Ég hef á ferðalögum mínum oft gert mér erindi á arkitektaskólana. París er þar engin undantekning. Í gær heimsótti ég listaakademíuna Beaux-Arts sem á sér sögu allt frá árinu 1648. Þar var frá öndverðu kennd málaralist, höggmyndalist og „móður listanna“, byggingalist ásamt fl.
Beaux-Arts hefur alltaf verið mikils metinn. Lúðvík 14 valdi útskriftarnema úr skólanum til þess að fylla Versali með myndlist og Napóleon III gaf skólanum frelsi frá stjórnvöldum árið 1863 og gaf skólanum nýtt nafn.: „L’École des Beaux-Arts”.
Árið 1898 fékk fyrsta konan aðgang að skólanum eftir að hafa sótt þrisvar um. Það var Julia Morgan frá San Fransisco sem útskrifaðist síðar sem arkitekt.
Margir þekktustu myndlistarmenn Evrópu numu þar. Má þeirra á meðal nefna Géricault, Degas, Delacroix, Fragonard, Ingres, Monet, Moreau, Renoir, Seurat, Cassandre, and Sisley. Rodin sótti þrisvar um inngöngu í skólann en var alltaf hafnað. Svona er það stundum.
Allmargir íslendingar hafa stundað nám í Beaux-Arts. Má þar nefna arkitektana Högnu Sigurðardóttir, Jes Einar Þorsteinsson, Líney Skúladóttir og Börk Bergmann.
Byggingar skólans eru að mestu hannaðar af Félix Duban arkitekt sem var falið verkið 1830. Hann hannaði einskonar campus á vinstri bakka Signu. Verkinu var að mestu lokið 1861.
Þegar gengið er um Beaux-Arts finnur maður fyrir sögunni og fallegar byggingarnar geisla frá sér vissri upphafningu. Miðrými aðalbyggingarnar sem er með þaki úr gleri og stáli svipað og er í Grand Palais, Bon Marcé og var í hinum horfnu Le Halles. Þetta er eitthvað það fallegasta rými sem ég hef komið í. Vinnustofur nema veita inn í rýmið og maður sér allstaðar fólk að störfum. Arkitektaskólinn er í hliðarbyggingu sem ekki er beintengd aðalbyggingunni.
Þetta er virkilega flott og umhverfi sem er mikill brunnur fyrir innblástur fyrir þá sem þarna starfa.
Hjálagðar eru nokkrar myndir sem teknar voru í gær.
+++
Skólinn minn í Kaupmannahöfn var stofnaður árið 1754 eða 106 árum síðar en Beaux-Arts og var vafalaust horft til Parísar þegar honum var komið á laggirnar. Maður sér líka skyldleikann við Beaux-Arts í nafni skólans “Kongelige Danske Akademi for de Skønne Kunster” (Beaux-Arts, Skönne Kunster, Fagrar listir). Danski skólinn fékk líka nokkuð frelsi frá stjórnvöldum með því að heyra undir menningarmálaráðuneytið meðan öll önnur menntun í Danmörku heyrði undir menntamálaráðuneytið. Maður naut þessa frelsis mjög sem nemandi en þetta lagði líka mikla ábyrgð og skyldur á nemendur. Eitt varðandi vistun skólans í menningarmálaráðuneytinu var að þegar skólinn var settur á haustin var það við formlega athöfn í Oddfellow palæet í Bredgade. En þar var og er sennilega ennþá einn besti tónlistarsalur Norðurlanda. Viðstaddir athöfnina voru meðlimir konungsfjölskyldunnar. Í og eftir studentabyltinguna 1968 misstu stúdentar áhuga á þessum formlegheitum og ég held að þetta hafi verið lagt af.
Skólinn var til húsa í Charlottenborg við Kongens Nytorv.
+++
Starfsumhverfi nemanna í París er ekki ósvipað og í Kaupmannahöfn. Vinnuaðstaðan er í gömlum byggingum þar sem nokkrir árekstar verða í daglegum störfum við húsið. Þessir árekstrar voru að mínu mati alltaf af hinu góða og gáfu nemendum innblástur og þvinguðu þá til þess að láta undan takmörkum byggingarinnar. Mér sýndist það sama eiga við í AA skólanum í London. (Architectural Assosiation School of Architecture) sem starfræktur er í gömlum byggingum sem voru byggðar í öðrum tilgangi en að kenna þar arkitektúr.
+++
Þó ég hafi útskrifast frá skóla sem kennir hinar fögru listir; málaralist, höggmyndlist og byggingalist og er afskaplega sáttur við það, þá velti ég fyrir mér hvort arkitektanám eigi ekki frekar að tengjast almennum háskólum frekar en listaskóla. Á Íslandi yrði þá byggingalist kennd við Háskóla Íslands eða Háskólann í Reykjavík. Ástæðan er sú að arkitektastofur hafa breyst á undanförnum árum úr því að vera stúdíó eða teiknistofur í að verða frekar arkitektafyrirtæki. Stofurnar eru allar að verða meira og minna reknar á viðskiptalegum forsendum en ekki listrænum. Arkitektaskólarnir þurfa kannski að fara að átta sig á þessu og skilgreina sig sem viðskipta- og framleiðslufyritæki í stað listgreinar? Kannski er þessi þróun tilefni til að gera meira úr listrænni tengingu námsins til að sporna gegn henni.
Miðrými aðalbyggingar Beaux-Arts er eitt af þeim falegustu sem ég hef séð.
Glerþakið er úr stáli og gleri eins og algengt var fyrir hálfri annarri öld samanber Crystal Palace í London.
Vinnurými nema opnast sum inn í miðrými aðalbyggingarinnar. Það á einnig við um sýningarsali.
Danska listaakademína var um langan aldur starfrækt í Charlottenborg við Kongens Nytorv í miðborg Kaupmannahafnar.
AA arkitektaskólinn í London, Architectural Assosiation School of Architecture, er starfræktur í gömlum byggingum sem ekki voru í upphafi hugsaðar sem skólabyggingar.