
Því hefur verið haldið fram að arkitektinn sé milliliður milli húsbyggjandans og samfélagsins.
Arkitektinn gætir hagsmuna húsbyggjandans og tryggir að hann fái gott og starfhæft hús sem þjónar þörfum hans og ofbýður ekki pyngjunni.
Arkitektinn ber líka ábyrgð gagnvart samfélaginu og þarf að tryggja að nýbyggingin þjóni borgarrýminu eða götunni. Hann þarf að tryggja að húsið bæti umhverfið og gefi því ný tækifæri. Hann þarf að gæta þess að nýbyggingin ofbjóði ekki umhverfinu og staðarandanum heldur styrki umhverfið og kosti þess. Nýbyggingin þarf að færa umhverfinu, borgarrýminu, einhver ný gæði samfélaginu til góða.
Það má halda því fram að arkitektinn þjóni tveim herrum hvað þetta varðar. Húsbyggjandanum og samfélaginu. Sem betur fer fara hagsmunir húsbyggjandans og samfélagsins oftast saman.
En ekki alltaf. Og þá reynir á arkitektinn.
Þetta er ekki alltaf einfalt eða auðvelt. Enda ekki alltaf sem óskir verkkaupans og samfélagsins fari saman. Svo geta skoðanir samfélagsis verið misjafnar eftir einstaklingum og viðhorfum þeirra. Tíðarandinn kemur líka inn í dæmið, hann er sennilega versti óvinur byggingalistarinnar enda er hann síbreytilegur og óútreiknanlegur.
Verst er þegar arkitektinn er blankur eða háður verkkaupanum og þarf nauðugur að láta óskir samfélagsins víkja fyrir skammtímaþörfum verkkaupans. Verkkaupinn færir honum brauðið sem samfélagið gerir ekki með jafn beinum hætti. Örsjaldan gerist það að arkitektinn og húsbyggjandinn er sami aðilinn. Það má helst ekki gerast þegar um er að ræða byggingar á viðkvæmum stað.
Sem betur fer nýtur arkitektinn og samfélagið stuðnings frá skipulagsyfirvöldum sem á að þjóna samfélaginu fyrst og fremst. En það geta komið upp átök milli húsbyggjandans og skipulagsyfirvalda sem eiga að gæta hagsmuna heildarinnar, samfélagsins. Þegar þannig stendur á kemur til kasta arkitektsins að finn sáttaleið.
Stundum er húsbyggjandanum (lóðarhafanum) falið að sjá um deiliskipulagið. Þá ræður hann arkitekt til þess að vinna þá vinnu og í framhaldinu að hanna húsin. Í slíkum tilfellum verður oft rof milli hagsmuna samfélagsins og lóðarhafans. Lóðarhafinn vill byggja sem mest og stærst, oft á kostnað umhverfisins. Arkitektinn reynir að mæta kröfum og þörfum láðarhafans.
Við þekkjum dæmi um þetta í Reykjavík. Ég nefni Skuggahverfið þar sem framkvæmdaaðilinn, fjárfestirinn, breytti áður samþykktu deiliskipulagi sér til hagsbóta. Sama á við um Höfðatorg þar sem skipulagið var unnið af arkitektum lóðarhafans og svo byggingarnar í framhaldinu. Þriðja dæmið er deiliskipulag Landspítalans sem var á höndum lóðarhafa. Borgin var umsagnaraðili í þessum tilfellum en leiddi ekki vinnuna. Deiliskipulagið og húsahönnunin var unnin samtímis af sömu aðilum á reikning lóðarhafa.
Hagsmunir samfélagsins virtust víkjandi.
Svona verklag hefur stundum verið kallað „verktakaskipulag“ vegna þess að það þjónar fyrst og fremst lóðarhafanum. Það sem er sameiginlegt með þessum „verktakaskipulögum“ er að þau eru útblásin með miklu hærra nýtingarhlutfalli en nálæg byggð og síðast en ekki síst er alls engin sátt um þau.
