Föstudagur 01.06.2012 - 12:16 - 12 ummæli

Nýbygging Glitnis við Kirkjusand

Um þessar mundir eru liðin 6 ár frá því auglýst var arkitektasamkeppni um nýjar höfuðstöðvar Glitnis banka. Samkeppnin var í tveim þrepum og skiðluðu 42 þáttakendur inn tillögum að byggingum sem áttu að vera um 90 þúsund fermetrar þar sem um 10 %  var íbúðahúsnæði.

Það er gaman að rifja þetta upp núna og staðsetja sig í góðæri byggingariðnaðarinns eitt augnablik.

Það sem vakti alltaf furðu mína var ráðstöfun lóðarinnar sem var í eigu Strætisvagna Reykjavíkur. Ég skildi ekki af hverju henni var úthlutað til banka. Mér fannst þarna ætti að byggja hús á borð við Háskólann í Reykjavík, Listaháskólann, höfuðstöðvar Orkuveitu Reykjavíkur ásamt þéttri íbúðabyggð. En sú ósk min varð ekki að veruleika. Niðurstaðan er að við sitjum nú uppi með tvö skipulagsslys, ekkert húsnæði fyrir Listaháskólann og svo auða lóð á besta stað borgarinnar.

Hvernig ætli eignarhaldi lóðarinnar sé háttað?  Skilanefnd?  Erlendir kröfuhafar?

Færslunni fylgja myndir af fyrstuverðlaunatillögunni sem unin var af sænsku arkitektastofunni Monarken. Þetta er á margan hátt spennandi tillaga þó miklar efasemdir hafi verið á sínum tíma um hvort hugmyndin henti íslenskum vindum og reykvískum sólargangi.

 

Flokkar: Óflokkað

«
»

Ummæli (12)

  • Gunnar Gunnarsson

    Ótrúlega klikkuð niðurstaða!!!!!

  • Sammála Hödda. Troðið ofan í Nauthólsvík til óþæginda fyrir nemendur HR, ylstrandargesti, skokkara, göngufólk, hjólreiðamenn og alla aðra.

  • Engilbert

    Loftmyndin sýnir hvað þetta er frábær lóð og um leið hvað illa er farið með þessi gæði ef þarna yrði banki. Gaman væri ef hressir arkitektar, hugsjónaarkiteltar færu á fjöll i hálfan mánuð, legðust umdir feld og kæmu svo til byggða með nýja tæra skipulagssýn fyrir höfuðborgarsvæðið allt. Allir sem komið hafa að skipulagsmálum undanfarið eru pikkfastir í viðjum vanans þó þetta sé eflaust flest ágætis fólk.

  • Guðmundur

    Halldórg hefur kynnt sér málin. Reglugerðirnar nýju eru sem dauð hönd á alla sköpun og alla framför í byggingariðnaði.

  • Pétur Örn Björnsson

    Ég tek heils hugar undir þessi orð Þormóðs:

    „Þarf ekki einhver að axla ábyrgð á skipulagsmisstökum síðari ára. Flest af því fólki sem að málum kom er enn að störfum.“

    Á sama tíma er mest öll hin volaða arkitektastétt í lamasessi og kvíðakasti yfir nýrri byggingarreglugerð forræðishyggjumeistaranna, sem engum treysta til góðra verka, en gáiði að því … ergo sum, þá treysta færri og færri boðvaldi þeirra að ofan, enda eru þetta bara venjulegir kerfisliðar, en engir guðir, ef grannt er skoðað:-)

    Þegar gagnkvæmt traust ríkir ekki, þá dugar boðvaldið einungis til að níða skóinn undan samborgurunum. Það er svo klætt í búning fagurra orða. Það er í nafni heilagleika bírókratanna kallað „nýja“ Ísland en er hræsnisfyllsta útgáfa af „gamla“Íslandi sem hægt er að ímynda sér, sjálf múmínútgáfa skinhelginnar.

    En menn spyrja nú hvern annan í hljóðum … hefuðu lesið óskapnaðinn? … og svörin er flest þau sömu, nei ekki enn, því menn bíða leiðbeiningarita við leiðbeingingarritin um reglugerðina ógnarlöngu, sem líkist nú helst orðið ályktunum kaþólskra kirkjuskipana páfans á miðöldum, enda virðist nú stefnt að viðlíka ofur-veldi yfir-bírókrata. Þeir nota boðvald sitt til að reyna að drepa alla lifandi grósku hinna mörgu og smáu. Eigum við þá bara að beygja okkur í duftið og leggjast flatir fyrir ofur-veldi yfir-birókratanna, sjálfs embættismanna aðalsins, sem bera sjálfir aldrei ábyrgð á einu né neinu af þeirra eigin aumkvunarverðu verkum?

    Nei fjandakornið. Fremur vil ég þa aumur spyrja þess hvort við eigum ekki að mótmæla líkt og Lúther forðum og negla eitt stykki mótmælabréf, sem aumir þrælar, á bænhús hins ósjálbærasta af öllum ósjálfbærum valdhroka eftirlitsiðnaði seinni tíma?

