Þriðjudagur 22.4.2014 - 14:41 - 8 ummæli

Síðbúin þéttbýlismyndun – Vistarband og fl.

 TERRA_090202_1255

„Síðbúin  þéttbýlismyndun“  er samantekt um skipulagsmál eftir Sigurður Thoroddsen arkitekt.

Þetta er einkar áhugaverð yfirferð um sögu búsetu á Íslandi frá öndverðu og spurt er hvers vegna þéttbýli myndaðist ekki fyrr hérlendis en raun ber vitni.  Að baki samantektarinnar liggur mikil rannsóknarvinna og þekking sem ekki hefur verið lögð fram með þessum hætti áður svo ég viti til. Þarna kemur „Vistarbandið“ til umræðu sem lítið er talað um og kemur fyrir sjónir sem einhver útgáfa af þrælahaldi hér á landi.

Gefum Sigurði Thoroddsen arkitekt orðið:

Almennt

Ísland  hafði verið  byggt í 1000  ár,  þegar fyrstu   þéttbýlisstaðirnir  hófu að   myndast fyrir  alvöru,  þannig að saga þeirra er ekki löng,   aðeins um 130 ár.  Í eftirfarandi samantekt verður   fjallað um aðdraganda þess að  þéttbýli myndaðist,   og hversvegna þróunin varð svo langt á eftir öðrum þjóðum.  Tímabilið   1300 til 1900 hefur verið  valið,  þar sem það  er nokkuð  dæmigert fyrir það sem hefði getað orðið, sé tekið mið af þeirri þróun sem varð hjá  nágrannaþjóðum á sama tíma.

Árin  1262-1264 eru talin upphaf  tímabils friðar og framfara á Íslandi. Á þessum  tíma lauk    Sturlungaöld,    þ.e. borgarastyrjöld sem staðið hafði  í  44 ár,  og  friður  kemst á. Um sama leyti kemst   Ísland  í konungssamband  við Noreg  og  verður partur  af áhrifasvæði þeirra.   Árið 1380 verður landið hluti af Danaveldi  og 1397 af  Kalmarsambandinu,  og  kemst  undir   miðstjórnar- og  framkvæmdavald hins nýja stórveldis á Norðurlöndum,  og  þar með tiltekinn stöðugleika.   Þessi  stöðugleiki hefði getað orðið grundvöllu þéttbýlismyndunar í landinu, en varð  þó  ekki.  En hver var ástæðan fyrir þessari síðbúnu þróun?

Sú saga var  sögð af breskum ferðamanni sem kom hingað til  lands 1870, og hitti   Jón Hjaltalín landlækni,  sem  upplýsti  nokkuð upp með sér,  að um þessar mundir  væru 1000  ár liðin  frá upphafi byggðar  á Íslandi.  Útlendingurinn  fór  í ferðalag  um landið,  og  í  lok ferðarinnar hitti  hann  landlækninn  á ný  og  sagði:  „ Það er lygi að Ísland hafi verið byggt  í 1000 ár. Hvað hafið þið verið að  gera. Hér sést ekkert mannvirki, hvert sem litið er.“  Þessi umsögn útlendingsins segir allt sem segja þarf um þróun og ástand  mála.

En eins og kunnugt er,  þá er þéttbýlismyndun   uppspretta   framfara, velmegunar   og bættra  lífsgæða.   Í stað einhæfs  bændasamfélags í   dreifbýli,  er   þéttbýli   gerjunarstaður   hugmynda og samskipta,  þar sem   nýjar atvinnugreinar og frjótt samfélag  fær að  þróast.    Íslenskt   þjóðfélag  dróst hinsvegar  aftur úr öðrum löndum.  

Fyrstu þéttbýlisstaðir á Íslandi,   sem hægt var  að kalla því  nafni,  mynduðust  ekki fyrr en um 1880,  en áður höfðu  hér  varla myndast    þorp. Samgöngur voru  ófullkomnar um    stíga,  eða á sjó með tiltölulega litlum bátum.  Hjólið   var  ekki tekið  í notkun á Íslandi fyrr en upp ár 1880, með innleiðingu  hestvagna,  en fram að því höfðu klyfjahestar verið notaðir til flutninga á landi,  eða að menn  báru klyfjarnar á sjálfum sér.

Um sama leyti  höfðu    borgir og   bæir með  þróuðum  flutningsleiðum   staðið um aldir í  Vestur-Evrópu.    Ýmsar skýringar hafa verið settar fram, og  er ein sú,  að á Íslandi hafi  löggjafar-   og dómsvald   að mestu  verið án   miðstjórnar- og  framkvæmdavalds,  þannig   að hér  myndaðist  hvorki  valdamiðstöð né þéttbýli af neinu tagi, sem hefði getað  skapað  aðstöðu til framfara.  Engir hernaðarlega mikilvægir staðir voru í landinu, sem voru  upphaf margra borga í öðrum löndum.  Hið staðnaða  bændaþjóðfélag skapaði ekki skilyrði til  þéttbýlismyndunar,  og  engin   viðleitni var sýnd af hálfu innlendra  aðila  að breyta stöðu mála. Valdamiðstöðin var lengstum í Kaupmannahöfn og sömuleiðis miðstöð mennta,  menningar, iðnaðar og  verslunar.

Það er ekki fyrr en með stofnun Heimastjórnarinnar  1904,  að framkvæmdavaldið flyst frá Danmörku til Íslands,  en fram að því  hafði einungis  löggjafarvald og dómsvald verið í höndum  Íslendinga.

 

Skilgreining þéttbýlis 

Sú  skilgreining á þéttbýli   sem oft   er notuð,  er að um sé að ræða svæði,  þar sem    lágmarksfjöldi    bygginga og íbúa  eru   á  flatareiningu.  Til dæmis að  tiltekin  byggð s.s. einstakt íbúðarsvæði, sumarhúsbyggð eða jafnvel vinnubúðir  séu  þéttbýli. Samkvæmt íslenskum reglum er miðað við 50 íbúa eða fleiri og  að ekki sé meira  en 50 metrar á milli húsa, en   á hinum Norðurlöndunum er miðað við 200 íbúa.  Þetta er   ófullnægjandi skilgreining,  því  samkvæmt  henni  er gengið út frá  tilteknum  fjölda húsa eða mannvirkja á fyrirfram afmörkuðu svæði,  án þess að fjalla um eða gera lágmarkskröfur um   þá starfsemi sem þar fer fram.   Hér er í raun verið að fjalla um afmarkaða húsaþyrpingu eða samansafn  húsa,  en ekki þéttbýli.

