Föstudagur 20.04.2018 - 10:20 - 6 ummæli

Nýtt sjúkrahús frá grunni?

 

Nýtt sjúkrahús frá grunni?

 „ Sá kostur að byggja nýtt sjúkrahús frá grunni hefur aldrei verið skoðaður og greindur af heilbrigðisyfirvöldum.

Stjórnendur Landspítalans sem og margir aðrir hafa í hartnær 10 ár haldið því fram að uppbygging spítalans við Hringbraut hafi alltaf haft vinningin í staðarvalsgreiningum. Þessu hefur verið haldið að þingmönnum, ráðherrum og í almenningi.

Staðreyndin er sú að þetta er ekki rétt.

Á þessum röngu fullyrðingum virðast stjórnmálamenn hafa byggt afstöðu sína.

Strax eftir aldamót, fyrir 18 árum, var sérfræðingum falið það afmarkaða verkefni, að meta við hvaða af þrem núverandi sjúkrahúsum væri heppilegast að byggja nýan Landspítala til mjög langrar framtíðar. Niðurstaða sérfræðinganna var ekki einróma eins og haldið hefur verið fram. Sumir vildu byggja við Hringbraut og aðrir við Fossvog. Á sama tíma komu sterk rök frá sérfræðingum um að heppilegast væri að byggja nýtt sjúkrahús frá grunni. Undir það tók meðal annarra Læknaráð Landspítalans sem  í greinargerð á árinu 2004 óskaði eftir því að staðarvalið yrði endurskoðað og taldi best að byggja nýtt sjúkrahús frá grunni. Hjúkrunarráð Landspítalans var á sömu skoðun og vildi einnig að nýtt sjúkrahús yrði byggt frá grunni. Erlendu ráðgjafarnir EMENTOR töldu árið 2001 að best væri að byggja við í Fossvogi ef ekki væri vilji til að byggja nýtt sjúkrahús frá grunni sem væri besti kosturinn.

Sá kostur kostur að byggja nýtt sjúkrahús frá grunni, hefur aldrei verið skoðaður og greindur af heilbrigðisyfirvöldum.

Á haustdögum 2009 komu fram vel rökstuddar óskir um að staðarvalsgreining yrði gerð þar sem uppbygging við Hringbraut og Fossvog yrði borin saman við byggingu nýs sjúkrahúss frá grunni. Því var hafnað á þeirri forsendu að það væri orðið of seint.

Þegar nýtt aðalskipulag Reykjavíkur 2010-2030 var samþykkt árið 2013, jukust kröfurnar um endurmat á staðsetningu þjóðarsjúkrahússins. Þessar kröfur komu fram m.a. vegna þess að skipulagslegt umhverfi gjörbreyttist og aðgengi að spítalanum við Hringbraut fullnægði ekki lengur forsendum staðarvalsins. Grundvallarforsendur höfðu breyst.

En þeim óskum var hafnað með þeim rökum að engar umferðarlegar forsendur hafi breyst frá gamla aðalskipulaginu AR2001-2024. En ef kortin eru skoðuð þá blasir við að fjögur bifreiðagöng hafa verið felld úr skipulaginu innan borgarmarkanna sem öll stefndu í átt að spítalanum við Hringbraut. Það eru Holtsgöng, Öskjuhlíðargöng, göng undir Kópavog úr Mjódd auk Miklubrautar í stokk.  Alls um 6,4 km á lengd. Þar fyrir utan voru felld úr skipulagi 8 mislæg gatnamót og Reykjavíkurflugvöllur þurrkaður  út.

Þrátt fyrir þetta halda menn því fram að ekkert hafi breyst varðandi aðgengi að sjúkrahúsinu. Það stenst ekki.

Það er skylda stjórnvalda áður en lengra er haldið að axla ábyrgð og láta fara fram greiningu á hvort betra og hagkvæmara sé að halda uppbyggingu við Hringbraut áfram eða byggja nýjan spítala á nýjum stað. Öðruvísi næst ekki nauðsynleg sátt og sannfæring með þjóðinnni um þetta mikilvæga mál.

Ég er sannfærður um að nýr spítali á nýjum stað sé skynsamlegur kostur. Hann mun verða betri, ódýrari og öruggari en bútasaumurinn við Hringbraut. Hann mun losa sjúklinga undan miklum óþægindum á byggingatímanum og þeim tíma sem tekur að endurnýja gömlu húsin. Hann mun verða aðgengilegri fyrir sjúklinga og aðstandendur og verða eftirsóttari vinnustaður fyrir lækna og hjúkrunarfólk en gamli staðurinn við Hringbraut getur nokkurntíma orðið.

