Föstudagur 07.12.2018 - 17:59 - 6 ummæli

Nýr samgöngumöguleiki í borgum „E-Scooters“

Í  rúm 60 ár hefur mikið verið talað um að einkabíllinn sé ekki heppilegt samgöngutæki í borgum. Flestir arkitektar og skipulagsfræðingar hafa verið þessu sammála en ekki fundið aðra lausn sem kæmi gæti í stað einkabílsins.

Menn hafa því lagt traust sitt á einkabílinn sem aðalsamgöngutæki í borgum í skipulagsvinnunni þrátt fyrir augljóa galla hans. Líklega vegna þess að ekki var komið auga á annan kost.

Þegar Aðalskipulag Reykjavíkur var samþykkt fyrir tæpum sex árum varð þarna veruleg breyting á.

Þá var sett í skipulagið, sem hefur nánast lagagildi (eða á að hafa það) sú stefna að borgin ætti að vera fyrir fólk.

Með AR2010-2030 kom fram hugmyndin um að breyta samgöngum borgarinnar úr einskonar skipulagsleysi í línulega borg með samgönguás (Borgarlínu) frá Vesturbugt að Keldum.  Borgin varð læsilegri og heilsteyptari en í eldri AR.

Í stað áherslu á einkabílinn var lögð áhersla á aðra kosti.  Þarna var brotið blað hvað þetta varðar í skipulagi borgarinnar. Manni sýndist vera að vora í samgöngumálum borgarinnar þar sem áherslum var breytt úr borg fyrir bíla í borg fyrir fólk. Almenningssamgöngur, Gangandi og hjólandi fengu forgang. Þetta voru góðar fréttir.

Á þeim tæpu sex árum sem liðin eru hefur samgönguás aðalskipulagsins, þessi frábæra Borgarlínuhugmynd  legið í dvala þar til hún kom á dagskrá fyrir tveim árum. Þá hafði hún stækkaði og orðið að hugmynd sem teygð hafði verið yfir allt höfuðborgarsvæðið.  Flækjustigið við stækkun línunnar  úr 5-7 km í 57 kílómetra varð svo mikið að manni sýnist sem fáir átti sig á henni. Þessi frábæra hugmynd er orðin svo stór að leita þarf í sjóði landsmanna allra til þess að þetta geti orðið að veruleika.

Þó lítið hafi gerst í Borgarlínumálum Reykvíkinga frá því að AR2010-2030 var samþykkt hafa ótrúlega margar nýungar litið dagsins ljós i samgöngumálum borga um allan heim. Líka í Reykjavík.

Ég nefni að Reykjavík er orðin miklu betri fyrir hjólandi umferð en hún var og fylgir hún þeirri þróun sem átt hefur sér stað víða um heim. Það hafa verið sett upp hlólaleigustöðvar víða um borgina hér eins og annarsstaðar.

Í annan stað hefur gata gangandi verið greidd á undanförnum árum í Reykjavík eins og víða annarsstaðar. Fólk farið að ganga leiða sinna. Ég t.a.m. geng nánast allra minna erinda vestan Snorrabrautar. Allt skiptir þetta máli þegar um er að ræða andsvar við einkabílinn sem er bæði dýr, mengandi, úreltur og plássfrekur í borgarlandslaginu.

Svo eru það sjálfkeyrandi deilibílar á borð við þá sem Weymo, Uber og Lift reka viða í vesturheimi. Þeir safna upp 5-6 farþegum sem eiga erindi um svipaðan veg og verða þannig að e.k. almenningssamgöngutæki. Líklegt er að þessi deilibílahugmynd með sjálkeyrandi bílum muni hafa veruleg áhrif á almenningssamgöngur í náinni framtíð.

+++

Nýr samgöngumöguleiki í borgum „E-Scooters“

Ég var í Parísarborg í vikunni og kynntist þar nýju samgönguformi sem ég hafði ekki séð áður. Það er svokallaðir „E-Scooters“ eða „Lime-S“ eins og það er kallað í París. Þetta eru lítil rafknúin hlaupahjól sem ekki eru staðsett á ákveðnum stöðum eins og hjólaleigurnar. Heldur þar sem notandinn hafði ekki þörf fyrir það lengur og skildi við það.  Litlu hlaupahjólinn finnur notandinn með appi á símanum sínum og skilar því á áfangastað. Sama hvar hann er.  Svo kemur einhver annar og finnur „þitt hjól“ með appinu og sá fer á „sínu hjóli“ þangað sem hann ætlar sér. Þetta virðist mjög einfalt og þetta virtist virka og vera vinsælt.

Fólk sem ég talaði við París valdi þennan kost frekar en hið frábæra METRO kerfi borgarinnar eða strætó þar sem er þröngt um fólk og kerfin skilar farþeganum ekki á áfangastað eins og hlaupahjólin. Fólkið taldi þetta líka mun betra en leiguhjólin af margvíslegum ástæðum. Aðallega að tækið er minna og meðfærilegra en reiðhjól og svo að það væri alltaf við hendina og það væri hægt að skila því á áfangastað notandans.

Reynslan af þessu í París virðist góð og vinsældirnar gríðarlegar. Það lá við að maður gæti ekki þverfótað fyrir þessum tækjum í miðborginni eins og sjá má á efstu myndinni í færslunni. Samkvæmt French Micro Mobility Federation hafa verði seld meira en 100.000 svona samgöngutæki í Frakklandi.

