Þriðjudagur 23.08.2016 - 10:37 - 24 ummæli

Niðurrif eldri húsa í Reykjavík

photo 5

Aldrei hafa jafn mörg hús í Reykjavík verið rifin á jafn stuttum tíma til þess að vikja fyrir nýbyggingum og undanfarin misseri.

Þetta er auðvitað tímaskekkja. Þetta er verklag sem ekki er notað lengur þar sem ég þekki til. Menn eru almennt hættir að vinna svona í gömlum borgarhlutum.

Á flestum öðrum stöðum eru gömlu húsin endurnýjuð, aðlöguð nútímaakröfum og nýrri starfssemi þegar það þá við. Það er byggt við þau í samræmi við það sem fyrir er og eins og aðstæður gefa tilefni til. Fólki þykir vænt um borgirnar sínar og umhverfið.

Mér hefur verið sagt að meira en 70% af vinnu arkitekta í Frakklandi gangi út á þetta; Að endurnýja og  aðlaga eldri hús að samtímanum og nýum hlutverkum þeirra.

Hér á landi er þetta sennilega nálægt 4%. Hin 96% arkitekta vinna við að byggja nýtt. Oft á lóðum þar sem gömul hús  stóðu fyrir. Og gildir, að því er virðist, einu hvort þau séu friðuð og falleg. Menn virðast ekki leggja mat á gersemin. Þeir virðast helteknir af nýbyggingarfíkn.

+++

Ástæðan fyrir því að ég vek máls á þessu er sú að nú vinnur Skipulagsráð Reykjavíkur að því að 117 ára gamalt friðað hús við Veghúsastíg í Reykjavík verði rifið.

Þetta er merkilegt sögufrægt, lítið og sérlega fallegt hús sem stendur fallega þar sem það er. Umhverfis húsið standa falleg timburhús og einn gamall steinbær að Klapparstíg 19, sem nýtur sérstöðu sinnar í krafti umrædds húss, Veghúsa. En Veghúsastígur dregur nafn sitt af þessu litla húsi sem er einungis um 30 m2 að grunnfleti.

Nú hyggja borgaryfirvöld á að samþykkja að friðað hús,Veghús við Veghúsastíg í Reykjavík, verði rifið. Það verður að líkindum rifið fyrir hagsmuni fjáraflamanna sem vilja ávaxta pund sitt.

Húsið sem gaf götunni nafn var byggt árið 1899 og er því 117 ára um þessar mundir. Þetta er sérlega fallegt hús sem gefur nærliggjandi umhverfi sterkt yfirbragð. Þetta litla hús er að stofni til um 30 fermetrar að grunnfleti með kjallara og risi.

Það verður eftirsjá af þessu húsi fyrir næsta nágrenni og Reykjavíkurborg alla.

++++

Þetta fallega sögulega litla hús sem myndin er af efst og neðst íærslnni hefur verið notað af útigangsfólki fengið að drabbast niður af ásetningi að því er virðist.

En af hverju vill borgin láta rífa friðað hús sem auk þess er sögulegt, fallegt og mikilvægt fyrir nærliggjandi umhverfi?

Ég veit það ekki og skil það ekki, en tel skýringuna vera að finna í gamalkunnu skipulags stefi sem svona mál festast stundum í.

Við gerð deiliskipulaga verða oft til aukinn byggingaréttur sem gengur kaupum og sölum. Bankar lána út á byggingaréttinn svipað og út á óveiddan fisk í sjónum.  Þetta endar svo með því að útilokað er að það borgi sig að kaupa húsin og gera þau upp vegna spáverðs og skulda sem vilja verða til í þessu ferli. Þegar þannig stendur á borgar sig ekki að halda húsunum við og þau eru sett í skammtímaleigu m.a. í þeim tilgangi að láta þau drabbast niður þar til þau verða nær ónýt.

Þessi ganga um þennan dimma táradal nær nánast alltaf fullum skilningi borgaryfirvalda sem ganga til liðs við fjáraflamennina í andstöðu við staðaranda Reykjavíkur og vilja mikils hluta borgarbúa.

Þetta er einmitt tilfellið hér þegar Veghús eru á dagskrá. Húsið var látið drabbast niður og svo er það látið víkja fyrir nýju deiliskipulagi.

Þarna leggjast allir, að því virðist, á eitt til þesss að losna við þetta ágæta, fallega friðaða hús. Eigendur vilja ávaxta pund sitt og njóta velvilja og stuðning borgarskipulagsins til að ná sínu fram. Allt á kostnað arfleifðarinnar, staðarandans og almannahagsmuna.

