Fimmtudagur 18.03.2010 - 16:47 - 13 ummæli

Ove Arup – stjörnuverkfræðingur

OVE ARUPlett

Innsæi og sjálfstæð hugsun þar sem farið er út fyrir ramman mætti vera meira áberandi í vinnulagi verkfræðinga. Verkfræðingar hafa tilhneigingu til þess að halda sig við staðla, verkferla og forrit tölvanna. Þeir horfa margir eingöngu á þröngt sérsvið sitt og átta sig stundum ekki á heildinni. Þeir líta á sig sem  sérfræðinga hver á sínu sviði. Þetta er bæði kostur og galli. Sagt er að þeir viti mikið um fátt meðan arkitektar viti lítið um margt. Flestir verkfræðingar feta troðnar slóðir og gera helst aldrei neitt sem ekki hefur verið gert áður.

Það eru til stjörnulögfræðingar, stjörnuarkitektar og stjörnukokkar en stjörnuverkfræðingar eru ekki áberandi. Til þess að móðga ekki íslenska verkfræðinga held ég mig við erlenda stjörnuverkfræðinga og nefni þrjá. Það eru þeir Gustave Eiffel, Pier Luigi Nervi og Ove Arup. Ég er ekki þar með að segja að ekki séu til frábærir verkfræðingar hér á landi. Það er bara þannig að ef ég nefni þrjá íslenska verkfræðinga sem ég hef sérstakar mætur á, þá er hætta á að ég móðgi þrjátíu sem ég ekki nefni.

Þegar ég las nýverið ævisögu dansk-norska verkfræðingsins Ove Arup (1895-1988) “ Masterbuilder of the Twentieth Century”  þá fór ég að velta fyrir mér af hverju stjörnuverkfræðingar væru fáir og af hverju verk þeirra bæru t.d. ekki höfundarrétt nema að takmörkuðu leyti? Ástæðurnar eru vafalaust margar, en þetta er verðugt  rannsóknarefni.

Ove Arup var sérstakur í hópi verkfræðinga og álitinn einn af færustu verkfræðingum heims og ef marka má bókina. Hann fékk tækifæri til þess að koma að vandasömustu verkefnum síns tíma og tókst að ljúka þeim með sóma. Þar er fyrst að telja Sydney Óperuna,  Pombidou menningarmiðstöðina í París og t.d. Þúsaldarbrúnna í London. Hann kom að hönnun Eyrarsundsbrúarinnar milli Svíþjóðar og Danmerkur  þó hann hafi ekki barið hana augum og margt fleira stórt og smátt.

Hann vann með stjörnuarkitektum á borð við Jörn Utzon, Le Courbusier, Walter Gropius, Renzo Piano og Sir Richard Rodgers svo örfáir séu nefndir.

En af hverju var hann sérstakur. Það veit auðvitað ekki nokkur maður.  En maður veltir fyrir sér hvort það hafi skipt máli að Arup lagði stund á heimspeki við Kaupmannahafnarháskóla áður en hann hóf nám í verkfræðinni. Hann var tilfinningamaður og sagt er frá ástarmálum hans í bókinni. Hann spilaði á harmonikku og píano allt sitt líf um leið og hann var ástríðufullur áhugamaður um myndlist. Þessi áhugamál hans sýna að hann kunni að lesa í fleira en forunnar töflur og staðla, fyrir utan að tölvan var ekki að þvælast fyrir honum.

Íslenskir verkfræðingar haf látið til sín taka í listum. Ég nefni Sigurð Thoroddsen verkfræðing sem málaði og Einar B. Pálsson var virkur í tónlistarlífi borgarinnar um árabil sem dæmi.

Hér að neðan eru myndir af Ove Arup að skemmta gestum, á sjötugsafmæli sínu, með hljóðfæraleik annarsvegar og hinsvegar er mynd tekin á skrifstofu hans í London. Þar má sjá skúlptúra og málverk. Málverkið af konunni með barn sitt er eftir franska málarann Jean Souverbie (1891-1881).

Myndin í upphafi færslunnar er af bókarkápu ævisögu Ove Arup eftir Peter Jones. Þar sést aftan á gamla manninn með Sydney Óperuna í baksýn.

OVE piano_croplett

Skrifstofa OVE croplett

Flokkar: Óflokkað

«
»

Ummæli (13)

 • Hilmar Þór

  Ekki veit ég hver Torfi er hér að ofan. En ef hann er verkfræðingur þá sýnir hugarfar hans að þarna er fagmaður áferð sem sér ekki vandamálin heldur áskoranir.

  Einmitt sú nálgun er visbending um að þar sé góður verkfræðingur á ferðinni.

  Viðhorf Sveins og S.A. hér að ofan eru þeirrar gerðar að vandamálin verða svo stór að ekki er við þau ráðið. Eða að viðkomandi verkfræðingur fær ekki við þau ráðið.

  Torfi er hinsvegar lausnamiðaður.

