Sigurður Thoroddsen arkitekt hefur sent síðunni eftirfarandi grein sem á mikið erindi í umræðu líðandi stundar um byggingarmál Alþingis.
Þetta er yfirveguð og málefnaleg grein sem skrifuð er af þekkingu og er laus við gífuryrði og sleggjudóma sem einkennt hefur umræðuna um þessar umdeildu hugmyndir Efst í færslunni er mynd sem margir þekkja en hefur hér verið breytt í tilefni áramóta. Neðst er ljósmynd af húsum við Aðalstræti sem nefnd eru stuttlega í greininni :
Nýjar skrifstofur Alþingis
Kynntar hafa verið frumhugmyndir að nýjum skrifstofum og fundaaðstöðu fyrir Alþingi á horni Vonarstrætis og Tjarnargötu í Kvosinni í Reykjavík. Um yrði að ræða þriggja hæða 4500 m2 skrifstofubyggingu, ásamt rishæð og 750 m2 bílakjallara. Frumdrögin sem eru í síð– klassískum stíl/klassískum endurreisnarstíl sem var algengur víða um Evrópu í lok 19. aldar og byrjun þeirrar tuttugustu. Þessi byggingarstíll var einnig algengur á Norðurlöndum, einkum opinberum byggingum og stærri íbúðarhúsum.
Víða erlendis einkum í Vestur-Evrópu eru aldagamlar borgir og bæjarhlutar sem margar hverjar hafa verið endurreistar nánast óbreyttar eftir styrjaldarátök. Önnur dæmi er að finna á Norðurlöndum í eldri bæjum, þar sem gera hefur þurft breytingar á gamalli verðmætri byggð eða reisa viðbyggingar vegna nýrrar notkunar, að ávalt verið tekin mið af því sem fyrir er. Dæmin eru fjölmörg og ekki möguleiki, í stuttir grein, að tíunda það.
Upphaf byggðar í Reykjavík er á svæði sem afmarkast af höfninni til norðurs og Tjörninni sunnan megin, Suðurgötu að vestan og Þingholtunum að austan, eða gamla verslunarlóðin frá 1786. Nú er svæðið í daglegu tali nefnt Kvosin, þannig að forsagan er um 230 ára. Byggðaþróun fyrir alvöru, hófst hinsvegar ekki fyrr en eftir miðja 19. öld.
Skiptar skoðanir hafa verið form og útlit nýbygginga í Kvosinni, og byggingar sem þar hafa reistar, í mörgum tilfellum einungis tekið mið af þeim stefnum og straumum í byggingarlist sem uppi voru á hverjum tíma, án tillits til umhverfisins og eru nokkur dæmi um að slæma hönnun á svæðinu. Miklu vandasamra er á að hanna byggingar í þegar byggðu hverfi en nýju. Í fyrra tilfellinu þarf, að taka tillit til hagsmunaaðila og þeirrar byggðar sem fyrir er, en meira frjálsræði er yfirleitt í síðara tilfellinu.
Vandinn er sá, að á eldri svæðum hafa byggingar risið á löngum tíma og á þetta sannarlega við umrætt svæði. Á síðustu árum og áratugum hafa risið þar byggingar eða viðbyggingar sem ekki bera nægjanlega virðingu fyrir þeim sem fyrir eru. En einnig hafa risið þar byggingar sem sómi er að, bæði í sögulegu og byggingarlistarlegu tilliti. Prýðileg dæmi um þetta eru byggingar vestan Aðalstrætis og á horni Lækjargötu og Austurstrætis. Einnig tilteknar byggingar í Grófinni.
Spurningin er, hvaða viðmið eigi gilda, þegar byggingar eru reistar innan elstu byggðar landsins. Eiga nýbyggingar á svæðinu að vera klæddar gleri, stáli, áli eða vera steinsteypt kassalöguð grámuskuleg hús með flötum þökum ? Ég tel að ekki séu neinar fastmótaðar reglur um hvernig byggja skuli á svæði sem þessu. Aðalatriðið er að nýbyggingar falli að þeirri byggð sem fyrir er, og að virðing sé borin fyrir fyrir þessu sögulega svæði og þeim byggingum sem fyrir eru.
