Mánudagur 05.10.2009 - 10:34 - 23 ummæli

Nýbyggingar á Bifröst.

Eitthvert fegursta skólastæði á Íslandi er Bifröst. Þar er gríðarlega gott tækifæri til þess að skapa akademiskt umhverfi í náinni snertingu við náttúruna þar sem hún er fegurst. Þarna er skjólgott, gróðursælt, víðsýnt, stórbrotið og fíngert umhverfi, allt í senn.

 

Í fullu samræmi við þetta hvíldu fíngerðar byggingarnar í landslaginu þar sem bygging eftir Sigvalda Thordarson arkitekt, “Kringlan”,  stóð fremst sem ímynd og tákn staðarins og skólastarfsins í um 60 ár.

 

 

Húsaþyrpingin einkenndist af smágerðum fjölbreytileika sem var í fallegu samhengi við stórbrotinn fjallahring. Lítillátar byggingarnar sem þarna voru, hvíldu í landslaginu, hógværar og kurteisar gagnvart umhverfinu og þeim sem leið áttu hjá. Hæð bygginganna og bilið milli þeirra var í góðu samræmi og í sátt við umhverfið.  Þarna blasti við lítið mennta- og þekkingarþorp. Aðalbyggingin stóð fremst, hélt byggðinni saman og einkenndi hana.

 

Litirnir voru vel valdir hvort sem  þangað var litið að vetri til eða sumri. Þökin rauð og veggirnir gulir og hvítir.

 

Þetta er ekki svona lengur. Búið er breyta þessu og einhverjir framtakssamir menn hafa byggt fyrir þessa ásýnd og stillt upp húsum sem eru úr öllu samhengi við eldri byggingarnar og umhverfið. Þessar nýbyggingar eru gráar og fjöldaframleiðslulegar. Þær kallast ekki á við það sem fyrir er og gildir þá einu hvort er átt við eldri byggingar eða landslag.

 

Það er að mörgu að hyggja ef vel á að byggja, Allir þurfa að ganga í takt, stjórnmálamenn, höfundar deiliskipulags, höfundur húsanna, verkfræðingar, verktakar, landslagsarkitektar og ekki síst verkkaupinn. Engin keðja er sterkari en veikasti hlekkurinn.

 

Það þarf að fara varlega á þessu svæði, vanda alla skipulagsvinnu og húsahönnun eins og frekast er unnt.

Í eldri hluta byggðarinnar er að finna lágreist hús sem mynda vinaleg rými milli húsanna. Þetta er skipulagt sem göngusvæði líkt og bandaríska “CAMPUS” hugmyndin gerir ráð fyrir og einkabílum bolað út úr byggðinni. Húsin eru teiknuð af Þórarni Þórarinssyni og Agli Guðmundssyni arkitektum. Nostrað er við landmótun og frágang milli húsanna.

 

 

Nýbygging sem virðist hvorki vera í sátt við landslagið né þær byggingar sem fyrir eru. Spurningin, sem leitar á mann er, hvort hægt sé að mennta fólk í svona umhverfi?  Hvaða áhrif hefur umhverfið á þroska og tilfinningu fyrir samhengi hins mótaða og ómótaða umhverfis á þá sem þarna dvelja? Þetta er auðvitað sígild spurning og svo hin spurningin, Hvort er hér um  að ræða “skemmtilega fjölbreytni” eða  “sjónræn mistök “?.

Flokkar: Óflokkað

«
»

Ummæli (23)

  • Gudrún Helga Árnadóttir

    Ég reyni að horfa á það fallega þegar ég lít út um stofugluggann hjá mér hér uppi á Bifröst. Haustlitirnir eru búnir að skarta sínu fegursta og ef horft er lengra er Skessuhornið og Hafnarfjallið í allri sinni fegurð. Það eina sem gefur mér sting í hjartað er þessi skelfing hér sem ég gat ekki með nokkru móti skilið hvernig nokkrum manni datt þetta í hug. Sérstaklega í ljósi þess að ÚTSÝNIÐ FRÁ GÖMLU KRINGLUNNI ER FRIÐAÐ.