++++

Ég gerði mér ferð niður á Veghúsastíg til þess að geta lagt mat mitt á húsið og umhverfi þess og sá strax að hér er sorglegt lítið slys í uppsiglingu, sem er hluti af miklu stærra máli þar sem  sterk öfl ráða ferðinni og   eru að verki í miðborg Reykjavíkur innan Hringbrautar.

Á þrem svæðum sem eru innan við 200 metrum frá Veghúsastíg 1. hafa undanfarið verið rifin niður fjöldi ágætra bygginga til þess eins að auka nýtingu lóðanna og byggja hagkvæmari og söluvænlegri hús fyrir eigendur fasteignanna.

Að neðan koma myndir sem ég tók á símann minn af þessum svæðum.

 

photo 1

Á lóð á horni Hverfisgötu og Frakkastígs stóðu að mig minnir þrjú hús sem nú eru horfin.

photo 2

Lóðum við Frakkastíg milli Laugavegar og Hverfissgötu hafa verið sameinaðar í nýju deiliskipulagi frá árinu 2013. Þarna voru rifin 6-8 hús sum um 100 ára gömul. Í staðin kemur nýbygging sem ég átta mig ekki á hvernig mun líta út.

 

photo 4

Hér á lóðunum umhverfis stórhýsi Sindra að Hverfisgötu 42  er verið að breyta í samræmi við deiliskipulag frá 2015.  Þarna stóðu ágæt hús sem nú eru horfin.

fr_20160407_036298-640x360

Hér er svo í lokin þekkt dæmi um niðurrif nú i sumar þar sem allnokkur hús voru látin víkja fyrir nýbyggingum. Þeirra á meðal eitt sem samkomulag var um að látið væri standa. Þetta er hinn svokallaði Naustareitur á mótum Tryggvagötu, Norðurstígs og Vesturgötu.

Hér í blálokin koma svo tvær myndir af steinbænum að Klapparstíg 19,  og Veghúsum sem mætast á opnu svæði til suðvesturs á horni Veghúsastígar og Klapparstígs.

photo 2

 

photo 1

Flokkar: Óflokkað

«
»

Ummæli (24)

  • Guttormur

    Það á að stíga varlega í þessum ernum.

  • Það er vonlaust að hafa svona reglu að allt sem er hundað ára þvi það er svo margt sem taka þarf tillit til. Hundrað ár er langur tími þegar illa byggð timburhús eiga í hlut, hlaðnir söklar orðnir skakkir og illa farnir. Séu húsið glæsilegt og í góðu standi og íbúðarvænt er sjálfsagt að vernda það. Það er ein þrjú ár síðan að Selfossbær fór að huga að búa til hverfi gamalla húsa og kom þá í huga minn að þeir myndu sanka að sér gömlum húsum úr Reykjavík en sú varð ekki raunin. Þeir ætla að byggja hús í stíl við gömul hús sem er viturlegast til framtíðar litið. SEmsagt það þarf að velja að kostgæfni þau hús sem vernda á.

  • Friðjón Guðjohnsen

    Mér finnst líka allt í lagi að ræða, án nokkurs ofstopa, þá stefnu að vernda beri öll gömul hús bara vegna þess að þau séu gömul. Það er nákvæmlega það sem gert var með lögum um menningarminjar, hús sem ná 100 ára aldri eru samkvæmt þeim verðlaunuð með því að láta standa um aldur og æfi. Þetta er gert á grundvelli aldurs þeirra og ekki neins annars.

    Að vísu er í lögunum heimildir hjá Minjastofnun um að afnema þessa friðun. Stefna Minjastofnunar er hins vegar að gera það aðeins ef annað af tvennu er uppfyllt. Annars vegar ef ástand hússins er það slæmt að ekki sé fýsilegt að gera það upp, hins vegar ef húsafriðunarnefnd (forveri minjastofnunar) hafi gefið vilyrði um að það mætti rífa. Undir öðrum kringumstæðum afnemur stofnunin ekki þessa aldursfriðun húsa.

    Mér sýnist þessi stefna helst verða hvati til þess að húseigendur með hús sem friðuð eru í óþökk eigandana freistist til þess að láta þau drabbast niður, líkt og við höfum séð dæmi um. Alla vega mun þessi stefna ekki bæta úr vandamálinu.

