Sunnudagur 02.06.2013 - 23:17 - 16 ummæli

Nýtt aðalskipulag Reykjavíkur – AR 2010-2030

photo

 

Um helgina las ég drög að nýju aðalskipulagi Reykjavíkur AR 2010-2030 sem kynnt var s.l. fimmtudag. Þetta er mikið verk sem fyllir á fjórða hundrað síður ritaðs máls með skýringarmyndum og uppdráttum í tveim heftum í stóru broti.

Ég verð að segja að ég hef ekki áður séð jafn vandaða og skemmtilega greinargerð aðalskipulags og þessa. Hún fangaði mann ekki bara sem lestrarefni heldur fyillist maður bjartsýni fyrir hönd borgarinnar við lesturinn og gleðst yfir þvi að nú er snúið til betri vegar í skipulagmálum höfuðstaðarins. Mér hefur í raun þótt skipulagsmál borgarinnar hafa verið í óttalegum vandræðagangi. En nú birtir til eftir meira en tveggja áratuga göngu um dimman táradal sýnist mér.

Það sem helst ber að nefna er að nú á að stemma stigu við útþennslu borgarinnar. Skipulagsyfirvöld vilja fara varlega i gamla bænum og feta í fótspor Parísarborgar en þar var ákveðið fyrir 40 árum (1972) að banna háhýsi innan þeirra Hringbrautar (Periferiunnar). Og í aðalskipulaginu er að finna afar athylisverða áætlun um að skapa „þróunar – samgönguás“  sem bindur borgina saman í línulega borg. Þarna felast mörg tækifæri sem ekki öll mæta auganu við fyrstu sýn.

Ég ætla að drepa á fjórum áhersluatriðum í aðalskipulaginu:

  • BORGIN VIÐ SUNDIN

Borgin við sundin felur í sér stefnumótun um þéttingu byggðar í vesturhluta borgarinnar þar sem helstu uppbyggingasvæðin verða fram yfir 2030

  • SKAPANDI BORG

Reykjavík styrki hlutverk sitt sem höfuðborg landsins og forystuafl í vaxandi alþjóðlegri samkeppni um fyrirtæki, vinnuafl og ferðamenn.

  • GRÆNA BORGIN

Reykjavíkurborg vill styrkja sig sem græn borg. Þetta felur í sér stóraukna áherslu á þéttingu og blöndun byggðamynsturs, gott aðgengi að fjölbreyttum útivistar- og náttúrusvæðum. Og eflingu vistvænna ferðamáta.

  • BORG FYRIR FÓLK

Borg fyrir fólk er leiðarljós vinnu við endurskoðun aðalskipulagsins. Í stað áherslu á byggingarmagn og umferðarýmd, er sjónum beint að hinu smáa og fíngerða í borgarumhverfinu og að því sem raunverulega skapar umgjörð um líf fólks (svoldið Jan Gehl þarna).

Þetta er metnaðarfullt aðalskipulag sem tekur á löngu tímabærum úrlausnarefnum sem af einhverjum óskiljanlegum ástæðum hefur ekki verið gert áður. Auðvitað er svona umfangsmikið verk vafalaust hlaðið málamiðlunum og þar er að finna mörg álitaefni eðli málsins samkvæmt. En ég tel að þarna sé fjöldamarkt framfarasporið stigið sem ástæða er til að fagna.

Sumstaðar ganga aðgerðir að því er virðist þvert á markmiðin. T.a.m. fæ ég ekki séð hvernig það styrkir hlutverk Reykjavíkur sem höfuðborgar að leggja Reykjavíkurflugvöll niður!

Varðandi flugvallarmálið þá finnst mér umræðan vanþroskuð og hvergi nærri því  komin á það stig að hægt sé að taka ákvörðun um að leggja hann niður. Það kann að vera að það sé hagkvæmt í þröngu samhengi en ég sé ekki að það sé skynsamlegt. Fyrir utan að það gengur gegn markmiði aðalskipulagsins um að styrkja Reykjavík sem höfuðborg.

Aðalskipulagi las ég í nánast einum rikk eins og hina bestu spennusögu og það ættu sem flestir að gera. Gat varla lagt frá mér bækurnar sem ég mun skoða nánar á næstu dögum og vikum.

Drögin má nálgast hér: http://www.reykjavik.is/desktopdefault.aspx/tabid-2342/6201_view-6060/

Flokkar: Óflokkað

«
»

Ummæli (16)

  • Jón Ólafsson

    Aðalskipulag lætur fólk fram hjá sér fara, en um leið og á að breyta einhverju í næsta nágrenni þess verður allt vitlaust. Einum skitnum skemmtistað (NASA) sem á eitthvað að breyta mótmælti 12 þúsund manns og hótaði að binda sig við jarðýturnar. En aðalskipulag er svo langt úti í framtíðinni að það varðar fólk ekki nokkurn hlut.

