Föstudagur 24.03.2017 - 16:36 - 16 ummæli

Spítalinn falinn? – Hvað er í gangi?

Í gær var opnuð afskaplega glæsileg sýning í Ráðhúsi Reykjavíkur þar sem borgarbúum og öllum landsmönnum er boðið upp á að skoða og kynna sér það sem er í vændum í uppbyggingunni í miðborg Reykjavíkur innan Hringbrautar.  Sýningin ber heitið „Hvað er í gangi?“ og er tilgangurinn að gefa fólki tækifæri til þess kynnast umhverfi sínu og þeim framkvæmdum sem eru í undirbúningi.  Það er ætlast til að fólk taki afstöðu til þeirra áætlana sem eru í undirbúningi og geti rætt áformin sín á milli og opinberlega.  Þetta er mjög góður ásetningur og vona ég að þessi sýning verði „permanent“ og að það verði bætt í líkönin nýjum áætlunum og breytingum, á komandi árum. Helst þannig að líkönin fylgi hæðarlínunum (topografíunni).

Logið með þögninni.

Áhugi minn beindist sérstaklega að fyrirhuguðum framkvæmdum á Landspítalalóðinni. Ég hafði það eftir traustum heimildum fyrir nokkrum mánuðum að það væri verið að smíða líkan af allri uppbyggingu Landspítalans í mælikvarðanum 1:200.  Þess vegna gerði ég ráð fyrir að þessar miklu og umdeildu fyrirætlanir yrðu til sýnis þarna á sýningunni góðu í Ráðhúsinu. Það yrði gerð grein fyrir þeim á sýningunni og  loks opnað á umræðu um málið.

En líkanið er ekki á sýningunni.

Hversvegna?

Hvað gengur mönnum til með því að sýna ekki Landspítalann fullbyggðan þarna? Nota þetta góða tækifæri til þess að upplýsa allan almenning. Deiliskipulagið var tilbúið fyrir bráðum áratug.

Það voru mér mikil vonbrigði að sjá að aðeins eitt hús á Landspítalalóðinni var sýnt, en það er sjúkrahótelið sem á að taka í notkun síðar á þessu ári.

Ekkert annað.

Ég hugsaði „Hvað er í gangi?“

Það er mér algerlega óskiljanlegt að forsvarsmenn spítalans og skipulagsmála í borginni skuli leyfa sér að opna sýningu af þessum gæðaflokki og þessari stærðargráðu án þess að gera rækilega grein fyrir Landspítalaáformunum. Langstærsta og mikilvægasta málinu á svæðinu, sem ætti að vera kynnt á sýningunni, er sleppt.  Landspítalinn er og hefur verið umdeildasta skipulagsmál borgarinnar í meira en áratug.

Þetta getur ekki kallast annað en þöggun,- sem er ein útgáfa af lygi eins og við þekkjum.

Það hefur lengi legið fyrir grunur um að aðstandendur framkvæmdarinnar hafa ekki treyst sér í málefnalega umræðu um skipulagið.  Þeir virðast hafa gripið til þöggunnar og takmarkað upplýsingaflæði vegna fyrirætlananna. Það hafa ekki verið kynntar lifandi tölvumyndir sem sýna húsin í tengslum við umhverfið og þeirra á milli. Ég fékk upplýsingar um það í morgun frá forsvarsmönnum spítalans að þær væru ekki til!

Já, að þær væru ekki til.

Þessu á ég erfitt með að trúa vegna þess að menn gera slíkar myndir af öllum meiriháttar húsum í dag. Mín teiknistofa gerði svona myndir af litlum skólatetrum fyrir 17 árum. Oftast til þess að við fagmennirnir gætum glöggvað okkur á verkinu og hinsvegar til þess að upplýsa verkkaupa og grenndarsamfélagið, almenning. Maður sér svona myndir frá einkaðailum í dag. Svona myndir eru til sýnis á Hönnunarmars. En ekkert er til af umfangsmestu og dýrustu framkvæmd hins opinbera síðan landið byggðist! Ég trúi ekki að slíkt myndband sé ekki til vegna þess að ég tel fullvíst og hef heimild fyrir því að líkan af húsinu í mælikvarðanum 1:200 hafi verið smíðað en það er ekki sýnt í Ráðhúsinu. Því er haldið leyndu ef ég skil rétt.

Það er ekki hægt að túlka þetta öðruvísi en svo að það sé einhver þöggun í gangi varðandi alla þessa framkvæmd.

Alvarlega þenkjandi aðgerðarsinnar, sem hafa í sínum röðum fjölda sérfræðinga á öllum sviðum, hafa farið fram á að gerð verði fagleg og óháð staðarvalsgreining vegna staðsetningar spítalans. Þessi ósk hefur verið vel rökstudd en mætt fálæti hjá oddvitum skipulagsins og spítalans í ein 8 ár.  Getur það verið vegna þess að niðurstaðan þolir að þeirra mati ekki dagsljósið og umræðuna? Óttast menn að þá muni allir sjá að hugmyndin er vond? Er það þessvegna sem hún er ekki með á sýningunni? Eru menn of hræddir við að horfast í augu við skynsemina og hætta við framkvæmdina á þessum stað og byrja uppá nýtt á betri stað?

