Prince Charles af Wales, sagði á árunum um 1990 að breskir arkitektar hefðu valdið meira tjóni undanfarin 40 ár í miðborg Lundúna en Deutsche Luftwaffe í seinni heimstirjöldinni! Þetta var auðvitað arrogant og fékk prinsinn bágt fyrir. Einkum frá aritektum. Ég hitti mann í haust sem sagði að Reykjavík liti út eins og Aleppo með niðurbrotnar og sprengdar byggingar út um allt. Þetta er auðvitað ofmælt og líka hrokafullt. En þetta segir okkur samt að fólk er uggandi yfir þeirri þróun sem verið hefur undanfarin ár og líst ekkert á hana. Lítur á niðurrifið eldri húsa og nýbyggingar sem ekki eru aðlagaðar nánasta umhverfi mjög svörtum augum.
Ég var að fara yfir færslur mínar á árinu sem er að líða og sé að það sem mest var lesið varðaði niðurrif gamalla húsa í Reykjavík. Það kom mér sannast sagna ekki á óvart. Niðurrif gamalla húsa og jafnvel nánast heilu reitanna í Reykjavík hafa verið sláandi. Hús hafa verið rifin sem aldrei fyrr og þeim öllum fórnað af fullkomnu tillitsleysi við það sem fyrir var að því er virðist. Engin skráning fór fram fyrir niðurrifið. Hvorki með ljósmyndum né uppmælingu og teikningum. Oftast voru þessar ákvarðanir byggðar á deiliskipulagi sem samþykkt var fyrir síðasta Hrun og stjórnmálamenn hafa ekki átt margra kosta völ til þess að afstýra þessum ósköpum.
Mestur hluti þessa niðurrifs var framkvæmt með stuðningi arkitekta. Þeir gerðu deiliskipulag sem kallaði á niðurrifið og þeir teiknuðu húsin sem risu í þeirra stað. Oft voru þetta sömu arkitektarnir sem nánast lögðu til að húsin yrðu rifini og teiknuðu svo húsin sem komu í staðinn.
Samfélagsleg ábyrgð kollega minna er mikil.
Í lok ársins sýndi sig ábyrgðafull framkoma stjórnmálamanna í þessu samhengi. Borgaryfirvöld höfnuðu umsókn um að rífa niður gömul hús á tveim stöðum í borginni. Annarsvegar við Veghúsastíg og hinsvegar á horni Bragagötu/Freyjugötu. Umhverfisráð taldi að “húsverndunarsjónarmið og varðstaða um byggðarmynstur gömlu Reykjavíkur verði að vera í forgangi þegar þess sé kostur”. Þetta er hárrétt og samræmist reyndar opinberri menningarstefnu í mannvirkjagerð. Það var tími til kominn að menn spyrntu við fótum varðandi niðurrifið. Ég hefði auðvitað óskað að sú viðspyrna hefði komið frá arkitektum, en svo var ekki. Hún kom frá stjórnmálamönnum. Þetta gefur von um breytt viðhorf stjórnmálamanna á komandi árum og hugsanlegt aðhald gagnvart arkitektum og fjárfestum.
En hvað með kollega mína?
Er samfélagslegri ábyrgð kollega minna ábótavant? Þeir deiliskipuleggja og nánast dæma jafnvel áægt hús til niðurrifs. Þeir hanna hús í gamalt og gróið umhverfi sem öllum þykir vænt um og jafnvel elska með þeim hætti að það sem fyrir er er skúbbað til hliðar, víkur þó það sé ekki rifið. Þetta sér maður víða. Ég nefni Austurhöfn og nýlegar tillögur um skrifstorfubyggingu fyrir Alþingi sem er nýlega afstaðin. Þar studdi dómnefnd tillögu í þriðja sæti sem að margra mati átti ekki erindi á einn viðkvæmasta stað í borginni. Í dagblöðunum í gær var fjallað um byggingu íbúðablokka sunnan útvarpshússins. Íbúðablokkirnar skyggja á eina helstu og merkusti stofnun þjóðarinnar. Það liggur i augum uppi að aldrei á að byggja neitt sem rýrir þau umhverfisgæði sem fyrir eru. En í því dæmi á að byggja íbúðablokkir sem rýra ásýnd einnar af helstu menningarstofnunnar landsins, RUV. Mér sýnist allir vera sammála um þetta arkitektar hafa tekið að sér að deiliskipuleggja og hanna hús sem ekki eru í samræmi um hugsjónina um betra umhverfi og virðingu fyrir því sem fyrir er. Ástæðan kann að vera sú að þetta hafi verið í forsögn samkeppi um byggingarnar. En allar tillögur í samkeppninni gerðu ráð fyrir þessu fyrirkomulagi.
Í gær var líka kynnt í blöðunum hótelbygging í Borgarnesi. Borgarnes er eitthvað alfallegasta bæjarstæði á Íslandi. Fíngerð húsin á nesinu, nálægð við sjóinn og fjallahringurinn er einstakur. Þarna hafa arkitektar lagt til að byggt verði 4-5 hæða hótelkassi sem engan samhljóm hefur við nánasta umhverfi ef rétt er skilið. Húsið styrkir ekki staðarandann heldur veikir hann.
+++++
Arkitektar þurfa á nýju ári að taka sig á og sýna samfélagslega ábyrgð. Taka þátt í umræðunni og upplýsa notendur skipulagsins og bygginganna um þá möguleika og þau tækifæri sem við blasa. Hafa skoðun og láta hana í ljós og ekki síður að skipta um skoðun ef þannig stendur á. Ekki hoppa gagnrýnislaust á öll þau verkefni sem þeim býðst. Vera samfélagslega gagnrýnir og sýna ábyrgð líkt og stjórnmálamenn hafa gert varðandi Veghúsastíg og horn Bragagötu og Freyjugötu. Standa með byggingalistinni og umhverfinu öllu í hverju því verki sem þeir taka sér fyrir hendur.
+++++
Efst er skopmynd af hugsanlegri framtíð eins og Haldór Baldursson sér hana. Þarna er búið að rífa alla þá Reykjavík sem við elskum og túristarnir koma að heimsækja. Nema eitt hús „The very famous Colorful bárujarnshús in Reykjavík“
Myndirnar að neðan voru teknar í haust af nokkrum niðurrifsvæðanna í miðborg Reykjavíkur.
+++++
Ég þakka lesendum mínum samfylgdina á árinu sem er að líða í von um að það gangi betur á næsta ári..
Um helgina féll dómur í samkeppni um nýja skrifstofubyggingu Alþingis. Hér er um mikilvæga byggingu að ræða á mikilvægum stað.