 • Það væri lítið gaman að vera burðarþolsverkfræðingur ef ekki nyti við arkitekta með brjálaðar hugmyndir. Hins vegar þurfa allir að gera sér grein fyrir því að bakvið hverja góða hugmynd er urmull af lélegum og ónothæfum hugmyndum.

 • Hef nú ekki orðið var við það sérstaklega að hönnuðir bygginga (sama hvort þeir eru arkitektar, verkfræðingar eða byggingarfræðingar) njóti verka sinna – á einfaldlega við þá staðreynd til dæmis að þegar að myndir birtast af mannvirkjum í prentmiðlum þá er einungis ljósmyndarans getið og í besta falli einnig verktaka og verkkaupa. Þetta segir heilmikið um viðhorf landans a.m.k. blaðamanna til mannvirkjahönnuða, þessu þarf nauðsynlega að breyta því að hið byggða umhverfi skiptir okkur máli.

 • Jón Guðmundsson

  Vandinn liggur í því hvaða augum menn líta sitt starfssvið.
  Mörkin á milli hugvísinda og raunvísinda eru ekki alltaf skýr.
  Arkitektúr liggur á milli þessara sviða, tilheyrir hvorugu sviðinu alfarið og vonandi er flestum það ljóst.

  Hættan liggur í því þegar menn fara að nálgast viðfangsefnin of mikið úr annari áttinni. Þessa dagana upplifum við afleiðingar þess að þorri hagfræðistéttarinnar reyndi að nálgast sín fræði á forsendum raunvísinda. Kerfið hrundi síðan vegna þess að markaðurinn lítur ekki lögmálum raunvísinda.

  Verkfræðingur sem ekki er tilbúinn að horfast í augu við þá staðreynd að fyrirkomulag manngerðs umhverfis fellur ekki alfarið innan ramma stærðfræðilegra reikningsaðferða getur verið erfiður í samstarfi.
  Það sama á við við arkitekt sem ekki vill sjá leiðina á milli villtustu draumanna og blákalds veruleikans.

  Ef báðir partar sætta sig við sínar takmarkanir þá gildir að haltur leiðir blindan og allir komast á áfangastað að lokum.

 • Á Renaissance-tímanum á Ítalíu var arkitektinn og verkfræðingurinn einn og sami maðurinn eins og t.d. Brunelleschi sem hannaði og sá um að byggja hvolfþakið á Dómkirkjunni frægu í Florence. Síðan rofnaði samband vísinda og lista og afleiðingarnar hafa verið skelfilegar fyrir umhverfið. Vonandi tekst okkur að tengja þessi svið saman aftur, öllum til farsældar. Mér sýnist reyndar að margt bendi til þess að nútíminn hafi áhuga á slíkum tengslum eins og sjá má víða í þvegfaglegu samstarfi hug- og raunvísinda.

 • Árni Ólafsson

  Það er svona þegar sérfræðingarnir ganga með nefið upp í loftið svo það riginir upp í það. Þessi stéttarígur, sem færsla Hilmars rifjar upp hjá mörgum, er sjálfsagt bæði merki um minnimáttarkennd og þröngsýni. Umhugsunarefni fyrir alla. Lítum í eigin barm í stað þess að benda á hin fíflin.

  Ég gæti trúað því að á bak við hvern „stjörnuarkitekt“ sé afburða verkfræðingur – og á bak við hvern „stjörnuverkfræðing“ sé afburða arkitekt.

 • Ekki alveg rétt hjá Sveini hér ad ofan ad byggingafrædingar hafi nákvæmlega engan grunn í burdartholi.

 • Samúel T. Pétursson

  Menn mega ekki gleyma áhrifamætti fjármagnsins í þessum efnum, en síðustu áratugina hefur orðið hröð þróun í framkvæmdafræði og öll umsýsla fjármála orðin mun þróaðri en hún áður var (a.m.k. erlendis). Þetta er orðin spurning um „make it or break it“ í þessum nokkuð harða bransa.

  Það þýðir því ekki fyrir arkitekt eða verkfræðing, í mörgum tilfellum, að setja fram of speisaða hönnun ef hún sýnir ekki fram á „financial viability“ einnig. Tvíhliða ástar-haturs samband er því líklega of einfölduð mynd. Mætti ekki frekar að tala um ástar-haturs þríhyrning í dag?

 • Mér hefur alltaf fundist það hálf skrýtið hvernig samband arkitekta og verkfræðinga virðist ganga fyrir sig. SA talar um ástar – hatursamband milli þessara tveggja stétta sem að er kannski útaf fyrir sig ágætis lýsing á þessum sambandi.

  En hvernig gengur þetta samband oftast fyrir sig? Í flestum tilfellum sest arkitektinn niður og byrjar á sinni hönnun oft með þeim sem að koma til með að nota bygginguna, köllum hann eigandann. Farið er í gegnum ýmsar grunnþarfir eigandans á sama tíma og arkitektinn kemur með sínar uppástungur. Farið er í gegnum helstu atriði eins og efnisval, gluggastaðsetningar, stærðir á herbergjum o.s.frv. o.s.frv.

