Föstudagur 28.02.2014 - 08:24 - 21 ummæli

Nýtt aðalskipulag og hænsnarækt.

 

Nýtt aðalskipulag Reykjavíkur var samþykkt með formlegum hætti síðastliðinn mánudag þar sem það var undirritað í Höfða.

Þessu ber að fagna sérstaklega, enda um vandað aðalskipulag að ræða sem hefur verið í smíðum í á annan áratug.

Ég hef fylgst vel með gerð aðalskipulaga Reykjavíkur allt frá Bredstorf skipulaginu svokallaða 1962-1983. Þar var lagt útfrá einkabílnum sem aðalsamgöngutæki og miklum aðskilnaði atvinnu-,  þjónustu- og íbúðasvæða.

Síðan hafa verið samþykkt allnokkur aðalkipulög fyrir Reykjavík.

Ég verð að segja að AR 2010-2030 er sennilega það merkilegasta og skemmtilegast þeirra allra. Nú er stefnt að borgarmenningu í höfuðborginni og horfið frá þeirri útþennslu sem hefur verið ráðandi áratugum saman.

Í aðalskipulaginu AR 3010-2030, er gerð tilraun til þess að draga úr mikilvægi einkabílsins í borginni. Yfirráð einkabíls á ekki lengur að vera  forsenda búsetu í borginni. Boðið er uppá aðra kosti yil samgangna.

Þá er gert ráð fyrir samgönguás sem verður ballest og kjölfesta skipulagsins. Samgönguásinn á eftir að binda borgina saman í alvöru fullorðins borg, ef vel tekst til.

Það sem gerir þetta aðalskipulag skemmtilegt er framsetning þess og innihald. Aðalskipulagið er óvenju skýrt og það er skrifað á máli sem allir skilja.

T.a.m er fjallað sérstaklega um skipulag  einstakra borgarhluta þannig að borgarbúar geta nú með auðveldum hætti áttað sig á við hverju þeir meiga búsast í sínu næsta nágrenni.

Ég vek  athygli á kafla í skipulaginu sem heitir „Borgarbúskapur“.  Þar er opnaður möguleiki borgarbúa til þess að hafa matjurtagarða og halda hænsni til eggjaframleiðslu á lóðum sínum innan borgarinnar  og margt fleira skemmtilegtí þeim dúr sem mun auðga mannlífið.

Til stendur að gefa skipulagið út á bók sem verður til sölu í vor. Þá bók þurfa sem flestir að eignast. Bókina þurfa allir arkitektar, verktakar og fasteignasalar að eignast og kynna sér. Annars ættu þeir að finna sér annan starfsvetvang.

++++

En þetta mikla verk er vissulega ekki fullkomið. Mér sýnist ýmislegt þurfi að lagfæra. Sumt smátt og annað stórt.

Ég nefni þrennt.

Í fyrsta lagi eru það áform um að hætta alveg útþennslunni. Þetta er óskynsamleg ákvörðun vegna þess að það eru alltaf einhverjir borgarar sem kjósa að búa í jaðri borgarinnar og það á ekki að hindra þá í því. Þess  utan var búið að lofa íbúum Úlfarsárdals að hverfi þeirra yrði klárað. Það má ekki ganga að baki orða sinna í aðalskipulagi frekar en öðru þó svo að áherslubreytingar eigi sér stað.

Útþennslan mun auðvitað hætta af sjálfu sér af margvíslegum ástæðum. T.a.m þeim að óhagstætt er að búa í úthverfi vegna samgangna og þjónustu. Borgin á ekki að stöðva þessa stefnu algerlega og einhliða, heldur hægja á henni. Breyta um stfnu. Það á auðvitað að klára Úlfarsárdalinn hægt og rólega. Ekki stöðva hana algerlega með pólitískri ákvörðun og þar með dreifða byggð í eitt skipti fyri öll.

Annað sem mér sýnist ekki ganga upp er fyrirhuguð samgöngumiðstöð við Hringbraut. Með tilkomu samgönguáss frá Vesturbugt að Keldum verður gamla umferðamiðstöðin útúr og ekki í tengslum við samgönguásinn. Samgöngumiðstöð á að byggja í nánum tengslum við samgönguásinn. 

Annars virkar hvorugt.

Hvorki samgönguásinn né umferðamiðstöðin.

Í þriðja lagi eru hugmyndir um að leggja Reykjavíkurflugvöll niður enganvegin tímabærar eins og margsinnis hefur verið bent á og rökstutt. Flugvöllurinn fer auðvitað einhverntíma en ekki á þessu skipulagstímabili.

