Föstudagur 07.06.2013 - 00:22 - 41 ummæli

Vatnsmýrin og aðalskipulagið

 

bilde

 

„Vatnsmýri – Nýr borgarhluti“ er fyrirferðamikill kafli í nýju aðalskipulagi. Þar er farið  yfir sögu svæðisins frá fjórða áratugnum til okkar daga og gerð grein fyrir þeim skipulagstækifærum sem á þessu svæði er að finna.

Ég fyrir minn hlut hef verið fylgjandi því að flugvöllurinn færi úr mýrinni  um leið og annar staður og betri er fundinn fyrir starfssemina. En sá staður hefur ekki fundist. 

Það liggur fyrir  viðskiptahugmynd frá borgarinnar hálfu um hvernig hugsanlegt væri að fjármagna byggingu flugvallar á nýjum stað. Hún gengur út á að það fé sem ríkið hugsanlega fengi fyrir landið  í Vatnsmýrinni verði notað til að byggja nýjan flugvöll í nágrenni borgarinnar. 

Ég hef ekki orðið var við áhuga ríkisins fyrir þessari hugmynd og velti fyrir mér hvort ástæða  sé til þess að halda að ríkið vilji verja milljörðum í að byggja flugvöll í grennd við þá sem úthýsa honum. Er ekki líklegra að ríkið vilji frekar nota féð til þess að greiða niður skuldir sínar eða nota það til þess að láta draum sinn frá góðærinu um nýjan Landspítala rætast?  Allavega hlýtur að vera mikilvægt að borg, ríki og landsbyggðin sé samstíga um málið þó svo að skipulagsvaldið liggi hjá borginni.

En skoðum stöðuna í samhengi við fyrirliggjandi drög að aðalskipulagi höfuðstaðarins AR 2010-2030..

Eitt af meginmarkmiðum aðalskipulagsins er að styrkja Reykjavík sem höfuðborg landsins og forystuafl í vaxandi alþjóðlegri samkeppni um fyritæki og störf. Með þetta markmið í huga mætti ætla að stuðningur við flugvöll í borginni væri eitt af mikilvægustu tækjunum til þess að ná þessu markmiði. Að leggja flugvöllin niður vinnur beinlinis gegn markmiðinu.

Annað veigamesta atriði í aðalskipulaginu er að binda sundurtætta borgina saman með samgöngu- og athafnaás sem liggja mun frá Örfyrisey alla leið austur í Grafarvog og Grafarholt. Stefnt er að þróun línulegrar miðborgar sem er frábært. Vatnsmýrarskipulagið gengur bókstaflega þvert á þetta. Ef áform um línulega miðborg á að ganga eftir þarf að beita öllum kröftum skipulagsyfirvalda til þess að beina öllum fjárfestingum inn á þennan ás og í grennd við hann. Uppbygging í Vatnsmýri á sama tíma mun hægja þá þessari línuborgarþróun. Jafnvel svo mikið að hvorutveggja, Vatnsmýrin og línuborgin munu líða fyrir og í versta falli verða að engu.

Þriðja atriðið sem á vissan hátt stangast á við hugmyndafræði aðalskipulagsins og varðar Vatnsmýrina eru leyfar af góðærishugsunarhættinum, þessu 2007 syndrómi, sem kemur fram í verðlaunatillögunni í samkeppni um Vatnsmýrina frá 2007 og lögð er til grundvallar uppbyggingar þar í aðalskipulaginu.  Ég nefni markmiðið um að  beina sjónum “að hinu smáa og fíngerða í umhverfinu” sem verðlaunatillagan fellur ekki að. Verðlaunatillagan er sérlega stórkallaleg, jafnvel tröllsleg í sínum strúktúr þegar horft er til borgarinnar allrar.

Tvö mál eru einkum áberandi hvað arfleifð 2007 syndromsins varðar. Í fyrsta lagi er það Landspítalinn sem átti að byggja fyrir landssímapeninginn. Því var haldið fram að lítil þjóð gæti ekki farið í slíka megafjárfestingu nema hún ætti fyrir henni. Þegar ákvörðunin var tekin átti þjóðin fyrir spítalanum. Peningarnir voru geymdir í einu besta fyritæki ríkisins, Símanum. Síminn var seldur m.a. til að fjármagna þessa miklu framkvæmd en peningarnir komu aldrei til framkvæmdarinnar. Hin arfleifðin er Vatnsmýrarskipulagið sem var og er í samræmi við þankagang þann sem ríkti í góðærinu. Það eru aðrir tímar núna og 2007 nálgunin er ekki kostur lengur. Þessi góðærisstaða er ekki uppi á borðum lengur og aðalskipulagið þarf að taka mið af henni.

Þó það kunni að vera hagkvæmt að byggja í Vatnsmýrinni þá er það óskynsamlegt af margvíslegum ástæðum sem ég ætla ekki að tíunda hér í stuttum pistil um þátt Vatnsmýrarinnar í aðalskipulaginu.

Hluti aðalskipulagsins sem fjallar um Vatnsmýrina er ekki mikilvæg forsenda þess og það er virkilegt áhyggjuefni ef flugvöllurinn ætlar að verða steinn í götu þeirrar annars frábæru þróunnar borgarinnar sem mörkuð er í aðalskipulaginu.