    Hin hættan er að eigendur húsa sem nálgast 100 ára aldurinn hugi sérstaklega að nýbyggingum þegar kemur að því að þau falli undir þessa friðun. Þannig fækki frekar eldri húsum en hitt þegar fram líða stundir.

    Ég er hins vegar í prinsippinu ósammála því að aldur húss einn og sér geri það að sérstökum menningarverðmætum. Mörg gömul hús eiga að standa en hreint ekki öll.

  • Jón Eiríksson

    Þetta er allt tengt skipulagsmálum sem eru almennt ekki í lagi hvort sem hægri eða vinstri flokkar eru í meirihluta. En eitt er næsta víst að nóg er komið af niðurrifinu í Reykjavík. Þakka pistil fárra orða og mikils innihalds.

  • Hilmar Þór

    Þakka þér fyrir þetta nnlegg í umræðuna Friðjón. Ég veit að þú þekkir til og átt þína reynslusögu og ég skil sjónarmið þín.

    En ég er þeirrar skoðunar að einmitt deiliskipulagið og deiliskipulagsvinnan sé orsökin fyrir þessum vandræðagangi fyrir mestn part.

    Deiliskipulögin sem gerð voru í aðdraganda hrunsins voru í meginatriðum slæm. Ég átti mörg samtöl um verklagið við kollega mina og stjórnmálamenn og stjórnendur skipulagsmála í Reykjavík á þessum árum. Mér fannst ég sjá þetta fyrir.

    Það að ákveðið var að hús sem eru 100 ára og meir skyldu friðuð sjálfvirkt hefur, eða á að hafa áhryf á deiliskipulaggerðina. En meðan svo er ekki er á óvissuna að róa.

    Þetta ákvæði með 100 árin er að mörgu leyti ágætt en ákvæðið hefur líka nokkra galla. En það þarf þá samfara því að ríkja nokkuð frjálslyndi hjá minjavernd um undanþágur. Það eru ríkar heimildir til undanþágu. En ég er þeirrar skoðunar að sú staðreynd að húseigendur hafi látið hús sín grotna niður og grenjavæðast eigi ekki að vega þungt þegar undantekning um niðurrif er samþykkt. Þetta á t.a.m. við um Veghúsastíg 1.

  • Friðjón Guðjohnsen

    Mér finnst þessi umræða vera ansi lituð af þeirri staðalímynd að öll gömul hús séu falleg og þau beri að vernda. Yfir þeim gína vondir verktakar sem aðeins vilja græða peninga með því að eyðileggja þessu gömlu fallegu hús og byggja oftast ljóta steinsteypuklumpa og hverfa svo í burtu með skjótfenginn gróða.

    Staðreyndin er hins vegar sú að ekki eru öll gömul hús falleg og flest þeirra henta afar illa nútúmalifnaðarháttum. Það er ekki sjálfgefið að öll gömul hús eigi alltaf skilyrðislausan rétt á því að standa, oft á tíðum standa þau annarri uppbyggingu fyrir þrifum. Auðvitað hafa sveitarstjórnir rétt til að setja skipulag þar sem lóðareigendum eru sett skilyrði fyrir því hvað megi og megi ekki byggja. Það eru auðvitað inngrip inn í eignarrétt eigenda þessara lóða en auðvitað þurfa þessir lóðareigendur fara eftir því skipulagi sem þegar hefur verið samþykkt.

    Lög um menningarminjar (nr. 80/2012) sem tóku gildi í janúar 2013 ganga hins vegar mun lengra. Þessi lög friða skilyrðislaust öll hús sem náð hafa 100 ára aldri, án tillits til samþykkts gildandi deiliskipulags. Með setningu þessara laga voru á einu bretti friðuð þúsundir húsa á Íslandi og á hverju ári bætast fleiri hús í þennan hóp.

    Við systkynin erfðum eitt þannig hús eftir móður okkar fyrir tæpu ári síðan. Árið 2005 var samþykkt deiliskipulag þar sem niðurrif hússins var heimilað og umtalsverður byggingarréttur var veittur á lóðinni. Þetta var gert í kjölfar bygginga stórra fjölbýlishúsa við hliðina á húsi móður minnar. Hún var alla tíð mjög mótfallinn þessum byggingum og gerði miklar athugasemdir við skipulagið þegar það var samþykkt, m.a. þær að alltof mikið byggingarmagn var á þessum lóðum við hliðina á henni. Borgin hlustaði hins vegar ekki neitt á þessar athugasemdir að öðru leiti en því að hún veitti henni, óumbeðið, aukið byggingarmagn á sinni lóð og heimilaði niðurrif á húsinu hennar.

