Föstudagur 12.6.2015 - 13:48 - 5 ummæli

Can Lis eftir Utzon

tumblr_mf33i1ujDV1rtnstco2_500

Gunnlaugur Stefán Baldursson arkitekt hefur sent síðunni áhugaverða grein um arkitektinn Can Lis. En Can Lis er hús sem Utzon byggði fyrir sig á Mallorca.    Höfundur pistilsins er flinkur og reyndur praktiserandi arkitekt sem hefur starfað alla sína tíð erlendis. Stefán hugsar mikið um anda staðanna og regionalismann sem á mikið erindi til samtímans. Ef fólk vill lesa fleiri pistla eftir stefán má slá upp nafni hans í leitarvélinni hér til hliðar. Gefum Stefáni orðið.:

Þræðir upprunans.

Að vorlagi árið 2001 þáði ég boð vinar míns að sigla á gamalli og glæsilegri seglskútu hans umhverfis Mallorca.Við heimsóttum m.a. Joönnu Kunstmann, listaverkasala skammt frá Santanyi við suðausturströnd eyjunnar.  Nutum þess að vera bæði á landi og til sjós.Þessir dagar voru fullir af gleði og fullvissu um að þarna við Miðjarðarhafið eiga Norðurlandabúar sínar gömlu rætur.

Á morgnana var  gjarna spjallað saman í  „Galeria Joanna Kunstmann“ við Plaza de Canal,  þá mjög þekkt listaverkasala á eyjunni.

Í  ljós kom,að fjölskylda danska arkitektsins Utzon, einkum einkadóttir hans Lin,voru tíðir gestir í Galeria Johönnu.

Úr helli  í hof.

Skoðunaferð í eigið hús Jörn Utzon, þar sem Lin bjó á þeim árum,var skipulögð

Utzon fjölskyldan fann sitt  „draumaland“ við Miðjarðarhafið á klettafleti,sem sem stendur beint á klettavegg við hafið nálægt Porto Petro á austurströnd Mallorca.

Eftir að hafa flúið Ástralíu og  Óperunna í Sydney, eins og kunngt er,  flutti Jörn  með konu og börn  í  kringum 1970 á Mallorca og framkvæmdir þar draum sinn um hús við suðrænt haf.

Því miður  varð birtan og endurspeglunin við sjóinn þeim Utzonhjónum um of  og þegar ég var þarna voru hjónin flutt út og dóttirin tekið við .

Áður enn húsið var byggt dvaldi Jörn oft í helli,sem var  í klettavegg á nýju lóðinni ,horfði til suðurs í átt að Alsír í  Norður Afríku,(þar sem Albert Camus fæddist og óx upp) og lét sig dreyma um  „paradís“ á jörð.

Can Lis,eins og Jörn skírði húsið nafni konu sinnar,  er  að vissu leiti tákn um tálsýn „norðurlandabúa“ hvað rómantískt paradís suðursins snertir,já einskonar „manifest“ slíks draums.

En  Can Lis er þó fyrst og fremst óviðjafnanlegt verk arkitektúrs,  eitt athyglisverðasta einkahús 20.aldar og því lærdómsríkt að beina því augsýn.

Hér varð til frábært dæmi um hús,sem vex og verður hluti af umhverfinu..

Utzon hleður með þeim stein,sem í aldaraðir var notaður á   eyjunni, og gerir það svo snildarlega,að þegar verkinu var lokið fékk hann kveðju frá spænskum kollega sínum á eyjunni : “to Utzon who show us our own stone“.

Þetta sýnir,að ekki er sjálfsagt, að arkitektar sjái  einkenni hvers staðar  og flétti jafn eðlilega inní staðarhætti og hér er var gert.

Utzon tekur upp þann þráð,sem sýnilegur er á bóndabýlum eyjunnar svo og þeim  veggjum,sem aðskilja einkaland bænda .  Allt húsið er hlaðið úr dæmigerðum,  ljósgulum sandstein Mallorca.

Auk þess eru að öðru leiti eingöngu staðbundin efni notuð,t.d. þakskegg úr leir,  tréverk úr þeim við,sem á staðnum vex ,   majorcaleirflísar á gólfum .

Byggingarhlutar eins og innigarðar,  terössur,eða glerjaðar flísar eru dæmigerð staðareinkenni.

Sú nálgun Utzons, að leita ekki langt yfir skammt ,er að vísu óháð Christopher Alexander (sem birti „The Timeless Way of Building“ 1979)  en í mörgu álíka sýn á byggingalist.

Mannsverk og náttúran.

Á vissan hátt er húsið eins og það sé ekki „hannað“.  Bygginging  fékk að „vaxa“ og varð  ekki endanlegt form fyrr en í lokin.  En  þessi aðferð skilar  eðlilegri og  tímalausri byggingu.

Hér er til staðar „gamallt og nýtt“  eins og  sjálfsagður  hluti umhverfis.

Grunnhugmyndin :  fjórar einingar ,hver um sig sjálfstæð en tengdar saman með  dæmigerðum innigörðum Spánar,  er í átt af húsaþyrpingum gömlu bóndabæja eyjunnar.

Hver eining í húsi Utzons hefur ákveðið hlutverk: setustofa,eldhús ásamt borðstofu,svefn og gestaálma.

Aðkoman að húsinu er svo látlaus,  að engum dettur í hug,að nokkuð athyglisvert sé  innandyra.

Því stærri verður upplifunin þegar sjórinn blasir fyrst við þegar inn er gengið.

Já:hér er fullkomið útsýni:allar gluggaeiningar eru settar utaná veggi svo að eingöngu gler sést innanfrá.