Auðvitað fer flugvöllurinn þegar hans tími er kominn en það verður vonandi ekki á þessu skipulagstímabili.

Sjá einnig:

http://blog.dv.is/arkitektur/2012/01/13/vatnsmyrarsamkeppnin-upprifjun/

http://blog.dv.is/arkitektur/2011/07/26/tharf-flugvoll-a-reykjavikursvaedid/

http://blog.dv.is/arkitektur/2010/03/16/vatnsmyrin-%e2%80%9cnull-lausn%e2%80%9d/

 

 

Flokkar: Óflokkað

«
»

Ummæli (41)

 • Dennis Davíð

  Fullyrðingar Jónsa arkitekts (?) um randbyggðina virðast stangast á við góða reynslu Jóns Kaldals í Reykjavik og mína í Glasgow. Ég minni Jónsa á að Glasgow er næsta stórborg við Reykjavík og Skotland og Ísland eiga meira sameiginlegt en margan grunar. Ég sé ekki að randbyggð sé óreykvískara en önnur gatnahverfi í borginni. Veit ekki til þess að til séu séríslensk gatnakerfi hér i borg.

  Ég bý nú nálægt Laugardalnum og get fullyrt að er í göngufæri við miðbæinn. Mæli með gönguleiðinni með fram ströndinni við Sætún og Skúlagötu. Góð leið að byrja daginn.

 • Jón Kaldal

  Tvær athugasemdir við innlegg hér að ofan. Annars vegar til Jónsa sem teflir randbyggðinni á reitnum milli Barónsstígs og Snorrabrautar fram sem dæmi um slæma íslenska reynslu af byggingarforminu. Ég veit ekki hvort hann talar af eigin reynslu. Það geri ég. Hef búið á reitnum í tæp sautján ár og vil hvergi annars staðar vera. Næstlengst hef ég búið í Laugardalnum. Þar ólst ég upp í tvíbýlishúsi við Laugarásveg, neðan götu, og gat gengið beint út í dalinn úr garðinum við húsið. Dásamlegur staður, en miðbærinn er betri. Og þar kemur að Halldóri, hér fyrir ofan, sem virðist halda að aðeins sé hægt að fara akandi frá Túna- og Laugarneshverfinu í miðbæinn. Bíllinn stýrir því hugarfari. Hann ætti að prófa að hjóla þarna á milli eða ganga. Það er mun styttra en hann heldur. Að búa í miðbænum kenndi mér að það eru ómetanleg lífsgæði að geta brúkað fæturna til að komast á milli staða.

 • Gaman að sjá hve mikið líf er í þessari umræðu um aðalskipulagið hér á síðunni en kannski athyglisvert hve fáir arkitektar taka þátt að mér virðist.
  Hef aldrei skilið hvað varð til þess að tillaga frá skoska arkitektinum Massie varð hlutskörpust í samkeppni um flugvallarsvæðið á sínum tíma. Hugmyndafræði hennar er þekkt frá helstu borgum Evrópu og er árhundraða gömul og hefur reynst vel á suðlægari slóðum. Sjálfsagt er hægt að skapa þarna sólrík torg, en þær löngu götumyndir sem það skapar eru ekki spennandi. Skipulagið er heldur ekki í neinu jafnvægi við þá byggð sem það leggst upp að og tengist ,né tekur tillit til þeirra bygginga sem áfram eiga að standa.
  Framlögð hugmynd að skipulagi Vatnsmýrar í aðalskipulagi er alls ekki í þeim anda sem ég skildi að væri aðalástæða þess að byggja þyrfti á flugvallarsvæðinu. Var hún ekki sú að styrkja þyrfti gamla miðbæinn með byggingu íbúða- og atvinnuhúsnæðis í göngufæri frá miðbænum. Get ekki betur séð en að meginíbúðarhvefin í Vatnsmýrir framtíðarinnar eins og aðalskipulag leggur til, séu í álíka fjarlægð frá miðbænum og Túna- og Laugarneshverfið. Sem sagt í akstursfjarlægð.

 • Hilmar Gunnarsson

  „Leita tækifæra fyrir smærri og ódýrari lóðir“ átti þetta að vera.

 • Hilmar Gunnarsson

  Mér finnst Vatnsmýrarskipulagið metnaðarfullt en hallast að lífrænna skipulagi eins og einhver nefndi hérna að ofan. Hinsvegar græt ég skattféð sem fer í að lóðsa flugvellinum eitthvað annað og svo veltir maður fyrir sér hvort að lóðarverð verði ekki með dýrara móti ef að nafnið stendur undir sér (vatnsmýri). Í dag er lóðarverð um það bil það eina sem hægt er að brúka til að sporna við himinháum byggingarkostnaði. Eina sem mun breytast á þessum tíma liðnum, þar til skipulagið verður að veruleika, er að byggingarkostnaður mun aukast og dýrar framkvæmdir kalla á hátt fasteignarverð.

  Brýnasta úrlausnarefnið fyrir húsnæðislausa þjóð er að finna leiðir til að lækka byggingarkostnað og leita tækifæra í skipulaginu fyrir smærri og ódýrari

  Kostnaðurinn við Vatnsmyrina mætti vera meira inni í umræðunni. Er furða að við séum alltaf blönk, eða reddast þetta bara?

