Laugardagur 19.3.2016 - 12:18 - 12 ummæli

Arkitektaskólar í París og annarsstaðar

 

 

Ecole_Nationale_Superieure_des_Beaux-Arts

Ég hef á ferðalögum mínum oft gert mér erindi á arkitektaskólana. París er þar engin undantekning. Í gær heimsótti ég listaakademíuna  Beaux-Arts sem á sér sögu allt frá árinu 1648. Þar var frá öndverðu kennd málaralist, höggmyndalist og „móður listanna“, byggingalist ásamt fl.

Beaux-Arts hefur alltaf verið mikils metinn. Lúðvík 14 valdi útskriftarnema úr skólanum til þess að fylla Versali með myndlist og Napóleon III gaf skólanum frelsi frá stjórnvöldum árið 1863 og gaf skólanum nýtt nafn.: „L’École des Beaux-Arts”.

Árið 1898 fékk fyrsta konan aðgang að skólanum eftir að hafa sótt þrisvar um. Það var Julia Morgan frá San Fransisco sem útskrifaðist síðar sem arkitekt.

Margir þekktustu myndlistarmenn Evrópu numu þar. Má þeirra á meðal nefna Géricault, Degas, Delacroix, Fragonard, Ingres, Monet, Moreau, Renoir, Seurat, Cassandre, and Sisley. Rodin sótti þrisvar um inngöngu í skólann en var alltaf hafnað. Svona er það stundum.

Allmargir íslendingar hafa stundað nám í Beaux-Arts. Má þar nefna  arkitektana Högnu Sigurðardóttir, Jes Einar Þorsteinsson, Líney Skúladóttir og Börk Bergmann.

Byggingar skólans eru að mestu hannaðar af  Félix Duban arkitekt sem var falið verkið 1830. Hann hannaði einskonar campus á vinstri bakka Signu. Verkinu var að mestu lokið 1861.

Þegar gengið er um Beaux-Arts finnur maður fyrir sögunni og fallegar byggingarnar geisla frá sér vissri upphafningu. Miðrými aðalbyggingarnar sem er með þaki úr gleri og stáli svipað og er í Grand Palais, Bon Marcé og var í hinum horfnu Le Halles. Þetta er eitthvað það fallegasta rými sem ég hef komið í. Vinnustofur nema veita inn í rýmið og maður sér allstaðar fólk að störfum. Arkitektaskólinn er í hliðarbyggingu sem ekki er beintengd aðalbyggingunni.

Þetta er virkilega flott og umhverfi sem er mikill brunnur fyrir innblástur fyrir þá sem þarna starfa.

Hjálagðar eru nokkrar myndir sem teknar voru í gær.

+++

Skólinn minn í Kaupmannahöfn var stofnaður árið 1754 eða 106 árum síðar en Beaux-Arts og var vafalaust horft til Parísar þegar honum var komið á laggirnar. Maður sér líka skyldleikann við Beaux-Arts í nafni skólans “Kongelige Danske Akademi for de Skønne Kunster” (Beaux-Arts, Skönne Kunster, Fagrar listir). Danski skólinn fékk líka nokkuð frelsi frá stjórnvöldum með því að heyra undir menningarmálaráðuneytið meðan öll önnur menntun í Danmörku heyrði undir menntamálaráðuneytið. Maður naut þessa frelsis mjög sem nemandi en þetta lagði líka mikla ábyrgð og skyldur á nemendur. Eitt varðandi vistun skólans í menningarmálaráðuneytinu  var að þegar skólinn var settur á haustin var það við formlega athöfn í Oddfellow palæet í Bredgade. En þar var og er sennilega ennþá einn besti tónlistarsalur Norðurlanda. Viðstaddir athöfnina voru meðlimir konungsfjölskyldunnar. Í og eftir studentabyltinguna 1968 misstu stúdentar áhuga á þessum formlegheitum og ég held að þetta hafi verið lagt af.

Skólinn var til húsa í Charlottenborg við Kongens Nytorv.

+++

Starfsumhverfi nemanna í París er ekki ósvipað og í Kaupmannahöfn. Vinnuaðstaðan er í gömlum byggingum þar sem nokkrir árekstar verða í daglegum störfum við húsið. Þessir árekstrar voru að mínu mati alltaf af hinu góða og gáfu nemendum innblástur og þvinguðu þá til þess að láta undan takmörkum byggingarinnar. Mér sýndist það sama eiga við í AA skólanum í London. (Architectural Assosiation School of Architecture) sem starfræktur er í gömlum byggingum sem voru byggðar í öðrum tilgangi en að kenna þar arkitektúr.

+++

Þó ég hafi útskrifast frá skóla sem kennir hinar fögru listir; málaralist, höggmyndlist og byggingalist og er afskaplega sáttur við það, þá velti ég fyrir mér hvort arkitektanám eigi ekki frekar að tengjast almennum háskólum frekar en listaskóla. Á Íslandi yrði þá byggingalist kennd við Háskóla Íslands eða Háskólann í Reykjavík. Ástæðan er sú að arkitektastofur hafa breyst á undanförnum árum úr því að vera stúdíó eða teiknistofur í að verða frekar arkitektafyrirtæki. Stofurnar eru allar að verða meira og minna reknar á viðskiptalegum forsendum en ekki listrænum.  Arkitektaskólarnir þurfa kannski að fara að átta sig á þessu og skilgreina sig  sem viðskipta- og framleiðslufyritæki í stað listgreinar? Kannski er þessi þróun tilefni til að gera meira úr listrænni tengingu námsins til að sporna gegn henni.

photo 4

Miðrými aðalbyggingar Beaux-Arts er eitt af þeim falegustu sem ég hef séð.

photo 2

Glerþakið er úr stáli og gleri eins og algengt var fyrir hálfri annarri öld samanber Crystal Palace í London.

photo 3

Vinnurými nema opnast sum inn í miðrými aðalbyggingarinnar. Það á einnig  við um sýningarsali.

photo 3 (2)

photo 1

photo 1 (2)

Charlottenborg_København

Danska listaakademína var um langan aldur starfrækt í Charlottenborg við Kongens Nytorv í miðborg Kaupmannahafnar.