Formin „klassísk“ með einfaldleika og  léttleika,sem einkennir oft gömul býli á Mallorca.  Þykkir,hlaðnir veggir og innréttingar úr trévið. Súlur, bitar og bogaloft ekki falin.

Rýmin milli inngangs og  innirýma,yfirbyggð útirými og terrössur:hér má upplifa sólina og stein,birtu og haf í  uppruna sína.  Náttúran og verk mannsins eru ofin saman í eina heild.

Albert Camus segir okkur að það „að finna tengsl sín við jörðina,  ást sína á nokkrum manneskjum,vita að sá staður er til þar sem hjartað er sátt,  er býsna margt á einni æfi“ ( Noces 1938 /þýðing: Ásdís R. Magnúsdóttir,A.C.: Ritgerðasöfn 2014).

Hús Utzons á Mallorca endurspeglar þennan samhljóm manns og veraldar,sem Camus fjallar svo snildarlega um  í Noces,þar sem hann segir okkur frá  ytri og innri ferðalögum umhverfis síns og upplifunar.

+++++

Hér eru slóðar að öðrum pistlum eftir Gunnlaug Stefán ásam slóð að pistli um Utzon:

http://blog.dv.is/arkitektur/2014/02/04/flettad-inn-i-landslagid/

http://blog.dv.is/arkitektur/2013/12/29/flettad-inn-i-borgarvefinn/

http://blog.dv.is/arkitektur/2014/12/20/margbreytni-rymis/

Að neðan eru nokkrar myndir af Can Lis ásamt grunnmyndum sniði og fl.

can_lis_mallorca

tumblr_mf33i1ujDV1rtnstco1_1280

 

 

KAS-CA-CAN_LIS-TOTALST_PLAN-03-_905

CroppedWatermarkImage1170700-can_feliz_drawing_1

openhouse-barcelona-architecture-can-lis-and-can-feliz-jc3b8rn-utzon-mallorca-3

JAU_Can-Lis_Yoshiharu-Tsukamoto_stage2

546198bfad460ab03223ec767699ad3e

 

Ég þakka Gunnlaugi Stefáni Baldurssyni pistilinn sem er fróðlegur fræðilegur og skemmtilegur.

Mig langar að bæta því við að Utzon fæddist 1919 og var jafnaldri professorsins míns Jörgen Bo (teiknaði Lousiana og m.fl) og var á sama tíma  og á Akademíunni og Tobiasar Faber sem var rektor Akademíunnar þegar ég las þar. Þeir voru allir góðir félagar.

Það má skjóta því hér inn að á þeim tíma sem ég stundaði ná á Akademíunni voru flestir prófessorar og kennarar skólans þungavigtarmenn í byggingalistinni. Þetta einkenndi skólann á margann hátt.

En eins og gengur með alt skabandi fólk voru þeir líka aðgerðarsinnar og engar geðluðrur.  Í ævisögu Utzon segir frá því að þeir Utzon og Faber, sem bjuggu saman á námsárunum, söfnuðu saman 30-40 dúfum á Ráðhústorginu. Þetta var á stríðsárunum og Danmörk hersetin af þjóðverjum. Þeir fóru með dúfurnar í pappakassa niður á Charlottenborg við Kongens Nytorv. Máluði merki breska flughersins á vængi fuglanna og slepptu þeim út um glugga Akademíunnar. Dúfurnar flugu yfri hersetinni borginni og höfðust við á Ráðhústorginu í nokkra daga þar sem þýskir hermenn fullvopnaðir gátu ekkert ráðið við Royal Air Force. Ekki fara sögur af þeim meira og var þetta vandræðalaust fyrir þá skóla- og herbergisfélaga Faber og Utzon þó þeir hafi fengið skammir í skólanum, sem fóru reyndar lágt.

Að neðan er mynd af þeim hjónum tekin skömmu áður en Utzon dó árið 2008. Lis Utzon, sem húsið heitir eftir dó 92 ára gömul árið 2010.

266166

Flokkar: Óflokkað

Fimmtudagur 11.6.2015 - 15:15 - 3 ummæli

Móðir náttúra endurheimtir sitt

Ljósmyndarinn  Tang Yuhong sem býr í Nanning í Kína sýnir hér nokkrar fallegar ljósmyndir sem eru teknar í yfirgefnu sjávarþorpi í Kína.

Á ljósmyndunum sést hvernig móðir náttúra endurheimtir svæði sem er vissulega hennar og skapar um leið dulræna stemmingu.

Þorpið er á Shengsi eyjum sem eru eyjar við ósa Yangze fljóts. Með tímanum mun þorpið hverfa í gróðri svipað og í Machu Picho í Perú. En það þorp var tínt og falið gróðri í 400 ár þar til það fannst árið 1911.


 

 

 

 

Flokkar: Óflokkað

Fimmtudagur 4.6.2015 - 01:39 - 10 ummæli

Spennandi öríbúð – aðeins 25m2

Zoku by Concrete

Nú er landverð og byggingakostnaður orðinn svo hár í miðborgum vestrænna borga að venjulegt launafólk hefur varla efni á að búa þar. Fjárfestar og hönnuðir hafa brugðist við þessu og minnkað íbúðirnar þannig að fólk hafi efni á að búa í miðborgunum.  Þessi þróun hefur gerst hægt en markvisst.

Menn hafa byggt litlar íbúðir í marga áratugi en nú eru hönnuðir að einbeita sér að því að nýta þessa fáu fermetra sem best með margskonar útsjónarsemi og nægjusemi.

Maður sér margskinar útfærslur af þessu á veraldarvefnum.

