Miðvikudagur 14.11.2018 - 23:45 - 8 ummæli

Sjálfkeyrandi bílar – Borgarlína

Af tilefni þess að Skipulagsstofnun og forverar hennar eru 80 ára um þessar mundir var boðað til fundar í gærmorgun um sögu skipulags á Íslandi og næstu framtíð eins og hún blasir við. Það var Haraldur Sigurðsson skipulagsfræðingur og einn af aðalhöfundum núverandi Aðalskipulags Reykjavíkur sem talaði um fortíðina á afar upplýsandi og fróðlegan hátt.

Og svo var það Nico Lerco prófessor við University of Oregon og skipulagfræðingur sem talaði um framtíðina og þær breytingar í samgöngumálum sem eru fyrirsjáanlegar. Einkum almenningssamgöngur og sjálfkeyrandi bíla í því sambandi og áhrif þeirra á allt umhverfið og samfélagið.

Fyrirlestur Lerco var merkilegur, fróðlegur og skemmtilegur. Ekki vegna þess að það sem þar kom fram voru ný sannindi heldur vegna þess að hann setti hlutina í ný áhugaverð samhengi og sýndi fram á að framtíðin hvað þetta varðar er rétt hinumegin við hornið. Hann sagði okkur frá þeim breytingum sem eru fyrirsjánlegar í ferðavenjum fólks og venjum þess við að gera innkaup og margt fleira sem mun gjörbreyta umhverfi okkar og daglegu lífi.

Ég man eftir því að hafa spurt hvað við munum gera við Miklubrautina þegar allir bílarnir eru farnir úr borginni. Þetta var fyrir svona 30-40 árum. Menn héldu að ég væri að rugla. Mér fannst það reyndar líka sjálfum. En ég vissi að einkabíllinn væri slæmur kostur í borgum og fyrirferð hans í umhverfinu gengi ekki lengur. En ég vissi ekki hver lausnin yrði. Það vissi það í raun enginn fyrir 40 árum.

Svo í gær eftir fyrirlestur Lerco varð mér ljóst að það er verið að vinna að raunhæfum lausnum á þessu um víða veröld. Menn eru búnir að átta sig á að einkabíllinn er ekki til framtiðar fallinn eins og við þekkjum hann í dag. Lausnirnar eru komnar af tilraunastigi og það er byrjað að nota þær.

Fyrirlesarinn talaði um sjálkeyrandi bíla og sagði að „Automatic Vehicles are not only a transportation issue“ eða að sjálfkeyrandi bílar varða ekki eingöngu samgöngumál. Heldur miklu meira.

Sjálfkeyrandi bílar sem tengdir eru kerfum á borð við Uber, Waymo eða Lift munu breyta öllu okkar umhverfi. Þessi kerfi eru þegar í notkun í Arizona. Þeir byrjuðu fyrir 10 mánuðum og hefur kerfið reynst svo vel að það á að stórauka það fyrir næsu áramót sagði Lerco. Í Phoenix hringir þú á bíl sem kemur sjálfkeyrandi og sækir þig og þegar þú sleppir honum sækir hann næsta mann. Þetta eru almenningsflutningar með sjálkeyrandi bílum. Stundum deilir þú bíl með einhverjum sem þú ekki þekkir. Ef bíllinn er með 4 farþega fær hann að aka á einskonar „fast Track“. Þetta kerfi mun að líkindum minnka umferðina eitthvað á götunum en umferðin verður liðlegri, fljótari  og tímann sem fólk notar til þess að ferðast nýtist í annað en bara að halda um stýrið og halda vöku sinni við aksturinn. Fólk mun lesa, vinna, borða eða stunda líkamsrækt á leið sinni í allri umferðinni. Fólk muni njóta ferðarinnar og þess vegna sætta sig við lengri leiðir frá vinnu að heimili. Þetta mun líklega stuðla að enn meiri dreifingu byggðar sem væri slæmt og þarf að sporna við. Lerco taldi að skipulagsyfirvöld þyrftu að undirbúa sig undir þessa þróun. Ekki láta bílaframleiðundurna taka völdin í borgarskipulaginu aftur og sagði „Form should Follows Function“ en ekki „Form Follows Cars“ eins og undanfarin 100 ár í skipulagi.