Eftir að hafa skoðað verðlaunatillögu Studio Granda kom í huga kennisetning Mies van der Rohe: „God is in the details“ eða „Guð býr í smáatriðunum“. Styrkur tillögunnar liggur ekki bara í stóru línunum heldur ekki síður í fjölmörgum smátriðum sem skipta sköpum á þessum stað. Þarna er sterk skýrskotun til sögu staðarins, sögu þjóðarinnar og jarðfræðinnar. Þetta er sterk og starfhæf bygging, ef ég skil rétt, en veikleikann má helst rekja til galla í því sem mestu veldur, deiliskipulaginu, sem höfundum hefur tekist að lágmarka í hugmyndavinnu sinni.
Í greinargerð með tillögunni stendur að nýbyggingin standi á stað sem opnar gátt inní fortíðina og söguna. Þarna er vísað til þeirra fornleifa sem eru á lóðinni. Útveggir hússins rísa uppúr rústum landnámsins og líkjast jarðlögum sem hlaðast upp í tímans rás. Þeir eru lagskiptir eins og samfélagið, sem á sér rætur einmitt á þessum stað, en vitna einnig um fjölbreytileikann í marglaga heild.
Svo vitnað sé áfram í greinargerð höfunda:
„Í Tjarnargötu víkja húsveggirnir fyrir fornleifunum og vegfarendur horfa beint ofan í fortíðina. Skrifstofa forseta Alþingis er á lofti yfir járnvinnsluofnum frá 9. og 10 öld og rauðajárnið smitast í kápuna, úr Corten stáli. Húsið er sjálfstætt tengistykki á milli smágerðs hornhússins og umfangsmikilar nýbyggingarinnar. Tjarnargatan þjónar sem aðkoma að nýbyggingu Alþingis, en þar er gestum sleppt út og hægt að leggja.
Við Vonarstræti speglar framhlið hússins sig í horntjörn Ráðhússins, en hún myndar fallegan forgrunn og aðkomutorg. Götuhliðin skiptist í tvö stök hús með ljósgeil á milli sem opnast á móti suðri með mosaþekju neðst sem tengist trjágróðri götunnar í kring. Umfangi nýbyggingarinnar er skipt niður í þrjú hús svo hún samlagist betur fínlegum mælikvarða byggðarinnar í Kvosinni.
Á jarðhæð opna samfelldir gluggaveggir andlit hússins að götunni. Fyrir innan starfa nefndir þingsins fyrir opnum tjöldum eða luktum eftir atvikum“.
Við Oddfellowhúsið opnast gönguleið um mjótt sund sem breikkar til norðurs þar sem sólin nær inn á baklóðina. Gróðursvæði er framan við opið fundarherbergi og ráðstefnusal.
„Í Kirkjustræti er nýju steinskífuklæddu húsi bætt í eyðu í gömlu húsaröðinni án þess að raska götumyndinni“.
Hér er litið suður Tjarnargötu. Í greinargerð má lesa að húsveggirnir eru látnir víkja fyrir fornleifunum og vegfarendum gefin kostur á að horfa beint ofan í fortíðina af gangstéttinni. Ef ég skil rétt er maðurinn sem stendur vinstramegin í götunni að horfa á fornminjarnar sem þar eru og verða. Skrifstofa forseta Alþingis er á lofti yfir járnvinnsluofnum frá 9. og 10 öld og rauðajárnið smitast í kápuna, úr Corten stáli. Í útliti að Tjarnargötu er bilið milli gamla hússins við Kirkjustræti og nýbyggingarinnar brúað með nútímalegu húsi sem er minna í öllum hlutföllum en aðliggjandi hús og með þekktu formi sem einkennt hefur byggðina í Reykjavík um aldir. Tjarnargatan sem á að þjóna sem aðkoma að nýbyggingu Alþingis hefði þurft að vera breiðari og fá meira vægi sem tenging frá Víkurgarði (Fógetagarði) að tjörn ráðhússins og þaðan suður Tjarnargötu í Hljómskálagarð og alla leið að friðlandi Vatnsmýrarinnar. En þetta er eitt þeirra atriða sem ákveðið var í deiliskipulaginu að gera ekki.
Láréttar línur í útlitunum er skýrskotun til sögunnar og jarðlaga sem myndast í tímans rás. Hugmyndin að lagskiptum útveggjum snýst ekki einungis um jarðlög tímans heldur einnig um það sem við skiljum eftir okkur. Með hugvitssemi í anda landnámsmannanna, sem unnu kol og járn úr engu, er hægt að umbreyta úrgangi í byggingarefni, líkt og náttúran myndbreytir jarðefnum í stein eða tíminn ruslahaugi í fornminjar. Úrgangsgler verður glersteinn, brotajárn járnsteinn, plast að kubbum, steypumulningur hleðslusteinn o.s.frv. Náttúran tekur svo við með fléttum og frumgróðri sem koma sjálf.
Einnig er hægt að tengja þessar láréttu línur gamla alþingishúsinu og skálanum nýja þar við hliðina. Hugsanlega hefði mátt gefa þessum húskroppum örlítið mismunandi áferð til þess að ná því uppbroti í götuhliðinni sem einkennir götumyndir Kvosarinnar. Athygli er vakin á að gólfsíðir gluggar eru á jarðhæð. Þar fyrir innan eru fundarherbergi nefndasviðs þingsins. Þetta færir lýðræðið nær fólkinu í landinu. Auðvitað verður dregið fyrir þegar ástæður gefa tilefni til. Þessi opnun fundarherbergjanna á jarðhæð er djörf og líklega ekki öllum að skapi. Þarna eru hin svokölluðu „reykfylltu“ fundarherbergi að vissu marki, opnuð út á götu.
Í Kirkjustræti er nýju steinskífuklæddu húsi bætt í eyðu í gömlu húsaröðinni án þess að raska götumyndinni. Þetta er nánast skólabókardæmi um hvernig má fella nútímalegt hús inn í eldra borgarumhverfi þannig að vel fari. Nútímalegar byggingar þurfa ekki að vera í andstöðu við það sem fyrir er. Þvert á móti.
Að ofan er afstöðumynd þar sem greina má tengigang úr nýbyggingunni um skála Alþingis og þaðan inn í gamla Alþingishúsið. Bílastæðin í innigarðinu eru líklega einhver misstök.
Að ofan eru útlitsmyndir að götum. Efst er ásýnd að Vonarstræti. Í miðið er útlit að Tjarnargötu þar sem bilið milli gamla hússins við Kirkústræti og nýbyggingarinnar er brúað með nútímalegu húsi sem er minna í öllum hlutföllum og með þekktu formi sem einkennt hefur byggðina í Reykjavík um aldir. Svo neðst er ásýnd að Kirkjustræti sem er sérlega vel heppnuð.