Notkun þessara deili hlaupahjóla í París byrjaði frekar smátt í júni í sumar. Fyrst voru það einkum ferðamenn sem notuðu þessi tæki en nú nota íbúar borgarinnar þetta mikið. Það var fyritækið Lime sem byrjaði og hefur nú fjárfest miljörðum í verkefnið á umliðnum mánuðum.

Lime hlaupahjólin eru tiltölulega létt og mjög traust. Þau eru áberandi í einhverkonar ljósgrænum lit (Lime). Þau ná allt að 24 km hraða og þú finnur nærliggjandi hjól með appinu á snjallsímanum. Og ræsir hjólið með símanum og skráir þig út og inn sem notandi og gerir upp með símanum. Startgjaldið er 1 Evra og svo 0.15 evrur á mínútuna. Það þýðir að ferð frá Marshall húsinu á Granda  að Mathöllinni við Hlemm mundi kosta um 300 krónur.  Aðeins meira frá Hlemmi að húsdyrunum heima hjá notandanum við Sörlaskjól svo dæmi séu tekin.

Nú eru íbúar borgarinnar ásamt ferðamönnum farnir að nota þetta í svo miklu mæli að vandræði hafa skapast bæði þar sem þessi tæki mæta bifreiðaumferð á götum og gangandi á gangstéttum. Gerðar hafa verið tilraunir til þess að aðlaga umferðareglur að þessu vinsæla tæki sem kom reglugerðasmiðum í opna skjöldu.

Í borgum þar sem góðar hjólreiðaleiðir eru fyrir hendi er þetta líklega gott mótvægi við einkabílaumferð og dregur úr álagi almannaflutninga þar sem það er vandamál.

++++++

Efsta myndin og myndin hér strax að neðan tók ég á miðvikudagskvöld og sýna viðskilnað og fyrirferð hjólanna. Þrjár myndir sem síðan koma eru fengnar af kynningarsíðu Lime-S sem er eitt þeirra fyrirtækja sem gera þessi hjól út í París.

 

Greiðslur og öll aðkoma notanda fer um snjallsíma. Nortandinn finnur hjólið með símanum, stimplar sig inn og aftur út með símanum og greiðir með símanum. Hjólin eru svo hlaðin af fólki sem fær tekjur af hleðslunni. Þetta er aukavinna fyrir þá sem áhuga hafa. Annars hleður leigufyritækið hjólin. Ég las um einn sem tók fjögur hjól heim til sín og hlóð. Hann þurfti að skila þeim á sama stað fyrir klukkan 7 næsta morgun 90% hlöðnum og fékk inn á reikning sinn greidda 35 US$. Þetta var í LA í USA.

 

 

Flokkar: Óflokkað

«
»

Ummæli (6)

  • Ingi Kjartansson

    Reyndar eru þessar leigur og farartækin sjálf mjög umdeilt fyrirbæri, og margar borgir búnar að banna þetta og verið að ræða bönn og ýmsar takmarkanir í mörgum borgum.

  • Nenni neikvæði

    Þetta hefði verið fínt í veðrinu í dag.

  • stefán benediktsson

    Gaman að þessu Hilmar. Fyrir 9 árum fékk ég tækifæri til að eyða fimm dögum á Manhattan í gönguferðum með leiðsögn. Í gönguhópnum var maður með lungnaþembu sem ferðaðist um á Segway hjóli. Vegna aðstæðna átti hann ekki kost á að nota subway og ferðaðist ofan jarðar til stöðva sem við fórum á. Hann var alltaf mættur á undan okkur. Ber að merkja, þetta var fyrsta ár hjólabrautavæðingar Manhattan sem Bloomberg stóð fyrir. „Hlaupahjólin“ eru ekki eins plássfrek og Segway.

  • Hilmar Þór

    V.F.
    Það dettur engum í hug að þetta komi í „staðinn fyrir Borgarlínuna“.

    Það er bara verið að benda á að E-Scooterar eru nýr kostur í samgöngum sem hugsanlega getur haft áhrif á ferðavenjur íbúa í borgum þegar um stuttar vegalengdir er að ræða.

    Þessi kostur hefur reynst vel víða.

    Borgarlínan er kostur sem stefnt er að og rétt er að styðja.

    Það fer t.a.m. enginn á svona tæki langar leiðir eins og milli Hafnarfjarðar og Reykjavíkur eða Mosfellsbæjar og Hafnarfjarðar.

    Svo það sé nú sagt með skýrum hætti.

  • Þessir Scooters koma aldrei í staðinn fyrir borgarlínu á höfuðborgarsvæðinu. Þó þeir séu alveg ágætir í París.

  • Jón Björnsson

    Reykjavíkurborg hefur staðið sig frábærlega í þessum málum. Algerir frumkvöðlar. Svo hoppa hin sveitafélögin á vagninn og enginn ræður við neitt. Og nú er leitað til ríkisins til þess að redda borgarlínunni.

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af tveimur og einum? Svar:

Höfundur

Hilmar Þór Björnsson arkitekt
Tilgangur síðunnar er að kynna arkitektúr, skipulag og staðarprýði ásamt því að stuðla að umræðu um efnið. Það sem fram kemur ber ekki að skilja sem skoðun höfundar heldur hugleiðingu sem sett er fram í þeim tilgangi að vekja lesendur til umhugsunar og skoðanaskipta. Tekið er á móti aðsendum greinum þegar það á við, sem þá eru á ábyrgð höfundar aðsends efnis.
Athugasemdir við færslur eru velkomnar. Þeir sem vilja koma skilaboðum til ábyrgðarmanns beint er bent á netfangið hilmarstofunni@gmail.com
RSS straumur: RSS straumur

Færslusafn