Mánudagur 27.4.2015 - 11:12 - 9 ummæli

„Betri spítali á betri stað“

Nú er búið að stofna Facebooksíðuna „Samtök um betri spítala á betri stað“ sem kallar eftir opinni fordómalusri umræðu um fyrirhugaðar framkvæmdir við nýtt sjúkrahús.

Þetta virðist vera framsýnn, faglegur og lausnamiðaður hópur sem tekur á hlutum sem enginn einstaklingur hefur haft tök á að gera með sama hætti áður.  Samkvæmt kynningunni er það þverfaglegur hópur sérfræðinga sem að síðunni standa. Þau hafa að markmiði að byggður verði spítali sem er ódýrari í byggingu og rekstri og að sjúkrahúsið verði betra en það getur orðið við Hringbraut, að hugsað sé til lengri framtíðar, öllum til heilla.

Hópurinn hefur m.a.  skoðað fjárhagshliðina og komist að því að það er hagstæðara að byggja skjúkrahúsiðá nýjum stað  austar í borginni og nær þungamiðju búsetunnar.  Þetta á bæði við um stofnkostnað og rekstur þar sem sparnaðurinn skiptir milljörðum að sögn. 

Þetta virðist vera í fyrsta sinn sem svona samanburður er gerður og hann birtur.

Á síðunni tekið á mörgum málum og framkvæmdin skoðuð frá mörgum sjónarhornum sem ekki hafa verið reifuð með sama hætti áður.

Slóðin er þessihttps://www.facebook.com/betrilandspitaliabetristad?fref=nf

Allar færslur „Samtaka um betri spítala á betri stað“  enda á orðunum: Taktu þátt í umræðunni. Láttu í ljós skoðun þína á þessari færslu, sem er vísbending um opna fordómalausa nálgun teymisins og ósk um skoðanaskipti.

Ég leyfi mér að birta hér tvær fésbókarfærslur trymisins. Sú fyrri er fjárhagslegursamanburður  og sá síðari fjallar um Aðalskipulag Reykjavíkur .:

 

-Fjárhagslegur samanburður eftir staðsetningu.

Þeir staðir sem bornir hafa verið saman eru Hringbraut, Fossvogur og það sem við köllum „Besti staður“ sem er staður nálægt þungamiðju búsetu höfuðborgarsvæðisins, sem liggur vel við tengibrautum umferðar. Þetta er staðurinn sem flestir eiga styst að fara á. Þennan stað á eftir að finna, það er á verksviði þeirra sem sjá um bogarskipulagið og byggingu Landspítalans.

Við miðum við að heildar byggingarmagn sem verður til ráðstöfunar á þessum þremur stöðum verði sambærilegt, annað hvort uppgert gamalt húsnæði eins og á Hringbraut og að hluta til í Fossvogi eða allt byggt nýtt frá grunni eins og á „Besta stað“. Heildar fermetrar f.u. bílastæðahús sem fyrirhugaðir eru á Hringbraut eru 153.987 og það þarf lítillega minna í Fossvogi og á Besta stað því minna er af tengibyggingum, brúm og þess háttar á þeim stöðum en á Hringbraut þar sem spítalinn yrði í rúmlega 20 húsum.

Byggingarkostnaðurinn lítur svona út með bílastæðahúsum:
Hringbraut 53,8 milljarðar króna (skv. lögum)
Fossvogur 59,1 milljarðar króna
Besti …….. 51,9 milljarðar króna

Ef tekið er tillit til fyrirsjáanlegra umferðarmannvirkja sem þarf að reisa þegar umferðaræðar springa vegna stóraukinnar umferðar er dæmið svona:
Hringbraut 74 milljarðar króna
Fossvogur 69 milljarðar króna
Besti …….. 57 milljarðar króna

Samkvæmt þessu er hagstæðast að byggja frá grunni á „Besta stað“ þó ekki sé fyrir hendi gamalt húsnæði sem má nýta eins og á hinum stöðunum. Ástæðan er m.a. að: það kostar líka að endurgera húsnæði; það er hagstætt að byggja frá grunni þar sem nóg rými er fyrir hendi o.fl. og; söluverðmæti eigna á Hringbraut og í Fossvogi er verulegt.

Þetta er fyrir utan þann stóra hag sem er af því að hafa spítalann á stað þar sem flestir eiga sem styst á hann. Þegar það er tekið með í reikninginn verður munurinn á „Besta stað“ og hinum verulega sláandi eða um 7 milljarðar króna á ári „Besta“ í vil.

Við sem þjóð höfum ekki efni á að missa af þeim hag, sérstaklega þegar þess er gætt að í neyðartilvikum eru batahorfur betri þegar stutt er á spítalann. Það munu um 100 sjúkrabílar koma að meðaltali á sólarhring að nýja spítalanum. Eins gott að stutt sé á hann.

Meira um þetta síðar.

> Taktu þátt í umræðunni. Láttu í ljós skoðun þína á þessari færslu.

Landspítalinn og Aðalskipulag Reykjavíkur

Ef staðsetja á spítalann í samræmi við markmið Aðalskipulags Reykjavíkur 2010-2030 ( AR 2010-2030) ætti að finna honum stað sem stuðlar að styttri ferðatíma, minni umferð, minni mengun og minni þörf fyrir ný umferðamannvirki.

Þetta er best gert með því að færa þennan mannfrekasta vinnustað landsins austar í borgina, nær þungamiðju búsetu. Þannig má minnka umferðartafir, stytta ferðatíma og nýta betur umferðamannvirki sem fyrir eru.

– Takmarkanir vegna kröfu um aðlögun að gömlum byggingum

Eitt markmið aðalskipulagsins lýtur að því að ný byggð aðlagist þeirri sem fyrir er í samræmi við menningarstefnu hins opinbera í mannvirkjagerð. Þess utan er ákvæði í skipulaginu um að hús innan gömlu Hringbrautar verði ekki hærri en sem nemur 5 hæðum.

Erfitt er að samræma þetta mikla mannvirki þeim gömlu byggingum sem fyrir er og hæð sjúkrahússins er talin þurfa að vera mun meiri. Til að mynda er meðferðarkjarninn samkvæmt deiliskipulagi á pari við rúmlega 8 hæða íbúðarhús.

Meira um þetta síðar.

> Taktu þátt í umræðunni. Láttu í ljós skoðun þína á þessari færslu.