Að ofan er deiliskipulag Alþingisreitsins sem samþykkt var 16. júní 2016. Þar má sjá að verðlaunatillaga Studio Granda er, eðlilega, sniðin að skipulaginu hvað húsahæðir og byggingalínur snertir. Höfundunum hefur tekist að brjóta byggingamassann upp í meira mæli en skipulagið gerði ráð fyrir og bætt við ýmsu smálegu sem færir svæðinu aðlaðandi andrúm. Helstu gallar við þetta deiliskipulag er að rýmra hefði mátt vera um nyrðsta hluta Tjarnargötunnar, húsahæðir hefðu mátt vera minni og uppbrot meira í götumyndum. Hugsanlega hefðu ákvæði um þakhalla eða þakgerð líka haft einhver áhrif til bóta.
Hryggjarstykkið í Aðalskipulagi Reykjavíkur er að mínu mati samgöngu- og þróunarásinn sem liggur frá Vesturbugt, inn Hverfisgötu og Suðurlandsbraut alla leið að Keldum og hugsanlega áfram að Úlfarsárdal og Korputorgi. Hugmyndin gefur tækifæri til þess að binda borgina saman í heildstæða línulega borg þar sem gott er að búa og mikil tækifæri verða til varðadi samgöngur ef vel er á haldið. Hugmyndin mun gefa tækifæri til mun meiri og betri landnotkunar en áður. Fasteignaverð mun hækka meðfram línunni og skipulagslegar forsendur fyrir mun meiri landnotkun verður til.
Borgin verður vistvænni og líflegri. Borgarhlutar eins og Úlfarsárdalur, Grafarvogur og Keldnaholt tengjast öðrum hlutum borgarinnar og verða starfrænn og virkur hluti hennar.
Núna fyrir um hálfum mánuði var haldinn kynningarfundur um hina svokölluðu „borgarlínu“ svæðisskipulags höfuðborgarsvæðisins í Iðnó. Þetta var glæsilegur fundur þar sem erlendir sérfræðingar frá danska ráðgjafafyritækinu COWI kynntu hugmyndir um „high class public transport systems“. Þetta var metnaðarfullt og það var augljós mikill áhugi á því framfaraspori sem almannaflutningar eru. Þær eru í raun forsenda fyrir vexti höfuðborgarsvæðisins og þegar til langs tíma er litið hagkvæmt, vistvænt og mikið kjaramál þar sem einkabíllinn er mjög kostnaðarsamur fyrir jafnt einstaklinga og samfélag. Og svo í síðustu viku var undirrituð af bvorgarstjóra og sveitastjórum höfuðborgarsvæðisins viljayfirlýsing vegna verkefnisins. Þetta vísar allt til betri vegar.
En víkjum aftur að samgönguásnum.
Í færslu hér fyrir bráðum fjórum árum þegar samgönguásinn var kynntur var sagt að enga skipulagsákvörðun mætti taka án þess að hún sé spegluð í þessum áformum.
Til þess að skýra þetta nefni ég bara eitt atriði sem taka hefði þurft tillit til í þeirri skipulagsvinnu sem farið hefur fram síðan AR2010-2030 var samþykkt. Það er að ákveða nákvæmlega hvar samgönguásinn á að liggja og hvar stoppistöðvarnar verða og hvernig þær eiga að vera. Sumir telja þetta þrjú atriði sem kann vel að vera. En ég álít þetta svo samtvinnað að ekki er hægt að skilja þarna á milli frekar en milli bols og höfuðs.
Í aðalskipulaginu AR2010-2030 er nánast búið að ákveða hvar línan á að liggja en það eru um Geirsgötu, Hverfisgötu, Laugarveg, Suðurlandsbraut yfir Elliðaártnar og alla leið að keldum. Til lengri framtíðar má reikna með að hún gangi alla leið að Korputorgi og Úlfarsárdal.
Í nýjustu útgáfu frá National Association of City Transportation Officials, NACTO, í bandaríkjunum, „Transit Street Design Guide“ er að finna ýmsar útgáfur af stoppistöðvum. Þar er oftast gert ráð fyrir sérmerktum akreinum fyrir vagnana. Allsstaðar er gert ráð fyrir að hæð gangstéttanna við stoppistöðvarnar séu þannig að fólk í hjólastólum eða með barnavagna geti gengið beint inn í vagnana hindrunarlaust. Við deiliskipulag Austurbakka, endurmótun Hverfisgötu og fl hefði þurft að gera ráð fyrir stoppistöðvum, staðsetningu þeirra og útfærslu. Í aðalatriðumn er talað um þrjár gerðir stoppistöðva í skýrslu NACTO:
1. Gangstéttastopp
Strætóstopp við gangstéttar eru líklega algengasta gerðin vegna þess að þær kosta minnst og það tekur stuttan tíma að koma þeim upp. Þar fyrir utan henta þær vel yrir flestar tegundir gatna með blandaðri umferð og þar sem strætisvagnareinarnar eru ekki endilega sérmerktar strætó. Sjálfar stoppistöðvarnar verða þó sérmerktar almenningsflutningum
2. Stærri stoppistöðvar á miðri götu
Í mörgum borgum víða um heim verður sífellt algengara að gerðar eru sérmerktrar reynar fyrir strætó í miðjum götunum. Á skýringarmyndinni að ofan er gert ráð fyrir sérmerktum reinum fyrir vagnana í báðar áttir en vel er hugsanlegt að hafa eina rein fyrir vagnana og láta þá bara mætast á stoppistöðvunum. Það gæti hentað vel í Reykjavík. t.d. á Geirsgötu og Hverfisgötu þar sem þrengsli eru. NACTO telur þessa lausn hafa marga kosti eins og meira öryggi fyrir farþega, meira rekstraröryggi og möguleika á tíðari ferðum og betri ásýnd.
3. Stærri gangstáttarstoppistöð
Þetta er hugsað þar sem áætlun er óregluleg eða ónákvæm. Þetta er auðvitað ekkert sem hentar samgönguásnum eins og hann er hugsaður ef ég skil rétt en gæti átt við þar sem „borgarlínan“ mætir samgönguásnum og þjóna sem skiptistöð. NACTO mælir með að gangstéttin þarna sé breikkuð til þess að tefja ekki fyrir gangandi umferð sem er sú vistvænasta og mikilvægasta.