Skilgreiningar á þéttbýli eru margvíslegar, en sú sem oftast er notuð,   er  að um sé að ræða skilgreint svæði  þar sem er föst búseta, þ.e.   tiltekin  íbúa- og íbúðarfjöld,  stjórnsýsla,  verslun,  viðskipti, iðnaðar og  framleiðslustarfsemi  af ýmsu tagi. Ennfremur er það grundvallaratriði að staðurinn  sé í góðum samgöngutengslum við sitt áhrifasvæði.   Fleira  þarf að koma til, s.s.  fjölbreytileiki,   lágmarks  hagræn  staða og  gott   menntunarstig.  Þéttbýli er þannig  ekki  samansafn húsa,  heldur einnig sú starfsemi sem þar fer fram.

Vistarbandið

Talið var  að  vistarbandið,  sem  upphaflega verið sett á árið  1490,  að undirlagi stórbænda  (Piningsdómur),    hafi  hamlað þéttbýlismyndun í landinu,  eða jafnvel komið í veg fyrir hana. Þetta fyrirkomulag var  við lýði  í um 400 ár,  eða  til  1894.     Settar hafa verið fram ýmsar  kenningar um  hversvegna vistabandið var sett á.  Ein er  sú að bændur hafi   viljað halda í ódýrt vinnuafl,  eða  að ráðamenn  talið atvinnutækifæri  stopul í þéttbýli,  og þar með  boðið hættunni heim að leyfa   þéttbýlismyndun.    Ennfremur  er   ein skýring   að reynt hafi verið að koma  í veg fyrir offjölgun þjóðarinnar. Ráðamenn töldu   að landið bæri takmarkaðan íbúafjölda,  og að með takmörkunum væri hægt  að koma í veg fyrir fátækt og eymd,  og  þar með að fólk lenti á framfæri sveitar.

En hvað var  vistarbandið.   Algengasta skilgreiningin  var sú,  að  ef búalið réð  ekki eigin búi, skyldu það  vera  á heimili bónda og eiga þar grið.    Venjan var sú að fólk réði sig í ársvist í senn.  Að þeim tíma liðnum gat bóndi hrakið  hjú af heimili sínu.   Bóndi réð  vinnu hjúa sinna og fékk af henni allan arð,  hvort sem vinnan var unnin á heimili  hans eða utan.   Á móti bar bóndi ábyrgð á að því að hjú hans fengju fæði, klæði og húsaskjól allan  ráðningartímann.  Hjúum var  bannað að giftast,  til að koma í veg fyrir  barneignir,   sem  gátu   orðið byrði   á framfæri sveitarinnar.   Talið er að á 19. öld hafi um 25%  landsmanna búið við þessi kjör,  sem var  það hæsta í Evrópu. Ennfremur að flestir íslenskir bændur voru leiguliðar og áttu  ekki jarðir sínar.

Mjög var hert á vistarbandinu árið 1746,  þegar  Húsagatilskipun,   sem   kvað á um réttindi og skyldur vinnuhjúa,  var sett á.    Húsaginn færði húsbændum nær ótakmörkuð völd yfir vinnuhjúum sínum, og  þeim   jafnvel  bannað að fara milli bæja,  nema með leyfi húsbænda.  Viðurlög við broti á tilskipuninni  voru ströng og líkamleg tyftun  uppálögð,  jafnvel í smæstu málum, en tukthúsvist beið þrjóskufullra og óhlýðinna hjúa.

Mögulegt var  að losna undan vistarbandinu  og gerast lausamaður,  ef viðkomandi eignaðist  verðmæti,   og réðu menn  þá  atvinnu sinni sjálfir,  án þess að vera bundnir við sérstök býli. Sumir lausamenn stunduðu  einnig sjóinn upp á eigin  reikning. En lausamenn þurftu að hafa efnast allvel til að   uppfylla þessi skilyrði, eða  að eiga sem svaraði 10 kúgildum.   Bann við lausamennsku var síðan sett á árið 1783,  og samkvæmt því var lausmennska bönnuð öllum mönnum.

Því hefur líka verið  haldið fram,  að ástæða þess að vistarbandið   var sett á,  hafi stafað af því hversu fátækt  sveitasamfélagið    var, enda stóð tæknistig þjóðarinnar  nánast í stað, eða að því fór aftur  frá landnámsöld og langt fram á 19. öld. Til dæmis þegar náttúruhamfarir dundu yfir,  og/eða óáran vegna sjúkdóma, að  þá  var þjóðin engan veginn  í stakk búin  að bregðast við.

Flokkar: Óflokkað

Föstudagur 11.4.2014 - 11:54 - 23 ummæli

Nýr og Betri Borgarbragur

Hamburg is virtually to become a car-free city in 20 years

 

Félagsskapur sérfræðinga sem nefnist Betri borgarbragur  skilaði af sér rannsóknarvinnu um skipulags- og umferðamál í Reykjavík nú í vikunni.

Því miður gat ég ekki verið á staðnum en ég hef fylgst með hópnum úr fjarlægð og skrifað allmarga pistla um verkefnið eftir framvindunni.

Af tilefni skilanna birti ég hér tvö myndbönd.

Annað sem er unnið af hópnum og og segir frá Miklubraut og umhverfi hennar. Hitt sem tengist sama efni og segir frá því hvernig fólk er að leggja niður hraðbrautir og mislæg gatnamót innan borga í landi einkabílsins BNA.

Í myndbandinu eru sagðar reynslusögur af afkastamiklum umferðagötum sem felldar hafa verið niður eða hætt var við að byggja í nokkum borgum í Bandaríkjunum.

Þarna er því haldið fram af hinum færustu mönnum að þær borgir sem ekki hafa þjóðvegi innan sinna marka hafi minni umferðavandamál en hinar.  Greint er frá dæmum þar sem fasteignaverð hefur hækkað og smávöruverslun dafnað við að fella þjóðvegi og afkastamiklar umferðagötur út úr skipulagi borganna.

Því er einnig haldið fram að þegar stórar umferðaæðar eru lagðar niður bitnar það ekki á samgöngum borganna. Því er líka haldið fram að þó hætt sé við að byggja afkastamiklar umferðagötur inni í borgum fer allt betur en ráð var fyrir gert. (Dalbraut, Hlíðarfótur og Fossvogsbraut svo íslensk dæmi séu tekin).

Þetta er skemmtilegt og fróðlegt myndband sem tekur tæpar sex mínútur í spilun. Mögum mun koma margt sem fram kemur á óvart og vekja upp spurningar um stöðuna hér á höfuðborgarsvæðinu.