Ég álít að fyrirhuguð skrifstofubygging Alþingis á horni Vonarstrætis og Tjarnargötu , samkv. þeim frumdrögum sem kynnt hafa verið, falli vel að yfirbragði byggðar í Kosinni í Reykjavík. En að sjálfsögðu þarf að endurhanna innra fyrirkomulag, þannig að byggingin henti kröfum nútímans.
Sigurður Thoroddsen
arkitekt
Sjá einnig : http://blog.dv.is/arkitektur/2009/11/27/svona-a-ad-byggja-i-101/
Fyrir nokkrum árum hélt Sigmundur Davíð Gunnlaugsson fyrirlestra um verkefni/rannsókn, sem hann hafði unnið í námi sínu. Ég fór á fyrirlestur þar sem hann greindi frá niðurstöðum eða ályktunum, sem hann dró af rannsóknum sínum. Það sem var sérstaklega athyglisvert var hve umhverfisgæði miðborgar eða miðbæjar virtust skipta miklu máli fyrir heildina – þ.e. góður (oft gamall og menningartengdur) miðbær gat haldið borg með óhrjálegum úthverfum saman sem heild – en óhrjálegur eða ljótur miðbær hjálpaði lítið upp á í þeim efnum jafnvel þótt úthverfin væru vönduð og falleg (þetta er stutt og einfölduð útgáfa). Niðurstaðan var m.a. studd með dæmum um þá breytingu sem varð í bæjum þar sem módernískur miðbær, sem hróflað var upp úr stríðsrústunum eftir seinni heimstyrjöldina, var rifinn og þess í stað endurbyggðar þær byggingar og bæjarumhverfi sem eyðilagðist í stríðinu. Hinn sögulegi og menningartengdi miðbær, sem var endurreistur, hafði sem sagt góð áhrif á borgarheildina.
Nú brá svo við að fyrirlesarinn var kallaður til ráðgjafar hjá einhverjum sveitarfélögum. Þá virtist koma fram aðferð sem felst í því „að endurskapa það sem aldrei hefur verið til“ – þ.e. að „feika“ gamlan miðbæ til þess að bjarga ömurlegu bæjarumhverfi. Þarna þótti mér a.m.k. vera dregnar rangar ályktanir og valdar órökréttar leiðir út frá annars áhugaverðum og gagnlegum rannsóknum og niðurstöðum. Það er grundvallarmunur á að endurreisa sögulega byggingu eða sögulegt umhverfi, sem hefur skaðast eða skemmst af einhverjum sökum, og því að herma eftir menningu fyrri kynslóða án tengsla, sögulegs samhengis eða samræmis við menningu nútímans.
Að safna horfnum merkisbyggingum hvaðanæva af landinu og byggja eftirlíkingar þeirra í litlu sveitaþorpi er allt annars eðlis en endurheimt gamalla miðbæja sem eyðilögðust í stríðinu. Einnig það að safna saman öllum brunnum hótelum og timburstórhýsum á Akureyri og endurbyggja í miðbænum. Það finnst mér vera eitthvað í áttina að skemmtigörðum – eins konar Tívolíarkitektúr. Ég horfi á framkomnar hugmyndir um að nýta úrelta teikningu húsameistara ríkisins í því ljósi.
Er hjartanlega sammála Páli V. Bjarnasyni og hans afbragðs góða innleggi í þessa umræðu.
Þegar maður gengur um miðbæi í mörgum borgum og bæjum norður evrópu (og víðar), blasa við manni byggingar sem reistar voru fyrir 30-40 árum síðan. Þessar byggingar voru hannaðar með þau „hönnunar hugtök“ sem sumir tala fjálglega um hér að ofan og í anda og tísku þess tíma sem þær voru byggðar. Þessar byggingar eru oftast verstu lítin í þessum borgum og verða aldrei „klassík“ né minnisvarði um góðan arkitektúr. Reykjavík er gott dæmi um borg/bæ sem er stútfull af ljótum byggingum. Þar eru eldri byggingar sem bera af, eins og safnahúsið við Hverfisgötu og Alþingishúsið.
