Miðvikudagur 05.06.2013 - 00:16 - 12 ummæli

Nýr „Þróunar- og samgönguás“ í aðalskipulaginu.

Í gær var samþykkt í borgarstjórn með 13 atkvæðum að auglýsa nýtt aðalskipulag fyrir Reykjavík. Tveir borgarfulltrúar sátu hjá.

Það verður spennandi að heyra rökin fyrir hjásetunni og fylgjast með umræðunni á auglýsingartímanum. Þó mikill meirihluti borgarfulltrúa styðji tillöguna þá þurfa borgarbúar að halda vöku sinni og kynna sér tillöguna rækilega. Aðalskipulagið varðar alla borgarbúa og skiptir miklu um þeirra hag. Aðalskipulag er undirritað af ráðherra og hefur nánast lagagildi.

Fjölmargar nýjungar koma fram í skipulaginu

Að mínu mati er ein athyglisverðasta nýjungin í aðalskipulaginu „AR 2010-2030″   hinn svokallaði “þróunar- og samgönguás“ sem liggja mun eftir borginni endilangri frá Örfyrisey að Keldum.

Hugmyndin gengur út á að binda þessa losaralegu og sundurlausu miðborg saman með ás sem einkennist af borgargötu með þéttleika sem getur borið vistvæna almenningumferð  i háum gæðaflokki í blandi við einkabílaumferð. Áhersla er einnig lögð á góða aðstöðu gangandi og hjólandi vegfarenda á samgönguásnum.

Ef þetta gengur eftir verða Sæbraut og Miklabraut hluti af stoðkerfi borgarinnar líkt og sú aðveita og fráveita sem við þekkjum. Þróunarásinn verður gata þar sem fólk sækir þjónustu, nýtur göturýmanna og velur sér vinnustað og búsetu í grenndinni. Þarna meðfram ásnum opnast mikil tækifæri til verulegrar þéttingar byggðar. Bæði fyrir stærstu fyritæki og stofnanir borgarinnar og verulega fjölgun íbúða.

Þarna verður heildstæð breiðgata sem allir borgarbúar eiga erindi til og skapar línulega borg iðandi af mannlífi, menningu, íbúðum og góðri þjónustu af öllu tagi.

Þessi hugmynd um þróunar- og samgönguás er vissulega rós í hnappagat skipulags borgarinnar og AR 2010-2030.

Mikilvægt er í framhaldinu að engin skipulagsákvörðun verði tekin án þess að hún sé spegluð í þessum áformum. Til þess að þetta heppnist þarf að hvíla hugmyndir um aðrar borgargötur á þessu svæði fyrst um sinn og nota alla krafta til styrkingar hugmyndarinnar.

Efsta myndin er úr drögum AR 2010-2030 sem sýnir með grænum lit hvar þróunar- og samgönguásinn liggur. Á kortinu er afleggjari til suðurs sem vonandi á eftir að ganga áfram um Kársnes og Bessastaðanes alla leið til Hafnarfjarðar þar sem hann tengist leiðinni til Keflavíkurflugvallar. Eðlilegra væri að þessi lína lægi frá Borgartúni um Kringlumýrarbraut til miðbæjar Hafnarfjarðar. En það er ekki mál AR2010-2030 heldur höfuðborgarsvæðisins alls.

Nánar má lesa um aðalskipulagið ar 2010-2013, sem samþykkt var í borgarstjórn í gær á þessari slóð.:http://www.reykjavik.is/desktopdefault.aspx/tabid-3753/

 

Götnar á ásnum frá Örfyrisey austur að Keldum verða endurhannaðar eitthvað í stíl við myndina að ofan. Þarna er almenningsflutningum gert hátt undir höfði meðan einkabíllinn seitlar áfram á forsendum gangandi og hjólandi vegfarenda.  Samgönguásinn eða breiðgatan samanstendur af eftirfarandi götum: Mýrargötu, Tryggvagötu, Hverfisgötu, Laugarvegi, Suðurlandsbraut, Stórhöfða alla leið að Keldum.

Þarna er götunum loks gefið sérstakt hlutverk í borgarlandslaginu. Þótt ótrúlegt sé þá hafa á undanförnum árum verið deiliskipulagðir allir reitirnir milli Hverfisgötu og Laugarvegar án þess að götunum hafi verið gefið skipulagslegt hlutverk í borgarskipulaginu. Ég fyrir minn hlut skil ekki hvernig það var bara hægt! Það er fyrst nú á árinu 2013 sem t.a.m. umræðan er að fara af stað um hlutverk Hverfisgötunnar í skipulaginu. Menn vita ekki enn hvernig gata Laugarvegurinn á að vera, bílagata? göngugata? vistgata? sumargata?, PPS gata eða eitthvað annað!

