Miðvikudagur 16.12.2009 - 09:19 - 13 ummæli

Nýstárleg skólabygging

 

Tilkynnt var í síðustu viku að danski arkitektinn og “Íslandsvinurinn” Bjarke Ingels hafi ásamt færeysku arkitektastofunni Fuglark unnið samkeppni um menntasetur skammt fyrir utan Þórshöfn í Færeyjum.

Byggingin er í svokölluðu Marknagili og mun standa í brekku í 100 metra hæð ofan við höfuðstaðinn með útsýni til fjalla og yfir bæinn. Skólinn er ætlaður 1200 nemendum og um 300 kennurum.

Byggingin sem verður 19.200 m2 er sú stærsta sem byggð hefur verið í Færeyjum. Húsið á að rúma menntaskóla, viðskiptaháskóla, tækniháskóla með tilheyrandi íþróttaaðstöðu. Skólarnir eru allir undir einu þaki og eru tengdir saman lóðrétt í nokkurs konar rotundu í miðjunni þar sem er að finna hjarta skólans.

Þessi blöndun er ný fyrir mér. Nokkuð hefur verið um að blanda saman leikskóla og grunnskóla í sömu byggingu með góðum árangri.

En að blanda saman framhaldsskóla og æðri menntastofnunum er vafalaust ekki síður skynsamleg.

Til dæmis er ekki nokkur vafi á því að til að mynda að Menntaskólinn á Akureyri og Háskólinn þar í bæ gætu verið undir sama hatti. Sama á við Menntaskólann á Ísafirði og Háskólasetrið þar. Hugsanlega hefði verið skynsamlegt að staðsetja menntaskóla Borgfirðinga í þyrpingunni við Bifröst.

Er þarna að finna hugsanlega sparnaðarleið á þessum krepputímum?

Arkitektarnir segja að þetta sé einskonar uppeldislegt díagram sem gefið er form í opnu hæðóttu landslagi þar sem innra starf og aðstæður er látið ráða útlitinu m.meiru samkvæmt kennisetningunni “form follows function” sem Louis Sullivan kom með fyrir 100 árum.

Margir hafa fundið sig knúna til þess að hallmæla Funktionalismanum. Það er óþarfi. Af þessum tillögum má lesa að funktionalisminn hefur mörg andlit.
Þess má geta að Bjarki vann samkeppni í Reykjavík um höfuðstöðvar Landsbankans, í bláenda góðærisins.

 

 

 

 

 

 

 

 

Flokkar: Óflokkað

«
»

Ummæli (13)

  • Húsið er vægt til orða tekið ömurlegt í alla staði.

    Hörmulegt menningarslys fyrir Færeyjar.

    Minnir á geimskip sem nauðlent hefur út á túni vegna bilunar í tæknibúnaði.

    Færeyjingar ættu að halda fast í menningu sína og hefðina í byggingarstíl og afstýra þessu slysi áður en lengra er haldið.

  • Mér finnst sameining menntastiganna ekkert góð hugmynd. Mín skoðun er að maður þroskast svo mikið á að skipta um (félagslegt)umhverfi. En ég skil að menn séu að skoða þetta sem rekstrar hagræðingu.
    Megin hugmynd byggingarinnar er áhugaverð en ég er ekki eins viss um skalann.

  • Hvernig ætli þessi bygging líti út eftir 50 ár !

  • Teorían hugsanlega góð – byggingin því miður ekki, býður ekki á nokkurn hátt upp á mannvænt umhverfi. Hugmyndin fengin að láni frá nýbyggingu HR?

  • Magdalena Sigurðardóttir

    já rigningin hreyfði við mér en ég er ekki frá því að hafa sjálf notað klisjufólkið sem situr þarna í grasinu áður… hehhe
    Skemmtileg pæling með að blanda framhaldsskólanum og háskólanum saman, Persónulega finnst mér skemmtilegra að fá að skipta aðeins um umhverfi svona á milli menntastiga…. fannst t.d. ómögulegt þegar ég áttaði mig á því að sumir færu ekki í sérstakan gagnfræðiskóla eins og ég heldur héngu í sama skólanum fyrstu tíu ár skólagöngunnar 😉

  • Hilmar Þór

    Nei Stefán þú “skrensaðir” ekkert út úr umræðunni.

    Byggingalist er nefnilega nytjalist og mikilvægir hlutar hennar eru ýmisar félagslegar og menningarlegar þarfir og sjónarmið. Allt þarf að ganga upp í stóru og smáu.

    Ég horfði á þátt um Norska arkitektinn Sverre Fehn i Norska sjónvarpinu í gærkvöldi. Þar hélt Ítalskur prófessor frá Milano því fram að notagildið ætti alltaf að víkja fyrir fagurfræðinni!!

    Þetta er umhugsunarvert. Það er hugsanlegt að maður geti sætt sig við minniháttar starfræna galla fyrir meiriháttar fagurfræðileg gæði. En að prófessor setji þetta fram sem reglu er skrítið.

    Getur maður sætt sig við ónothæfa nytjalist eaf því að hún er falleg?

    Getur ónothæf nytjalist yfirleitt verið falleg?

    Svo tek ég undir að það er hressandi að sjá rigningu á tölvumyndum arkitekta.

  • Stefán, hvað með fæðingarmetið sem verið er að setja og í fyrra var líka sett fæðingarmet. Þetta er ekki alveg að virka hjá þér.