1

AA arkitektaskólinn í London, Architectural Assosiation School of Architecture, er starfræktur í gömlum byggingum sem ekki voru í upphafi hugsaðar sem skólabyggingar.

Flokkar: Óflokkað

Þriðjudagur 15.3.2016 - 11:41 - 15 ummæli

Niðurrif í Reykjavík og París.

1039688_10207810173324555_7398580276129170725_oMeðan Reykjavíkurborg stuðlar að niðurrifi gamalla húsa gráta Parísarbúar horfnar byggingar. Í Reykjavík eru rifnar gamlar byggingar sem túristarnir koma til að skoða og umhverfi sem allir elska til þess að byggja hótel fyrir gestina.

Mér sýnist Parísarbúar ekki rífa hús lengur. Þeir breyta húsunum og byggja við þau, en rífa helst ekki.

Parísarbúum er annt um staðarandann, sem sífellt er ógnað af allskonar bröskurum. Stjórnkerfi Parísarborgar er flókið. Það eru 20 borgarstjórar, einn í hverjum borgarhluta og svo er aðalborgarstjóri fyrir heildina sem er staðsettur í ráðhúsinu fræga, Hotel du Ville. Og svo skiptir ríkisstjórnin og forseti landsins sér iðulaga af bygginga- og skipulagsmálum borgarinnar. Oftast sem betur fer.

Ein þeirra bygginga sem mikið er saknað í París er Les Halles sem var látin víkja fyrir nýbyggingu uppúr 1970. Les Halles var aðalmatarmarkaður borgarinnar og oft nefndur “magi Parísar”.

Les Halles getur rekið sögu sína til ársins 1183 þegar þar var settur á laggirnar matarmarkaður sem þjónaði  borginni allri. Byggt var myndarlega yfir Hallirnar á árunum milli 1850 og 60. Þær voru hannaðar af Victor Baltard og voru úr stáli og gleri. Þetta byggingaefni var vinsælt á þeim árum. Það nægir að nefna Crystal Palace í London og síðan bæði Le Bon Marché sem fjallað var um hér í síðustu viku og stendur enn, öllum til mikillar ánægju.

 Nýbyggingin sem kom í stað Les Halles var rifin um þrem áratugum eftir að hún var tekin í notkun.  Enda var óánægja með hana. Innan nokkurra vikna verður tekin í notkun enn ein nýbyggingn á svæðinu sem Hallirnar stóðu áður. Mér sýnist hún heldur ekki lofa góðu. Mér sýnist önnur tilraun, á fjórum áratugum, til þess að byggja hús í stað gömlu Hallanna muni mistakast.

Til sönnunar þess hvað byggingar Les Halles voru taldar merkilegar þá voru tveir af  tíu skálum sem Les Halles samanstóð af reistir annarsstaðar. Annar hér utan borgarinnar og hinn í Japan. Standa þeir báðir enn.

+++

Ég kynntist Les Halles ágætlega þegar ég heimsótti Parísarborg á árunum 1960-1970. Það var mjög líflegt þarna síðla nætur þegar matvörukaupmennirnir komu til þess að sækja fersk matvæli til að selja í verslunum sínum víðsvegar um borgina.

Þarna fékk ég í fyrsta sinn franska laukssúpu innan um blóðuga slátrara og pelsklæddar hefðarkonur, sem voru að næra sig eftir skemmtanalíf næturinnar uppúr klukkan fjögur á morgnanna.

+++

Mér sýnist Reykjavíkurborg vera að gera skelfileg mistök með því að heimila niðurrif eldri húsa innan Hringbrautar. Manni fallast hendur þegar maður heyrir svo að ráðamenn segjast vera verndunarsinnar sem beri mikla viriðngu fyrir arfleyfð genginna kynslóða. Arfleyfð sem við elskum og ferðamennirnir koma til þess að skoða. Mín skoðun er sú að það eigi ekki að rífa neitt innan gömlu Hringbrautar nema í algerum undantekningatilfellum.

+++

Efst er mynd af  einu af nokkrum húsum við gömlu höfnina í Reykjavík sem verið er að rífa þessa dagana til þess að rýma fyrir 110 herbergja hótelbyggingu.

Svo koma nokkrar myndir af gömlu Höllunum í París, sem voru látar víkja fyrir nýbyggingum sem stóðust á engan hátt væntingar og voru rifnar. Síðasta myndin er af því mannvirki sem nú rís og á að opna eftir nokkrar vikur. Mér datt í hug marglitta, þegar ég leit bygginguna augum. Hvað er marglitta að gera hér á þurru landi í miðri Parísarborg?

Les Halles 1971

Svona litu Hallirnar út 1971 skömmu áður en þær voru rifnar.

 

paris-les-halles-21Hér er búið að rífa allar skemmurnar nema tvær. Önnur var endurreist utan Parísarborgar og hin í Japan.

 

Vedere_a_Halelor_din_Paris_de_pe_Biserica_Saint_Eustache

th

Að ofan er mynd sem mun vera tekin 1951.

Að neðan er mynd innan úr Les Halls í lok nítjándu aldar.

les-halles

les-hallesnnÞetta er nýbyggingin sem kom í stað stál- og glerskálanna í Les Halles frá 1850. Hún var reist um 1980 og rifin skömmu eftir síðustu aldamót.

canopée-les-halles-2014Þessi byggin kom í stað þeirrar sem reist var um 1980 og verður opnuð eftir 3-4 vikur. Líklegt er að þessi byggin hljóti svipuð örlög og byggingin frá 1980. Enda eru þær báðar dægurflugur í byggingalistinni.