Það virðist sem íslenskir arkitektar geti ekki lært af mistökum forvera sinna og geti ekki í hroka sínum hannað falleg hús, sem passa í sitt nærumhverfi.
Það er nefnilega þannig að það er ekki nóg að vera arkitekt til að verða góður arkitekt, frekar en smiður verði sjálfkrafa góður smiður.
Ég set strax spurningarmerki við alla þessa umræðu. Ég hef kallað mig sérfræðing endurbyggingar gamalla húsa. Við sem höfum sinnt þessum geira í byggingarlist höfum þurft að taka á ýmsum verkefnum og „vandamálum“. Ég t.d. þurfti að endurbyggja Iðnó árið 1997 að innan nánast eftir gömlum ljósmyndum. Í dag er húsið mjög vinsælt landmark fyrir ýmis konar fundi og veislur. Ég get ekki staðfest að endurbyggingin sé nákvæm eftirlíking af upprunalegri hönnun. Árið 2005 var samþykkt erindi varðandi Aðalstræti 16 fyrir hótel. Þar fóru arkitektarnir verulega yfir markið! Þar voru hannaðar viðbyggingar við gamla húsið sem reyndar var uðpphaflega byggt sem eitt af húsum innréttinga um 1760. Arkitektarnir hönnuðu nýtt hornhús gegnt herkastalanum sem ekki var eftirlíking heldur minni af húsi sem þar stóð áður og hét Uppsalir. Hönnuðir gengu meira að segja svo langt að endurhanna framhliðina á Fjalakettinum sem ekki stóð á þessum stað, heldur norðar í götunni. Mér finnst það brilliant að fá að njóta ásýndar fjalakatarins þó að hann sé horfinn ásamt fyrsta bíóhúsi Evrópu. Það er byggingarlist.
Í dag er Icelandair hotels að byggja nýtt hótel við Hverfisgötu á sk. Hljómalindarreit. Það er byggt í minni sumra þeirra bygginga sem þar stóðu áður, en önnur bara í þeim stíl sem fellur að húsunum. Sum eru í gömlum stíl og önnur í nýjum. Þarna er blandað saman sveitserstíl og nútíma arkitektúr. Ég hef ekki heyrt neina umræðu, neikvæða né jákvæða um þessi verkefni sem þó eru í sjálfri miðborginni. Ég sé heldur engan eðlismun á að byggja skrifstofuhús Alþingis í minni byggingar eftir Guðjón Samúelsson. Sú bygging verður að sjálfsögðu aldrei hönnuð nákvæmlega eins og gamla teikningin af stúdentagarði Guðjóns. Hún mun verða minni um þá byggingu í besta falli. Þar að auki sýnist mér hún muni falla afskaplega vel að því umhverfi sem hún mun standa í, ólíkt ráðhúsi Reykjavíkur. Allt þetta fjaðrafok sýnist mér vera vegna þess að forsætisráðherra leggur þetta til en ekki einhver verktaki. Auðvitað á það ekki að skipta máli. Þessi bygging, ef hún verður byggð, mun lifa núverandi forsætisráðherra og okkar kynslóð í nokkrar aldir. Þetta er dæmigerð nýklassík eða klassík sem var við lýði um það leyti sem Guðjón var við nám. Ég vil minna á að klassíkin, sem ættuð er frá Forn-Grikkjum og Rómverjum hefur komið reglulega upp í byggingarlist allt frá tímum Forn-Grikkja.
p.s. ég myndi setja læk á færslu Kristins ef það væri hægt, tek undir hans ummæli.
Við skulum ekki stilla málum upp þannig að menn eru ósammála því að það sé sniðugt að byggja eftir 100 ára teikningu að þar með sé maður einhver hreintrúarmaður á „form follows function“. Mér finnst það satt að segja ekki koma málinu neitt við.