Sjá einnig : https://www.facebook.com/betrilandspitaliabetristad?fref=nf

Flokkar: Óflokkað

Mánudagur 20.4.2015 - 11:21 - 9 ummæli

Gamlar hetjur byggingalistarinnar

Mér var bent á síðu þar sem er að finna frábærar ljósmyndir af þeim arkitektum sem höfðu mest áhrif á byggingalistina á síðustu öld. Ég leyfi mér að birta þær hér. Ég veit ekki hver höfundarnir eru en myndirnar eru fengnar af síðu David Pascular Cesar.

Þetta voru allt gríðarlega sterkir arkitektar sem breyttu byggingalstinnu um allan heim. Þetta voru hetjur vegna þess að þeir voru á sama tíma frábærir fræðimenn og einstaklega sterkir hönnuðir. Þess utan voru þeir sterkar og ábersndi persónur. Það gustað af þeim hvar sem þeir gengu.

Í því sambandi má nefna að sagt var að Frank Lloyd Wright hafi haft svo mikla áru eða persónutöfra að kristalljóskrónurnar í lofti andyris Waldorf Astoria hotelsins á Lexington Avenue í NY hafi glamrað í hvert sinn sem hann gekk þar hjá.

Efst er fræg ljósmynd af Mies van der Rohe (1886-1969)

 

Frank Lloyd Wright (1867-1959) http://blog.dv.is/arkitektur/2012/09/19/chicago-that-is-wright-all-right/

 

I.M. Pei  (1917-), sem er langyngstur þeirra sem hér eru nefndi,r við meistarastykki sitt, aðalinnganginn í Louvre í París.

http://www.archdaily.com/tag/i-m-pei/

Frank Lloyd Wright sem dó 9. apríl 1959, aðeins hálfu ári áður en Guggenheim í NY var opnað almenningi. Þarna stendur hann á svölum (?) safnsins. Hönnun og bygging safnsins tók 16 ár  frá 1943 til 1959.

Braziliski arkitektinn Oscar Niemeyer  (6. f.v.)og Le Corbusiere (2.f.v.) í hóp snillinga vegna byggingar aðalstöðva Sameinuðu Þjóðanna í NY.

Í  United Nations Board of Design voru alþjóðlegur hópur arkitekta: Wallace K. Harrison (USA) – Director of Planning, N. D. Bassov (Rússland),  Gaston Brunfaut (Belgiu),  Ernest Cormier (Canada),  Le Corbusier (Frakklandi),  Liang Seu-cheng (Kína),  Sven Markelius (Svíþjóð),  Oscar Niemeyer (Brasilíu),  Howard Robertson (Englandi), G. A. Soilleux (Ástralíu),
and Julio Vilamajó (Uruguay).

Sagt var að Le Corbusiere hefði stundað myndlist fyrir hádegið og byggingalist eftir hádegið, eða öfugt. Allavega er það nokkurn vegin verklag sem flestir arkitektar gætu sætt sig við.

Oscar Niemeyer hafði gaman af konum og lifði nokkuð á aðra öld. Hann dó fyrir rúmum tveim árum og var oft kallaður „síðasti modernistinn“

http://blog.dv.is/arkitektur/2009/10/07/oscar-niemeyer-bratt-102-ara/

og

http://blog.dv.is/arkitektur/2011/12/14/ocar-niemeyer-104-ara-the-last-modernist/

Philip Johnson(1906-2005) fyrir framan  Glass House.

http://www.architecturaldigest.com/architecture/2012-09/architect-philip-johnson-glass-house-modernism-article

Mies http://blog.dv.is/arkitektur/2009/12/09/mies-van-der-rohe/

og

http://blog.dv.is/arkitektur/2011/02/28/mies-is-more-innretting-ibuda/

Louis Isadore Kahn (1901-1974) http://blog.dv.is/arkitektur/2013/02/25/louis-i-kahn-og-songvar-vidisins/

 

Flokkar: Óflokkað

Sunnudagur 12.4.2015 - 16:21 - 19 ummæli

Spítalinn Okkar.

Landspítalinn og bætt húsnæðismál hans njóta mikils stuðnings frá öllum almenningi.

Stjórnmálamönnum er umhugað um að bæta ástandið. Læknar og starfsfólk er á einu máli um nauðsyn þess að verkefnið fari af stað sem allra fyrst.  Sama má segja um arkitekta og skipulagsræðinga. Allir eru á einu máli um að það þurfi að hefjast handa um lausn málsins eins fljótt og auðið er.

Í þessu ljósi spyr maður af hverju uppbyggingin sé ekki fyrir löngu hafin og verkefninu lokið?

Það læðist að manni sá grunur að helstu fyrirstöðuna sé að finna í því að ekkert hefur verið endirskoðað frá því um aldamót. Það kemur fram deiliskipulaginu sjálfu og þeim áætlunum sem því fylgja.

Það hefur svo mikið breyst á síðustu 15 árum að það sendur varla steinn yfir steini. Það er ekki sátt um málið.

Nýjum Landspítala ohf hefur ekki tekist að selja fóki staðsetninguna, hugmyndina og deiliskipulagið eða ekki tekist að aðlaga  hugmyndirnar að breyttum aðstæðum. Stjórnmálamenn eru hikandi og forðast ákvarðanatöku á fyrirligjandi grunni. Skoðanakannanir sýna að læknar vilja ekki þessar áætlanir og allur almenningur er að mestu á móti hugmyndunum.

Deiliskipulagið stenst ekki Menningarstefnu hins opinbera í mannvirkjagerð og er á skjön við nýtt aðalskipulag Reykjavíkur á margan hátt og stenst varla samgöngumarkmið aðalskipulagsins.

Talsmenn spítalans segja að ákvarðirnar hafi verið teknar fyrir löngu og þeim verði ekki breytt.

Hinir sem eru í vafa segja einmitt að ástæða sé til þess að endurkoða staðsetninguna og umsvifin vegna þess að það sé svo langt síðan að ákvörðunin var tekin og allt hafi breyst!

Frá því að umdeilanlegt staðarval fór endanlega fram árið 2002 hefur allt breyst. Ákvörðunin var tekin í byrjun góðærisins. Peningarnir sem ætlaðir voru til verksins eru ekki lengur fyrir hendi. Landverð og mat á landkostum hefur breyst. Yfir okkur hefur gengið efnahagshrun. Reykjavíkurborg hefur fengið nýtt frábært aðalskipulag og margt fleira.

Fyrir fimm árum var talið of seint að endurskoða staðsetninguna eða umsvif verkefnisins. Enn í dag eru helstu rökin fyrir því að ekki megi  breyta núverandi áætlunum einmitt að það sé of seint og að ákvörðunin löngu tekin.