Einhvern vegin var ég svo bjartsýnn þegar Aðalskipulagið og þessar hugmyndir voru unnar og kynntar veturinn 2012-2013 að ég taldi að samgönguásinn yrði kominn í rekstur innan 3-5 ára, jafnvel fyrr. Borgin mundi kaupa svona 10-12 litla vagna, gjarna rafdrifna og setja þá í rekstur. Þetta væru svona skutlur eins og við þekkjum af flugvöllum þar sem manni er ekið frá flugstöð til bílaleigu o.þ.h. Vagnarnir tækju svona 15 manns í sæti og 15-20 í stæði og ækju milli Vesturbugtar og Skeifunnar með 5 mínútna millibili og helst ókeypis fyrir alla undir 18 ára og yfir t.d. 65. Svo í beinu framhaldi væri farið að brúa Elliðár vegna þessarrar samgöngubóta og verkefnið klárað með öllum stoppistöðvum á svona 10 árum. Þetta fannst mér blasa við.
Að ofan er aðalskipulag Reykjavíkur AR2010-2030. Þarna má greinilega sjá hvernig verið er að móta línulega borg. Það er guli dregillinn á kortinu sem fer eftir borginni endilangri. Hugmyndin gengur út á að binda þessa losaralegu og sundurlausu borg saman með ás sem einkennist af borgargötu með þéttleika sem getur borið vistvæna almenningumferð i háum gæðaflokki („high class public transport systems“) í blandi við einkabílaumferð. Þetta gefur líka tækifæri til þess að þétta byggðina og auka nýtingarhlutfall verulega meðfram ásnum. Áhersla er einnig lögð á góða aðstöðu gangandi og hjólandi vegfarenda á samgönguásnum. Ef þetta gengur eftir verða Sæbraut og Miklabraut hluti af stoðkerfi borgarinnar líkt og sú aðveita og fráveita sem við þekkjum. Þróunarásinn verður gata þar sem fólk sækir þjónustu, nýtur göturýmanna og velur sér vinnustað og búsetu í grenndinni. Þarna verður heildstæð breiðgata sem allir borgarbúar eiga erindi til og skapar línulega borg iðandi af mannlífi og góðri þjónustu af öllu tagi.
Hér að ofan eru fyrstu hugmyndir sem ég sá að svokallaðri borgarlínu. Ég óttast að áherslan á hana muni tefja fyrir uppbyggingu samgönguáss aðalskipulagsins sem hefur setið á hakanum síðan aðalskipulagið var samþykkt sýnist mér. Aðalskipulagið AR2010-2030 var samþykkt í borgarstjórn 26.11.2013.
Síðan þá hefur mikið gerst í skipulagsmálum meðfram samgönguásnum. Opin samkeppni var haldin um brýr yfir Elliðaárósa þar sem ekki var tekið mið af fyrirhuguðum samgönguás ef ég skil rétt. Veklok vegna brúnna var í lok september 2013. Þá var haldin lokuð samkeppni um svokallaða Vogabygð í grennd við Súðarvog þar sem gert var ráð fyrir samgönguásnum í forsögninni en hún var ekki áberandi í lausnum keppenda. Síðan aðalskipulagið var samþykkt var gengið frá deiliskipulagi við Austurbakka þar sem samgönguásinn fer um án þess að gert hafi verið sérstaklega ráð fyrir honum. Deiliskipulagið var samþykkt í borgarráði 05.06.2014 með síðari breytingum. Hverfisgatan hefur verið endurskipulögð og endurnýjuð á smekklegan hátt en þar er ekki að sjá að gert hafi verið ráð fyrir samgönguásnum. Í samkeppni á síðasta ári um rammaskipulag við Elliðaárvog og Ártúnsholt var í forsögn gert ráð fyrir samgöngúásnum og honum gerð ágæt skil í tillögugerð flestra þátttakenda en ekki allra.
Allt þetta veldur vonbrigðum vegna þess að ef hugur fylgir máli þá er ekki hægt að taka neinar skipulagsákvarðanir, stórar eða smáar án þess að taka tillit til samgönguássins. Annars er hætta á að ekkert verði úr þessu eins og oft eru örlög góðra hugmynda og fyrirætlana.
Að ofan er deiliskipulagið við Austurbakka sem samþykkt var í borgarráði í júní 2014 eða rúmlega ári eftir að aðalskipulagið var staðfest. Þrátt fyrir Það eru ekki gerðar neinar sérstakar ráðstafanir í skipulaginu vegna samgönguássins. Það er margt fleira við þetta deiliskipulag að athuga sem ekki tengist samgönguásnum beint. Ég endurtek það sem ég hef sagt um þetta í pistlum mínum áður. Þarna vantar kröfur um arkitektóniska aðlögun bygginga að næsta nágrenni eins og gert var í Kvosaraskipulaginu frá 1986 og á hinum rómaða Hljómalindarreit. það er í raun krafa um þetta í menningarstefnu hins opinbera í mannvirkjagerð. Þarna er lega gatna skrítin. Gaman gefði verið ef Geirsgatan hefði fengið stefnu á Arnarhól miðjan þar sem stytta Ingólfs er með sviðsturn Þjóleikhússins sem bakkgrunn. Þetta er mikilvægara en margan grunar. Við þekkjum nokkur dæmi í Reykjavík þar sem þetta hefur tekist vel. Það er skólavörðustigur og Hallgrímskirkja þekktasta dæmið. Og svo er þetta með bolverkið sem virtist koma öllum á óvart. Auðvitað átti það eins og venjulegar fornminjar að vera skipulagsforsenda.
Að ofan er svo ein af lykilmyndum aðalskipulagsins og svæðaskipulags höfuðborgarsvæðisins. Af myndinni má lesa ýmislegt og er hún tilefni mikillar umræðu enda snilldarmynd sem sýnir gríðarleg tækifæri til langrar framtíðar fyrir Reykjavík og höfuðborgarsvæðið allt. Það er t.a.m. augljóst í mínum augum að þar sem pílurnar krossast við Elliðaár má byggja gríðarlega þétt. Þar er gott tækifæri fyrir ýmsar stofnanir og þjónustu. Þarna má koma fyrir miklum fjölda íbúða og þarna er eðlilegur staður fyrir aðalumferðamiðstöð höfuðborgarsvæðisins með góðum tengingum til Keflavíkur, austurfyrir fjall og norður og vestur á land. Þarna fer auk þess samgönguás Reykjavíkur hjá. Það er ljóst að markmiðið að stöðva útþennslu byggðar á höfuðborgarsvæðinu og gera það aðlaðandi og vistvænt næst ekki nema með öflugu almenningssamgöngukerfi og þar er samgönguásinn forsenda.
+++++
Efst í færslunni er mynd sem sýnir samgönguásinn af meiri nákvæmni en hann er sýndur í AR2010-2030. Myndina sem er gerð af Gísla Rafni borgarhönnuði má stækka með því að tvísmella
+++++
Hér eru svo að lokum tveir tenglar sem tengjast efninu.