  • Þóroddur

   Þetta er lykilatriði. Það má ekki gerast að lóðaverð í Vatnsmýri verði lagt á herðar húsbyggjenda. Þess vegna á ekki að hugsa um Vatnsmýrina sem byggingaland fyrr en flugvöllur á höfuðborgarsvæðinu verður lagður niður og flug alfarið flutt til Keflavíkur. Það er ljótur hugsunarháttur að láta búsbyggjendur borga fyrir nýjan flugvöll.

 • Þóroddur

  Skemmtileg umræða… en ekki gleyma fyrri tveim færslunum um aðalskipulagið. Samgönguásinn er snilldarhugmynd sem má ekki glatast. Hann er hryggjarstykki aðalskipulagsins.

 • Dennis Davíð

  Hilmar, ég var að taka eftir því að þú er með tengil in á Vatnsmýrarsamkeppnina-upprifjun hér að ofan. Óþarfi að kynna þetta frekar.

 • Dennis Davíð

  Ég heyri að menn hafa sterkar skoðanir á „grid“ skipulagi“ í Vatnsmýrinni. Sjálfsagt að endurmeta það skipulag áður en Aðalskipulagið verður samþykkt enda bráðliggur ekki á að framkvæma þar. Ég minni á að í bílaborgum USA er víða skipulagt samkvæmt „grid“ skipulagi, t.d.Chicago og New York, þó ég sé ekk beinlínis að bera þær saman við Reykjavik. Þar eru bílastæðin leyst í sérstökum bílastæðahúsum ýmist ofan jarðar eða neðan.

  Ég hvet Hilmar til að kynna aftur verðlaunatillögu skosku arkitektastofunnar Graeme Massie og rökstuðing dómnefndar fyrir valinu, þannig að menn geti betur myndað sér skoðun um hana, þar sem nokkuð er liðið síðan sú hugmyndasamkeppni var haldin eða árið 2007.

  Ég hallast hins vegar að því, að á næstu árum beri að leggja aðaláherslu á að styrkja hin eðlilega, línulega þróunarás frá Kvosinni að Keldum. Þar bíða ótal spennandi tækifæri.

 • Gaman væri að fá randbyggðarfærslu með myndum 🙂

 • Hilmar Þór

  Ég veit ekki hvort ég eigi að blanda mér í þessa randbyggðarumræðu. En ég held að það sé rétt hjá Dennis að hnattstaðan skiptir litlu máli og veðurfarið líka. Ég held líka að umferðahraðinn verði ekki mikið meiri í þessu „grid“ skipulagi sem áformað er í Vatnsmýri en annarstaðar í borgasrumferðinni.

  Hinsvegar held ég að það sé ekki hægt að bera þessi meira en 100 ára gömlu randbyggðarskipulög (Barselona, Glasgow og víðar) við eitthvað sem áformað er á næstu árum hér í borg og kemur þar margt til.

  Ég nefni eitt.

  Fólk átti almennt ekki bíla fyrir 100 árum og alls ekki fyrir 130 árum. Þess vegna voru allar verslanir og markaðir í göngufæri. Uppúr miðri síðustu öld eignaðist fólk almennt bíla og fór lengri vegalengdir til þess að versla. Húsaleiga í gömla verslunarhúnæðinu féll niður í nánast ekkirt. Í þetta ódýra húnæði komu allskonar einsmannsfyritæki. Listiðnaður og saumakonur seldu varning sinn þarna í nánast fríju húsnæði. Skósmiðir og lítil verkstæði voru þarna. Þetta eru fyritæki með litla veltu og eru flest rekin frá hendinni til munnsins með engum hagnaði og oft ekki einusinni með hagnaðarvon.

  Ný randbyggð getur ekki boðið uppá nánast ókeypis húsnæði á jarðhæð. Það er bara þannig eins og dæmin sanna.

  Og svo er það alda g0ömul borgarmenning sem hjálpar gömlu hverfunum í umræddum borgum.

  Það er búið að margreyna nýja randbyggð með þá sýn (vision) arkitektanna að þar verði ástand eins og við þekkjum víða í Evrópu (Barcelona) en aldrei tekist.

  Ég nefni Albertslund (1965) nálægt Kaupmannahöfn. Þar varð húsnæði fyrir verslanir svo dýrt að enginn smákaupmaður , skósmiður eða reiðhjlólaverkstæði hafði efni á að reka fyrirtæki sitt þar.

  Svo maður færi sig nær nútímanum og skoðar Sluseholmen (2006-2008) í Kaupmannahöfn þar sem allir færustu arkitektar Danmerkur teiknuðu sín hús í randbyggðinni. Það tókst heldur ekki þegar borið er saman við umræddar gömlæu randbyggðir. Þar eru fáir á gangi (allir aka beint niður í bílakjallarann) og verslun er ein (síðast þegar ég gekk þar um var þar ein IRMA verslun) og hverfisknæpan hundleiðinleg vegna fámennis og einsleitins viðskiptamannahóps.

  Svo getum við fært okkur til Reykjavíkur og skoðað bryggjuhverfið við Grafarvog sem vissulega er skipulagt sem randbyggð þó ekki með grindarskipulagi eins og fyrirhugað er í Vatnsmýri. Þar er heldur enginn á gangi (allir í bílakjöllurum) og verslun og þjónusta ber sig ekki.