Á svokölluðum Bílanaustsreit var svipað verklag viðhaft en með örlítið öðrum hætti. Þar voru sömu arkitektar sem deiliskipulögðu fyrir borgina (samfélagið) og hönnuðu húsin fyrir byggingaraðilann (verktakann). Þarna voru arkitektarnir fyrst að vinna fyrir samfélagið og svo fyrir verktakana. Mörkin voru óljós. Það ber að forðast að deiliskipulagshöfundar sem vinna fyrir skipulagsyfirvöld hanni líka húsin fyrir lóðarhafa. Þeir eiga hinsvegar að vera umsagnaraðilar þegar húsin eru teiknuð inn í skipulagið og gæta hagsmuna skipulagsins.
Tilraunir skipulagsyfirvalda og áhugasamra borgara til þess að hafa áhrif á deiliskipulagið og húsahönnun hefur gengið illa þegar svona er unnið og það er almennt nokkur óánægja með athugasemdarferlið hjá borgurunum. Hvorki borgin né almenningur fá við þetta ráðið þó öflug rök séu fyrir því að gera mætti betur. Borgina skortir oftast kjark eða vilja til þess að taka tillit til athugasemda og/eða ráðlegginga borgaranna.
Skipulagsyfirvöld og arkitektar eiga að forðast þetta verklag í ljósi reynslunnar. Sami ráðgjafinn á ekki að skipulaggja og hanna húsin í sitt skipulag nema í algerum undantekningartilfellum. Arkitektar og skipulagsyfirvöld þurfa að hafa samfélagsleg ábyrgð að leiðarljósi og gæta hagsmuna heildarinnar í sínum störfum. Sýna samfélagslega ábyrgð og taka tillit til athugasemda.
Í siðareglum arkitekta er beinlínis ákvæði sem segir að arkitekt skuli ætíð hafa í huga og virða hagsmuni þeirra, sem nota munu og njóta verka hans og að arkitekt skuli taka tillit til áhrifa verka sinna á mannlegt samfélag, náttúru og umhverfi í víðtækasta skilningi. Þetta sjónarmið er áréttað í menningarstefu hins opinbera og í AR2010-2030.
+++++
Efst er mynd af umdeildri byggingu við Mýrargötu. Þarna hönnuðu arkitektarnir hús inn í samþykkt deiliskipulag sem þeir komu ekki að. Þeim var vandi á höndum. Deiliskipulagið var og er umdeilt. Af einhverjum ástæðum réð engin við málið og gátu ekki, þrátt fyrir vilja, mætt gagnrýninni og stýrt skipulaginu eða húsahönnuninni til betri vegar.
Nýtt aðalskipulag AR2010-2030 og menningarstefna hins opinbera í mannvirkjagerð á að fyrirbyggja niðurstöðu af þessu tagi.
Að neðan koma myndir af þeim dæmum sem nefnd eru í pistlinum.

Í Skuggahverfinu var skilmálum deiliskipulags breytt eða ekki farið eftir þeim. Í staðin fyrir þaulhugsað deiliskipulag sem sátt var um komu hærri, breiðari, frekari og svartari hús.
Við Höfðatorg var haft það verklag að deiliskipulag var í höndum lóðarhafa. Slíkt hefur verið kallað „verktakaskipulag“ þar sem hagsmunir grenndarinnar víkur oft fyrir hagsmunum lóðarhafans.

Kalla má nýtt deiliskipulag við Landspítala „verktakaskipulag“ vegna þess að það er unnið á vegum lóðarhafa og á hans kostnað. Hagsmunir hans eru settir ofar hagsmunum heildarinnar að því er virðist. Því var og er haldið fram að húsin og deiliskipulagið sé í þágu samfélagsins. Það má að vissu marki segja að rétt sé að sjálf húsin og starfssemin þar sé í þágu samfélagsins, en deilt er um hvort deiliskipulagið sé í sátt við samfélagið.
