Mánudagur 28.01.2013 - 16:01 - 22 ummæli

Nýr landspítali á gömlum stað

 

 

Þegar Landspítalanum var valinn staður á þriðja áratug síðustu aldar voru gömlu mennirnir svo fyrirhyggjusamir að finna honum stað í jaðri byggðarinnar. Þeir töldu að þannig væri honum gefið svigrúm til stækkunnar og frekari þróunnar um ókomna áratugi.

Það er ekki hægt að segja annað en að þetta hafi verið skynsamlegt staðarval á þriðja áratug síðustu aldar enda hefur það sannað sig í þau 90 ár sem liðin eru.

Ekki veit ég hvernig á því stendur en þeim sem nú eru að undirbúa byggingu nýs spítala eru ekki sannfærandi um að skynsamlegt sé að byggja spítalann upp til framtíðar á sama stað og fundinn var fyrir tæpri öld. Skýrslur um staðarvalið og rökstuðningur er heldur ekki sannfærandi.

Maður veltir fyrir sér af hverju þeir sem nú eru að undirbúa nýja spítalabyggingu hafi ekki sömu fyrirhyggju og göml mennirnir á sínum tíma.

Í stað þess að horfa til langrar framtíðar með miklum þróunarmöuleikum hafa þeir valið nýja spítalanum stað þar sem þröngt er um hann, þar sem hann truflar umferð, þar sem hann ruglar staðarandann og framkallar óróleika í borgarlandslaginu og þar sem ekki er sátt um hann.

Og af hverju er ég að skrifa um þetta núna?

það er vegna þess a um helgina varð til nýtt orð sem nær yfir framkvæmdir sem öðlast sjálfstætt líf eða öllu heldur er skapað umhverfi  sem enginn ræður við.  Nýyrðið er „túrbínutrix“  sem á rætur sínar að rekja til þegar aðstandendur Laxárvirkjunnar höfðu keypt allt of stórar túrbínur fyrir virkjunina áður en búið var að kynna eða samþykkja virkjun af þeirri stærð sem hentaði túrbínunum. Túrbínurnar voru notaðar sem rök fyrir stærð virkjunarinnar ef ég skil rétt. Þetta hugtak var fyrst notað á vefsíðu Ómars Ragnarssonar og aftur brá því fyrir í Silfri Egils í gær.

Hér er slóðin að sulfri egils

http://www.youtube.com/watch?v=F0I1LNIPUKc

 Og bloggfærslu Ómars,

 http://omarragnarsson.blog.is/blog/omarragnarsson/entry/1279311/

Í áætlunum um nýjan Landspítala er lagt í gríðarlegan kostnað með þungri stjórnsýslu án þess að sátt sé um staðsetninguna!  Það er ekki bara fjárfest í áætlunum heldur er búið að halda fleiri samkeppnir og hanna húsin að einum fimmta áður en samþykkt deiliskipulag liggur fyrir. Helstu rökin fyrir því að halda þessu áfram hafa í mörg ár verið þau að málið sé komið svo langt að ekki sé hægt að snúa við! Þegar staðurinn var valinn kynntu aðilar málsins að byggja ætti um 70 þúsund fermetra nýbyggingu fyrir spítalann þannig að byggingarmagn á svæðinu yrði um 140 þúsund fermetrar. Nú á fyrirliggjandi deiliskipulagi er gert ráð fyrir tæplega 300 þúsund fermetrum á svæðinu.  Maður veltir fyrir sér hvort þarna sé á ferðinni svokallað „túrbínutrix“

Á þessari slóð er lauslega fjallað um stærðirnar:

http://blog.dv.is/arkitektur/2012/08/25/lsh-skipulag-audnarinnar/

Myndin í upphafi færslunnar er af mestum hluta höfuðborgarsvæðisins og sýnir það svæði sem hefur væntanlega verið fínkemmt áður en nýr staður fyrir framtíðarsjúkrahús allra íslendinga var valin staður. Rauði bletturinn sýnir hvar nú er verið að hanna nýtt sjúkrahús til langrar framtíðar.