 

+++++

 

Ég ber þá von í brjósti að þessi þrjú atriði munu leysast þegar frekari vinna við endurskoðun þess fer fram. Liklegt er líka að staðsetning Landspítalans verði endurskoðuuð í ljósi þessa bráðgóða aðalskipulags sem nú liggur fyrir. Ef AR2010-2030 er skoðað aukast efasemdir um þá staðsetningu spítalans sem ákveðin var.

Það gengur varla að byggja tæplega 300 þúsund fermetra byggingu samkvæmt skipulagstillögu frá árinu 1927,  tæplega öld síðar þegar umferðakerfinu hefur verið bylt í nýju aðalskipulagi.

Það ber að fagna þessu aðalskipulagii sem hefur náðst með þverpólitískri, þrotlausri  og faglegriskipulagsvinnu allt frá árinu 2002. Maður hefur orðið var við breytingu á áherslum í skipulagsmálum í borginni frá því skömmu eftir aldamót. Allt til betri vegar. Maður hefur á tilfinningunni að áður hafi eitthvað óskiljanlegt tengslanet haft meiri áhrif skipulagið en fagleg nálgun og fagleg sýn með opinni umræðu og aðhaldi eins og nú.

 ++++

Efst er mynd af nokrum landnámshænum sem við eigum vonandi eftir að sjá innan borgarinnar á komandi árum. Og að neðan er loftmynd af höfuðborginni sem á eftir að verða þéttari, skemmtilegri og hagkvæmari ef ASR2010-2030 gengur eftir.

Sjá einnig eftirfarandi tengla að pistlum sem fjalla um aðalskipulagið og skild efni:

 

http://blog.dv.is/arkitektur/2013/06/02/nytt-adalskipulag-reykjavikur-ar-2010-2030/

og

http://blog.dv.is/arkitektur/2013/06/05/nyr-throunar-og-samgonguas-i-adalskipulaginu/

og

http://blog.dv.is/arkitektur/2013/06/07/vatnsmyrin-og-adalskipulagid/

.

Yfirlitsmynd af Reykjavík

Flokkar: Óflokkað

«
»

Ummæli (21)

  • Örnólfur Hall

    — Þegar ég las um meiningarmun kolleganna um skipulag/skipulög þá datt mér eftirfarandi saga í hug: Í fríi á námsárum vann eitt sumar hjá Skipulags-stjóra Borgarinnar Aðalsteini Richter.
    — Einn góðan veðurdag kemur Stefán Stórval, málari og harmoikuspilari, frá Möðrudal, með miklum galsagangi inn og spyr mig hvort skipulaxinn sé við. -Áttu við Aðalstein ? …. já, ég á við skipulaxinn Aðalstein. – Mér var gefinn trékassi utan stórri ‚Volgu‘ (rússneskir bílar voru fluttir inn í vönduðum trékössum). – Nú er ég kominn með timbur og vil fá lóð hjá skipulaxinum og fara að byggja.

    –- Skipulaxmálin geta líka tekið á sig skemmtilegar myndir !

    • Örnólfur Hall

      Lagfært:… vann ég eitt sumar..-harmonikuspilari.

  • Jón Guðmundsson

    Þetta er besta skipulag borgarinnar til þessa.Svona gerist eingöngu þegar fólk talar saman og reynir að skilja hvort annað. Vinnubrögð sem Hanna Birna innleiddi í borgarstjórn á sínum tíma.

  • Dr. Samúel Jónsson

    Nú að uppbyggilegri tillögu (þvert á rétttrúnaðarkverúlantana).
    Af hverju ekki eitthvað skammtilegt, t.d. Gambratorg?
    Gambratorg í stað Klambratorgs þar sem mætti brugga í friði og allir aldurshópar kynntust þeirri eðlu lest að brugga vel gerjaðan gambra.
    Langafi og langamma, aldnir frændur og frænkur, afi og amma
    og blessaðir unglingarnir, hvað ungum nemur gamall temur,
    að læra gambralistina og njóta og bjóða upp á smakk.
    Ó, hvað borgin yrði þá skemmtileg og full af lífsfyllingu.

    • Dr. Samúel Jónsson

      Og vitaskuld Voginn fyrir „medifer“ í miðju samgönguássins, ég segi samgöngu ássins, hversu vel sem mönnum gegnur svo að ganga þann mjóa stíg áður en full breiður og hlykkjóttur verður. En Voginn í Vatnsmýrina, það er gráupplagt. Þetta vita allir sem vilja sjá þokkalega skýrt að vita að „meikar2 heilbrigðan og lífsfullan og gamansaman „sens“. Gambra í liðið.

