Myndin að ofan er fengin úr samkeppnistillögu SPITAL hópsins sem sigraði í samkeppni um Landspítala Háskólasjúkrahús fyrir 7 árum. Gert er ráð fyrir að tekinn verði grunnur að svonefndum meðferðarkjarna í lok ársins 2018. Þá verða liðin meira en 8 ár frá því að samkeppni um spítalann lauk og niðurstaða lá fyrir.
Á átta árum ná Danir að auglýsa samkeppni um enn stærri spítalaframkvæmd, fá niðurstöðu sem sátt er um, hanna byggingarnar, byggja þær og afhenda til rekstrar og taka á móti sjúklingum.
Varðandi Landspítalaframkvæmdina við Hringbraut gengur hvorki né rekur.
Hvernig ætli standi á þessu?
Ég átti samtal við starfsfólk á Borgarspítalanum í vikunni, sem var almennt óánægt með staðsetningu Landspítalans við Hringbraut og nánast allt fyrirkomulag þar. Þetta fólk taldi að þetta sleifarlag mætti rekja til þess að það væri ekki sannfæring meðal ráðamanna og þjóðarinnar gagnvart verkefninu.
+++
Í byrjun aldarinnar var mikill hugur í fólki. Fundin var leið til fjármögnunnar Nýs Landspítala með sölu Símanns og Síminn var seldur. Svo hurfu peningarnir allir einhvernvegin þó Síminn sé hérna ennþá og í fullum rekstri. Þetta er reyndar atriði sem ég ekki skil. Síminn var seldur fyrir andvirði sem átti að vera nægjanlegt til að byggja nýjan Landspítala Svo hurfu bara peningarnir! En Síminn er áberandi í öllu okkar umhverfi og daglegu störfum á árinu 2017.
+++
Í framhaldinu af sölu Símanns var ákveði þvert á ráðgjöf erlendra sérfræðinga að bygga upp Háskólasjúkrahúsið við Hringbraut. Haldnar voru samkeppnir o.s.frv.
En þá kom Hrunið og allt stoppaði um stund. Svo fór allt af stað aftur ári eftir Hrun og nú átti að koma byggingariðnaðinum af stað, sem hafði algerlega stöðvast á þessum tíma Byggingariðnaðinum átti að koma af stað á ný með framkvæmdinni og klára spítalann við Hringbraut með hraði.
Auglýst var eftir þáttakendum í forvali vegna nýrrar samkeppni um áramótin 2009/2010 og samkeppnisgögn afhent 12. mars árið 2010. Aðeins þrem mánuðum síðar, þann 10. júní, skiluðu þáttakendur inn tillögum sínum. Dómur féll mánuði síðar eða þann 9. júlí 2010. Þetta tók allt gríðarlega stuttan tíma. Fjórum mánuðum eftir að samkeppnisgögn voru afhent var verkið komið á beinu brautina að mati flestra.
Það lá greinilega mikið á.
+++++
Um áramótin 2009/2010 var haldinn stór fundur í rástefnusal Landspítalans við Hringbraut þar sem farið var yfir málið í heild sinni.
Efni fundarins var forvalið, samkeppnin og framkvæmdin.
Einn fundarmanna spurði hvenær reiknað væri með að framkvæmdir við byggingu Nýs Landspítala hæfist. Gunnar Svavarsson verkefnisstjóri varð fyrir svörum og sagði að það væri áætlað á haustmánuðum 2011. Sennilega í nóvember. Fyrirspyrjandi var ánægður með áformin en þótti þetta stuttur tími til þess að klára samkeppnina, hanna húsin til útboðs og hefja framkvæmdir. Þá leiðrétti Gunnar þann misskilning og sagði að gatnaframkvæmdir munu byrja í nóvember 2011. Þetta leit sem sagt allt vel út. Ekki kom fram á þessum fundi hvenær uppbyggingunni átti að ljúka, en miðað við tímaáætlunina vegna hönnunar og byrjun framkvæmda gerðu menn auðvitað ráð fyrir að byggingarnar stæðu fullbúnar til notkunnar um þessar mundir, árið 2017-2018.
