Miðvikudagur 29.03.2017 - 16:08 - 8 ummæli

Ný gerð Fjölbýlishúsa – Brotið blað.

Það má segja að það hafi ríkt stöðunun í þróun fjölbýilshúsa á Íslandi undanfarna nánast hálfa öld.  Algengast er að byggð séu stigahús með íbúðum til sitt hvorrar handar á stigapöllunum. Stundum er þriðju íbúðinni komið fyrir á hverri hæð. Þegar krafa um lyftur kom fundu hönnuðir  út úr því að sameina stigahúsin og gera svalagang að íbúðunum. Þannig gat lyftan þjónað fleiri íbúðum. Þetta er ekki góður kostur eins og allir vita. Hvorki hönnuðir, húsbyggjendur né kaupendur íbúðanna eru ánægðir með þetta fyrirkomulag.  M.a. til þess að koma á móts við þetta voru svo byggðir 8-18 hæða turnar þar sem lyftan þjónaði fleiri íbúðum og menn töldu sig ná meiri nýtingu á landinu.  Víðast í öllum þessum húsum voru íbúðirnar einsleitar og hver uppaf annarri.

Víða erlendis hefur mikil þróun  átt sér stað um gerð gerð fjölbýlishúsa. Ég nefni Habitat 67 eftir Moshe Safdie sem síðar skrifaði bókina „For Every One a Garden“.  Daninn  Viggo Möller-Jenssen, sem var leiðbeinandi arkitektanna Stefáns Arnar Stefánssonar, Finns Björgvinssonar og Halldórs Guðmundssonar á Konunglegu Akademíunni í Kaupmannahöfn gerði framúrstefnuleg fjölbýlishús í Farum Mitdpunkt fyrir utan Kaupmannahöfn. Og svo má ekki gleyma Bjærget í Örestaden eftir Bjarke Ingels. Þetta er löng og hægfara saga sem hefur fengið kipp undanfarin 5-10 ár víða erlendis. En hér á landi hefur verið kyrrstaða.

Nýlega kynnti arkitektastofa Halldórs Guðmundssonar nýja gerð fjölbýlishúsa í Hafnarfirði, sem brýtur blað í gerð fjölbýlishúsa hér á landi að mínu mati. Þetta er betra fjölbýlishús en maður hefur áður séð. Þau eru félagslega skemmtilega samsett og eru manneskjuleg. Þau stuðla að félagslegum samskiptum barna og fullorðinna og stuðla að æskilegri samsetningu íbúa húsanna  og jafnvel bæjarhluta.

 

Á myndinni hér að ofan má sjá dreifingu íbúða eftir stærðum. Þarna eru íbúðir sem eru  30m2,  40m2,  70m2, 85m2 og 100m2. Vel væri hugsanlegt að hafa eina hæð í viðbót með svona 140-160m2 íbúðum. Þannig væri komin mikil breydd í íbúðastærðir og gerðir. Svona blöndun stuðlar að félagslegri samsetningu sem er eftirsóknarverð.

 

Hér er sýnt hvernig hæðirnar eru samsettar með 2-3 íbúðum á hverri hæð þar sem þær snúast um stigahús með einhverjum hætti sem ég hef ekki séð áður hér á landi. Stigahúsið er bjart og rúmgott með aðstöðu til óformlega samskipta og leik minni barna. Mikil dagsbirta flæðir niður stigahúsið .

Að ofan eru sýndar grunnmyndir af tveim íbúðum af mismunandi gerðum, 3-4 herbergja. Eins og sést af grunnmyndunum er eldhúsunum gefið mikið vægi sem miðja íbúðarinnar. Frá eldhúsunum eru sjónræn tengsli inn í líflegt stigahúsið.

 

Hér eru grunnmyndir af minnstu íbúðunum. Annarsvegar 20m2 og hinsvegar 30m2 að stærð. Vel er búið að íbúunum með svölum/garðskála og nothæft fyrir fólk í hjólastól.

Stigahúsið er bjart og rúmgott. Þarna gefst börnum kostur á að leika sér og fullorðnir hittast og eiga félagsleg samskipti.

Mynd innan íbúðar.

