 9001 leggjast yfir heimsbyggðina.

Einhvern vegin hef ég á tilfinningunni að þetta sé ofmetið og að seljendur forritanna og gæðakerfanna hafi tiltölulega meiri hag af verklaginu en byggingariðnaðurinn sem þau eiga að þjóna. Samkvæmt því sem mér hefur verið sagt liggja ekki fyrir neinar rannsóknir sem styðja fullyrðingu seljenda  um að kerfin komi fyrir mistök að einhverju marki.

Þvi er nefnilega þannig háttað eins og sjá má af rannsókn Dr. Ævars Harðarsonar,  sem fjallað var um hér fyrir stuttu, að hönnun byggist mest á þekkingu og reynslu þeirra sem eru að hanna. Kerfin eru bara verkfæri í höndum einstaklinganna, ekkert annað

Góðir pottar tryggja ekki góðan mat.

Sú spurning vaknar hvort eitthvað sé vitað um hvort slík kerfi (t.d. BIM og gæðakerfin)  geti fyrirbyggt þá gerð af göllum sem Ævar hefur verið að rannsaka? Liggja fyrir einhverjar þekktar rannsóknir (unnar af öðrum en seljendum kerfanna) sem sýna að þessi forrit og kerfi hefðu getað afstýrt einhverjum hönnunarmistökum?  Ég man ekki eftir dæmi þess að forrit af nokkurri gerð hafi afstýrt hönnunarmistökum eða að kenna megi forriti eða vöntun á slíku, um mistök í hönnun eða framkvæmd. Þvert á móti hef ég heyrt af dæmum þar sem hönnunarkerfinu er kennt um og að gæðakerfin hafa stuðlað að dreifingu ábyrgðar.

Ég vil taka fram að ég er svo sem ekkert hissa á að mönnum hafi tekist að selja þesssi forrit þó ekki væri nema vegna þess hversu impónerandi það er að sjá allt húsið með öllum lögnum í þrívidd og  stöðugt uppfært á rauntíma. Það er stórkostleg sjón en ég spyr hvort það sé eitthvað gagn af þessu sem nemur fyrirhöfninni þegar hönnunin og framkvæmdin er annarsvegar?

Svo eru það gæðakefin sem farið er fram á. Það er auðvitað nauðsynlegt að hver ráðgjafi hafi gæðakerfi sem heldur utan um boðleiðir, verkferla og vistun gagna. En skipta stór vottuð gæðakerf einhverju máli? Auðvitað lítur það vel út þegar fyritækin geta státað af því að hafa aflað sér vottunar á t.a.m. ISO 9001.

Mér skilst að öll fyritækin sem komu að íbúðahúsunum fyrir austan þar sem komið hefur upp myglusveppir væru með vottuð gæðakerfi. Þetta á við um alla hönnuði, verktaka og þá sem fluttu inn og framleiddu byggingarefnið.

Samt eru húsin gölluð.

Spurningin er hvort öll þessi kerfi skili sér í meiri gæðum framleiðslunnar? Er þetta verklag ekki íþyngjandi fyrir litlar og meðalstór hönnunarfyritæki?. Stendur þessi þróun kannski í vegi fyrir sjálfri hugmyndavinnunni?. Eru tæknikerfin og skriffinnskan að taka völdin frá „studíounum“? Eiga hæfileikamiklir og hugumstórir ungir hönnuðir erfiðara uppdráttar vegna þessarrar þróunnar?

Er tilgangurin  með allri þessari skriffinskukerfum kannski fyrst og fremst að ná utan um stjórnunarvanda sem fylgir stórfyritækjum í hönnunarþjónustu, byggingariðnaði svo maður tali nú ekki um alþjóðlegum endurskoðunarfyritækjum sem allt of lítið hefur verið rætt um í kjölfar Hrunsins.

Hafa hagsmunasamtök hönnuða (AÍ, FRV og fl.) skoðað þetta og rætt undir formerkjum gagnrýnnar hugsunar? Eða eru kerfin þegar búin að taka völdin?