Flokkar: Óflokkað

Miðvikudagur 9.3.2016 - 08:57 - 5 ummæli

Fjármálahverfi Parísar – La Defence

IMG_5109

Það er líklegt að viðskiptahverfið La Defence hafi bjargað miðborg Parísar frá því að stórir og voldugir fjárfestar byggðu skýjakljúfa í alþjóðlegum stíl inni í miðborginni. Þarna var afmarkað svæði utan gömlu borgarinnar þar sem þeir sem vildu byggja og starfa í skýjakljúfum gátu látið gamminn geysa.

Í viðskiptahverfinu er samansafn af frábærum skrifstofubyggingum honnuð af þekktum arkitektafyrirtækjum.

Gallinn er samt sá að þessi hús hafa enga sérstaka arkitektóniska skírskotun til Parísar eða Frakklands yfirhöfuð og gætu þess vegna staðið hvar sem er annarsstaðar.

Fyrir utan skipulagið er hverfið ekki sérstaklega áhugavert fyrir aðra en fjárfesta og kannski arkitekta.

Skýjakljúfarnir kallast ekki á við hvorn annan, heldur keppast þeir um athyglina á sama hátt og allstaðar annarstaðar þar sem verið er að byggja svona hús.

Ég hef heimsótt svona hverfi í Sydney, Singapore, Shanghai, Tokyo, Cape Town og víða í Evrópu og Bandaríkjunum. Þau eru öll meira og minna einkennalaus og eins.

Þó verð ég að segja að það er einhver elegans yfir La Defence sem maður sér ekki á mörgum öðrum stöðum af þessari gerð.

Grand Arch eftir Danann Otto Spreckelsen heldur utanum svæðið og tengir það afar sterkum böndum við miðborgina og sögu hennar.

Skipulagslega er svæðið líka vel tengt miðborg Parísar, sem byggir á hugmyndum Haussmanns fyrir meira en 150 árum. Framan við Grand Arch er göngutorg sem er sennilega nokkuð stærra en Torg hins Himneska Friðar í Beijing. Torgið er beintengt gamla Sigurboganum, Champs-Elysees, Louvre og miðborginni.

Hér fylgja nokkrar myndir sem ég tók með símanum mínum í gærdag.

+++

Sjá einnig eftirfarandi slóð þar sem sagt er frá sjónarmiðum Jan Gehl sem líkir háhýsahönnum við hönnun ilmvatnsglasa. En Gehl leggur mikla áherslu á arkitektúr í augnahæð.

Háhýsi-Ilmvatnsglös-Phallus

 

IMG_5107

IMG_5105

IMG_5102

IMG_5110

 

Flokkar: Óflokkað · Spaugilegt

Föstudagur 4.3.2016 - 07:43 - 5 ummæli

„Góði markaðurinn“

 

        Le Bon Marché í París, lauslega þýtt “ Góði markaðurinn“ er talinn fyrsta “department store” eða kringla veraldarinnar. Hann var stofnaður árið 1838 með 12 starfsmönnum sem afgreiddu fjóra mismunandi vöruflokka á um 300 fermetrum.

Hugmyndafræðingurinn að baki vöruhúsahugmyndarinnar, Aristide Boucicaut, breytti verslunarháttum þannig að verðin voru föst (ekkert prúttað) og möguleiki var á að skipta vörunni. Hann auglýsti líka þjónustuna og tífaldaði veltuna á 8 árum frá 1852 til 1860.

Hann byggði nýtt hús yfir starfssemina árið 1869, sem enn stendur ad mestu óbreytt að ytra byrði. Húsið þótti mjög framúrstefnulegt á sínum tíma, en það var teiknað af arkitektinum Louis-Auguste Boileau og verkfræðingnum Gustave Eiffel sem sá um burðarvirki og þök yfir innigörðunum.  Sá hluti  ber sterk höfundareinkenni Eiffel sem teiknaði Eiffelturninn eins og flestir vita.

Húsið stendur enn þann dag í dag og þjónar tilgangi sínum fullkomlega og jafnvel betur en nýbyggð hús fyrir sömu starfssemi gera í dag. Nýbyggingin sem stendur við Rue des Serves er um 50 þúsund fermetrar eða nánast tvöfalt stærri en Kringlan í Reykjavík var við opnun hennar meira en  öld síðar.

Fyrir okkur Íslendinga er  forvitnilegt hvernig að sjá hvernig þetta virkar allt saman í París. Til dæmis eru engin bílastæði sem fylgja verslunarmiðstöðinni þó hún sé svona stór. Það er vegna þess að helsta farartæki Parísarbúa eru fæturnir, síðan koma reiðhjól og almanningssamgöngur eins og Metró. Svo koma Strætó og leigubílar. Einkabíllinn er lítið notaður í París en það er þónokkuð um lítil mótorhjól.

Af þessu leiðir að það eru eðlilega engar „vegasjoppur“ í París meðan þær eru einstakt fyrirbrigði í höfuðborg Íslands. Þær eru sennilega þrjár í mínu hverfi í Reykjavík.

Herra Boucicaut kom með margar nýjungar í verslun. Hann kom fyrir í verslunarkjarnanum einskonar afdrepi fyrir eiginmen þar sem þeir gátu lesið bækur og blöð og átt félagsleg samskipti sín á milli meðan eiginkonurnar versluðu. Konurnar gengu almennt ekki með peninga á sér á þessum árum. Þegar eiginkonurnar höfðu lokið versluninni komu karlarnir og greiddu reikninginn. Að því loknu héldu þau saman heimleiðis, sæl og ánægð með sitt.  Boucicaut auglýsti líka mikið í dagblöðum og gaf út verðlista sem var nýung á þessum árum. Hann útbjó leiksvæði fyrir börn í verslunarmiðstöðinni.

Það má segja að hann breytti með hugmyndum sínum innkaupum úr því að vera verk sem þurfti að vinna í að vera upplifun og skemmtun.

Þar sem rúmlega helmingur starfsmanna voru konur, oftast ógiftar útbjó hann svefnskála fyrir þær á efstu hæð verslunarmiðstöðvarinnar.