  • Þetta er maskína.

  • Þetta er í fyrsta sinn sem ég sé rollur á svona arkitektúrískri tölvuteikningu og verð að segja að blessaðar skepnurnar gera alveg afskaplega mikið fyrir hana.

    Ég var í Melaskólanum og Hagaskólanum á sínum tíma og man mjög vel hversu mikil „upphefð“ það var að komast í Hagaskólann 13 ára, eða a.m.k. hvað þetta var hressandi uppbrot á annars afskaplega löngum námstíma að manni fannst (þessar tvær byggingar eru líka alveg afskaplega ólíkar).

    Ég dauðvorkenndi syni vinkonu minnar sem var í Hlíðaskóla í samfellt 20 ár (að honum fannst). Alveg frá 6 og þar til hann lauk skyldunni. Og þá var mjög af honum dregið; í rauninni vegna skorts á örvun á mótunarárunum, t.d. sjónrænni og félagslegri.

    Annars má vel vera að málin horfi öðruvísi við þegar blandað er saman æðri skólastigunum í einni og sömu stílhreinu byggingunni, þ.e. framhaldsskóla og háskóla. Og þó. Það eru mörg ljósár á milli 17-18 ára krakka og fólks sem er 25-27. Í rauninni heil kynslóð.

    Í fljótu bragði líst mér semsagt ekkert sérlega vel á þessa byggingu. Mér finnst hún eiginlega vera næsti bær við 1984. Hringformið, sem er í ætt við sci-fi, þessi yfirstóru (að virðist) sameiginlegu rými sem virðast kalla á að nemar blandist saman í einhvern massa eins og á flugstöð. Skortur á afdrepum. Það virðist litið framhjá því að mikill „tribalismi“ er í gangi hjá unglingum.

    Það er ugglaust hagkvæmni fólgin í yfirstærðinni og arkitektúrísk hugsun er sennilega líka stálslegin. En mér finnst mjög skorta á sálfræðilega innsýn í þessu dæmi.

  • stefán benediktsson

    Ég gleymdi mjög mikilvægu atriði í „blöndunarumræðunni“. Ástæða Færeyinga fyrir þessu skólakonsepti er trúlega hagræðing sem hentar litlu samfélagi.
    Við erum að upplifa það hér í Reykjavík, vekna fækkunar fæðinga, að stöðugt stærri hverfi þarf til að fylla grunnskóla og framhaldsskóla. Miklu færri íbúar eru td nú í Grafarvogi en upphaflega var áætlað og því var farið að tala þar um daginn um safnskóla fyrir framhaldsstig. Mín ályktun er sú að ef við ætlum að búa til hverfi í framtíðinni þar sem börn geta gengið í skóla verði þau hverfi að vera þéttari en í dag og þróun barneigna (fækkun) leiði þannig í raun til þéttingar byggðar.

  • Árni Ólafsson

    Skemmtilegar myndir, sérstaklega með vísan í pistilinn „tölvumyndir arkitektanna“. Að vísu er rigning á einni myndanna – óvenjulegt! En „skabalón“-fólkið á sínum stað.

    (Menntaskólinn á Akureyri og MR voru með gagnfræðadeildum framan af = blöndun skólastiga. Einhver ástæða var væntanlega fyrir aðskilnaði á sínum tíma.)

  • stefán benediktsson

    Flott konsept. Held að þetta eins og blöndun leik og grunnskóla sé rétt skref. Það stefndi alla síðustu öld og stefnir enn í sífellt meiri áhrif skólans á mótun einstaklingsins og aukna félagslega blöndun (mainstream) í skólum. Í þessa blöndun vantaði þennan afgerandi mismun í kröfum sem mismunandi skólastig gera.
    Ég hef reyndar oft lýst þeirri skoðun minni að leikskólinn sé mikilvægasta skólastigið því þar fer þjálfun félagshegðunar fram og því tel ég að lengja ætti þetta skólastig til amk. 10 ára aldurs og taka listir og íþróttir þar inn til þjálfunar í hugsun og aga. Vandamál 16. ára unglinga, ef einhver eru, eru ekki lestur skrift og reikningur heldur skortur á félagslegri færni. Ef þú hefur fengið næga þjálfun í henni færðu síður á tilfinninguna að „þú eigir hvergi heima“. Hér skrensaði ég all ferlega út úr umræðuefninu, fyrirgefið.
    Magnús! Fuglabjargið er vissum aldursstigum tegundarinnar nauðsynleg sönnun þess að þau séu á og þáttakendur í lífi.

  • Fuglabjarg semsagt. Guð hjálpi fólki ef hljóðvistin er svipuð og í Odda.

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af sex og tveimur? Svar:

Höfundur

Hilmar Þór Björnsson arkitekt
Tilgangur síðunnar er að kynna arkitektúr, skipulag og staðarprýði ásamt því að stuðla að umræðu um efnið. Það sem fram kemur ber ekki að skilja sem skoðun höfundar heldur hugleiðingu sem sett er fram í þeim tilgangi að vekja lesendur til umhugsunar og skoðanaskipta. Tekið er á móti aðsendum greinum þegar það á við, sem þá eru á ábyrgð höfundar aðsends efnis.
Athugasemdir við færslur eru velkomnar. Þeir sem vilja koma skilaboðum til ábyrgðarmanns beint er bent á netfangið hilmarstofunni@gmail.com
RSS straumur: RSS straumur

Færslusafn