Þetta er athyglisvert í ljósi þess að enn erum við að velta fyrir okkur mislægum gatnamótum og öðrum nýframkvæmdum innan þéttbýlisins sem annarsstaðar er verið að leggja niður.

Efst er ljósmynd sem sýnir hvernig borgaryfirvöld í Hamborg hugsa sér að nota það land í framtíðinni þar sem áður var hraðbraut innan borgarmarkanna. Þetta er hluti af 20 ára áætlun borgarinnar í samgöngumálum.

Að neðan koma myndböndin tvö.

Fyrra er um hraðbrautir og mislæg gatnamót innan borga í BNA sem hafa verið lagðar niður eða unnið er að leggja niður þvert á stefnuna hér á höfuðborgarsvæðinu.

Neðra myndbandið er úr smiðju faghópsins Betri Borgarbragur og fjallar um Miklubrautina og nágrenni hennar,

Bæði myndböndin eru skemmtileg, fróðleg, horfa til betri vegar(gatna) og eru lausnamiðuð.

Hér er slóð að færslum um Miklubrautina og skýrslu Betri borgarbrags sem getið er í upphafi

http://blog.eyjan.is/arkitektur/2011/04/08/miklabraut-thjodvegur-eda-borgargata/#comments

http://blog.eyjan.is/arkitektur/2011/04/14/borgarbragur-a-miklubraut-%E2%80%93-bio/#comments

[/embed]

 

Flokkar: Óflokkað

Þriðjudagur 8.4.2014 - 01:39 - 3 ummæli

Kvosin – staðarandi -Austurhöfn

Aðalstræti -1021

Fyrir tæpum 99 árum brann mikill hluti Kvosarinnar í Reykjavík. Þetta var 25. apríl 1915.  Síðan þá hefur verið nánast stöðug umræða um framtíð svæðisins og margvísleg sjónarmið verið uppi á borðum.

Mér fannst og finnst enn að menn hafi ekki gert betri greiningu á staðaranda Kvosarinnar í skipulagsvinnu en í deiliskipulagstillögu Dagnýjar Helgadóttur og Guðna Pálssonar arkitekta árið 1986. Það var fyrir 28 árum. Mér virtist vera viss sátt um greininguna og deiliskipulagið á þeim tíma  enda var það samþykkt og hefur að mestu staðið af sér ólgur tíðarandans allar götur síðan.

Einhvern vegin fannst mér að þessa greiningu arkitektanna mætti nota á hafnarsvæðunum, einkum við Austurhöfn.

Mikilvægur þáttur í samráðsferli borgaranna og borgarskipulagsins þegar skipulagsmál eru annarsvegar er kynning skipulagsáætlana þar sem borgurum gefst tækifæri, með formlegum hætti, að gera athugasemdir við auglýst skipulag. Með kynningarferlinu gefst borgurunum kostur á að hafa áhrif. Þeir fá tækifæri til þess að leggja eitthvað til málanna og leggja skipulagsyfirvöldum lið við vinnuna.

Hinn þekkti danski arkitekt og skipulagsmaður Jan Gehl, telur að samráðsferli þar sem stjónvöld og borgararnir tala saman sé mikilvægasta aðferðin til þess að vekja áhuga borgaranna á arkitektúr og skipulagi og bæta þar með niðurstöðuna. Hann segir að þetta samráð og athugasemdir borgaranna sé aldrei ofmetiðá ferlinum að góðri niðurstöðu.

Því betur sjá augu en auga.

Fyrir rúmum mánuði rann út athugasemdafrestur vegna deiliskipulags við Austurhöfn í Reykjavík. Eftir að hafa kynnt mér deiliskipulagið nokkuð vel ákvað ég að gera tvær hófsamar athugasemdir við skipulagið. Athugasemdirnar voru vel meintar og skipulaginu til bóta að ég taldi.

Önnur athugasemdin varðaði aðalskipulagið AR-2010-2030 og fyrirhugaðan samgönguás. Hin varðaði ásýnd og ríkjandi staðaranda í miðborginni.

Ég ætla ekki að fjalla að þessu sinni um athugasemd mína um samgönguásinn í tengslum við deiliskipulag Austurhafnar, heldur um staðaranda í miðborgarinnar.

Í AR 2010-3030 er lögð nokkur áhersla á að vernda sérkenni eldri byggðar og aðlaga nýja að hinu gamla.  Undanfarin 35 ár hefur verið mikil umræða um stöðu mála í miðborginni. Menn hafa leitað sérkenna hennar í 99 ár og fundið ef marka má deiliskipulag Dagnýjar og Guðna.

Í afar vönduðum undirbúningi að samkeppni um svæðið umhverfis Ingólfstorg, fyrir 2-3 árum, var unnið af alúð að markvissum markmiðum og af mikilli samviskusemi þar sem staðarandi og sérkenni miðborgarinnar voru meginatriði.

Dómnefndarstörf voru í samræmi við þessi markmið og keppendur sýndu þeim mikinn skilning. Þar var áherslan í samræmi við skipulag Kvosarinnar frá 1986 eftir Dagnýju Helgadóttir og Guðna Pálsson.

Þau gerðu á sínum tíma fallegar skýringamyndir (sem sjá má hér í færslunni) og líkan af öllu svæðinu í mælikvarðanum 1:200. Þar var staðfest sú stefna að hús skyldu reituð niður þannig að sama áferð og útlit yrðu hvergi lengri en 10-15 metrar i götumyndinni. Hæðir yrðu stallaðar frá 2-3 hæðum upp í 6-7 hæðir og hallandi þök.

Þetta var talið eftirsóknarvert umhverfi sem fólk hefur sameinast um að standa vörð um og styrkja.

Í fyrirliggjandi deiliskipulagi vegna Austurhafnar er ekki að sjá að öll sú vinna og öll sú umræða varðandi Kvosina hafi skilað sér í skipulagsgerðinni. Hlutföll eru öll á skjön við þau markmið sem menn hafa sæst á í Kvosinni. Sennilega er það vegna þess að höfundarnir hafa ekki álitið það skynsamlegt að færa staðaranda Kvosarskipulagsins út á hafnarbakkann. Þeir hafa ekki séð þau tækifæri felsat í staðaranda  Kvosarinnar þar sem hlutföll eru samræmd og tekið er tillit til hinnar sögulegu víddar Kvosarinnar. Þeir hafa valið aðra nálgun. Nálgun sem gæti verið hvar sem er og kallast ekki á við þann miðbæ Reykjavíkur sem okkur líkar og þykir vænt um.