Myndin að ofan er fengin að láni frá Ljósmyndasafni Reykjavíkur og sýnir gamla og nýja Landakotsspítala. Þegar gamli spítalinn var orðinn of lítill fyrir starfsemina var ákveðið að byggja upp á sama stað. Nýbyggingin varð svo stór að hún ruglaði hverfisheildina auk þess sem hún rýrði verulega virði nærliggjandi húsa. Hús við Hrannarsstíg, Ægisgötu, Öldugötu, stýrimannastíg og víðar voru ekki þau sömu eftir og umhverfið allt leiðinlegra og verra en áður. Þegar fyrsta sjúkrahús borgarinnar í Þingholtsstræti (Farsótt) var orðið of lítið hefði verið tækifæri til að margfalda stærðina með viðbyggingum suður Þingholtsstræti, frá Spítalastíg að Skálholtsstíg. En það var sem betur fer ekki gert.

 

Flokkar: Óflokkað

«
»

Ummæli (22)

  • NÝR LANDSPÍTALI Á GÖLNUM STAÐ

  • Hilmar Þór

    Þetta eru bæði fróðlegar og skemmtilegar umræður sem hér fara fram.

    Svo er eftir því tekið að þeir sem hafa unnið að framgangi málsins og uppbyggingu við Hringbraut eru ekki virkir í umræðum um þetta mikla verk.

    Það er hægt að draga tvær álygtanir af þessu. Annarsvegar að málið er á engan hátt útrætt og svo hitt að þeir sem hafa unnið að málinu treysta sér ekki í debattinn….. Kannski eru þeir í vafaum ágæti deiliskipulagshugmyndanna?

    Eða hvað?

    Ég veit að þeir lúslesa þetta margir.

    Ég vil sérstaklega þakka Magnusi Karli fyrir upplýsandi og málefnalega þáttöku. Gaman væri að fá fleiri fylgjendur uppbyggingarinnar tll að taka þátt og róa okkur hina.

  • Guðmundur Gunnarsson

    Hér fer fram eina umræðan um Lansann sem mark er takandi á. Ég vil aðeins blanda mér.

    Ef sjúkrahúsið hefði verið opnað í í Keflavík í stað Reykjavík 1930 þá byggju starfsmennirnir nú 80 árum síðar flestir á Suðurnesjum.

    Og svo er hitt argumentið, Eru starfsmenn LSH búsettir eitthvað nær vinnustaðnum en til dæmis starfsmenn byggingafulltrúa, eða Landsnbankans, eða Icelandair?

    Á mínum vinnustað (13 manns) áttu 9 (75%) heima í minna en 17 mínutna gang frá vinnustaðnum áður en hann var fluttur.

    Þessar tölur sem nefndar eru varðandi LSH eru hlægilegar meðan ekki er til samskonar athugun á öðrum fyritækjum borgarinnar.

    Flestir starfsemnn álversins á Grundartanga eiga heima á Akranesi, Mosfellsbæ og´Grafarvogi. Samkvæmt hugmyndafræði Magnúsar Karls hefði átt að byggja álverið í Kjósinni!!

    • Það er stærð þessa vinnustaðar sem gerir staðsetninguna svo mikilvæga. Það þyrfti ekki nema 16-18 svona vinnustaði fyrir alla Reykvíkinga sem sækja vinnu. Alla kennara, skrifstofumenn, verkamenn, iðnaðarmenn, lögreglumenn, allt afgreiðslufólk og auðvitað alla lækna og hjúkrunarfólk.

  • Magnús Karl Magnússon

    Samkvæmt könnu búa 25% starfsmanna í innan við 14 mínútna göngufæris og 50% þeirra í innan við 14 mínútna hjólafæris við spítalann.

    • Magnús Birgisson

      Sem segir okkur eiginlega ekki neitt því þrátt fyrir þetta gengur eða hjólar aðeins 13% starfsmanna LSH í vinnuna og aðeins 3% tekur strætó. Ætli 99% starfsmanna LSH búi ekki í innan við 14 mínútna ökuferðar í vinnuna enda er það sá ferðamáti sem yfirgnæfandi meirihluti starfsmanna hefur kosið sér.

      Spurningin hlýtur að vera líka. Er það ekki nauðsynlegt fyrir LSH að vera aðlaðandi vinnustaður? Vinnustaður sem neyðir starfsmenn sína til velja annan ferðamáta eða búsetu en það hefur kosið sér sjálft…er það aðlaðandi vinnustaður ?

  • Magnús Karl Magnússon

    Magnús B: Það er búið að kanna búsetu starfsmanna og stór hluti býr í nágrenni Hringbrautar. Þetta var ekki sagt út í loftið hjá mér.