Vilja þeir ekki að almenningur fái að leggja mat á framkvæmdina útfrá líkönum?

Þetta er að mínu mati óásættanlegt. Hneyksli.

Maður spyr sig: „Hvað er í gangi?“

+++++

25.03.2017. kl.9:10 viðbót: Málsmetandi maður upplýsti síðuhaldara að líkan af meðferðarkjarna spítalans yrði sett upp á sýningunni eftir nokkrar vikur. En þess ber að geta að þetta er engin afsökun  fyrir því að spítalinn og spítalalóðin er ekki sýnd á sýningunni frá fyrsta degi. Það er liðinn hálfur árarugur síðan fyrir lágu allar grunnmyndir, sneiðingar og útlit af þessum húsim. Líklegt er að líkan af þeim sé að finna einhversstaðar í fórum aðstandenda verkefnisins. Ekki er hægt að túlka þetta öðruvísi en fram kemur í pistlinum. Þarna er verið að leyna fólki upplýsingum sem liggja þegar fyrir.

 

Hér er nettileg viðbygging við Listasafn Einars Jónssonar, Hnitbjörg.

Hið rómaða Marshallhús úti á Granda sem opnað var fyrir viku. Sérlega fallegt líkan af stórkostlegu húsi.

Hið umdeilda Hafnartorg er nú sýnt í fyrsta sinn opinberlega. Að baki Hafnartorgs sést í fyrirhugað lúxushótel.

 

Fíngerð uppbygging við Naustareit og nýbygging í Tryggvagötu til vinstri

Marriot Hótelið við Austurbakka – Hafnartorg í baksýn

Rússneska Rétttrúnaðarkirkjan við Mýrargötu

Hér er myndin efst í færslunni sýnd aftur. Þarna eiga að rísa langþráðustu byggingar landsins, „Þjóðarsjúkrahúsið“ og um leið þær umdeildustu. Deiliskipulagið var samþykkt fyrir um 7 árum. Aðstandendur virðast ekki þora að sýna líkan af þeim miklu byggingum sem þarna er fyrirhugað að byggja. Sennilega tæpir 300 þúsund fermetrar bygginga þegar Landspítalalóðin er fullbyggð!.

Flokkar: Óflokkað

«
»

Ummæli (16)

  • Steingrímur

    Hvers vegna er ekkert fjallað um þetta í fjölmiðlum? Þetta er eitt það hrokafyllsta og grófasta sem ég hef upplifað. Að fela spítalann fyrir borgarbúum með fullum ásetningi og segja að hann komi „seinna“ gengur bara ekki!

  • Guðrún Gunnarsdóttir

    Það er sorglegt að upplifa þessa leynd. Sérstaklega í ljósi upplýsinga um leyndina vegna sölu Búnaðarbankans. Ætla menn aldrei að læra neitt af reynslunni?

  • Full ástæða er til þess að færa inná þennan vettvang skrif Andra Geirs Arinbjarnarsonar „Reykjavík er fullbyggð“.
    Niðurstaða hans um þróun mála í Reykjavík vestan Elliðaáa er þessi: „Framtíð höfuðborgarsvæðisins liggur fyrir utan Reykjavík. Þetta ættu menn að hafa í huga þegar kemur að staðsetningu á nýju sjúkrahúsi“.

  • Tek undir með Vilhjálmi Ara og Katli.

    Í framtíðinni sé ég fyrir mér gífurlegt umferðaröngþveiti og glundroða vegna Landsspítalans við Hringbraut. Nógu slæmt er nú ástandið í dag.

    Vesturgatan virðist nú vera á góðri leið að hljóta sömu örlög og Lindargata. Það á semsagt að múra hana inni , bak við háhýsi. Ætli verktakarnir sem rifu „óvart“ Exeter-húsið við Tryggvagötu sleppi ekki með áminningu. Alveg lygilegt hversu billega menn sleppa frá svona löguðu á Íslandi.

  • Því miður er staðsetningarmálið tapað þrátt fyrir að gagnrýnin sé faglega unnin. Sigurinn mun vinnast með þöggun Hrinbrautarfólksins. Jafn ógeðslegt sem það nú er. Svo þegar upp er staðið og allt í klúðri er það engum um að kenna. Nákvæmlega eins og með Landeyjahöfn og Vaðlaheiðagöng!
    Sorglegur þvergirðingháttur stjórnsýslunnar er opinberaður hér.

  • Hilmar Þór

    Það er rétt að upplýsa að málsmetandi maður hefur upplýst að líkan af meðferðarkjarna Landspítalans muni verða sett upp á sýningunni eftir nokkrar vikur.