Ég er ekki hrifinn af hugmyndinni og enn hrifnari af þeirri stjórnsýslu að Forsætisráðherra sé að vasast í útliti bygginga. Hann má alveg hafa prívatskoðun á því eins og allir aðrir en hann á ekki að reyna að festa einhverja nálgun við hönnun á þessari byggingu í sessi.
Flest dæmi síðustu 25-30 ára um nýbyggingar á vegum opinberra aðila í miðbænum í kjölfar samkeppni heppnuðust vel (Ráðhúsið, hæstiréttur, Harpa, viðbygging alþingis). Höldum áfram á þeirri braut.
Þetta er fróðlegt allt saman.
En ég sem leikmaður er ekki óánægður með útspil ráðherrans og held að það geti opnað einhverja möguleika enda þegar vakið upp umræður.
Það er hið besta mál.
En spurning mín er: Hvernig er hægt að breyta íbúðahúsum í hótel eða skrifstofur án þess að breyta útlitinu um leið? Stenst það kenningasetningarnar um form og funktion? Er það í samræmi við byggingalistalegan réttrúnað að breyta innviðum án þess að breyta útliti húsa um leið? Spyr sá sem ekki veit.
Ýmislegt áhugavert sem kemur fram í þessari grein: http://kjarninn.is/skyring/2015-12-29-bygging-althingisreitnum-alfarid-forraedi-thingsins/
– „Í frumathuguninni er ekkert kveðið á um að taka skuli tillit til teikninga Guðjóns Samúelssonar.“
– „Forsætisráðuneytið kemur hvergi nærri þessu ferli, heldur er það fjármálaráðuneytið sem fer með framkvæmd laga og yfirstjórn opinberra framkvæmda.“
– „Næsta skref að lokinni frumathugun væri að ráðast í hönnunarsamkeppni, og Einar [K. Guðfinnsson] segir að í allri vinnu forsætisnefndar hafi verið gert ráð fyrir því að slík keppni yrði haldin.“
– „Spurður um það hvort það hafi komið til álita að skilyrða slíka keppni með einhverjum hætti þannig að taka þyrfti tillit til teikninga Guðjóns segir Einar að forsætisnefnd hafi ekki rætt það.“
Athyglisverð grein sem Guðni Valberg bendir hér á. En þar stendur ennfremur:
„Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra var einnig spurður um „áhugamál Sigmundar Davíðs“ í þættinum Sprengisandi á Bylgjunni fyrir jólin, og um byggingar á lóð þingsins. „Bygging Alþingis er á forræði þingsins og það á margt eftir að gerast áður en það hús rís. Eigum við ekki að segja að þetta sé skemmtilegt innlegg í þá umræðu, að hafa þetta með til hliðsjónar hvort þessar teikningar geti orðið að gagni,“ sagði hann um málið. Hann sagði aðalmálið að reisa nýja byggingu. Forsætisráðherra hefði komið með athyglisvert innlegg og frumkvæði með teikningu Guðjóns, en „það hefur ekki verið gefið grænt ljós á að það verði endanleg niðurstaða.“
Er þetta ferli ekki bara enn ein tilraunin til þess að hefja umræðu um Kvosina og byggingarlistina þar. Sigurður Thoroddsen arkitekt og málshefjandi er einmitt að benda á það í grein sinni og setja í sögulegt samhengi. Hann eins og fleiri vilja fordómalausa umræðu eins og hér á þessum vef hefur farið fram undanfarna daga.
AI hefur óskað eftir samtali o mér sýnist það þegar byrjað og er bæði uppbyggjandi og lausnamiðað ef ég skil þetta rétt.
Annars finnst mér þetta lítið rætt á vetvangi félagsins.
Ég hef lengi vitað að til væri „pólitískur rétttrúnaður“ og svo auðvitað „trúarlegur rétttrúnaður“
En í þessari umræðu er greinilegt að arkitektar og skósveinar þeirra eru haldnir „byggingalistarlegum rétttrúnaði“. Vitna í kennisetningar til hægri og vinstri eins og trúarofstækispostular gera þegar trúarbrögðin eru til umræðu.