Að neðan er ljósmynd af hluta Suðurlandsbrautar sem verður í framtíðinni breiðgata með hús beggja megin götunnar samkvæmt AR2010-2030. Vonandi verður ekkert af því.

 

 

Flokkar: Óflokkað

«
»

Ummæli (12)

  • Páll Hjaltason

    Það er gaman að sjá þann áhuga sem er á Endurskoðuðu aðalskipulagi Reykjavíkur. Ég vil benda á að þetta skipulag hefur verið í mikilli vinnu síðustu 6 ár hjá sérfræðingum Umhversfis og skipulagssviðs, í Stýrihóp um aðalskipulag og í Umhverfis og skipulagsráði. Það er því þannig að þó að það sé nú fyrst að koma fyrir sjónir almennings hefur stefna þess verið ljós innan Borgarskipulagsins um nokkuð langan tíma. Allar áætlanir í borginni síðustu ár, þar með talið endurskipulag borgarreita og gatna hafa því verið mátuð inn í stefnu aðalskipulagsins. „Bútasaumnum“ hefur því í raun verið hætt fyrir nokkuð löngu þó að heildarsýnin hafi ekki verið birt fyrr en nú. Áætlanir um endurgerð Borgartúns og Hverfisgötu falla vel að markmiðum aðalskipulagsins. Laugavegur hefur einnig verið í endurskoðun en eitt helsta markmið þeirra skipulaga sem þar hafa verið gerð hefur verið að vernda núverandi götumyndir þannig að verslun og þjónusta dafni.

  • stefán benediktsson

    „Ég fyrir minn hlut skil ekki hvernig það var bara hægt!“ Það er von að barnið spyrji.
    Það gerðist með því að menn gugnuðu á grundvallarþáttum 1962 skipulagsins.
    Þar munar líklega mestu um tengibrautina Hofsvallagötu, Túngötu, Kirkjustræti, Amtmannsstíg, Grettisgötu að Snorabraut og hraðbrautin Fossvogsbraut, Hlíðarfótur Sóleyjargata, Lækjargata.
    Tengibrautin var tröllslegasta áformið en henni fylgdu mikil niðurrif húsa og með ólíkindum að íslendingar í skipulagshópnum hafi ekki bent á að þetta myndi aldrei nokkur maður þora að framkvæma.
    Fossvogsbrautin var stoppuð með mótmælum. Annarsvegar voru nýfluttir íbúar ekki hrifnir og náttúruverndarsinnar sáu hættuna í Hlíðarfótarframkvæmdinni fyrir „Fossvogslögin“.
    Umferðarnetið sem var mjög vísindalega hannað á þeirra tíma vísu kom aldrei til framkvæmda og síðan hafa gatnaframkvæmdir ekki tekið mið af neinni sambærilegri heildarmynd. Gudskelov því það hefði kostað mikið að breyta því.

    • Hilmar Þór

      Já Stefán, þetta Bredstorf skipulag var tröllslegt og nánast óskiljanlegt að þessi tengibraut skuli hafa náð inn í aðalskipulagið með stuðningi heimamanna. Danirnir hefðu aldrei látið þetta ganga yfir sig í sínu heimalandi.

      En það er ekki það sem barnið var að hugsa um. Heldur furðar það sig á að fullorðna fólkið skuli ráða til sín sérfræðinga til þess að deiliskipuleggja alla þessa reiti milli Hverfisgötu og Laugarvegs án þess að vera búið að ákveða hvernig göturnar sem ligggja að reitunum ættu að vera og hvaða hlutverki þær eiga að gegna í borgarskipulaginu. Það þykir barninu ófaglegt og óskiljanlegt. En skýringin er auðvitað sú að fullorðna fólkið sá aldrei heildina enda vann það hörðum höndum að bútasaumsskipulagi eins og Egill nefnir hér að ofan. Nú fyrst er fólkið farið að horfa á heildina. Fullorðna fólkið á mikið slæmt á samviskunni hvað varðar skipulagsmál síðustu áratugina og hefði átt að hlusta meira á börnin.

    • Sveinbjörn

      Ég er sammála Hilmari þar sem hann segir í fyrri pistli um aðalskipulagið: „Mér hefur í raun þótt skipulagsmál borgarinnar hafa verið í óttalegum vandræðagangi“, og þar á hann að líkindum við að þeir sem hafa borið ábyrgð á skipulagsmálunum hafi skort yfirsýn og ekki séð heildarmyndina. Verið í „bútasaumi“ þar til nú!