Ein tilgáta fyrir nýtt sjúkrahús frá grunni gæti verið svæðið við Keldur sem er ekki aðeins landfræðilega nálægt miðju höfuðborgarsvæðisins heldur liggja einnig allar helstu stofnbrautir þarna um og helstu umferðarleiðir almenningssamgangna. Tengingin til Suðurlands og Vesturlands og suður á Reykjanes er augljós. Þarna er líka hægt að koma fyrir kjöraðstæðum fyrir þyrluflug og ásættanlegri tengingu að flugvöllunum í Keflavík og í Hvassahrauni ef sú lausn verður ofaná.  Það getur ekki verið mönnum ofviða að greina þessa tilgátu og e.t.v. aðrar með faglegum hætti og bera saman við fyrirhugaðar áætlanir við Hringbraut.

(þessi grein birtist fyrst í Morgunblaðinu sumardaginn fyrsta 19.04.2018)

++++

Að neðan er mynd af fyrirhuguðu sjúkrahússkomplexi við Hringbraut sem engar eða litlar líkur eru á að nokkurntíma muni klárast. Þessi mynd birtist ekki með grein minni í blaðinu í gær.

+++

Flokkar: Óflokkað

«
»

Ummæli (6)

  • Baldur Gunnarsson

    En hvaða sérgæðingar eru það sem missa myndu spón úr aski sínum ef hlustað væri á rödd skynseminnar? Því þannig hlýtur málið að vera vaxið.

  • Símon Jónsson

    Sjáið á líkaninu umferðarslaufurnar sem nú þegar eru komnar, en samt eru umferðarhnútar þar og það nú þegar.

    Ímyndið ykkur svo þegar monsterið yrði fullbyggt yst á útnára höfuðborgarsvæðisins, hvar ættu þá allar viðbótar umferðarslaufurnar að vera svo þangað mætti komast? Sjáið þið það fyrir ykkur?

    Að sérhagsmunaaðilar hafi svo beinlínis logið að þingmönnum, ráðherrum og almenningi er svo alveg sér kapítuli út af fyrir sig og vítaverður.

    • Baldur Gunnarsson

      @Símon Jónsson: ,,Að sérhagsmunaaðilar hafi svo beinlínis logið að þingmönnum, ráðherrum og almenningi er svo alveg sér kapítuli ..“

      Hverjir eru þeir eiginlega? Og hvers vegna í heilhveitinu ætti þeim að haldast það uppi?

    • Hilmar Þór

      Það er enginn sagður ljúga hinvegar er allur sannleikurinn ekki sagður. Hugleiddu það Símon. Þetta er ekki eitthað sem sagt er heldur vitað. Èg er tilbúinn til að senda þér óyggjandi gögn vegna þessa. Þetta framferði er auðvitað óþolandi.

  • Gunnar Guðmundsson

    Þetta hefur mér aldrei dottið í hug. Liggur ekki fyrir ítarleg greinargerð um byggingu spítalans á nýjum stað frá grunni. Getur það virkilega verið rétt, eins mikið og um þetta hefur verið rætt?
    Nú tók steininn úr!!!

  • Margrét Vald

    Mér eru þessi vinnubrögð óskyljanleg. Hverra hagsmuna er verið að gæta? Ekki eru það hagsmunir þjóðarinnar og sameiginlegra fjármuna okkar allra sem er verið að gæta.
    “helvítis fokking fokk”. Ég segi bara ekki annað.

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af einum og tveimur? Svar:

Höfundur

Hilmar Þór Björnsson arkitekt
Tilgangur síðunnar er að kynna arkitektúr, skipulag og staðarprýði ásamt því að stuðla að umræðu um efnið. Það sem fram kemur ber ekki að skilja sem skoðun höfundar heldur hugleiðingu sem sett er fram í þeim tilgangi að vekja lesendur til umhugsunar og skoðanaskipta. Tekið er á móti aðsendum greinum þegar það á við, sem þá eru á ábyrgð höfundar aðsends efnis.
Athugasemdir við færslur eru velkomnar. Þeir sem vilja koma skilaboðum til ábyrgðarmanns beint er bent á netfangið hilmarstofunni@gmail.com
RSS straumur: RSS straumur

Færslusafn