Málið er einfalt. Ráðherrann setur fram hugmynd og hún fær stuðning þingsins, sem vel að merkja er fulltúalýðræði. Þing og þjóð lýst vel á þetta ef eitthvað samband er milli þings og þjóðar. Almenningi líst bara vel á.
Og hvað svo? Annað hvort verður þetta gert eða sérfræðingarnir, hinir rétttrúuðu koma með betri lausn.
Þessi niðurrif eru ekki málstað rétttrúaðra byggingalistarsinna til framdráttar.
Gefum þessum hugmyndum séns til frekari þróunnar.
Sennilega er þetta ekki rétt hjá þér Guðmundur, …en maður er samt huxi!
Já, Guðmundu G., maður er bara „huxi“ eins og sumir segja. Hér er margt áhugavert að skoða og ég held að „byggingarlistarlegur rétttrúnaður“ lendi bara í fanginu á þér. Það er hinsvegar áhugavert að þú setjir þetta í lýðræðislegt samhengi þar sem fulltrúar almennings í fagurfræðilegum efnum ráða ferð og það sé sjálfsagt mál að meirihlutinn á þingi felli fagurfræðilega dóma. Ef fagurfræði fer eftir flokkspólitískum línum, þætti mér fengur í að sjá hvernig þær liggja. Það er hinsvegar hin hliðin á lýðræðinu (og kannski málinu í heild) sem er áhugaverð – hvernig getur það birst í arkitektúrnum sjálfum. Í allri þessari umræðu held ég að best sé að hafa í huga til hvers húsið er hugsað – skrifstofur og fundaraðstaða Alþingis. Þetta er semsagt vinnustaður fulltrúa þjóðarinnar. Á þessu svæði er nær því öll stjórnsýsla ríkis og borgar og þær byggingar sem hýsa það vald eru allt frá því að vera hundrað og þrjátíu ára gamlar til þess að vera nánast nýjar (Alþingi sjálft á báðum endum á þeirri tímalínu). Horfi menn yfir sviðið er auðvelt að koma auga á þær breytingar sem orðið hafa í arkitektúrnum og þær helgast ekki aðeins af praktískum atriðum, heldur ekki síður af afstöðu samfélags og arkitekta til þessa valds og hvernig það birtist. Þetta útspil forsætisráðherra er ágætt dæmi um gamlar hugmyndir þar sem valdið er falið innan þykkra veggja og lítilla glerja. Andspænis þessu húsi er svo Ráðhús Reykjavíkur með göngugötu í gegnum sig, rennandi vatn og lífríki í beinum tengslum við borgarlífið. Ætla menn að láta sem svo að arkitektúr hafi ekkert með heimspekilegar hugmyndir eða lýðræði að gera og snúist bara um formfræði? Eða fagurfræði einhvers tímabundins meirihluta á þinginu! Opin stjórnsýsla og lýðræðislegt samfélag kallar á opna strúktúra, birtu, auðvelt aðgengi og sveigjanleika. Forsætisráðherra sér þetta ekki svona, það er auðsætt, enda er þetta hús hans ekki fulltrúi fyrir opna stjórnsýslu eða það torg sem opinberar byggingar eiga að vera að mínu mati. Hugmyndin er dauðadæmd og ber öll einkenni þess rétttrúnaðar sem þú kýst að draga inn í þessa annars hófstilltu umræðu. Ég get ekki komið auga á það að arkitektar séu samstilltur hópur eða sammála um nokkurn hlut, hvaðþá „skósveinar þeirra“. Það er sennilega þeirra gæfa og ógæfa og til að klára þetta einhversstaðar, þá er málið ekki einfalt, þó þú hafir tekið í því einfalda afstöðu.
Hér stendur ekki til að endurreisa hús í sömu eða svipaðri mynd og áður eins og á við um húsin við gatnamót Austurstrætis og Lækjargötu, Aðalstrætis og Túngötu eða nefnd erlend dæmi.
Þetta er teikning sem á sér enga fyrirmynd í húsi á þessum stað. Allar líkur eru á að Guðjón hefði á seinni hluta ævinnar ekki viljað að byggt væri skv henni enda varð hann fljótlega fráhverfur þessum stíl . Ég sé ekki betur en að hér sé verið að brjóta gegn höfundarrétti.