  Þegar þessari grunnhönnun (e. preliminary design) er lokið þá er farið með teikningarnar til verkfræðingsins og hann beðinn um að „hanna“ bygginguna. Þegar hér er komið við sögu hafa arkitektinn og eigandinn gert upp hug sinn og oft getur reynst erfitt að fá þá til að endurskoða val sitt. Sökum þess verður oft erfitt fyrir verkfræðinginn til að sýna hvað í honum býr og endar það oft með því að hönnunin verður stöðluð.

  Í tilfelli Arup trúi ég því að hann hafi fengið að taka þátt í hönnuninni á fyrstu stigum hennar og þar með getað komið með sitt sjónarhorn á hönnunina og látið sitt stjörnuljós skína.

  Annars verð ég að nýta tækifærið og þakka fyrir gott blogg.

 • Ha!Ha!Ha! Nú fórstu yfir strikið.

  Arkitektinn er sexy af því að hann getur leift sér að hanna hluti sem ekki ganga upp. Það er ekki sexy hlutverk sem verkfræðingurinn fær frá arkitektinum að leysa hið ómögulega. Akrkitektinn tekur svo við hrósinu þegar verkefnið hefur verið leyst af verkfræðingnum. 😉

  Það ríkir ástar – haturssamband á milli arkitekta og verkfræðinga en arkitektar geta ekki án verkfræðinga verið.

  Verkfræðingar geta hins vegar verið án arkitekta í langan tíma. En það er með þá eins og klárinn, hann leitar þangað sem hann er kvaldastur.

  Annars allt í góðu 🙂

 • Ég kom einusinni á skrifstofu Kristjáns Flygering annars eiganda VGK og nú Mannvits. Skrifstofa Kristjáns svipaði til skrifstofu Arups. Skrifstofa Krisjáns var full af listaverkum og allskonar persónulegum huggulegheitum.

  Nú sjást ekki listaverk á skrifstofum verkfræðinga og vinnuumhverfi ráðgjafa er almennt steingelt og ópersónulegt.

  Eins og kannski sú vinna sam þar er unnin.

 • Sveinn Haraldsson

  Ja hérna hér, ég ætla vona að þú hafir sent þennan link á arkitektarfélagið hérna heima. Það er verkefni verkfræðinga að láta hugmyndir arkitekta verða að veruleika, og oft á tíðum er það ekki auðvelt verk skal ég segja þér. Mér hefur alltaf fundist það einkennilegt hvernig hægt er að útskrifa arkitekta og byggingafræðinga með nákvæmlega engan grunn í burðarþoli.

  Ég er mikill talsmaður samvinnu milli þessara tveggja stétta, en hvert skipti sem ég eða aðrir kollegar mínir ræðum við arkitekta um hvað betur mætti fara þá er hvæst á okkur. Oft á tíðum fylgir með að við eigum ekki að fara yfir á ykkar svið. Kannski er þetta minnimáttarkennd.

 • Einar Sk.

  Eru ekki öll kerfin að taka frumlega hugsun af fólki. Þetta á ekki síður við um arkitekta. Vinnuferlar, verklagsreglur, gæðahandbækur, regluverk, nefndafargan og fjárhagslegar ábyrgðir eru þannig að þær hræða fólk frá sjálfstæðri hugsun. Fólk þorir ekki að taka áhættu. Svo eru stofurnar orðnar svo stórar að einstaklingurinn, og hans hugverk hverfur í fjöldahugsun stórfyrirtækja í ráðgjafaþjónustu þar sem hagur fyritækisins er haft að leiðarljósi.

  Gæti maður til dæmis ímyndað sér að Kjarval eða Picasso hefðu getað verið frumlegir í hópvinnu með kannski 300 starfsmönnum við hugmyndasmíðina? Eða hefði 20 manna teymi tónskálda getað samið níundu syfóníuna?

  Ég, verkfræðineminn, spyr.

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af átta og átta? Svar:

Höfundur

Hilmar Þór Björnsson arkitekt
Tilgangur síðunnar er að kynna arkitektúr, skipulag og staðarprýði ásamt því að stuðla að umræðu um efnið. Það sem fram kemur ber ekki að skilja sem skoðun höfundar heldur hugleiðingu sem sett er fram í þeim tilgangi að vekja lesendur til umhugsunar og skoðanaskipta. Tekið er á móti aðsendum greinum þegar það á við, sem þá eru á ábyrgð höfundar aðsends efnis.
Athugasemdir við færslur eru velkomnar. Þeir sem vilja koma skilaboðum til ábyrgðarmanns beint er bent á netfangið hilmarstofunni@gmail.com
RSS straumur: RSS straumur

Færslusafn