Lerco sagði hinsvegar að snjallborgin mun minnka umferð á götunum af ýmsum öðrum ástæðum. Til dæmis væri smávöruverslun (retail) í USA komin yfir 12% af versluninni og færi ört vaxandi. (sagt er að hún sé um 1,4% hér á landi) Verslanir í borgum sé að breytast í að vera „show rooms“ með engan lager þar sem varan er skoðuð, mátuð og síðan pöntuð í gegnum netið. Lagerinn er svo í miklum skemmum með góðri dreifingu nálægt markaðnum. e.k. vöruhótel. Umferðin á götunum mun líka minnka vegna þess að fólk fer að vinna meira heimanfrá og svo mun vinnuvikan verður innan langs tíma 4 dagar.  Það væri hægt að gera strax á morgun með því að lengja fjóra vinnudaga um svona einn og hálfan tíma. Margt fleira kemur til sem minnka mun umferðina á götunum. Bara þetta hefði mun meiri áhrif á umferðina en Borgarlínan ein og sér.

++++++

Nico Lerco kom lítilega að hraðvagnakerfi í fyrirlestri sínum og mátti skilja á honum að það kerfi væri ágætt en það hentaði honum til dæmis ekki. Hann setti fyrir sig ferðalagið heiman frá sér að hraðvagnastöðinni og aftur af stöðinni að vinnustað sínum. Han taldi deilibílakerfi (Uber/Waymo) hentaði sér betur um leið og hann sagði að hann hefði líka efni á því. Ég sem hef verið ákafur stuðningsmaður Borgarlínunnar varð hugsi við að hafa hlýtt á prófessorinn. Mér sýnist markmiðið að fjölga farþegum í almannaflutningum úr 4% í 12% á árunum fram til 2030 vera allt of lítið sérstaklega þegar hugsað er til þess að íbúum á að fjölga um 70 þúsund. Líklegt er að netverslun og snjallborgin með UBER og Waymo deilibílum eigi eftir að draga meira úr umferð á götunum en þessi 8% aukning farþega í almenningsflutningum.  Svo má skipuleggja borgina betur með tilliti til „skutlsins“ sem er fyrirferðamikið fyrir utan styttingu vinnuvikunnar sem áður var nefnd. En hver veit?

Ef litið er á allt suðvesturhornið frá Akranesi til Selfoss og áfram til Suðurnesja, þar sem sagt er að búi um 85% landsmanna á einu atvinnusvæði . Kannski væri skynsamlegt að tengja þessa kjarna saman með öflugum almenningssamgöngum en leysa almenningssamgöngur innan kjarnanna með sjálfkeyrandi bílum. Borgarlína AR2010-2030 frá Vesturbugt að Keldum er hinsvegar nauðsynleg og ætti núna 8 árum seinna að vera komin í fullan rekstur. Í stóra samhenginu og ef litið er til langs tíma er rétt að velta fyrir sér hvort 150 ára lausn á almenningssamgöngum eins og fyrirhuguð er með 57 km Borgarlínu sé skynsamleg í þeirri gisnu byggð hér er núna þegar öll þessi miklu mál eru í deiglu.

++++

Þetta var merkilegur fyrirlestur í gær fyrir margra hluta sakir. Þá er ég ekki bara að tala um efni hans heldur ekki síður nálgun prófessorsins og hvernig hann fjallaði um efnið. Maður á ekki að venjast svona akademiskri umfjöllun um umræðuefni líðandi stundar um skipulagsmál hér á landi. Einhver sagði að maðurinn væri eins og „Breath of fresh air“ í samanburði við það sem maður á að venjast í umræðunni hér. Hann var laus við réttrúnað í skipulagsmálum. Vakti hiklaust athygli á göllum þeirra lausna sem hann aðhylltist og kynnti. Hann var þess vegna trúverðugur og náði athygli. Ég hef skrifað um það áður hér á þessum vef hvað mér fannst aðalráðgjafarnir varðandi Borgarlínuna, COWI,  ótrúverðugir vegna þess að þeir kynnu sínar lausnir í almennigsflutningamálum höfuðborgarsvæðisins eins og þær væru gallalaustar á kynningarfundi í Iðnó á haustmánuðum 2016.