  Það er veik von um að þetta lagist eitthvað þegar hverfið stækkar eins og gert er ráð fyrir í nýju aðalskipulagi. En ég efast um að það takist að blása einhverju Barcelónalífi í randbyggðina við Grafarvog.

  Að þessu sögðu þá held ég mig við þá skoðun mína að randbyggðarskipulag vVatnmýrar egi að setja á ís næstu 20-30 árin þar til þróunarásinn hefur fest sig í sessi og orðin eftirsótt perla Reykjavíkur og í framhaldinu að endurskoða rækilega fyrirliggjandi hverfaskipulag í Vatnsmýri. Það gerist svona um miðja þessa öld, í fyrsta lagi.

  • Hilmar Þór

   Gleymdi einu.

   Ein meginástæðan fyrir líflegum randbyggðarhverfum í Barselona, Nörrebro og víðar er sú að þar eru nánast engin bifreiðastæði (aðeins með götum) Það gerir það að verkum að flestir fara gangandi allra sinna ferða sem aftur færir líf í göturnar. Þá er næst að spyrja.: (Svo maður ögri svoldið) Verður skipulagður gengdarlaus bifreiðastæðaskortur í Vatnsmýri framtíðarinnar?

 • Ég er Degi B. Eggertssyni mjög þakklátur fyrir að hafa bent mér, hér að ofan, á slóð að gögnum um endurskoðað aðalskipulag Reykjavíkur og ég vil hvetja alla sem láta sér annt um framtíð borgarinnar að lesa í gegnum þau gögn – og sérstaklega þá sem þekkja muninn á „deductive“ og „ınductive reasoning“. Ekki minnkuðu mínar áhyggjur samt við þann lestur og hvergi gat ég fundið neina faglega skilgreiningu á helstu þróunarvandamálum höfuðborgarinnar okkar sem þó hefði hugsanlega verið rétt að eyða svolitlu púðri í.
  Í upphafi greinargerðar með aðalskipulaginu segir: „Í aðalskipulagi er sett fram sýn um þróun borgarinnar til langrarframtíðar. Í aðalskipulagi er ákveðið hvar framtíðar íbúðarhverfin og atvinnusvæðin verða, hvar nýjar götur og stígar liggja og hvaða svæði verða tekin frá til útivistar.“ Ekki hef ég hugmynd um hvað þetta orð „sýn“ þýðir – hvort það þýðir stefna, þ.e. eitthvað sem borgaryfirvöld skuldbinda sig til að stefna að – eða það sem engilsaxar kalla „vision“ eða skýjaborgir á íslensku.
  Margt annað er áhugavert í þessum gögnum. Þar segir m.a: „Ein af megin forsendum endurskoðunar aðalskipulags Reykjavíkur er að stuðla að jákvæðri þróun samfélags“ og ennfremur: „breytt atferli íbúanna stuðlar að því að hámarks árangri sé náð“. Nú er það einu sinni svo að það hefur vafist talsvert fyrir fólki að skilgreina nákvæmlega hvað sé jákvæð þróun og margir telja líka varhugavert að reyna að breyta atferli fólks of mikið ofanfrá.
  Um umferðarmál segir í Umhverfisskýrslu: „Gangi (íbúaspá aðalskipulagsins) eftir án þess að ferðavenjur borgarbúa breytist verulega þ.e. þróist líkt og sviðsmyndir 1 og 3 gera ráð fyrir, er gert ráð fyrir 26% aukningu í umferðarmagni. Slík þróun er líkleg til að hafa í för með sér mjög neikvæð áhrif á t.d. hljóðvist, loftgæði, losun gróðurhúsalofttegunda, ásýnd borgarinnar og landrými.“ Engin tilraun er samt gerð til að lýsa ástandinu ef Öskjuhlíðargöng (2+2 akreinar) og Sundabraut (2+2 akreinar) koma ekki til framkvæmda.
  Kafli um hækkun á yfirborði sjávar er líka áhugaverður: „ Þau þróunarsvæði sem verða fyrir mögulegum áhrifum sjávarflóða með 100 ára endurkomutíma eru íbúðabyggð í Vatnsmýri, Granda, við Gömlu höfnina og Miðborg, Kirkjusand og Köllunarklettsveg og Elliðaárvog. Á þessum svæðum, sem eru innan afmarkaðra svæða sem fara undir sjó ef yfirborð hækkar um 6 m, eru fyrirhugaðar um 2.000 til 3.000 nýjar íbúðir á skipulagstímabilinu. Einnig yrðu svæði fyrir blandaða starfsemi og hafnarsvæði sem fyrir áhrifum sjávarflóða með 100 ára endurkomutíma.“

  Íslenskur almenningur hefur ákaflega litla möguleika til að setja sig inn í þessi mál nema fólk eigi ókeypis aðgang að hlutlausum sérfræðingum sem geta útskýrt hvað þarna hangir á spýtunni.

  • Sveinn Björnsson

   Gestur bendir hér á nokkur veigamikil atriði sem við leikmennirnir höfum ekki hugmynd um enda enga burði til að skilja eða finna í skjalaflóðinu. Mér finnst hugtakið „sýn“ ekki eiga heima í aðalskipulagi sem er nánast ófrávíkjanleg „stefna“ og alls ekki „vision (sýn).