    Æi, ég held að við vitum það öll, að þetta helvíti gengur ekki lengur og því best að vitna bara aftur í ljóð Davíðs Stefánssonar, skáldsins frá Fagraskógi:

    Það teygir sig vítt yfir bygðir og borg
    og bólgnar af skipulagshroka,
    en geigvænt er loftið af gjaldeyrissorg
    og grátt eins og Lundúnaþoka.
    En borgarinn fálmar sig bugaður inn
    og biður um rétt til að lifa,
    svo þjónninn, sem hímdi með hönd undir kinn,
    má hamast að reikna og skrifa.

    En þarna fær borgarinn skjal eftir skjal,
    sem skráð er gegn réttlátri borgun,
    og honum er vísað sal úr sal
    og sagt – að koma á morgun,
    og svona gengur það ár eftir ár,
    því altaf er nóg að skrifa,
    og altaf fær borgarinn skipulagsskrár
    og skilríki fyrir að lifa.

    Það lætur víst nærri, að þriðji hver þegn
    sé þjónn eða skrifstofugreifi,
    en flestum er starfið þó mikið um megn
    og margur fær siglingaleyfi.
    En borgarinn snýst þarna hring eftir hring
    og hlýðir í orði og verki,
    og loks þegar alt er þar komið í kring
    er klínt á hann – stimpilmerki.

    Að stofnunin eflist hvern einasta dag
    mun afkoma þegnanna sanna,
    og auðvitað reikna þeir ríkinu í hag
    sem ráðstafa lífi manna.
    En varla mun borgarinn blessa þau tákn,
    né bætur þeim skriftlærðu mæla,
    sem vilja að alt þetta blekiðjubákn
    sé bænahús – krjúpandi þræla.

  • Halldórg

    Þetta væri frábær staður fyrir þétta íbúðabyggð. Spurningin er bara hvort að þessi blessaða byggingarreglugerð eyðileggi ekki alla möguleika til þess, með háum hljóðvarnarmúrum og tilheyrandi aðgerðum, sem eyðileggja allt útsýni og skemmir ásýnd svona byggðar, eins og á íbúðablokkunum sem voru byggðar á þessu svæði, fyrir allmörgum árum.

  • HR var troðið ofaní Nauthólsvík til óþæginda fyrir langflesta nemendur.

  • En er nú ekki einmitt tími til kominn að við tökum mið af „íslenskum vindum og reykvískum sólargangi“ við hönnun bygginga í Reykjavík? Er það ekki einn af veikleikunum við Vatnsmýrarskipulagið til dæmis, að menn „gleyma“ að hugsa um skuggavarp og þess háttar?

  • Kristján / Snorri

    3 skipulagsslys því HR var troðið ofaní Nauthólsvík

  • Kristjan

    Nákvæmlega Þormóður. Hvað var þetta með HR og staðsetningu hans. Maður bara skilur þetta enganveginn. Hver stakk upp á þessu, hver vann að þessu og hver samþykkti þetta? og eins og þormóður segir, hver tekur ábyrgð á þessu bulli !

    Algjörlega eitt mesta rugl sem samþykkt hefur verið í skipulagsmálum á íslandi hingað til, við bíðum svo spennt eftir Háskólasjúkrahúsinu.

  • Þormóður

    Þetta eru glæsileg hús sem hefðu kallast skemmtilega á við Hörpu. En það var guðs náð að þetta fór ekki af stað. Veruleikafyrringin var alger þarna í aðdraganda hrunsins.

    Tek undir að þetta hefði verið kjörinn staður fyrir HR. Hvernig fóru menn að því að klúðra því máli. Ég spyr eins og Arna Mathiesen. Þarf ekki einhver að axla ábyrgð á skipulagsmisstökum síðari ára. Flest af því fólki sem að málum kom er enn að störfum.

  • Einar Jóhannsson

    Hefði þetta ekki líka getað verið kostur fyrir nýjan Landspítala. Umferðakerfið er í lagi. Húsin henta byggðamynstrinu og þarna mætti byggja 250 þúsund fermetra ef SS lóðin er tekin með ásamt eitthvað úr Leugarnesinu?

    Ég spyr bara svona.

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af fjórum og sex? Svar:

Höfundur

Hilmar Þór Björnsson arkitekt
Tilgangur síðunnar er að kynna arkitektúr, skipulag og staðarprýði ásamt því að stuðla að umræðu um efnið. Það sem fram kemur ber ekki að skilja sem skoðun höfundar heldur hugleiðingu sem sett er fram í þeim tilgangi að vekja lesendur til umhugsunar og skoðanaskipta. Tekið er á móti aðsendum greinum þegar það á við, sem þá eru á ábyrgð höfundar aðsends efnis.
Athugasemdir við færslur eru velkomnar. Þeir sem vilja koma skilaboðum til ábyrgðarmanns beint er bent á netfangið hilmarstofunni@gmail.com
RSS straumur: RSS straumur

Færslusafn