Nú eru allir á móti útþennslu byggðar og vilja þéttingu byggðar. Svo les maður í Morgunblaðinu í morgun að sérbýli hafa hækkað í verði meira en fjölbýli undanfarið og þau seljast hraðar. Eru þetta viðbrögð markaðarins við þéttingunni og þeim mikla fjölda fjölbýlishúsa? Allt leitar jafnvægis er sagt. Menn takast á um Borgarlínuna annarsvegar og þéttinguna hinsvegar en ræða það ekki. Það er ekki gefið neitt svigrúm til málamiðlanna sem er að koma okkur í koll. Það er hluti fólks sem vill ekki almenningssamgöngur og það er líka stór hluti sem kýs að búa í sérbýli frekar en sambýli. Borgarskipulag þarf að þjóna öllum. Allir þufa að eiga val.

++++

Ég þakka Skipulagsstofnun fyrir að boða til þessa merka morgunfundar.

Efst er mynd af fyrirlesaranum. Aðrar myndir eru af glærum sem hann sýndi í gær. Bið afsökunar á hvað þær eru óskýrar.

 

Hugmyndin um sjálfakandi bíla er ekki ný, en er að banka uppá núna. (Myndin að ofan til vinstri er meira en 60 ára gömul). Hinsvegar er tæknin komin og byrjað að nota hana á allnokkrum stöðum í heiminum að sögn Lerco. Waymo byrjaði að nota sjálfakandi bíla í Phoenix, Arizona í byrjun þessa árs í tilraunaskyni sem gekk afburðavel og eru búnir að panta 20.000 bíla til viðbótar sem teknir verða í notkun fyrir áramót. Þetta er ekki lengur „Science Fiction“ heldur „Sciense Facts“

Lerco óttast að úthverfin muni aftur verða talin góður kostur vegna þess að fólk mun geta notað tímann meðan það er á leið sinni til þess að vinna, stunda líkamsrækt, lesa eða annað meðan ekið er. Það getur líka sótt um lengri veg til menningaviðburða og fengið sér í glas á báðum leiðum.

Einkabíllinn gaf okkur ýmis tækifæri þegar hann kom fram. Hann gaf okkur tækifæri til þess að fara víða um og búa í úthvefum þar sem var rúmt um okkur. Hann gaf okkur verslunarmiðst6öðvar og umferðateppur. En úthverfin ullu vandræðum. Þau eru drápu götulífið, voru samfélagslega mjög kostnaðarsöm, þau menga. Það fór mikið landrými undir borgirnar, miklu var kostað til vegna stoðkerfa, gatna, veitna, skóla og svo fengum við verlunarmiðstöðvar og festumst í umferðinni.

Nico Lerco sagði að fyrir hvern einkabíl þyrfti 4-8 bifreiðastæði. Einkabíllinn væri kyrr í bílastæðum 95% af tímanum. Aðein 5% á götunum. Með tilkomu sjálfakandi bíla deilikerfisins (t.d. Uber/Lift/Waymo) þyrfti ekki öll þessi stæði og mikið rými skapaðist til þess að byggja hús og götur fyrir fólk. Í þéttbýli mætti fækka stæðum um 80%! Lerco sagði að augljóslega verði framtíðin þannig að megnið af öllum bílum framtíðarinnar í þéttbýli yrði sjálfakandi deilibílar sem væru á ferðinni allan sólahringinn. Þarna væri um aðra tegund almannasamgangna að ræða.  Á Íslandi eru um 180.000 einkabílar. Samkvæmt þessu þurfa þeir milli 720 þúsund til 1.5 milljón bílastæða. Í þessum bílum eru sæti fyrir alla íslendinga fjórum sinnum.

