Þriðjudagur 11.01.2011 - 09:13 - 8 ummæli

Nútíma klisjur í byggingalistinni.

Undanfarin nokkur ár hefur gengið yfir heiminn ákveðin gerð arkitektúrs sem hefur hvorki staðareinkenni né höfundareinkenni að neinu marki. Maður sér þetta um allan heim og stíllinn hefur engin landamæri. Einkennin eru samspil húshluta sem eru kassalaga og raðað saman eftir aðstæðum. Veggfletirnir eru hvítir, þökin hafa flata ásýnd og gluggarnir eru göt í veggjunum eða að þeir koma í bilin milli húshlutanna. Stundum er framið stílbrot með ásetningi þar sem timburklæðningu eða öðru smávægilegu er skotið inn  og  léttir manni oftast lundina.  Oftast er þetta einfalt og fallegt en virkar stundum svoldið sjalfsmiðað.

Sennilega er þetta algengasta húsform samtímans og svona hús er að finna í miklu upplagi um alla veröldina.

Húsin eru að sjálfsögðu misvel gerð. Myndirnar sem fylgja er af einu slíku í háum gæðaflokki er eftir Jorge Mealha, byggt í Portúgal.

Svipuð hús hafa verið byggð víða hér á landi undanfarin ár.  Þetta er skilt funktionalismanum og er smart en óskiljanlegt hafi maður gleraugu regionalismans á nefinu.

Flokkar: Óflokkað

«
»

Ummæli (8)

  • Guðmundur

    Líklega orðaði ég þetta ekki alveg rétt, enda tók ég það fram að ég væri hrifinn af Corbusier sem arkitekt, var einungis að reyna að benda á þessa tilhneigingu hjá honum og má vel vera að ég hafi misskilið þetta (enda ekki lesið textann sem þetta birtist í).

    En varðandi fúnksjónalismann, þá er það alveg rétt að það er ekkert að honum sem slíkum. Hins vegar vandast málið þegar farið er að líta á þá stefnu og kenningar henni tengdar sem hinn heilaga sannleik og reynt að yfirfæra á allar byggingar og skipulag. Mér brestur reyndar þekking til að tala mig mikið út um þetta, en þessi klausa í viðtali við félags- og mannfræðinginn James C. Scott er umhugsunarverð:

    „Secondly, every people have a kind of vernacular architecture that they have powerful traditions of association and affection for. I was in Berlin for a year and an architectural historian took me to a kind of Bauhaus Siedlung, which was built in the thirties in Bauhaus style. The national-socialist had, in competition with Bauhaus, build a row of working class houses across the park. The Bauhaus building was a block – they had figured out how many square feet people needed, the water and the playground. Yet, tt was as if these people had no taste, no tradition, and no preferences. The building was functional in a beautiful way. The Nazi houses though had fake chimneys! They had all the references to what home, Heimat and a house meant to Germans, and of course they preferred that.“
    (http://engineeringsociety.wordpress.com/2009/07/03/interview-with-james-c-scott-at-masters-of-intervention-iv/. Reyndar ættu allir sem hafa einhvern áhuga á skipulagsmálum að lesa bók hans Seeing like a State).

    Oft á tíðum hefur maður á tilfinningunni að arkitektar 20. aldar hafi of oft litið á það sem hlutverk sitt að yfirvinna þessa „þrjósku“ fólks gagnvart nútímaarkitektúr og kenna þeim að meta verk sín, frekar en að vinna með fólki að nýjum formum.

  • Hilmar Þór

    Ég er ekki sammála Guðmundi um funktionalisman og Le Coubusiere.

    Funktionalisminn er fínn og það er nákvæmlega ekkert að honum. Hinsvegar eru margir sem ekki kunna með hann að fara. Nákvæmlega eins og með vínið. Það eru margir sem ekki kunna að fara með það og koma óorði að guðaveigarnar.

    Það er einn langlífur misskilningur í gangi varðandi það að Courbusiere vildi að hús væru vélar til þess að búa í. Það sem Courbusiere meinti og margskýrði út var samlíking við vélar. Hann sagði oftar en einu sinni að það væri stórkostlegt að sjá hönnuði hanna flugvél (þetta var í árdaga flugvélasmíði) smíða hana, draga svo út á tún og sjá svo að hún gæti flogið. Svo sagði hann: svona á að hanna hús. Það á að hanna þau og svo smíða þau svo þau fullnægji þeim kröfum og væntingum sem gerðar eru eins og þegar flugvél er hönnuð og smíðuð. Ergó vél til að búa í. Það voru hannaðar á þessum tímum flugvélar sem gátu flogið og hús sem ekki var hægt að búa í eða nota samkvæmt væntingum. Þetta var það sem hann sagði/vildi segja, en hefur verið teygt til.

    Le Courbusier teiknaði mörg stórkostleg hús, hann var ekki mikið fyrir smáatriðin eins og Mies, en stóru línurnar voru í lagi. Hinsvegar er það rétt hjá Guðmundi að hann fór oft offari í skipulagsmálum.

  • Skemmtileg færsla hjá Hilmari og athugasemdir fróðlegar.
    Tek sérstaklega undir athugasemd Margétarj.
    Nú skiptir miklu að losna út úr algleymi hjarðhegðunarinnar
    og virkja sköpunar … gleðina.