Maður bar auðvitað þá von í brjósti að þegar metnaðarfullir arkitektar tækju sig til við að draga upp deiliskipulag þarna og hanna húsin inn í þetta skipulag að þeir tækju mið af þeirri umræðu og samþykktum sem átt hafa sér stað í næsta nágrenni undanfarna áratugi og reyndu að mæta þeim.

Í athugasemd minni við deiliskipulagið taldi ég að nauðsynlegt væri að vinna skipulagið áfram og gera strangari kröfur um aðlögun að því sem fyrir er og sérkennum miðborgarinnar og eldri byggð í Kvosinni. Vakin er athygli á að Harpan er sértök og á ekki að vera viðmiðið í tillögugerðinni. Auk þessa þarf líka að gera kröfur í deiliskipulaginu um  starfssemi og almenningsrými á jarðhæðum húsanna samanber umræðu í tengslum við Ingólfstorgssamkeppnina.

Kannski er þetta tóm vitleysa en allavega er fullkomlega eðlilegt að taka upp gamlar deiliskipulagstillögur og kynna þær og ræða í tenglum við deiliskipulag Austurhafnar. Nú er rétti tíminn til þess að ræða hugmyndirnar. Það er of seint eftir 10 ár eða svo eins og dæmið um sjónlínur niður Frakkastíg sanna.

Efst er og strax hér að neðan eru skýringarmyndir úr deiliskipulagi Kvosarinnar frá 1986 og þar fyrir neðan mynd af deiliskipulagi við Ingólfstorg.

Þá kemur deiliskipulagsuppdráttur frá því fyrir Hrun sem lýsir að mínu mati einhverri veruleikafyrringu áranna fyrir hrun sem skipulagið frá í vor er enn að burðast með. Vissulega er það þungur kross að bera skipulagsskuldbindingar góðærisins. En maður veltir fyrir sér hvort ekki hafi verið leið að afskrifa þær á einhvern svipaðan hátt og ýmsar aðrar fjármálaskuldbindingar eftir Hrun!

Neðst eru svo fyrirliggjandi frumdrög að hótelbyggingu og íbúðahúsum við Austurhöfn.

Hér er tengill að pistli um Jan Gehl:

Nýtt hverfaskipulag í Reykjavík

Og hér er slóð að umfjöllun um hótelbyggingu við Austurhöfn:

Hótel við Hörpu

Og að lokum slóð að færslu um skipulagsáætlanir í aðrdraganda hrunsins:

Skipulagsáætlanir frá fyrir 2007

 

 

 

Aðalstræti 020

 

 

673038crop

Flokkar: Óflokkað

Mánudagur 31.3.2014 - 00:10 - 9 ummæli

Krikaskóli í Mosfellsbæ

Krikaskóli í Mosfellsbæ hefur vakið athygli mína fyrir skemmtilega nálgun og samtal við umhverfið.

Það þarf nefnilega oft lítið til þess að byggingar tengist umhverfi sínu. Byggingar sem ekki tengjast umhverfinu á einhvern hátt eru ekki eins góðar og hinar.

Þær eru, ef djúpt er í árina tekið, bara alls ekki góðar byggingar.

Best er þegar þær tengjast umhverfini hvað efnisval og form varðar, tengjast umhverfinu menningarlega og hafi sögulega vídd. Og ef þær fanga staðarandann og tala til umhverfisins þannig að það skiljist.  Svo er mikilvægtað þær nýti umhverfið og aðstæður þannig að það gagnist húsinu sjálfu og auðgi  staðinn þar sm það er byggt.

Krikaskóli í Mosfellsbæ nær eitthvað áleiðis hvað þetta varðar. Skólabygingin á samtal við umhverfi sitt á skemmtilegan hátt.

Þetta skemmtilega samtal gerir fyrst vart við sig þegar horft er til skólans frá Vesturlandsveginum þar sem byggingin og Reykjaborgin, sem er fjall sem húsið ber í, kallast á. Hitt er svo hvernig húsið aðlagar sig Reykjavegi sem hefur allnokkurn umferðaþunga  og svo að brekkunni til suðurs og fléttast þar inn í landslagið um leið og það mætir götunni á forsendum hennar.

Húsið er teiknað af Steffen Iwersen hjá Enrúm arkitektum í samstarfi við Kristínu Brynju Gunarsdóttur arkitekt, Andra Snæ Magnason rithöfund,  Suðaustan átta og Arkiteó arkitekta ef ég skil rétt.

Krikaskóli er ætlaður börnum á fyrstu stigum skólagöngunnar frá um eins árs aldri til níu ára aldurs.

Myndirnar sem fylgja færslunni  lýsa byggingunni vel eru fengnar af netinu.

Strax að neðan er mynd sem sýnir vel tengsl skólabyggingarinnar við Reykjaborg sem er áberandi fjall í Mosfellsbæ. Margir arkiktektar sækja í fjarlæg kennileiti til þess að festa byggingar sínar í sessi  á þeim stað sem þær rísa. Hér í Krikaskóla sér maður þessi tengsl við Reykjaborgina.

 

 

 

 

Flokkar: Óflokkað

Fimmtudagur 27.3.2014 - 08:34 - 20 ummæli

Byggt með náttúrunni

Fjallaskáli á norsku eyjunni Vega sem var teiknaður af teiknistofunni Kolman Boye arkitektum er dæmi um hús sem byggt er með náttúrunni.

Húsið rétt snertir jörðina og spillir engri náttúru. Efnisval og litir harmonera með umhverfinu sem einkennist af veðurbörnum klöppum og lággróðri.

Allt gengur út á að gera sem minnst og ögra ekki umhverfinu.

Það er gaman og fróðlegt að skoða þessar ljósmyndir sem leiða hugann að því hvort við hér á landi byggjum nægilega vel með náttúrunni eða með menningunni. Athygli er vakin á að þarna er timbrið látið veðrast eins og klappirnar og gluggarnir sem eru án pósta og sprossa draga fjöllin og umhverfið inn í húsið.

Hér er heimasíða arkitektanna Erik Kolman Janouch and Victor Boye Julebäk

Þetta er gott hús sem á innilegt samtal við umhvefi sitt. Húsið er eins og það sé sprottið úr umhverfinu, beri virðingu fyrir því um leið og það endurspeglar nútíma byggingalist.

Neðst er svo ljósmynd af splunkunýju hóteli í Vik í Mýrdal.

Maður veltir fyrir sér hvort hótelið sé í samræmi við það  sem erlendir gestir sem hingað koma eru að sækjast eftir!

 

Vega Cottage by Kolman Boye Architects references weathered Norwegian boathouses

 

Vega Cottage by Kolman Boye Architects references weathered Norwegian boathouses

Vega Cottage by Kolman Boye Architects references weathered Norwegian boathouses

Flokkar: Óflokkað

Laugardagur 22.3.2014 - 21:58 - 11 ummæli

Léttvín í matvöruverslanir – til kaupmannsins á horninu!