    Eftir að þessi lög um menningarminjar taka gildi er hins vegar ekki lengur leyft að rífa húsið, þótt það standi við hliðina á fjölbýlishúsi reistu 2005. Sá byggingarréttur sem móður minni var veittur er þannig haldlagður af ríkinu til þess að tryggja það að öll hús eldri en 100 ára standi. Þannig er ríkið í reynd að fella úr gildi deiliskipulag og leggja hald á þó eignarréttindi í formi byggingarréttar sem fylgja lóðinni. Eftir stendur hús í engu samræmi við nágranna sína og þá götumynd sem deiliskipulagið gerir ráð fyrir. Þetta finnst mér ekki standast eignarréttarákvæði stjórnarskrárinnar.

    Þegar Minjastofnun var spurð hvort ekki mætti rífa húsið segir hún þvert nei og telur húsið hluta af fallegri heild (þetta gamla timburhús stendur við hliðina á steinsteyptu fjölbýlishúsi frá 2005!).

  • Hilmar Þór

    Já Sverrir, mér er fullkunugt um hvað er á seiði og veit að þetta er ekki auðvelt viðureignar.

    Flstir í skipulagsráði og nánast allir í ráðgjafateymum þess, hvort heldur þeir eru starfsmenn borgarinnar eða aðkeyptir, vita að þegar hús, götur eða svæði eru skipulagslegri óvissu byrja eigendur að vanrækja eignir sínar. Svo ef koma fyrirheit um miklar breytingar eða von um aukið byggingarmagn er hætta á að húsin eða svæðin grenjavæðist.

    Ég nefni tvö dæmi. Grjótaþorpið var á þessari leið þar til gengið var frá skipulagi þess. (Höf.: Stefán Örn Stefánson og Hjörleifur Stefánsson ef ég man rétt) Skipulagið gekk í aðalatriðum út á að láta hvefið vera í friði! Þegar óvissunni var aflétt þá tóku eigandur húsa sig til við að halda húsunum við af myndarskap. Ekki fyrr. Nú er þetta með fallegustu borgarhlutunum.

    Frægasta dæmið af þessum toga sem ég veit að allir þekkja sem fjalla um svona mál er Mýrin í 3 og 4 hverfi í París.

    Le Maires var sett í skipulagslega óvissu uppúr aldamótunum 1900. Þá hnignaði hverfinu og slúmmaðist. Upp komu hugmyndir um að jafna það við jörðu (Le Coubusiere 1926 ef ég man rétt) og þar fram eftir götunum. Allt gekk eðlilega niðurávið og hverfið var beinlínis talið ættulegt um tíma. Þetta varð “ódýrasta hverfi borgarinnar sem enginn vildi snerta nema með priki”. Skömmu fyrir 1960 lagði maður helst ekki leið sína þangað. Þá ákváðu borgaryfirvöld að gera ekkert, Leyfa hverfinu að dafna á eigin forsendum. Hugmyndum um niðurrif og auknar byggingaheimildir var kastað burt.

    Og viti menn fólk tók sig til og fór að halda húsum sínum við og endurbæta. Nú er svo komið að þetta er meðal vinsælustu, líflegustu og fallegustu hlutum borgarinnar. Fasteignaverð hefur rokið upp. Allir vilja vera þarna og búa. Ég veit að Hjálmar Sveinsson þekkir þetta hverfi vel.

    Það eru mörg svona dæmi sem þú og þitt fólk í pólitíkinni og þekkja vel. Þetta þekkja líka ráðgjafar skipulagsráðs sennilega betur en við tveir til samans og geta bætt fleiri retnslusögum við.

    Mistökin sem eru að eiga sér stað í Reykjavík innan Hringbrautar eru og voru flest fyrirséð. Öll þesi deiliskipulög sem voru gerð á árunum fyrir hrun eru örsök grenjavæðingarinnar víða og voru gerð mörg mistök í deiliskipulagsgerðinni sem margir bentu á. Tíðarandinn var bara þannig að hvorki stjórnmálamenn né ráðgjafar höfðu burði til þess að standa í lappirnar gegn óværunni.

    Ég er alveg tilbúinn að fara nánar yfir einstök mál í því sambandi ef ástæða er til.