Myndirnar að ofan sýna hvað bifreiðastæðin taka mikið landrými. Þetta eru þrjár myndir sem Lerco sýndi í gærmorgun, frá tveim borgum, Portland og Cleveland minnir mig að hann hafi sagt. Efst er í miðborginni þar sem er tiltölulega lítið af bifreiðastæðum miðað við borgir þar í landi. Miðborgin er þétt en gæti verið mun þéttari með tilkomu sjálfakandi deilibíla, Uber, Lift, Waymo eða öðru. Neðst er svo verslunarmiðstöð í úthverfi (Kringlan, Smáralind) Bifreiðastæðin eru yfirþyrmandi á öllum myndunum.

Að ofan er mynd af sjálfkeyrandi bíl sem notaður hefur verið í Arizona í 11 mánuði og hefur fyritækið Waymo pantað 20.000 slíka til viðbótar sem teknir verða í notkun fyrir áramót að sögn Nico Lerco professor í skipulagsmálum við University of Oregon.

Flokkar: Óflokkað

«
»

Ummæli (8)

  • Ásmundur

    Er endilega víst að sjálfkeyrandi bílar muni breyta miklu? Munu menn ekki áfram eiga sinn einkabíl þótt sjálfkeyrandi sé? Varla verður það bannað. Er nokkur verulegur munur á því að panta sjálfkeyrandi bíl eða leigubíl, eins og við þekkjum í dag, nema kannski gjaldið.

    Ef margir af þeim sem nú nota strætó myndu í staðinn panta sjálfkeyrandi bíl mun umferðin aukast. Það er helst að bílastæðum fækki ef margir leggja einkabílnum. Það væri auðvitað mikill fengur.

    Slæm reynsla af almenningssamgöngum eru ekki rök gegn borgarlínu heldur þvert á móti rök með henni. Tilgangur borgarlínu er að gera almenningssamgöngur þægilegri og greiðari. Margir sem í dag líta ekki á strætó sem valkost munu væntanlega fagna tilkomu borgarlínu og nota hana óspart.

    Þetta á jafnvel við um þá sem eiga og ætla áfram að eiga bíl. Á vissum leiðum og vissum tímum verður borgarlínan betri kostur fyrir marga bæði vegna þess að hún verður fljótari í förum og ómakið við að finna bílastæði er ekki til staðar.

    Ég sé ekki að sjálfkeyrandi bílar muni gera borgarlínu óþarfa. Þörfin fyrir að fækka bílum á götum borgarinnar verður ekki minni með tilkomu þeirra. Tilgangurinn með borgarlínu er ekki síst að freista sem flestra borgarbúa til að nota almenningssamgöngur og minnka þannig bílaumferð.

    Ég gæti trúað að það sé rétt hjá borgaryfirvöldum að borgarlína sé ódýrasta leiðin til að leysa umferðarvandann. Ekki síður er mikils virði að ásýnd borgarinnar verður miklu betri með minni umferð og færri bílastæðum.

  • Heimir H. Karlsson

    Hér er frétt, og enn eitt innlegg frá mér.

    Fréttin er hér: http://www.visir.is/k/199a59f7-51ca-4888-a379-5da27bd16569-1543753462436

    36 milljóna tap í ár og áætlað 50 milljónir á þessu ári.

    Ég veit ekki, eru það miklir peningar, þegar litið er á heildarmyndina ?

    Má bera þennan lið, almenningssamgöngur á Suðurlandi, saman við einhvern annan útgjaldalið sveitarfélagana þar ?

    Ætli þeir á Suðurkandi viti, hvað alemmingssamgöngur kosta sveitarfélög á Höfuðborgarsvæðinu ?
    Og hvað Borgarlína mun koma til með að kosta ?
    Má bera þann kostnað saman við aðra samfélagslega þjónustu á Höfuðborgarsvæðinu, t.d. rekstur grunnskóla eða heilsugæslu ?
    Ég hef alltaf áhuga á samanburði, oghugmyndum um, hve miklu við eigum að kosta til.