Hér fylgja myndir af einni í Hollandi. Þetta var hugmynd sem þróaðist sem stúdentagarður en er íbúðahótel með 133 íbúðum sem eru aðeins 25 m2 hver. Þarna er svefnherbergi, stofa, baðherbergi, vinnuaðstaða, borðstofa og eldhús með ísskáp, uppþvottavél, eldavél og vaski.

Allt á 25 fermetrum!

Aldeilis frábærar íbúðir sem flestir einstaklingar og barnslaust pör geta verið ánægð með. Upplögð fyrsta íbúð og kjörin lausn fyrir fráskilda.

Ekki er leyfilegt að byggja svona hús hér á landi vegna ákvæða í byggingareglugerð.

Myndirnar skýra sig að mestu sjálfar.

Sjá einnig:

http://blog.dv.is/arkitektur/2013/07/04/micro-ibudir/

http://blog.dv.is/arkitektur/2013/07/09/micro-einbylishus/

http://blog.dv.is/arkitektur/2013/07/17/micro-hus-micro-lodir/

 

 

 

Zoku by Concrete

Svefnaðstaðan er hilla sem gengið er upp á um útdreginn stiga. Rúmið er 180 cm á breidd.

Zoku by Concrete

Vinnuaðstaðan er á ganginum í útskoti sem nægir fyrir alla venjulega tölvu- og  skrifstofuvinnu.

Zoku by Concrete

Zoku by Concrete

Zoku by Concrete

Zoku by Concrete

Zoku by Concrete

Zoku by Concrete

Flokkar: Óflokkað

Laugardagur 30.5.2015 - 23:33 - 11 ummæli

Laugardalurinn – Spennandi útivistarsvæði

Laugardalur

Laugardalnum hefur verið líkt við Central Park í New York, sagður lunga borgarinnar.

Þetta er á vissan hátt rétt en samt ekki alveg.

Laugardalurinn er ekki eina græna svæðið í borginni, meðan Central Park er nánast eina græna svæðið í NY.  Reykjavík er mjög græn og dreifð. Borgin er í raun langstærsti skógur landsins.

Reykjavík einkennist af grænum svæðum og trjágróðri. Helgunarsvæði stofnbrautanna er meira en maður sér nokkursstaðar annarsstaðar í Evrópskri borg. Því þarf að breyta.

—–

En Laugardalurinn er einstakur og sérstaða hans kemur til með að aukast á næstu árum.  Aðgengi að honum mun aukast fyrir alla borgarbúa með tilkomu samgönguáss aðalskipulagsins,  AR2010-2030,  sem samþykkt var í fyrra. Enda þjónar Laugardalurinn ekki eingöngu byggðinni í nágrenninu heldur borginni allri.

Rökrétt væri að fækka bifreiðastæðum í dalnum verulega þegar samgöngúásinn er komin í fullan rekstur með öflugum almannaflutningum frá Vesturbugt austur að Keldum eins og AR2010-2030 gerir ráð fyrir og auka græn svði til almennra nota í staðinn.

Samgönguásinn mun liggur  frá miðborginni um Hverfisgötu, Laugarveg og Suðurlandsbraut meðfram Laugardalnum alla leið að Keldum. Hún er sterkasta einstaka hugmynd hins frábæra aðalskipulags sem nú er í gildi.

Dalurinn er ekki bara útivistarsvæði. Hann skiptist í raun í tvennt.  Annarsvegar græn svæði til sérstakra nota og hinsvegar græn svæði til almennra nota.

Á svæðunum til sérstakra nota má nefna: Grasagarðinn, Fjölskyldu- og húsdýragarðinn, Laugardalslaug, Laugardalsvöll, Skylmingamiðstöð, Fimleikahús, Grasvelli og gervigrasvelli, Laugardalshöll, Frjálsíþróttahöll, Skautahöll, TBR, Höfuðstöðvar ÍSÍ og ÍBR.

Þetta er afskaplega flölbreytt starfssemi sem nýtist öllum borgarbúum.

Nú stendur yfir vinna við hverfaskipulag borgarinnar og þar mun að líkindum verða gerð ítarleg grein fyrir samgönguásnum og tengslum hans við Laugardalinn öllum til gagns og mikillar ánægju.

Að ofan má sjá fallega og upplýsandi mynd af dalnum eftir Raymond Rafn Cartwright, breta sem búið hefur hér á landi í um 20 ár.

++++

Af því að samgönguásinn er nefndur birti ég hér orðrétt upp úr Skipulags- og matslýsingu Hverfaskipulags Laugardals, Borgarhluta 04, sem skilað var fyrir u.þ.b. ári.

„Hverfisskipulagið bendir á að samgönguás Sudurlandsbrautar mun í framtíðinni skapa nýja og bætta ferðamáta innan borgarinnar.  Gera má ráð fyrir að léttir rafdrifnir sporvagnar gangi eftir ásnum með öru millibili.  Með þessu má tengja Laugardal,  Árbæ,  Grafarvog og Grafarholt saman með öflugum hætti og opna leið fyrir 48-62 þúsund borgarbúa, allt eftir því hvort miðað er við upphaf eða enda timabils aðalskipulags á nýjum ferðamáta frá ibúðahverfum í efri byggðum að miðkjarna Reykjavikur“ framhjá Laugardalnum.

 

Myndirnar tvær að ofan er ekki úr matslýsingu Borgarhluta 04, en sýnir hugsanleg farartæki sem gengju efir samgönguásnum frá Vesturbugt að Keldum. Það eru framleidar margar gerðir af þessum farartækjum og af mismunandi gerðum. Allar mota þær vistvæna orku. Vagnarnir taka reiðhjól, hjólastla og barnavagna. Ef til þessa er vandað verður þetta ferðamáti sem fólk celur framygir einkabílinn.