Gagnrýni á deiliskipulagið ætti að vera fagnaðarefni fyrir aðstandendur deiliskipulagsins vegna þess að þeim gefst þar tækifæri til þess að rökstyðja áætlanirnar betur, selja hugmyndina. Það vilja allir veg spítalans sem mestan og greiða götu hans til farsældar. Við eigum að tala saman viðurkenna breyttar forsendur og breyta afstöðunni ef tilefni er til. Ekki stinga höfðinu í sandinn. Ná sáttum.

++++++

Ég vek athygli á því að nýjasta innlegg á hemasíðu aðstandenda spítalans  http://nyrlandspitali.is/nyrlandspitali/islenska/forsida/  er frá 21. ágúst 2013 sem segir sína sögu. Síðan virðist hafa fengið snökkt ótímabært andlát fyrir bráðum tveim árum og getur því ekki tekið þátt í þeirri blómlegu umnræðu sem nú á sér stað. Eða vill kannski  ekki eiga samtal við fólk sem ber hag spítalans fyrir fyrir brjósti.

Hönnunarteymið, Spítalhópurinn, heldur ekki úti heimasíðu svo ég hafi orðið var við.

Hinsvegar er önnur síða sem er lifandi og ágæt. En það er síðan http://www.spitalinnokkar.is/is Ég ráðlegg fólki að skoða hana. Það er samt einkennandi fyrir báðar þessar síður að þær eru ekki gagnvirkar eins og er tilfinnanlegt undir liðnum „spurt og svarað“ sem má sjá hér: http://www.spitalinnokkar.is/is/spurt-og-svarad

Samtal um þessa fram,kvæmd er nánast án þáttöku aðstandenda spítalaframkvæmdarinnar.

+++++

Við eigum að fagna því þegar einhver gerir tilraun til þess að opna hurðir eða opna nýja glugga sem varpa nýju ljósi á málið. Taka til málefnalegrar umfjöllunar hugmyndir á borð við þær sem Magnús Skúlason arkitekt og Páll Torfi Önundarson professor lögðu fram fyrir mörgum árum og nýlegri ábendingu forsætisráðherra um aðra staðsetningu. Eða finna spítalanum annan stað. http://blog.dv.is/arkitektur/2013/02/24/husnaedisvandi-landspitalans-onnur-nalgun/ Svo má ekki gleyma fróðlegri síðu sem heitir Hin Hliðin þar sem safnað hefur verið saman ýmsum gögnum sem varða málið: http://nyrlandspitali.com/

+++++

Brjótum odd af oflætinu. Viðurkennum forsendubrestinn og breytingarnar frá árinu 2002, ræðum málið og endurskoðum áætlanirnar í ljósi breyttra aðstæðna ef þörf er á.

Að því loknu verður hægt að hefja framkvæmdir í sátt. Töfin er í hæsta lagi 2-4 ár. Í millitíðini leikum við biðleik í anda hugmynda Páls Torfa prófgessors og Magnúsar Skúlasonar arkitekts.

Þetta verður langstærsta opibera framkvæmd íslandssögunnar. Samkvæmt kostnaðaráætlun frá okt. 2012 mun aðeins 1. áfangi kosta um 85 milljarða króna að mér er sagt. Nauðsynlegt er að þetta mikla mál sé í stöðugri skoðun frá mörgum áttum.

+++++

Að neðan er að lokum mynd fengin af síðu Ágústar H. Bjarnasonar verkfræðings sem sýnir samhengi lóðanna sem Sigmundur Davíð Gunnlaugsson hefur vakið athygli á  og heyra undir RUV og Borgarspítalann.

+++++

Hér er fjallað um útvarpsviðtal vegna málsins sem sent var út í liðinni viku: http://eyjan.pressan.is/frettir/2015/04/08/likir-nyjum-spitala-a-hringbraut-vid-sko-oskubusku-foturinn-kemst-bara-ekki-i-skoinn/#.VSVelg1gk40.facebook

ruv-landspitali-001

Flokkar: Óflokkað

Föstudagur 10.4.2015 - 08:12 - 9 ummæli

Sól í Skugga

Völundur9

Ég hef stundum fjallað um skipulag í Skuggahverfinu og tekið sem dæmi um skipulagsmistök.

Vegna færslunnar „Veruleiki í kjölfar skipulagsferils“ hafa nokkrir haft samband við mig og ég hitt á götu, bæði aðliar sem hafa staðið að uppbyggingunni. Ég varð þess áskynja að þeim nánast sárnaði umfjöllun mín um hverfið. Íbúar á svæðinu sendu mér hjálagðar ljósmyndir og heimiluðu birtingu þeirra.

Ég vil taka það fram að ég vil síst af öllu valda fólki óþægindum eða hugarangri þegar ég fjalla um arkitektúr og skipulag. En það er þannig að ef maður fjallar um þessi mál af heiðarleika og segir það sem manni finnst þá getur  farið svo að umfjöllunin verði neikvæð hvað enstök atriði varða.

En það má ekki draga þá ályktun að allt sé ómögulegt og ekki við bjargandi. Þvert á móti. Því er nefnilega þannig háttað að allir eru að gera sitt besta þó árangurinn verði sjaldnast gallalaus.

En öll hverfin og öll verkin hafa líka sína kosti. Það á vissulega líka við um Skuggahverfið.

Kunningi minn sem ég hitti á götu sagði að í opinberri umræðu um skipulagið í Skuggahverfinu sé sjaldan eða aldrei rætt um konseptið á bak við 101 Skugga og þau arkitektónisku gæði sem óneitanlega má finna þar. Hann nefndi skipulag íbúða, fjölda íbuða pr. hæð, þriggja hliða íbúðir, notkun útskotsglugga til að fanga útsýni, veðurfar við innganga sem var skoðað sérstaklega o.s.frv.

Hann nefndi einnig að niðurrif hafi ekki verið mikið þar sem 101 Skuggi stendur. Sannleikurinn sé sá að engar byggingar hafi verið  rifnar vegna uppbyggingar verkefnisins 101 Skuggi. Stærsti hluti svæðisins (2. og 3. áfangi) sem verkefnið tekur til var geymsluport Eimskips (Lindargata, Vatnsstígur, Skúlagata, Frakkastígur), 1.  áfangi var reistur þar sem Kveldúlfshúsin stóðu áður en þau voru rifin í tengslum við fyrirhugaða hótelbyggingu Eimskipgs 1985, 16 árum áður en verkefnið 101 Skuggi fór af stað.(!)