  • Þórður

    Þessi sýning markar upphaf kosningabaráttunnar og er snyrtilega falin í menningarviðburðinum Hönnunarmars. Þetta spítalamàl verður ekki auðvelt. Þarns verða sprengingar og læti síðustu mánuðina í kosningabaráttunni.

  • Sigrún Gunnarsdóttir

    Þetta er mjög upplýsandi sýning sem gaman var að skoða í dag. Tók ekki eftir að spítalann vantaði.. En ég saknaði spítalans um leið og ég sá þessa færslu. Enn ekki meðan ég var á sýningunni. Eru þetta ekki bara mistök sem hægt er að lagfæra?

  • Degi borgarstjóra er vorkunn. Rúmt ár í sveitarstjórnarkosningar og fátt um fína drætti til þess að státa af. Hafin er endurvinnsla á kosningaloforðunum frá 2014 sem flest hafa verið svikin á yfirstandandi kjörtímabili, hugmyndasamkeppni sett á flot um „hverfið mitt“ og einstaka láta fallerast og leggja til bjórgarð, parísarhjól og hjólabát. Þeir hinir sömu ættu að vita af fyrri reynslu, að fæstar hugmyndirnar komast í framkvæmd. Liður í vel hannaðri atburðarás fram að næstu kosningum er sýning í Ráðhúsinu þar sem kynnt er með líkönum uppbygging í miðborginni. Slétt og fellt en líkan af fyrirhuguðum Landspítala gleymdist. Þjónaði greinilega ekki markmiðum borgarstjórans að sýna þann óskapnað.En borgarstjóri þarf ekki að örvænta þó hann og meirihluti borgarstjórnar hafi allt niðrum sig. Hann er snjall í lýðskruminu og hefur fréttastofur RUV og Stöðvar 2 í vasanum. Brosið hans bræðir fréttamennina og þeir missa málið meðan hann lætur dæluna ganga. Hann er á þeim bæjum friðhelgur og þarf ekki að óttast frá samherjum sínum á fréttastofunum ónot, styggðaryrði eða gagnrýnar spurningar.
    Og nú er búið að loka með eðal skipulagi hagkvæmustu leiðum fyrirhugaðrar Sundabrautar og sú dýrasta stendur ein eftir. Það er svo sem víðar að finna skipulagsklúður og skort á framtíðarsýn. Hvar á tvöfaldaður Keflavíkurvegur að liggja í gegnum Hafnarfjörð, í Kópavog og til Reykjavíkur? Getur einhver svarað því?

    • Já því miður hefur borgin RÚV í vasanum og búið er að viðurkenna þar á bæ fyrir löngu með bréfi ritstjóra Kastljóss að ekki megi ræða byggingaáform LSH frekar (2015).

  • Jón Kaldal

    Vonandi bætast líkön af fyrirhuguðum Landspítalabyggingum þarna við sem fyrst. Sérstakt að þau vanti.
    Annað mál. Ég veit ekki hvort Vilhjámur Ari býr í miðbænum. Sjálfur hef ég búið þar frá 1991 (við Suðurgötu, Garðastræti og Njálsgötu) og deili ekki sýn hans á svæðið. Uppbyggingin sem er í gangi er ekkert minna en mögnuð. Það er ótrúlegt líf í bænum. Og það stefnir í að verða enn betra.

  • Sigurður

    Af hverju láta menn svona í okkar opna samfélagi?

  • Borgin virðist svo uppfull að reyna að sanna eigið ágæti með skrautsýningu á framtíðardraumum og þegar hún er með allt niðrum sig í skipulagsmálum. Öll hótel og troðningur á alla lausa reiti í miðborginni hefur og er að flæma íbúana úr miðborginni þegar í dag og svo á bara að halda áfram eins og ekkert sé. Mesta skömmin er auðvitað skipulagsmálin á Hringbrautarlóðinni með heftum aðgangi sjúklinga, sjúkraflutninga og starfsmanna um ókomna framtíð fyrir óheyrilegan auka kostnaði fyrir heilbrigðiskerfið þegar upp verður staðið og mistök aldarinnar öllum lifandi ljós.

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af sjö og einum? Svar:

Höfundur

Hilmar Þór Björnsson arkitekt
Tilgangur síðunnar er að kynna arkitektúr, skipulag og staðarprýði ásamt því að stuðla að umræðu um efnið. Það sem fram kemur ber ekki að skilja sem skoðun höfundar heldur hugleiðingu sem sett er fram í þeim tilgangi að vekja lesendur til umhugsunar og skoðanaskipta. Tekið er á móti aðsendum greinum þegar það á við, sem þá eru á ábyrgð höfundar aðsends efnis.
Athugasemdir við færslur eru velkomnar. Þeir sem vilja koma skilaboðum til ábyrgðarmanns beint er bent á netfangið hilmarstofunni@gmail.com
RSS straumur: RSS straumur

Færslusafn