Hér er mynd innan úr 40 m2 íbúð. Takið eftir glugganum fram í stigahúsið

 

 

 

Flokkar: Óflokkað

«
»

Ummæli (8)

  • Guðrún Gunnarsdóttir

    Það er bjart framundan 🙂

  • Rúnar I Guðjónsson

    Þessi lausn býður einnig uppá hagkvæmari byggingamáta, steypuvinnan og kjarninn er nánast sá sami þessum húsum þrátt fyrir fjölbreytileikann í hönnun og nýtingu.

    Svona á að gera þetta.

  • Skemmtilegar skipulagstillögur og ekki veitir af að flikka svolítið upp á Vellina í Hafnarfirði.
    Aðeins um annað mikilvægt skipulagsmál. Hilmar Þór Björnsson hefur á þessu bloggi ítrekað barist fyrir byggingu nýs Landspítala á nýjum stað og hafa Vífilsstaðir verið ofarlega á blaði. Vilhjálmur Ari Arason er honum sammála og verið ötull baráttumaður. Andri Geir Arinbjarnarson var með öflugt innlegg „Reykjavík fullbyggð“, og í Fréttablaðinu í dag skrifar Vilhelm Jónsson kraftmikla grein. Stofnuð voru samtök um nýjan spítala á nýjum og betri stað og létu nokkuð til sín taka um tíma. Það merkilega er, að samtökin hafa ekki náð flugi þrátt fyrir að hafa með öflugum rökum sýnt fram á hagkvæmni þess að byggja nýjan spítala á betri stað. Og greinaskrifin hafa ekki náð í gegn og fréttastofurnar virðast áhugalausar líkt og þöggun sé í gangi. En það er ekki fullreynt. Í þessu máli ræður vilji Alþingis. Þess vegna er nauðsynlegt að fylgja málinu eftir á þeim vettvangi með þingsályktunartillögu og öflugri greinargerð og enginn betur til þess fallinn en Sigmundur Davíð. Hvernig sem málinu reiðir af í þinginu mun allavega liggja fyrir hver afstaða þingmanna er til málsins. Landspítalamálið er af þeirri stærðargráðu og svo skipulagslega mikilvægt til framtíðar litið, að þingið verður á þessu stigi að taka málið til umfjöllunar, endurskoðunar og endanlegrar afgreiðslu.

    • Hilmar Þór

      Þakka þér þetta GSS. Svona athugasemd skiptir máli.

  • Ég hafði ekki tekið eftir þesu sem Stefán bendir á. Þetta er allt hjólastólatækt án þess að það séu þessi flæmi sem einkenna slíkar íbúðir. Þetta sem maður upplifir venjulega og rökstutt er sem „fatlaðakröfur“ er bara bull eins og þessi teikning sannar.

  • stefán benediktsson

    Þetta er greinilega þrautunnið íbúðaskipulag. Höfundar eiga heiður skilið. Mér hefur fundist vinna í skipulagi íbúða, þar sem góð plássnýting er markmiðið hafa verið fyrir borð borin á undanförnum árum. Var að skoða nýja íbúð um daginn og spurði hversvegna gangurinn væri svona breiður og byggjandinn svaraði „fatlaðrakröfur“ sem var auðvitað bull. Meira svona minna bull.

  • Sigrún Helgadóttir

    Það er vissulega tímabært að reyna fyrir sèr með nýungar í hönnun fjölbýlishúsa á Íslandi. Þetta lofar góðu en mætti vera róttækara. Eru þessi hús komin í sölu? Ég sé það ekki!

  • Steingrímur

    Þetta boðar betri tíð með blóm í haga!

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af átta og einum? Svar:

Höfundur

Hilmar Þór Björnsson arkitekt
Tilgangur síðunnar er að kynna arkitektúr, skipulag og staðarprýði ásamt því að stuðla að umræðu um efnið. Það sem fram kemur ber ekki að skilja sem skoðun höfundar heldur hugleiðingu sem sett er fram í þeim tilgangi að vekja lesendur til umhugsunar og skoðanaskipta. Tekið er á móti aðsendum greinum þegar það á við, sem þá eru á ábyrgð höfundar aðsends efnis.
Athugasemdir við færslur eru velkomnar. Þeir sem vilja koma skilaboðum til ábyrgðarmanns beint er bent á netfangið hilmarstofunni@gmail.com
RSS straumur: RSS straumur

Færslusafn