Margir halda að Parson, Pirie & Scott sem byggt var eftir brunann mikla í Chicago (1871) eftir Louis Sullivan, höfund kennisetningarinnar “Form must always follow function” hafi verið fyrsta “department store” í heiminum. En það er rangt. Hún var opnuð 1899 en sú sem hér er fjallað um var opnuð 30 árum fyrr á hugmyndagrunni sem var 61 ári eldri.

++++

Efst er gömul mynd af húsinu frá þeim tíma þegar það var opnað. Að neðan kom svo nokkrar myndir sem teknar voru í gær. Þær eru allar teknar í þeim hluta sem selja þekktustu merkjavörur heims. Sá hluti Le Bon Marché sem selur matvöru er sá alglæsilegasti sem ég hef nokkurntíma séð. Þar er ferskri matvöru stillt upp eins og um sé að ræða helstu listaverk heimsins. Neðst eru svo gamlar myndir frá 150 ára sögu þessa merkilega húss og starfsseminni þar.

 

 

 

 

Ég hef ekki upplifað annarsstaðar í vöruhúsum að listaverkum sé komið fyrir í verslunarrýminu með sama hætti og hér. Í miðrýmunum eru óróar eftir menn á borð við AI WEIWEI og fleiri ámóta.

 

Hér er málverk eftir frönsku listakonuna Carole Benzaken. Þarna er verslunarferð upplifun og vörum stillt upp í samræmi við húsið og gæði vörunnar í bland við fyrsta flokks nútíma listaverk.

 

 

 

 

 

Hér gefur að líta mynd frá fyrstu tíð „Góða Markaðarins“.  Aðföng eru þarna flutt í hús með hestvögnum.

Mynd sem sýnir innirýmið í upphafi. Manni sýinst helsta breytingin vera tilkomin vegna rúllustiganna sem hafa komið í stað hefðbundinna íburðamikilla stiga.

 

 

Flokkar: Óflokkað

Þriðjudagur 1.3.2016 - 12:43 - 4 ummæli

Ásar í skipulagi Parísar

le-futur-quartier-d-affaires-de-la-defense_940x705

Það er einhver stór hugsun í skipulagi Parísarborgar sem maður er eiginlega stanslaust hissa á.

Eitt af því sem er mest áberandi í skipulagi borgarinnar eru breiðgötuásar sem liggja þvers og kruss um borgina. Þessir ásar eiga rætur sínar að rekja til Napóleons III  og Haussmanns.

Ásarnir tengja oft saman merkilegar byggingar og garða eins og á einum stað þar sem hann liggur frá Palais de Chaillotí gegnum Tour Eiffel og að Ecole Militaire. Og  annarsstaðar frá Hotel des Invalides (gröf Napoleons) milli Grand og Petit Palais og að Champs-Elysees.

Sá lang stærsti liggur 10-11 km leið sem liggur allt frá Louvre safninu í hjarta borgarinnar um Tuileries garðanna, Place de la Concorde (þar sem Maria-Antoinette var hálshöggvin), Champ-Elysees, Etoile með Sigurboganum og breiðgötuna Grande Armee og endar í La Defence. Ótrúlaga flott og stórhuga gatnaskipulag sem hvergi í veröldinni sést nokkuð líkt.

La Defence er aðal viðskiptahverfi Parísarborgar.

Þessi  þráðbeina götulína milli fortíðar og framtíðar, þrungin sögu, er einhver glæsilegasta gata sem um getur.  Ásinn byrjar í Louvre sem er aðeins snúið miðað við ásinn (um 3-5 gráður að mig minnir) og endar í Grand Arche sem er snúið nákvæmlega jafn mikið og Louvre miðað við götuna. Þar sem gatan er hæst stendur Sigurbogi Napóleons eftir Chalgrin.

La Grande Arche er teiknað af danska arkitekinum Otti von Spreckelsen (1929-1987) sem vann verkið í alþjóðlegsi samkeppni.  Mér hefur verið sagt að íslenski arkitektinn Guðrún Gústafsdóttir sem vann um tíma hjá Spreckelsen hafi komið að verkinu.  Arkitektinn lifði ekki til að sjá verk sitt fullklárað árið 1989.

Ég hef oft velt því fyrir mér hvort La Defense hafi verið lausn skipulagsfræðinga til þess að losna við háhýsin úr miðborg Parísar!  Úthýsa þeim úr miðborginni og gefa þeim kjöraðstæður í jaðrinum í stað þess að láta atburðarrásina og tíðaranda liðandi stundar ráða ferðinni eins og oft vill gerast og skemmir margar gamlar borgir sem fólki líkar og jafnvel elskar.

Uppúr 1970 var nánast hætt að byggja háhýsi innan Periferíunnar í París, góðu heilli. Svipað var gert í London (Docklands), Kaupmannahöfn og víðar þó það hafi ekki gerst með frönskum elegans eins og hér.

+++++

Í aðalskipulagi Reykjavíkur AR2010-2030 má skynja vilja til þess að feta svipaða leið og gert hefur verið í París og víða annarsstaðar.

Það er að visa þeim sem vilja byggja háar og nútímalegar byggingar út fyrir gamla borgarhlutann og gefa þeim sem þess óska nokkuð frjálsar hendur á þeim svæðum meðan innan gamla borgarhlutans verði byggt samkvæmt mjög ströngum skilmálum sem falla að því sem fyrir er.

+++++

Að neðan koma tvær myndir teknar af þaki Sigurbogans til austurs og vesturs.

109-0940_CRW[1]Séð af Sigurboganum niður Chams-Elysees til austurs í átt að miðborginni sem er laus við háhýsi að mestu.

109-0943_CRW1[1]

Séð af þaki Sigurbogans niður Grand Arme til vesturs í átt að La Defence þar sem er þyrping háhýsa.

g_vigoenfotos_3615pÞað er athyglisvert að enginn ferðamaður nennir að fara og dvelja í La Defens nema einu sinni. Þessar glæsilegu byggingar laða ekki að sér ferðamenn eða gesti nema einu sini að sagt er. Þeir sem þarna koma eru flestir þar staddir vegan vinnu sinnar. Þarna er víðáttan á torgum of mikil, ekkert í mannlegum skala og vindurinn sígnauðandi.