Annar frá National Association of City Transportation Officials, NACTO, í bandarkíjunum.
+++++
Hinn er frá breska arkitektafélaginu RIBA sem gaf fyrir nokkru út skýrslu sem heitir „City Health Check: How Design Can Save Lives and Money“ þar sem litið er á samhengið milli lýðheilsu og borgarskipulags þar sem spurt er hvort spara megi fjámuni í heilsugæslu með skipulagsákvörðunum.Svarið er tvímælalaust „já“ og það er hægt að spara umtalsverða fjármuni með því að stöðva útþennslu borga og stuðla að góðum almannasamgöngum.
“NEW YORK by Gehry” er 76 hæða bygging sem var formlega opnuð þann 19. mars 2011. Fyrir fimm árum þegar arkitektinn, Frank Gehry, hélt upp á 82 ára afmæli sitt.
Byggingunni var vel tekið og var lofuð af gagnrýnendum byggingalistar. Gagnrýnandi NY Times áleit þetta besta skýjaklúf í NY síðan Ero Saarinen teiknaði CBS bygginguna fyrir 51 ári og The New Yorker taldi þetta fallegasta háhysi borgarinnar frá öndverðu.
Margir gagnrýnendur byggingalistar hafa sagt “farðu nú á eftirlaun Frank Gehry” eftir að hafa skoðað síðari verk arkitektsins sem þeim þótti bera keim af elliglöpum.
Nú fimm árum síðar og eftir að þessi bygging hefur risið spyrja sömu gagnrýnendur “Hver er svona góður sem vinnur hjá Gehry um þessar mundir?“
Því verður ekki neitað að gamli maðurinn hefur skotið yngri mönnum langt aftur fyrir sig í þessu verki vegna þess að það hefur átt sér stað viss stöðnun í byggingu háhýsa undanfarna áratugi.
Því er líka haldið fram að hús Gehry við Spruce Street í New York sé ekki neitt frábrugðið háhýsum almennt ef frá er talið ornamentið í útlitinu!
Það er verið að byggja hundruð þúsunda háhýsa um allan heim sem eru að mestu eins og háhýsi voru fyrir 50-70 árum. Engar teljandi framfarir eða þróun er að sjá í gerð eða formi háhýsa.
Að ofan er frumskissa Gehrys af 8 Bruce Street byggingunni í NY.
Að ofan eru tvær myndir af íbúðum hússins og að neðan má sjá Frank Gehry skoða hluta af útliti hússins í mælikvarðanum 1:1
Hér að neðan koma svo tvö nýleg háhýsi hér á höfuðborgarsvæðinu sem aldeilis ágæt en eru af sama toga og háhýsi um víða veröld síðustu meira en hálfa öldina. Þau eru svolítið einkennalaus og gætu staðið nánast hvar sem er.
Það er allmikið um afbrigði af svona húsum að finna um allan heim og sum bara skemmtileg. Mörg eru mjög staðbundin eins og hús BIG í NY o. fl. sem mætti jafnvel flokka undir regionalisma. http://blog.dv.is/arkitektur/2016/05/04/big-brytur-blad-i-new-york/
Það er í fullkomnu samræmi við umræðuna sem er áberandi um allan heim um útþennslu borga, að borgaryfirvöld í Reykjavík séu að reyna að stemma stigu við útþennslu byggðar. Þetta er kallað „Urban Sprawl – the uncontrolled expansion of urban areas“, ef einhver vill googla þetta. En menn eru víðast að tala um að hafa stjórn á þennslunni – ekki stöðva hana.
Það er ljóst að markmiðið með hægja á útþennslu byggðar á höfuðborgarsvæðinu er skynsamlegt og næst ekki nema með öflugu almenningssamgöngukerfi og markvissu skipulagi. Dreifðar borgir þar sem notkun einkabílsins er forsenda búsetunnar leiðir af sér verri lífsgæði, miklu hærri framfærslukostnað og margfaldan samgöngukostnað. Einkabílisminn stuðlar að styttri líftíma, meiri hættu á sykursýki og öðrum lífsstílssjúkdómum vegna hreyfingarleysis svo ekki sé talað um þátt hennar í hlýnun jarðar.
+++++
Árið 2004 gaf Skipulags- og byggingarsvið Reykjavíkur út drög að úttekt á landnotkun vegna gatnakerfisins í Reykjavík. Í skýrslunni er að finna ógnvænlegar tölur um landnotkun gatnakerfisins. Þar kemur m.a. fram að landnotkun vegna samgöngumannvirkja í Reykjavík er um 48% af landrýminu, opin svæði eru 10% og byggð svæði 42% af landinu. Byggðin tekur minna land en göturnar.
Í skýrslunni má einnig lesa að bifreiðastæðin í borginni þekja milli 475 og 700 hektara lands sem er tæplega fimm sinnum meira en Reykjavíkurflugvöllur tekur í Vatnsmýrinni.
Í drögunum er tafla þar sem borið er saman flatarmál gatnakerfis við fjölda íbúða í völdum hverfum borgarinnar. Þar kemur fram að þróunin hefur gengið í óheillavænlega átt undanfarna áratugi. Hverfin urðu með hverjum nýjum áfanga frekari á landrými þegar gatnakerfið er skoðað.
Til dæmis fara um 75 fermetrar lands í samgöngumannvirki á hverja íbúð í nýja Vesturbæ (sunnan Hringbrautar), 152 fermetrar á íbúð í Fossvogi, 257 fermetrar á íbúð í Grafarholti. Í Staðarhverfi fara heilir 322 fermetrar undir samgöngumannvirki vegna hverrar íbúðar, sem er meira en fjórum sinnum meira en í Vesturbæ sunnan Hringbrautar (107).
Hver var ástæðan fyrir þessari öfugþróun?
Það er ekki hægt að draga aðra ályktun af þessu en þá að skipulag borgarinnar hafi verið óvistvænt og dýrt á árunum eftir 1980. Það er jafnvel hægt að ganga enn lengra og halda því fram að það hafi verið illa og ófaglega unnið, svona þegar á heildina er litið.
++++++
Allt frá því um 1980 hafa verið færð sterk rök fyrir þéttingu byggðar í Reykjavík. Helstu rökin voru almannahagsmunir, bætt þjónusta, sparnaður á landi auk þess að stuðla að hagkvæmara almannasamgöngukerfa og borgarrekstri almennt. Þar var almenn sátt um þessi sjónarmið. Þess vegna kemur það á óvart að land undir samgöngumannvirki hafa sífellt tekið meira landrýni með hverjum nýjum áfanga ef marka má skýrsluna.