 

Léttvín í matvöruverslanir?

Hvað hefur það með arkitektúr eða skipulag að gera?

Jú það hefur áhrif á verslunarvenjur fólks og verslunarvenjur fóks varðar borgarskipulagið.

Alveg eins og þegar skipulagsyfirvöld heimiluðu rekstur stórmarkaða á iðnaðarsvæðum, hafnarsvæðum og svæðum utan íbúðahverfa gerðist margt sem áhrif hafði á umhverfið.

Kaupmaðurinn á horninu hætti rekstri og einkabíllinn varð nauðsyn fyrir þá sem vilja eða þurfa að búa í þéttbýlinu. Bifreiðaumferð jókst og gangandi og hjólandi sáust varla í húsagötum. Svifryk og mengun jókst og slysum fjölgaði. Vöruverðið í stórmörkuðunum var eitthvað lægra en kostnaðurinn og fyrirhöfnin  við að nálgast vöruna óx verulega.

Við almennari eign einkabíla brustu rekstrarforsendur almenningsvagnakerfisins og götulífið varð leiðinlegra og líflausara. Persónuleg tengsl við kaupmanninn á horninu og nágranna minnkaði. Félagsleg samskipti urðu minni innan hverfiseininganna

Þetta er svona einföld skýring á afleiðingu þess að dagvöruverslanir voru fluttar út úr íbúðahverfunum og fjær notandanum.  Þetta stefnuleysi skipulagsins hefur valdið samfélaginu tjóni eins og margoft hefur verið færð rök fyrir.

Í nýju aðalskipulagi Reykjavíkur AR 2010-2030 er lögð áhersla á að snúa þessu við þannig að fólk geti sótt sínar daglegu nauðsynjar fótgangandi frá heimili sínu. Með því er markmiðið að stuðla að hagkvæmara heimilishaldi, vistvænna umhverfi, líflegra götulífi, sterkari grenndartilfinningu og ekki síst meiru félagslegu öryggi o.fl.

Í Viðskiptablaðinu í  vikunni var kynnt könnun um viðhorf Íslendinga til þss að selja létt áfengi í stórmörkuðum. Niðurstaðan var sú að um 67% aðspurðra voru því fylgjandi.  Það verður að teljast mikið.

Einn helsti galli við skoðanakannanir og líka helsti óvissuþátturinn er í orðalagi sjálfrar spurningarinnar.

Þarna var spurt: Á að leyfa sölu á léttu áfengi í stórmörkuðum?

Líklegt er að svörin hefðu verið eitthvað á annan veg ef spurt hefði verið: Á að leyfa sölu á léttu víni hjá kaupmanninum á horninu ?

Ég hefði að minnsta kosti tekið betur í þá spurningu. Ég vil ekki sjá vínsölu í stórmörkuðum. Þá get ég eins farið í ríkið. Ég vil versla við minn kaupmann. Kaupmanninn á horninu þar sem allir vita hver er hver og þar sem er beinlínis skemmtilegt að versla.

Það er líka vegna þess að ég er sammála því sem kemur fram í nýju aðalskipulagi Reykjavíkur AR 2010-2030 um að styrkja matvöruverslanir inni í íbúðahverfunum og draga úr þjónustu stórmarkaðanna á jaðarsvæðunum.

Sumir segja að þessu sé ekki hægt að snúa við. Þetta sé orðinn hlutur. Aðrir segja að ef við viljum hafa dagvöruverslanir í göngufæri þá skulum við leita leiða til þess. Ekki bara sætta okkur við orðinn hlut.

En hverjar eru leiðirnar?

Ég veit það ekki en ég tel að þær munu finnast. Sumir segja að leiðirnar séu að beita  ívilnandi aðgerðum fyrir kaupmanninn á horninu. Þar eru nefnd atriði eins og afsláttur eða niðurfelling fasteignagjalda. Aðlaga strætisvagnaumferð að kaupmanninum á horninu. Skipuleggja samgöngur á borð við gönguleiðir og hjólaleiðir m.t.t. kaupmannsins. Mynda hverfiskjarna eins og AR 2010-2030 stefnir að.

Og svo hitt að leyfa að selja léttvín í verslunum sem eru undir 300 fermetrum og staðsettar eru í hverfiskjörnum íbúðahverfanna. Þannig mun kaupmaðurinn á horninu eiga viðreisnar von.

En sennilega sýnist sitt hverjm um þetta.

Efst er mynd af hverfisverslun í vesturbæ Reykjavíkur sunnan Hringbrautar þar sem væntanlega verður hverfiskjarni í náinni framtíð og að neðan er úrklippa úr Viðskiptablaðinu.

Hér er slóð að frétt Viðskiptablaðsins:

http://www.vb.is/frettir/103292/

Vínlett

Flokkar: Óflokkað

Föstudagur 21.3.2014 - 14:07 - 7 ummæli

Mygla í útveggjum – Minnisblað.

 Ríkharður Kristjánsson verkfræðingur sendi síðunni eftirfarandi minnisblað vegna skoðunnar á einangrun útveggja.

Minnisblaðið er tekið saman af hóp sérfræðinga sem benda á að vandamál vegna myglu í útveggjum fara vaxandi hér á landi. Orsökin telur hópurinn að liggi í  frágangi á einangrun og rakavörn innan á veggjunum þar sem tekin er mjög mikil áhætta.

Minnisblað um einangrun útveggja

Þann sjöunda febrúar 2014 komu  sérfræðingar saman til fundar til þess að ræða rakaþéttingu og myglu í útveggjum

Allir þessir aðilar hafa stundað rannsóknir og/eða sérhæft sig í byggingum, eðlisfræði bygginga, einangrun, raka og myglu hver á sínu sviði.

Tilgangur fundarins var að ræða vissa aðferðafræði í uppbyggingu einangrunar á útveggi, einangraða að innan.

Það var ekki tilgangur fundarins að ræða í þetta sinn spurninguna um einangrun að innan eða utan á steinveggi heldur einungis eina lausn í einangrun útveggja að innan.

Fundarmenn vilja þó drepa á eftirfarandi. Bent hefur verið á að hljóð berist milli hæða í fjölbýlishúsum vegna eigintíðni í plasteinangrun og pússningu innan á útveggjum sem einangraðir eru að innan og aðferðin brjóti ákvæði reglugerða og staðla. Okkur er kunnugt um að reynt sé að leysa þetta með því að punktlíma einangrunina sem liggur þá ekki þétt að steinveggnum. Við viljum benda á að þetta kunni að vera óheppilegt með döggunarhættu í loftbilinu í huga.

