Mánudagur 01.04.2019 - 07:37 - Rita ummæli

Nýr Skerjafjörður – Rammaskipulag.

Rammaskipulag Skerjafjarðar hlaut á dögunum skipulagsverðlaun Skipulagsfræðingafélags Íslands 2018.

Skipulagið er unnið af ASK arkitektum í samstarfi við Landslag fyrir umhverfis- og skipulagssvið Reykjavíkur.

Þetta er framúrskarandi deiliskipulag sem tekur mið af nútímahugmyndum um skipulag að því er sagt er. Þarna er hugað að breyttum ferðavenjum, mengun, sóun, umferðatöfum og sjálfbærni auk þess að hugað er sérstaklega að gróðri.

Þetta eru auðvitað ekki nýjar hugmyndir enda flest af þessu verið í umræðunni allar götur síðan bókin „Limits to Growth“ kom út árið 1972 þar sem fjallað var um neyslu, mengun og sóun samfélagsins, eyðingu skóga og slæmar horfur fyrir mannkynið að óbreyttu.

Fyrir 40 árum var haldið mikið þing á Kjarvalsstöðum á vegum landssamtakanna Líf og Land undir yfirskriftinni „Maður og Borg“.  Þar komu margir fyrirlesarar inn á fyrirsjánlegar breytingar í ferðamáta, neyslu og landnotkun. Menn ræddu nauðsynlegar breytingar á áherslum í aðalskipulagi, ferðamáta og sóning (Landnotkun) ásamt aðlögun að eldri byggð og staðaranda  (sem það hét auðvitað ekki á þeim dögum) og margt fleira gott. Margir muna eftir „Grænu byltingurnni“ á þeirri tíð sem var jafnvel gert grín að. Það var líka gert grín að hugmyndinni um að gera Laugaveginn frá Snorrabraut að göngugötu,  eins og sem kynnti á skipulagssýningu á Kjarvalstöðum árið 1977 eða fyrir 42 árum.

Það vekur ahygli hvað allt gott gerist hægt. Nú rúmum 40 árum síðar eru þessi sjónarmið viðurkennd og orðin forsenda í skipulagsgerð eins og kemur fram í rammaskipulagi um Nýjan Skerjafjörð. Því ber að fagna.

Þetta verðlaunaða rammaskipulag byggir á stefnu sem mótuð var í ágætu aðalskipulagi Reykjavíkur AR2010-2030 þar sem mikilvæg stefnubreyting varð á skipulagi borgarinnar.

Samkvæmt skipulaginu átti að breyta borginni úr borg fyrir bíla í borg fyrir fólk. Ytri mörk byggðarinnar var mörkuð og stefnt að meiri þéttingu og þar með aukinni þjónustu og líflegra borgarlífi í borgarhlutunum. Það var stefnt að auknum almenningssamgöngum og því að breyta borginni úr nánast stjórnlausu „urban sprawl“ í línulega, líflega og skemtilega borg með samgönguásnum og síðast en ekki síst átti að stuðla að sjálfbærni borgarhlutanna átta með starfrænu og þéttara Hverfaskipulagi.

Rammaskipulagið er að mestu í samræmi við AR2010-2030 en samt með einu fráviki. Í AR er gert ráð fyrir að þarna verði byggðar 600-800 íbúðir til viðbótar við þær 264 sem fyrir eru sunnan flugbrautarinnar. Mér skilst að helstu rökin fyrir því að byggja einungis 6-800 nýjar íbúðir þarna hafi verið umferðatengingin við aðra hluta borgarinnar sem aðeins er ein. Ekki liggur ljóst fyrir með hvaða hætti þetta verður leyst.  Samkvæmt rammaskipulaginu er gert ráð fyrir 1400 íbúða aukningu á svæðinu þannig að íbúðafjöldinn tæplega sexfaldast á svæðinu sem verður að teljast mjög mikið ef miðað er við markmið aðalskipulagsins.  Hverfið verður samkvæmt þessu um tvöföld stærð  Hagahverfis með Ægissíðunni.

Það er ástæða til þess að óska arkitektunum hjá ASK og Landslagi til hamingju með viðurkenninguna og þetta vistvæna og manneskjulega rammaskipulag.

Það er nokkuð víst að þetta á eftir að verða eitthvað vinsælasta hverfi borgarinnar þegar fram í sækir. Slík eru landgæði svæðisins við Skerjafjörð og hugmyndafræði skipulagsins. Þarna hefur að auki tekist að losa um hinar einsleitu skipulagshugmyndir Graeme Massie fyrir Vatnsmýrina eins og hún kom fram í mikilli samkeppni um svæðið árið 2007-2008 og losa um stífleikann þar um leið og allt verður lífrænna og manneskjulegra. Til hamingju með það.

****

Efst er yfirlitsuppdráttur af svæðinu.

Að ofan er þrívíð mynd sem sýnir svæðið. Græna beltið til vinstri tengir svæðið í framtíðinni að Hljómskálagarði, Tjörninni og miðborginni ef og þegar flugvöllurinn fer. Þarna sést að gert er ráð fyrir nýrri listibátahöfn sem verður utan við fyrirhugaða brú yfir Fossvog. Strax að neðan kemur svo mynd sem sýnir hinar grænu og vistvænu lausnir sem eru ríkjandi í skipulagsmálum á okkar dögum.