++++
Síðan eru liðin sjö ár og það er enn rúmt ár þar til útboðsgögn vegna framkvæmdarinnar verða afhent ef áætlanir standast. Húsgrunnur verður tekinn 8 árum eftir að samkeppninni lauk samkvæmt þessu! Þetta er gríðarlega langur tími. Allt of langur. Þetta hreyfist með hraða snigilsins. Á þessum mörgu árum hafa eldri byggingar drabbast niður og einungis hafnar framkvæmdir á Sjúkrahóteli, rými fyrir jáeindaskanna og nokkrir skrifstofugámar fyrir lækna hefur verið komið fyrir, (aðeins um 1-2% af heildarbyggingamagni Landspítalalóðar) annað ekki.
Samkvæmt deiliskipulagi á Landspítalalóðin að rúma alls 293.300 fermetra þar sem eldri byggingar sem á að endurhæfa eru aðeins tæpur fjórðungur alls byggingamagnsins eða 73.600 m2. Þetta er gríðarlegt byggingamagn sem ekki er auðvelt á átta sig á. Jafnvel fyrir atvinnumann í greiningu skipulags og bygginga.
+++
Í Danmörku var haldin samkeppni um nýtt háskólasjúkrahús í Köge á Sjálandi. Köge er bær suðvestan við Kaupmannahöfn. Það vekur athygli að þar er enginn háskólinn sem segir manni að tengsl við almennan háskóla skiptir þar í landi litlu máli. Samkeppnin um sjúkrahúsið í Köge var haldin 2013 og gert er ráð fyrir að sjúkrahússbyggingin standi fullkláruð 8 árum síðar eða árið 2022. Hún er um 177.000 fermetrar.
Þetta er ekki álitið sérstaklega hröð framkvæmd þar í landi. Hún er álitin eðlileg. Þegar tekinn verður grunnur að meðferðarkjarna Landspítalans Háskólasjúkrahúss við Hringbraut í lok næsta árs verða liðin hátt á 9 ár frá því að úrslit um samkeppni vegna framkvæmdanna lá fyrir.
+++
Af hverju gengur þetta svona hægt hjá okkur? Er þetta sleifarlag? Slæleg vinnubrögð, hirðuleysi og trassaskapur? Eða er þetta ein harmasaga hugsanlega vegna þess að þetta byggist allt á veikum grunni hvað varðar skipulag, fjármál og hugmyndafræði? Ég veit ekki svarið en það er ljóst að ekki hefur tekist að ná upp faglegri umræðu um málið. Málið allt er vanreifað.
Það er sorglegt vegna þess að allt sem farið hefur verið fram á er að það fari fram óháð og hlutlaus staðarvalsgreining. Því er ítrekað hafnað og kerfið hefur makkað með einhverjum óskiljanlegum þverpólitískum þingmeirihluta. Nú hafa svo margir komið að þessu að enginn er ábyrgur.
Menn hafa sagt undanfarin 7 ár að það væri of seint að taka upp fagleg vinnubrögð varðandi þetta mikilvæga mál!
Með sömu rökum má halda því fram að það sé orðið of seint að breyta bílaborginni Reykjavík í vistvæna borg fyrir fólk með Borgarlínunni.
++++
Efst er mynd úr samkeppnistillögu sem var valin til útfærslu þann 9. júlí 2010 og strax að neðan er svo fullunnin deiliskipulagstillaga þar sem bætt hefur verið við byggingamagnið einum 30 þúsund fermetrum næst nýju Hringbrautinni.
Neðst kemur svo mynd af Háskólasjúkrahúsi í Köge í Danmörku. Samkeppni var haldin árið 2013 og sjúkrahúsið verður tilbúið til notkunnar 2022, 8 árum síðar.
Að neðan er yfirlitsmynd af háskólasjúkrahúsinu í Köge suðaustan við Kaupmannahöfn. Þetta er gríðarstór bygging uppá 177.000 fermetra. Samkeppni var um húsið var boðuð árið 2013 og nú standa byggingaframkvæmdir yfir og verður lokið árið 2022. Það er rúmt um stofnunina og aðgengi er gott. Það var ákveðið að efna til samkeppni um þessa miklu byggingu árið 2013 og allt bendir til þess að húsið verði opnað árið 2022.
Við fengum úrslit í samkeppninni um Nýjan Landspítala Háskólasjúkrahús 2010 og framkvæmdir munu hefjast rúmum 8 árum síðar ef áætlanir ganga eftir. Staðsetningin er í engu samræmi við raunveruleikann eins og hann er nú 15 árum eftir að staðurinn var valinn og forsendur staðarvalsins frá 2002 eru allar brostnar.