Laugardagur 21.05.2011 - 16:16 - 11 ummæli

Moshe Safdie – Sérbýlum staflað.

Á árunum í kringum 1970 voru Evrópumenn með Norðurlandaþjóðirnar í fararbroddi að gera tilraunir með “lága þétta” íbúðabyggð.  Arkitektarnir gerðu tilraun með að færa blokkaríbúðina niður á jörðina. Færa fólk nær jörðinni og gefa því kost á að hafa einkagarð. Ekki er hægt að halda öðru fram en að þetta hafi heppnast. Tíðarandinn margumtalaður kom hinsvegar í veg fyrir frekari þróun á hugmyndafræðinni. Það kom margt til m.a.  aðrar áherslur.

Á sama tíma var arkitektinn Moshe Shafdie (Fæddur í Haifa í Palestínu1938) að vinna með að stafla einbýlishúsum upp og þróa í átt að fjölbýlishúsum. Frægasta verk hans af þessum toga er Habitat 67 sem byggt var í tengslum við heimssýninguna í Montreal í Canada árið 1967 þegar Shafdie var aðeins 29 ára.

Í Habitat 67  kom Safdie fram með nýjar hugmyndir um búsetu fólks sem byggði ekki á formhugmynd heldur starfrænni hugmyndafræði. Þessar hugmyndir hafa fallið í skugga fyrir þeim form- og fegurðar bagga sem arkitektar bera oft á öxlum sér.

Flestir báru þá von í brjósti að þessar hugmyndir mundu bylta blokkarhugmyndinni. En því fór fjarri. Allt er njörvað niður í stöðluð þrautreynd form þar sem framför er nánast engin. Það má kannski segja að BIG sé eitthvað að taka hugmyndir Shafdi upp að nýju og gera að sínum.

Síðan 1967 er mikið vatn runnið til sjávar hvað þetta varðar og hefur Safdie þróað hugmyndirnar og gert margar tillögur sem byggja á þessari hugmyndafræði. Sumar hafa verið útfærðar og aðrar ekki.

Það sem sameinar hugmyndir Safdie og hugmyndir um lága þétta byggð er að uppfylla þörf allra fyrir að hafa einkagarð. Hann skrifaði reyndar fyrir um 30 árum stórgóða bók sem heitir “For everyone a garden”

Hjálagt eru ljósmyndir af  nokkrum verka Moshe Safdie.  Fyrstu fjórar eru af Habitat 67 sem verður að líta á sem prótotýpu hugmyndarinnar.  Flestir íbúar hússins hafa til afnota 25-75 fermetra einkasvalir/terras/garð.

Eftir að þetta merkilega hús var byggt vann Safdie áfram með hugmyndina með fagurfræðilegum og hönnunarlegum áherslum og tókst ágætlega.

Næst eru tvær myndir af verkum Safdie sem byggja á svipuðum hugmyndum

Og í lokin  er teikning eftir arkitektinn til þess að árétta þá skoðun að enginn geti orðið sæmilegur arkitekt sem ekki hefur þá rýmisgreind sem færir honum hæfileika til þess að teikna fríhendis. Þeir sem ekki geta teiknað fríhendis og skortir rýmisgreind geta farið í annað, t.d. verkfræði ef þeir hafa áhuga á byggingum.

Hér eru grunnmyndir úr Habitat 67 sem sýna svalir sem eru tæpir 30m2. Stundum tvennar og stundum einar stórar oft meira en 60m2. Sundum eru íbúðirna á tveim hæðum.

Flokkar: Óflokkað

«
»

Ummæli (11)

  • Hilmar thor

    Fyrir margt longu var annad slagid byggdir tilraunareitir med aherslu a nyja busetuhaetti. Er ekki kominn timi a einn med aherslu a nyjar gerdir husa i stadin fyrir endlausan eltingaleik vid tiskusveflur tidarandans.

  • Guðmundur

    Jú, það er ekki slæm hugmynd. Reyndar væri ég alveg til í að sjá meiri tilraunamennsku með að efla samvinnu arkitekta og skipulagsfræðinga við borgarana sjálfa, án milliða eins og borgaryfirvalda og byggingaraðila. Eða skilgreina hlutverkin upp á nýtt.

    Má annars til með að vísa í áhugaverða grein sem ég rakst á, þessu máli ekki 100% skyld, en skyld þó: http://www.marcuswestbury.net/2011/05/23/cities-as-software/

  • Hilmar Gunnars

    Þurfa arkitektar ekki einfaldlega að taka upp ný vinnubrögð. Verða meiri frumkvöðlar og stíga niður úr fílabeinsturnunum og vera í broddi fylkingar í stað þess að bíða eftir því að verktaki komi bankandi á dyrnar. Verða gerendur og hreyfiafl ?