Upp úr 1955 kom einangrunarplast á markaðinn á Íslandi og upp úr 1960 varð það ráðandi einangrunarefni innan á útveggi steyptra húsa. Einangrunin var límd á steypuna með rappmúr og síðan var pússað á plastið og málað. Lagnir voru gjarnan fræstar inn í einangrunina.

Það var sæmileg rakavörn í þessari uppbyggingu vegna plast einangrunarinnar, múrsins og málningar og væri ekki þeim mun meiri  rakamyndum inni í húsunum náði steypti útveggurinn að losa sig við rakann sem safnaðist upp í honum að vetrarlagi. Mikilvægt var einnig að þessi uppbygging var loftþétt og lagnirnar fóru almennt ekki út í kalda vegginn.

Það myndast töluverður raki inni í húsnæðinu með þessari vinnuaðferð, hún er óþrifaleg og það gat dregið úr byggingarhraða þar sem pússningin þurfti að þorna út. Skortur hefur einnig verið á múrurum og það leiddi til þróunar þar sem einangrað var í timbur- eða blikkgrind innan á útvegginn og þá alltaf ætlast til þess að sett væri rakavarnarlag innan á grindina og þar innan við lagnagrind ef setja átti lagnir í vegginn.

Þessi frágangur ætti að geta verið til friðs ef allur frágangur rakavarnarlagsins er vandaður.

Undanfarin ár virðist sem byggingaraðilar og stundum hönnuðir sleppi því að setja lagnagrind fyrir innan rakavörnina til sparnaðar og öllum lögnum komið fyrir utan við rakavörnina, stundum út í köldum útveggnum eins og mynd 1 hér á eftir sýnir.

mynd 1

 Mynd 1. Raflagnir lagðar út að og í kaldan útvegg.

Síðan er skorið gat á rakavörnina fyrir lögnum og rafmagnsdósum. Þær eru oft festar á krossviðarkubb sem festur er á kaldan útvegginn, sjá mynd 2, og myglar krossviðurinn hratt ef raki kemst að honum, sjá mynd 3.

Þessi frágangur brýtur allar góðar venjur um vandað rakavarnarlag í byggingarhluta þar sem utarlega er efnislag með meðal- eða mikla rakamótstöðu.

Rakaöryggi byggingarhlutans er minna en ella og lítið má út af bregða svo ekki komi til rakaskemmda og myglu.

 

mynd 2

Mynd 2. Göt eru skorin í rakavörn til að koma fyrir rafmagnsdósum.

mynd 3

Mynd 3. OSB-krossviður er festur á kaldan steinvegginn og hann myglar og steypan einnig

Nauðsynlegt er að rakavörn sé órofin en í þessari uppbyggingu er það mjög erfitt og komist heitt og rakt loft út í gegnum göt í rakavörninni getur rakinn dreifst um allt rýmið utan við rakavörnina þar sem steinullin er ekki loftþétt.

Þá eru rafmagnsdósir ekki loftþéttar og raki kemst í gegnum þær og síðan eftir rörunum og út í kaldan útvegginn.

Oft er þetta umtalsverður raki sem kemst að útveggnum. Við höfum séð ryðgaðar stoðir og festingar, mynd 4, jafnvel ísbrynjur innan á veggnum.

mynd 4

Mynd 4. Ryðgaður festivinkill í nýlegu húsi

Margir telja að mygla þrífist ekki á yfirborði steypu en það er alrangt eins og myndir 5 og 6 sýna. Ryk og aðrar agnir á yfirborði steypunnar eru nægilegt æti fyrir mygluna.

Myglan þarf hins vegar raka og það virðist nóg af honum í veggjum byggðum upp á þennan hátt. Þessi mygla er hins vegar ekki sýnileg fyrr en veggirnir eru opnaðir og oftast eru það heilsufarsvandamál sem fyrst vekja athygli á því að eitthvað sé ekki í lagi og það gerist í sívaxandi mæli.

mynd 5

Mynd 5. Mygla á yfirborði steypts útveggs í nýlegu húsi.

mynd 6

Mynd 6. Mygla á yfirborði steypts útveggs í nýlegu húsi.

mynd 7

 

Mynd 7. Rennblautur útveggur rétt eftir að hann var opnaður.

Plastið í rakavörninni hindrar ekki eiturefni eða rokgjörn efni myglunnar að smjúga inn í hýbýli fólks. Gró myglusveppanna geta að auki smogið inn ef rakavörnin er óþétt.

Enginn burðarþolshönnuður myndi voga sér að velja lausn sem áhöld eru um að sé í lagi. Öryggiskröfur í þeim geira eru að bilanalíkur séu einn á móti milljón eða minni. Í þeirri lausn sem lýst hefur verið hér að framan eru bilanalíkur hins vegar svo háar að sums staðar hafa allar íbúðir nýlegra húsa, þar sem útveggir hafa verið opnaðir, sýnt myglu.

Í öllum tilfellum eiga notendur bygginganna að njóta vafans og eiga að geta búist við því að ýtrustu kröfur um öryggi og hollustuhætti séu uppfylltar.

Enginn ætti að fá leyfi til að velja lausn sem sparar honum byggingarkostnað en er líkleg til að valda grunlausum íbúum heilsutjóni síðar meir.

Hver ætlar að bera ábyrgð á hugsanlegu heilsutjóni barnafjölskylda sem kunna að búa í slíku húsnæði. Kaupendur íbúðanna geta ekki séð að útveggir séu byggðir upp á þennan hátt.

Undirritaðir sérfræðingar beina þeim tilmælum til yfirvalda að fjármagni verði veitt til að kanna hvert öryggi þessarar uppbyggingar útveggja gegn myglu og raka er í raun og veru. Á meðan niðurstaða liggur ekki fyrir verði gefin út tilskipun um að þessi uppbygging sé ekki leyfð og byggingarfulltrúum verði gert að hafna úttekt á þessum frágangi þar sem hann hugsanlega brjóti gegn byggingarreglugerð sem bannar að hanna og byggja hús sem mygla

Við beinum einnig þeim tilmælum til hönnuða að hanna ekki steypt hús með þessum frágangi því við teljum þetta brot á reglugerð og við því eru ströng viðurlög, sektir, fangelsi og svipting starfsleyfis.

Reykjavík í mars 2014.