++++

Sjá einnig: http://blog.dv.is/arkitektur/2014/05/07/hverfisskipulag-er-longu-timabaert/          

Flokkar: Óflokkað

Miðvikudagur 27.5.2015 - 16:35 - 6 ummæli

Endurgerð eyðibýla

 

Eitthvað það áhugaverðasta sem verður á vegi manns í byggingalistinni er þegar maður sér vel endurbyggðar gamlar byggingar. Við þekkjum mörg dæmi um slíkt hér á landi og víða um heim.

Menn nálgast viðfangsefnið með mismunandi hætti eftir því sem við á. Stundum velja menn að endurgera húsin nákvæmlega í sömu mynd sem þau voru á blómaskeiði þeirra. Og í öðrum tilfellum velja menn að gefa þeim andrúm nútímans án þess að skerða sögu þá sem byggingin hefur að segja.

Byggingar segja nefnilega sögu. Menn þurfa bara að skilja tungumálið og geta „lesið“ húsin eins og sagt er.

Nú er fyrirsjáanlegt að mörg eldri hús munu verða endurnýjuð á komandi árum. Bæði í þéttbýli og dreifbýli.

Það er ört vaxandi áhugi fyrir endurgerð eyðibýla sem er sérlega áhugavert verkefni.  Þá er ekki einungis verið að tala um íbúðahúsin sjálf heldur einnig gripahúsin sem menn hafa breytt í íbúðahús, stundum gistihús.

Ég hef séð nokkur slík.

Sammerkt með þeim mörgum er að menn hafa á einhvern hátt klætt gömlu húsin inn í bárujárn eða einhverjar plötur að utanverðu og svo múrað eða klætt að innan með þar til gerðum plötum. Gamla húsið hefur horfið og nýtt kemur í ljós. Sagan og sjarminn er nánast horfin. Ekkert er eftir nema formið og staðurinn.

Skemmtilegra er að nálgast verkefnið þannig að gamla húsið minni stöðugt á sig, hvarvetna. Þarna er verið að tala um bæði form, efni, áferð og ekki síður söguna, handverkið og gömlu mennina sem nú eru gengnir og lögðu hönd að verki.

Stoðkerfið er látið halda sér þannig að burðarvirkið og handverkið sést. Veggir eru rykbundnir með glæru lakki.

Þetta þekkja þeir sem hafa komið í Saltkjallarann i Flatey á Breiðafirði sem er skemmtilegasti bar landsins.

Engum nútíma þægindum er sleppt meðan saga staðarins blasir við allstaðar. Öll hlutföll rýmanna fá aðra merkingu en áður og gluggasetning og op fá sérstakan sjarma vegna þess að að þau voru áður hugsuð fyrir aðra starfssemi. Gluggarnir lenda kannski ekki á bestu stöðum eins og sjá má á myndunum sem fylgja.

Ég birti hér nokkrar ljósmyndir af húsum sem hafa verið endurnýjuð þannig að augljóst er hvað er gamalt og hvað er nýtt. Þetta er í anda þess sem daninn Jóhannes Exner arkitekt sem lést í vikunni (1926-2015) gerði við Kolding Hus í Danmörku og ítalinn Carlo Scarpa gerði þar í landi.

Flokkar: Óflokkað

Miðvikudagur 20.5.2015 - 08:14 - 21 ummæli

Er staðsetning Landspítalans í uppnámi ?

 

Þegar rætt er um ágæti staðsetningar landsspítalans við Hringbraut er einkum vitnað í tvær opinberar skýrslur.

Önnur er frá árinu 2002 og heitir „Framtíðarskipulag og uppbygging Landspítala Háskólasjúkrahúss“.

Hin  er greinargerð frá árinu 2008 um fasteignir, nýbyggingar og aðstöðu heilbrigðisstofnanna þar sem skoðaðir eru byggingastaðir í Fossvogi,  við Vífilsstaði, við Hringbraut auk nýs valkosts í landi Keldna.

++++

Það sem vekur athygli er að fyrri skýrslan er úrelt og ónothæf vegna margskonar breytinga sem orðið hafa síðan hún var samin og hin frá árinu 2008 er ekki aðgengileg og finnst hvergi. Það veit eiginlega engin hvað stendur í henni. Það verður spennandi að lesa greinargerðina frá 2008 þegar hún finnst. Þar hlýtur að vera tekið sérstaklega á þeim atriðum í 2002 skýrslunni sem ekki eiga lengur við og mótvægisaðgerða vegna þeirra.

Þegar sagt er hér að skýrslan frá 2002 sé úrelt er það vegna mikilla breytinga sem orðið hafa á flestum sviðum síðan hún var samin. Margar forendur fyrir niðurstöðunni hafa breyst og eru ekki lengur fyrir hendi.

Forsendur fyrir niðurstöðu skýrslunnar frá árinu 2002 voru m.a. nálægð við flugvöllinn, göng fyrir bifreiðaumferð undir Öskjuhlíð og þaðan undir Kópavog sem tengjast átti Reykjanesbrautinni við Smáralind. (Sjá skipulagsupdrátt að neðan) Þá var ein af forsendunum, Hlíðarfótur, sem er vegur sem átti að liggja frá Hringbraut vestur og suðurfyrir Öskjuhlíð og tengjast þar Kringlumýrarbraut.

Engin af þessum samgöngubótum eru lengur á aðalskipulagi og auk þess sem höfundar skipulagsins telja að forsenda fyrir uppbyggingu á Hringbrautarlóðinni sé að flugvöllurinn fari. Þeir segja að spítalinn þá þessum stað óhugsandi ef flugvöllurinn fer ekki. Áður var forsendan að hann yrði kyrr.