    Til þess að þetta megi gerast þarf breiða samstöðu arkitekta og þar vandasta málið, jafnvel þó að þetta sé atvinnulausasta stétt á Íslandi 🙂

  • Guðmundur

    Það er kannski pínu villandi að segja að „fólk“ vilji ekki borga arkitektum fyrir að hugsa sig um. Fólk hefur almennt mest lítið að segja um þróun og skipulag umhverfis síns hér í Reykjavík. Hins vegar grunar mann að ekki hafi verið passað nógu vel upp á að sporna við verktökum og fjárfestum sem vildu byggja með sem minnstum tilkostnaði og selja fyrir sem hæst verð, sérstaklega á síðustu árum. Það eru aðallega þeir (og kannski skipulagsyfirvöld, kann ekki að segja fyrir víst) sem vilja ekki borga arkitektum of mikið til að hugsa.

  • Því byggðu þeir ekki svona í Breiðholtinu. Svo miklu flottara heldur en fjandans gettóblokkirnar í fellunum.

  • Árni Ólafsson

    Ágæt ábending. Raunveruleg gæði hafa minni áhrif á verðmæti íbúða á fasteignamarkaði hér en „yfirborðsgæði“ eða tíska. „Hin ómælanlegu gæði“ sem felast í t.d. góðu innra skipulagi, tengslum rýma og rýmismyndun, flæði dagsbirtu, fjölbreyttu notagildi, læsileika og tengslum við nothæf útirými svo eitthvað sé nefnt í hasti hverfa í verðmatinu við hlið harðviðar, Starck blöndunartækja, amríkskra ísskápa með klakakvörn og blindandi halógenlýsingar – jafnvel þótt hvað rekist á annars horn.

  • Jón Ólafsson

    Það er einkennilegt hvernig sumar augljósar framfarir í byggingarlistinni ná ekki hylli.

    Ein skýringin er sennilega sú að byggingar eru almennt ekki metnar að gæðum heldur eftir stærð þeirra og staðsetningu.

    100fm hágæðaíbúð með 30 fm svölum er minna virði en léleg 140fm íbúð með 4fm svölum að mati markaðarinns.

  • Árni Ólafsson

    Ef arkitektúrinn snýst um fagurfræðilega mótun hins hagnýta veruleika hlýtur efnahagur (kaupmáttur) að vera hluti af dæminu.
    Einnig mætti pæla í stéttaskiptingu – þ.e. hvort „góður“ arkitektúr eða framúrstefnulegur eigi bara að vera fyrir suma. Framúrstefnuleg hugsun sem á nýjan hátt eykur grundvallargæði híbýla alls almennings ætti e.t.v. að vera viðfangsefnið.

  • stefán benediktsson

    Ég held að Hilmar hafi rétt fyrir sér í öllum atriðum um tímann og peningana og að því sögðu finnst mér einhvernveginnn alltaf að metnaðurinn verði að minnsta kosti að koma að ofan, frá þeim sem hafa skilgreind markmið með því sem þeir eru að gera. Skapandi fólk verður að vita að það má láta gamminn geysa.

  • Hilmar Þór

    Viðar H.

    Fólk hefur ágætan tíma til þess að hugsa sig um. Ég held að skýringin sé frekar sú að fólk vill ekki borga arkitektum fyrir að hugsa sig um. Það liggur ekkert á og það er nægur tími til góðra verka ef skilningur er fyrir hendi.

  • Viðar H.

    44 ár eru liðin síðan Habitat 67og enn eru arkitekitar og verktakar að byggja blokkir með stigahúsi og ibúðum til hægri og vinstri. 4m2 lögboðnum svölum og síðan ekki söguna meir. Sennileg er skýirngin sú að það liggur svo mikið á að enginn hefur tíma til þess að hugsa sig um. Svo er auðvitað deiliskipulagið sem er hinn þungi kross að bera fyrir þróunina.

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af þremur og þremur? Svar:

Höfundur

Hilmar Þór Björnsson arkitekt
Tilgangur síðunnar er að kynna arkitektúr, skipulag og staðarprýði ásamt því að stuðla að umræðu um efnið. Það sem fram kemur ber ekki að skilja sem skoðun höfundar heldur hugleiðingu sem sett er fram í þeim tilgangi að vekja lesendur til umhugsunar og skoðanaskipta. Tekið er á móti aðsendum greinum þegar það á við, sem þá eru á ábyrgð höfundar aðsends efnis.
Athugasemdir við færslur eru velkomnar. Þeir sem vilja koma skilaboðum til ábyrgðarmanns beint er bent á netfangið hilmarstofunni@gmail.com
RSS straumur: RSS straumur

Færslusafn