 

Flokkar: Óflokkað

Föstudagur 26.2.2016 - 08:00 - 14 ummæli

„Nýbyggingafíkn“

IMG_7775

Ég hef átt skemmtileg samtöl við kollega mína hér í París að undanförnu þar sem við ræddum aðallega um starfið og það umhverfi sem við vinnum í.

Hér eins og víða er offramboð af arkitektum. Einn sem ég talaði við sagði að einungis um það bil 30% af þeim sem útskrifast úr arkitektaskólunum vinni við sitt fag. Og ekki bara það, heldur væri um 70%  af þeirra vinnu tengd endurnýjun og uppbyggingu gamalla húsa eða viðbyggingar við eldri hús. Það er að segja að einungis um 10% útskrifaðra arkitekta vinnur við uppbyggingu á “green field” með svipuðum hætti og sennilega um 97% íslenskra arkitekta gera.

Þetta kemur mér ekki á óvart vegna þess að mér hefur verið tjáð að á Bretlandseyjum vinni um 70% arkitekta við eldri byggingar. Í Danmörku er sagt að á arkitektaskólunum séu deildirnar fyrir efndurnýjun eldri húsa vinsælastar allra deilda af nemendum skólanna.

Eftir því sem mér er sagt fer lítil kennsla í þessum fræðum fram á byggingalistadeild Listaháskólans.

Hvernig ætli standi á því að þetta sé með öðrum hætti á Ísland en víða annarsstaðar?

Einhver sagði að það væri vegna þess að við erum haldin “nýbyggingarfíkn”.  Við viljum að allt sé nýtt og berum litla virðingu fyrir gömlu og sérstaklega gömlum húsum. Þetta er sennilega rétt vegna þess að við sjáum að allstaðar er verið að byggja ný hús og okkur er ekkert sérlega umhugað um að leyfa eldri húsum að standa. Þess vegna eigum við  ekki mörg gömul hús.

Menn hafa jafnvel flokkað þjóðina í þessu samhengi í tvo andstæða flokka, „verndunarsinna“ og „uppbyggingarsinna“ þar sem uppbygginarsinnar þykja smart. En svona er þetta ekki í Frakklandi. Þar eru verndunarsinnar álitnir uppbyggingarsinnar og þeir þykja smart her í Frakklandi.

Þrátt fyrir offramboðið af arkitektum er ekki mikið um undirboð þegar kemur að þjónustu arkitekta. Þeir reikna sér rúm 10% af framkvæmdakostnaðinum í þóknun. Það er allnokkru meira en á Íslandi en á móti kemur er að frönsku arkitektarnir vinna fleiri verkþætti en þeir íslensku, ef ég skil þá rétt.

Á Íslandi er hægt að telja þá á fingrum anarrar handar sem hafa fullt starf við endurbyggingu eldri húsa.

+++

Færslunni fylgja þrjár ljósmyndir sem teknar voru síðdegis í gær. Þær eru innan úr verslun UNIQLO í Le Marais hér í borginni. Versluninn er innréttuð í gömlu verksmiðjuhúsi sem er inni í húsagarði og er með hlið að götunni sem er einungis um 4 metrar. Í miðju rýminu er gamall skorsteinn sem hefur verið gefið framhaldslíf í tískuversluninni, þó svo að hann hafi ekki annan tilgang en að minna á sögu hússins og útvíkka hina sögulegu vídd. Húsið hefur ekkert útlit en þeim mun glæsilegra „innlit“

IMG_7777

 

IMG_7778

Flokkar: Óflokkað

Mánudagur 22.2.2016 - 22:01 - 5 ummæli

„High Line Park“ í París og mögulega í Reykjavík!

137-43_cmjnhhh

 

Það hefur  ekki farið hátt, en  Parísarbúar eiga sinn “High Line Park” sem er um 20 árum eldri en sá frægi í New York.

Þegar járnbrautarstöðin við Bastillutorgið var lögð niður árið 1984 til þess að koma fyrir Bastilluóperunni  voru járnbrautarteinarnir látnir óhreyfðir.  Opnaðist þá tækifæri til þess að skapa gönguleið í 8-10 metra hæð yfir gatnakerfi borgarinnar.  Leiðin sem er afar vinsæl af göngufólki og skokkurum, liggur frá Bastillutorginu alls 4,7 km nánast alla leið að Bois de Vincennes sem er stór fallegur almenningsgarður á jaðri miðborgarinnar.

Gönguleiðin hefur nokkur nöfn; Promenade Plante, Couleé Verte,  Viaduc des Arts, og eflaust enn fleiri.

Það er í raun undarlegt að þessi framkvæmd og þessi notkun á járnbrautarteinunum í París hafi ekki vakið meiri athygli en raun ber vitni. Hún á það svo sannarlega skilið. Það var ekki fyrr en High Line Park í New York vakti heimsathygli að men fóru að skoða þessa gömlu hugmynd frá París. Nú er verið að vinna að svipuðum gönguleiðum í Chicago, Queens í NY, Philadelphia, Jersey City, Fukuoka í Japan og víðar.

Þetta er ótrúlega skemmtileg lausn fyrir fótgandi og hjólandi fólk vegna þess að það verður ekki truflað af bílaumferð og gatnamótum á ferð sinni um aðlaðandi og gróðursælan veg.

Mér dettur einn staður í hug í Reykjavík sem svona eða svipuð lausn gæti átt vel við. Það er í Skeifunni.  Þannig væri hægt að koma á tengingu milli Voga/Heima hverfis og Bústaðahverfis, yfir Skeifuna og bílastæðaflæmið þar. Þá gæti fólk gengið, skokkað eða hjólað óhindrað um þessa fyrirstöðu sem er þarna í Skeifunni. Þá væri hægt að ganga beint af þessari gönguleið  inná efri hæðir húsanna í Skeifunni þar sem reiknað er með um 500 nýjum íbúðum á næstu árum.