Þessi þróun er sérkennileg vegna þess að það hefur alltaf legið fyrir að dreifð byggð er óhagkvæm í alla staði. Hvort sem horft er á stofnkostnað eða rekstrarkostnað frá sjónarmiðum borgarsjóðs og verulega óhagkvæmt semfélagslega.
Höfundar skipulags í austurhluta borgarinnar, verkkaupinn og ráðgjafar hans hafa alltaf verið meðvitaðir um alla ókosti dreifðrar byggðar. Það er líka skrítið að fólk sem skipuleggur borgarhverfi þar sem samgöngumannvirki taka sem nemur 322 fermetrum á íbúð sé á sama tíma að tala um að hrekja Reykjavíkurflugvöll úr borginni vegna þess að landið sér svo verðmætt!!
Nú hafa skipulagsyfirvöld tekið á þessu með hörku og ber að þakka þeim það. Hinsvegar læðist að manni sá grunur að fólk sjái ekki þann möguleika sem fellst í því að skapa þétta byggð í úthverfunum. Maður spyr sig af hverju ekki má byggja t.a.m. í Úlfarsárdal hverfi með þéttleika á borð við Vestubæ sunnan Hringbrautar sem algert hámark? Kannski má þannig finna hluta af því vandamáli sem við er að glíma, húsnæðisskortinum á höfuðborgarsvæðinu! Væri ekki hugsanlegt að leyfa þennslu sem er þó ekki stjórnlaus eins og áður þekktist.
Er ekki hugsanlegt að leyfa útþennsluna undir ströngu eftirliti? Byggja þétta byggð á jaðri núverandi byggðar. Þétta byggð sem býður uppá hátt þjónustustig og góðar vistvænar samgöngur!
+++++++
Hér að neðan er dæmigert „urban sprawl“ frá Bandaríjunum og neðst er að finna þéttingu byggðar í París á tímum Haussmann. Þessi byggð er norðasutan við Montmartre og átti að hýsa 10.000 verkamenn. Byggðin stendur enn þó hún hafi verið byggð fyrir verkafólk fyrir tæpum 150 árum.
Vegna ummæla Finns Birgissonar hér í athugasemdarkerfinu bæti ég við þrem myndum af þéttustu byggð Parísar í dag og upplýsi að þetta þykir ekki eftirsóknarverð búseta á okkar dögum þó hún hafi verið talon ágæt á sínum tíma. Byggðinnu hefur verið líkt við „The Walled City“ í Hong Kong sem fjallað hefur verið um á þessum vef.
Nú er um það bil að ljúka breytingum á svokölluðum Hljómalindarreit í Reykjavík.
Fyrir réttum fjórum árum var haldinn kynningarfundur á vegum borgarinnar vegna þess að deiliskipulagi á reitnum hafði verið breytt. Byggingarmagn hafði verið minnkað frá eldra skipulagi og áhersla lögð á að „minni“ staðarins yrði virt. Þara var að mér skilst átt við að nýjarbyggingar og þær sem gerðar skyldu upp yrðu í anda þess umhverfis sem fyrir var. Þarna var í raun verið að kalla eftir að andi staðarnins héldist.
Þessi skilaboð voru síðan árettuð í deiliskipulaginu sem unnið var af arkitektastofunni Studio Granda.
Það er sérstakega ánægjulegt að vera vitni að því að þessi mikilvægu gildi hafi nú fengið niðurstöðu sem er í samræmi við markmiðin.
Vonandi verður þetta viðmið sem farið verður eftir í framhaldinu. Það var lagt upp með þessi sömu viðmið í Kvosarskipulaginu frá 1986 en því var vikið til hliðar þegar deiliskipulagið við Austurbakka var unnið.
Hljómalindarreitur afmarkast af Laugavegi, Smiðjustíg, Hverfisgötu og Klapparstíg. Byggðin á reitnum var sundurleit, annars vegar timburhús byggð fyrir 1915 og hins vegar steinsteyptar randbyggingar byggðar 1920-1956. Reiturinn var þétt byggður á horni Laugavegs/Smiðjustígs og á horni Hverfisgötu/Klapparstígs, en á horni Laugavegs/Klapparstígs og Smiðjustígs/ Hverfisgötu voru lítil hús og jafnvel auðar lóðir.
Nú er þarna heilsteyptur reitur með fjölbreyttum húsum sem eiga djúpar rætur í því sem fyrir var og í anda Reykjavíkur. Það má halda því fram að þarna komi regionalisminn fram í skipulaginu og hönnun húsanna.
Tilgangur hins nýja deiliskipulags var að koma til móts við breyttar áherslur og hugmyndir borgarbúa um uppbyggingu viðkvæmra miðborgarsvæða. Markmiðið var að styrkja stöðu eldri húsa á reitnum og setja þau í lifandi samhengi við vel hannaðar nýbyggingar. Það hefur tekist.
Hér eiga allir sem komu að máliu hrós skilið; skipulagsyfirvöld, deiliskipulagshöfundar, húsahönnuðir og húsbyggjendur.
Hér er litið upp Hverfisgötu. Það er auðséð að þarna hafa menn leitað forma, lita og áferðar í það sem áður var þarna og maður skynjar einkenni svæðisins.
Hér er litið niður Hverfisgötu.
Hér er svipmynd af ófullgerðum innigarði sem er milli Hverfisgötu og Laugarvegar. Garðurinn sem er almannarými og öllum opinn lofar góðu.
Hér er aðalinngangur hótels markaður á áberandi í götumynd Smiðjustígs, en samt hógværan hátt.
Aftur svipmynd af innigarðinum sem er opin öllum. Þarna verða verslanir og veitingahús á jarðhæð og íbúðir og hótelherbergi á efri hæðum.
Hér er hluti af yfirlitsmynd sem gerð var af arkitektastofunni Studio Granda. Yfirlitsmyndin ásamt skýringarmyndum sem fylgja í færslunni sýna skilning höfunda á staðnum og styrk hans og tækifærum semþarna eru. Slíkur skilningur er ekki öllum gefinn.
Hér eru gamlar myndir af þeim húsum sem nú hefur verið breytt og endurbætt í mynd þess sem fyrir var. Á myndinni efst til vinstri sést að húsið Laugavegur 19 hefur verið lyft um eina hæð. Beint fyrir neðan er mynd af Hverfisötu 28 sem einnig var lyft og hefur nú verið málað rautt eins og sjá má á nýju myndunum sem teknar voru í dag.