    Mér dettur alltaf í hug þegar ég bjó í Venezuela og keyrði í gegnum fátækrahverfin… það vantar bara nokkrar hangandi flíkur út um gluggana.

    Það var ekki fyrr en að ég sá loftmynd af Bifröst að ég áttaði mig á því hvað arkitektarnir voru að hugsa… þetta smellpassaði í það óbyggða land sem eftir var á kortinu… og það er eins og svo oft… að hlutirnir líta svo vel út á teikniborðinu.

    Önnur eins náttúruspjöll man ég ekki eftir að hafa séð.

  • Hefurðu séð nýja skólann á Stokkseyri?

  • Þetta voru orð í tíma töluð Hilmar. Mistökin sjá allir, líka þeir sem stóðu fyrir þessari framkvæmd vænti ég. En það er hægt að lagfæra þetta með niðurrifi aðeinhverju eða öllu leyti. Etv er ekki rétti tímin til þess akkúrat núna en um að gera að vinna nýtt deiliskipulag með það í huga.

  • Ágústa Kristófersdótttir

    Sæll – ég sendi þér hér hluta athugasemdar vegna þessa húss sem birtist í Lesbókinni í fyrra: Hús gamla Samvinnuskólans á Bifröst hafa staðið við þjóðveginn í hartnær 55 ár og með tímanum orðið eitt helsta manngerða kennileiti svæðisins.Í hlýjum gulum og rauðum litum hafa húsin blasað við vegfarendum og minnt á glæsilegt
    býli eða skandinavíska rómantík. Arkitektarnir Sigvaldi Thordarson, Gísli Halldórsson og Skúli Nordal sköpuðu húsakost sem ekki einungis þjónaði starfseminni heldur skapaði ímynd staðarins, greiptist í huga þeirra sem áttu leið hjá, gistu á sumarhótelinu eða sóttu nám við
    skólann. Uppbygging á staðnum varð í skjóli þessara bygginga sem sköpuðu ásýnd staðarins. Skólastjórabústaður, íþróttahús og kennarabústaðir risu án þess að skyggja á þær.
    Eftir umfangsmiklar breytingar á starfseminni var farið í frekari uppbyggingu undir lok síðustu aldar. Nemendaíbúðir risu sem vísuðu á skemmtilegan og allt að því barnslegan hátt í hús þeirra Sigvalda, Gísla og Skúla. Torg og stígar urðu til og lítið þorp myndaðist.
    Í að minnsta kosti árlegum gönguferðum um staðinn síðastliðinn áratug hef ég fylgst með þorpinu vaxa og dafna, nemendabústaðir af ýmsum stærðum og gerðum ásamt barnaheimili hafa þétt þyrpinguna. Viðbygging við skólahúsið sætti nokkrum tíðindum en í kjölfar samkeppni var reist bygging eftir teikningum Studio-Granda. Vel heppnað hús sem reis í skjóli gömlu skólabygginganna.
    Á allra síðustu árum virðist sem eitthvað hafi farið úrskeiðis í skipulagi og húsbyggingum á Bifröst. Hús hafa risið sem lokað hafa á flæði gangandi umferðar og þrengja mikið að staðnum. En steininn tók úr þegar mikil bygging reis vestan við gömlu skólahúsin, skyggði á þau og rauf samhengi bygginga á staðnum. Hvítur og brúnn kassi felur nú söguna fyrir vegfarendum og þar sem áður tók á móti gestum dreifbýlisbyggingarlist í sólbjörtum litum mætir nú blokk sem gæti verið í hvaða úthverfi sem er. Það er sorglegt að staður þar sem vandað hafði verið til verka í skiplagi skuli með þessum hætti hafa orðið góðærinu að bráð.

  • Bifröst sem skólasetur er óhentugt. Þarna er verið að eyðileggja fallega náttúru.
    Það hefði verið mun heppilegra skólastæði að Varmalandi eða Hvanneyri.