    Hvar er umræðan? Hvar eru arkitektarnir og allir sjálfskipuðu sérfræðingarnir þegar að aðalskipulagi kemur?.

  • Hilmar Þór

    Eins og fram hefur komið þá er aðalskipulagið enn í vinnslu og liggur einungis fyrir í drögum. Ég efast ekki um að hægt verði að kaupa heftin eftir að skipulagið hefur endanlega verið samþykkt og gefið út. En það tekir einhvern tíma. Þangað til má kynna sér þau á slóðinni sem fylgir færslunni og prenta út ef þess er óskað.

  • +eg spyr eins og Guðrún Bryndís, hvar fæst þetta prentað og innbundið?

  • Kristín

    Guðrún Bryndís.
    Það er hægt að finna þetta allt í bútum á slóðinni sem fylgi færslunni. Er neðst á eftir textanum.

  • Guðrún Bryndís

    Hvar er hægt að fá svona fína tveggja binda útgáfu af Aðalskipulagi?

  • Samúel Torfi Pétursson

    Þótt það sé skiljanlegt og eðlilegt að það séu takmarkanir á hæðir nýbygginga á ákveðnum svæðum innan miðborgarinnar er óþarfi að láta það ganga yfir póstnúmerið í heild sinni. Fyrst mönnum finnst Skuggahverfið svona forkastanlega ljótt er þá ekki hægt að nýjar og betri stórbyggingar við Skúlagötuna milda áhrifin? Sem dæmi skv. þessu nýja ákvæði mega nýbyggingar á auðu lóðunum milli hvítu blokkanna á Völundarlóðinni og Útvegshússins ekki vera hærri en síðarnefnda húsið mínus ein hæð. For what?

    Háhýsabanninu yfir París var aflétt fyrir 4 árum síðan þar sem það var farið að hamla vexti á ákveðnum svæðun innan Peripherique og var það sósíalistaborgarstjórinn Bertrand Delanoe sem barðist fyrir því.

    • Hilmar Þór

      Það kemur mér mjög á óvart að háhýsabanninu hafi verið aflétt innan Peripherique i borg borganna. Maður trúir því varla. Mér hefur skilist að það hafi verið almenn ánægja með ráðstöfunna meðal borgarbúa. Síðustu háhýsin innan hringbrautarinnar þar í bæ voru byggð við Quai de Grenelle ef ég man rétt uppúr 1970. Getur þú staðfest það Samúel Torfi?

    • Samúel Torfi Pétursson

      @Hilmar

      Háhýsabanninu í París var aflétt fyrir rúmum fjórum árum. Það var búið að vera til umræðu í alla vega 5 ár áður ef marka má umfjöllun um málið:

      http://www.france24.com/en/20080708-paris-allow-high-rise-buildings-paris-skyscrapers

      Mér finnst allavega að borgaryfirvöld ættu að endurskoða þetta ákvæði fyrir miðborgina, þótt ég sé mjög fylgjandi því að slíkt bann gildi fyrir ákveðin svæði innan hennar og að settar séu strangar kröfur um gæði þess arkitektúrs sem prýðir hús sem eru hærri en meðaltalið. Að mínu mati er svona flatt bann leiðinda pópúlismi sem gagnast ekki framgangi góðrar byggðar í Reykjavík. Frekar að gera kröfur um gæði.

      Að öðru leyti er þetta nýja Aðalskipulag vandað og vel gert, þótt ég sé ekki endilega sammála því að hefta svo mjög vöxt nýrra hverfa. Þetta þarf allt að haldast í hendur og vinna með hvert öðru, vöxtur út á við og inn á við.

  • Þorvaldur Ágústsson

    Hvar fær maður eitthvað að vita um fyrirhugaðann þróunar og samgönguás?

  • Árni Zophoniasson

    Varðandi Reykjavíkurflugvöll:

    Á Álftanesi er nægt landrými fyrir flugvöll. Veðuraðstæður eru væntanlega sambærilegar slíkum aðstæðum við Reykjavíkurflugvöll og aðflug einfalt og hættulítið. Þar er stórt svæði óbyggt og ónýtt sem hentar fullkomnlega fyrir flugvöll.

    Um leið og flugvöllurinn yrði færður út í Álftanes væri hægt að byggja fallegar brýr yfir Fossvog og Skerjafjörð og tengja þannig höfðuborgarsvæðið saman á nýjan hátt.

    Þeim sem efast er bent á að skoða kort af höfuðborgarsvæðinu – það er nóg pláss fyrir Bessastaði, flugvöll, brýr og vegi. Flugvöllur í Kvosinni er vondur kostur af mörgum ástæðum.