 

Næstu þrjár myndir að neðan gefa fyrirheit um lifandi borgarhluta þar sem fólk fer gangandi um hverfið og sækir flesta daglega þjónustu innan hverfisins gangandi.

 

Að ofan er ásýnd hverfisins það sem flugvöllurinn í Vatnsmýri er þarna í fullum rekstri sem líklega verður raunin næstu 2-3 áratugina.

Landið sem Nýr Skerjafjörður á að rísa er alls um 19 hekratar að stærð og er merkt á aðalskipulagsuppdrættinum sem Þ5. Þarna á að rísa samkvæmt AR2010-2030 milli 600-800 íbúða byggð. Rammaskipulagið gerir ráð fyrir mjög miklu meira byggingarmagni en aðalskipulagið gerði ráð fyrir eða um 1400 íbúðum auk 20.000 m2 atvinnustarfssemi í húsum sem eru að jafnaði tvær til fimm hæðir. Þetta er meira en 100% þétting. Sú spurning vaknar hvort eina tengingin við borgina um mjóan veg vesturfyrir flugbrautina anni þeim þörfum sem þessi þétting kallar á og svo auðvitað hver hafi verið rökin fyrir því að auka íbúðafjöldann úr 600 íbúðum í 1400?

Þetta er mjög mikil nýting eða um 74 íbúðir á hektara sem er með því allra mesta í Reykjavík.  Til viðbótar við þetta koma svo  um 20.000 m² atvinnu- og þjónustuhúsnæðis eins og fyrr segir. Nýtingarhlutfall skipulagssvæðisins er um 0,85 sem er einnig með því þéttasta sem gerist í svona hverfum. Hvað íbúðafjölda snertir er þetta svæði um tvöföld stærð Haganna og veltir maður nú fyrir sér hvort hægt sé að þjóna svo mikilli byggð með einni aðkomu. Þetta er ekki bara umferðamál heldur ekki síður öryggismál.

Að ofan er dæmi ur þéttleikaskýrslu skipulagsstofunnar ALTA sem sýnir Heimahverfið sem hefur verið talið nokkuð Þétt byggð í Reykjavík. Nýr Skerjafjörður virðist vera helmingi þéttari en Heimarnir. Í heimunum eru 40 íbúðir á hektara án atvinnustarfssemi meðan í Nýjum Skerjafirði er gert ráð fyrir 74 íbúðum á hektara auk 20.000 m2 atvinnustarfssemi sem er mikið á þessum stað. Til samanburðar er minnt á að Kringlan var um 28.000 m2 þegar hún opnaði 1986.

Svo tekið sé dæmi af tveim öðrum hverfum þarna í grenndinni þá eru helmingi færri íbúðir á hektara í Hagahverfinu sem er samt ágætlega þétt eða 34 íbúðir á hektara. Í Skerjafirði eru nú 13 í búðir á hektara meðan að gert er ráð fyrir 74 í nýja Skerjafirði!

Það er vissulega í kortunum að flugvöllurinn fari en það er í fullkominni óvissu hvenær það verði og jafnvel hvort. Vonandi verður flugvöllurinn óþarfur í miðborginni en það þarf vissa áhættufíkn ef menn slá því föstu að hann fari og geri það að forsendu fyrir þessu rammaskipulagi. Vonandi finnst fjármagn til þess að leysa flugsamgöngur við höfuðborgina með viðunandi hætti sem fyrst. En það er ekki á vissann að róa í þeim efnum.

Á myndinni að ofan sést hvernig Nýr Skerjafjörður mun fléttast inn í borgarvefinn í ókominni og óvissri framtíð með stofnbrautum, Strætóleiðum og Borgarlínu. Staðsetning Borgarlínunnar, strætó og stofnbrauta eru í fullkominni óvissu, eðli málsins samkvæmt.

Að ofan er ljósmynd af byggðinni í Skerjafirði eins og hún er nú með 264 íbúðum. Þegar hverfið verður fullbyggt verða þarna 1664 íbúðir með 20.000 fermetra þjónustu og atvinnuhúsnæði til viðbótar.

 

 

Flokkar: Óflokkað

«
»

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af þremur og þremur? Svar:

Höfundur

Hilmar Þór Björnsson arkitekt
Tilgangur síðunnar er að kynna arkitektúr, skipulag og staðarprýði ásamt því að stuðla að umræðu um efnið. Það sem fram kemur ber ekki að skilja sem skoðun höfundar heldur hugleiðingu sem sett er fram í þeim tilgangi að vekja lesendur til umhugsunar og skoðanaskipta. Tekið er á móti aðsendum greinum þegar það á við, sem þá eru á ábyrgð höfundar aðsends efnis.
Athugasemdir við færslur eru velkomnar. Þeir sem vilja koma skilaboðum til ábyrgðarmanns beint er bent á netfangið hilmarstofunni@gmail.com
RSS straumur: RSS straumur

Færslusafn