  • Hörður Halldórsson

    Í efra Breiðholti voru byggðar örfár austantjaldsblokkir meðal annars „kínamúr“ það er blokkin var sett í lengju til að spara útveggi og byggingakrana.Þetta hefur komið stimpil á annars fallegt hverfi ,með smá aukakostnaði hefði mátt gera þetta örðuvísi.Í raun þá hefur stimpillinn lent á öllu Breiðholtinu sem er mjög gott hverfi eins og til dæmis neðri hluti Seljahverfis sem er eitt af fallegustu hverfum borgarinnar

  • ´´ bý í Breiðholtinu

  • Helgi Hallgrímsson

    Tek undir þetta. Burtséð frá útliti byggingarinnar (sem er frekar kuldalegt og óspennandi að mínu mati) þá er mælikvarðinn kolrangur. Blokkin eftir Studio Granda (þessi með bárukoparklæðningunni) sem er á svæðinu líka er í sjálfu sér fínn arkitektúr, en á kolröngum stað. Einhvern veginn finnst mér að blokkir fari mjög illa í íslenskri náttúru, kannski vegna þess hve gróðurinn er lágur.
    Þetta er lykilatriði að mínu mati. Ef mælikvarðinn er of stór þá getur útkoman ekki orðið góð, sama hversu vönduð byggingin er að öðru leyti.

  • Leópold Kristjánsson

    átti að vera „…þessu svæði öllu saman…“

  • Leópold Kristjánsson

    Ég ber mikla virðingu fyrir þessu svæði og öllu saman og þekki marga sem þarna búa – bæði nemendur og fólk úr sveitinni í kring. Mér þykir því afar leiðinlegt að sjá þessar myndir.

  • Sigríður Stefánsdóttir

    Innilega sammála. Trúði ekki mínum eigin augum þegar ég var á leið norður í land og við blöstu þessi ósköp. Virðingarleysið fyrir gömlu fallegu byggingunni og umhverfinu algjört.
    Hvaða skipulags- og byggingaryfirvöld gáfu heimild fyrir þessu??

  • Bjarni Ing.

    Þetta minnir á byggingar frá Hitlerstímanum í austur-þýskalandi og rússablokkirnar sem eru víða í borgum fyrrum Sovétlýðvelda. Spurning hver sé höfundur að þessu og hverjir beri ábyrgðina. Bygginganefnd sveitarfélagsins hefur allavega hleypt þessu í gegn sem er óskiljanlegt.

  • Ólafur Gunnar

    Innilega sammál, Við fjölskyldan keyrum þarna framhjánokkrum sinnum árlega og erum við þeirrar skoðunar að þetta er algjört umhverfisslys. þessar byggigar ætti að rífa tafarlaust og ákæra abyrgðarmenn fyrir umhvefisspjöll. þetta er með fallegri svæðum landsins og ber mönnum að vanda til verks.

  • Gísli Sig.

    Ég get ekki annað en tekið undir áðurrituð orð. Ég var búsettur þarna er þessi viðbjóður var að rísa og það er mín skoðun að þetta sé öllu svæðinu til mikilla lýta. Ég skil ekki hvernig byggingarfulltrúi Borgarbyggðar gat réttlætt þessa byggingu eða þá Hamragarða, sem risu 2-3 árum áður og gefið fyrir þeim leyfi.

  • Kári Lárusson

    Sæll Hilmar Þór

    Beztu þakkir fyrir þennan góða pistil. Ég fylgdist með byggingu hússins sem stendur þarna næst þjóðveginum, þegar ég átti leið þarna um á ferðum mínum til höfuðborgarinnar. Ég sagði stundum við konuna að þetta yrði átjan bala hús. Það myndi hvorki halda vatni né vindi. Þetta er ömurleg bygging í alla staði og gríðarlegt lýti á þessum fallega stað. Eina lausnin er að rífa þessar byggingu. Þvílik skipulagsmistök og fúsk við hönnun og smíði á einu húsi.

  • Hörður Halldórsson

    Hvítflibbafangelsi og Háskóli ,getur það ekki farið saman ?

  • Hvílíkt og annað eins.
    Minnir á „Trailerpark“ eða gámahúsnæði sem byggð eru í neyð fyrir pólitíska flóttamenn.