    • Örnólfur Hall

      Eins og Stefán og Hilmar benda á var þarna ótrúlegt skessuat. Þarna var m.a. böðlast í gegnum Hegningarhúsið eins og ekkert væri.

      — Úr gatnagreinargerð -AR 62-83-:

      — „Gatnaáætlunin gerir ennfremur ráð fyrir annarri tengibraut frá vestri til austurs, í framhaldi Kirkjustrætis, þ.e.a.s. Amtmannsstíg og Grettisgötu. Amtmannsstígurinn er óþægilega brattur, og ryðja þarf leið gegn um tvo byggingarreiti. Til að koma fjórum akreinum fyrir á milli Barónsstígs og Snorrabrautar, þarf að rífa þar niður heila húsaröð. Eru þetta tveggja til þriggja hæða steinhús“.

      — PS: Þar var ekki að ástæðulausu að Kiljan ritaði með vandlætingu um atgang mannanna með reiknistokkana.

      — PS: Stórkostleg framför hefur orðið í skipulagsmálum síðan þá og marga fagra drætti má sjá í nýju AR.

  • Egill ´J.

    Bútasaumstímabilinu í skipulagi borgarinnar er liðið með þessu aðalkipulagi. það er ljóst og því ber að fagna. Menn eru loks farnir að sjá borgina sem eina heild. Nú þarf bara að víkka þetta enn meira og horfa á höfuðborgarsvæðið allt og landsbyggðina, Þá sjá menn að þessi árátta að fjarlægja flugvöllinn er vanhugsuð eins og Árni bendir á að ofan.

    Það má ekki gerast að við bútasaumsskipulaginu taki plástraskipulag samanber hugmyndir um reddingar í Borgartúni sem kynntar voru í gær. Maður reddar ekki slæmu skipulagi með hellulagningu sem er eins og handavinna grunnskólanema.

    Tilvitnun sem brorgarfulltrúar þurfa að taka til sín og hugsa:

    „Mikilvægt er í framhaldinu að engin skipulagsákvörðun verði tekin án þess að hún sé spegluð í þessum áformum. Til þess að þetta heppnist þarf að hvíla hugmyndir um aðrar borgargötur á þessu svæði fyrst um sinn og nota alla krafta til styrkingar hugmyndarinnar“.

    Ergo engar blástrareddingar á borð við Borgartúnsbróderigarnar.

  • Árni Ólafsson

    Miðborgarás frá Kvosinni upp að Keldum er grundvallaratriði. Með honum – og nokkrum áherslupunktum á þeirri leið – verður miðborgarumhverfi í grennd flestra úthverfa borgarinnar. Enn frekar er þetta í samræmi við það hvernig borgin hefur þróast af sjálfu sér eftir holtunum til austurs – þ.e. hvernig atvinnulífið hefur tekið fram fyrir hendur skipulagsyfirvalda og t.d. þróað iðnaðar- og athafnasvæði yfir í eitthvað allt annað – og teygt miðbæjarstarfsemina til austurs. Ég hef líkt þessari leið við það að klappa ketti – mað strýkur honum með hárunum – ekki á móti eða þvert.

    Með Vatnsmýrarskipulaginu yrði borginni klappað þvert á hárin. Spurning hvernig kroppurinn bregst við. Austur -vestur ásinn skiptir hinn almenna borgarbúa miklu meira máli en draumalandið í Vatnsmýrinni – auk þess sem áhersla nýbyggingar á flugvallarsvæðinu er líkleg til að draga kraftinn úr þeirri endurbót á borgarumhverfinu sem felst í austur-vestur áherslunni.

    Í þessu sambandi má benda á punktinn „skapandi borg“ í aðalskipulagsdrögunum sbr. síðustu færslu Hilmars. Með því að aftengja borgina við innanlandssamgöngur er t.d. 17.000 manna byggð skorin frá henni – byggð sem eykur aðdráttarafl Reykjavíkur á heimsvísu „í vaxandi alþjóðlegri samkeppni um fyrirtæki, vinnuafl og ferðamenn“ – þar sem í boði er annars konar búsetuumhverfi, annað veðurfar og önnur tækifæri en í borginni sjálfri. Þetta er Akureyri, sem með góðri tengingu við borgina mun taka þátt í eflingu hennar og aðdráttarafli. Það má vel líta á Akureyri sem uppbót fyrir ýmislegt sem vantar í Reykjavík – útvíkkun á eiginleikum byggðarinnar, sem gætu falið í sér ný sóknarfæri. E.t.v. er það dálítið sjálfhverft að einblína á 17.000 manna byggð í Vatnsmýrinni hvað sem það kostar á öðrum sviðum.