Svo var áhersla lögð á að staðsetning vð Hringraut mundi styrkja miðborgina ásamt því að mikilvægt var talið að nálægð væri við HÍ.

Margir telja nú að nálægðin við HÍ sé ofmetin enda eru einungis um 150 manns sem vinna á báðum stöðunum meðan um 5000 munu vinna á spítalanum og öll samskipti með öðrum hætti en á árinu 2002. Miðborgin þurfti á stuðningi að halda fyrir 13 árum en þarf þess ekki lengur. Hún er reyndar orðin svo sterk að fólk með meðallaun og minna hefur vart efni á að búa þar lengur.

Við þetta bætast svo fjölmargir þættir sem tengjast okkar frábæra nýja aðalskipulagi, AR 2010-2030, svo sem  menningarstefnu og  samgöngustefnu sem hafa komið til síðan skýrslan var gefin út í janúar 2002.

Hringbrautarskipulagið er ekki í samræmi við þá heildarmynd sem aðalskipulagið mótar og nú blasir við.

Af þessu má sjá að skýrsluna frá 2002 er ekki hægt að nota sem rökstuðning fyrir staðsetningu spítalans lengur. En menn gera það samt. Ef grannt er skoðað m.t.t. allra breytinganna sem orðið hafa talar hún nú jafnvel gegn staðsetningu spítalans við Hringbraut.

Svo er það greinargerðin frá 2008 sem ekki finnst þó eftir hafi verið formlega leitað. Bæði hjá borginni ráðuneyti, Landspítala ohf og skipulagshöfundum eftir því að mér er sagt. Engin greinargerð frá 2008 finnst þó menn noti hana til þess að færa rök fyrir staðsetningunni við Hringbraut eins og þeir kunni hana utanað (!)

++++

Vissulega hafa verið gerðar ýmsar mótvægisaðgerðir til að mæta þeim breytingum sem hafa orðið síðan skýrslan frá 2002 var kynnt. Þar ber fyrst að nefna samgöngustefnu Landspítalans sem mörkuð er í deiliskipulaginu. Hún er ágæt og henni ber að fagna. Þar er talað um að fá fleiri til þess að ganga og hjóla ásamt því að styrkja almenningsflutninga um Hringbraut. En hafa ber í huga að samgöngukerfið á að fylgja skipulaginu en ekki öfugt. Leiðkerfi Strætó er ekki ráðandi afl í skipulagsvinnunni heldur þjónandi. Skipulagið á ekki að þjóna Strætó, heldur öfugt.

++++

Það gengur ekki að þeir sem að þessu standa líti undan og skjóti skollaeyrum við þeirri heidarmynd sem aðalskipulagið AR2010-2030 markar og þeim staðreyndum sem velviljaðir og lausnamiðaðir gagnrýnendur framkvæmdarinnar setja fram. Fylgjendur uppbyggingar við Hringbraut þurfa að skýra málið betur út fyrir fólki og svara þeirri gagnrýni sem fram hefur komið. Gagnrýni sem studd er af skipulagslegum, arkitektóniskum , menningarlegum og fjárhagslegum rökum. Þetta er lausnamiðaðri gagnrýni til bóta frá fólki sem vill byggja nýjan spítala sem fyrst.

Það gengur ekki lengur að fólk stingi höfðinu í sandinn og svari ekki gagnrýninni með faglegum hætti.

Manni sýnist að fylgjendur noti aðallega tvenn rök fyrir að halda eigi áfram á markaðri leið. Annarsvegar að það sé fyrir löngu búið að ákveða staðsetninguna og hinsvegar að það sé of seint að breyta um stefnu. Við meigum engan tíma missa og verðum að hefja framkvæmdir strax. Þessi rök eru ekki tæk enda búið að nota þau í meira en fimm dýrmæt ár.

Nú virðist forsendur ákvarðarinnar fyrir löngu brostnar og því er haldið fram að opnun sjúkrahússins muni ekki seinka að marki þó farið sé ný hagkvæmari leið. Sagt er að spítali á betri stað verði jafnvel fyrr tekinn í notkun  en Hringbrautarlausnin af margvíslegum ástæðum.

Í samræmi við allt þetta má vissulega spyrja hvort staðsetning þjóðarsjúkrahússins sé í uppnámi.

++++

Það er fróðlegt að lesa skýsluna frá árinu 2002. Hún er bæði vönduð og vel skrifuð.  Skýrsluna má finna hér:

. http://www.nyrlandspitali.is/…/framtidaruppbygging_lsh…

+++++

Á facebooksíðu Samtaka um Betri spítala á betri stað má finna ýmsan fróðleik um skipulagsmál spítalans og afleiðingar staðsetningarnar. Þar er fjallað um málið út frá skipulagslegum forsendum, starfrænum og fjárhagslegum. Flest skrifað með afar hógværum og faglegum hætti.

Sjá einnig : https://www.facebook.com/betrilandspitaliabetristad?fref=nf

+++++

Á myndinni að neðan sjést hvar Ökjuhlíðargöng eru teiknuð inn ásamt göngum undir Þingholtin. Þessi samgönguúrræði eru ekki inn í núgildandi skipulagi en voru forsendur staðarvalsins í skýrslunni frá 2002.

http://midborg.blog.is/img/tncache/400x400/04/midborg/img/adalskipulag_framhlid-2.jpg

Kannanir

Í gær var birt á síðunni „Betri Landspítali á Betri stað“ graf sem sýnir niðurstöðu í fimm könnunum um afstöðu almennings til skipulagsins. Niðurstaðan er sú andstaða almennings við uppbyggingu við Hringbraut fer vaxandi.  Það er samt rétt að vekja athygli á því að ákvörðun á borð við staðsetningu sjúkrahúss á ekki að taka með skoðanakönnunum heldur með fræðilegum og faglegum hætti og í sátt.