    En aðalatriðið er þetta, og leyfi ég mér að vitna í Pál Skúlason heimspking.” Það eiga sé engar framfarir stað án gagnrýni.”

    Ég vil í lokin þakka þér þáttökuna í þessari mikilvægu umræðu. Það væri óskandi að fleir í þínum hópi svo ég tali nú ekki um ráðgjafa í skipulagsmálum tækju virkan þátt í umræðunni. Arkitektar gera það nánast ekki.

    Hversvegna ætli það sé? Ég er með tilgátu um það, sem ég ætla ekki að reyfa núna.

    Kær kveðja.

    Hilmar Þór

  • Sverrir Bollason

    Ég held að þú vitir nú alveg sjálfur við hvað er að etja. Uppúr 2000 var enginn sem vildi snerta á uppbyggingu í miðborginni með löngu priki. Það var ódýrasta hverfi borgarinnar því enginn vildi kaupa neitt eða gera neitt. Farið var í að gera heilmiklar áætlanir um það sem mætti víkja og hvar mætti byggja upp eitthvað nýtt. Fyrstu framkvæmdirnar úr þessari hrinu er í raun að líta dagsins ljós í dag! Það líður langur tími frá ákvörðun til framkvæmdar í þessum geira.
    En það sem vantar alveg inn í upptalninguna er það sem hefur tekist að bjarga af þeim húsum sem þó var heimild til að rífa! Það eru ófá húsin sem hefur tekist að bjarga. Og svo er ekki bara við Borgina að sakast því jafnvel þar sem Ríkið hefur getað stigið inn í og friðað byggingar hefur það sleppt því.
    Svo verður heldur ekki litið framhjá því að mikið af gömlum húsum sem kannski ekki njóta verndar hafa um árabil verið látin drabbast niður. Eigendur eru févana eða sjá ekki tilgang í að eyða í meira en lágmarksviðhald. Með uppbyggingunni undanfarið og gististaðavæðingunni hefur hins vegar orðið meiriháttar breyting á. Fullt af húsum sem engum voru til prýði hafa fengið það viðhald sem þurfti því það leysir úr læðingi verðmæti sem ekki voru til staðar áður.

  • Hverjum er ekki drullu sama um þessi eldgömlu hús

  • Björn H. Jóhannesson

    Dæmi eru þó um velheppnaðar nýbyggingar t.a.m. við Barónsstíg.
    Góð grein, Hilmar.

  • Orri Ólafur Magnússon

    Borgarstjóri kratanna, Dagur B, er viljalaus strengjabrúða byggingaverktaka
    – svona einfalt & lítið flókið er þetta mál. Engu að síður dapurlegt.

  • Hilmar Þór

    Það er mikilvæg vinnuregla í skiðpulagi að það séu tveir mismunandi aðilar sem skipuleggja, annarsvegar og hanna húsin hinsvegar.

    Skipulagið á að vinna fyrst og fremst með hagsmuni heildarinnar og borgarlandslagsins í huga og svo koma husahönnuðirnir og hanna húsin með hagsmuni lóðarhafa að leiðarljósi.

    Svo takast þessir hagsmunagæslumenn á í faglegri vinnu sinni og ráðgjöf.

    Þetta er vinnulag sem borgin lagði áherslu á fyrir 2-3 áratugum en hefur nú verið lögð með þeim slæma árangri sem dæmin sanna.

    Sjá:

    http://blog.pressan.is/arkitektur/2016/05/11/deiliskipulag-hagsmunaarekstrar/

  • Hilmar Thor Bjarnason

    Ég veit að samlíkingin er ósanngjörn og ýkt en þegar ég geng um miðborgina finnst mér að ég sé staddur í Dresden skömmu eftir stríðslok.

  • Fyrir nokkrum árum hafði ég talsvert álit á Hjálmari Sveinssyni, borgarfulltrúa og formanni umhverfis- og skipulagsráðs.

    Hann hefur hinsvegar algjörlega brugðist í þessum málum og virðist vera orðinn talsmaður gróðapungana og gerir lítið til að koma í veg fyrir niðurrif eldri húsa.

    • Hilmar Thor Bjarnason

      Tek undir þín orð Jóhann. Eitt sinn fannst mér Hjálmar vera einskonar talsmaður „húsagerðar húmanisma“ ef nota má þetta hugtak. Maður batt ákveðnar vonir við hann. Sú tíð er löngu liðin.