„Sá veldur er á heldur“

 Sjá einnig:

http://blog.dv.is/arkitektur/2013/01/14/gallar-i-nutimalegum-byggingum/

 Ég vil nota tækifærið og vekja athygli á fyrirlestri Dr. Ævars Harðarsonar um galla í byggingum. Fyrirlesturinn verður haldinn fimmtudaginn 7. febrúar n.k. og er öllum opinn. Hann verður haldinn í Listaháskóla Íslands að Þverholti 11 kl 20.00 og ber hina ögrandi yfirskrift „ALLUR GÓÐUR ARKITEKTÚR LEKUR“ .

Sjá nánar hér:http://ai.is/?p=4903

Flokkar: Óflokkað

«
»

Ummæli (21)

  • Jón Jens

    Helst vandamál með þau BIM verkefni sem ég hef unnið í er að menn er gamla skotgrafarbygginaraðferðin. Það á alltaf allt að vera tilbúið í gær og svo eru allir í því að benda á hinn til að forða sér ábyrgð í stað þess að allir séu einbeittir að því að byggja gott hús. Og svo eru það lögfræðingarnir sem þéna mest á verkefnunum.

    BIM er frábært verkfæri til að nota við byggingu húsa, sérstaklega ef að markaðurinn færi nú að hafa áhuga á því að vinna saman að því að skila góðu verki. Kröfur til bygginga eykst með hverri reglugerðinni og meiri kröfum til orkunýtingar í húsum og þar sérstaklega er BIM model að hjálpa mikið. Enda hægt að taka modelið inn í orkureikningarforrit og sjá hvaða áhrif t.d. sól hefur á hita í húsinu á mjög nákvæman hátt.

    Það gleymist líka að nefna að BIM modelið getur lifað svo miklu lengur en bara byggingartímann því möguleikinn að halda áfram að bæta í það við rekstur byggingar er þarna. Hægt er að bæta inn breytingum þegar þær verða. Halda vel til haga öllum viðbótum, leigusamningum ofl ofl. Það krefst þess þó að eigandi byggingar hafi áhuga á að hugsa lengra en bara hversu mikið tæmist úr veskinu í dag.

    En ekkert forrit gerir lélegan haus að góðum og ég er alveg sammála því að ofsatrúa á tölvu og forrit getur verið ansi pínleg. Það kemur ekkert í staðinn fyrir penna og blýant þau verkfæri verða alltaf þarna líka.

  • Þorgeir Jónsson

    Það er einmitt málið Jón. Þetta óyfirstíganlega forrit sem notast við BIM aðferðafræðina framleiðir vöru sem verður ekki bara æskileg, heldur löglega nauðsynleg í framtíðinni, ef hanna á fyrir ríki og sveitafélög. Verið er að skylda okkur arkitekta, til að afhenda þetta framleiðslutæki til yfirvaldsins sem „part av programmet“ annars fáum við ekki far með „Linernum“

  • Jón Ólafsson

    Þessi hugtakaumræða er ágæt en skiptir ekki máli í umræðunni. Aðal málið er að kaupanda þjónustunnar á ekki að koma við hvaða verkfæri eru notuð og ef hann vill kaupa eitthvað það sem auðveldar honum rekstur eignarinnar þá kaupir hann það frá þeim sem vill selja honum þau gögn. En það á ekki að rugla því saman við hönnunarvinnu eins og verið er að gera.

  • Þorgeir Jónsson

    Æ Hilmar BIM er ekki arkitektúr, ekki frekar enn penninn.

    Mér dettur í huga sagan af fyrsta arkitektinum, Imhoteb hinum egypska. Reyndar var pabbi hans víst arkitekt líka, en það sem gerði Imhoteb að fyrsta arkitektinum voru endurbætur hans á pappírus vinnslunni. Honum tókst að búa til stærri pappírsarkir enn áður og fann upp teikninguna sem forskrift að mannvirkinu. það þótti góður siður á teiknistofum að hella úr vatnsglasi smá skvettu á gólfið áður enn hafist var handa við teiknivinnuna, svona honum til heiðurs.

    BIM ætti því að vera eðlilegt framhald í pappírslausum heimi framtíðarinnar því vinna okkar hafir lítið breyst í eðli sínu frá tímum Imhotebs. BIM á að vera „pappírsörkin“ sem byggt er eftir.

    Þegar verið var að koma aritektamenntun á hér á landi, var okkur ráðlagt í Noregi að hafa tvenna skóla. Einn sem menntaði arkitekta á listrænan hátt og annan sem menntaði „excell“ arkitekta. Það skapar góða byggingarlist sem virkar. BIM er einmitt ecell forrit sem les teikningar.