Við þessu þarf Landspítali ohf og heilbrigðisyfirvöd að bregðast. Annaðhvort með því að skýra fyrirliggjandi skipulag betur út fyrir almenningi eða að finna betri stað fyrir spítalann. Grafið kemur hér að neðan:

Svo í lokin er hér þriggja ára gömul yfirferð frá RUV um málið þar sem skipulagsmáin eru rædd. Fróðleg uppryfjun:

 

Ný könnun.

Viðbót: 20.05. 2015 kl 12:00

Í Ríkisútvarpinu í morgun var sagt frá nýrri könnun um Landspítalann þar sem niðurstaðan er nokkuð önnur en í þeim könnunum sem tíundaðar eru að ofan. Það er spurt um tvennt. Annarsvegar um hvort fólk sé því fylgjandi að byggður verði nýr spítali og hinsvegar hvort það væri ánægt með staðsetninguna við Hringbraut?

Niðurstaðan um hvort byggja eigi nýtt sjúkrahús kom ekki að óvart. Mikill meirihluti vill það.

Svörin við hinni spurningunni voru nokkuð á aðra lund en fyrri kannsnir. 46.6% Vilja byggja við Hringbraut en 28% eru á móti því.

En það kemur mér á óvart að andstaðan við uppbygginguna við Hringbraut skuli ekki vera meiri. Það er vegna þess að þarna er mikill munur á fyrri könnunum.

Það þarf að greina könnunina og leita skýringar á þessum mismun.

Mér dettur í hug hvort orðalag spurninganna hjá Maskina geti verið hluti af skýringunni en það kemur ekki fram á síðu Maskina sem er afskaplega slæmt. Svo er það önnur skýring sem getur skipt máli og það er að í könnun Maskínu er ekki boðið upp á annan kost. Fólk getur skilið það sem Hringbraut eða ekkert!

Hér koma nánari upplýsingar.

Mikill stuðningur við byggingu nýs Landspítala

Samkvæmt nýrri könnun Maskínu eru um fjórir af hverjum fimm Íslendingum fylgjandi því að nýr Landspítali verði reistur á næstu árum en slétt 6% eru því andvíg

 

 

pie1

 

tafla1

 Tæplega helmingur sáttur við Hringbraut

Tæplega helmingur Íslendinga segist sáttur við að nýr Landspítali verði reistur við Hringbraut, verði hann á annað borð reistur. Talsvert færri (28%) segjast þó vera ósáttir við staðsetninguna við Hringbraut.

 

 

 pie1
tafla2

Viðbót 21.05.2015 kl.: 8.30

Eftir gagnrýni á að spurningarnar voru ekki birtar með úrlitum könnunarinnar hefur fyritækið Maskina sem stóð að könnuninni upplýst orðalag spurninganna tveggja.

„Orðalag spurninganna var eftirfarandi:

Ertu fylgjandi eða andvíg(ur) því að nýr Landspítali verði reistur á næstu árum?

Verði nýr Landspítali reistur, hversu sátt(ur) eða ósátt(ur) ertu við að hann rísi við Hringbraut?“

Flokkar: Óflokkað

Miðvikudagur 13.5.2015 - 05:42 - 9 ummæli

Lítið og fagurt sumarhús

Slice / Saunders Architecture

Þegar meta á gæði byggingalistar skiptir stærðin ekki máli

Litlar byggingar upp á 15-20 fermetra geta verið áhrifameiri en 5.000-15.000 m2 hús.

Lítil hús gefa arkitektinum oftast meira frelsi en þegar hann er að hanna stórbyggingu. Þegar um lítið hús er að ræða er auðveldara fyrir hönnuðinn að gagnrýna verk sitt á hvaða stigi hönnunarinnar sem er og byrja upp á nýtt.

Þegar um stórbyggingu er að ræða er það erfiðara. Til dæmis eftir að verkfræðingar og aðrir hönnuðir eru byrjaðir á sinni vinnu er nánast ekki hægt að endurskoða teikningarnar í grundvallaratriðum. Það þarf allavega þung rök til þess og nokkurn vilja.

Þetta litla hús sem hér er kynnt ber af sér sérstakann þokka. Það er lítið og það fullnægir öllum venjulegum þörfum fyrir svona hús og það rétt tillir sér á landslagið á mjög nærgætinn hátt. Þetta er gestahús sem nýtur stuðnings frá aðalhúsinu en gæti, með smá breytingu, eins verið sjálfstætt og heildstætt sumarhús.

Húsið og veröndin ganga upp í eina óaðskiljanlega heild. Arkitektinn Todd Saunders kalla húsið „sneiðina“ sem er auðskilið. (sbr. kökusneið eða ostsneið)

Húsið er í Noregi og er teiknað af Saunders Architecture og stendur í Haugasundi.

Neðst er grunnmynd og snið.

.
Slice / Saunders Architecture

Slice / Saunders Architecture

Slice / Saunders Architecture

Slice / Saunders Architecture

Slice / Saunders Architecture

 

Flokkar: Óflokkað

Mánudagur 11.5.2015 - 07:57 - 4 ummæli

Hvaðan kemur orðið „hönnun“?

Tryggvi Thayer  hefur skrifað áhugaveðan pistil undir heitinu „Hvaðan kemur orðið „hönnun“‘ sem fylgir hér á eftir.

Tryggvi  er verkfnastjóri Menntamiðju á Menntavísindasviði HÍ auk þess að vera adjunkt í nýsköpunarfræðum og Ph.D kandidat í stefnumótun í menntun við Háskolann í Minnesota.