    Eru almenningssamgöngur hluti af samfélagsþjónustu, eins og skólar og heilsugæsla, sem kosta mikla fjármuni ?
    Má gagnrýna, hvað almenningssamgöngur kosta ?
    Eru einhver sársaukamörk varðandi þann kostnað ?

    Ég hef einhverja reynslu af almenningssamgöngum á Suðurlandi, en sú reynsla er 12-13 ára gömul. Almenningssamgöngur á Suðurlandi hafa batnað síðan þá, það eru t.d. komin vísir að almeningssamgöngum í byggðina við ströndina á Árborgasvæðinu. Þær voru ekki til, að neinu marki, fyrir 12 árum síðan.

    Mín reynsla, af almenningssamgöngum á Suðurlandi varð einmitt til þess, að ég keypti mér minn fyrsta brúksbíl til einkanota.
    Hafði áður alltaf rekið bíl með fjölskyldunni.
    Það var gríðarlega mikil bylting, til hins betra, að losna úr almenningssamgöngum og hjólreiðum, yfir í einkabíl.

    Hef reynt að nýta almenningssamgöngur á Höfuðborgarsvæðinu í nokkur ár, það er mikill hvati til að eignast aftur sinn eigin einkabíl.

  • Í Osló munu vera uppi hugmyndir um að hefja tilraunir með einhvers konar sjálfakandi vagna strax á næsta ári og að um 50 slíkir verði komnir í notkun innan þriggja ára. Þar kvað yfirmaður almenningssamgangna hafa sagt eitthvað á þá leið að samgöngur sem hefjast þar sem fólk er ekki og enda þar sem fólk ætlar sér ekki að fara henti ekki almenningi. Menn virðist því á dálítið annarri línu í þeirri borg.

    Annars afrekaði ég það á fyrri hluta ársins 2016 að nota ekkert vélknúið farartæki í rúma fjóra mánuði, á meðan ég starfaði í bæ í útjaðri erlendrar borgar. Alla þjónustu sem ég þurfti á þeim tíma var að finna á u.þ.b. 1200 metra gönguleiðinni á milli vinnustaðar og náttstaðar.

  • Hilmar Þór

    Þetta er rétt hjá þér stebbi. Lerco talaði um rafdrifin hlaupahjól (ef ég skildi hann rétt) sem komu á markaðinn vestra nýlega. Hann sagði að þau hafi náð slíkum vinsældum að það hafi þurft að setja reglugerð um notkun þeirra einhversstaðar. Notendur í viðkomandi bæ skiptu þúsundum. Ég fyrir minn hlut geng nánast allra minna ferða vestan Snorrabrautar ( ég bý í 107)´. Ég mæli gönguna sem er milli 6 og 12 km á dag. Ég get vel séð mig nota rafdrifið hlaupahjól þegar ég fer lengri leiðir sem eru kannski 5 kílómetrar. Þá þarf ég ekki að nota einkabílinn dögum saman nema til þess að versla enda hafa skipulagsyfirvöld flut matvöruverslanirnar burt frá neytendunum út á hafnarsvæðin á Granda og þannig stuðlað að meiri bifreiðaumferð. Kannski maður skoði þessi hlaupahjól.

  • „Hann setti fyrir sig ferðalagið heiman frá sér að hraðvagnastöðinni og aftur af stöðinni að vinnustað sínum.“

    Þetta er veiki punkturinn í almenningssamgöngum. Þess vegna held ég að alskyns smátæki sem hægt er að ferðast með á stígakerfinu muni ná stórum hluta af ferðum sem taka 10-20 mínútur á slíku tæki. Það mun bitna á allmenningssamgöngum og styttri ferðum með einkabílnum. En ég sá líka á netinu 15 kg samanbrjótanlegt rafmagnshjól úr carbon sem auðveldlega má taka með í strætó. Kostaði 2000 pund. Ekki er öll nótt úti. 🙂

  • Gunnar Björnsson

    Getum við lært eitthvað af amerikönum? Eftir að hafa komið til Florida alloft get ég ekki séð ástæðu til að sækja ráð vestur um haf. Það hljómar eins og brandari að skipulagsstofnun leiti vestur þar sem almenningssamgöngur eru verstar.