   Gestur bendir hér á nokkur atriði sem þarf að skýra.

   Væri ekki rétt að halda ráðstefnu um aðalskipulagið sem væri byggt á frummælendum sem andmæltu skipulaginu og svo mundu höfundarnir halda uppi vörnum!

 • Dennis Davíð

  Ég vil benda Jónsa á að veðurfar í Glasgow er ekki fjarri því sem það er í Reykjavík, aðeins hlýrra. Háhýsi eru hins vegar ekki leyfð í gömlu miðborginni, sem lyggur að ánni Clyde, og nýtur hverfisverndar. Ég bjó þarna í fimm ár og þekki aðstæður nokkuð vel.

  • Dennis.

   Við vitum að það er prýðis reynsla af svona skipulagi víða í veröldinni. En Glasgow er heldur ekki á Íslandi sama hveru ranbyggðin dugir vel í Skotlandi. Björn talar um vindinn sem hægja má á með bognum götum og sama með hraða umferðarinnar sem er minni í bognu reykvísku gatnakerfi en línuleg og beinu randbyggðarskipulagi. Svo mátt þú ekki gleyma því að þær borgir sem nefndar hafa verið byggja á borgarmenningu sem er fleiri hundruð ára gömul. Við höfum ekki svona rótgróna menningu hér fyrir utan að verlsunar og þjónustumenningin er með öðrum hætti hér og nú. En hún var og er að vissu marki eins í tilvitnuðum borgum fyrir meira en 100 árum. Og ég endurtek; Glasgow er í Skotlandi og byggð fyrir skota fyrir meira en 100 árum á grundvelli aldagamallar borgarmenningu. Arkitektar eru ekki nægilega meðvitaðir um staðinn og eru sífellt að flytja inn hugmyndir sem gefir hafa vel erlendis. En það gengur ekki alltaf eftir og alls ekki þessi randbyggðarhugmynd Vatnsmýrarskipulagsins.

 • Gu[mundur Gu[mundsson

  Fyrr í þessari umræðu kom fram áhugaverð hugmynd.

  Hún var um brú frá Fossvogi yfir í Kársnes og þaðan áleiðis á Bessastaðanes.

  Þá gæti skapast umferðarás frá Sóleyjargötu sem fylgir núverandi N/S flugbraut áleiðis til Keflavíkur. Þetta gæti gjörbreytt Samgöngukerfi hæfuðborgarsvæðisins. Hugsanlega mætti setja umferðina í göng / stokk undir núverandi N/S flugbraut.

  Ef flugvöllurinn verður fluttur legg ég til að Keflavík verði valin.

  Fjárhæðirnar sem sparast við að byggja aukaflugvöll má nýta í „fluglest“ frá Keflavík til til Reykjavíkur.
  Hinn leggur lestarinnar lægi síðan frá Örfirisey upp í Grafarholt eftir þéttingarás næstu áratuga.

  Auk þess að þjóna flugfarþegum myndi þessi lest gera Suðurnesin og StórRVK að einu atvinnu og búsetusvæði.

 • Dennis arkitekt og fl. þurfa að átta sig á því að Barselona er á Spáni og Reykjavík á Íslandi. Staðarandinn, veðurfar og allir mótandi þættir eru aðrir og öðruvísi á þessum tveim stöðum. Það var horfið frá beinlínu reitaskipulagi í Reykjavík fyrir meira en 60 árum góðu heilli. Ástæðan er m.a. sú sem Björn fer yfir hér að ofan en það kemur líka margt fleira til. Randbyggð hverfi hafa átt erfitt uppdráttar í Reykjavík, einkum félagslega, samanber reitirnir milli Barónstígs og Snorrabrautar sem eru skipulagslega eins og þeir fyrirhuguðu í Vatnsmýrinni. Nei höldum okkur við „reykviskt“ gatnaskipulag.

 • Kristín Guðmunds.

  Það er engin ástæða til þess að láta svona talnarugling slá sig út af laginu. Þetta er eina bloggið sem ég les reglulega. Ég er sammála Degi: Áfram með smjérið.

 • Dagur B. Eggertsson

  Sæll Hilmar, og þakka þér viðbrögðin.

  Ef stærri mistök hefðu ekki verið gerð í skipulagi Reykjavíkur en að taka feil á tölum, þá værum við í góðum málum!

  Fyrir alla muni ekki hætta að skrifa og standa fyrir faglegri umræðu um þessi mál.

  Kv. Dagur

 • Dennis Davíð

  Skoðun:

  Ég verið að skoða drögin að nýju Aðalskipulagi sem mér finnst að mörgu leiti afar metnaðarfullt og nútímalegt. Margt er löngu tímbært eins og hverfisvernd og takmörkun hæða húsa í miðborginni innan Hringbrautar og ber að fagna. Ymislegt fleira mætti upp telja svo sem hinn svokallaði “þróunar- og samgönguás” sem liggja mun eftir Borginni endilangri frá Örfyrisey að Keldum. Þarna hefur miðborg Reykjavíkur þróast frá upphafi byggðar og þarna vill miðborgin vera. Aðalskipulag Borgarinnar hefur fram til þessa ekki alltaf stutt þessa þróun með markvissum hætti og stundum beinlínis unnið gegn henni t.d. með skipulagi nýs miðbæjar í Kringlunni og með því að skera á Suðurlandsbrautina við Elliðaárvog. Nú skapast tækifæri til að bæta fyrir þau mistök og styrkja þennan ás sem er Borginni svo eðlilegur.