Pistillinn að neðan er vel skrifaður og sérlega áhugaverður.

++++++

Ólafur var … hagur og sjónhannarr um smíðir allar

frumhonnudirOrðið hönnun er tiltölulega nýtt í íslenskri tungu, sem kemur á óvart því það er eitthvað svo íslenskt við það. Ég er búinn að vera að kanna uppruna þess undanfarið í tengslum við undirbúning erindis sem ég verð með í Minneapolis í næstu viku á þingi íslendingafélaga Norður Ameríku. Ég leitaði víða og hafði samband við ýmsa aðila sem eru fróðari en ég bæði um hönnun og íslenska tungu en fékk frekar óljós svör um óstaðfestar tilvísanir í fornrit, dvergasögur og fleira. Nú í morgun höfum við hjónin (Hlín er safnafræðingur þannig að hún hefur ekki síður áhuga á þessu) verið að skoða þetta og teljum okkur vera nokkurn veginn búin að rekja þessa áhugaverða sögu um tilurð orðsins hönnun.

Fyrsta dæmið um orðið hönnun sem ég finn á prenti er í Þjóðviljanum 23. október, 1957 þar sem sagt er frá nýútkomnu 4. tbl. Iðnaðarmáls. Meðal greina er ein sem ber titilinn Vöruval og hönnun (af enska orðinu design). Það að tekið er fram að orðið sé þýðing á enska orðinu design gefur til kynna að hér sé um nýyrði að ræða. Seinna er orðið hönnun notað víða í alfræðibókum AB útgáfunnar sem komu út snemma og um miðjan 7da áratuginn. Á 8da áratugnum er orðið komið í almenna notkun og í þeirri merkingu sem það hefur í dag.

Þetta er allt mjög fróðlegt en segir mér ekkert um orðsifjarnar sem ég var sérstaklega forvitinn um. Ég spurði móður mína út í orðið (hún er fædd 1939). Hún sagði, „Þegar við töluðum um hönnun þá vorum við alltaf að tala um eitthvað danskt.” En íslenska orðið hönnun á ekkert skylt við dönsku orðin design eða formgivning, sem Snara.is segir mér að sé rétt þýðing á orðinu. Þetta sagði mér því ekki neitt.

Ég hafði samband við Íslenska málstöð. Þau gátu ekki sagt mér meira en ég vissi þegar um hvenær orðið birtist fyrst á prenti.

Fólk á Hönnunarsafninu hélt því fram að orðið væri skylt hannarr sem hafði birst í einhverju íslensku fornriti, en hafði annars ekki miklu við að bæta.

Ég fór þá að kanna þessa tengingu við fornritin og leitaði hátt og látt að orðinu hannarr. Hér er það sem ég fann.

Vestur-Íslendingurinn Páll Bjarnason skrifaði grein í Tímarit Þjóðræknisfélags Íslendinga 1929 þar sem hann gagnrýnir ýmsar rangfærslur í orðakveri sem Finnur Jónsson, prófessor, hafði ritað (sjá áhugaverða umfjöllun um Pál hér). Þar leiðréttir hann m.a. eftirfarandi fullyrðingu Finns um orðið hannyrðir (sjá bls. 92):
„hannyrðir, líklegt er að hann sé stofn orðsins hannarr um menn, er voru listamenn (-konur) til vinnu”
Páll bendir á að orðið hannarr er lýsingarorð en ekki nafnorð eins og Finnur heldur fram. Af lýsingarorðinu er myndað nafnorðið hannerð. Þetta ummyndast svo í orðið sem við þekkjum í dag, hannyrð.

Í fylgiriti með Árbók Háskóla Íslands 1922-23 er texti Völuspár birtur eins og hann er í Konungsbók. Með fylgja skýringar og segir um 11. vísu:
„Hanarr = hannarr, hagur (smbr. sjónhannarr, hannerð, hannyrð), bendir til smíðaíþróttar dverga”

Í Heimskringu segir m.a. um Ólaf Haraldsson Noregskonung:
„Ólafur var … hagur og sjónhannarr um smíðir allar, hvort sem hann gerði eða aðrir menn.”

Og þetta virðist vera elsta íslenska heimildin í þessari sögu um tilurð orðsins hönnun ef frá eru taldar sögur um dverga, dvergleikni, og dverganöfn sem orðið er endanlega rakið til (sbr. dverganafnið Hanarr).

Þarna er þetta þá komið. Orðið hönnun kemur af lýsingarorðinu hannar(r), sem merkir sá sem er duglegur eða listfengur. Þetta er nokkuð áhugavert því þarna virðist vera að áður en orðið hönnun verður til er ekkert orð á íslensku yfir þetta ferli sem hönnun er skv. okkar skilningi í dag. Góð hönnun var því ekki ferli sem við gátum lýst en þú þekktir hana þegar þú sást hana, þ.e. ef þú varst nægilega sjónhannarr.

++++++

Rannsóknarsvið Tryggva snýr aðallega að framtíð menntunar í ljósi tækniþróunar. Í tengslum við það hefur hann notað hönnunarnálgun (e. design thinking) með aðferðum framtíðarfræða til að hvetja skólastjórnendur, kennara og stefnumótendur til að hugsa á skapandi hátt um mögulegar framtíðir í menntun (sjá t.d. https://www.idunn.no/dk/2014/02/constructing_optimal_futuresfor_education_-_technology_for).

 

p

Flokkar: Óflokkað

Miðvikudagur 6.5.2015 - 12:09 - 15 ummæli

Gömlum verðmætum tortímt

 photo11

Ég kom inn á nýinnréttað veitingahús í miðborg Reykjavíkur nýlega. Veggklæðning vakti athygli mína en hún er sennilega  í samræmi við tíðarandann.