    • Magnús Birgisson

      Já…þetta er frábær hugmynd. Og þegar menn fatta að brýrnar munu fljótlega verða undir yfirborði sjávar þá má bara hafa þetta í vatnsheldum göngum og þar geta svo íbúar í 101 hjólað fram og til baka á sjávarbotninum og velt fyrir sér hvert allir skattgreiðendurnir eru fluttir sem áttu að borga fyrir herlegheitin.

    • Hlöðver Stefán Þorgeirsson

      Sæll Árni.

      Mér finnst þetta áhugavert og hef velt þessu fyrir mér.

      Niðurstaða mín er þó eitthvað á þessa leið: „Hvers vegna að flytja flugvöllinn á Bessastaðanes og byggja í Vatnsmýri frekar en að byggja á Bessastaðanesi og leyfa flugvellinum að vera í Vatnsmýri.“

      Hvað finnst þér um það? Er ekki dýrt að flytja flugvöll? Bessastaðanes væri miðsvæðis eftir að væri búið að tengja það við Kársnes, Reykjavík og Hafnarfjörð/Garðabæ.

  • Sveinn H.

    Það eru hæðarmörk í borgum víða um heim. Til dæmis höfuðborg hins svokallaða „frjálsa“ lands, Washington. Þetta er einnig í Bordaux við Garonne í Frakklandi. Í Kaupmannahöfn eru menn farnir að tala um SAS hótel Arne Jacobsen sem slys enda hefur ekki verið byggt háhýsi í miðborginni síðan það var byggt. Því var lengi haldið fram að það væri vegna flugvallarins sem ekki mætti byggja hátt í Reykjavík. En það er bara einhver misskilningur. Það er í raun torskiljanlegt að háhýsaákvæðið hafi ekki verið í Reykjavík innan Hringbrautar alla tíð frá 1927. Fagna þessu ákvæði í aðalskipulaginu. Manni liggur við að spyrja, af hverju var þetta ekki gert fyrr? (Skúlagata, Grandhótel og Höfðatorg eru öll til mikilla lýta).

  • Magnús Birgisson

    Þið verðið nú kannski að fara að horfast í augu við það að Grafarholt og Úlfarsárdalur eru einfaldlega nær miðju höfuðborgarsvæðisins alls, sem og Reykjavíkurborgar, bæði í landfræðilegu tilliti og lýðfræðilegu, heldur en 101/107.

    Allt tal um þéttingu í nýju aðalskipulagi er því ekkert nema rörsjón fólks sem ekki sér framfyrir nefbroddinn á sjálfu sér.

    Enda held ég að fólk sé almennt að vakna til vitundar um það að uppbygging í vesturbænum ein sog lýst er í drögunum er óraunhæf og mun í raun kalla á dreifingu byggðar því byggingarsvæðin sem eru tilbúin og í úthlutun eru í nágrannarsveitarfélögum og svo mun vera næstu 10 til 15 ár á meðan vandræðagangurinn er yfirgengilegur í höfuðborginni.

  • Lára Kristín

    Það eru einhver manneskjuleg nálgun þarna. Smá Jan Gehl. Flugvöllurinn er ekkert að fara. Hugmyndirnar um þessa uppbyggingu í Vatnsmýri er draugur úr góðærinu sem þarf að kveða niður.

  • Sveinbjörn

    Það er mikið fagnaðarefni að skipulagsyfirvöld skuli sítga á bremsuna varðandi útþennsluna. Hún var algerlega stjórnlaus þegar farið var austurfyrir Vesturlandsveg í Grafarholt og Úlfarsárdal. Nægt land var við sjávarsíðuna og Keldnaholti auk þéttingar í eldri hverfum, við höfnina, í Örfyrisey og víðar.

    Það er rétt að flugvöllurinn er ekki kominn á tíma. Hann er ekkert að fara.

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af þremur og þremur? Svar:

Höfundur

Hilmar Þór Björnsson arkitekt
Tilgangur síðunnar er að kynna arkitektúr, skipulag og staðarprýði ásamt því að stuðla að umræðu um efnið. Það sem fram kemur ber ekki að skilja sem skoðun höfundar heldur hugleiðingu sem sett er fram í þeim tilgangi að vekja lesendur til umhugsunar og skoðanaskipta. Tekið er á móti aðsendum greinum þegar það á við, sem þá eru á ábyrgð höfundar aðsends efnis.
Athugasemdir við færslur eru velkomnar. Þeir sem vilja koma skilaboðum til ábyrgðarmanns beint er bent á netfangið hilmarstofunni@gmail.com
RSS straumur: RSS straumur

Færslusafn