Ég hef nú gengið bæði High Line Park í New York og Couleé Verte í París og álít báða staðina vera paradís í þessum tveim borgum.  Hvorutveggja sem samgönguæð og sem friðsæll en líflegur almenningsgarður.

Færslunni fylgja kort og nokkrar myndir, sumar teknar í dag. Þarna var líflegt andrúm og létt yfir fólki þrátt fyrir nokkurn kulda á mánudegi í febrúar. Allt önnur stemming en niðri í bílaþvarginu á gangstéttunum fyrir neðan. Mér er sagt að á góðviðrisdögum á sumrin sé þarna mikið um að vera og enn skemmtilegri stemming. Þetta er einn af þeim fáu stöðum í borginni sem ferðamenn hafa ekki enn uppgötvað.

+++++

Skeifan – París – New York

Þeir sem vilja kynna sér High Line Park í New York ættu að lesa þassa slóð:

http://blog.dv.is/arkitektur/2013/11/17/high-line-park-i-new-york/ 

Þar kemur fram hvernig High Line Park bindur Meatpacking district saman  á „the west side“ í borginni. En þetta hverfi á það sameiginlegt með Skeifunni að vera fyrrum iðnaðarsvæði sem hefur verið að breytast undanfarin ár í „heitasta“ hverfi New Yorkborgar. Umbreytingin hefur átt sér stað með einskonar sjálfsprottnum hætti. Það er að segja að fjárfestar og fasteignaeigendur hafa sjálfir ráðið ferðinni að mestu. Skipulag einstakra lóða er ekki háð framkvæmdum á næstu lóð nema að menn óski þess sérstaklega. Þarna hafa men byggt ofaná og utaní fyrrum pakkhús og iðnaðarskemmur. Forsendan fyrir skipulaginu er ekki að eitthvað sé rifið. Það er frekar val fasteignaeigenda. Þeir hafa breytt kornsílóum og vöruskemmum í hotel-, skrifstofu- og íbúðabyggingar án þess að upprunaleg ímynd hverfisins sé þurrkuð út. Þeir viðhalda anda staðarins þrátt fyrir mikla uppbyggingu.

Allt þetta er hægt að gera í Skeifunni ef menn halda vöku sinni og gæta þess að hverfið endi ekki eins og hvert annað hverfi í borgum sem enga á fortíðina eða söguna. Í Skeifunni á að auka byggingamagnið um 85.000 m2. Það er ekki lítið . Af þessum fermetrum verður sennilega um 50.000 m2 varið fyrir 500 íbúðir og 35.000 m2 fyrir aukna atvinnustarfssemi. Þetta mikla byggingarmagn gefur tækifæri til róttækra breytinga í samgöngumálum hjólandi og gangandi sem leiðir hugann að High Lin Park hugmyndinni. Þannig er hægt að koma fyrir grænum svæðum á öðru og „hærra plani“ en núverandi malbikað bílastæðaflæmi er án þess að þurfa að sækja fjármuni til borgarsjóðs. Þetta er einkum mikilvægt fyrir væntanlega íbúa þarna og samgöngur fyrir hjólandi og gangandi í borginni sem heild.

 

http://blog.dv.is/arkitektur/2013/11/17/high-line-park-i-new-york/ 

 

la-coulee-verte-visoterra-43944

Gönguleiðin er líka kölluð „Viaduct des Arts“ vegna þess undir hluta leiðarinnar hefur verið komið listagalleríum.

IMG_7376

IMG_7366Að neðan koma tvö kort sem sýna aðstöðu við þessa frábæru lausn fyrir gangandi vegfarendur.

untitled

ceinture_verte_plan

 

Að neðan eru skokkarar að teygja eftir sprettinn með borgarumferðina fyrir neðan

eða bílaflæmið eftir atvikum!IMG_7364

 

Flokkar: Óflokkað

Föstudagur 19.2.2016 - 08:38 - 7 ummæli

Skipulagssýning – Upplýstur almenningur

IMG_7330

 

Pavillon de L’arsenal í París, er miðstöðstöð upplýsinga, gagna og sýningarstaður fyrir allt er varðar skipulag og byggingalist í París. Stofnunin er e.k. óháð sjálfseignarstofnun sem um 40 samtök og fyritæki standa að.

Það er mikil upplifun að koma og kynna sér þessa “permanent“ sýningu á því sem fjárfestar, arkitektar og stjórnmálamenn eru að hugsa. Sýningin sem rekin er í gömlu vopnabúri sem var byggt 1878-79 og var opnuð 1988 eða fyrir 28 árum.

Sýningin er í miðborg Parísar á Boulevard Morland og ættu allir áhugamenn um skipulag og byggingarlist að leggja leið sína þangað þó ekki væri til annars en að kynnast hvernig parísarbúum er gert kleyft að kynnast því sem er á döfinni í borginni og setja í sögulegt samhengi.

Í húnæðinu sem er tæplega 1000 fermetrar að stærð eru stöðugt haldin “work shops” fyrir skólabörn á öllum aldri og þarna eru haldnir fundir og kynningar varðandi byggingalist og skipulag.

Á hverju ári eru haldnar um 30 sérsýningar í húsnæðinu, gefnar út 10 bækur á vegum sjálfseignarstofnunarinnar, haldnar um 70 ráðstefnur og fundir og 300 sinnum á ári er leiðsögn um sýninguna o.s.frv.

Allt er þetta gert til þess að auka áhuga og þáttöku almennings í skipulagsgerðinni og upplýsa hann um það sem koma skal. Þetta er líka bersýnilega gert til þess að mennta skólabörn, unglinga og allann almenning í þessum fræðum.

Ókeypis er inná sýninguna.