Hönnuðurinn hafði valið að taka einar 10 ágætar gamlar spjaldhurðir (fulningshurðir) og saga þær niður og setja upp í eitthvað gjörsamlega óskiljanlegt munstur og skrúfa þær fastar á einn vegginn.

Í mínum huga er þetta ekkert annað en gróft skemmdarverk á gömlu handverki. Mér var hugsað til gömlu mannanna fyrir um hundrað árum, eða kannski 150 árum, sem með sín frumstæðu handverkfæri stunduðu iðju sína af vandvirkni og fagmennsku.

Og svo eru það lamirnar, hurðahúnarnir og rósetturnar umhverfis skráargötin. Allt gersemi í augum þeirra sem sjá og skilja svonalagað.

Svo er þetta allt skemmt af fullkomnu virðingar- og tilgangsleysi.

Mér var líka hugsað til allra gömlu húsanna sem nú er verið að endurnýja um allt land, og eyðibýlanna sem verið er að gefa nýtt líf.  Þar eru hurðir af þessari gerð eiginlega forsenda þess að vel takist til.

Svo koma menn sem handfjatla þessi verðmæti á svipaðan hátt og ISIS gera með fornminjar austur í löndum, og tortíma þeim. Allt siðað fólk er forviða yfir framgöngu ISIS manna og hneykslast. Sitja kannski með einn kaldann undir þessum vegg og hneykslast á ISIS og framferði þeirra og  virðingaleysi þeirra fyrir fortíðinni.

En þetta sér maður víða í smáu og stóru, því miður.

Að neðan og efst eru myndir af sundursöguðum hurðunum.

+++++

Til gamans vek ég athygli á skólaverkefni Aldísar Gísladóttuir sem lærði á Arkitektaskólanum í Kaupmannahöfn. Verkefnið er endurreisn eyðibýlis á Íslandi.  Deildin fyrir endurbyggingu eldri húsa er nú um stundir sú vinsælasta á arkitektaskólanum í Kaupmannahöfn að því mér er tjáð.

Í greinargerð Aldísar stendur m.a. „Hvis de islandske gårde ikke skal forsvinde må vi gribe ind og finde en metode til at bevare kulturarven før det bliver for sent og der kun står ruiner tilbage af det liv som en gang var“

Slóðin að verkefni Aldísar er þessi:

http://studark.dk/?p=9568#more-9568

 

 

 

 

photo22

 

photo33

 

Flokkar: Óflokkað

Laugardagur 2.5.2015 - 08:45 - 2 ummæli

Páll Skúlason um gagnrýni

Af gefnu tilefni langar mig til þess að vitna í bókina „Pælingar“ eftir vin minn Pál Skúlason heimspeking (1945-2015)  þar sem hann veltir fyrir sér spurningunni um hvort hægt sé að kenna gagnrýna hugsun? Hann segir á einum stað:

Frá sjónarhóli vísinda og fræða skiptir svarið við spurningunni sköpum vegna þess að skipuleg þekkingar og skilningsleit er óhugsandi án gagnrýnnar hugsunar.  Ef menn væru ekki sífellt að gagnrýna kenningar, aðferðir og vinnubrögð í vísindum mundu vísindin staðna og smám saman verða úr sögunni.  Framfarir eru undir því komnar að menn efist um gildi ríkjandi kenninga,  reyni að finna á þeim veika bletti.  Þetta virðist raunar vera eitt helsta skilyrðið fyrir framförum á hvaða sviði sem vera skal:  að litið sé gagnrýnum augum á þau vinnubrögð sem tíðkast og reynt að finna önnur betri;  að reynt sé að finna galla á verki  –  hvert sem það er – til að unnt sé að gera betur.

Og síðar skrifar Páll í umræddum  bókarkafla:

Hagnýtt gildi hugmynda og skoðana er svo augljóst að raunar er ástæðulaust að eyða orðum að því.  Þó er eins og margir sjái það ekki og vanræki gersamlega að hirða um skoðanir sínar og hugmyndir, rétt eins og þeir haldi að þær geti gengið sjálfala og þurfi engrar aðhlynningar við.  Því miður er fátt eins fjarri sanni.  Hugsanir eru meðal viðkvæmustu vera í þessum heimi og þær lifa einungis og dafna í þeim sem lætur sér annt um þær.

Í dægurmálaumræðunni þyrfti fólk  að hafa þessi orð Páls Skúlasonar í huga og átta sig á að ef vel er á haldið eru það hugmyndir og hugsanir sem takast á og fleyta okkur áfram, ekki einstaklingar eða hópar.

Fólk þarf líka að átta sig á að gagnrýnendur hugmynda sem maður aðhyllist eru ekki andstæðingar,  heldur samstarfsmenn í leitinni að  þeirri slóð sem heppilegast er að feta.

Blessuð sé minning Páls Skúlasonar.

Flokkar: Óflokkað

Höfundur

Hilmar Þór Björnsson arkitekt
Tilgangur síðunnar er að kynna arkitektúr, skipulag og staðarprýði ásamt því að stuðla að umræðu um efnið. Það sem fram kemur ber ekki að skilja sem skoðun höfundar heldur hugleiðingu sem sett er fram í þeim tilgangi að vekja lesendur til umhugsunar og skoðanaskipta. Tekið er á móti aðsendum greinum þegar það á við, sem þá eru á ábyrgð höfundar aðsends efnis.
Athugasemdir við færslur eru velkomnar. Þeir sem vilja koma skilaboðum til ábyrgðarmanns beint er bent á netfangið hilmarstofunni@gmail.com
RSS straumur: RSS straumur

Færslusafn