    • Það mun alltaf verða þannig með svona stóran vinnustað að menn sækjast eftir búsetu í nágrenni við hann.

    • Magnús Birgisson

      Nafni….

      skv:
      http://www.nyrlandspitali.is/nyrlandspitali/upload/files/templates/haskolasjukrah_lr_atli.pdf

      þá ganga eða hjóla 13% starfsmanna LSH í og úr vinnu. Og þó þetta svari ekki spurningunni um hversu stór hluti starsmanna LSH telji sig búa nálægt Hringbraut þá er það vísbending…

      Þetta er ekki „stór hluti“ í mínum huga…þetta er „minnihluti“. Og þó menn geti haldið því fram að 13% sé stór hluti í einhverjum skilningi þá er 87% ennþá stærri hluti…meira að segja mætti segja „meirihluti“.

      Og við höfum því báðir rétt fyrir okkur þegar við segjum að „stór hluti starfsmanna LSH, eða allt að 13%, býr nálægt Hringbrautinni, en enn stærri hluti, eða 87%, hafa kostið að búa annarsstaðar“.

  • Jón Ólafsson

    Ég óttast að Magnús Birgisson hafi lög að mæla. Undiröldu þjóðfélagsins verður ekki breytt af stjórnmálamönnum eða skipulagsfræðingum í skipulagsvinnu á einstökum stöðum í borginni. Áður en lagt er í slíka hugarfarsbyltingu eins og að breyta ferðamáta heillrar þjóðar þarf fyrst að skipuleggja og jafnvel framkvæma heildstætt almenningssamgöngukerfi sem nær ekki bara til allrar höfuðborgarinnar og höfuðborgarsvæðisins alls heldur til landsins alls. Það er klár barnaskapur að halda að 5-6000 starfsmenn eins vinnustaðar fari að haga sínum ferðamáta öðruvísi en restin af þjóðinni bara af þvi að höfundar deiliskipulags Landsspítalans vilja það.

  • Magnús Birgisson

    Aðeins varðandi punkt 2.

    Það er ekki rétt að „stór“ hluti starfsfólks í dag búi nálægt spítalanum. Það er lítill hluti sem þar býr. Stærstur hluti starfsfólks býr í úthverfum Rvk eða nágrannasveitarfélögum.

    En það skiptir ekki öllu máli heldur hitt að þegar byggt er til framtíðar þarf að huga að því hvar þeir starfsmenn sem verða að vinna þá á spítalanum, þ.e. í framtíðinni, muni búa. Og það er ekki í á dýrasta svæði Reykjavíkur, í kringum spítalanum. Það er í úthverfunum.

    Staðsetning spítalans byggir á tveimur grundvallar breytingum sem menn ætla að gera á sjálfri þjóðfélagsgerðinni…hvar fólk kýs að búa…og hvernig fólk kýs að ferðast. Þetta á að gera með handaflinu einu saman…

    Á síðustu 10 árum hefur straumur fólks á höfuðborgarsvæðinu legið út í úthverfin. Þessu ætla menn að snúa við með flutningi flugvallarins sem allir vita sem vilja að er ekki á förum. Þetta er því dæmt til að mistakast auk þess sem engar haldgóðar heimildir eru fyrir því að fólk vilji yfirleitt búa í blokk í miðbænum frekar en einbýlishúsi í úthverfi. Á síðasta ári fækkaði íbúum í miðbæ Reykjavíkur en fjölgaði mest í Kópavogi og Garðabæ!!

    Fólk hefur valið einkabílinn sem sitt samgöngutæki og það eru engar sjáanlegar breytingar á því. Þvert á móti…tæknibreytingar, t.d. á eldsneytisvali, gera einkabílinn að enn meira aðlaðandi kost framyfir aðra samgöngumáta í framtíðinni. Hvort er líklegra að fólk kjósi rafmagnsbílinn sinn fyrir 25 kall ferðina í vinnuna eða strætóferð fyrir 350 krónur?

    Tíminn er að renna út. Það eru bara nokkrir mánuðir til stefnu þangað til pílaplönin hjá LSH verða tekin undir grunna, krana, vinnubúðir og síðast en ekki síst….bíla iðnaðarmanna. Hvar ætlar starfsfólk að leggja þá ? Ætli fólk fatti ekki vitleysuna þegar það er orðið of seint ?