  Varðandi verðlaunatillöguna um Vatnsmýrina þá má benda á að sambærilegt „gridplan“ er að finna víðar í Reykjavík innan Hringbrautar. Það er einnig að finna í miðborgum Glasgow og Barcelona sem byggðust aðallega upp á 19.öld. Þeir þykja líflegir og eftirsóttir áfangastaðir sem virka vel sem borgarumhverfi.

  Aðalskipulag er og verður aldrei fullkomið – sem betur fer. Það þarf að vera í stöðugri þróun og endurskoðun, því tímarnir breytast. Eðli samkvæmt þarf að gera málamiðlanir, samræma og sætta ólík sjónarmið og gildismat. Flugvöllurinn er eitt slíkt mál sem vonandi tekst að leysa farsællega. Skipulagsvaldið hlýtur þó endanlega að liggja hjá Reykjavíkurborg og íbúum hennar.

 • Dagur B. Eggertsson

  Takk fyrir að taka þátt í því að hefja umræðu um aðalskipulagið, Hilmar.

  Ég virði umhyggju þína fyrir flugvellinum og held að margir deili reyndar afstöðu þinni að vilja að hann fari þegar fundinn hefur verið ástættanleg staðsetning. Til að dýpka þá umræðu þarf að fjalla um hvað er ásættanlegur ferðatími á innanlandsflugvöll, hvaða markmið eigi að leggja til grundvallar o.s.frv. Góður grunnur var lagður að því í ítarlegum úttektum sem gerðar voru 2005-2007. Þær er að finna hér (best að byrja á samantektarskýrslunni og rekja sig svo áfram): http://www.innanrikisraduneyti.is/verkefni-raduneytis//flugmal/utgefni/nr/22201

  Nokkuð hluti umræðunnar hér að ofan sýnast mér byggða á misskilningi. Uppbyggingaráform aðalskipulagsins hafa verið mislesin um 10.500 íbúðir á skipulagstímabilinu, en gert er ráð fyrir 14.500 íbúðum en ekki 25.000 einsog hér er lagt út frá. Lykilsvæðin eru þrjú: Gamla höfnin/miðborg, Elliðaárvogur og Vatnsmýri. Þetta hangir allt saman í heildstæðri mynd. Ég mundi því vilja heyra frekari rök fyrir þvi að byggð í Vatnsmýri og línuborgin stangist á, líklega byggir sú afstaða á þessum mislestri.

  Mér finnst ekki vel rökstutt að verðlaunatillagan um Vatnsmýrina sé „2007“. Er hún ekki frekar 1807 eða 1607? Eða kannski bara 1930? Þetta er klassískt evrópskt borgarskipulag með tiltölulega lágum byggingum í mannlegum kvarða sem minnir ekkert á þær óskir og tillögur sem verktakar voru að leggja fram í Reykjavík 2007 en hins vegar töluvert á klassískt skipulag evrópskra borga. t.d. „nýja hluta“ Edinborgar sem er yfir 200 ára gömul og eldri hluta Kaupmannahafnar, svo eitthvað sé nefnt. Eða hvað er átt við?

  Úr skipulagssögu Reykjavíkur kallast vinningstillagan mest á við klassískt skipulag Einars Sveinssonar húsameistara og er hægt að líta á sem afturhvarf til þess. Blandist einhverjum hugur um gildið sem í heildarskipulaginu/vinningstillögunni felst bendi ég á breytingarnar sem urðu í kjölfar þess á skipulagi við Hlíðarenda, skipulagi Vísindagarða og skipuagi Landsspítala. Þéttleikinn er líka svipaður hverfunum sem Einar lagði grunn að í Vesturbænum, t.d. Melunum.

  Það má auðvitað mjög margt um þetta segja. Umræðan heldur áfram. En Gestir Ólafssyni ofl bendi ég á að þeir verða ekki sviknir af því að lesa og kynna sér aðalskipulagstillöguna áður en umræðan hefst. Þróun borgarinnar inn á við dregur úr umferð (áframhaldandi útþennsla myndi hins vegar auka hana). Þessi staðreyndar virðist oft fara fyrir ofan garð og neðan. Þetta kemur skýrt fram í umhverfismatinu með tillögunni. Raunar er margt í skipulaginu má þó segja að sé gott framhald af ýmsu því sem skipulagsstofa höfuðborgarsvæðisins benti á og setti fram undir forystu Gests á áttunda áratugnum. Kannski meira um það síðar.

  Læt hér fylgja tengla á kafla skipulagsins og fylgigögn:

  http://www.reykjavik.is/desktopdefault.aspx/tabid-2342/6201_view-6060/

  • Hilmar Þór

   Ég er miður mín og um leið þakklátur Degi B. Eggertssyni fyrir að benda á mistök mín í pistlinum þar sem ég blanda saman tveim tölum. Annarsvegar íbúafjölda og hinsvegar íbúðafjölda. þetta er sannarlega mislestur hjá mér sem ruglar málflutning minn hvað þetta varðar. Svona mistök eiga ekki að eiga sér stað.