    Það er bara til eitt orð sem lýsir þessu: Fátækt.

  • jón jónsson

    Kannski er ástæðu bankahrunsins að finna í þessu umhverfi. Alls staðar vildum vér Wall street hafa..

  • Bifrastarbullið

    Ekki bara sjónræn mistök, heldur alger mistök.

    Húsið er ónýtt frá A-Ö.

    Égþekki fólk sem bjó þarna, húsið heldur hvorki vatni né vindi og miðstöðin gölluð líka (húsið hitnar ekki), allt umhverfi ófrágengið og drullusvaðið yfir allt.

    Þau flúðu, og neituðu að borga uppsetta leigu, enda myndi listinn yfir vanefndir duga í heila bók. (og ekkert deilt um þær vanefndir)

    Þeim hefur nú verið stefnt, og kostaði brefið litlar 78þúsund krónur.

    Á sama tíma les ég í fréttum að Bifröst borgi sjálft ekki leigu og standi í málaferlum við eiganda hússins.

    Ekki skrítið að skólinn sé í frjálsu falli og aðsóknin dottin niður úr öllu.

  • Árni Ólafsson

    Þarna hefur öll umhverfismótun verið í hraðri afturför. Andstætt huggulegu umhverfi nýbygginga þeirra Egils og Þórarins ganga nýrri íbúðarhús freklega gegn landinu og hrauninu með umfangsmiklum akbrautum og bílastæðum. Tískukenndur tímaritaarkitektúr nýjustu bygginganna er að mínu mati óviðeigandi á þessum stað og í þessu samhengi sem þú lýsir. Vegna skorts á samhengi við umhverfi og aðra byggð geta þessi hús vart talist góður arkitektúr hvað sem öllum verðlaunum líður.
    Með nýjum og endurbættum vegi fram hjá Bifröst er auðveldara en áður að aka með lokuð augun fram hjá þorpinu!

  • Jóhannes B.

    Í mínum huga er þessi nýbygginging skipulagslegt stórslys sem á að rífa þegar í stað. Mínar heimildir herma að stór hluti hennar haldi hvorki vatni né vindi.
    Þegar byrjað var að undirbúa nýbyggingar á svæðinu um og eftir 1990 var sett sem algert skilyrði að byggingarnar féllu að þeim húsum sem fyrir voru á svæðinu og þær skemmdu ekki heildaryfirbragð svæðisins. Einhver önnur sjónarmið náðu völdum þegar fram leið og menn hafa gjörsamlega misst sig í vitleysunni.
    Það er synd að þurfa að segja frá því, eftir að hafa eytt 6 árum ævi sinnar á þessum yndislega stað, að nú þurfi maður að loka augunum í hvert skipti sem maður á leið þarna um.

  • Garðar Garðarsson

    Afsakið átti að vera „horfa á gámahrúgu“.

  • Garðar Garðarsson

    Þetta er heldur betur réttmæt gagnrýni á þessa nýbyggingu sem því miður er orðin frontur byggðarinnar þegar komið er að sunnan. Ég horfi á þessi ósköp frá sumarbústað mínum sem er í beinni línu hinum megin í dalnum austan við Norðurá. Það er eins og að horfa á gámhrúgu í hrauninu sem stingur mjög í augu.

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af átta og einum? Svar:

Höfundur

Hilmar Þór Björnsson arkitekt
Tilgangur síðunnar er að kynna arkitektúr, skipulag og staðarprýði ásamt því að stuðla að umræðu um efnið. Það sem fram kemur ber ekki að skilja sem skoðun höfundar heldur hugleiðingu sem sett er fram í þeim tilgangi að vekja lesendur til umhugsunar og skoðanaskipta. Tekið er á móti aðsendum greinum þegar það á við, sem þá eru á ábyrgð höfundar aðsends efnis.
Athugasemdir við færslur eru velkomnar. Þeir sem vilja koma skilaboðum til ábyrgðarmanns beint er bent á netfangið hilmarstofunni@gmail.com
RSS straumur: RSS straumur

Færslusafn