    • Sammála, nema að austurendan ætti að teygja upp í Úlfarsárdal með breyttum áherslum á byggð í því hverfi. Þéttbýlt Keldnaland og Úlfarsárdalur sömuleiðis gætu gefið almenningssamgönguásnum rífandi start.

  • Helgi Hallgrímsson

    Þessi hugmynd um þróunarásinn er mjög góð. Maður óttast samt pínulítið að þetta geti verið erfitt í framkvæmd t.d. á suðurlandsbrautinni þar sem bílastæðin eru inná einkalóðum. Ég þykist vita að kaupmenn þarna muni berjast á móti öllum áformum um að fækka bílastæðum ofanjarðar.
    En hugmyndin er frábær og það eru mörg svæði og götur með mikla möguleika á þessum ás; skeifan, grensásvegur, elliðaárósar o.s.frv.

  • Torfi Hjartarson

    Þetta er mjög metnaðarfullt plagg þar sem stefna borgaryfirvalda um landnotkun, samgöngu- og þjónustukerfi, umhverfismál, þróun byggðar og byggðamynstur er auglýst. Og einmitt þess vegna er mikilvægt að borgarbúum sé gefinn kostur á að greiða atkvæði um skipulagið og helstu megindrætti þess. Íbúalýðræði hlýtur að snúast um eitthvað meira en að kjósa um hraðahindranir eða skipulag róluvalla ef eitthvað er að marka kosningaloforðin. Maður spyr sig líka hvernig borgaryfirvöld ætla að sjá til þess að litlar og ódýrar íbúðir til kaups og leigu rísi í borginni vegna þeirra þátta sem ráða mestu um verðið og borgin hefur stjórn á að mestu leyti s.s. lóðarverði, bílastæðakröfum, fasteignagjöldum, reglugerðum og hæðartakmörkunum sem koma í veg fyrir optimum fjölda íbúða á reitum. Hingað til hefur það verið möguleiki fólks að hefja sinn búskap í ódýrari íbúðum í úthverfum en það virðist nú vera fyrir bí. Manni finnst það líka á skjön við stefnu um að fjölga atvinnutækifærum að flytja flugvöllinn og þar með starfsemi tengda honum úr borginni og enn fremur frá spítalanum sem hann tengist. Það væri í lófa lagið að byggja í Öskjuhlíðinni og hlífa þar með flugvellinum og tryggja þar með áframhaldandi góðar samgöngur við landsbyggðina.

    • Pétur Árnason

      Það er alveg rétt Torfi. Þetta er svo mikið mál að það er ekkert nema sjálfsagt að láta kjósa um þessi „lög“ í nokkrum hlutum( Ekki „allt eða ekkert“ kosningar). Og þegar kosið er um flugvöllinn þá er elðileg lýðræðisleg krafa um að þar taki landsbyggðin þátt í ákvörðuninni. Að lokum bendi ég á grein hæstaréttarlögmans í Mogganum í morgun um skaðabótarétt til handa ríkinu vegna flugvallarins. Spyrja má líka hver á að fá peningin fyrir landið og hvað á að gera við hann. Það er ríkisins að ákveða. Ríkið fer ekki að byggja nýjan flugvöll fyrir fólk sem ekki vill flugvöll í nágrenninu.

  • Sigurbergur

    Eftir því sem maður kynnir sér þetta skipulag betur því meira vex áhuginn. Ég spyr hver hafi unnið þetta flotta verk? Sagt er að það sé að mestu unnið á skipulagssviði borgarinnar. Er það tilfellið?

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af tveimur og fimm? Svar:

Höfundur

Hilmar Þór Björnsson arkitekt
Tilgangur síðunnar er að kynna arkitektúr, skipulag og staðarprýði ásamt því að stuðla að umræðu um efnið. Það sem fram kemur ber ekki að skilja sem skoðun höfundar heldur hugleiðingu sem sett er fram í þeim tilgangi að vekja lesendur til umhugsunar og skoðanaskipta. Tekið er á móti aðsendum greinum þegar það á við, sem þá eru á ábyrgð höfundar aðsends efnis.
Athugasemdir við færslur eru velkomnar. Þeir sem vilja koma skilaboðum til ábyrgðarmanns beint er bent á netfangið hilmarstofunni@gmail.com
RSS straumur: RSS straumur

Færslusafn