   Ég fjarlægi þennan hluta færslunnar enda á hann ekkert erindi í umræðuna.

   Ég bið afsökunar á þessu.

   Þegar mistök og yfirsjón af þessu tagi á sér stað veltir maður fyrir sér hvort maður eigi ekki að hætta þessum skrifum. Það er sjálfsagt að fólk geti treyst því sem skrifað er og sagt er í dægurmálaumræðunni.

  • SIgurður Guðmundsson

   Hafðu ekki áhyggjur af þessu Hilmar. Öllum verður einhverntíma á.

 • Ég held því miður að full ástæða sé til að hafa miklar áhyggjur af framkomnu aðalskipulagi í Rvk. Svo eitthvað sé nefnt þá hef ég hvergi séð neina faglega greiningu á þróunarvandamálum borgarinnar til framtíðar eða mismuandi lausnir á þeim og heildstætt mat á þessum kostum sem þá væri hægt að ræða og taka vitlega afstöðu til. „Þétting byggðar“ er ekki nein allsherjarlausn. Ef á að byggja 25.000 íbúðir vestan Elliðaáa kallar þetta óhjákvæmilega á mikið álag á núverandi gatnakaerfi og mun lækka þjónustustig þess verulega. Gatnakerfið er nú einu sinni sameign okkar allra og hannað til þess að flytja fólk og vörur auðveldlega. Ef við gerum líka ráð fyrir einu bílastæði á hverja þessara íbúða þurfa þær 62 ha bara fyrir bílastæði.
  Guðmundur Björnsson veltir fyrir sér hér að ofan púnktalínum í skipulaginu sem stefna á Öskuhlíðina. Þetta munu vera svokölluð Öskjuhlíðargöng sem munu kosta 10 milljarða og eiga að liggja áfram undir Kársnesið og alla leið í Smárann. Önnur vegartenging til vesturs er Sundabraut sem mun kosta 60 milljarða. Við hljótum að spyrja hvernig ástandið vestan Elliðaáa verður ef við viljum ekki þessar götur eða ef við höfum eitthvað betra með peningana okkar að gera? Við getum líka spurt hvort líklegt sé að vilji verði fyrir hendi eða geta til að framkvæma aðalskipulagið? Annars eru þetta bara óskadraumar, svona rétt fyrir kosningar. Aðalskipulag Reykjavíkur er heldur ekki til í tómarúmi. Bæði svokallað landsskipulag og svæðisskipulag höfuðborgarsvæðisins eru því rétthærri, en hvorugt þessara skipulagsþrepa hafa verið samþykkt eða nýlega endurskoðuð í heild.
  Allt eykur þetta á óvissuna sem megintilgangur aðalskipulags er að eyða.

 • Steinarr Kr.

  Þetta lítur svolítið út eins og klassískt íslenskt bútasaumsskipulag. Held að betur sé heima setið en af stað farið.

 • Hér eru tillögurnar út Vatnsmýrarsamkeppninni 2008http://www.vatnsmyri.is/isexhib.asp . Annars er ég sammála Hilmari að einblína á þá þætti sem ekki eru óeining um. Mín skoðun er samt sú að flugvöllurinn eigi heima á öðrum stað.

 • Ef leggja á fyrri brautina niður 2016 þá er ekki seinna vænna en að fara að deiliskipuleggja nú þegar því deiliskipulagið þarf að harmonera með skipulaginu sem kemur þar sem austur vesturbrautin er nú.

  Hana á að leggja niður eftir 10 ár.

  Tíminn flýgur.

  Byrjið strax a mánudaginn að leggja drög að skipulagi vatnsmýrarinnar.

 • Hilmar Þór

  Auðvitað hafa menn misjafnar skoðanir á öllu sem gert er og geta gert grein fyrir þeim með einhverjum rökum. Mér finnst verðlaunatillagan ekki spennandi en hún er auðveld aflestrar og heillar mann við fyrstu sýn.

  En hvað mig varðar þá fellur hún við nánari kynningu og verður sífellt stórkallalegri eftir því sem maður kynnist henni betur.

  Hér er mynd af einni verðlaunatillögunni í samkeppninni. þar sem höfundar hafa nálgast lausnina með allt öðrum hætti. Manni sýnist inblásturinn koma frá þeirri Reykjavík sem við þekkjum meðan verðlaunatillagan er innblásin af meira en 100 ára skipulagi i borgum á við Barcelona og NY.

  Prófið að bera þessar tvær tillögur saman.

  http://blog.pressan.is/arkitektur/wp-content/uploads/sites/58/2012/01/2281377943_4352dc6cb5_o.jpg

 • Daníel Jakobsson

  Ég skil ekki alveg hvað er svona stórkallalegt við tillöguna að skipulagi Vatnsmýrarinnar. Mér sýnist götumunstur hennar vera ágætt framhald af götumunstur miðborgarinnar. Reitir Vatnsmýrarinnar virðast til dæmis eiga að verða jafnstórir reitum Miðborgarinnar og eins í lögun, svokölluðum randbyggðarstíl sem hefur reynst mjög vel bæði í miðborginni og í borgum erlendis.

