Fimmtudagur 10.01.2013 - 10:16 - 8 ummæli

Ný byggingarreglugerð – Húsvernd

Magnús Skúlason arkitekt skrifaði fyrir fyrir réttum mánuði grein í Fréttablaðið umdir yfirskriftinni  „Ný byggingarreglugerð-Húsvernd“.

Greinin er mikilvægt innlegg í yfirstandandi umræðu um nýja byggingarreglugerð sem vonandi á eftir að taka nokkrum mikilvægum breytingum á komandi vikum en gildistöku hennar var frestað um nokkrar vikur og tók því ekki gildi um áramót eins og segir í grein Magnúsar.

Magnús Skúlason hefur mikla þekkingu á efninu.  Hann hefur verið virkur í allri umræðu um eldri hús í áratugi og þekkir vel til þessara mála bæði sem starfandi arkitekt,  fulltrúi í byggingarnefnd Reykjavíkur til margra ára og formaður eitt kjörtímabil.  Þá var hann forstöðumaður Húsafriðunarnefndar um langt árabil

Gefum Magnúsi orðið:

Ný byggingarreglugerð – húsvernd

Svo að vel takist til við varðveislu húsa, húsaraða og hverfa er mikilvægt að gömul hús fái að gegna hagnýtu hlutverki. Þegar vel tekst til er gamalt og jafnvel friðað hús eftirsóknarverð eign sem eigandinn leggur metnað sinn í að halda við og fegra að eigin frumkvæði. Reynslan sýnir að gömlum húsum og hverfum er af einhverjum ástæðum betur gefið að stuðla að lifandi mannlífi og menningu en afrakstri úthugsaðs skipulags og þarf ekki að leita langt í borgum og bæjum landsins því til sönnunar.

Á forsendum hússins sjálfs
Skilyrði þess að gömul hús geti áfram gegnt hagnýtu hlutverki er að breytingar og viðhald fari fram á forsendum hússins sjálfs. Mörg eldri húsa eru t.d. upphaflega íbúðarhús og geta gegnt því hlutverki með ágætum oftar en ekki ef leyfðar eru ákveðnar breytingar eða viðbyggingar. Þá geta mörg eldri hús, þ.á.m. íbúðarhús, vöruskemmur og sjóbúðir, verið eftirsótt til annarra nota en þau voru upphaflega gerð fyrir, t.d. verslunar eða veitingastaða.

Við breytingar sem þessar verður að líta til fleiri atriða svo sem byggingartíma, byggingarsögu og skipulags hússins svo og þess hvort breytingar eru afturkræfar. Sé hins vegar miðað við ítrustu kröfur sem gerðar eru til nútímabygginga þýðir það að jafnaði að breytingar eru annað hvort ómögulegar eða þær þýða eyðileggingu á þeim verðmætum sem felast í gömlu húsi. Eðlilega stenst hús sem reist er skv. byggingarreglugerð frá 1903 ekki kröfur skv. nútíma byggingarreglugerð í ýmsu tilliti. Það á hins vegar ekki að leiða til þess að hvers kyns breytingar á húsinu séu gerðar tæknilega óframkvæmanlegar.

Mikilvæg byggingararfleifð
Í nýrri byggingarreglugerð, sem taka mun gildi af fullum krafti 1. janúar 2013, hefur lítill gaumur verið gefinn að framangreindum atriðum. Það er eins og gleymst hafi að við eigum mikilvæga byggingararfleifð sem verður aðeins viðhaldið á sjálfbærum forsendum. Þetta er stórt skref aftur á við frá fyrri byggingarreglugerð sem í grein 12.8. kvað á um að við umfjöllun byggingarleyfisumsókna um breytingar á byggingum sem byggðar væru fyrir gildistöku reglugerðarinnar „skyldi taka mið af þeim reglugerðarákvæðum sem í gildi voru þegar þær voru byggðar eftir því sem hægt væri að teknu tilliti til gildandi krafna um öryggis- og heilbrigðismál.“ Á þessum grundvelli var t.d. hægt í hverju tilviki fyrir sig að huga að breytingum samfara endurbótum eða breyttri notkun og þannig m.a. efla brunavarnir, bæta aðgengi hreyfihamlaðra og sjónskertra án verulegra raskana á húsi.