Hér að ofan eru ásýndir Laugarvegs og Smiðjustígs. Miðbyggingun Smiðjustígur 4 er ný. En í forsögn skilmála fyrir allan reitinn var sagt að húsin sem þarna ættu að risa skyldu hafa „minni“ þess sem fyrir var. Þetta er í raun ákall skipulagsyfirvalda og deiliskipulagshöfunda um að menn skuli hafa hinn svokallaða „regionalisma“ í huga þegar hús eru byggð eða endurnýjuð á reitnum. Þetta ákvæði ætti að vera allstaðar þar sem deiliskipulag er í eldri hverfum. Það var t.a.m. ekki farið fram á þetta á svokölluðu Hafnbartorgi eins og allir vita sem fylgst hafa með því.
Hér að ofan eru skýringarmyndir sem fylgdu deiliskipulaginu. Engar slíkar fylgdu deiliskipulaginu við Austurbakka. En þar eru nú gríðarlega stórkallaleg stórhýsi að koma upp úr jörðinni.
Maður fær stundum tækifæri til þess að kynnast heimilum manna sem eru eða hafa verið áberandi í umræðunni. Við þekkjum Gljúfrastein, Gunnarshús, heimili Jörn Utzon á Mallorca og heimili Hemmingway á Key West og fl. Oftast finnur maður fyrir námd þeirra mikilmenna sem þar bjuggu um sig og sitt fólk. Það geislar af þessum heimilum andrúm sem húsráðandinn skapaði.
Mig langar til þess að sýna nokkrar ljósmyndir af heimilum tveggja mikilvirkra stjórnmálamanna.
Annarsvegar er það heimili Helmut Schmdt (1918-2015) kanslara Vesturþýskalands á árunum 1974-1982 og hinsvegar Donald Trump (1946-) nýkjörins forseta bandaríkjanna.
Heimili Schmidt einkennist af djúpum persónuleika þar sem er að finna mikið af bókum, myndlist sem hann hefur safnað að sér eftir sinni ósk og sínum persónulegum skoðunum. Maður skynjar festu og öryggi. Það er manneskjulegt yfirbragð yfir öllu. Hvert sem litið er. Þarna eru ýmsir smáhlutir sem húsráðendum hefur þótt vænt um og þarna er taflborð og lítill flygill. Þarna er líka allnokkuð safn af vínflöskum sýnist mér. Allt þetta segir manni mikið um manninn og eiginkonu hans Loka. Svo hafa hlutirnir vissa „patinu“, maður sér að hlutirnir hafa verið notaðir og bækurnar lesnar.
Þetta er heimili sem á sér djúpar rætur í menningu þess samfélags sem Shmidt tók þátt í að skapa og hann var sprottinn úr
Takið bara eftir vinnuherbergi hans þar sem bækur eru áberandi ásamt ýmsum smáhlutum sem voru honum kærir og segja vissa sögu um manninn og hans persónu.
++++
Neðst koma svo nokkrar myndir úr íbúð Donald Trupmp í The Trump Tower á Manhattan í New York. Í mínum augum eru íbúðin full af hlutum sem ættu frekar heima í franskri höll en í skýjakljúfi á Fifth Avenue. Húsgögnin og myndlistin virka eins og drasl í þessu umhverfi þó enginn vafi liggi á að allt er þetta frumgerð húsgagna og lista af bestu fáanlegu gerð. Af heimilinu má lesa heilmikið um mannin sem ég ætla ekki að fara að gera hér hér.
Takið eftir bókinni á sófaborðinu á neðstu myndinni. Henni hefur sennilega aldrei verið flett
Að ofan er svo ljósmynd af Helmut Schmidt sem tekin var á hans efri árum. Kanslarinn var mikill reykingamaður og lifði til 97 ára aldurs. Að neðan koma svo nokkrar myndir af núverandi heimili verðandi forseta Bandaríkjanna á Fifth Avenue í New York.
Hér er linkur að síðu sem sýnir heimili kanslarans betur:
Efst á húsinu nr.93 við Reade St. í Tribeca hverfinu í New York er stór og einstaklega falleg þakíbúð, sem byggð var ofan á gamalt fallegt fimm hæða hús frá árinu 1857.
Þetta er eitt af elstu „cast iron facade“ húsum borgarinnar.
Tribeca hverfið sem er neðst á Manhattaneyju er álitið einn besti staðurinn að búa í New York. Þar eru glæpir í lágmarki, frábærir skólar, góðar almenningssamgöngur, góður aðgangur að útivistarsvæðum við The Waterfront og Battery Park og mikið af endurnýjuðum byggingum og íbúðum á svokölluðum „industrial lofts“
Arkitektarnir Amale Andraos, Dan Wood og Sam Dufaux lögðu áherslu á að ofanábyggingin væri nútímaleg án þess að hún truflaði hina sögulegu gömlu byggingu. Byggingin sem er um 150 ára var endurnýuð að fullu innandyra en engu breytt hvað útilt varðar.
Þetta er í samræmi við það sem nú er lögð áhersla á í arkitektaskólunum eins og fram kom í síðasta pistli.
Ytra form þakíbúðarinnar tekur mið af því að hún sjáist alls ekki frá götunni eins og sjá má af sniðinu að neðan. Íbúðin sem er á 2,5 hæð er með opinni grunnmynd og mörgum fallegum vinklum. Íbuðin er bundin saman lóðrétt með opum og ofanljósum ásamt tengingu við stórar þaksvalir á miðhæðinni.
Þessi mynd er úr einni af þrem íbúðum neðan við þakíbúðina sem er á þrem hæðum.
Undir byggingunni eru tveir kjallarar og þar fyrir ofan jarðhæð og þrjár hæðir með íbúðum. Efst kemur svi þakíbúðin á þrem hæðum.
Hér sést snið sem sýnir að tveggja hæða viðbyggingin sést ekki frá götunni.
Ótrúlega fallegt gamalt hús er látið vera óbreytt. Þetta er í samræmi við það sem nú er lögð áhersla á í arkitektaskólunum eins og fram kom í síðasta pistli.
Á ferðum mínum hef ég oft gert mér erindi á arkitektaskólana til þess að sjá og upplifa andrúmið og hvernig skólarnir haga kennslunni. Þeir eru afar misjafnir. Mér fannst gaman að koma á AA í London fyrir nokkrum árum. Kannski venna þess að hann minnti mig á Akademíuna í Kaupmannahöfn þegar ég stundaði þar nám.
Ég hef heimsott nokkra skóla í Bandaríkjunum. Svo sem Berkley, UCLA, Harvard og „BAC“ sem mér þótti afar áhugaverður en UCLA sístur.
Ég hef komið oftar en einu sinni á þessa skóla og BAC heimsótti ég í annað sinn í gær.