  • Kristján Ásgeirsson

    Sæll Hilmar og takk fyrir pistilinn
    Við höfum áður rætt þetta okkar í milli og ég sendi þér einhvern tímann nokkrar línur varðandi þennan óþægilega þrýsting úr umhverfinu varðandi Bim og Revit og allt það sem því fylgir. Ég hef kallað þetta „simsalabimm“ því þetta er orðið eins og e-ð töfraorð í faginu. Sölumenn hringja óspart og þrýsta á um að við svörum
    „ómótstæðilegum“ tilboðum þeirra í svona fjölskyldupakka o.s.frv. Við á minni stofu erum afar tvístígandi yfir þessu öllu og veltum fyrir okkur kostum og göllum, en þegar upp er staðið komumst við alltaf að þeirri niðurstöðu að við séum bara of lítið apparat til þess að bera kostnaðinn af svona umbúnaði, enda er enginn sem er tilbúinn að borga meira fyrir okkar vinnu en gert er í dag. Ég hef rætt við nokkra kollega okkar og fengið sömu svör, hvort sem um er að ræða 2- 3ja manna stofu eins og okkar eða ótilgreinda 10-12 manna stofu í bænum. Á sama tíma eru menn samt uggandi yfir því að þeir séu að missa af lestinni, verði hreinlega skildir eftir á eyðieyjunni meðan Linerinn siglir framhjá.
    Það er vandlifað.

  • Og í óvissu og óþökk neytenda og arkitekta.

  • Þetta er greinilega ekki útrætt mál.

  • Þodnjoð

    Ég vil ítreka að meðferð á BIM gögnum hvaða nafni sem þau heita, ættu að vera alfarið á hendi hönnuðar og að greitt verði fyrir þjónustu úr gagnagrunni BIM. Ríkiskaup hafa sett á prent kröfur um að hönnuðir afhendi BIM gögnin verkkaupanum. Þetta er röng aðferð og setur arkitektastéttina út í kuldann í framtíðinni þegar BIM er orðið almennara.
    Þetta er bandarísk aðferðarfræði sem er algeng þar í landi varðandi höfundarrétt þar sem hægt er að kaupa hönnunarréttinn, en við það er hönnuðurinn réttlaus. Svona er þetta t.d. í tónlist í BNA. EKKI FÓRNA HÖFUNDARRÉTTINUM Á ALTARI BIMSINS. AFHENDIÐ EKKI BIM GÖGNIN NEMA TIL AFNOTA EN EKKI EIGNAR.

  • Ég ítreka

    „Eftir því sem lög og reglugerðir verða fleiri, þeim mun meira verður um þjófa og ræningja“ (Lao Tze)

  • Pétur Örn Björnsson

    Tæknikratar ganga erinda stór-kapítalisma andskotans,
    en boða hræsni sína og skinhelgi í nafni sósjalisma andskotans.

    Það hafa vitrir menn afhjúpað og kallað atvinnu“góðmennsku“,
    sem er fyrirlitleg öllu heilbrigðu fólki með móavit og þúfna.

  • Pétur Örn Björnsson

    Glóbalísering auðdrottnanna er lúmskari en andskotinn.

    Reglugerðarfarganið drepur niður hugsun mannsins og sköpun.

    Allt verður vitstola í græðgi tæknikratanna.

    Rafrænn byggingarfulltrúi? Nei takk.

    Tæknikratarnir stefna að algjörri firringu.

    Nei, rafrænn byggingarfulltrúi gleður mig ekki.

    Ég vil sjá þann sem dæmir!

    Við búum í heimi manna,

    þó tæknikratar vilji í sturlaðri græðgi sinni telja okkur trú um annað.

  • Hilmar þór

    Þakka þér fyrir athygasemdina Elvar Ingi Jóhannesson. Ég þekki til þín og veit að þú hefur meiri þekkingu á þessu öllu en ég.

    Hinsvegar á ég ekki gott með að skilgreina BIM sem hlut. Það kann að vera að þetta sé e.k. digital hlutur en ég er enn svo aftarlega að ég geri greinarmun á sýndarveruleika og veruleikanum sjálfum.