Eftirfarandi sérfræðingar komu að minnisblaði þessu:

Agnar Snædahl, verkfræðingur hjá verkfræðistofunni Verkís. Björn Marteinsson, arkitekt og verkfræðingur á Nýsköpunarmiðstöð Íslands og dósent við HÍ. Jón Guðmundsson, deildarstjóri hjá Mannvirkjastofnun. Jón Sigurjónsson, sérfræðingur á Nýsköpunarmiðstöð Íslands. Jón Viðar Guðjónsson, tæknifræðingur hjá verkfræðistofunni Eflu. Ríkharður Kristjánsson, verkfræðingur hjá verkfræðistofunni Eflu. Sylgja Dögg Sigurjónsdóttir, líffræðingur hjá Húsum og heilsu.

Flokkar: Óflokkað

Þriðjudagur 18.3.2014 - 16:05 - 24 ummæli

Hver hannaði Hörpuna?

 

Það vakti nokkra athygli meðal arkitekta að Tryggva Tryggvasonar var hvergi getið þegar tónlistarhúsið Harpa  fékk hin virtu Mies van der Rohe verðlaun á síðasta ári.

Það var mál manna að Tryggvi hafi verið lykilmaður þegar hönnunarteymið var stofnað og hafi verið virkur í allri hugmyndavinnu hússins fram að Hruni.

Svo fór að bera sífellt minna á aðkomu Tryggva að verkinu þar til að hann var hvergi nefndur þegar verðlaunin voru afhent á síðasta ári í Barcelona.

Eðlilega hefur Tryggva ekki líkað þetta og því kærði hann framkomuna til Siðanefndar Arkitektafélags Íslands sem hefur nú fellt sinn úrskurð, Tryggva í hag.

Ég geri ráð fyrir að siðanefnd hafi fellt sinn úrskurð að vandlega athuguðu máli og byggt hann á traustum gögnum.

Fyrir okkur sem erum að vasast í byggingarlist er sæmdin og höfundarrétturinn mjög mikilvægur.

Maður lætur sér nánast í léttu rúmi liggja hvort einhver hafi af manni  fé eða sé jafnvel rændur einhverjum veraldlegum verðmætum. En höfundarréttinn og sæmdina lætur maður ekki frá sér fara. Enda er það varla hægt.  Maður er alltaf höfundur verka sinna eins og maður er alltaf faðir barna sinna. Sama hvað á kann að ganga. Enda er höfundarrétturinn persónubundinn. Enginn arkitekt lætur persónulegan metnað bera siðferðinu ofurliði.

Sæmdarréttur er persónulegur réttur sem höfundur getur ekki afsalað sér. Þetta vita allir. Ég nefni bækur Halldórs Laxnes eða lög Mcartney og Lennons.  Þeir geta selt útgáfuréttinn en ekki framsellt höfundarréttinn. Höfundarréttur er annað.  Höfundarnir eiga og geta ekki  hlaupið frá verki sínu eða gefið hann öðrum. Það er heldur ekki hægt að taka höfundarréttinn frá neinum enda er hann persónubundinn eins og fyrr er getið..  Nafngreiningarréttur er annar hluti sæmdarréttarins. Ef höfundarnir eru tveir eða þrír ber að geta þeirra allra.  Annað hvort eru allir nefndir eða enginn. Annaðhvort njóta allir viðurkenningarinnar, verðlaunanna eða enginn.

Í niðurstöðu  Siðanefndar AÍ kemur fram að höfundarréttur sé mjög mikilvægur og að hann beri að virða. Siðanefndin telur að fyrrum samstarfsmaður  Tryggva, Sigurður Einarsson arkitekt,  hafi brotið gegn honum hvað varðar höfundarrétt að Hörpu og telur brotið alvarlegt í ljósi þess að hér er um mikilvæga byggingu að ræða sem hlotið hefur æðstu verðlaun veraldar í byggingalistinni.

Ef ég skil þetta rétt þá voru arkitektar sem teljast höfundar Hörpu  fjórir en ekki tveir eins og mátt hefur skilja.  Þ.e.a.s.  Tryggvi Tryggvason arkitekt, Per Teglgaard Jeppsen og Ósbjörn Jacobsen  arkitektar (Henning Larsen architects) og Sigurður Einarsson arkitekt (Batteríið arkitektar).

Spurning sem vaknar er  af hverju eru menn að taka af fólki sæmdina? Hvað vakir fyrir þeim?  Hvaða máli skipti hvort arkitektar Hörpunnar eru tveir eða þrír?  Hverjir gera svona lagað?

Ástæða er til þess að óska Tryggva Tryggvasyni til hamingju með niðurstöðuna og með Mies van der Rohe verðlaunin þó seint sé. Samkvæmt úrskurðinum hefur verið beitt blekkingum til þess að leyna aðkomu annars íslenska arkitektsins sem kom að verkinu sem höfundur þess.

Maður trúir þessu varla. En svona er þetta samt.

Efst er mynd líkani af Hörpu á vinnslustigi og að neðan er mynd sem tekin var á fundi þeirra Tryggva og professor Henning Larsen ásamt öðrum í upphafi verks.

Hér er úrtdráttur úr úrskurði siðanefndar AÍ dags. 4. mars s.l..:

„ Siðanefnd telur ljóst að Tryggvi Tryggvason hafi á þeim árum sem hönnun Hörpu stóð yfir margoft komið fram sem einn af hönnuðum hússins Hörpu ásamt Batteríinu og HLT, síðar HLA. Framangreindir aðilar hafi nefnt TT sem einn af höfundum hússins, og hans hefur margsinnis verið getið sem slíks með vitund og vitneskju framangreindra, án mótmæla eða andstöðu þeirra. Því séu samkomulög sem gerð voru milli Batterísins og HLT/HLA um að þeir tveir aðilar séu höfundar Hörpu í mótsögn við það sem áður hafi komið fram af beggja hálfu um höfunda hússins. Það sé því skýrt brot á grein 2.2. í siðareglum félagsins um að arkitekt beri að virða höfundarétt annarra. SE hafi borið að sjá til þess að réttur TT væri ekki fótum troðinn í samkomulagi við HLT/HLA, þar sem hann hafi sjálfur eða fyrirtæki hans marglýst því yfir, t.d. í auglýsingum, tölvupóstum og á heimasíðu sinni að TT væri höfundur hússins. […] Höfundaréttur er arkitektum mjög mikilvægur og hann ber að virða. Siðanefnd Arkitektafélags Íslands telur Sigurð Einarsson arkitekt FAÍ hafa brotið gegn Tryggva Tryggvasyni arkitekt FAÍ hvað varðar höfundarétt að Hörpu, tónlistar- og ráðstefnuhúsi. Í ljósi þess að hér er um svo mikilvæga byggingu að ræða, sem mikla athygli og æðstu viðurkenningu hefur hlotið, svo sem Mies van der Rohe verðlaunin 2013, telur siðanefnd brotið alvarlegt.“

 

Sjá einnig:

http://blog.dv.is/arkitektur/2012/05/14/harpa-eins-ars/

http://blog.dv.is/arkitektur/2013/04/29/harpa-fekk-mies-verdlaunin/

Ég á von á að þessu verði gerð ýtarleg skil innan tíðar á vef Arkitektafélags Íslands þar sem öll gögn málsins verði aðgengileg.