Byggingarnar á svokölluðum Bílanaustsreit eru hannaðar af sömu aðilum og deiliskipulögðu. Þetta er að því leiti svipað og gerðist í Höfðatúni, við Landspítalann og í Skuggahverfinu. Sameiginlegt með þessum deiliskipulögum er að nýtingin er meiri en víðast annarsstaðar og byggingamassarnir ekki í samræmi við það sem fyrir er í næsta nágrenni. Í nýju aðalskipulagi fyrir Reykjavík er sérstaklega fjallað um að aðlaga skuli byggð að því sem fyrir er. Þetta er líka eitt af aðalákvæðum í opinberri menningarstefnu um mannvirkjagerð frá 2007. AR2010-2030 og siðareglur Arkitektafélagsins ganga í svipaða átt.
.jpg)
.jpg)
Deiliskipulag við Austurhöfn tekur ekki nægjanleg mið af nálægðri byggð í Kvosinni. Borgin vann af mikilli alúð að undirbúningi að samkeppninni um svæðið umhverfis Ingólfstorg sem lauk árið 2012. Þar var markvisst unnið að því að halda í staðaranda og sérkenni miðborgarinnar. Áherslan þar var í samræmi við skipulag Kvosarinnar frá árinu 1986 þar sem hæðir húsa voru stallaðar frá tveimur upp í sex hæðir og götuhliðar reitaðar í minni einingar.
Þess vegna kemur það á óvart að öll sú vinna og umræða sem fram hefur farið undanfarna áratugi hafi ekki skilað sér í nýju deiliskipulagi við Austurhöfn. Hlutföllin þar eru algjörlega á skjön við það sem menn höfðu áður sæst á þarna í næsta nágrenni. Við endurskoðun deiliskipulagsins voru aðalbreytingarnar þær að gatnamót Tryggvagötu og Kalkofnsvegar voru lagfærð og húsin lækkuð aðeins.
Þó skipulagið sé eins og það er þá hafa arkitektar sjálfra húsanna tækifæri til þess að hanna hús sem eru í anda þeirrar byggðar sem næst stendur og gætu lagt áherslu á og tekið mið af í Kvosinni, með styttri húslengdum, stölluðum húsahæðum, kannski frá þrem upp í sjö og auðvitað með fjölbreytilegri húsagerðum. Gert tilraun til þess að vera svoldið reykvísk!
Arkitektar eru þegar byrjaðir að hanna hús inn í deiliskipulagið við Austurhöfn. Myndirnar tvær að ofan og sú hér að neðan sýna hvernig arkitektarnir sem eru að teikna húsin sjá þau fyrir sér. Það er öllum ljóst sem þekkja til skipulags og hönnunarmála að deiliskipulagið í sjálfusér ákveður sjaldnast þá byggingalist sem verður ofaná. Það er undir arkitektunum komið að gefa byggingunum form, útlit og karakter sem hentar staðnum þar sem á að byggja.
Við Austurhöfn er það ekki skipulagið sem þvingar fram þá niðurstöðu sem sjá má af myndum arkitektanna heldur gefur skipulagið arktektunum tækifæri innan viss ramma að laða fram hús sem henta staðnum. Það reynir á hæfileika arkitektanna til þess að greina staðinn og gefa byggingunum viðeigandi form og útlit, sem hentar staðnum og anda hans.
Þar reynir á samfélagslega ábyrgð fagmannsins.
Hafa þarf í huga að þetta er ekki miðborg einhvers banka eða hótelkeðju. Þetta er miðborg allra reykvíkinga og miðborg höfuðborgar allra landsmanna og sú miðborg sem ferðamenn sækja.

Hér að neðan er samsett mynd af nýlegum húsum í 12 löndum um allan heim. Þarna er engan mun að finna. Allt er eins. Engin sérkenni og enginn staðarandi. Allt hundleiðinlegt og „professionelt“
Viljum við að allur heimurinn líti einhvernvegin svona út?