Í grein 137.6 í fyrri reglugerð var fjallað um að gerðar væru viðeigandi ráðstafanir til að vernda menningarverðmæti gegn bruna. Ekkert slíkt virðist að finna í hinni nýju reglugerð, jafnvel þótt augljóslega sé brýnt að efla brunavarnir í gömlum timburhúsum sem hafa sérstakt varðveislugildi, einkum með vatnsúðakerfum þannig að þau verði síður eldi að bráð.

Hin nýja byggingarreglugerð virðist gera fortakslausa kröfu um að breytingar á gömlum húsum séu í samræmi við kröfur til nýbygginga. Með þessu er í raun vegið að mikilvægri forsendu varðveislu og viðhalds gamalla húsa og borgarhluta svo ekki sé minnst á það óhagræði og kostnaðarauka sem eigendur gamalla húsa verða fyrir.

Nú mun vera unnið að endurskoðun reglugerðarinnar á vegum umhverfisráðherra, þ.m.t. þessum atriðum, og brýnt er að þeirri vinnu ljúki sem fyrst og óvissu þar með eytt.

Sjá einnig:

http://blog.dv.is/arkitektur/2012/12/03/alygtun-arkitekta-ny-byggingareglugerd/

Flokkar: Óflokkað

«
»

Ummæli (8)

  • Jón Guðmundsson

    Hús er lifandi ferli sem hefst með því að einhver fær þá hugmynd að reisa mannvirki á ákveðnum stað. Hugmyndin verður að veruleika með mótun og byggingu mannvirkisins. Á líftíma flestra húsa eiga sér síðan stað breytingar á notkun og útfærslu. Það einkennir vel lukkuð mannvirki að yfirleitt hafa þau þjónað nokkrum ólíkum hlutverkum á æviskeiði sínu.
    Ný reglugerð kemur í raun í veg fyrir að hús geti skipt um hlutverk. Ef notkun mannvirkis er breytt þá fellur eldra hús undir ýtrustu kröfur nýjustu útgáfu reglugerðarinnar. Það þýðir að við breytta notkun á mannvirki verða lögin afturvirk sem stríðir gegn þeirri grundvallar reglu að lög séu ekki afturvirk. Það verður fróðlegt að sjá hver afdrif þessa ákvæðis verða fyrir dómstólum.
    Ferli húss líkur fyrst þegar engin man tilvist þess eftir að það hefur verið rifið. Sum hús verða ódauðleg, goðsagnir sem jafnvel eru endurbyggðar og hætta þá yfirleitt um leið að vera goðsagnir. Við hér á skerinu erum að stórum hluta þriðja kynslóð úr torfbænum. Hugmyndir okkar um hús eru enn á ótrúlegan hátt tengd torfbænum. Við tölum um viðhaldsfríar klæðningar, hugmynd sem er skyld grasinu sem spratt ferskt á hverju vori upp úr þekjunni. Er hugmyndin að baki einangruninni í nýju reglugerðinni afleidd af þykktinni á gamla torfveggnum?

    • arkitektur

      Athyglisverð hugleiðing hjá Jóni Guðmundssyni.
      Mér hefur verið sagt frá húsi í miðborg Rómar sem er 600 ára gamalt. Á liftíma þess hefur það verið hús kaupmanns með íbúðum, sláturhús, iðnaðarhús, fjölbýlishús, lögreglustöð, sjúkrahús og margt fleira. Nú er það hótel. Þetta er alltaf sama húsið að stofni til en aðlagað starfsseminni.
      Gefur nýja reglugerðin svigrúm til svona þróunnar?

    • Hilmar Þór

      Svo las ég þýðingu Borgþórs Kjærnested a sögu Napóleons þar kemur fram að Napóleon bjó nokkra mánuði á hoteli á vinstri bakka Signu í Prís skömmu fyrir aldamótin 1800. Í sögunni er sagt að þarna sé enn rekið hótel í sama húsinu. Spurt er hvort nýja reglugerðin hafi svigrúm til þess að svona þróun geti átt sér stað.

  • G.Guðmundsson

    Því miður er mikið rétt sagt hjá Pétri Erni að ofan. Höfundarnir flestir eru lítt reyndir einstaklingar sem hafa gert skrifstofuvinnu að sínu lífsstarfi. Hafa aldrei unnið á almennum markaði og skilja ekki hugsunarhátt markaðarins og lögmálin sem þar ríkja.