Þetta breytir samt ekki því mati mínu að þetta hefði í heildina geta verið mun betra. Einn af göllunum sem eru að koma í ljós er húsið sem stendur við Frakkastíginn út í götuna og rýrir mikilvæga sjónlínu. Í fyrsta deiliskipulaginu frá um 1985 voru hæstu byggingarnar á miðjum reitunum og þær lægstu við göturnar sem liggja niður að sjó einmitt vegna sjónlínanna. (Vitastíg, Vatnsstíg, Frakkastíg og Klapparstíg).

En eins og sjá má á myndunum sem fylgja færslunni þá eru mörg góð smáatriði í byggðinni og ber þar sérstaklega að vekja athygli á görðunum milli húsanna sem eru sérstaklega aðlaðandi og mörg sólrík.

Arkitektar hvítu húsanna eru teiknuð af arkitektunum Dagnúju Helgadóttur og Guðna Pálssyni inn í upphaflegt deiliskipulag Skuggahverfisins sen nær frá Kalkofnsvegi austur að Snorrabraut. Landslagsarkitekt var Ragnhildur Skarphéðinsdóttir hjá Hornsteinum. Húsin í 101 Skugga eru teiknuð af Hornsteinum og dönsku arkitektunum Schmidt Hammer & Lassen.

Völundur1

Völundur2

Völundur3

 

Völundur4

Völundur8

 

 

Flokkar: Óflokkað

Mánudagur 6.4.2015 - 20:56 - 11 ummæli

Veruleiki í kjölfar skipulagsferils

11026132_10205308837994785_6538140549001585387_n

Að ofan er ljósmynd af götu í nýskipulögðu hverfi í miðborg Reykjavíkur.

Að skipulaginu hafa eflaust komið hinir færustu sérfræðingar á sviðinu. Skipulagið hefur farið um hendur embættismanna og stjórnmálamanna. Ráðgjafar á sviði skipulagsmála hafa lagt þetta til og færir arkitektar hafa að lokum hannað húsin inn í deiliskipulagið.

Skipulagið hefur farið í gegnum kynningarferli og gera verður ráð fyrir að þetta sé sú niðurstaða sem menn stefndu að.

Það verður að taka fram að upphaflegu skipulagi var breytt að ósk lóðarhafa ef ég skil rétt. Við þá breytingu varð til svokallað „verktakaskipulag“ þar sem lóðarhafi hafði forræði á deiliskipulaginu og auðvitað hönnun húsanna.

Á þessu svæði var áður falleg timburhúsabyggð í bland við annað eins og vandaðar iðnaðarbyggingar Kveldúlfs og Völundar.

Ljósmyndina birti ég með leyfi Finnboga Helgasonar tannsmiðs. Hann birti hana á Facebook síðu sinni rétt áðan.

Flokkar: Óflokkað

Föstudagur 27.3.2015 - 15:06 - 18 ummæli

Þjóðarsjúkrahúsið – staðarval

 

 

Ég verð að segja að ég átta mig ekkert á allri umræðunni um heilbrigðismál hér á landi nú um stundir.  Annars vegar virðast ekki til peningar til þess að reka núverandi heilbrigðisþjónustu, hvorki til þess að  kaupa nútíma tækjabúnað, halda núverndi tækjakosti við né halda sjálfum byggingunum við.  Og hinsvegar er verið að ræða um að byggja risavaxið nýtt sjúkrahús ofaní því gamla með öllum þeim óþægindum sem því fylgja. Óþægindum vegna staðarvalsins og borgarlandslagsins og ekki síður vegna samfléttingar þess nýja við hið gamla og vegna sjálfrar framkvæmdarinnar.

Það er öllum ljóst að miklar efasemdir eru um staðsetninguna og framkæmdina í heild sinni. Og nú hefur verið sagt frá því að læknar eru einnig fullir efasemda um fyrirætlanirnar.

Svo á hinn bóginn eru einhverjir, án andlits, sem vilja byggja á þriðja hundrað þúsund fermetra nýbygginga við Hringbraut fyrir peninga sem ekki eru til.

Þetta er ótrúleg staða. Þó manni virðist málið dautt vegna allrar óvissunnar og óánægjunnar þá er eins og verkefnið lifi sjálfstæðu lífi í einhverskonar gjörgæslu. Menn eru tregir til þess að skipta um skoðun. Hanga á 30 eða jafnvel 90 ára hugmyndum.

Staðan er líka ótrúleg vegna þess að þeir andlitslausu virðast staddir í sýndarveruleika áranna fyrir hrun og virðast styðjast við hið séríslenska lögmál “ Þetta reddast örugglega einhvernveginn“. Þeim hefur ekki tekist að sannfæra fólk um ágæti hugmyndanna og þar er einmitt megin vandinn. Fól hefur almennt ekki keyp hugmyndina eða deiliskipulagið.

Ég hitti engan sem er andsnúinn því að byggt verði fyrirmyndarsjúkrahús á höfuðborgarsvæðinu. Allir styðja við góða heilbrigðisþjónusu sem rekin verði við bestu aðstæður. Ég hitti ekki  marga sem styðja uppbyggingu við Hringbraut, en ég hitti aldrei neinn sem styður núverandi áætlanir og deiliskipulag sem þeim fylgja.

Hitt er að þær hugmyndir sem eru uppi á borðum  standast eiginlega ekki. Þær standast varla nýtt aðalskipulag Reykjavíkur, þær standast varla Menningarstefnu hins opinbera í mannvirkjagerð, þær eru í andstöðu við vilja lækna og almenningur vill þetta ekki. Umferðamálin eru í óvissu að margra mati.  Þær eru ekki i samræmi við núverandi brýna þörf þjóðarinnar í heilbrigðismálum og þær samræmast ekki núverandi efnaahgsástandi þjóðarinnar.

Ég minni á að deiliskipulagið við Hringbraut gerir ráð fyrir um 260 þúsund fermetrum á 13,9 hekturum sem gefur nýtingarhlutfall uppa 2.11 sem er gríðarlega mikið.

++++++

En að efninu.

Ég fékk sendar upplýsingar frá Danmörku fyrir nokkru um spítala á vestur Jótlandi sem verið er að hefja framkvæmdir við.