    Varðand heiti á þessu öllu saman þá hef ég leyft mér að setja þetta allt undir heitið „BIM“ sem er auðvitað ekki rétt. BIM er auðvitað frekar aðferðafræði sem stutt er af forritum á borð við Revit. Mér heyrist samt flestir tali bara um BIM sem samheiti yfir verklagið. Á þessu auðvitað galli í orðanotkun hvað málið varðar vegna þess að þarna er blandað saman í eitt heiti bæði aðferðafræði, verklagi og forriti, sem er auðvitað sitt hvað.

    En eftir stendur spurningin hvort allt þetta vesen skili sér í betri byggingum?

    Ég held að það skipti meira máli hver á heldur en hvaða verkfæri eða aðferðafræði hann temur sér að nota.

    Krafan á ekki að vera til verkfærisins heldur til framleiðslunnar.

    Eða hvað?

    • Elvar Ingi Jóhannesson

      Hárrétt Hilmar, enda er BIM ekki hlutur, hvorki stafrænn né físískur (og ekki heldur forrit, svona til að hafa það á hreinu!)

      Áður en við lokum skilgreiningarumræðunni þá vil ég einmitt meina að BIM standi fyrir „þetta allt“, eins og þú nefnir. Til dæmis getur Excel-skjal verið hluti af BIM, að því gefnu að þær upplýsingar sem það inniheldur eigi sér samastað og tengingu í byggingarlíkani – að þær séu uppfærðar í aðra vídd.

      Við getum notað símaskrána sem hliðstætt dæmi; þar erum við með mjög, mjög langa töflu sem samanstendur af nöfnum, heimilsföngum og símanúmerum. Sú tafla er tengd við kortalíkan og þannig eru upplýsingarnar í töflunni gerðar aðgengilegri. Þetta er reyndar dæmi um landupplýsingakerfi (GIS) en munurinn á þessu tvennu er kannski ekki svo mikill eftir allt saman.

      Auðvitað hlýtur meginkrafan alltaf að vera gerð til framleiðslunnar, að hún standist væntingar um notagildi, gæði og ekki síst kostnað (stofn- og rekstrarkostnað). Ég held að þau atriði sem ég nefndi hér um daginn hjálpi til við að ná þeim markmiðum, en til viðbótar nefni ég að með því að nýta betur þær upplýsingar sem verða til framar í hönnunarferlinu er mögulegt að framkvæma ýmsar greiningar, t.d. á orkunotkun, hljóðvist og skuggavarpi á hagkvæmari hátt en áður.

      En er framleiðslan ekki meira en bara byggingin sjálf? Út úr hönnunargögnunum má draga ýmsar upplýsingar sem skipta máli við viðhald rekstur byggingarinnar. Samkvæmt „hefðinni“ fær verkkaupi þessar upplýsingar afhentar með einhverjum hætti, t.d. á pappírsformi eða sem PDF, (eða sem mjög, mjög langa excel töflu). Er nokkuð óeðlilegt að verkkaupi óski eftir að fá gögnin afhent á aðgengilegra formi, sem nýtist honum e.t.v. betur við rekstur eignarinnar?

  • Elvar Ingi Jóhannesson

    Sæll Hilmar og þakka þér fyrir áhugaverð skrif hér á síðunni. Hef lengi fylgst með en ekki séð ástæðu til að blanda mér í umræðuna þangað til núna.

    Það er ýmis misskilningur í gangi varðandi skilgreiningu á BIM – einn sá hvimleiðasti að mínu mati er að kenna BIM við ákveðin forrit eða framleiðendur hugbúnaðar.

    BIM (Building Information Modeling) er aðferðarfræði – hvorki forrit né hlutur. Ein af afurðum BIM eru aftur á móti s.k. byggingarlíkön sem unnin eru í þrívíðum, hlutbundnum forritum.