Ég kom þarna síðast fyrir 5-6 árum. Þá tók á móti mér Theodore C Landmark sem var þá rektor skólans. Sérlega sjarmerandi maður. Hann sýndi mér skólann og sagði frá honum í tveggja tíma samtali. En BAC mun vera fjölmennasti „post gratuate“ skóli sinnar tegundar í Bandaríkjunum. Það var upplifun að eiga spjall við Landmark. Hann mælti með því að ég keypti bok sem heitir „101 Things I Learned in Architecture School“, sem ég auðvitað gerð og sé ekki eftir því.
BAC hefur áhugaverða stefnu varðandi verndun arfleifðarinnar.
Í heimi sem horfir stöðugt fram á nýjra tæknilegar byltingar (technological breakthrough) nýtir BAC sér tækifærið og lítur til fortíðar og skoðar hvernig nýta má hana í byggingarlistinni og hvernig megi vernda fortíðina án þess að hún sé byrði, heldur tækifæri sem opnar nýjar og betri leiðir. Skólinn býður upp á mörg námskeið (líka online) í hvernig sinna má gömlum byggingum og menningarlandslagi til betri framtíðar. Nemendur á BAC læra hvernig framúrskarandi hönnun fyrri tíma og handverkið eru helstu gæði samfélagsins sem skylda er að varðveita og rækta.
Í heimsókn minni á BAC í gær var ég svo heppinn að hitta dean yfir landslagsdeild skólans, Maríu Bellalta og átti við hana og nokkra nemendur örstutt uppbyggjandi spjall ásamt því að skoða áhugaverða sýningu á verkum nemenda,
Það sem vakti sérstaklega athygli var að í kennslustofunni var engin talva. Þetta var eins og að koma á Akademíuna í Kaupmannahöfn fyrir 40 áru, Nemendurnir sátu í hópum eða einir og drógu hugmyndir sínar fríhendis upp á gagnsæjan pappír. Lögðu hugmyndirnar undir nýtt blað og drógu nýja línu með áherslu á það sem var nothæft á fyrra blaðinu. Lituðu aðalatriðin fríhendis með þykkum penna og héldu svona stöðugt áfram. Rúlluðu svo afrakstrinum upp og héldu heimleiðis til áframhaldandi hugmyndavinnu. Þetta var dásamlegt að sjá og upplifa.
++++++
Hér að ofan er ljósmynd af skólanum sem hýstur er í minnst tveim byggingum. Annarri sennilega 100 ára gamalli og hinni sem er svona 40 ára og einkennist af brútalisma sjöunda átarugarins.
Engar tölvur var að sjá í vinnustofunum.
Studentarnir Sarah Kresock og Sara Bourqu,e vinna að hugmyndum um „recycled landscape“ ef ég skildi rétt.
Í andyrum skólans á báðum byggingunum eru nemendasýningar alla daga allt árið.
Fyrir nokkrum árum var ákveðið að sameina þrjú sjúkrahús á norður Sjálandi í Danmörku í eitt. Þetta voru sjúkrahúsin í Hilleröd, Helsingör og Frederikssund. Eftir faglega staðarvalsgreiningu var ákveðið að byggja hið nýja sjúkrahús á opnu svæði við Hilleröd. Hugmyndinni um að byggja við eitthvert núverandi sjúkrahúsanna var hafnað.
Þetta á að vera 124.000 fermetra bygging sem mun þjóna 310.000 manns. Þarna munu vinna um 4000 starfsmenn sem gera munu um 500.000 aðgerðir á ári. Í sjúkrahúsinu verða 662 legupláss á 24 deildum ásamt bráðamóttöku. Þarna er gert ráð fyrir 2800 bifreiðastæðum ofanjarðar (skovparkering).
Húsið er teiknað á einni af bestu teiknistofum Evrópu, svissnesku arkitektunum Herzog & de Meuron, sem unnu verkefnið í tveggja þrepa samkeppni. Staðararkitektarnir eru Vilhelm Lauritsen arkitekter í Kaupmannahöfn.
Þarna er lögð áhersla á að skapa umhverfi sem er til fyrirmyndar jafnt fyrir sjúklinga og aðstandendur sem og starfsfólk. Á heimasíðu verkefnisins stendur: „Det handler bl.a. om at bruge kunst, lys, lyd og natur til at afhospitalisere oplevelsen af at være på et hospital. Det mener vi, at der er fremtid i.“ Já „afspítalisera“ umhverfið, draga úr spítalatilfinningunni!
Byggingaframkvæmdir á staðnum munu hefjast í ágúst 2017 og verða að fullu lokið í lok árs 2020. Sjá tímaáætlun er neðst í færslunni.
Ein aðkomanna frá bílastæðunum
Byggingin sem er á þrem hæðum er samtengd á jarðhæð þar sem mikið er um gróðursæla ljósgarða til útivistar.
Á líkaninu að ofan sést vel hvernig jarðhæðin tengir allar deildir spítalans saman. Svo er notast við ljósgarða sem hleypa dagsbirtu og sólarljósi inn á hinar ýmsu vistarverur hæðarinnar eins og sjá má..
Hér að neðan er svo mynd af því sjúkrahúsi sem stjórnvöld hér á landi vilja bjóða sjúku fólki og aðstandendu upp á og þeim sem eiga að annast sjúklingana. Ekki liggur fyrir hvenær öllum þessum framkvæmdum verður lokið nema hvað varðar meðferðarkjarnann og rannsóknarhúsið. Þeim á að vera lokið árið 2023. Ekki hef ég séð tímaáætlun um endurbyggingu þeirra 66 þúsund fermetra sem þarna standa frá gamalli tíð.
Hér að neðan eru tímaáætlun sem fengin er af heimasíðu verkefnisins í Hilleröd eins og aðrar upplýsingar í þessari færslu.
Þar sést að hönnun og uppbygging eftir að samkeppninni var lokið tekur alls um 6 ár. Þar fara allmargir þættir samsíða fram. T.a.m fer „test og indköring“ fram á síðustu tveim árunum samsíða því að byggingaframkvæmdir eru í fullum gangi. Þá fer útboðsferlið og hönnunin fram á sama tíma að verulegu marki.
Tilgangur síðunnar er að kynna arkitektúr, skipulag og staðarprýði ásamt því að stuðla að umræðu um efnið. Það sem fram kemur ber ekki að skilja sem skoðun höfundar heldur hugleiðingu sem sett er fram í þeim tilgangi að vekja lesendur til umhugsunar og skoðanaskipta. Tekið er á móti aðsendum greinum þegar það á við, sem þá eru á ábyrgð höfundar aðsends efnis.
Athugasemdir við færslur eru velkomnar. Þeir sem vilja koma skilaboðum til ábyrgðarmanns beint er bent á netfangið hilmarstofunni@gmail.com