Þar eru aðrar áherslur. Byggingunum er valin staður þar sem rúmt er um þær og tækifæri til framþróun og stækkun spítalans um marga áratugi fram í tímann. Nýtingarhlutfall er 0,36 eða 1/6  af því sem menn eru að tala um við Hringbraut.

Meginsjónarmiðið er að mæta sjúklingunum og þörfum þeirra. Punktur.

Þar er ekki áherslan á að mæta þörfum háskólasamfélagsins eða hugsanlega búsetu þeirra sem þar starfa um þessar mundir.

Áhersla virðist vera lögð á þjónustu við sjúklinginn og að skapa honum umhverfi í góðum tengslum við náttúruna, góðar samgöngur við það bakland sem sjúkrahúsið á að þjóna.

Og góða vaxtarmöguleika.

Spítalanum er ætlað að þjóna 285 þúsund manns sem er aðeins færra fólk en íslenska þjóðin. Sjálft sjúkrahúsið er áætlað að verði 138 þúsund fermetrar auk 15 þúsund fermetra geðdeild. Áætlað er að byggingarnar kosti milli 480 þúsund til 570 þúsund kr fermeterinn miðað við verðlag í Danmörku árið 2009

+++++

Það hefur margoft verið bent á  að í stað þess að fara af stað með þá ofvöxnu uppbyggingu á Landspítalalóðinni sem fyrirhuguð er ætti frekar að horfa til annarra kosta sem hugsanlega henta betur.  Þegar ég segi ofvöxnu þá er ég ekki einungis með borgarlandslagið í huga heldur sjúkrahúsið í heild sinni og þann bráðavanda sem við stöndum nú frammi fyrir. Eigum við ekki að hugsa til skemmri tíma, svona 20-30 ára. Þetta hafa þeir Páll Torfi Önundarson læknir og prófessor og Magnús Skúlason arkitekt bent á.

Dönsku ráðgjafarnir Ementor unnu að þróunaráætlun vegna starfsemi spítalans til næstu 20 ára. Þeirra helsta niðurstaða var að aukin áhersla verði á dag- og göngudeildarstarfsemi og sjúkrahótel. Þá segja ráðgjafarnir að spítalinn búi við húsnæðisskort og þurfi að hafa 120.000 m2 húsnæði á árinu 2020.

Nú eru um 73.600  fermetrar húsnæðis á Landspítalalóðinni, þannig að ætla mætti að 47 þúsund fermetrar til viðbótar myndu uppfylla þessa þörf en það er aðeins helmimngur þeirra 240 (!) þúsund fermetra sem gildandi deiliskipulag gerir ráð fyrir.

Næstu 20-30 ár má síðan nota til þess að finna framtiðarsjúkrahúsinu stað þar sem það smellur inn í metnaðarfullt nýtt Aðalskipulag Reykjavikur. Elliðárósar eða Keldur sem hvorutveggja nýtur fyrirhugaðs samgönguáss gætu verið staðir sem skoða mætti.

Nú þurfa spítalamenn og stjórnmálamenn að sýna karlmannslundina og endurskoða áformin á róttækan hátt öllum til heilla og þannig að sátt náist.

Endurskoðun á staðarvali mun ekki tefja framkvæmdirnar um minnst 10-15 ár eins og haldið hefur verið fram. Við erum frekar að tala um 2-4 ár.

Hér er slóð að pistli sem fjallar um biðleik þeirra Páls Torfa Önundarsonar og Magnúsar Skúlasonar arkitekts.:

http://blog.dv.is/arkitektur/2014/08/25/landspitalinn-aftur-a-dagskra/

 

Að ofan og hér að neðan eru nokkrar myndir af spítalanum á Jótlandi ásamt myndbandi hér strax að neðan

 

 

 

Flokkar: Óflokkað

Þriðjudagur 17.3.2015 - 10:08 - 17 ummæli

Keflavíkurflugvöllur – 2040

Nýlega voru kynnt úrslit í samkeppni um þróun Keflavíkurflugvallar næstu 25 árin.

Allt til ársins 2040.

Það verður að teljast stórviðburður þegar stjórnvöld ráðast í samkeppni um jafn umsvifamikið verkefni sem þróun Keflavíkurflugvallar með stækkun Flugstöðvar Leifs Eirikssnar og öllu sem tilheyrir starfsseminni á vellinum er.

Það sem einkum vakti athygli var að það vissi nánast enginn ráðgjafi hér á landi um samkeppnina. Hvorki að hún væri í gangi né að hún stæði fyrir dyrum.

Isavía ohf og Ríkiskaup stóðu að undirbúningnum, gerðu forsög og stóðu fyrir kynningunni. Þetta var lokuð samkeppni sem haldin var að undangengnu forvali.

10 ráðgjafafyritæki sóttu um þáttöku.

Samkeppnin var einungis auglýst á vef Ríkiskaupa og á útboðsvef Evrópu, TED (Tenders Electronic Daily).

Forvalið var ekki auglýst í íslenskum fjölmiðlum eða kynnt á nokkurn hátt og var ekki haldið í samvinnu við Arkitektafélagið.

Þetta fór fram hjá flestum hér á landi en náðu eyrum aðeins 10 erlendra teyma sem sóttu um þáttöku. Aðeins 6 skiluðu lausnum

En niðurstaða er fengin án þáttöku íslendinga þó svo að áhugi fyrir verkefninu sé mikill.

Sýning á tillögum sem bárust hefur verið sett upp á skrifstofum Isavia á þriðju hæð í Flugstöð Leifs Eiríkssonar (Maður spyr sig hver á leið þangað til þess að skoða niðurstöðu í samkeppni) og verður hún opin almenningi kl. 9 – 16 alla virka daga til 20. mars næstkomandi. Einnig er hægt að kynna sér samkeppnina á betterairport.kefairport.is/masterplan .

+++++

Eftir að hafa kynnt mér niðurstöðuna get ég ekki annað séð en að þekkingin sem þurfti til þess að skila tillögu í svona samkeppni sé til hér á landi og ef eitthvað þyrfti að auki  þá hefðu íslenskir ráðgjafar átt auðvelt með að sækja það sem á vantaði til erlendra starfsbræðra sinna. Það er því óskiljanlegt að samkeppnin hafi ekki verið auglýst rækilega meðal áhugasamra hér á landi.

+++++

Ég hef skoðað vinningstillöguna og geri tvær athugasemdir.