++++++

Af reynslunni að dæma má draga þá ályktun að sveitarfélög á Íslandi, kynni ekki nægjanlega vel þau áform um skipulag og byggingar sem fyrir höndum liggja. Meðferð á athugasemdum í lögbundnu kynningarferli er líka  ábótavant. Í raun svo ábótavant að sú mikla vinna sem borgarar nota til þess að kynna sér áformin og gera athugasemdir og góð ráð er nánast gangslaus. Það ber að líta á þá sem gera athugasemdir sem samstarfsmenn í skipulagsvinnunni en ekki andstæðinga og fagna og þakka þeim fyrir sýndann áhuga.

IMG_7309

Oftast eru sýndar nokkrar tillögur af sama úrlausnarefninu bæði með líkönum, teikningum og talnagrunnum. Takið eftir pappakössunum undir borðunum. Þar er að finna einblöðunga með ýtarefni um einstök verkefni, sem borgararnir geta tekið með sér heim til nánari skoðunnar.

IMG_7326

Á miðju gólfi er um 40 m2 skjár þar sem varpa má upp gögnum. Hér stendur pistlahöfundur og hefur sett vesturbæ Reykjavíkur á skjáinn. Á umræðufundum stendur fólk á svölum umhverfis skjáinn og á gólfinu umhverfis  skjáinn og ræðir málin.

vign-liste_pav-expoph-md-37_aaf88

Hér að ofan er líkan af hluta borgarinnar og að neðan mynd af líkani af borginni allri.

IMG_7667

vign-liste_pict0100_7b5f6

IMG_4766

Að ofan eru tvær myndir úr starfinu. Annarsvegar frá fjölmennum fundi um málefni líðandi stundar og hinsvegar mynd þar sem grunnskólanemar eru að fræðast um skipulag og byggingalist. Um allt húsið var fólk að kynna sér efnið og nokkur fjöldi arkitektanema sat og teiknaði fríhendis líkön á sýningunni um leið og þau ræddu lausnirnar. Það var skemmtilegt að sjá.

++++++

Að neðan koma svo þrjár myndir af einu verkanna, af mörgum tugum, sem er þarna í kynningu þessa dagana. Þetta er hús nálægt Porte Maillot sem þeir kalla svo smekklega á ensku: „Multy level city“. Þessi bygging á að vera vistvæn með miklum gróðri á þökum og svölum og með útveggjum. Þessi nálgun á mikið upp á pallborðið víða um heim um þessar mundir.01 02 04

 

 

 

Flokkar: Óflokkað

Þriðjudagur 16.2.2016 - 08:29 - 8 ummæli

París árið 2050?

IMG_4767

 

Hausmann og Napóleon III fengu hugmyndir um að breyta Parísarborg og gerðu það  eins og lesa má í síðustu pistlum.  Og París er sennilega í dag svipuð því sem þeir sáu fyrir sér fyrir um 150 árum.

Menn eru alltaf  að velta fyrir sér framtíðinni og reyna að hafa áhrif á gang mála.

Le Corbisiere gerði  áætlanir um að breyta Parísarborg eins og sjá má af teikningum neðst í færslunni.  Það var fyrir rúmum 90 árum.  Sem betur fer varð ekkert úr þeim áætlunum.

++++

Nú hefur belgíski arkitektinn Vincent Callebaut (1977-) skilgreinir sig sem “ecological” arkitkekt lagt fram hugmyndir um að breyta Parísarborg í vistvænan atað með mikilli þéttingu. Callebaut segist hafa það markmið að breyta hugsunarhætti viðskiptavina sinna og fá þá til að feta vistvænar brautir.

Cellebaut hefur vakið heimsathygli fyrir hugmyndir sínar. Fyrir réttum fimm árum var skrifað á þessum vef um fljótandi borgir samkvæmt hugmyndum unga arkitektsins. Hann má lesa hér :

http://blog.dv.is/arkitektur/2011/02/07/global-warming-fljotandi-borgir/

Nýlega hefur hann lagt fram hugmyndir um að gera stórborgina París að vistvænni borg og breyta henni verulega. Í hugum flestra er þetta svona “Case study” sem á að lýsa möguleikum stórborga til þess að verða vistvænar í breiðum skilningi. Hugmyndin er auðvitað góð og nauðsynleg en vonandi verður útfærsla Cellebaut ekki ofaná.

Hér koma nokkrar myndir af hugmyndunum og ein af fljótandi borg sem áður hefur verið fjallað um. Efst er mynd af forsíðu bókar um verk Callebaut. Þetta er yfirlitsmynd yfir París framtíðarinnar eins og arkitektinn sér hana. Á Signu eru vistvænir bátar á siglingu.

Svo neðst koma myndir sem sýna hugmyndir Le Corbusiere frá 1925,

IMG_4770

Hér má sjá hvernig arkitektinn sér fyrir sér Rue de Rivoli. Vonandi eru þetta allt rafbílar sem þarna aka.

IMG_4769

Hér að neðan má sjá mynd af fljótandi borg Vinbcent Callebaut. Sjálbæra borg fyrir tugi þúsunda íbúa.

LILYPAD.-COURTESY-VINCENT-CALLEBAUT-ARCHITECTURES

Að neðan má sjá hugmyndir Le Corbusiere af miðborg Parísar frá 1925. Sem betur fer gekk þetta ekki eftir.

le-corbusier

,

Le Corbusier Plan Voisin 01

 

Flokkar: Óflokkað

Laugardagur 13.2.2016 - 02:55 - 11 ummæli

Byggingarlist Haussmanns í París

IMG_7577

 

Þegar þeir Napoleon III og Haussmann endurmótuðu Parísarborg á árunum 1853-1870 og bjuggu til breiðgöturnar gerðu þeir kröfu um vandaðri og fallegri ásýnd húsanna. Áður voru götur borgarinnar mjóar. Algengast milli 2 og 7 mera breiðar og var ásýnd þeirra við svo mjóar götur ekki eins mikilvæg eins og við breiðar götur. Þegar göturnar voru breikkaðar upp í 20 – 60 metra eða meira óx krafan um fallegri framhliðar að breiðgötunum.

Champs Elysees er 70 metrar en Avenue Foch er 140 metrar á breidd.