  • Gamli Landakotsbyggingin er fallega simmetrisk eins og gamli landspítalinn frá 1930. Auk þess hafði hann skemmtilegar sólstofur sem veittu til suðurs. Það er mikill missir af þessari byggingu og hefði verið fengur af henni í dag. Monstrið að baki hennar ætti að vera mönnum víti til varnaðar þegar áförm um meinvarpið við Hringbraut er haft í huga. Þetta eru nú orð leikmanns og skrifað af meiri tilfinningu en þekingu. Mér finnst fróðlegt að lesa athugasemdir kunnáttumanna hér að ofan og bið þá lengstra orða að halda samtalinu áfram.

    Kær kveðja

    Jens

  • Magnús Karl Magnússon

    Sæll aftur Hilmar Þór
    Ekki sammála að um túrbínurök sé að ræða. Þú ert að ræða um tvo óskylda hluti og þú ættir sem arkitekt (sem hefur fylgst náið með málnu) að vita þetta.
    Önnur talan er er húsnæðisþörf (ca. 150 þús fm) til skamms tíma og hins vegar hærri talan, sem er tala sem er notuð í deiliskipulagi til að sýna fram á að þróunarmöguleikum næstu margra áratuga (á þessum sama stað).
    Hilmar, þú gagnrýnir einmitt að staðarvalið leyfi ekki framtíðarþróun, en það er ákkúrat það sem deiliskipulagið var að sýna fram; staðarvalið leyfir framtíðarþróun. En þegar sýnt er fram á framtíðarþróunarmöguleika þá segir þú; af hverju þurfið þið svona mikið? Var ekki nóg að biðja um 150 þús fm?

    Þú segir einnig að 300 þús sé alltof stórt fyrir þetta svæði. Lóðin er stór. Jafnvel þó byggðar væru allar þessar byggingar (sem eru enn bara margra áratuga draumur) þá yrði nýtingarhlutfall lóðarinnar einungis 1,9. Ég hef áður spurt þig Hilmar; finnst þér það hátt byggingarhlutfall fyrir atvinnustarfsemi í jaðri miðbæjar?

    Þú segir að mótrök mín séu léttvæg borin saman við þín rök um:
    „í stað þess að horfa til langrar framtíðar með miklum þróunarmöuleikum er valinn staður þar sem þröngt er um hann, þar sem hann truflar umferð, þar sem hann ruglar staðarandann og framkallar óróleika í borgarlandslaginu og þar sem ekki er sátt um hann og margt fleira. Auk þess er skipulagslegur ávinningur að dreifa atvinnutækifærunum innan byggðarinnar. Þá má gera án útþennslu hennar.“

    Það er oft búið að svar þessum rökum:
    1. „þröngt er um hann“: Nýtingarhlutfall er ekki hátt jafnvel ekki ef horft er margaáratugi fram í tímann (hlutfall 1,9).
    2. „truflar umferð“: það hefur verið sýnt fram á að LSH mun lítið trufla umferð. Einhver staðar verður LSH að vera, og ef hann er fluttur í útjaðar byggðar mun það kalla á meiri umferðarmannvirki og kalla á meiri umferð en ef byggingin er staðsett þar sem hún þéttir byggð og þjappar starfsfólki og vinnustað í nágrenni hvors annars.
    3. „ruglar staðarandann“ Ef að staðarandinn er sá að ekki megi þétta byggð þá er það rétt að þetta mun trufla staðarandann. En þessi hugsunarháttur mun líka hindra uppbyggingu allra annarra auðra reita í borginni. Staðarandinn í dag á þessari lóð er „andi sjúkrahúss“ og hefur sá andi lifað í sátt og samlyndi við granna áratugum saman. Að segja að ekki megi halda áfram starfsemi sem þarna hefur verið í áratugi af því að það truflar staðarandann finnst mér raunar harla skrítið.
    4. „óróleika í landslaginu“ – veit ekki alveg hvað þú átt við. En ég treysti arkitektum til að stuðla að áframhaldandi uppbyggingu á þessari lóð án óróleika.