    Einstaka menn sem st0ðu að reglugermargerðinni (t.d. Ágúst Þór Jónsson) hafa unnið eingöngu sem ráðgjafar hins opinbera og verður því að flokka þá sem kerfiskalla.

    Reglugerðin er að vissu marki unnin með hagsmuni eftirlitsiðnaðarins að meginmarkmiði. Festir hann í sessi og eykur umsvif hans. Þetta er þvert á hagsmuni skattgreiðenda og byggingariðnaðarins.

    Það þarf að kalla reynslubolta sem kunna að tjá skoðanir sínar og óttast ekki vinnuveitanda sinn sem væri Mannvirkjastofnun. Það er að segja einhverja sem eru að ljúka sinni starfsæfi, 57-67 ára gamla jálka af báðum kynjum.

  • Hér er líka áhugaverð grein þar sem rannsóknir sína að þessi aukna einangrun sem verið er að krefast í dag er í raun ókostur og dýrari lausn en að sleppa henni. http://tbirdnow.mee.nu/insulation_can_make_you_colder

    En ég hrópa húrra fyrir nýjum lögum frá áramótum, þar sem öll hús eldri en 100 ára eru friðuð, að því leiti að þú þarft að hafa samband við Húsafriðunarnefnd áður en þú hyggst gera beytingar á því, þar sem Húsafriðunarnefd hefur svo ákveðinn tíma til að taka ákvörðun um hvort það sé leyfilegt eða/og hversu mikið húsið er í raun friðað!

  • Pétur Örn Björnsson

    Við skulum fyrirgefa þeim, tæknikrötunum og hinum reynslulitlu

    og láta sem þessi vitleysa þeirra hafi aldrei verið gerð. Núllum hana.

  • Pétur Örn Björnsson

    Nýju byggingarreglugerðina þarf að skera niður við trog.

    Hún ber vitni um tæknihyggju og staðlaða forheimskun.

    Legg til að gildistöku hennar verði frestað til eilífðarnóns.

    Tæknikratar hafa sjaldnast komið góðu til leiðar.

    Það vita allir sem vilja vita, að reynslulitlir menn voru ráðnir

    í atvinnubótavinnu hjá skinhelgum tæknikrötum

    til að dudda sér við að níða skóinn undan reynslumeiri og vitrari

    og forvitrari mönnum. „Þeir vissu ekki hvað þeir voru að gera“ 🙂

  • Jón Ólafsson

    „Svo að vel takist til við varðveislu húsa, húsaraða og hverfa er mikilvægt að gömul hús fái að gegna hagnýtu hlutverki“. Þarna er megin þunginn í frábærri grein Magnúsar. Það þarf að vera þannig að gömul hús séu nýtt og að þau séu áhugaverður kostur til notkunnar og fjárfestingar. Aðeins þannnig verður þeim haldið við.

    Nýja reglugerðin er allt ogf alhæf. Það á bara ekki að gera sömu kröfur til gamalla húsa og nýrra og heldur ekki til húsa á jarðskjálftyasvæðum og öðrum svæðum og alls ekki til húsa á háhitasvæðum og þar sem engin jarðhiti er,

    Þetta er illa unnin og íþyngjandi reglugerð sem hjálpar fáum.

    Svo má velta fyrir sér hvort markaðurinn geti ekki verið nothæfur til að auka gæði húsanna. T.d. ef húshitunarkostnaður er lítill vegna mikillar einangrunar ætti fermetraverðið að vera hærra og sama gildir um lyftur og önnur þægindi.

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af fimm og einum? Svar:

Höfundur

Hilmar Þór Björnsson arkitekt
Tilgangur síðunnar er að kynna arkitektúr, skipulag og staðarprýði ásamt því að stuðla að umræðu um efnið. Það sem fram kemur ber ekki að skilja sem skoðun höfundar heldur hugleiðingu sem sett er fram í þeim tilgangi að vekja lesendur til umhugsunar og skoðanaskipta. Tekið er á móti aðsendum greinum þegar það á við, sem þá eru á ábyrgð höfundar aðsends efnis.
Athugasemdir við færslur eru velkomnar. Þeir sem vilja koma skilaboðum til ábyrgðarmanns beint er bent á netfangið hilmarstofunni@gmail.com
RSS straumur: RSS straumur

Færslusafn