Ef tilgangurinn með því að nota þessa teikningu er að fella bygginguna að þeirri byggð sem fyrir er mistekst það að mínu mati. Næstu hús eru með allt öðru sniði, eins og glöggt má sjá á annarri ljósmyndinni sem fylgir greininni, Þau eru byggð áratugum seinna þegar allt önnur viðhorf voru ríkjandi.
Mér sýnist að þessar hugmyndir endurspegli fyrst og fremst að forsætisráðherra finnist einfaldlega gömul hús fallegri en ný. Gömul hús hafa oft meira aðdráttarafl en ný vegna þeirrar sögu sem þau geyma. Það á hins vegar ekki við um ný „gömul“ hús nema þau séu endurreist í fyrri mynd.
Hús eiga almennt að endurspegla þann tíma sem þau eru byggð á. Undantekningar eiga þó rétt á sér eins og td þegar verið er að endurreisa eldri hús. Ég sé hins vegar ekki að neitt réttlæti slíkt afturhvarf til fortíðar hér.
Það má vel hanna nútímaleg hús sem falla vel að eldri byggð þó að dæmi séu um að illa hafi tekist til sbr fyrirhugað hótel við Lækjargötu. Þar voru td skipulagsskilmálar þverbrotnir.
Gaman að fá líf í þessa umræðu. Margt gott komið fram hér.
Takk fyrir svar þitt Hilmar Þór, það var skemmtileg lesning. Húsið er
Wellington House Department of Health á Waterloo Road í London. Þarna er unnið með gamlan ramma jónískra súlna og fyllt inni í hann með nýrri virkni. Án þess að vita það með vissi leyfi ég mér að efast um að bæði gamalt og nýtt hafi risið á sama tíma, líkt og hugmyndir SDG gera ráð fyrir.
Ég er hjartanlega sammála Hermanni Ólafssyni hér að ofan. Það er beinlínis hættulegt að ráðafólk blandi sér í mál sem þessi og skeri burt eðlileg verkferli þegar byggja skal svona byggingu. Samkeppni er eina leiðin til að fá fram einhver arkitektónísk gæði og sú samkeppni ætti alls ekki að fara fram með það að formáli að halda útlitsteikningu Guðjóns Samúelssonar eins og hún var teiknuð fyrir 99 árum.
Andri Snær Magnason skrifaði afskaplega góða grein um málið á síðunni sinni:
http://www.andrisnaer.is/frettir/2015/12/ad-skreyta-sig-med-natthufum-langafanna/
Sælir, og gleðilegt ár.
Ég verð að segja að mér finnst þessi umræða vera á villugötum. Umræðan ætti að mínu mati ekki að snúast um ágæti þessarar hugmyndar SDG, heldur um hvernig sé best að bera sig að við hönnun opinbera bygginga. Ef þetta er það útlit húss sem talið er best þá ætti það að skila sér í vinningstillögu í hönnunarsamkeppni. Það einnig óheillavænlegt í víðum skilningi, að valdhafar hvers tíma ráðskist svo persónulega með fagleg málefni eins og í þessu tilfelli.
Það sem er einkennilegast í þessu máli er það að forsætisráðherra ákveði útlit opinberra bygginga. Í bókinni „Reykjavík sem ekki varð“ sem ég skrifaði með Önnu Dröfn Ágústsdóttur kemur fram að í lagafrumvarpi sem Jónas frá Hriflu, fyrrverandi formaður Framsóknarflokksins, lagði fyrir Alþingi 1928 átti bygging sundhallar að byggja á þriggja ára gömlum teikningum Guðjóns Samúelssonar sem var í burstabæjarstíl.
Horfið var frá því ákvæði áður en lögin voru samþykkt og þess í stað sett skilyrði um að ráðuneytið þyrfti að samþykkja uppdrátt, lýsingu og legu sundhallarinnar þegar þau gögn lægju fyrir. Ekki eru mörg dæmi um að fram komi í lagafrumvarpi að óheimilt sé að víkja frá uppdrætti ákveðins arkitekts að byggingu, enda var það gagnrýnt.