  • Dr. Samúel Jónsson

    Mikil er dýrðin,

    hænur, kálhausar og njólar.

    Og ísbjörn sem aldrei kom.

    Hallelúja, en hallelúja hvað?

  • Þórður Jónsson

    „Maður hefur á tilfinningunni að áður hafi eitthvað óskiljanlegt tengslanet haft meiri áhrif skipulagið en fagleg nálgun“

    Er þarna verið að tala um verktakaklíkurnar sem Hjálmar Sveinsson hefur vaki athygli á og nefnt „verktakaskipulag“? Eða er verið að tala um pólitísk og fjölskyldutengsl í ráðgjafahóp borgarinnar?

    Ég spyr Hilmar Þór.

    En aðalatriðið er að í AR 2010-2030 er brotið blað í skipulagsmálum og það er einu pólitísku afli að þakka.

    Besta flokknum!

  • stefán benediktsson

    Tvennt. Enn í dag fer mjög í taugarnar á mér þegar talað er um skipulag í fleirtölu (skipulög). Þetta er hvorugkyns nafnorð og ekki til í fleirtölu, en það eru bara mínar taugar og hitt, miðað við reynslu af gæludýrahaldi borgarbúa verð ég að viðurkenna að tilhugsun um tilvonandi hænsnahald kætir mig ekki mikið. Villihænur (smbr, kanínur og kettir) í borgarlandinu gætu þó kannski gert villiköttunum lífið auðveldara.

    • Hilmar Þór

      Þakka þér umvöndunina Stefán.

      Ég veit ekkert um þetta en hef mina máltilfinningu samanber eitt skipulag og mörg skipulög annarsvegar og svo eitt barn og mörg börn hinsvegar!

    • Sammála þér Stefán. Okkar stétt ætti helst að vita þetta með skipulögin. Það er oft gaman að glíma við þetta í texta. Maður segir ekki mörg deiliskipulög heldur td margt deiliskipulagið.

  • Geðveikt. 😀

  • Ágúst Guðmundsson

    Þetta er vissulega hið merkasta skipulag sem þarfnast faglegrar umræðu.

    Augljóst er að það þarf að málamiðla í flugvallar- og Úlfarsárdalsmálinu.

    Þau atriði ganga ekki upp.

    Eftir því sem ég skil þá er það rétt að þetta er skemmtilegt og jákvætt skipulag sem auðgar borgarlífið með gangandi og hjólandi vegfarendum.

    Og ekki skemmir að sjá hænsn inni á lóðum fólks og börn og fullorðna stunda lífræna matjurstaframleiðslu á grænum flæmum inni á milli fjölbílishúsa.

  • Hænsnarækt í borginni er ekkert nýtt. Það er t.d. stórt hænsnahús við Austurvöll.

  • Það er ljóst að þarna kennir margra hluta sem hafa verið í umræðu um langt árabil og þarna er staðfest og styrkt þróun sem hefur átt sér stað, sumpart jafnvel í trássi viðgildandi gildandi aðalskipulag á hverjum tíma. Á námsárum mínum var td talsvert rætt um austur-vestur ásinn, sem var að byrja að myndast milli Kvosarinnar og Skeifunnar fyrir 1970, og hlotið hefur staðfestingu sem grunnhugmynd í aðalskipulaginu núna.

    Ég tek undir með Hilmari um þau atriði sem hann nefnir. Ég er líka fylgjandi því að byggðin verði þétt. Hinsvegar sýnist mér þéttingin vera æði stórkallaleg og að ekki sé tekið nægjanlegt tillit til byggðar sem fyrir er. Þéttingu þarf nálgast á allt öðrum forsendum en þeim sem gilda í nýjum hverfum.

    Aðaleinkenni byggðar í Reykjavík, einkum íbúðabyggðar, eru ekki randbyggingar og 5-6 hæða hús eins og talsmenn skipulagsins fullyrða. Þau eru stakstæð hús og miklu lægri en þetta. Talsmennirnir nefna byggingarnar umhverfis Austurvöll til staðfestingar fullyrðingum sínum. Þessi byggð er í lagi frá Austurvelli séð en skapar veruleg vandamál „hinu megin.“ Austustræti er ónýtt að baki þessara húsa og „Hressingaskálareiturinn“ hefur alla tíð átt erfitt uppdráttar vegna hæðar húsanna í kring. Það sama má segja um „símstöðvarreitinn“ og skipulag hans.