    Að lokum: spurningi til Guðlaugs Gauta: Staðarvalsgreining hefur vissulega farið fram m.a. í skýrslum þar sem greint var hvar best væri að hafa spítalann. Ef að þú ert að vísa í einhverja „hárnákvæma fræðilega greiningaraðferð“ þá þætti mér vænt um að þú bentir mér á í hvaða tilfellum slík eiginleg staðarvalsgreining hefði verið notuð á Íslandi við ákvörðun nýbygginga.

    • Guðrún Bryndís Karlsdóttir

      Staðarvalsgreiningin fólst í því að bera saman 3 lóðir í borginni með því að draga hring með 1.5km radíus og telja upp hvaða þjónusta og borgarstarfsemi var innan hans. Vegatengingar eða hvernig borgin er búin að þróast var ekki skoðað – en það má búast við að niðurstaðan hefði verið önnur.
      Það er margt sem ritað er í skýrslur og önnur plögg til réttlætingar á nauðsyn þessarar framkvæmdar sem eru villandi og geta leitt til ákvarðanatöku sem getur haft hættulegar afleiðingar, sem dæmi má nefna: nettóbyggingarmagn á lóðinni eykst um 38.000 fermetra, umferð eykst um 2.000 ferðir.
      Hér eru nokkur atriði til umhugsunar varðandi ábendingar frá Magnúsi Karli:
      Það má alltaf byggja marga fermetra á stórri lóð – með því að borgaryfirvöld leyfi enn fleirri fermetra má þar af leiðandi byggja fleirri og þarmeð er fermetraþörf framtíðarinnar fullnægt. Með þessum hætti má koma eina spítala allra landsmanna á sömu lóðina.
      Lóðin sjálf er mjög óheppileg að lögun, sem verður til þess erfitt er að fá umferðarflæði til að virka.
      Hvaða áhrif getur svona aðferðarfræði haft á t.d. öryggi íbúa, vegakerfið, verðmæti eigna í nágrenninu, kostnað vegna vegaframkvæmda á lóðinni sjálfri – færsla Gömlu Hringbrautar, svo á Snorrabraut að verða vistgata (!?), Öskjuhlíðargöng, göng undir Kópavog, Hringbraut í stokk og svona mætti lengi telja.
      Heilbrigðisstarfsmenn hafa almennt litlar áhyggjur af umferð, en það hafa aftur á móti margir sem hafa sérþekkingu á umferð og skipulagsmálum – sem fellur undir verkfræði- og raungreinar eða arkitektúr.
      Menntun og kennsla í heilbrigðisvísindum er fjölbreytt, þetta fræðasvið lýtur að mestu að mannslíkamanum og þær lausnir sem eru færar þegar eitthvað fer úrskeiðis.´
      Nálgun verkfræðinnar og læknisfræðinnar til að leysa verkefni er mjög ólík. Læknisfræðin leitast við að ‘laga’ ástandið eftir að skaðinn er skeður – verkfræðin gerir reiknilíkön sem spáir fyrir um hvað geti gerst við breytt ástand – leitast við að koma í veg fyrir skaða.
      Hvernig á að lækna borgina ef þessi tilraun í skipulagi gengur ekki eftir og hver ber ábyrgð á afleiðingunum fyrir borgarbúa framtíðarinnar?

    • Hilmar Þór

      Þakka þér Magnús enn og aftur fyrir þáttökuna í umræðunni.

      Ég viðurkenni að með þín gleraugu á nefinu, gleraugum starfsmanns sjúkrahússins og Háskóla Íslands eru þín sjónarmið ágæt og vel gjaldgeng. En ég horfi á þetta með gleraugum borgarbúa sem hefur hagsmuni borgarskipulagsins að leiðarljósi. Sérhagsmunir sjúkrahússins og starfsmanna þess vega ekki mikið í því samhengi frekar en sérhagsmunir annarra hópa eða fyritækja í borginni. En ég vil samt segja að auðvitað eru hagsmunir sjúkrahússins einnig hagsmunir borgaranna.

      En til punktanna þinna örstutt.

      1.
      „Þröngt um hann“ Nýtingarhlutfallið er 3-5 sinnum hærra en í nágrenninu.

      2.
      „Truflar umferð“ Gatnakerfið er nánast fullnýtt eins og er í grennd við spítalann. Eina leiðin til að létta á því er með því að auka almenningsumferð, umferð hjólandi og gangandi. Til þess að þær áætlanir séu trúverðugar þarf hugarfarsbreytingu samfara styrkingu stoðkerfis almennigssamgangna. Hvorugt hefur átt sér stað þó merkja megi smá hreyfingu og vilja til þróunar í þá átt hjá stjornmálamönnum.