Þegar göturnar eru svona breiðar varð ásýndin mikilvægari en áður enda sást betur til húsanna.

Þetta er sjónarmið  á mjög vel við vegna þeirra umbreyting sem er fyrir höndum í Lækjargötu og við Kalkofnsveg í Reykjavík. Götuhliðar Lækjargötu og Kalkofnsvegar til austurs blasa viða við vegfarendum. Það má segja að þetta sé langbreiðasta gata höfuðborgarinnar og þessar götuhliðar eru sennilega þær mikilvægustu í borginni ef frá er talið umhverfi Tjarnarinnar.

Breidd nýju gatnanna í París var ekki ákveðin vegna þarfa umferðarinnar.

Þörfin var margþætt. Í fyrsta lagi áttu þessar breiðu götur að hleypa sól og hreinu lofti inn í borgina og skapa lífleg útivistarsvæði.

Þá var þetta líka öryggisatriði. Nýju breiðgöturnar skiptu borginni í e.k. brunahólf þannig að hún þyrfti ekki öll að brenna ef eldur brytist út. Á myndum í síðustu færslu sést að öll eyjan Ile de la Cite er nánast eitt brunahólf sem var varin frá restinni af borginn með Signu.

Þá gengdi skipuagið hernaðarlegum tilgangi og varð „stjörnumynstrið með þráðbeinum strætum meðal annars  fyrir valinu því að í slíku borgarmynstri átti herinn (sérstaklega riddaraliðið) greiðari aðgang að öllum byggingum og strætum. Auk þess var auðveldara að  beita fallbyssunum á saman safnaðan og vopnaðan múginn á löngu færi í beinni skotlínu“ eins og einn lesandi orðaði það í nýlegri færslu.

Meðfram þessum breiðu götum var plantað trjám sem gerðu þær í raun að einskonar görðum. Lögð var áhersla á að jarðhæðir hentuðu sem almenningsrými fyrir kaffihús, verslanir og þjónustu. Gengið var beint af gangstéttinni inná jarðhæðina, “rez de chaussee”.

Víða í öðrum borgum er gengið upp um hálfa hæð þegar gengið er inn í borgarhúsin. Það var gert til þess að ná dagsbirtu inn í kjallara húsanna.

Færslunni fylgja nokkrar myndir af húsum sem reist voru í kjölfar þessa breytinga á Parísarborg. Húsin eru íburðamikil og falleg enda flest reist á tímabili “La Belle Epoque”.

+++++

Efst er mynd af húsi við Avenue Montaigne. Svo koma nokkrar myndir sem gefa hugmynd um það sem kallað hefur verið Hausmann stíllinn og sjá má víða um heim.

Kínverjar hafa verið svo heillaðir af þessu að þeir hafa byggt sína Parísarborg þar eystra með Effelturni og öllu tilheyrandi nema menninguna og staðarandann vantar. Þarna hafa þeir misskilið eitthvað kínverjarnir. Sjáið myndbandið neðst í færslunni.

april-2003 131

9c99d98c5bbf1930ba3d0578fb6a8f18

2de5e0492565d3980a9cdb3960074f3a

april-2003 138

Hér að ofan er svo mynd af dæmigerðri  götu í París, „Rue“.  Þar er íburðurinn ekki nærri eins mikill og við breiðgöturnar. Svo strax hér að neðan kemur myndband sem sýnir nýlega borg í Kína þar sem arkitektúrinn sem kenndur er við Haussmann er notaður. Maður veit ekki hvort maður á að gráta eða hlæja.

 

IMG_7347

Í athugasemd við færslu um byggingastíl og umbreytingu Parísarborgar er spurt hvernig borgin liti núna út ef Modernisminn hefði verið í tísku þegar þeir Napóleon III og Haussmann voru að vinna vinnu sína.

Það er umhugsunarvert. Það má líka velta fyrir sér hvernig borgin liti út nú á tímum störnuarkitektanna ef umbreytingin ætti sér stað á okkar dögum?. Þá hefði Zaha Hadid átt nokkur verk, Frank Gehry önnur og eflaust Richard Rogers og Renzo Piano rnn önnur.

Hér að neðan kemur mynd af Beaubourg listamiðstöðinni, Pompidou, sem teiknuð var af ungum arkitektum, þeim Renzo Piano og Richard Rogers. Rogers var aðeins 38 ára gamall þegar þeir unnu samkeppni um bygginguna.  Hann hefur verið svokallaður“stjórnuarkitekt“ allar götur síðan.

Mér hefur alltaf þótt þetta spennandi hús („a nice place to visit“) en ekki gott þarna í miðborg Parísar. Það er allt of hátt og stendur uppúr byggðinni í ´osamræmi við allt eins og um væri að ræða  einhverja mega gufuaflsvirkjun á feriðinni í miðborginni.

Ímyndum okkur borgina fulla af húsum sem öll eru að keppast við að ná athyglinni hvert frá öðru. Er það kannski eitthvað svoleiðis sem er að eiga sér stað við Austurhöfnina í Reykjavík. Eigum við ekki að leyfa Hörpu njóta athyglinnar og byggja nýju húsin í einhverri hógværri harmoníju við eldri hluta Kvosarinnar?

 

Flokkar: Óflokkað

Höfundur

Hilmar Þór Björnsson arkitekt
Tilgangur síðunnar er að kynna arkitektúr, skipulag og staðarprýði ásamt því að stuðla að umræðu um efnið. Það sem fram kemur ber ekki að skilja sem skoðun höfundar heldur hugleiðingu sem sett er fram í þeim tilgangi að vekja lesendur til umhugsunar og skoðanaskipta. Tekið er á móti aðsendum greinum þegar það á við, sem þá eru á ábyrgð höfundar aðsends efnis.
Athugasemdir við færslur eru velkomnar. Þeir sem vilja koma skilaboðum til ábyrgðarmanns beint er bent á netfangið hilmarstofunni@gmail.com
RSS straumur: RSS straumur

Færslusafn