  • Dennis Davíð Jóhannesson

    Fyrirlestur Nico Lerco var frísklegur, faglegur, fróðlegur og fordómalaus og án sölumennsku hugmynda. Hann hvatti til þess að menn settu sér skýr markmið og heldu utan um þróunina en létu hana ekki eftir markaðsöflunum.

  • Heimir H. Karlsson

    Mjög áhugaverð og góð grein.

    Takk fyrir umfjöllun um þetta málefni.
    Mjög áhugavert.

    Ég er mjög hrifin af hugmyndinni um einhverskonar sjálfkeyrandi bíla eða vel skipulögðu og vel stýrðu kerfi deilibíla, sem almenningssamgöngum.
    Tæknilega ætti slíkt að vera mögulegt.
    Erum við ekki að sjá frumkvöðlastarfsemi í slíka átt ?

    Ég hef enga trú á Borgarlínu, af þeirri einföldu ástæðu að ég nota Strætó daglega.
    Strætó er einfaldlega vonlaus.

    Á venjulegum degi nota ég 5-6 strætisvagna til að komast leiðar minnar.
    Er nákvæmlega klukkutíma að fara leið, sem ég færi á 12-15 mínútum á einkabíl.
    Stundum enn lengur.
    Já, ég hef ítrekað mælt þetta.

    Strætó er einnig mjög oft á eftir áætlun, sem er alveg sérstaklega óþægilegt, einkum ef notandi ætlar sér að nýta tengimöguleika við aðra vagna.

    Ekki er við umferð einkabíla að sakast, því ekki er mikil umferð einkabíla á Sæbrautinni klukkann 22 á kvöldin, þegar Strætó númer 12 er á ferðinni.

    Það sem er verst við, að Strætó sé óáreiðanlegur og seinn í förum, miðað við einkabíl er, að notandi Strætó leitar allra annara leiða til að ferðast, og hættir að nota Stætó.
    Kostnaður og umhverfissjónarmið lenda þá í öðru sæti.
    Mikilvægara er, að geta treyst því að komast á réttum tíma á ákvarðanastað hvernær sem er sólarhringsins.

    Slíkt er vonlaust með Strætó.

    Ég hef enga trú á, að Borgarlína muni breyta nokkru þar um.
    Borgarlína er ekkert annað en fallegt nafn á Strætó með forgangsakreinum og með rándýrum skiptistöðvum.

    Það er önnur ástæða gagnrýni minnar á Borgarlínu, hrikalegur kostnaður, sem mun leggjast á alla þá sem búa í borg sem hýsir Borgarlínu, hvort sem þeir nota fyrirbærið eða ekki.
    Likt og bent er á hér að ofan, þá eru takmörk fyrir því, hve miklu má fórna fyrir samgöngur.

    Kveðja,
    Heimir H. Karlsson.

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af sex og átta? Svar:

Höfundur

Hilmar Þór Björnsson arkitekt
Tilgangur síðunnar er að kynna arkitektúr, skipulag og staðarprýði ásamt því að stuðla að umræðu um efnið. Það sem fram kemur ber ekki að skilja sem skoðun höfundar heldur hugleiðingu sem sett er fram í þeim tilgangi að vekja lesendur til umhugsunar og skoðanaskipta. Tekið er á móti aðsendum greinum þegar það á við, sem þá eru á ábyrgð höfundar aðsends efnis.
Athugasemdir við færslur eru velkomnar. Þeir sem vilja koma skilaboðum til ábyrgðarmanns beint er bent á netfangið hilmarstofunni@gmail.com
RSS straumur: RSS straumur

Færslusafn