Annað varðar samkeppni um suðurbyggingu flugstöðvar Leifs Eiríkssonar árið 2000 þar sem áhugi frá íslenskum keppendum var fyrir því að búa til þverálmu með „boarding launches“ með svipuðum hætti og nú er lagt til, 15 árum síðar í vinningstillögunni. Þeir sem sömdu forsögnina þá vildu það ekki.  Höfundar forsagnarinnar árið 2000 töldu sig vita betur. (Einhver rök varðandi neðanjarðar olíukerfi var fyrirstaðan ef ég man rétt) Nú er þessari þrautreyndu hugmynd tekið fagnandi. 15 árum of seint.

Hitt sem vekur athygli er að í vinninstillögunni er lagt til að aðalaðstaða vegna vöruflutninga og flugeldhúss verði við enda sv/na brautar (07-25). (Sem hefur reyndar verið lögð niður í bili) Þetta er í raun tillaga sem minnir á svokallaða neyðarbraut á Reykjavíkurflugvelli  (o6-24) þar sem fjáraflafyritæki ætlar að byggja íbúðahúsnæði.

Flugfólk telur norðaustur/suðvesturbrautir á báðum stöðunum skipti miklu máli. Ekki megi gera neitt sem útilokar þær og alls ekki loka brautunum á báðum stöðunum. En samkvæmt áætlunum í Reykjavík og Keflavík á nú að leggja þær báðar nður.

+++++++

En að lokum, svo ég endurtaki smávegis. Þessi vinna sem hér er kynnt og niðurstaða samkeppninnar er á þvílíku frumstigi að engin ástæða var til þess að leita eingöngu til útlanda eftir ráðgöfum. Hinsvegar hefði sennilega verið skynsamlegt að leita til útlanda varðandi forsögnina.

Þetta hefði alveg getað verið opin samkeppni á EES svæðinu.  Og með ensku, þýsku eða frönsku sem aukatungu. Það eru margir hér innanlands sem hefðu haf fullt tré við þessa eflaust ágætu erlendu ráðgjafa og töfrað fram jafngóða eða betri lausn.

Þessi nálgun Ríkiskaupa og Isavia ohf þar sem skautað er framhjá íslenskri ráðgjafastarfssemi  einkennist af landlægri og einbeittri „nesjamennsku“ að því er virðist.

+++++

Hér að neðan kemur yfirlitsuppdráttur og tölvumynd þar sem frakt og Catering er við bláenda flugbrautar o7-25 (Tvær appelsínugular byggingar) og boarding launches eru staðsettar á stað sem var hafnað fyrir bara 15 árum.

Og hér er slóðin að vinningstillögunni.

http://www.isavia.is/files/keflavik-airport-masterplan.pdf

masterplan_kort_c

 

Flokkar: Óflokkað

Fimmtudagur 12.3.2015 - 21:24 - 9 ummæli

Túrisminn

 

 

Hér er mjög athyglisvert efni sem ég fékk sent frá kunningja mínum. Hann heitir Árni Zophoniasson og er borgarbúi, áhugamaður um skipulagsmál og sérstaklega þau áhrif sem vaxandi straumur ferðamanna hefur á borgarlífið. Árni lærði sagnfræði en hefur stundað atvinnurekstur alla sína ævi, rekur meðal annars Miðlun ehf, Kaupum til góðs ehf og fleiri fyrirtæki.

 Gefum Árna orðið:

 +++++

Á nýliðnu ári kom ein milljón ferðamanna til Íslands. Sambærilegar tölur fyrir frændþjóðir okkar á Norðurlöndunum eru tæplega 10 milljón ferðamenn til Danmerku en rúmlega 5 milljón til Svíþjóðar, Noregs og Finnlands.

Ísland var lengst af álíka mikið ferðamannaland og stríðshrjáð Afríkuríki. Síðustu 3-4 ár má sjá merki um breytingar, mögulega er ástæðan hrunið og sú umfjöllun sem því fylgdi, eldgos í Eyjafjallajökli, tískubreytingar í ferðamennsku eða gott markaðsstarf – um það er ekki gott að segja.

Ef almenn skilyrði haldast óbreytt er líklegt að fjölgun ferðamanna haldi áfram. Ekki endilega vegna þess að Ísland sé einstakt og áhugavert land heldur vegna þess að óeðlilega fáir ferðamenn hafa sótt landið heim. Þrátt fyrir eina milljón ferðamanna erum við ennþá í hópi með löndum eins og Uzbekistan, Senegal, Sri Lanka og Namibíu hvað varðar fjölda ferðamanna. Það er engin ástæða til að ætla að færra ferðafólk vilji sækja Ísland heim heldur en Finnland – eða um fimm milljón manns á ári.

Markmiðið með þessum texta er ekki að spá fyrir um ferðamannafjölda enda hefur undirritaður engar forsendur til þess. Hins vegar er nokkuð fyrirsjáanlegt að ferðamönnum mun fjölga, jafnvel verulega. Í því samhengi er áhugavert að velta fyrir sér hvaða áhrif mikill fjöldi ferðamanna hefur á skipulagsmál, sérstaklega á höfuðborgarsvæðinu.

Það þarf ekki mikla fjölgun ferðamanna til þess að lestarsamgöngur milli Leifsstöðvar og Reykjavíkur verði arðbærar. Líklega verður hafist handa við slíka framkvæmd innan fárra ára. Lestarsamgöngur breyta forsendum varðandi almenningssamgöngur – ekki bara á Reykjanesi heldur á höfuðborgarsvæðinu öllu. Leifsstöðvarlestinni fylgja tækifæri en líka flókin útlausnaefni. Lestin mun meðal annars breyta umræðunni um Reykjavíkurflugvöll. Er ekki sjálfgefið að innanlandsflug mun flytjast á Reykjanes ef fjölgun ferðamanna heldur áfram?

Til þess að þjóna vaxandi fjölda ferðamanna þarf stærri miðbæ, meira og fjölbreyttara verslunarrými. Gucci, Cartier og Hermes þurfa sína götu en einnig sérviskuverslanir sem geta ekki greitt háa húsaleigu. Kannski er ný göngugata frá Hörpunni að Lækjartorgi kjörinn staður fyrir dýrar lúxusverslanir. Gamli miðbærinn verður að stækka – ferðafólk vill rölta um og njóta borgarlífs. Við eigum áhugavert svæði fyrir ofan Laugaveginn, Grettisgötu, Njálsgötu, Vitastíg, Frakkastíg, Klapparstíg, Skólavörðustíg og hluta af Þingholtunum. Á þessu svæði þarf að fóstra torg, útbúa göngustíga milli húsa og gera svæðið aðlaðandi fyrir litlar sérverslanir, kaffihús, listagallerý og annað sem dregur að ferðamenn. Þarf ekki að gera bíla útlæga af þessum götum?