Nú 88 árum síðar leggur forsætisráðherra fram 99 ára gamlar teikningar sem hannaðar voru af Guðjóni Samúelssyni, sem þá var í námsleyfi á Íslandi, og var byggingunni ætlað annað hlutverk og átti að rísa á öðrum stað en nú er rætt um.
Ég hef ekki verið hrifinn af byggingunum í Aðalstrætinu sem myndin er af. Þar finnst mér ægja saman formum úr húsum sem voru þarna og svo svo nýju, sbr. þessa skrítnu endurgerð á Uppsölum. Hliðin sem snýr að Túngötunni er alveg misheppnuð.
Hver hefur sinn smekk en ég sé falleg hús þarna sem hæfa staðnum. Var ekki alltaf turn á Uppsölum og voru þeir ekki með bárujárni?. Þetta tvennt nægir mér. Hefði Egill viljað þarna turnlaust hús byggt úr áli, stáli og gleri með flötu þaki?
Hafa menn ekki verið að leita að séreinkennum Kvosarinnar í rétt 100 ár eða síðan í brunanum mikla? Arkitektar hafa almennt staðið sig illa í leitinni þessa heilu öld. Þeir finna ekki sérkenni staðarins eins og glöggt má sjá á fyrirhugaðri hótelbyggingu við Lækjargötu/Vonarstræri. Sigurður bendir á einföld atriði eins og þök, glugga og byggingarefni. Oft þarf ekki annað til að ná vinalegum samhljómi.
Augljóslega ber að sýna nærliggjandi byggð virðingu og búa til samtal við hana þegar teikna skal byggingu inn í rótgróið byggt umhverfi. Þar held ég að allir arkitektar geti verið sammála.
Umræðan ætti hinsvegar ekki að snúast um það heldur mun frekar þá tímaskekkju sem hugmynd Sigmundar er. Hér er á ferðinni teikning af byggingu sem er afsprengi þeirrar tækni sem tiltæk var á tímum Guðjóns Samúelssonar og þess stíls sem í hávegum var hafður á hans tíma.
Það að vinna þessa teikningu inn í byggt umhverfi dagsins í dag er að afskrifa um 100 ár af tækni, þróun, umbótum og rannsóknum innan arkitektúrs.
Í góðum arkitektúr mótast útlit bygginga (e. elevation) ekki einvörðungu af útliti annarra nærliggjandi bygginga heldur innviði byggingarinnar sem teikna skal, þeirrar starfsemi sem þar er, og stefnum og straumum í stíl á þeim tíma sem teiknað er.
Útlitið er með öðrum orðum afsprengi samspils innri virkni og ytri ásýndar. Innri virkni skrifstofubygginga er ekki sú sama og fyrir 100 árum. Ný þekking, viðmið, kröfur og staðlar og eru komin til sögunnar.
Það að breyta innviði 100 ára gamallar skeljar til að það innviði „henti kröfum nútímans“ er þar af leiðandi ógerlegt.
Best væri, líkt og hingað til hefur verið, að teikning Guðjóns Samúelssonar heyri sögunni til en þröngvi sér ekki upp á nýtt ár 2016.
-Axel Kaaber
Arkitekt MAA
Svipuð niðurstaða ef fer fram sem horfir?
https://i.guim.co.uk/img/static/sys-images/Guardian/Pix/pictures/2014/8/21/1408629183110/a4c2e57b-70c5-42b3-a970-c2c37196aa9a-2060×1379.jpeg?w=700&q=85&auto=format&sharp=10&s=fb5db6b9f8178d68f0409dcc17fe0f03
“Í góðum arkitektúr mótast útlit bygginga (e. elevation) ekki einvörðungu af útliti annarra nærliggjandi bygginga heldur innviði byggingarinnar sem teikna skal, þeirrar starfsemi sem þar er……..”
Þetta er allt rétt hjá þér Axel Kaaber og er afsprengi kennisetningar Louis Sullivan frá upphafi síðustu aldar.