  Auk þess gerir tillagan ráð fyrir að vernda bæði votlendi og stríðsminjar vatnsmýrarinnar og passar auk þess vel upp á það að allar sjónlínur að helstu kennileitum (perlunni, keili, hallgrímskirkju) haldist.

  • Ég er nú sammála Hilmari um stórkallalegheitin. En hver hefur sína skoðun. Þetta er hverfi fyrir 14 þúsund manns og það er allt mjög eins. Ég efst um að svona stór og momotón hverfi séu byggð í borgum af svipaðri stærðargráðu og Reykjavík. Hvergi er að finna í Reykjavík svona langar beinar götur eins og í Vatnsmýrarskipulaginu. það eru ástæður fyrir því og það er hann Kári sem blæs mikinn hér um slóðir og oft. Bognu göturnar eru bognar til þess að hægja á vindinum og umferðinni. Og ég er ekki sammála Daniel um götumunstrið. Það er alveg allt öðruvísi en götumunstrið í hverfum Reykjavíkur. Göturnar eru bæði og beinar og of langar til þess að falla inn í hefðina í skipulagi Reykjavíkur.

  • Daníel Jakobsson

   Björn: Svona stór og rúðustrikuð hverfi voru skipulögð víða í miðborgum heimsins í upphafi tuttugustu aldar og þau svínvirka í dag. Nörrebro í Kaupmannahöfn er til að mynda eitt heitasta hverfi borgarinnar í dag. Skipulagið þar er vissulega einsleitt en fjölbreytileikinn liggur í mismunandi hönnun bygginga. Mjög eftirsótt hverfi og alltaf fullt af lífi.

   Það er rétt hjá þér að ef litið er á höfuðborgarsvæðið sem heild er þar hlutfallslega lítið um beinar línur en ef hinsvegar er einblínt á umhverfið kringum Vatnsmýrina, þ.e. Hlíðarnar og göturnar nálægt Laugarveginum má sjá að stemningin þar er einmitt frekar langar, beinar götur.

   Ég bý sjálfur í boginni úthverfagötu sem mér þykir afar vænt um en tel að rúðuskipulag henti miðborgarlegri byggð einfaldlega betur en beygðar og sveigðar götur. Á þessu eru að sjálfsögðu undantekningar eins og Regent Street í London og fleiri götur.

 • Takk fyrir þennan pistil. Tek undir hvert orð, Mér hefur alltaf fundist flest í þessu Vatnsmýrar-verðlaunaplani með ólíkindum.

  Lítið t.d. á kassana tvo neðst á myndinni. Svæði sem er ca. jafnstórt og Miklatún. þarna eiga að koma 1500 íbúðir!! Það jafngildir 62 „venjulegum“ blokkum (4 hæðir, 3×8 íbúðir í hverri blokk).

 • Guðmundur Björnsson

  Hvaða punktalína er í framhaldi af austu/vesturstræti Vatnsmýrarskipulagsins? Ekki eru það göng undir Öskjuhlíð?

 • Símapeningarnir skiluðu sér að fullu og var ráðstafað í ýmis verkefni s.s. eins og menningarhús á landsbyggðinni o.fl. og restin var geymd í Seðlabankanum en afgangnum varð síðan ráðstafað með lögum frá alþingi í kjölfar hrunsins (að mig minni ó okt eða nóv) og sett í ríkiskassann (almennur rekstur)…

  Og þar með voru þeir horfnir í hítina…

 • Hvað er ,,arfleið“?

  Er átt við ,,arfleifð“?

  • Hilmar Þór

   Jú Páll þú átt kollgátuna.
   Þetta hefur verið leiðrétt.

 • Lára Kristín

  Þetta er flott aðalskipulag en við skulum fresta uppbyggingu í Vatnsmýri þar til önnur lausn er komin á flugssamgöngur og „línumiðborgin“ er föst í sessi.

 • Jón Ólafsson

  Þetta hljómar ekki vitlaust. Vatnsmýraruppbyggingin gengur þvert á fyrirhugaða línuborg og tefur þá þróun. Ef eitthvað á að ganga þvert á línuborgina þá væri það afleggjari sem gengi norður yfir Gullinbrú í Geldinganes til norðurs og til suðurs í Mjódd og tengdist þannig Breiðholti og Smáranum. Svo finnst manni að skipulagshöfundarnir mætti aðeins kíkja yfir sveitamörkin og skoða stóru myndina.

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af sjö og sjö? Svar:

Höfundur

Hilmar Þór Björnsson arkitekt
Tilgangur síðunnar er að kynna arkitektúr, skipulag og staðarprýði ásamt því að stuðla að umræðu um efnið. Það sem fram kemur ber ekki að skilja sem skoðun höfundar heldur hugleiðingu sem sett er fram í þeim tilgangi að vekja lesendur til umhugsunar og skoðanaskipta. Tekið er á móti aðsendum greinum þegar það á við, sem þá eru á ábyrgð höfundar aðsends efnis.
Athugasemdir við færslur eru velkomnar. Þeir sem vilja koma skilaboðum til ábyrgðarmanns beint er bent á netfangið hilmarstofunni@gmail.com
RSS straumur: RSS straumur

Færslusafn