    Við þurfum ekki að benda á Landspítalann þegar við lýsum áhyggjum okkar af áformum um þéttingu, þó hann sé auðvitað hrikalegasta dæmið. Einholt, Brautarholt, Tryggvagata 13, Lýsisreiturinn og Landsímareiturinn. Allt er þetta það sem kallað er vertakaskipulag. Verktakaskipulag felur oftast í sér of mikið byggingarmagn, lélegar íbúðir og hátt verð. Íbúarnir og umhverfið tapar en framkvæmdaraðilinn hagnast.

  • Guðmundur Kristján Jónsson

    Rétt er að taka fram að á skipulagstímabilinu er fyrirhuguð bygging 1100 íbúða í Úlfarsárdal. Þá mun núverandi skólakerfi í dalnum vera með um 1100-1400 íbúðum ásamt þjónustukjarna. Ef horft er á borgarhlutann í heild, þ.e. Úlfarsárdal og Grafarholt þá ætti íbúafjöldi í borgarhlutanum að fara yfir 9000 á skipulagstímabilinu og vera svipað fjölmennur og Árbæjarhverfið er í dag.

    Úlfarsárdalurinn mun því vera í hægum en öruggum vexti á skipulagstímabilinu.

  • Helga Jónsdóttir

    Mér verður litið út um gluggann hjá mér á þessar stóru lóðir milli blokkanna hér í Vesturbænum. Oft hefur verið talað um að þær séu vannýttar. Varst þú ekki um daginn að tala um matvælaframleiðslu inni í borgum – eða var það einhver annar? Hvernig væri að áhugasamir garðyrkjufræðingar fengju leyfi til matjurtaræktunar á svona lóðum – leigan gæti verið hlutfall af uppskerunni. Þannig mætti tryggja að betur yrði að slíku staðið en ef húsfélög væru að bisa við þetta. Sé til dæmis fyrir mér að einhver einn aðili væri með ræktun á öllum fjölbýlishúsalóðum við Hjarðarhaga.

  • Flott mynd neðst, sjá hvernig Harpan hverfur inn í umhverfið.

    • Örnólfur Hall

      — Já…mikið asskolli hverfa Hrapan og svörtu sköndulhýsin inn í umhverfið. —Dönsk snilld !

  • Rúnar I Guðjónsson

    Sammála því að ekki má eingöngu gera ráð fyrir því að allir vilji búa í Borgarumhverfi. Það er t.d. til fólk sem vill hafa hesthúsið sitt í göngufæri við heimili sitt. Enn þessi stefna að byggja upp meðfram samgöngu ásum er til þess fallinn að landsvæði sem fer undir umferðarmannvirki verður mun minna að umfangi, nóg er nú samt.

    Einn af kostum höfuðborgarsvæðiðins er nálægð við náttúruna og fjölbreytileiki kaupstaðann sem mynda svæðið. Mér finnst mjög gaman að ganga um miðbæ reykjavíkur, fá sér gott að borða osfr. En síðan vil ég lifa mitt daglega líf í notaleg heitum Hafnarfjarðar. (kannski ekki realevant við efni greinarinnar, en so what 😉

  • Þessi stöðvun útþennslunnar skapar vissa skekkju í verðlagningu íbúða. Þegar íbúð innan Kringlumýrarbrautar er seld á 500 þúsuns þá eru milli 150 þúsund og 200 þúsund vegna kaupa á lóðinni. Þetta ræður ungt fólk ekki við. Borgin á að útvega lóðir sem kosta innan við 50 þúsund á fermeter íbúðarinnar. Þá kæmi á markað íbúðir sem kosta um 300 þúsund á fermeter.

  • Hafsteinn

    Frábært aðalskipulag en alls ekki gallalaust.

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af átta og tveimur? Svar:

Höfundur

Hilmar Þór Björnsson arkitekt
Tilgangur síðunnar er að kynna arkitektúr, skipulag og staðarprýði ásamt því að stuðla að umræðu um efnið. Það sem fram kemur ber ekki að skilja sem skoðun höfundar heldur hugleiðingu sem sett er fram í þeim tilgangi að vekja lesendur til umhugsunar og skoðanaskipta. Tekið er á móti aðsendum greinum þegar það á við, sem þá eru á ábyrgð höfundar aðsends efnis.
Athugasemdir við færslur eru velkomnar. Þeir sem vilja koma skilaboðum til ábyrgðarmanns beint er bent á netfangið hilmarstofunni@gmail.com
RSS straumur: RSS straumur

Færslusafn