      3.
      „Ruglar staðarandann“ Staðarandi er að vissu marki huglægt hugtak en ég sé ekki þegar horft er á deiliskipulagið að það taki tillit til staðaranda byggðar í þingholtum og á Skólavörðuholti. Ég bendi bara á einsleitni húsanna, hæð þeirra og stærð svo eitthvað sé nefnt.

      4. ´
      „Óróleikinn í landslaginu“ Óróleikinn í borgarlandslaginu er af svipuðum toga þó með öðrum hætti sé og er að finna norðanmegin í holtinu, norðan Lindargötu þar sem algerlega er skipt um gír í skipulagi og arkitektúr miðað við nágrennið.

      Mér sýnist í raun okkur ekki greina á um nokkurn hlut. Við gefum sjónarmiðunum bara mismikið vægi, hvor okkar á sínum forsendum. Eitt er það þó sem við erum ekki sammála um og það varðar “túrbínutrixið” Ég held við ættum ekkert að vera að rembast við þann ágrennig enda skiptir hann ekki meginmáli. En bara svona í lokin hvað það varðar. Þá tel ég mig hafa verið blekktan þegar sagt var að byggja ætti til langrar framtíðar um 70-80 þúsund fermetra ( Alls um 150 þúsund) en svo var “túrbínan” ekki 150 þúsund fermetrar heldur 300 þúsund.

    • Já Magnús Karl, ég á við að beita skuli „hárnákvæmri fræðilegri greiningaraðferð” en við getum haft misjafnar skoðanir á því hvað „hárnákvæmur” merkir. Ég get ímyndað mér að það merki ekki það sama í rannsóknum í lyflæknisfræði og við mat á staðsetningu 290 þús. ferm. byggingar. En á sama hátt og þú notar vafalítið best skilgreindu verkferla sem völ er á við rannsóknir þínar þá gerum kröfu um það sama hér.

      Ég fylgist ekki það vel með ég geti sagt þér hvar svona greiningarferlum hefur verið beitt. Hitt veit ég að við hefðum átt að beita þeim í mun meiri mæli og þar væri hægt að benda á mörg dæmi. Ekkert þeirra er þó jafn stórt og þessar fyrirhuguðu framkvæmdir, sem eru þær stærstu í Íslandssögunni, næst á eftir Kárahnjúkum.

      En ert þú að mæla því bót að ef þeim hefur hvergi verið beitt þá sé óþarfi að gera það núna?

      Áttahundruðogsautján aðilar höfðu fyrir því að gera athugasemdir við deiliskipulag Landspítalalóðarinnar. Á bak við sumar athugasemdirnar voru heilu hverfin. Að lokum sameinast menn þó um að vilja ekki þetta ferlíki á þennan stað. Það er huglægt mat og það þarf ekki að segja manni í þínu fagi hversu mikils virði það er að hlusta á þau.

  • Jón Ólafsson

    Það er traustvekjandi að lesa samtal þeirra Magnúsar og Hilmars. Lágstemdar fullyrðingar eru róandi. En meira þarf til hjá þeim báðum til að sannfærast.

  • Hilmar Þór

    Þakka þér fyrir athugasemdina Magnús Karl Magnússon. Ég veit að þú ert vela ð þer og áhugasamur um efnið og hefur margoft lagt til umræðunnar mikilvæg sjónarmið sem dýpkað hafa umræðuna og eftir hefur verið tekið.

    Það ber ekki að skilja mig þannig að ég hafni öllum rökum sem liggja að baki staðsetningunni við Hringbraut. Þvert á móti eru þau mörg góð eins og þau sem þú nefnir eins og nálægð við aðra starfsemi, s.s. háskóla og hátækni (ÍE). Þau rök sem þú nefnir eru auðvitað mikilvæg en þau vega léttar að margra mati en mótrökin sem koma fram í pistlinum. Það er að segja að í stað þess að horfa til langrar framtíðar með miklum þróunarmöuleikum er valinn staður þar sem þröngt er um hann, þar sem hann truflar umferð, þar sem hann ruglar staðarandann og framkallar óróleika í borgarlandslaginu og þar sem ekki er sátt um hann og margt fleira. Auk þess er skipulagslegur ávinningur að dreifa atvinnutækifærunum innan byggðarinnar. Þá má gera án útþennslu hennar.