    • Aðalheiður

      Hjálmar getur varla hafa verið talsmaður eldri húsa hér í borg það er alla vega mín skoðun maður sem þeytist um á hjóli hjálmlaus getur varla verið talsmaður friðaðra gamalla húsa kanski er orsökin sú að hann hafi dottið á hausinn og miss allt vit sem þar var fyrir. Það er til skammar að þessi maður fær yfileitt að vera á hjóli,sjáum hvernig allt er gert fyrir hjólafólk, hótel, og rútur það er ekki verið að hugsa um hinn almenna borgara sem kýs að búa í gömlum húsum og hlúa að þeim nei hugsunin er bara rífa þetta drasl.Borgarstjórinn býr nú í einu slíku og leigði út kjallarann til Frú Laugu nú er lag fyrir hann að bæta fyrir hvernig borgaryfirvöld koma fram við eldri borgara þessa lands að opna dægradvöl fyrir eldri borgara í kjallaranum hjá sér þar sem borgaryfirvöld hafa lokað flestum félagsmiðstöðvum í borginni. Borgaryfirvöld farið að hisja upp um ykkur brækurnar og gerið eitthvað að viti.Hjálmar settu nú upp hjálm fyrir næstu hjólaferð.

    • Hilmar Thor Bjarnason

      Aðalheiður … ég skil nú ekki hvernig hjólreiðar eða hvort Hjálmar notar hjálm eða notar ekki hjálm komi þessu máli við.

  • Lítill er lærdómurinn -miðbærinn eins særður og hann var fyrir átta árum. Er eitthvað vitað um steinhúsið? Steinhús sem þessi eru sjaldséðir fuglar.

    Takk fyrir góða umfjöllun, nú sem endranær. Kveðja góð, Ragnar

  • Rúna Vala Þorgrímsdóttir

    Á næst neðstu myndinni er gat eftir hús sem voru rifin í óþökk Reykjavíkurborgar.

    • Rúna Vala Þorgrímsdóttir

      Fyrirgefið, á þriðju neðstu myndinni.

  • Hilmar Þór

    Ég er kannski nokkuð kvass þarna í pistlinum í garð skipulagsráðs. Það er nokkuð víst að þetta er ekki auðvelt mál við að eiga eins og dæmin sanna.

    Hinsvegar er ljóst að fjáraflamenn og spekúlanntar virðast hafa sterkari stöðu varðandi skipulagsmál en tilefni er til og kjörnir fulltrúar aftur veikari. Hver svo sem ástæðan er fyrir því.

  • Borgaryfirvöld í Reykjavík ganga erinda auðvalds og verktaka.

    Þetta er það sem blasir þótt þarna þykist vinstri menn vera á ferð.

    Síðan skrúfar þetta fólk upp fasteignaverðið í borginni með því byggja bara á dýrustu svæðunum.

    Þá skipta hagsmunir ungs fólks og hinna efnaminni engu.

    Ég skil ekki að fólk skuli ekki opna augun fyrir þessum ósköpum og hvernig þetta fólk hagar sér í grímulausri hagsmunagæslu fyrir auðvaldið og verktakana.

    Og síðan hefur komið fram að mikill meirihluti borgarfulltrúa býr í hverfunum þar sem húsnæðið hefur hækkað mest.

    Það er sem sé líka verið að gæta eigin hagsmuna.

    Ég næ því ekki að fólk í borginni skuli styðja þetta!

  • Sigrún Guðmundsdóttir

    Það væri fróðlegt að sjá yfirlit yfir þetta þar sem allt er tínt til þvi það er víða sem eitt og eitt hús hefur þurft að víkja þar sem lítið ber á en samnast þegar saman kemur.

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af einum og fjórum? Svar:

Höfundur

Hilmar Þór Björnsson arkitekt
Tilgangur síðunnar er að kynna arkitektúr, skipulag og staðarprýði ásamt því að stuðla að umræðu um efnið. Það sem fram kemur ber ekki að skilja sem skoðun höfundar heldur hugleiðingu sem sett er fram í þeim tilgangi að vekja lesendur til umhugsunar og skoðanaskipta. Tekið er á móti aðsendum greinum þegar það á við, sem þá eru á ábyrgð höfundar aðsends efnis.
Athugasemdir við færslur eru velkomnar. Þeir sem vilja koma skilaboðum til ábyrgðarmanns beint er bent á netfangið hilmarstofunni@gmail.com
RSS straumur: RSS straumur

Færslusafn