    Það er hins vegar rétt athugað að ýmsir hugbúnaðarframleiðendur nota BIM hugtakið í sinni markaðssetningu, en það er alrangt, eins og mátti skilja í athugasemd hér á vefnum fyrir nokkrum vikum, að BIM sé t.d. í eigu Autodesk. Kannski var í því tilviki um kaldhæðni að ræða, en ef svo er þá skilar slíkur tjáningarmáti sér sjaldan vel á prenti…

    Þú veltir fyrir þér hvort BIM afstýri hönnunarmistökum. Það veltur að sjálfsögðu á notandanum, en möguleikarnir eru til staðar. Með notkun BIM er t.d. hægt að framkvæma árektrarprófanir milli byggingarkerfa, teikningar eru samhæfðar (t.d. er ekki hætta á að það gleymist að uppfæra snið ef grunnmynd breytist því að allar teikningar eru útbúnar úr sama byggingarlíkaninu) og magntökur er hægt að framkvæma með sjálfvirkum hætti, svona til að nefna fáein atriði.

    Allt veltur þetta hins vegar á kunnáttu þeirra sem koma að verkinu. BIM er engin „plug and play“ lausn, heldur aðferðarfræði sem krefst agaðra og vandaðra vinnubragða.

    Í Singapore er verið að hefja notkun á n.k. „rafrænum byggingarfulltrúa“ (verkefnið kallast CORENET). Þar verður hægt að máta byggingarlíkön, unnin skv. BIM, við kröfur byggingarreglugerðar með sjálfvirkum hætti. Þar sjá menn fyrir sér að slíkt verklag muni á næstunni taka við af hefðbundinni yfirferð á hönnunargögnum. Þetta sýnir að það ætti að vera hægt að máta hönnun við hvaða gæðakröfur sem er, svo lengi sem kröfurnar megi skilgreina með stafrænum hætti. Mér er kunnugt um að svipuð verkefni séu í gangi bæði í Noregi og í Bandaríkjunum. Rafrænn byggingarfulltrúi ætti að kæta þá sem sjá ofsjónum yfir fjölgun starfsfólks í eftirlitsgeiranum!

    Loks: Það er alveg hárrétt hjá Pétri Erni hér að framan að í gegn um tíðina hefur margt verið byggt án BIM; raunar flest allt fram að þessu. Ég tel hins vegar að BIM veiti okkur möguleika á að hanna betri og hagkvæmari byggingar með því að nýta þá stafrænu tækni sem við höfum aðgang að.

    • Þodnjoð

      The concept of BIM has existed since 1970s (Eastman et al., 1974;[1] Eastman et al., 2011[2]). The term Building Information Model first appeared in a paper by van Nederveen et al.[3] However, the terms Building Information Model and Building Information Modeling (including the acronym „BIM“) had not been popularly used until Autodesk released the white paper entitled „Building Information Modeling“.[4] Jerry Laiserin helped popularize and standardize the term[5] as a common name for the digital representation of the building process as then offered under differing terminology by Graphisoft as „Virtual Building“, Bentley Systems as „Integrated Project Models“, and by Autodesk or Vectorworks as „Building Information Modeling“ to facilitate exchange and interoperability of information in digital format. According to Laiserin[6] and others,[7] the first implementation of BIM was under the Virtual Building concept by Graphisoft’s ArchiCAD, in its debut in 1987.

      Tekið af vefnum frá Wikipediu

  • Jón Ólafsson

    Fleiri og fleiri sinna umsýslu-, þjónustu.- trygginga, eftirlits- og lögfræðiiðnaðinum (já lögfræðiiðnaðinum) og færri og færri sjálfri framleiðslunni.

    Hann á eftir eð reynast sannspár hann Pétur Örn, þessu verður öllu fleygt á haugana áður en langt er um liðið. Þessi pappírs direktiv gengur af arkitektastarfssemi í grasrótinni dauðri….ætli það sé ekki einmitt tilgangurinn að gera starfsumhverfi einyrkja í verkfræði- og arkitektaþjónustu ófært að starfa!!!!

  • Pétur Örn Björnsson

    Allt þetta vissu hinir vitru menn,

    að hver vegur að heiman er vegurinn heim og þangað sækja menn reynslu sína … og vit og sam-visku. Hún er þeim sem skapa í blóð borin.

    En tæknikratar eftirlitsiðnarins eru allt annarar gerðar.

    Þeir eru menn krókaleiðanna og holtaþokunnar og leggja þar níð í leggi
    í vörður, sem smaladrengir þeir sem Jónas Hallgrímsson orti svo um og fannst þá sem tíminn vildi ei tengja sig við hann, en nú er Jónas skáld íslenkrar tungu og hann vilja nú allir kveðið hafa, en enginn vill nú kannast lengur við níð smaladrengjanna í leggi í vörðum holtaþoku og krókaleiða.