    Punktur þinn sem er númer fjögur vegur afskaplega létt þar sem búseta starfsmanna mun flytjast til verði spítalinn fluttr eitthvað annað. Ef spítalinn yrði byggður við t.a.m. Vifilsstaði mun eftir nokkra áratugi búa í grennd við spítalann fleiri læknar, hjúkrunarfræðingar og aðrir heilbrygðisstarfsmenn en annarstaðar.

    Svo eru það “túrbínurökin” Þegar staðsetningin var ákveðin árið 2002 var ætlunin að byggja um 140-150 þúsund fermetrar. Nú er áætlun um að byggja tæplega 300 þúsund fermetra. Þar er túrbínan. Turbínan var alltof stór fyrir lóðina nákvæmlega eins og við Laxárvirkjun.

  • Magnús Karl Magnússon

    Það er margbúið að benda á veigamikil rök fyrir staðsetningu spítalans á þessum stað.
    1. Kostnaður
    2. Nálægð við aðra starfsemi, s.s. háskóla og hátækni (ÍE)
    3. Vel staðsett fyrir samgöngur.
    4. Nálægð við starfsmenn LSH (þeir búa í nálægð við núverandi bygginu).
    Hvað er ósannfærandi við þau rök?

    Þú segir „Í áætlunum um nýjan Landspítala er lagt í gríðarlegan kostnað með þungri stjórnsýslu án þess að sátt sé um staðsetninguna.“
    Nefndu einhverja aðra staðsetningu sem sátt er um?

    Nú er búið að skipuleggja framtíð sjúkrahússins til næstu margra áratuga þar sem núverandi lóð og byggingarmagn mun leyfa margfalda uppbyggingu án þess að nýtingarhlutfall lóðar fari nálægt þeim mörkum sem gera á til nýtingar lóða í borgum.

    Það er kominn tími til að við sættum okkur við að búa í borg. Sífelld útþennsla er komin á öngstræti og mér sýnist þú, Hilmar, með þessum pistli vera að ýta undir frekari dreifingu byggðar.

    Hver eru túrbínurökin í þessu máli?

    • Í athugasemd hér fyrir ofan vill Magnús Karl Magnússon að Hilmar bendi á aðra staðsetningu sem sátt er um. Þetta er ekki svona einfalt.

      Mörg okkar sem gagnrýnum áætlaðar framkvæmdir á Landspítalalóð gera það m.a. vegna þess að eiginlegri staðarvalsgreiningu var ekki beitt á sínum tíma. Þetta er risastór framkvæmd og á þessum eina vinnustað munu vinna um 6% þeirra sem eru á kjörskrá í Reykjavík. Staðsetningin mun hafa áhrif á alla þætti borgarlífsins í einni eða annarri mynd. Það er því varla til of mikils mælst að bestu aðferðum sé beitt við samanburð á staðsetningarmöguleikum.

  • Heinrich Heine

    Spítalavink.

    Þeir oss rétta á kjammann

    einn spítalavink.

  • Einar Jóhannsson

    Ég er nú ekki barnungur en ég man samt ekkert eftir þessu timburhúsi á myndinni sem notað var fyrir Landakotsspítala. Það má vel sjá á myndinni að nýja húsið (eftir hvern er það?) hefur haft veruleg neikvæð áhrif á næsta umhverfi. Jú og lansinn er „túrbínutrix“

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af tveimur og þremur? Svar:

Höfundur

Hilmar Þór Björnsson arkitekt
Tilgangur síðunnar er að kynna arkitektúr, skipulag og staðarprýði ásamt því að stuðla að umræðu um efnið. Það sem fram kemur ber ekki að skilja sem skoðun höfundar heldur hugleiðingu sem sett er fram í þeim tilgangi að vekja lesendur til umhugsunar og skoðanaskipta. Tekið er á móti aðsendum greinum þegar það á við, sem þá eru á ábyrgð höfundar aðsends efnis.
Athugasemdir við færslur eru velkomnar. Þeir sem vilja koma skilaboðum til ábyrgðarmanns beint er bent á netfangið hilmarstofunni@gmail.com
RSS straumur: RSS straumur

Færslusafn