Hann setti fram kennisetninguna “Form must always follow function” í upphafi aldarinnar sem leð og skrifaði um þetta í bókinni „The Autobiography of an Idea“ sem kom út árið 1924 eða ári eftir að tímamótaerk Le Corbusiere „Vers une architecture# kom út árið 1923.
Málið er bara það að kennisetning á borð við setningu Sullivan er afstæð alveg eins og athugasemd þín. Hún +á oftast við en ekki alltaf.
T.a.m. er ekki alltaf nauðsynlegt að breyta útliti húsa þó starfsseminni innandyra sé breytt. Það se samt sjálfsagt þegar um nýbyggingu er að ræða að úlitið endurspegli það sem innifyrir er.
Sullivan fjallar einmitt um þetta í tilvitnaðri bók. Hann gengur um með nemanda sínum, kannski Frank Lloyd Wright, sem kallaði Sullivan alltaf sinn „Meister“. Þeir gengu um Chicago og lásu hús.
Magnús Sædal, fyrrverandi byggingafulltrúi, sagði mér einusinni frá húsi sem var um 500 ára gamalt (í Róm að mig minnir, kannski Feneyjum) Það var fyrst byggt fyrir fyrir fjölskyldu auðmanns, síðan varð það fjölbýlishús, þá skóli og um tíma fjós sem framleiddi mjók fyrir nágrennið (fóður fyrir kýrnar var aðflutt) Svo varð það sjúkrahús og núna Hótel.
Þetta var kannski ekki í þessari röð. Alltaf voru grunnstoðir og útlit hússins það sama þó hlutverk þess breyttist og lyftum, ferilmálum og tæknilegum þægindum væri komið fyrir í samræmi við kröfur samtímis. Magnús nefndi þetta sem dæmi um hús sem var að stofni til gott hús og þannig að það gat mætt breytilegum kröfum samtímans hverju sinni um aldir.
Hvaða hús er á myndinni sem þú setur inn að ofan?
Auðvitað gæti sú gluggasetning sem er á teikningu Guðjóns rímað vel við skrifstofubyggingu í dag og að því leyti uppfyllt „form follows function“, ef það er einhver alls herjar kennisetning. Málið vandast hins hvað varðar bílakjallarann og ásýnd hans.
Þessi bloggsíða Hilmars hefur verið algjörlega ómissandi þáttur í lífi okkar sem höfum áhuga á arkitektúr og skipulagi. Það er því fagnaðarefni að sjá að strax á nýársdegi birtist hér ný færsla og er sú í anda „staðarandans“ sem síðuhaldari hefur verið í ágætu forsvari fyrir, þess anda, eða óskar um að hver nýbygging skuli taka tillit til nálægra eldri bygginga eða lands og umhverfis. Eða eins og Sigurður orðar það í greininni: „Aðalatriðið er að nýbyggingar falli að þeirri byggð sem fyrir er, og að virðing sé borin fyrir fyrir þessu sögulega svæði og þeim byggingum sem fyrir eru.“
Og ég spyr: Er það nokkuð til of mikils mælst?
En, að mínu mati er ég ekki frá því að meira þurfi til en að bara „endurhanna innra skipulag“ þessarar gömlu teikningar Guðjóns Samúelssonar af þessu húsi því þetta hús yrði, og nú sem nýbygging ef af yrði, einnig að taka tillit til þeirra bygginga sem síðar hafa risið … í þessu felst hið dýrðlega skemmtilega samspil sem felst í því að flétta saman gamalt og nýtt í arkitektúr og skipulagi.
Ég þakka Þóroddi hér að ofan fyrir athugasemdina og árétta um leið að ég mun taka við og birta málefnalegar greinar frá öllum séfræðingum og leikmönnum í skipulagi og arkitektúr. Sviðið ar opið öllum sem fjalla um efnið af víðsýni og/eða einlægum áhuga.
Manni léttir að lesa svona grein á netmiðli og sjá að það er enn lífsmark með þessari síðu. Ég er sammála Sigurði.