 

Austurhofn _ Group

Flokkar: Óflokkað

Föstudagur 14.3.2014 - 05:26 - 17 ummæli

Reykjavík sem hjólaborg – Breytt ásýnd

 

Víða í heiminum er verið að endurskoða ferðamáta fólks í borgum. T.a.m. er rætt um að Hamborg verði nánast laus við einkabíla eftir 20 ár. Þetta hefur veruleg áhrif á umhverfið og mikið landrými losnar. Ásýnd borgarinnar mun breytast.

Menn eru líka að velta fyrir sér betri tengingu hjólandi og gangandi milli opinna svæða og borgarhluta. Markmiðið er að gera gangandi og hjólandi ferðamáta auðveldari, eftirsóknarverðari og skemmtilegri.

Hjálagðar myndir sýna tvær hugmyndir.

Önnur  sýnir hvernig landrými sem áður var lagt undir stofnbraut í Hamborg gæti verið notað eftir brotthvarf einkabílsins eða honum er stungið ofan í jörðina. Ekki til brasks og bygginga heldur til útivistar og eflingar lýðheilsu.

Hin sýnir hvernig græn svæði eru tengd saman með breiðri grænni brú þannig að vegfarandinn verður vart var við stofnbrautina þegar hann fer yfir hana.

Svona brýr eru farnar að sjást í borgarlandslaginu víða og ekki ólíklegt að þær munu líta dagsins ljós einn daginn hér í Reykjavík sem er að breytast úr bílaborg í vistvæna borg hvað varðar ferðamáta og útivist.

Í framtíðinn væri þá hægt að ferðast um nánast alla borgina án hindrana vegna þungra umferðagatna um grænar brýr þar sem það á við og breiðar borgarbrýr þar sem það á við.

Breyttar áherslur hvað varðar ferðamáta í Reykjavík mun breyta ásýnd hennar þegar til langs tíma er litið. Fyrirhugaður vistvænn samgönguás mun verða lykilatriði í þessari þróun.

Lesa má nánar um áætlanir Hamborgar ef googlað er „Hamburg gets to become a car free city in 20 years“

 

 

 

Flokkar: Óflokkað

Miðvikudagur 12.3.2014 - 16:42 - 13 ummæli

Evrópuþingið – Babelsturn?

 

Lesandi síðunnar benti mér á að bygging Evrópuþingsins í Strassburg líktist verulega hugmyndum manna um hvernig Babelsturninn  í hinni fornu borg Babýlon við ánna Efrat í sunnanverðri Mesópóyamíu hafi litið út.

Samkvæmt Mósebók í gamla testamentinu töluðu allir íbúar jarðarinnar eitt tungumál og bjuggu allir á sömu slóðum.

Þeir vildu reisa borg og turn sem átti að ná til himins og sögðu: „Þar með verðum við frægir en tvístrumst ekki um alla jörðina.“  Guð refsaði mönnunum fyrir hroka sinn og ruglaði tungumál þeirra þannig að þeir skildu ekki lengur mál annarra og hættu við áform sín. Með því að láta þá tala ólík tungumál tvístruðust þeir og dreifðu sér um alla jörðina ef ég skil þetta rétt.

Það er gaman að skoða ævafornar hugmyndir manna um hvernig Babelsturninn hafi litið út sem sumir segja að hafi átt að vera e.k. „stairway to heaven“ og bera hann saman við  byggingu Evrópuþingsins. Líkindin eru mikil.

Babelsturninn átti að hafa verið í borginni Babýlon sem stóð við Efrat. Borgin var höfuðborg hins forna ríkis Babýloníu sem var í sunnanverðri Mesópótamíu.  Turninn hrundi fljótlega vegna þess að hann var illa byggður á slæmum grunni og úr slæmum efnum, brenndum leir sem límdur var saman með vondu lími.

Þess má geta að sumir telja að orðið babl eigi rætur að rekja til Babel. Sama á víst um það þegar sagt er og skrifað „bla, bla, bla, bla…..

Bla Bla á víst lika rætur til þessa turns sem á að hafa verið byggður nokkrum þúsund árum fyrir Kristsburð vegna þess að þá ruglaði Guð tungumálinu og fólkið dreifði sig um jörðina! (ótrúlegt)

Færslunni fylgja þekktar gamlar myndir af Babelsturninum og svo nokkrar ljósmyndir af byggingu Evrópuþingsins sem hönnuð var af AS Architecture Studio. Byggingin er um 220 þúsund fermetrar og er með fjölda sala þar sem sá stærsti er fyrir 750 þingmenn. Fyrir þingmennina eru svo til ráðstöfunnar 1133 einkaskrifstofur.

Efst er samsett mynd af Evrópuþinginu og mynd af Babelsturni frá því árið 1525 eftir Pieter Brueghel sem sjá má hér neðar á síðunni í heild sinni.

0fbdd7625ce03f362d2fbd0c00c1f61c

 

 

 Þetta gamla mannvirki er í Írak og er talið af sérfræðingum hugsanlegar rústir Babelturnsins. Rústin er um 2300 fet að ummáli og voru kallaðar „borsippa“ af grikkjum en það þýðir „tungumálaturn“

Hér að neðan er grunnmynd af Evrópuþinghúsinu. Þar má sjá stóra þingsalinn og mikinn fjölda minni sala.

plan-gd

Flokkar: Óflokkað

Höfundur

Hilmar Þór Björnsson arkitekt
Tilgangur síðunnar er að kynna arkitektúr, skipulag og staðarprýði ásamt því að stuðla að umræðu um efnið. Það sem fram kemur ber ekki að skilja sem skoðun höfundar heldur hugleiðingu sem sett er fram í þeim tilgangi að vekja lesendur til umhugsunar og skoðanaskipta. Tekið er á móti aðsendum greinum þegar það á við, sem þá eru á ábyrgð höfundar aðsends efnis.
Athugasemdir við færslur eru velkomnar. Þeir sem vilja koma skilaboðum til ábyrgðarmanns beint er bent á netfangið hilmarstofunni@gmail.com
RSS straumur: RSS straumur

Færslusafn