  • Guðmundur

    En svona að allt öðru og óskyldu: ég rakst á umfjöllun um þessa mögnuðu byggingu og fannst rétt að deila henni: http://rolfgross.dreamhosters.com/Georgia-Web/Djorbenadze/Djorbenadze.htm

  • Kristrún

    Það er auðvitað rétt hjá Margréti að þessi hús eru öll mjög svipuð enda er markhópurinn líklega svipaðrar gerðar. Þetta eru skemmtilegir staðir að heimsækja en ekki fýsilegir til langrar búsetu. Það er líka vandi að setja hlutina rétt saman. Þetta á við um öll mannanna verk. Myndlistin verður ekki betri þó margir séu litirnir á pallettunni.

    Tek undir með “Dundi” sem Stefán vitnar til. Þetta gengur allt út á að gera gott úr einföldum hlutum. Þetta er spurning um að raða kössunum rétt saman.

  • Guðmundur

    Ég held að það sé kominn tími á einhvers konar uppgjör við fúnksjónalismann. Það er nánast út í hött að hugmyndir Le Corbusiers skuli enn vera í hávegum hafðar meðal (í það minnsta sumra) arkitekta, sér í lagi hugmyndir hans um borgarskipulag, sem varla er hægt að kalla neitt annað en mannfjandsamlegar, auk þess sem þær tengjast óþægilega mikið ein- og alræðisstjórnum 20. aldar (þessar hugmyndir birtast líka í arkitektúr Le Corbusier og endurspeglast sérstaklega í orðum hans að byggingar hans séu „vélar til búa í“. En ég er þó hrifinn af mörgum byggingum hans (sérstaklega kapellunni í Ronchamp), og hann var mun betri arkitekt en skipulagsfræðingur). Erlendis virðist vera mun meiri hreyfing innan arkitektúrs og skipulagsfræða í átt til íbúalýðræðis og samstarfs við íbúa um uppbyggingu og skipulag (alltént í umræðu, svo er spurning hvort praxísinn fylgir). Slík umræða virðist ekki eiga upp á pallborðið hér, þótt það megi greina einhver merki um slíkan vilja hjá nýrri borgarstjórn. Kassalaga byggingar eru ekkert verri en aðrar, og byggingin hér að ofan er falleg á sinn hátt og í háum gæðaflokki, eins og Hilmar bendir á. En þegar allar nýbyggingar eru hannaðar á þennan hátt fallast manni eiginlega hendur. Ef ég ætti pening til að láta hanna fyrir mig hús myndi ég frekar velja Hundertwasser en Le Corbusier (svona til að nefna tvo öfga í þessum efnum). Mín vegna mættu arkitektar frekar taka mið af því sem situationistarnir sögðu: „Form follows fun“ frekar en „Form follows function“.

  • Margrétj

    Að innan eru þau svo öll nánast eins.
    Hvít, tómleg, náttúrulaus og með sömu innanstokksmunum.
    Nánast alltaf laus við persónuleika og frumleikinn er engin.
    Þú getur séð þúsundir, milljónir, slíkra húsa á netinu og skiptir þá engu máli hvort íbúinn er í Ástralíu eða Íslandi, hvort hann er karl eða kona, fimmtugur eða tvítugur. Sömu innanstokksmunirnir, sami stílinn, sama andleysið.

    Kannski er þetta bara fínt. Frumlegheit, persónulegur stíll og slíkt hverfur. Allir verða eins og hjarðmenningin í algleymi. Kannski er það bara best.

  • stefán benediktsson

    Dundur sagði einhverntíma, einhversstaðar aðspurður um starf sitt að það snerist um að“gera gott úr kassa“.
    Sannanlega eru hlutföll „kassanna“, afstaða þeirra innbyrðis, stærð, hlutföll og staða glugga og hurða afgerandi um hvort manni finnst verkið „gott“ eða „vont“.
    Vandinn er alltaf sá sami. Að hanna góða byggingu er auðveldara en að raða þeim saman og móta umhverfi sem er hluti af þeirri menningardeild sem þú starfar í.
    Ísland og Lansarote eru á svipaðri lengdargráðu en ólíkum breiddargráðum og tilheyra ólíkum menningardeildum, ergo þarf arkitektúr þessara staða að taka mið af því. Það er vandinn.

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af átta og tveimur? Svar:

Höfundur

Hilmar Þór Björnsson arkitekt
Tilgangur síðunnar er að kynna arkitektúr, skipulag og staðarprýði ásamt því að stuðla að umræðu um efnið. Það sem fram kemur ber ekki að skilja sem skoðun höfundar heldur hugleiðingu sem sett er fram í þeim tilgangi að vekja lesendur til umhugsunar og skoðanaskipta. Tekið er á móti aðsendum greinum þegar það á við, sem þá eru á ábyrgð höfundar aðsends efnis.
Athugasemdir við færslur eru velkomnar. Þeir sem vilja koma skilaboðum til ábyrgðarmanns beint er bent á netfangið hilmarstofunni@gmail.com
RSS straumur: RSS straumur

Færslusafn