  • Pétur Örn Björnsson

    Hreint út sagt frábær pistill Hilmar Þór.

    Einhvern veginn tókst að byggja Pantheon, Péturkirkjuna og Píramídann
    … án BIM.

    Einhvern veginn tókst það … án staðla og hjálpartækja tæknikratanna
    … í útbólgnum og ósjálfbærum eftirlitsiðnaðinum,
    sem bara þjónar sjálfum sér og stundlegri græðgi sinni, án sam-visku.

    Það þarf skap til að skapa og traust skapar traust og þannig er það
    … ef allt er eðlilegt … og heilbrigt og alvöru sjálfbært. Þannig var það, þannig er það og þannig mun það verða … fyrr en síðar aftur.

  • Hilmar Þór

    Jú Páll Gunnlaugsson, þetta eru auðvitað pælingar og eins þú nefnir. Það kemur líka fram í pistlinum að þetta eru verkfæri. En það fer mikil orka í að nota þessi verkfæri og hvaðan kemur hún og hverju skilar hún?.

    Í þessu sambandi ryfjast upp fyrir mér lausleg könnun í Danmörku um áhrif tölvanna á vinnu arkitekta á stofunum. Ég man ekki tölurna nákvæmlega en þær voru nokkurnvegin svona fyrir tölvuvæðinguna:

    10% hugmyndavinna
    20% skissering
    50% uppteikning
    10% veklýsing
    5% frágangur
    5% Fundargerðir og stjórnun(pappírsvinna)

    Eftir tölvuvæðingu sýndist þeim vinnan vera einhvern vegin svona:

    5% skissering
    50% uppteikning
    5% verklýsing
    15%fundargerðir og stjórnun(pappírsvinna)
    25% tölvuvandamál(forrit útprendun etc.etc)

    Og enginn tími fyrir hugmyndavinnuna en tölvuvandamál og skriffinska var aukin. Þetta var auðvitað til gamans gert en það fellst nokkur sannleikur í þessu. Allavega er það mín reynsla að umræður um arkitektúr á mínum vinnustað minnkuðu verulega eftir tölvuvæðinguna og í það rúm sem myndaðist var fyllt með umræðu um tölvur og strikaþykktir, liti og tölvubögga.

  • Sveinbjörn

    Frábær pistill sem vekur upp margar spurningar. Þessi kerfi eru mein í samfélaginu og vítamínsprauta fyrit lögmál Murphy. Ég vil nota tækifærið og mæla með því að fólk temji sér “gagnrýna hugsun”

    Það ætti ekki að sleppa neinum út úr barnasóla án þess að hafa tamið sér gagnrýna hugsun þannig að eki sé hægt að troða hvaða vitleysu sem er inn í samfélagið gagnrýnislaust..

    Allir sem taka þátt í umræðuni ættu að sækja námskeið í þessum fræðum.

    Það er hægt að sækja þau víða eins og hér í endurmenntun Háskóla Íslands:

    http://www.endurmenntun.is/Namskeid/Fyrirthig/Skoda/75v13

  • Páll Gunnlaugsson

    Ágæt pæling, en þessi kerfi sem þú nefnir hafa ekkert með „hönnun“ að gera. Þetta eru verkfæri sem eiga að hjálpa okkur til að vinna skipulega. Ímyndum okkur ef td. bíla- eða mjólkurframleiðsla færi fram í sama kaosi og tíðskast á arkitektastofum!

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af einum og átta? Svar:

Höfundur

Hilmar Þór Björnsson arkitekt
Tilgangur síðunnar er að kynna arkitektúr, skipulag og staðarprýði ásamt því að stuðla að umræðu um efnið. Það sem fram kemur ber ekki að skilja sem skoðun höfundar heldur hugleiðingu sem sett er fram í þeim tilgangi að vekja lesendur til umhugsunar og skoðanaskipta. Tekið er á móti aðsendum greinum þegar það á við, sem þá eru á ábyrgð höfundar aðsends efnis.
Athugasemdir við færslur eru velkomnar. Þeir sem vilja koma skilaboðum til ábyrgðarmanns beint er bent á netfangið hilmarstofunni@gmail.com
RSS straumur: RSS straumur

Færslusafn