Sjór og hafnir eru víða mikið aðdráttarafl fyrir ferðamenn, strandlengjan á höfðuborgarsvæðinu er löng en ennþá hefur lítið verið gert til að nýta hana í þágu ferðamanna. Við þurfum að nota ströndina betur með því að koma upp veitingahúsum og afþreyingu. Við lægi skemmtiferðaskipa í Sundahöfn þarf segul sem kallast á við Hörpuna og gamla miðbæinn, eitthvað sem dregur ferðamenn í göngutúr þar sem hægt er að upplifa Hörpuna, Sólfarið, Hðfða, Hrafn Gunnlaugsson, Listasafn Sigurjóns Ólafssonar og Viðey. Einnig er hægt að nýta betur aðstöðu á Gróttu, Ægissíðu, Nauthólsvík og víðar við strandlengjuna. Nú þegar hefur verið unnið gott starf við að breyta og aðlaga gömlu höfnina þörfum ferðamanna. Þar er þó mikið starf ennþá óunnið.

Í útjaðri og nágrenni höfuðborgarsvæðisins bíða mörg verkefni. Kláfur á Esjuna, Þríhnjúkagígur, vatnagarður og víkingabær í Mosfellssveit eru áhugaverð verkefni. Einnig þarf að opna betur og gera aðgengileg svæði sem við höfuðborgarbúar njótum reglulega svo sem gönguleiða á Esjuna, Úlfarsfell, Heiðmörk og Elliðaárdalur.

Ef litið er til lengri tíma verða það ekki Þingvellir, Mývatn, Gullfoss eða Geysir sem draga ferðamenn til Íslands, heldur Reykjavík. Borgin getur verið einn skemmtilegasti áfangastaður Evrópu, með iðandi borgar- og menningarlíf í skemmtilegri nálægð við undarlega náttúru. Til þess að taka á móti fleiri ferðamönnum þurfum við að skipuleggja borgina með þarfir þeirra í huga.

++++++

 

 

Flokkar: Óflokkað

Mánudagur 9.3.2015 - 16:55 - 40 ummæli

Moska í Reykjavík

Íslenskir arkitektar eru almennt frálslyndir. Þeir hafa allir fullnumið sig erlendis og þekkja vel til þar sem mismunandi menningarsamfélög eru snar þáttur í daglegu lífi fólks.

Arkitektar eru flestir  hlynntur því að múslimar fái að byggja sér bænahús hér á landi og þykir sjálfsagt að mæta þeirra óskum eins og mögulegt er í sátt og samlyndi við íslenskt samfélag. Þeir eru almennt áhugasamir um svokallaða fjölmenningu og fagna fjölbreytninni sem henni fylgir.

Nú hefur Félag múslíma á Íslandi fengið úthlutað lóð og auglýst opna samkeppni um hönnun bænahússins. Samkeppnin hefur verið auglýst  og skiladagur ákveðinn þann 26. mai næstkomandi.  Þessu er almennt fagnað af arkitektum og það er allmikill áhugi fyrir verkefninu hér.

Eins og sjá af meðfylgjandi myndum eru nýjar moskur ekkert í takti við Hagia Sophia eða byggingu sem yrði yfirgnæfandi kennileyti við aðkomuna inn í Reykjavík. Það er ástæðulaust að óttast það. Ég efast ekki um að samkeppnin á eftir að laða fram bænahús sem fellur að íslenskum aðstæðum og staðaranda.  En það er auðvitað undir dómnefndinni komið.

++++

Það hefur hinsvegar vakið athygli að tungumál samkeppninnar er enska.  Ekki sem aukatungumál,  heldur sem eina tungumálið.

Íslenskunni er hreinlega úthýst. Hún er bönnuð og þeir sem skila inn tillögu á íslensku verða því ekki teknir til dóms.

Um er að ræða samkeppni um byggingu á Íslandi fyrir trúfélag íslendinga þar sem keppendur verða að meirihluta íslenskir og allir dómarar og ráðgjafar eru líka íslenskir?

Þetta er afar sérstakt.

Ég þykist vita að stjórn og samkeppnisnefnd er ekki skipuð þýlyndum geðluðrum sem ekki geta staðið í fæturna þegar standa á vörð um helstu stoð íslenskrar menningar, íslenskunni.  Átökin hafa verið hörð en arkitektar látið undan kröfu Félags múslima á Íslandi.

Maður veltir fyrir sér hvort þetta sé merki um það sem koma skal. Það er að segja að íslensk menning muni fyrr en seinna víkja fyrir hinni erlendu.  Að fjölmenningin ætli ekki að aðlagast þeirri íslensku heldur breyta henni. Og á þá virkilega að byrja á helstu stoð menningar okkar, íslenskunni?

Það er auðvitað skynsamlegt að hleypa einhverju alþjóðatungumáli að sem aukatungumæál með íslenskunni í samkeppni sem þessarri. Þó ekki væri nema til þess að gera aðkomu muslimska arkitektasamfélaginu auðveldara til þess að leggja eitthvað til málanna. En að banna íslenskuna er ógnvekjandi í þessu samhengi.

+++++++

Nú eftir að samkeppnin hefur verið auglýst hefur komið fram að byggingin og samkeppnin mun verða kostuð af Saudi Arabíu. Það eru slæmar fréttir sem Arkitektafélag Íslands á væntanlega eftir að tjá sig um. Jafnvel að enduskoða þáttöku AÍ í verkefninu.  Það er allavega tilefni til þess að velta því fyrir sér.

Ég leyfi mér að vitna í Egil Helgason: „Saudi-Arabía er nefnilega eitthvert viðurstyggilegasta einræðisríki í heiminum. Þar er trú, öfgafyllsta útgáfan af íslam, notuð sem réttlæting fyrir nokkurs konar fasisma. Sumpart er þetta aðferð gerspilltrar valdastéttar til að halda stöðu sinni. Þegar meðlimir hennar koma til Vesturlanda verða þeir gjarnan berir að fullkominni hræsni“.

Svo er mér er sagt að önnur trúarbrögð en Múhameðstrú sé bönnuð í Saudi Arabíu.

+++++++

Þarf ekki að stokka þetta allt upp. Sýna festu þegar það á við og þolinmæði þegar þannig stendur á.  Gefa öllum trúfélögum aðgang að trúarsjóðum eins og kirkjubyggingasjóði og  jöfnunarsjóði kirkna. Hafna peningum frá ríkjum á borð við Saudi Arabíu.  Bjóða fjölmenningarsamfélagið velkomið og gefa því tækifæri til þess að aðlagast íslenskri menningu án þess að leggja hana niður. Vinna að því að fólkið aðlagist íslensku samfélagi en breyta grundvallaratriðunum sem minnst.

Og í Guðsbænum ekki fórna íslenskunni í þessum samskiptum.

++++++

Efst er tölvumynd af nýrri mosku í höfuðborg Egyptalands. Að neðan er teikning af nýrri mosku í Kaupmannahöfn.

Hér er slóða að samkeppnislýsingu og samkeppnisreglum Arkitektafélags Íslands.

Hvorugt á íslensku.

Competion brief final

Competition Rules AI 2015

 

 

 

 

Flokkar: Óflokkað

Sunnudagur 1.3.2015 - 18:42 - 11 ummæli

Borgaraleg óhlýðni og hverfaskipulagið

 

Í síðasta pistli fjallaði ég um grasrótina í Reykjavíkurborg og íbúasamtök. Ég tók dæmi af Íbúasamökum Vesturbæjar og þeim borgarbótum sem þau hafa áorkað í gegnum tíðina.

Í framhaldi af pistlinum var athygli mín vakin á því sem er að gerast í Bandaríkjunum hvað þetta varðar nú um stundir. Þar eru grasrótarsamtök mjög virk. Frægasta dæmið er the Highline Park sem er af afrekum grasrótarinnar í NY.

Borgaraleg óhlýðni eins og það er kallað hefur skilað góðum árangri í borginni Raleigh í North Carolina og vakið heimsathygli.

Þar tóku aðgerðarsinnar sig til og settu upp skilti sem vísaði fótgangandi veginn að næstu matvöruverslun o.s.frv.  Á skiltunum kom líka fram hvað göngutúrin væri langur.  Aukaáhrif voru þau að íbúarnir fengu betri tilfinnigu fyrir umhverfi sínu og því sem það hefur upp á að bjóða. Þetta var kallað “Guerrilla wayfinding” og var talin ólögleg af bæjaryfirvöldum

Hinsvegar fékk þetta mikinn stuðning af borgarbúum og í fjölmiðlum. Árangurinn varð sá að nú er talað um „mainstreem“ í þessa átt í öllum Bandaríkjunum.

Hugmyndin að þessu átaki í Raligh kom frá námsmanninum Matt Tomasulo. Hann vildi vekja athygli á fjarlægðum í borginni og fá fólk til þess að stíga út úr einkabílnum og uppgötva borgina upp á nýtt á tveim jafnfljótum.

Í framhaldinu hafa aðgerðirnar snúið að því að laða fram hugmyndir fólks um hvers íbúarnir sakni helst í nágrenninu og hreyfingu þar sem íbúarnir segja hvað þeir vildu frekar að væri á tilteknum söðum en er þar nú. Þetta er gert með sérstökum miðum og  skiltum.

Þetta er bæði skemmtilegt og hefur virkað.

Þessi grasrótarvinna er gagnleg, kannski tafsöm, en á erindi víðast hér á landi í þéttbýsliskjörnum. Þetta væri líka skemmtilegt í tengslum við hverfaskipulagsvinnuna sem nú er fyrirhuguð í hverfum höfuðborgarinnar. Það þarf einhvernveginn að virkja íbúana. Það’ er hægt að gera með átökum eins og hér er fjallað um og kannski líka í gegnum grunnskólabörn og þannnig til foreldrana.

++++++++

Myndir í færslunni sýna vegvísa fyrir gangandi í Raleigh. Svo myndir af skiltum þar sem íbúarnir skrifa það sem þeir sakna í hverfinu sínu   „I want …… in my neighborhood“   og svo skilti þar sem íbúarnir segja hvað þeir vildu í staðin fyrir það sem er “ I wish this was  ……“

Neðst er svo svipuð aðgerð sem danska arkitektafélagið stóð fyrir þar sem þeir, með svipuðum hætti hvetja grasrótina til þess að taka þátt í umræðunni en stóla ekki  eingöngu á arkitektana eða þá sem véla um skipulag og arkitektúr hjá bæjarfélögunum.

++++++

Hér eru slóðir að síðum sem fjalla um efnið:

https://walkyourcity.org/

og

https://neighborland.com/

 

Svo má finna pistla um efnið í leitarvél þessarrar vefsíðu. T.a.m. umfjöllun um High Line Park.

+++++++

Sjá einnig færslur um svipað efni

Um óskiljanlegt áhugaleysi á arkitektúr:

http://blog.dv.is/arkitektur/2013/02/08/oskiljanlegt-ahugaleysi-fyrir-arkitektur/

Um arkitektúrkennslu í grunnskólum:

http://blog.dv.is/arkitektur/2011/04/13/arkitektur-i-grunnskolunum/

Um almenna fræðslu í skipulagi og byggingalist:

http://blog.dv.is/arkitektur/2010/09/21/fraedsla-i-byggingarlist/

Um hvernig byggingalistinni er haldið útundan í umræðunni:

http://blog.dv.is/arkitektur/2009/10/16/byggingarlistin-er-utundan/

 

 

 

Aðgerðarsinnar settu skiltin upp í skjóli nætur.

Sá á myndinni hér að ofan vill fleiri fætur á gangstéttarnar.

Econ 004

Carousel-I-Wish-This-Was-enjoy

Að lokum koma að neðan tvær myndir úr herferð danskra arkitekta það sem þeir óska efir meiri þáttöku grasrótarinnar í skipulags og byggingaumræðunni.

 

Flokkar: Óflokkað

Höfundur

Hilmar Þór Björnsson arkitekt
Tilgangur síðunnar er að kynna arkitektúr, skipulag og staðarprýði ásamt því að stuðla að umræðu um efnið. Það sem fram kemur ber ekki að skilja sem skoðun höfundar heldur hugleiðingu sem sett er fram í þeim tilgangi að vekja lesendur til umhugsunar og skoðanaskipta. Tekið er á móti aðsendum greinum þegar það á við, sem þá eru á ábyrgð höfundar aðsends efnis.
Athugasemdir við færslur eru velkomnar. Þeir sem vilja koma skilaboðum til ábyrgðarmanns beint er bent á netfangið hilmarstofunni@gmail.com
RSS straumur: RSS straumur

Færslusafn